Laugardagur 16.3.2013 - 12:22 - 5 ummæli

Samvinna um afnám og leiðréttingu

Oft er talað mest um ágreiningsefni á milli flokka, frekar en það sem sameinar okkur.  Ég er þó sannfærð um að innan allra flokka er að finna fólk sem hefur verið virkilega umhugað um skuldamál heimilanna.  Sem hefur reynt að koma með hugmyndir um leiðréttingu skulda og afnám verðtryggingar, – þótt undirtektir hafa verið litlar sem engar.

Jafnvel innan þeirra flokka sem hafa hvað harðast barist gegn almennri leiðréttingu skulda og fyrir verðtryggingunni, Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum.  Dæmi um þetta er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar.

Hann tók frumkvæði í að leggja fram útreiknaðar tillögur um hvernig væri hægt að fara í almenna leiðréttingu verðtryggðra húsnæðisskulda.  Hópurinn sem hann vildi leggja áherslu á var sá hópur sem keypti húsnæði frá þeim tíma sem byrjað var að bjóða gengistryggð lán.   Hugmynd hans var að nýta séreignasparnaðinn til fjármagna leiðréttinguna.

Hann hefur líka haft frumkvæði af vinnu efnahags- og viðskiptanefndar í því að takast á við afleiðingar Árna Páls laganna.  Þar hafnaði Hæstiréttur hluta af lögunum á grundvelli afturvirkni þeirra, að þau stönguðust á við stjórnarskrá.

Því vita væntanlega fáir betur hversu mikilvægt er að breytingar á lögum séu ekki afturvirkar, heldur framvirkar.

Á þetta lagði hann áherslu í fyrirspurn sinni til Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns okkar um útfærslu Framsóknarmanna á afnám verðtryggingar á neytendalán, – stuðning sinn við afnám verðtryggingar og um afturvirknina.  Staðfesti Gunnar Bragi það.

Eitthvað virtust menn þó misskilja málið, og ítrekaði Sigmundur Davíð svörin í ágætis pistli seinna um daginn.

Það er von mín að fleiri talsmenn Samfylkingarinnar taki undir nauðsyn þess að leiðrétta og afnema í stað þess að snúa út úr.

Til framsóknar fyrir íslenskt samfélag.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.3.2013 - 11:15 - 1 ummæli

Eldhúsdagsumræða 2013

Frú forseti, góðir Íslendingar.

Það dýrmætasta sem nokkur maður getur átt er vonin. Vonin um betra líf, betra samfélag, betri heim. Það versta sem nokkur getur gert er að taka frá manninum þessa von. Þegar vonin er brostin er einnig horfin getan til að breyta, til að bæta, til að byggja upp.

Þegar ég hóf afskipti af stjórnmálum átti ég mér von. Von sem byggði á grunngildum samvinnustefnunnar um lýðræði, persónufrelsi, jafnræði og samfélagslega ábyrgð. Von um að ég gæti lagt mitt af mörkum við að byggja upp samfélag sem byggði á þessum gildum. Þegar efnahagur landsins hrundi blossaði upp hjá mér vonin um að nú væri tækifæri til að gera róttækar breytingar. Hjálpa íslenskum almenningi til að brjótast úr hlekkjum verðtryggingar, skulda og vonleysis.

Þessi von lifir enn og ég finn að hún lifir enn hjá stórum hluta landsmanna. Þeim sem enn hafa ekki misst vonina á að við getum byggt upp nýtt og betra samfélag á rústum hins gamla.

En úrtölumenn eru á hverju strái. Úrtölumenn sem gera sitt besta til að slökkva vonarglætuna í brjósti almennings. Úrtölumenn sem vita það eitt að ekkert er hægt að gera. Engu er hægt að breyta. Þar eru verðtrygging, skuldir og höft meitluð í stein. Lögmál sem ekki má brjóta.

En við framsóknarmenn höldum enn í vonina. Við látum ekki segja okkur að ekkert sé frekar hægt að gera fyrir heimilin í landinu. Við látum ekki segja okkur að ekkert sé frekar hægt að gera til að efla hér atvinnulífið. Við látum ekki segja okkur að Íslendingar geti ekki haft stjórn á sínum eigin efnahag.

