Þriðjudagur 21.2.2012 - 09:43 - 21 ummæli

ECRI um moskur og mismunun!

Skýrsla ECRI um kynþáttafordóma á Íslandi er birt í dag. Þrjú megintilmæli ECRI eru þau að úthluta skuli samfélögum múslima landi og veita þeim byggingarleyfi fyrir moskur svo að þeir fái notið réttar síns skv. 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu.   Þá eru íslensk stjórnvöld hvött til þess að að ljúka smíði lagafrumvarps um mismunun og gagnrýnd fyrir það að staðfesta ekki samningsviðauka nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu en sá viðauki bannar alla  mismunun þ.m.t. launamisrétti milli kynja.  Þá er mælt fyrir að sett skuli í hegningarlög ákvæði sem mæla sérstaklega fyrir um það að meta beri það til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki broti.  ECRI kemur aftur eftir tvö ár og athugar hvort íslensk stjórnvöld hafi orðið við þessum tilmælum.

Margt fleirra athyglisvert er í skýrslunni sem ég mun týna upp á næstu dögum enda eitt af skilgreindum hlutverkum mínum sem sérfræðings í ECRI að vekja athygli á tilmælum nefndarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.2.2012 - 11:39 - 25 ummæli

Einar og Eva vekja upp höfuðsnilling!

Einar Steingrímsson og Eva Hauksdóttir hafa beint til mín og nokkurra annarra presta spurningunni hvers vegna við afneitum ekki því að Biblían sé heilög og tökum upp eitthvað annað eins Mannrêttindayfirlýsingu SÞ. Góð spurning atarna og svaraverð og er um leið spurning um eðli trúar og lögmál í fêlögum manna.  Þetta svar er aðeins fyllra en svarið sem ég sendi þeim og er að verða ágætur pistll, breytist næst í grein og endar sjálfsagt sem bók sem verður kennd um víða veröld.  Og þá munu menn segja við Einar og Evu: það var gott hjá ykkur að spyrja séra Baldur og vekja þar með upp þennan höfuðsnilling.

Ástæðan fyrir því að prestur reynir ekki að fá kirkju sína til að afneita biblíunni og taka upp eitthvað nýtískulegra eru auðvitað margar. Hann hefur fyrir það fyrsta undigengist vígslubréf þar sem honum er gert að:
………..boða Guðs orð rétt og hreint samkvæmt heilagri ritningu og í anda vorrar evangelísk-lútersku kirkju……….
Ritningin er sem sagt e.k. stjórnarskrá ósnertanleg, óumbreytanleg sem sagt heilög.  Sá sem vildi kasta henni og taka til dæmis upp Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna í staðinn yrði áhrifalaus og bent á dyrnar með ýmsum hætti þó á okkar tíð yrði hann hvorki hengdur né skotinn.
Hins vegar túlkum við burtu allt sem ekki fellur sæmilega að samtímaviðhorfum eftir viðurkenndum túlkunarhefðum  sem hafa þróast í aldanna rás og við getum meira að segja sett allt innihaldið upp á svið tákna og dæmisagna.  Í  okkar evangelísku trúarhefð væri sá helst negldur upp sem afneitaði upprisu Jesú Krists þó að í raunveruleikanum sé hún líka túlkuð táknrænt af mörgum í okkar frjálslyndu hefð.
Kristin kirrkja er stofnanabundin hefð, saga og allt er byggt í kringum ,,bókina“. Lúther áréttaði gildi bókarinnar. Þaðan kæmi boðskapur trúarinnar og atferli  trúaríkunarinnar en ekki frá stofnunni sem kemur sér vitaskuld alltaf upp trúarvafningum sem ganga í allar áttir og öðlast löggildingu hefðarinnar. 
Lútherismi  lyftir upp bókinni ef svo má segja. Boðskapinn finnur hinn kristni maður með því að pæla í biblíunni með öðrum í söfnuðinum item prestinum en ekki með því að hlýða útleggingu kirkjulegs yfirvalds. Aðferð Lúthers er því lýðræðisleg en leiðir af sér ýmiskonar vitleysu eins og lýðræði gerir alltaf.
(í okkar sið er því biskupsembættið áhrifaembætti  en ekki yfirráðaembætti og er þar kannski komin skýringin á því af hverju það virkar alls ekki í nútímanum).
Hins vegar eru hugmyndir um að láta Gamla Testamentið að sigla sinn sjó alkunnar enda er það trúarbók gyðinga og kristnir áttu kannski ekkert með það að taka það inn og hefnir sín kannski því sífellt erfiðara verður að telja nýjum kynslóðum trú um að þær eigi eitthvað erindi við það.
Nú: Ég álít að með því að loka biblíunni (kirkjuþing á 3ja eða 4. árhundraði) hafi kennilýður stuðlað að endalokum kristni. Það að fer ekki hjá því að bókin verður ekki auðveldari í matreiðslu eftir því sem tímar líða. Miklu betra hefð i verið að biblian væri opið bókasafn þar sem það besta á hverri tíð væri tekið inn og jafnvel misjafnt eftir löndum.  Í Biblíunni á  Íslandi væru til dæmis falleg trúarljóð eftir Sigurbjörn biskup og við værum að ræða þessi árin hvort að við ættum að fella passíusálmana  út vegna gyðingafordóma. Við værum löngu búin að losa okkur við Opinberunabókina og grisja Mósebækur og Konungabækur.
Vitlaust: Nei. 
Ný hugsun: Já.  Það var dómadagsvitleysa að loka biblíunni og mjög ójesúlegt því að ævistarf hans fólst í því að berja á því sem hafði verið lokað og harðlæst árhundruðum saman.
Nóg í bili.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.2.2012 - 09:49 - 45 ummæli

