Snorri Óskarsson er með afstöðu sinni gagnvart samkynhneigðum að velta stærri steinum en hann gerir sér grein fyrir. Ég fæ ekki séð hvernig íslensk stjórnvöld geti í framtíðinni viðurkennt sem lögaðila söfnuði með það viðhorf til samkynhneigðra sem hann lýsir. Að samkynhneigð sé synd og laun hennar dauði. Þessi afstaða flýgur í fangið á mannréttindasáttmála Evrópu þar sem öll mismunun er bönnuð án málefnaástæðu og þó ekki sé minnst á kynhneigð í íslensku stjórnarskránni þá fellur kynhneigð hiklaust undir 65. grein stjórnarskrár og 14. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi. Að vísu er trúin vernduð þar líka í 9. grein en með skilyrðum sem ganga út frá því að gætt sé hófs.
Tvískinnungur okkar gagnvart samkynhneigðum felst í því að við tölum tungu jafnréttis sem gerum engar athugasemdir við félög þ.m.t. trúfélög sem setja samkynhneigða skör lægra en annað fólk og felum þeimn lögbundin, virðuleg hlutverk. Þessi félög halda því fram að fólk þ.mt. börn sé lifandi villa!! Það er m.a. út af þessum tvískinnungi að fordómar og fáfræði og þar með illska og hatur í garð samkynneigðra lifa góðu lífi í menningunni, ekki síst unglingamenningunni.
Forstöðumenn fjöldamargra íslenskra safnaða ættu að taka Gunnar í Krossinum sér til fyrirmyndar og hætta þessu forneskjurausi og ganga í skrokk á sjálfum sér áður en samfélag mannréttinda sér sig tilneytt að svifta þá lögbundnum hlutverkum svo sem eins og að skíra, gifta og jarða, tala milli hjóna o.s. frv.
Það er sjálfsagt að ganga lengra. Prestar og aðrir vígslumenn sem neita að gifta samkynhneigða eiga ekki að halda þeim réttindum sínum. Þetta á meðal annars við um nokkra þjóðkirkjupresta og biskupsframbjóðendur. Ef þeir þykjast geta valið hverja þeir gifta, hvort sem það er á forsendum kynþáttar, kynhneigðar eða hvers sem er á samfélagið ekki að framselja þetta vald til þeirra.
Ég hef viðrað þessa skoðun enda eru þeir fostöðumenn safnaða.
Ég velti fyrir mér hvernig fólk myndi bregðast við ef biskupsframbjóðandi lýsti því yfir í útvarpi að hann myndi neita að gifta fráskilda eða fólk af ólíkum kynþáttum. Ég vona að allt yrði vitlaust, en enginn virðist hafa kippt sér upp við það að a.m.k. einn frambjóðandi lýsti því yfir á Rás 2 um daginn að hann vísaði samkynhneigðum pörum til annarra presta ef þeir leituðu til hans eftir hjónavígslu.
Já, bara ganga alla leið og skoða líka söfnuði sem setja konur skör lægra en karlmenn. – Ef að söfnuðir vilja hafa bæði konur og karlmenn – þá ætti að gilda jafnrétti þar. Kaþólska kirkjan á Íslandi samþykkir ekki konur sem presta, hvað er það annað en að viðurkenna ekki konur sem jafngilda einstaklinga?
Misrétti á ekki að þrífast í skjóli trúarsannfæringar. –