Við eigum okkur von um betra samfélag fyrir Ísland og Íslendinga. Og það sem meira er, við höfum marg oft sýnt fram á hvernig þessi von okkar getur orðið að veruleika.

Til þess að sú von megi rætast þurfum við að hafa kjark og þor til að takast á við þann þríhöfða þurs sem ógnar íslenskum heimilum. Við höfum sett upp margþætta sóknaráætlun sem miðar að því að leggja þennan þurs sem hamlar okkur för inn í framtíðina.

Við þurfum að taka á uppsafnaða skuldavandanum. Þeim gríðarlega forsendubresti sem haldið hefur heimilunum í herkví. Þeim forsendubresti sem ekki var leiðréttur eftir hrun og haldið hefur áfram að hlaðast upp svo heimilin standa vart undir honum.

Við þurfum að taka á verðtryggingunni til að rjúfa þann vítahring verðbólgu og skuldasöfnunar sem sligar heimilin í landinu. Við þurfum að vinda ofan af sjálfvirkum vísitöluhækkunum og koma í veg fyrir að fortíðarvandinn verði að framtíðarvanda.

Við þurfum að byggja til framtíðar. Til þess þurfum við að efla atvinnulífið, því besta leiðin til að tryggja vöxt og velferð til frambúðar er að tryggja næga atvinnu.  Án atvinnu verður hvorki vöxtur, né velferð.

Stefna Framsóknarmanna er einföld. Takist okkur að leggja þennan þurs eru okkur allir vegir færir. Við höfum von, en við höfum líka áætlun um hvernig þessi von getur orðið að veruleika. Hafi einhver betri hugmyndir að þessu marki, erum við opin fyrir þeim. En markmiðið er skýrt. Þursinn verður að fella.

Fyrir þessu höfum við talað í fjögur ár. Fyrir þessu munum við tala áfram næstu fjögur ár. Og þessu munum við hrinda í framkvæmd fáum við til þess styrk í næstu kosningum.

Við finnum traust og við finnum stuðning meðal þjóðarinnar. Við sjáum vonina kvikna í augum fólks þegar við kynnum stefnu okkar og áætlanir til framtíðar. Við munum ekki láta úrtölumenn slökkva þessa von.

Úrtölumenn sem telja okkur óvin númer 1 því við þorum að taka okkur stöðu með heimilunum í landinu, gegn auðvaldinu. Úrtölumenn sem líta á skuldaklafa og verðtryggingu sem óbreytanlegan hluta íslensks samfélags. Úrtölumenn sem hafa það svar eitt fyrir fjölskyldurnar, sem um hver mánaðamót þurfa að velta fyrir sér hverri krónu, að svona hafi það alltaf verið og svona muni það alltaf verða. Úrtölumenn sem yppa öxlum þegar enn eitt fyrirtækið leggur upp laupana og enn einn hjúkrunarfræðingurinn pakkar búslóðinni í gám og flytur til Noregs.

Við Framsóknarmenn vitum að slagurinn er ekki auðveldur. Hann hefur ekki verið auðveldur. Hann verður ekki auðveldur.  En við höfum von og sú von getur ræst. Með markvissri sókn gegn skuldavanda heimilanna, gegn vítahring verðtryggingar og gegn stöðnun í atvinnulífi getum við brotist út úr þeirri herkví sem íslensk heimili og fyrirtæki hafa verið í.

Kannski finnst einhverjum við of bjartsýn. Og vissulega erum við bjartsýn. En við höfum líka trú á íslenskt samfélag og getu þjóðarinnar til að vinna sig út úr vandanum, fái hún til þess tækifæri. Til þess þarf þjóðin að hafa von. Og hún þarf að hafa trú á að vonin geti ræst. Við Framsóknarmenn teljum að við höfum enn tækifæri til að láta þessa von rætast. Tækifæri sem við megum ekki láta ganga okkur úr greipum.

