Kolbrún Bergþórsdóttir, Davíð Oddsson (leiðarahöfundur 16/2), Árni Johnsen og jafnvel Eygló Harðardóttir halda fram þeirri bernsku afstöðu til tjáningafrelsis að í skjóli þess megi hrauna yfir viðkvæma minnihlutahópa á grundvelli uppruna þeirra, kynferðis eða kynhneigðar, trúar eða annars slíks. Menn hafi t.d. frelsi til þess að halda því fram á opinberum vettvangi að líf tiltekinna minnihlutahópa sé ekkert annað en villa, mistök, synd og sóðaskapur. Líka líf unglingsins sem er uppgötva kynhneigð sína? Þau halda því fram að menn hafi einhvers konar frelsi til að leggjast þannig á aðra og útsetja þá þannig fyrir fyrlitningu og ofbeldi. Þetta sjónarmið afgreiddu menn sem ógilt með mannréttindasáttmálum um miðbik síðustu aldar. Þá tóku menn höndum saman um það að ekki mætti hrauna yfir fólk eða hópa á grundvelli þess sem manneskjunni væri áskapað. Tjáningafrelsi, er hugmyndin, snýst upp í andhverfu sínu og varnar öðrum máls, ef það er notað til þess að útbreiða þá hugmynd að einn hópur í samfélaginu sé öðrum óæðri. Það er kallaður hatursáróður og stjórnarskrár, lög og mannréttindasáttmálar vernda minnihlutahópa gegn slíku og það er mikilvægur þáttur í því að þeir hópar hafi rödd, tjáningafrelsi. Um þetta sameinast menn í kjölfar þess að vissir minnihlutahópar töldust allt að því réttdræpir eftir aldalanga einföldun á því tjáningarfrelsi hvers mynd fólk uppá Íslandi (fjarri heimsins glaumi) er nú að tjá.
Á sama hátt og frelsi til að takast á felur ekki sér frelsi til að sparka í liggjandi mann felur tjáningafrelsi ekki í sér að ráðast megi að viðkvæmum minnihlutahópum,vega að manngildi þeirra. Við erum komin þetta langt og eigum að verja ÞETTA tjáningarfrelsi, ekki tjáningafrelsi ofbeldisins, böðulsins.
En leiðir þetta ekki til fasisma spyr einhver? Hreint ekki. Línan er dregin í sandinn. Um er að ræða ákveðin siðleg mörk vel formuð í mannréttindasáttmálum. Óháðir dómstólar skera úr. Þetta er eitt helsta bakbein siðaðs samfélags sem ætlar sér ekki að verða fasisma að bráð.
Er Baldur Kristjánsson nú orðinn kennivaldið sem hefur síðasta orðið um hvað tjáningarfrelsið snýst? Það held ég ekki.