Þegar ég lít til baka virðist mér að Viðreisnarstjórnin (1959-1971) hafi verið ein besta ríkisstjórn lýðvelisins. Hún valdi samningaleið til þess að binda enda á deilur við Breta. Hún opnaði landið með þátttöku í Fríverslunarsamtökum Evrópu. Stjórnarandstaðan Framsókn og Alþýðubandalag börðust með oddi og egg gegn opnun landsins og friðsamlegum lausnum á deilumálum. Sennilega hefur Bjarni heitinn Benediktsson verið bæði framsýnn og vitur og ekki má gleyma Gylfa Þ. Gíslasyni og öðrum Alþýðuflokksmönnum en Kratar hafa ávallt verið fylgjandi frjálsræði og friðsemd.
þá finnst mér ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með þeim bestu einfaldlega vegna þess að hún afgreiddi okkur hratt og vel upp úr hruninu. Hún minnir óneitanlega á Viðreisn en Sjálfstæðisflokkur hins nýja Bjarna Benediktssonar hefur tekið sér sviplíka stöðu og Framsókn og Alþýðubandalagið höfðu á sjöunda áratugnum. Í því hlutverki er Bjarni þó langt í frá sannfærandi.