Í kosningunum í vor höfum við tækifæri til að kjósa um þessa von. Von um betra Ísland. Von um aðgerðir fyrir heimilin. Von um afnám verðtryggingarinnar. Von um öflugra atvinnulíf til hagsbóta fyrir okkur öll.

Von um Framsókn í íslensku samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.3.2013 - 13:34 - 3 ummæli

Vantraust 11. mars 2013

(Ræða flutt á Alþingi 11. mars 2013)

Virðulegi forseti,

Sólin skein þegar ég vaknaði í morgun.  Á svona fallegum morgnum stekk ég venjulega fram úr rúminu, tilbúin að takast á við verkefni dagsins.   En það gerðist ekki í morgun.

Ég er mjög ósátt við þessa tillögu.  Ég er mjög ósátt við að þurfa eyða tíma mínum í að ræða hana.  Að verið sé að eyða tíma Alþingis í að ræða hana.  Að við séum enn á ný að ræða allt annað en það sem raunverulega skiptir fólk máli.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru fjórir dagar eftir af starfstíma Alþingis.  Þingfrestun er áætluð þann 15. Mars.   Þann 27. apríl hefur verið boðað til kosninga og þjóðin sjálf mun velja hverjir fara með stjórn landsins.  Íslenska þjóðin getur þá sjálf lýst yfir vantrausti á ríkisstjórnina.

Ég hefði kosið að nýta þessa síðustu daga þingsins, síðustu daga kjörtímabilsins til að vinna fyrir heimili landsins.  Til að vinna fyrir fjölskyldur þessa lands.

Þau mál sem ég hefði viljað að við ræddum nú eru skuldaleiðrétting, mikilvæg skref í átt að afnámi verðtryggingar og lækkunar vaxta, afnám stimpilgjalds, skattaafsláttur vegna húsnæðissparnaðar, og ýmsar úrlausnir vegna gengistryggðra lána.    Allt mál sem við höfum lagt fram aftur og aftur á þessu kjörtímabili. Því miður er ekki að finna þau mál á forforgangslista stjórnvalda fyrir þessi þinglok, sem þó inniheldur 70 mál.

Á þeim grunni byggist afstaða mín.  Hvernig þessi ríkisstjórn hefur ítrekað, aftur og aftur hunsað skuldavanda heimilanna.  Hvernig hún hefur endalaust klifað á því að engu sé hægt að breyta, ekkert sé hægt að gera.

Þessu höfnum við Framsóknarmenn.

Við Framsóknarmenn vitum að meginverkefni næsta kjörtímabils verður að vera að leysa eða létta mjög á vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis. Við vitum að það verður ekki auðvelt. Talsmenn skuldafjötra og verðtryggingar munu halda áfram áróðursstríði sínu til að halda heimilunum í skuldafangelsi.

En þeir munu ekki komast upp það.

Við munum áfram berjast fyrir almennri leiðréttingu skulda, áfram leggja fram tillögur um hvernig taka megi á þeim vanda sem verðtryggingin veldur íslenskum heimilum, og áfram benda á að engin sanngirni felist í að bankar og erlendir vogunarsjóðir græði á tá og fingri á því að mergsjúga íslensk heimili.

Við ætlum að taka á uppsafnaða vandanum, þeim sem ríkisstjórnin leiðrétti ekki eftir efnahagshrunið.  Við ætlum að koma í veg fyrir að lánin geti aftur stökkbreyst með því að taka á verðtryggingunni og við ætlum að tryggja fólki betri lífskjör til framtíðar.

Þessi ríkisstjórn hefur brugðist heimilum landsins, og setið aðgerðalaus hjá á meðan bankarnir og kröfuhafar hafa sópað að sér eignum almennings.

Þess vegna get ég ekki varið hana vantrausti.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.3.2013 - 13:23 - 3 ummæli

Skilaboð til Seðlabankans

Ég spurði forsætisráðherra í dag um uppgjör þrotabúa föllnu bankanna.