Tjáningarfrelsi böðulsins!

Kolbrún Bergþórsdóttir, Davíð Oddsson (leiðarahöfundur 16/2), Árni Johnsen og jafnvel Eygló Harðardóttir halda fram þeirri bernsku afstöðu til tjáningafrelsis að í skjóli þess megi hrauna yfir viðkvæma minnihlutahópa á grundvelli  uppruna þeirra, kynferðis eða kynhneigðar, trúar eða annars slíks. Menn hafi t.d. frelsi til þess að halda því fram á opinberum vettvangi að líf tiltekinna minnihlutahópa sé ekkert annað en villa, mistök, synd og sóðaskapur. Líka líf unglingsins sem er uppgötva kynhneigð sína? Þau halda því fram að menn hafi einhvers konar frelsi til að leggjast þannig á aðra og útsetja þá þannig fyrir fyrlitningu og ofbeldi.  Þetta sjónarmið afgreiddu menn sem ógilt með mannréttindasáttmálum um miðbik síðustu aldar.  Þá tóku menn höndum saman um það að ekki mætti hrauna yfir fólk eða hópa á grundvelli þess sem manneskjunni væri áskapað. Tjáningafrelsi, er hugmyndin,  snýst upp í andhverfu sínu og varnar öðrum máls, ef það er notað til þess að útbreiða þá hugmynd að einn hópur í samfélaginu sé öðrum óæðri.  Það er kallaður hatursáróður og stjórnarskrár, lög og mannréttindasáttmálar vernda minnihlutahópa gegn slíku og það er mikilvægur þáttur í því að þeir hópar hafi rödd, tjáningafrelsi. Um þetta sameinast menn í kjölfar þess að vissir minnihlutahópar töldust allt að því réttdræpir eftir aldalanga einföldun á því tjáningarfrelsi hvers mynd fólk uppá Íslandi (fjarri heimsins glaumi) er nú að tjá.

Á sama hátt og frelsi til að takast á felur ekki sér frelsi til að sparka í liggjandi mann felur tjáningafrelsi ekki í sér að ráðast megi að viðkvæmum minnihlutahópum,vega að manngildi þeirra.  Við erum komin þetta langt og eigum að verja ÞETTA tjáningarfrelsi, ekki tjáningafrelsi ofbeldisins, böðulsins.

