Skýrsla ECRI um kynþáttafordóma á Íslandi er birt í dag. Þrjú megintilmæli ECRI eru þau að úthluta skuli samfélögum múslima landi og veita þeim byggingarleyfi fyrir moskur svo að þeir fái notið réttar síns skv. 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Þá eru íslensk stjórnvöld hvött til þess að að ljúka smíði lagafrumvarps um mismunun og gagnrýnd fyrir það að staðfesta ekki samningsviðauka nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu en sá viðauki bannar alla mismunun þ.m.t. launamisrétti milli kynja. Þá er mælt fyrir að sett skuli í hegningarlög ákvæði sem mæla sérstaklega fyrir um það að meta beri það til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki broti. ECRI kemur aftur eftir tvö ár og athugar hvort íslensk stjórnvöld hafi orðið við þessum tilmælum.
Margt fleirra athyglisvert er í skýrslunni sem ég mun týna upp á næstu dögum enda eitt af skilgreindum hlutverkum mínum sem sérfræðings í ECRI að vekja athygli á tilmælum nefndarinnar.
Og komast Tyrkir upp með það Baldur? Hvernig beitir ECRI sér gagnvart tyrkneskum stjórnvöldum varðandi trúfrelsi? Kristnir hafa í gegnum árin verið myrtir í Tyrklandi (og í fleiri múslimalöndum) vegna trúar sinnar. Leggur ECRI sem sagt Ísland og Tyrkland að jöfnu vað mannréttindi varðar?
Getur þú nú ekki kynnt þessu staðlaða ECRI liði gömul og góð orð okkar ágæta Þorgeirs Ljósvetningagoða?
Og sagt sem svo Baldur, að hér hafi alla tíð hver mátt blóta á laun sem það vildi og öðrum að meinalausu, en að helst viljum við ein lög og einn sið hafa svona í megindráttum, eða ætlar nú þjóðkirkjunnar maður að leggja sjálfan sig alveg niður? Munum hin vísu orð „When in Rome do as Romans do.“ Og ekki dytti okkur í hug að vaða um sem að íslenskum hætti um Mekka og Medína og krefjast þar Þorláksbúðarkirkju, heldur virtum þeirra menningu. Hví skyldu aðrir þá ekki geta borið tilhlýðilega virðingu fyrir okkar, þó blótuðu á laun.
Hvers vegna má ekki virða það, að sinn er siður í landi hverju.
Góður þessi Gapandiundrandi –– og Guðmundur St. Ragnarsson líka.
Sitja má Baldur í þungum þönkum
þrálátt að hugsa um trúna hreina.
Umburðarlyndur hann eys úr tönkum
alvizku sinnar (það mátti þó reyna!),
innleiða vill svo islams sið
í Evrópu’–––en múslimir glotta við.
Mikið væri nú óskandi að allur þorri landsmanna hefði meiri metnað til þess að haga sér eins og sómasamlegar manneskjur en svo, að vilja þá aðeins gera það ef „hinir“ gera það líka „heima hjá sér“. Það hvort Sádí-Arabar (eða Tyrkir eða hvaða önnur þjóð sem mönnum dettur í hug) leyfa kirkjubyggingar heima hjá sér eður ei er sennilega versti mælikvarði sem hægt er að beita á réttmæti þess að Íslendingar eigi að úthluta múslímum sem hér búa, deila með okkur kjörum og leggja sitt til samfélagsins, að reisa sér mosku. Rökleg tengsl á milli þessara tveggja staðreynda – þess að í S-Arabíu er kristnum söfnuðum ekki leyft að reisa sér kirkjur og þess að hér á Íslandi hafa múslímar árum saman beðið þess af stakri þolinmæði að borgaryfirvöld hætti að mismuna þeim sem trúarhóp – eru nákvæmlega engin. Eða ættu amk. ekki að vera nein.