Fyrirspurnin var svohljóðandi: „Eru einhverjar viðræður óformlegar eða formlegar á milli stjórnvalda, Seðlabankans, kröfuhafa og/eða slitastjórna um uppgjör þrotabúanna? Hafa verið fengnir sérfræðingar, færustu sérfræðingar heims, til þess að tryggja hagsmuni þjóðarinnar í þessu stærsta einstaka hagsmunamáli þjóðarinnar, eða eru það embættismenn Seðlabankans og ráðherrar sem eru í þessum hugsanlegu viðræðum eða ekki? Þegar kemur að þessu, í þriðja lagi, mun ráðherrann tryggja að allir hennar ráðherrar og embættismenn hennar munu standa með þjóð sinni og gæta að hagsmunum hennar?“

Forsætisráðherra svaraði:

„…það verður ekki farið út í neinar aðgerðir sem að varða uppgjör á bönkunum eða höftunum nema að það sé fulltryggt að mati allra aðila að fjármálastöðugleiki í landinu verði tryggður. Og fjármálaráðherra hefur gert sér far um það að hafa samráð og samband við formenn flokkanna, bæði um höftin og meðferð þeirra, eins um uppgjör á nauðasamningum. Og ég á ekki von á öðru heldur en að það verði áfram, að það verði fullkomin samvinna við stjórnarandstöðuna í þessu stóra máli. Það er eðlilegt að það sé ekki gert í svona stóru máli að það sé samvinna allra aðila um það hvernig hagsmunum þjóðarinnar verði best gætt í þessu máli.“

Við ítrekun á spurningunni, um hvort viðræður væru í gangi við kröfuhafa og hvort ætlunin væri að ganga frá samningum fyrir eða eftir að búið væri að sækja endurnýjað umboð til þjóðarinnar sagði Jóhanna:

„….Það er verið að vinna að þessu að útbúa ýmsar sviðsmyndir í þessu máli, hvaða afleiðingar hitt og þetta hefur. Og það er alveg ljóst að við munum fara mjög varlega í öll þessi mál. Og ég á ekki von á því að málið sé komið svo langt að það verði gengið frá nauðasamningum fyrir kosningar. Og ég held að það sé ekkert sem liggi á í því efni. Og ég get alveg tekið undir það með háttvirtum þingmanni að það er nauðsynlegt að hafa samráð, fullt samráð við stjórnarandstöðuna í þessu máli og framgang mála. Mér þykir líklegt að það verði ný ríkisstjórn og nýr meirihluti sem að gangi frá þessu máli, og vonandi hefur hann þá sama háttinn á og þessi ríkisstjórn að hafa samráð við stjórnarandsöðuna þannig að það verði allir pólitískir flokkar sem komi að þessu máli.“

Ég vona að Seðlabankamenn hafi verið að hlusta.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.3.2013 - 12:18 - 3 ummæli

Hvað er verðtrygging?

Er verðtrygging í raun breytilegir vextir, eða ígildi breytilegra vaxta?  Þetta skiptir máli.  Í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp um neytendalán er bent á að ef verðbætur væru ígildi breytilegra vaxta væri óheimilt að kveða á um uppgreiðslugjald á lánum sem bera breytilega vexti.   Í 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu er tilgreint hvernig megi bæta vöxtum við höfuðstól láns ef vextir eru ekki greiddir á 12 mánaða tímabili. Það má aðeins gera á 12 mánaða fresti, nema um sé að ræða innlánsreikninga lánastofnana.

Þetta hefur ekki verið framkvæmdin á verðtryggðum lánum né útreikningi verðbóta.

Í reglugerð SÍ nr. 492/2001 segir: „Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.“

Þessa framkvæmd má rekja til bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála.

Almennu reglan var í 2. mgr. 40.gr. þar sem sagði: „Heimilt er að ákveða verðtryggingu í því formi, að sérstakur verðbótaþáttur vaxta, sem sé tengdur verðlagsbreytingum með formlegum hætti, leggist við höfuðstól láns eða sé hluti forvaxta.“

Verðtryggingin er þarna skilgreind sem verðbótaþáttur vaxta, eða hluti forvaxta.

Í svari Seðlabankans við fyrirspurn minni um þetta segir: „Það er ekki innan sérsviðs Seðlabanka Íslands að skera úr um það hvort verðtrygging teljist vextir eða kostnaður.  Þó skal þess getið, að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 13/1995 [mín athugasemd: Lög um breytingu á vaxtalögum] sagði, að það þætti heppilegt að kveðið væri á um vexti og verðtryggingu í sömu lögum, enda væri um náskyld atriði að ræða. Hvort segja megi út frá því að um sömu atriði sé að ræða skal ósagt látið, en í stað þess vill Seðlabankinn leyfa sér að benda á það, að það sé á valdi löggjafans að eyða slíkum vafa með lagasetningu.“

Svo mörg voru þau orð.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.3.2013 - 08:44 - 10 ummæli

Stjórnvöld í rússneskri rúllettu

Fjármálaráðherra segist vera tilbúin að semja.  Kröfuhafar mynda krónuhóp.  Fréttablaðið birtir sviðsmyndir af mögulegum samningum.

Og ég skal viðurkenna að kvíðahnútur er að myndast í maganum á mér.

Þarna er sama fólkið og samdi svo „vel“  í Icesave og um nýju bankana að semja fyrir hönd þjóðarinnar um snjóhengjuna.

Í grein Fréttablaðsins er td talað um að kröfuhafar séu tilbúnir að selja Íslandsbanka fyrir 55% af bókfærðu eigin fé bankans og að greitt verði með erlendum eignum (væntanlega lífeyrissjóðanna).  Með ýmsum öðrum tilfærslum en takmörkuðum afslætti eiga eignir þrotabúsins Glitnis í íslenskum krónum að andvirði 254,5 milljarðar króna að fara niður í núll.

Sama er verið að ræða er varðar Arionbanka, að selja hann fyrir 55% af bókfærðu eigin fé bankans. Eignir Kaupþings í íslenskum krónum voru bókfærðar 197,7 milljarðar króna um mitt síðasta ár.

Hver segir að 45% afsláttur af þessu eignum sé ásættanlegur? Af hverju eiga íslensk heimili að leggja lífeyrissparnað sinn undir, án þess að fá nokkra aðstoð sjálf? Kröfuhafar gömlu bankanna hafa hagnast mjög mikið á sínum viðskiptum og krafan er að þeim ávinningi verði skipt á milli þjóðarinnar og kröfuhafa.

En eru stjórnvöld að hlusta?

Síðast þegar var „samið“ glataði ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna tækifærinu til að nýta afslátt á lánasöfnum bankanna til hagsbóta fyrir íslensk heimili.  Síðan þá hafa bankarnir hagnast um fleiri hundruð milljarða króna, fyrst og fremst með uppfærslu á lánasöfnunum.

Hér er verið að spila með framtíð íslenskra heimila.

Því vara ég þá við sem sitja og útdeila sviðsmyndum og tala fjálglega í fjölmiðlum um forsendur samninga. Mikil er ábyrgð Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna og fylgitungla þeirra á töpuðum tækifærum síðustu ára.

Miklu meiri verður hún ef þetta eiga að vera forsendur samninga við kröfuhafa.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.2.2013 - 14:57 - 2 ummæli

Hið flókna skattkerfi

Skattastefna á Íslandi er bútasaumsstefna. Þessu var haldið fram á nýlegum fundi Framsóknarfélaganna í Kópavogi.

Undir þetta get ég tekið.  Kerfið okkar er því miður orðið íþyngjandi, óskilvirkt og fullt af ósamræmanlegum lagaákvæðum.

Það er einkennilegt að þau lög sem varða helstu tekjuöflun ríkissjóðs,virðisaukaskattslögin og tekjuskattslögin hafa ekki verið endurskoðuð á heildstæðan máta.  Við rífust endalaust um eignarskatt eða tryggingargjald, – en á meðan sitjum við uppi með 51 bráðabirgðaákvæði í tekjuskattslögunum og virðisaukaskattskerfi sem er eins og völundarhús.

Í skýrslu AGS frá því 2011 segir að áherslur stjórnvalda verði að beinast að því að auka skilvirkni skattkerfisins og hvatningu til hagvaxtar. Leiðrétta verður þá ágalla (e.anomalies) sem finna má í kerfinu, ekki hvað síst eftir miklar lagabreytingar síðustu ára.

