Þar sem of fáir sjá hið sögufræga og vel skrifaða blað Morgunblaðið set ég grein sem ég fékk birta þar einnig hér.
,,Innan Evrópuráðsins er nefnd ECRI (European Commision against Racism and Intolerance) sem aðildarrríki Evrópuráðsins settu á laggirnar fyrir miðjan tíunda áratug síðustu aldar í þeim tilgangi að halda vakandi baráttunni gegn kynþáttafordómum Nefndin byggir stefnumótun sína á Mannréttindasáttmála Evrópu, öðrum mannréttindasáttmálum og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem aftur vitna stöðugt oftar í skýrslur ECRI. Allar álitsgerðir ECRI fara um ráðherranefnd Evrópuráðsins, hennar æðstu stofnu. Þar sitja utanríkisráðherrar landa eða staðgenglar þeirra. Í okkar tilfelli Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra í París.
Starf ECRI hefur einkum farið í þann farveg að gera úttekt stöðu mála í einstökum ríkjum. Þessar úttektir eru sambland af gagnaúrvinnslu, yfirferð á lögum og reglum og viðtölum við stjórnvöld og ekki síður viðtölum við mannréttindafólk þ.e. fólk sem sinnir mannréttindum óháð ríkisvaldi. Þannig komast stjórnvöld síður upp með fagurgala um ástand mála, löggjöf og framkvæmd laga.
Að sjálfsögðu hefur byggst upp innan nefndarinnar þekking á því hvað hefurf reynst vel. Reynt er að kynna fyrir ríkisstjórnum úrræði sem reynst hafa vel í öðrum ríkjum. Fjórða skýrslan um Ísland kom út í vikunni. Í henni má lesa hvað stjórnvöld sögðu um ástand mála og einnegin hvað mannréttindafólk hafði að segja. Thomas Hammerberg mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins var hér á ferð nýlega og hvatti Íslendinga að setja í lög bann við mismunun. Í skýrslu ECRI lesum við að slík löggjöf sé í undirbúningi hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá kemur fram í skýrslunni að lagafrumvarp um aðlögun innflytjenda sé í smíðum. Einnig að unnið sé að því að bæta reglur um hælisleitendur. Viss atriði valda ECRI þó áhyggjum: Ísland hefur enn ekki komið á fót sérhæfðu embætti sem hefur það hlutverk að sporna gegn kynþáttafordómum og áhyggjur eru af staðsetningu Fjölmenningarseturs en það er á Ísafirði Áhyggjur eru af því að fjölmiðlar tilgreini iðulega ríkisfang einstaklinga sem grunaðir eru um afbrot enda þótt það hafi enga þýðingu varðandi málið. Gagnrýnt er að á einni sjónvarpsstöð og á nokkrum vefsíðum tíðkist að hafa fjandsamleg ummæli um múslima. Vakin er athygli á því að múslimar hafi ekki fengið leyfi til að byggja mosku þó að umsókn um það hafi verið til meðferðar í yfir tólf ár.
Þrjú megin tilmæli ECRI eru: ECRI hvetur stjórnvöld eindregið til að ljúka gerð frumvarps til laga um bann við mismunun. Þá hvetur ECRI stjórnvöld eindregið til þess að veita samfélagi múslima leyfi til að byggja moskur svo þeir geti iðkað trú sína eins og þeir hafi rétt til samkvæmt 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu og ECRI ítrekar fyrri tilmæli sín um að ákvæði verði tekið upp í hegningarlög sem mæli sérstaklega fyrir um að meta beri það til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki broti. Og skilgreiningin á Kynþáttafordómum: ,,kynþátta” fordómar eru það viððhorf að ,,kynþáttur”, hörundslitur, tungumál, trú, þjóðerni, ríkisfang eða uppruni réttlæti fyrirlitningu á manneskju eða hópum.” Og að gæsalappirnar eru vegna þess að óglöggt er hvort rétt sé að greina menn upp í kynþætti en félagslega og sálfræðilega og menningarlega eru þeir til staðar.“
Ok, Baldur.
Og hvað ætlið þið í ECRI að gera til að sporna við gyðingaofsóknum nútímans?
Þetta hlýtur að vera erfitt verk hjá ykkur sökum „Berörungsangst“ sem ríki gagnvart múslímum í Evrópu, en það má ekki anda á þá öðruvísi en að rétttrúnaðarkór vinstrisinna fer að hrópa, rasismi, rasismi!