En leiðir þetta ekki til fasisma spyr einhver? Hreint ekki. Línan er dregin í sandinn. Um er að ræða ákveðin siðleg mörk vel formuð í mannréttindasáttmálum.  Óháðir dómstólar skera úr. Þetta er eitt helsta bakbein siðaðs samfélags sem ætlar sér ekki að verða fasisma að bráð.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.2.2012 - 19:26 - 38 ummæli

Tvískinnungur okkar gagnvart samkynhneigðum!

Snorri Óskarsson  er með afstöðu sinni gagnvart samkynhneigðum að velta stærri steinum en hann gerir sér grein fyrir.  Ég fæ ekki séð hvernig íslensk stjórnvöld geti í framtíðinni viðurkennt  sem lögaðila söfnuði  með það  viðhorf til samkynhneigðra sem hann lýsir.  Að samkynhneigð sé synd og laun hennar dauði.  Þessi afstaða flýgur í fangið á mannréttindasáttmála Evrópu þar sem öll mismunun er bönnuð án málefnaástæðu og þó ekki sé minnst á kynhneigð í íslensku stjórnarskránni þá fellur kynhneigð hiklaust undir 65. grein stjórnarskrár og 14. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi.  Að vísu er trúin vernduð þar líka í 9. grein en með skilyrðum sem ganga út frá því að gætt sé hófs.

Tvískinnungur okkar gagnvart samkynhneigðum felst í því að við tölum tungu jafnréttis sem gerum engar athugasemdir við félög þ.m.t. trúfélög sem setja samkynhneigða skör lægra en annað fólk og felum þeimn lögbundin, virðuleg hlutverk.  Þessi félög halda því fram að  fólk þ.mt. börn sé lifandi villa!!  Það er m.a. út af þessum tvískinnungi að fordómar og fáfræði og þar með illska og hatur í garð samkynneigðra lifa góðu lífi í menningunni, ekki síst unglingamenningunni.

Forstöðumenn fjöldamargra íslenskra safnaða ættu að taka Gunnar í Krossinum sér til fyrirmyndar og hætta þessu forneskjurausi  og ganga í skrokk á sjálfum sér áður en samfélag mannréttinda sér sig tilneytt að svifta þá lögbundnum hlutverkum svo sem eins og að skíra, gifta og jarða, tala milli hjóna o.s. frv.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.2.2012 - 09:00 - 2 ummæli

Minnisvarði um nýfrjálshyggju og hrun!

Fimmtán til tuttugu íbúðir, flestar fokheldar standa í þorlákshöfn auðar og rýrna að verðgildi dag frá degi. Þessar íbúðir, minnisvarði um nýfrjálshyggju og hrun, eru sennilega í eigu íbúðarlánasjóðs og banka. Á þetta bara að vera svona?  Er ekki lengur hægt að þróa mál áfram með hagsmuni fólks og byggðar í huga. Um víða veröld er húsnæðislaust fólk. Hvers vegna taka bæjaryfirvöld  ekki íbúðirnar yfir, með góðu eða illu, eigendur hljóta að hafa brotið alla fresti og bjóða þær út á mjög niðursettu verði fólki  sem vill klára þær og búa í þeim.  Við gætum m.a. sótt flóttamenn útí heim, boðið fólki sem  nú býr við ömurlegar aðstæður upp á nýja framtíð, nýtt líf. Slíkt myndi auka enn fjölbreytni fjölmenningarsamfélagsins í Þorlákshöfn. Og okkur veitir ekkert af innspýtingu og svo er um íslenskt  samfélag allt.

Hugsum út fyrir rammann.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.2.2012 - 00:35 - 21 ummæli

Í tilefni (bókstafs?) Biblíudags 12. Febrúar!

 

Það var eins gott að Jesú kom fyrir daga Gutenbergs áður en bækur urðu markaðsvara.  Sjáiði fyrir ykkur Matteus koma inn með Matteusarguðspjall til  forleggjarans sem hafnar bókinni með þeim orðum að Markús nokkur hafi fengið gefna út samskonar bók fyrir nokkrum árum. Bók með sama söguþræði, heilu kaflarnir séu meira að segja orðréttir eins. Og svipaða útreið hefðu Lúkas og Jóhannes fengið.  Málsókn ekki útilokuð.

Guðspjöllin eru sem sagt fjórar svipaðar bækur. Þær þrjár fyrstu kallaðar samstofna, ritaðar upp úr sömu heimildinni en Jóhannesarguðspjall tekur  málið aðeins lengra.

Síðan er fyllt upp í með bréfum, flest eftir skipsbrotsmanninn Pál.  Alls eru þetta 27 ritvek. Guðspjöllin læsilegust og Postulasagan einnig en það er samtímasaga með þræði.  Bréfin eru torlæsari, sum mjög svo.

Það hefði verið ekkert mál að fá að hafa bækur Gamla Testamentisins með því þær voru  löngu komnar úr öllum höfundarrétti. Skrifaðar mörg hundruðum árum fyrr (miðað við raunverulegan ritunartíma hins Nýja)
Kannski hefðu Gyðingar að breyttu breytenda gert einhverjar athugasemdir því að Gamla Testamentið er Biblía þeirra – samansafn 39 bóka.

Ástæðan fyrir því að kristnir tóku þeirra Biblíu með er tvíþætt. Jesú var Gyðingur og GT því hans trúarbók og flestir fyrstu aldar kristnir umsnúnir gyðingar og bókin þeim því hjartfólgin. Svo spáir GT fyrir um Jesú segja menn og Jesú sjálfur tengdi boðun sína trúarhugmyndum þaðan og saga gyðingþjóðarinnar undirbygging fyrirheita Guðs sem rættust í Kristi.

Jæja, hvernig á að skilja þessa blessuðu bók. Sumir  halda því fram að hún sé Guðs orð. Guð hafi beinlínis stýrt penna  rithöfundanna. Því beri mönnum að elta hven stafkrók, sníða af sêr hendur, rífa úr sér augun.  Aðrir telja að Biblían sé innblásið orð Guðs þ. e. höfundanir uppblásnir af Guði ef svo má segja en hver stafur sê þar af leiðandi ekki heilagur því enginn maður sé fullkominn.

Flestir lærðir guðfræðingar og alvöru háskólar hallast að síðari kostinum enda flýgur sá fyrri í fasið á allri lágmarksskynsemi.  Þá væri heimurinn skapaður á sex dögum og mannlegt samfélag hefði fljótlega staðnað hefði bókafstrú orðið okkar hlutskipti. Við hræðumst íslamska  bókstafstrúarmenn og það með réttu, gyðinglegir bókstafstrúarmenn næra skopskynið og ég held að það sé kominn tími til  að við hættum að láta kistna bókstafstrúarmenn vaða uppi með fordóma gegn samkynhneigðum og ýmis konar bull og vitleysu.

Code orð yfir Gt er lögmál. Boðskapur Nt er kallaður fagnaðarerindi. ,,Rétttrúarlínan“er sú að aðeins sé mark takandi á því í Gt sem standist kærleiksboðskap Jesú Krist (sem helst má ná með gullnu reglunni: Allt sem þér viljið að aðrir……). Þar með hendum við burt mest af regluverki Mósebóka sem fjallar með öðru um það hvernig á að umgangast konur og svín.  

En hvað með bréf Páls postula þar sem örlar á skoðunum sem mannrêttindahyggja 19. Og 20. aldar hefur ýtt út af borðum. Guðfræðin hefur sett undir það.  Aðeins það sem má rekja beint til orða Jesú ber að taka bôkstaflega. Allt annað er fyrst og fremst leiðbeinandi og til íhugunar. Og guðfræðingar eru nokkuð sammála um hvað megi rekja beint til Jesú og finna það út með samanburði á guðspjöllunum. Þetta gefst nokkuð vel því að orð Jesú standast t.d mannréttindahugsun nútímans sem auðvitað m.a. byggist  á honum. Jesú kallinn var nefnilega alveg einstakur.

Svo eru enn aðrir sem vilja losa sig alveg við bókstafinn og stilla Jesú upp gagnvart hverjum vanda og spyrja:  Hvernig  hefði hann hugsað?  Hvernig hefði hann brugðist við?

Þá verða menn að sjálfsögðu mjög kærleiksríkir og góðir.  Annað er ekki í boði.

En Biblían er margbrotið og merkilegt rit sama hvernig á er litið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.2.2012 - 11:39 - 5 ummæli

Tröllin Guðni og nafni hjá Ingva Hrafni!

Gaman að sjá hina pólitísku sjamöra Baldur Óskarsson og Guðna Ágústsson í viðtalsþætti hjá einu trölli til viðbótar Ingva Hrafni. þetta eru tröll já á sinni tíð en dálítil nátttröll  líka. Þá félaga dreymir um frið og einingu á pólitíska sviðinu, sterka forystu, sterkan forseta, hóflega orðræðu, agaðan bloggheim. Þjóðfélag sem framleiðir, framleiðir og framleiðir og allt er í gangi og ein þjóðarsál. þessi tími kemur vonandi ekki. Þetta er kommúnísk orðræða þá betur er að gáð.  Draumsýn  kúgaðs öreigasamfélags austur þar á fyrri hluta 20.  Aldar. Á lítið erindi inn í tæknivætt, upplýst, lýðræðissamfélag 21. aldar. Eða hvað? Er það kommúnisminn sem blívur? Samfélag framleiðslu og þagnar?

En nafni minn og Guðni eru samt miklir snillingar. (var hugsað sem græskulaust einkum gagnvart nafna  Baldri Óskarssyni sem ætti hiklaust að endurvekja pólitískan feril sinn! (fólk sem fer að þvæla um presta og Samfylkingu Og ESB í  tilefni af þessari færslu ætti hiklaust að fara í bað)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.2.2012 - 13:01 - 36 ummæli

Hatursáróður sæmir ekki barnakennara!

Ég er sammála foreldrum á Akureyri. Ummæli Snorra Óskarssonar um samkynhneigð sæma ekki barnakennara   Og hljóta að varða við lög og brjóta í bága við mannréttindasáttmála. Í ummælum Snorra er hópur fólks talinn óæðri öðrum á grundvelli kynhneigðar.  Það er hatursáróður. Hatursáróður gegn hópum er  ekki eða ætti ekki að vera liðinn í siðuðu samfélagi vegna þess að hann gerir ráð fyrir yfirburðum eins hóps í samfélagi á grundvelli uppruna eða hneigðar eða yfiburða einnar menningar yfir aðra. Slíkt leiðir til haturs og ofbeldis.

Trúarsöfnuðir sem ala á slíkri fyrirlitningu ætti að banna svo þeir geti ekki með viðurkenningu samfélagsins plantað forneskjulegum mannfjandsamlegum hugsunum sínum og auðvitað eru Snorri og co! sjálf  fórnalömb sérstæðrar innrætingar í eyjum sem er hætt að vera fyndin.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.2.2012 - 00:12 - 12 ummæli

Þjóð mannréttinda?

Ef við tökum ekki þátt í Eurovision og yrðum í framhaldinu samkvæm okkur sjálfum myndum við innan tíðar keppa ein hér heima hvort er í söng eða íþróttum. Hvernig væri að Páll Óskar og aðrir slíkir beittu sér fyrir því að Íslendingar og íslensk stjórnvöld töluðu fyrir mannréttindum heima og erlendis og færu eftir því sem mannréttindasamtök ráðleggja. Í þessum efnum ná þjóðir árangri og ávinna sér virðingu með alvöru mannréttindastarfi ekki með upphlaupum sem enginn tæki eftir í þokkabót eða virti vegna þess að þau kæmu frá fólki sem hefur ekki áunnið sér neina sérstaka mannréttindavirðingu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.2.2012 - 15:18 - 11 ummæli

Valkostur fyrir Sjálfstæðismenn!

Lilja Mósesdóttir er að vísu undanútandsérhlaupari en það var nokkuð ljóst frá upphafi að hún passaði ekki inn í pólitíska mynstrið. Það má hins vegar ekki taka frá henni að hún hefur beitt sér fyrir réttlætismálum svo eftir hefur verið tekið og verður gaman að sjá hvað hún hefur fram að færa á morgun. Framboð hennar ætti ekki síst að vera valkostur fyrir  gamla kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem vilja gera upp hrunið,  Eitthvað verða þeir að geta kosið og Lilja réttlætisins er auðvitað prýðilegur valkostur fyrir þá.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur