Snorri Óskarsson er með afstöðu sinni gagnvart samkynhneigðum að velta stærri steinum en hann gerir sér grein fyrir. Ég fæ ekki séð hvernig íslensk stjórnvöld geti í framtíðinni viðurkennt sem lögaðila söfnuði með það viðhorf til samkynhneigðra sem hann lýsir. Að samkynhneigð sé synd og laun hennar dauði. Þessi afstaða flýgur í fangið á mannréttindasáttmála Evrópu þar sem öll mismunun er bönnuð án málefnaástæðu og þó ekki sé minnst á kynhneigð í íslensku stjórnarskránni þá fellur kynhneigð hiklaust undir 65. grein stjórnarskrár og 14. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi. Að vísu er trúin vernduð þar líka í 9. grein en með skilyrðum sem ganga út frá því að gætt sé hófs.
Tvískinnungur okkar gagnvart samkynhneigðum felst í því að við tölum tungu jafnréttis sem gerum engar athugasemdir við félög þ.m.t. trúfélög sem setja samkynhneigða skör lægra en annað fólk og felum þeimn lögbundin, virðuleg hlutverk. Þessi félög halda því fram að fólk þ.mt. börn sé lifandi villa!! Það er m.a. út af þessum tvískinnungi að fordómar og fáfræði og þar með illska og hatur í garð samkynneigðra lifa góðu lífi í menningunni, ekki síst unglingamenningunni.
Forstöðumenn fjöldamargra íslenskra safnaða ættu að taka Gunnar í Krossinum sér til fyrirmyndar og hætta þessu forneskjurausi og ganga í skrokk á sjálfum sér áður en samfélag mannréttinda sér sig tilneytt að svifta þá lögbundnum hlutverkum svo sem eins og að skíra, gifta og jarða, tala milli hjóna o.s. frv.
Þú skilur þetta greinilega ekki Benni minn!
Ég lít svona á þetta: Biblían ER heilög (ég er svo mikill ofstækismaður að ég trúi að hún sé Guðs orð). En hún er skrifuð á mjög löngum tíma og inn í ólíkar aðstæður manna. Fyrirmælin um að neyta ekki ýmissar fæðu og eiga ekki samræði við fólk af sama kyni voru gefin þegar menn kunnu lítil ráð við sýkingum. Þess utan virðist Guð vilja að við helgum kynlíf okkar í sambandi við eina manneskju í heilsteyptri ást. Á ákveðnum tíma voru haldnar kynsvallsveislur merktar ákveðnum hjáguðum, jafnvel, að því er virðist með nauðgunum á fólki af báðum kynjum. Fyrirmælin um að sofa ekki hjá konu á túr eru síðan skiljanleg vegna sýkingarhættu en ekki tepruskapar. Guð vill ekki að við látum girnd ríkja yfir okkur (en leyfir það á stund samfara í sambandi sem er helgað ást) því hömlulaus girnd er fíkn og fíklar eru ekki frjálsir heldur þrælar hjáguðs fíknarinnar. Allt fyrrgreint er ritað á tíma Gamla sáttmálans þar sem mönnum var upplagt að halda REGLUR.
Nýi sáttmálinn kemur með Jesú Kristi og náðun allra afbrota gefst fyrir hann. Hann kveðst vera að uppfylla allt sem á undan er komið, en gerir það með orðunum: „Allt hjá yður sé í kærleika gjört.“ Með öðrum orðum fettir hann ekki fingur út í kynhneigð einstaklingsins, en vill, eins og áður að samfarir fari fram í ást tveggja einstaklinga sem elska hvor annan, en ekki í tómum losta fólks sem stendur á sama hvoru um annað og er því hjáguðadýrkun sem miðar ekki að neinu öðru en að eyðileggja einstaklinginn.
Snorri Óskarsson hefur því alveg rétt fyrir sér varðandi boðskpainn í Gamla sáttmálanum – en láist að taka Nýja sáttmálann með í dæmið. Hvað varðar hömrun Páls postula á „viðurstyggð kynvillunnar“ held ég að hann sé enn að vísa í áðurefndar hjáguðaorgíur – en hann virðist horfa framhá ást samkynhneigðra sem ELSKA hvor annan. „ALLT HJÁ YKKUR SÉ í KÆRLIEKA GJÖRT. – Amen.