Sammála flestu frá ykkur Uni og Hannes. Ég er reyndar þeirrar skoðunnar að svona stofnanir séu hreinlega stórhættulegar. Þetta er bara einn liðurinn í að ráðast gegn tjáningafrelsinu. Hver heilvita maður ætti að sjá hvert stefnir. Lengi vel var bannað að ljúga uppá fólk, sem er náttúrulega rétt, en nú er bannað að, viðra skoðanir. Það á greinilega ekki að treysta hinum almenna borgara til að vega og meta sjálft hvað sé rétt eða rangt. Hér eftir eigum við að láta stofnunum það eftir. Já, og bara þegja.
Hjartanlega sammála þér, Benni.
Það vil ég segja um marga pistla þína og hugleiðingar að þær eru mjög svo skynsamar og er ég þér yfirleitt sammála, en fyrst og fremst skrifar þú málefnalega og með hófsemi.
Lýsing þín á árangri ECRI styður í raun hvoru tveggja, því sem þú heldur fram og því sem ég held fram því ég sé nú að við erum að tala framhjá hvor öðrum.
Með tilliti til starfsemi ECRI er sjálfsagt að telja það upp sem þú nefnir nefndinni til árangurs, rétt eins og nákvæmlega sömu atriði gætu talist LÍÚ til árangurs. Heilt yfir litið hefur ECRI náð árangri sem þrýstihópur.
Gott og vel, en árangur við að minnka fordóma, rasisma eða mismunun í raunveruleikanum vis-à-vis í lagasetningum, samningum eða innleiðingu sáttmála er ekki sami hluturinn.
Ég tók það sem svo að tilgangur ECRI væri að berjast gegn rasisma, fordóma og mismunun í raunveruleikanum – en svo er auðvitað ekki, heldur er tilgangur ECRI að þrýsta á stjórnvöld landa Evrópuráðsins að innleiða lög sem ættu í fullkomnum heimi að koma í veg fyrir áðurnefnda mismunun, rasisma og fordóma.
Frá mínum bæjardyrum séð er slíkt velmeinandi en samt gegn minni sannfæringu að hugsanir og tjáning eigi að setja þröngar lagalegar skorður ef einhverjar og einnig gegn þeirri sannfæringu minni að þrýstihópar skuli vera utan yfirvalda eða stofnana á þeirra böndum.
Enn fremur kemur það ekkert sérstaklega vel út fyrir þessi annars sjálfsagt ágætu samtök ECRI að koma með svona innilega vafasöm tilmæli.
1. Hvetja stjórnvöld til að ljúka frmv. til laga gegn mismunun, þegar nú þegar eru ágæt lög gegn mismunun og eru þau stjórnarskrárbundin og undir MSE og þar með MDE. Einnig er enn lengra farið í þeim efnum í tillögu Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá Íslands. Maður hlýtur því að efast um að ECRI sé sérstaklega með á nótunum hvað varðar stöðu laga gegn mismunun á Íslandi í dag.
2. Ekkert stendur í vegi fyrir að samfélag múslima byggi sína mosku nema þeirra eigið framtak, enda hefur það hlotið leyfi frá Rvk. til byggingar á slíku húsi. Ekki ætlast ECRI til þess að hið opinbera fjármagni húsið líka? Aftur efast maður um að ECRI sé alveg með á nótunum.
3. Refsihækkun vegna brota sem eiga sér stað vegna þess að kynþáttafordómar liggi að baki eru ekki á nokkurn hátt verri en brot af sama tagi þar sem aðrar annarlegar kenndir liggja að baki. Nauðgun er tam. ekki hætishót verri þó einhverjir rasistar nauðgi hörundsdökkri konu og hvorki gerir það morð eða líkamsárásir forkastanlegri þó fordómar hafi haft áhrif á gjörninginn.
Á meðan á Íslandi og víðar hefur tíðkast sú ágæta mannréttindaregla að ástæður glæps þegar refsing er ákvörðuð geti verið til mildunar, og þannig verið ívilnandi, þá gengur það beinlínis gegn hefð og lögum þeim sem við höfum hingað til þekkst að hugarfar geti leitt til refsiþyngingar, og verið þannig íþyngjandi.
Allar íþyngjandi ákvarðanir yfirvalda verða og skulu vera túlkaðar sérstaklega þröngt og á hvert einasta vafaatriði að vera til ívilnunar fyrir þann einstakling sem ríkið saksækir.
Það er að mínu mati ekki aðeins óhugsandi að taka til greina tilmæli ECRI í þessum þriðja lið, heldur beinlínis vanvirðing við mannréttindi að leggja hann til og móðgandi fyrir íslenskt réttarríki.
Enn fremur eru hinar athugasemdirnar sem ECRI mælir um og fellur undir „áhyggjur“ flestar hverjar fullkomlega ómálefnalegar.
A. Ekkert sérhæft embætti til að sporna gegn kynþáttafordómum – án þess að skilgreina hvernig embætti sporni gegn fordómum, en erfitt er að sjá hvernig fleiri embætti geti leiðrétt ranghugsun og gert fólki að hugsa „rétt“.
B. Að fjölmenningarsetur sé á Ísafirði. Það virðist ekki vera fyrir neðan ECRI að mismuna fólki eftir búsetu. Annars eru fyrsta flokks samgöngur milli Ísafjarðar og höfuðborgarinnar og samskiptamöguleikar með afbragði. Er raunveruleg málefnaleg gagnrýni á staðsetningu fjölmenningarseturs eða finnst ECRI bara púkó að hafa svona stofnun á landsbyggðinni? Veit ECRI að Ísland sé sterkt í innviðum, menningu, menntun og samskiptum jafnt innan höfuðborgar sem utan?
C. Tilgreint sé um upprunaland afbrotamanna í fjölmiðlum. Vill ECRI að yfirvöld ritskoði fjölmiðla til að passa upp á að þeir séu ávallt sem málefnalegastir? Vill ECRI ritskoða Akureyrsk fréttablöð þegar tekið er fram að afbrotamaðurinn var Reykjvíkingur, eins og ég þekki vel úr minni heimabyggð. Þarna hegðar ECRI sér eins og hýsterískt meðvirkur einstaklingur sem löngu er búinn að missa alla tilfinningu fyrir samhengi á aðra hönd og frelsis á hina til að fá sínum hjartans málefnum framfylgt.
D. Talað illa um múslima á ákv. sjónvarpsstöð og á nokkrum vefsíðum. Það tíðkast hér og hefur tíðkast lengi að ákveðnir aðilar, hvort sem er í prenti eða á bloggsíðum sínum haldi út mjög rætnum ræðum gegn hinum ýmsu trúarbrögðum eða trúarbrögðum almennt (sjá sértrúarsöfnuðinn Vantrú), en ekki verður séð að menn tali eitthvað verr um Katólikka, Krossinn eða Betel en þeir gera um múhammeðstrúarmenn. Fyrirlitning og fordómar gegn fyrstnefndum deildum Kristinnar kirkju er gagnrýnislaus hér á landi og hefur verið lengi. Hvað kemur fram í skýrslu ECRI um þá hópa? Hvað með Gyðinga á Íslandi. Nú hefur komið fram að þeir beinlínis þora ekki að byggja synagógu vegna fordóma í þeirra garð á Íslandi.
Þannig er erfitt að taka svona þrýstihóp (lobbýista) með opnum örmum, enda virðist hann helst vera til að þrýsta á aukna löggjöf í gælumálefnum ECRI og sér ekkert að því að takmarka frelsi, jafnrétti og mannréttindi á sumum sviðum til að leiða þau í lög á öðrum sviðum.
Því finnst mér ömurlegt til þess að hugsa að þetta apparat sé í boði opinbers fjármagns, að mark sé tekið á því á þeim forsendum og að hvergi sé hægt að sjá mælanlegan raunverulegan árangur hjá nokkrum opinberum aðila og eða þrýstihópi til að hafa áhrif á raunverulegar skoðanir og eða hugsanir fólks almennt.
Eftir áratugavinnu, bein ítök og áberandi árangur (eins og þú mælir hann) þá hefur mesta þrýstihóp Íslands, LÍÚ ekki tekist að sannfæra típrósent af þjóðinni um annað en að þeir séu öfgafullir eiginhagsmunapotarar sem svífist einskis til að koma ár sinni fyrir borð – og gera það á forsendum „skynsamrar“ fiskveiðistefnu.
Það sama gildir um ECRI. Þú mátt nefna mig nytsaman sakleysingja líði þér eitthvað betur með það, en í þessu tilfelli er ég þér eins ósammála og hægt er. ECRI er til óþurftar.
Ég sé það hins vegar að næsta innleggi þínu um aðlögun að ESB er ég þér hjartanlega sammála. Svona er þetta bara, maður getur ekki verið sammála öllum um allt. Bið þig vel að lifa og Guð að blessa.