Þarna er vægt til orða tekið. Ég fékk að kynnast í fyrsta sinn þinglegri meðferð á hinum svokallaða bandormi fyrir síðustu áramót. Það er reynsla sem ég hef lítinn áhuga á að endurtaka.

Við hljótum að geta tekið höndum saman um að bæta skattkerfið okkar, einfalda það og tryggja aukna skilvirkni þess.  Bæta vinnubrögð okkar við skattalagabreytingar.

Skattkerfið á að styðja við vinnu og vöxt.  Aðeins þannig getumvið tryggt velferðina.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.2.2013 - 14:58 - 6 ummæli

Heimilisofbeldi. Íslenskur veruleiki

Kona bankar upp á hjá vinkonu sinni snemma morguns.  Hún er útgrátin og  með rautt far í andliti. Áverkar eru víða og hluti af fallega hárinu hefur verið rifinn úr með rótum. Móðir leggur barn varlega frá sér í rúmið og gengur með kvíðahnút út úr herberginu. Maðurinn fylgir henni eftir. Hún vonar með sjálfri sér að höggið komi ekki fyrr en hún er komin út úr herberginu.  Önnur kona útskýrir að rifrildin og slagsmálin séu nú ekki bara honum að kenna.  Hún eigi nú sinn hlut í þessu. Af einhverri ástæðu er það samt alltaf hún sem fær marblettina og glóðaraugað.  Kannski vegna 30 cm hæðarmunar, líkt og einn ættinginn bendir henni þurrlega á.

Allt eru þetta sannar sögur.

Þúsundir kvenna beittar ofbeldi.

Heimilisofbeldi er íslenskur veruleiki þar sem einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar. Í rannsókn Elísabetar Karlsdóttur og Ásdísar A. Arnalds frá 2008 um reynslu kvenna á aldrinum 18-80 ára af ofbeldi kom í ljós að á 12 mánuða tímabili hafði um 1% kvenna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi.  Sama hlutfall hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.  Frá 16 ára aldri höfðu um 20% kvenna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi.  Algengast var að ofbeldismaðurinn væri eiginmaður, sambýlismaður eða kærasti, núverandi eða fyrrverandi og að ofbeldið ætti sér stað innan veggja heimilisins.  Þrátt fyrir þetta er ofbeldi í nánum samböndum mjög falið.  Aðeins 22% kvennanna leituðu til samtaka eða stofnana sem aðstoða konur og 13% tilkynntu síðasta ofbeldisatvik til lögreglu, jafnvel í þeim tilvikum sem konan hlaut líkamlegt mein eða þurfti á læknishjálp að halda.

Í 24% tilvika urðu börn vitni að ofbeldinu.

Af hverju beita menn ofbeldi?

Rannsóknir hafa talað um tvenns konar tegundir af heimilisofbeldi, annars vegar ógnarstjórn og hins vegar makadeilur.  Í Ógnarstjórnin felur í sér gamlar hugmyndir um eignarrétt, þar sem karlinn á konuna og henni ber að hlýða vilja hans.  Þar er alvarleiki ofbeldisins yfirleitt meiri og tilhneiging til að það aukist og verði alvarlegra eftir því sem á líður.  Með makadeilum er átt við þegar deilur pars fara úr böndunum.  Þá getur hvort kynið sem er gripið til ofbeldis til að koma fram vilja sínum, án þess að um frekari átök um völd sé að ræða.  Ofbeldið er ekki jafn alvarlegt, lítil sem engin tilhneiging til aukningar og ofbeldið er ekki einhliða kúgunartæki.

Heimilisofbeldi er alvarlegt þjóðfélagsmein.  Enginn á að þurfa að þola ofbeldi. Það skaðar þann sem fyrir verður, en eitrar líka út frá sér til mun stærri hóps, samfélagsins alls.  Það jákvæða er að við sem einstaklingar og samfélag getum dregið verulega úr þeim skaða sem einstaklingar sem beittir hafa verið ofbeldi verða fyrir.

Árið 2006 samþykkti ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, að tillögu þáverandi félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra, aðgerðaáætlun um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum sem náði til áranna 2006-2011.  Að verkefninu komu auk þess heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Áfram er unnið að verkefninu með sérstakri nefnd um aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi árin 2011-2015.

Aðgerðaáætlunin hjálpaði til við að koma þessu samfélagsmeini meira upp á yfirborðið og leiddi einnig í ljós að margt er ógert.  Kvennaathvarfið hefur staðið sig frábærlega í að styðja við konur í ofbeldissamböndum og börn þeirra.  Það endurspeglast í að Kvennaathvarfið er talið mikilvægasti samstarfsaðilinn í málum sem tengjast ofbeldi á heimilum.  En betur má ef duga skal. Ekki er hægt að vísa ábyrgðinni á þessum vanda yfir á frjáls félagasamtök.  Mikilvægt er að fleiri aðilar, svo sem félagsþjónusta og barnavernd, líti á þennan málaflokk sem „sinn“ og taki ábyrgð á honum.  Ríkið og sveitarfélög þurfa að gera sitt.  Skrá þarf betur tilvik heimilisofbeldis og fylgjast sérstaklega með aðstæðum og fjölda kvenna í viðkvæmum hópum. Einnig þarf að bæta samræmdar verklagsreglur vegna heimilisofbeldis og samskipti lögreglu, félagsþjónustu og skóla í málum sem tengjast heimilisofbeldi.

Við Framsóknarmenn munum aldrei sætta okkur við heimilisofbeldi.  Tryggja þarf að baráttan gegn því sé hluti af heildstæðri fjölskyldustefnu stjórnvalda.

Saman verðum við að taka á þessum vanda.

(Birtist fyrst í DV 18. febrúar 2013)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.2.2013 - 07:57 - 9 ummæli

Húsnæðislán: Meira öryggi, betri kjör.

Hvernig væri nýtt og betra húsnæðiskerfi?  Þar sem fólk hefði raunverulegt val um að kaupa eða leigja.  Í skýrslu verðtrygginganefndarinnar lagði ég ásamt meirihluta nefndarinnar til að nýtt óverðtryggt húsnæðislánakerfi yrði innleitt.

Það myndi fela í sér að  hætt yrði að bjóða ný verðtryggð lán á húsnæðislánamarkaði. Boðin yrðu húsnæðislán með endurskoðunarákvæðum á vöxtum á ákveðnum tímabilum (0, 3, 5 eða 7 ára fresti), í stað verðtryggðra jafngreiðslulána. Ný lán hjá Íbúðalánasjóði yrðu með þessum kjörum til einstaklinga. Aðrar lánastofnanir myndu einnig breyta lánaformum sínum í óverðtryggð lán með endurskoðunarákvæðum.  Lánstími yrði styttur og útlán og greiðslumat vandað. Flutningur á milli lánsforma yrði auðveldaður með því að fella niður gjaldtöku við skilmálabreytingu og endurfjármögnun. Veð yrði takmarkað við veðandlag hverrar lánveitingar, sbr. tillöguna um lyklafrumvarpið.

Helsta nýjungin yrði að ný íbúðabréf yrðu boðin út í samræmi við breytt fyrirkomulag útlána og jafnvægi tryggt á milli einstaks húsnæðisláns og íbúðabréfs. Lífeyrissjóðirnir verða að koma að þessari breytingu og því þyrfti að hefja viðræður um endurfjármögnun útistandandi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs til að flýta fyrir kerfisbreytingu.

Einnig þyrfti að auka samstarf og/eða samkeppni á milli fjármálastofnana og Íbúðalánasjóðs til að tryggja fjölbreytni á húsnæðislánamarkaði.

Þarna er horft til danska húsnæðislánakerfisins og ályktaði flokksþing Framsóknarmanna sérstaklega um þetta.

Því er ánægjulegt að sjá að ASÍ leggur til samskonar tillögur um húsnæðislánakerfi. Í samhljóma tillögum þeirra segja þeir að þetta kerfi muni gefa húsnæðiskaupendum valkost um hagstæð og örugg langtímalán sem byggja á föstum nafnvöxtum og fyrirsjáanleika inn í framtíðina í stað verðtryggðra lána.

Ekkert í þessum tillögum kemur í veg fyrir að fyrirtæki, sveitarfélög og ríkissjóður geta áfram tekið og gefið út verðtryggð skuldabréf.

Enda eru þeir sem helst geta metið áhættuna af verðbólgunni og gert eitthvað til að bregðast við henni.

Við lögðum einnig til að fjölga yrði búsetuformum til að tryggja raunverulegt val og öryggi í húsnæðismálum, óháð efnahag og félagslegri stöðu.  Því þyrfti að styrkja rekstrar- og skattaumhverfi leigufélaga og húsnæðissamvinnufélaga.  Styðja þyrfti við fjármögnun þeirra með stofnstyrkjum, ívilnunum og tímabundnum opinberum stuðningi til að treysta rekstrargrundvöll þeirra.  Hluti af því er nýtt húsnæðisbótakerfi, en aðeins hluti.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.2.2013 - 09:43 - 2 ummæli

Með réttlætið á heilanum

Um hver mánaðamót sitja íslenskar fjölskyldur við eldhúsborðið og velta fyrir sér hvaða reikninga eigi að borga.  Hvernig borga eigi bæði stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán og mat fyrir fjölskylduna.  Á flokksþingi lofaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins því að eitt meginverkefnið Framsóknarmanna yrði að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig leysa megi, eða létta mjög, vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis.

Við vitum að þetta verður ekki auðvelt.  Talsmenn skuldafjötra og verðtryggingar munu halda áfram áróðursstríði sínu til að halda heimilunum áfram í skuldafangelsi.  Þeir munu klifa á því að við getum engu breytt og ekkert gert.

Þessu höfnum við Framsóknarmenn.  Tími er kominn til að rjúfa umsátrið um heimilin og tryggja þeim réttlæti.

Á þessu kjörtímabili hefur þingflokkur Framsóknarmanna ítrekað lagt fram tillögur til lausna.  Ætíð hafa þær tillögur verið talaðar niður. Við höfum barist fyrir almennri leiðréttingu skulda, lagt fram tillögur um hvernig taka megi á þeim vanda sem verðtryggingin veldur íslenskum heimilum, varað við ólögmæti gengistryggðra lána og bent á að engin sanngirni felist í að bankarnir og erlendir vogunarsjóðir græði á tá og fingri á því að mergsjúga íslensk heimili.

Eflaust hafa einhverjir talið okkur jafnvel með skuldavandann á heilanum.  En í stórum málum dugar ekkert annað en staðfesta og þor.

Vandinn er þríþættur. Taka þarf á uppsafnaða vandanum, þeim sem ekki var leiðréttur eftir efnahagshrunið.  Í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að lánin geti aftur stökkbreyst með því að taka á verðtryggingunni og loks þarf að tryggja fólki betri lífskjör til framtíðar.  Ekkert réttlæti er í að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns. Tryggja þarf neytendavernd á fjármálamarkaði og skipta ábyrgð jafnar á milli lánveitenda og lántaka.  Setja þarf „lyklalög“ og auðvelda fólki að færa lánaviðskipti á milli lánastofnana. Við viljum afnema verðtryggingu á neytendalánum og skal starfshópur ljúka þeirri vinnu fyrir árslok 2013. Jafnframt höfum við lagt til nýtt húsnæðislánakerfi og hefur ASÍ lagt fram sambærilegar hugmyndir.  Þá verða betri lífskjör aðeins tryggð með aukinni verðmætasköpun þjóðarbúsins.

Á sama tíma og heilu kynslóðirnar hafa orðið eignalausar hafa bankarnir og kröfuhafar hagnast mjög á viðskiptum sínum og uppfærslu lánasafnanna.  Eðlilegt er að þeim ávinningi sé skipt á sanngjarnan máta milli þjóðarinnar og kröfuhafanna.

Til þess þarf kjark og þor.  Til þess þarf Framsókn fyrir Ísland.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. febrúar 2013)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur