Föstudagur 4.5.2012 - 18:50 - 4 ummæli

Ræða @ Stjórnarskrárfélaginu

(Þessi ræða var flutt á fundi Stjórnarskrárfélagsins 4. maí 2012. Umræðuefnið var 39. gr. í tillögum stjórnlagaráðs um tilhögun kosninga til Alþingis, sjá hér.)

Fundarstjóri, fundargestir:

Hlutverk okkar hér er að ræða 39. gr. frumvarps stjórnlagaráðs um kosingar til Alþingis.

Það er sannfæring mín að eitt erfiðasta og viðkvæmasta viðfangsefnið við breytingar á stjórnarskránni verði mótun kosningakerfis til Alþingis. Hver og einn þingmaður vill gjarnan telja sig geta tekið skynsama og rökrétta afstöðu, – en það getur verið erfitt þegar að því kemur.

Við síðustu kosningar lögðum við Framsóknarmenn mikla áherslu á lýðræði og réttlæti fyrir okkur öll. Því ætluðum við að ná fram með því að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá, stjórnarskrá sem tryggði sjálfstæði Alþingis og setti framkvæmdavaldinu skorður.

Megináherslur okkar voru að ný og nútímaleg stjórnarskrá yrði samin þar sem aðskilnaður löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds yrði skerptur til muna. Því ættu ráðherrar ekki að gegna þingmennsku og ráðning hæstaréttardómara að vera aðskilin frá framkvæmdavaldinu. Beint lýðræði yrði aukið og oftar leitað til þjóðarinnar um álit hennar á einstökum málum. Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum yrði tryggt í stjórnarskrá. Mannréttindi yrðu ætíð í hávegum höfð og þess gætt að allir þegnar gætu haldið reisn sinni. Brýnt væri að tryggja sjálfstæði fjölmiðla, sem oft eru nefndir fjórða valdið.

Hvað aðrar tillögur stjórnlagaráðsins varðar, hef ég reynt að nálgast þær á grundvelli framsóknar- og samvinnustefnunnar. Þar legg ég annars vegar til grundvallar stefnuskrá flokksins fyrir síðustu kosningar og þau markmið með stjórnarskrárbreytingum sem þar komu fram og hins vegar grunngildi Framsóknarflokksins og samvinnuhreyfingarinnar. Þar segir að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar og að manngildi sé ætíð sett ofar auðgildi.

Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslu á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsingar til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju manna fyrir samfélaginu sem þeir starfa í.

Er það ekki kjarninn í tillögu stjórnlagaráðsins um kosningar til Alþingis? Í greininni segir m.a.:“Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt…Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hvert þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.“

Sumir hafa túlkað hugtakið einn maður – eitt atkvæði sem jafnt vægi atkvæða þar sem hver og einn þegn þjóðfélagsins hafi sömu pólitísku áhrif. Ég er þó þeirrar skoðunar að pólitískt jafnrétti sé ekki aðeins jafnt atkvæðavægi eins og umræða hér á landi hefur mikið einkennst af, heldur einnig jafnræði til að ná árangri í kosningum og jafnræði til að hafa áhrif á löggjöf og landsstjórn.

Í kosningunum 2003 var í fyrsta skipti kosið skv. núverandi kosningakerfi. Markmið þessa kerfis voru margvísleg. Því var ætlað að jafna áhrif einstakra kjósenda, en um leið að tryggja að jafnræðið á landsvísu héldist og þingmannafjöldi flokka væri í hlutfalli við atkvæðamagn þeirra. Með breytingu á kjördæmaskipan var ætlunin að tryggja ákveðið landfræðilegt jafnvægi en um leið ákveðið jafnræði með kjördæmunum, að þau yrðu stór og með fjölbreytta innbyrðis hagsmuni þannig að þröngt hagsmunapot myndi ekki ráða ferðinni.

Þessum markmiðum hefur að mörgu leyti verið náð.

Misvægið hefur farið minnkandi og mun minnka enn frekar við alþingiskosningarnar 2012 þegar þingmaður mun flytjast frá NV-kjördæmi til Suðvesturkjördæmis. Þingmannafjöldi er í hlutfalli við atkvæðamagn sbr. að eftir kosningarnar 2009 var minn flokkur með 14,8% atkvæða og 14,3% þingmanna.

Í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, má t.d. finna ekki bara marga af fallegustu stöðum landsins, heldur einnig þéttbýli og dreifbýli, vaxtar- og samdráttarsvæði, öflugar sjávarbyggðir og sterkustu landbúnaðarhéruð landsins, fjölbreyttan iðnað og mikla ferðaþjónustu.

Mikill þrýstingur er þó að jafna misvægi atkvæða einstakra kjósenda líkt og kom fram á þjóðfundinum og auka pólitískt jafnrétti með tilliti til landfræðilegrar stöðu. Að sama skapi er mikil tortryggni gagnvart frekari breytingum hjá kjósendum víða um land.

Af hverju er það?

Meirihluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu. Þar má finna Alþingi, alla stærstu fjölmiðla landsins, alla stjórnmálaflokkana, öll megin hagsmunasamtökin, helstu fjármála- og stjórnsýslustofnanir og öll ráðuneytin. Þetta endurspeglast ekki hvað síst í öflun og eyðslu opinbers fjár sem er höfuðborgarsvæðinu ótvírætt í hag á meðan hlutfallið milli tekjuöflunar og ráðstöfunar er landsbyggðinni í óhag. Í könnun Vífils Karlssonar á ráðstöfun opinberra fjármuna árið 2002 kom fram að 75% opinbers fjár er ráðstafað í Reykjavík meðan aðeins 42% fjárins er aflað þar.

Frekari samþjöppun pólitísks valds í höfuðborginni með jöfnun atkvæða myndi þannig hugsanlega fela í sér minni pólitíska mismunun í orði, en áframhaldandi efnahagslega og pólitíska mismunun á borði.

Er það lýðræðislegra? Er það sanngjarnara? Tryggir það frekar jafnræði þegnanna? Er það í anda samvinnunnar?

Dr. Phil, uppáhaldssjónvarpslæknir minn, sagði einu sinni sem oftar að svarið við djúpum spurningum á borð við þessar væri oft að finna í annarri spurningu: „Hvernig er þetta að virka fyrir þig?“

Hér ætla ég að fá nota orðið „þú“ sem samnefnara fyrir mig og aðra íbúa landsbyggðarinnar.

Þetta misvægi atkvæða hefur ekkert virkað.

Núverandi misvægi atkvæða hefur ekki dregið úr samþjöppun valds og áhrifa hér á höfuðborgarsvæðinu. Við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna höfum mátt okkar lítils gagnvart rökum um hagræðingu og hagkvæmni í stjórnsýslunni sem endurspeglast meðal annars í fækkun opinberra starfa hringinn í kringum landið og átakanlegum niðurskurði heilbrigðisþjónustunnar eftir hrun.

Er því ekki kominn tími til að hætta berja hausnum við steininn? Er ekki réttar að taka umræðuna um leiðréttingu mismunar alla leið? Umræðuna um pólitískt jafnrétti?

Virða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, – sem er nánast samhljóða tillögum stjórnlagaráðsins?

Það gerum við með ákvæðum í stjórnarskrá um jafnt vægi atkvæða.

En einnig með ákvæðum í stjórnarskrá um aukið sjálfræði sveitarfélaganna, dreifingu stjórnsýslustofnana og ráðuneyta um land allt, sanngjarna dreifingu opinberra fjármuna í samræmi við öflun þeirra og með því að staðsetja Alþingi einnig út á landi.

En nánast ekkert af þessu má finna í tillögum stjórnlagaráðs.

Við hefðum þá kannski einhvern vopn til að verjast brynjuðum talsmönnum hagkvæmni og hagræðingar, – „Sorrí, – en þetta stendur í stjórnarskránni og eins og þú veist þá eigum við að virða stjórnarskránna. Meira að segja Landsdómur sagði það.“

Ef við eigum að leiðrétta mismunun þá verðum við að horfast í augu við alla mismunun, allt ójafnræði, alla ósanngirni, allan lýðræðis- og áhrifahalla – ekki bara það sem hentar okkur og okkar hagsmunum hverju sinni.

Eru menn tilbúnir til þess?

Eru menn tilbúnir til að byggja betra samfélagi á grunni samvinnunar?

Ég er tilbúin til þess.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.5.2012 - 17:18 - 5 ummæli

Stjórnarskrá fyrir okkur öll

Fyrir Alþingiskosningar 2009 lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á lýðræði og réttlæti fyrir okkur öll.  Því ætluðum við að ná með því að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá sem tryggði sjálfstæði Alþingis og setti framkvæmdavaldinu skorður.

Megináherslur okkar voru að ný og nútímaleg stjórnarskrá yrði samin þar sem aðskilnaður löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds yrði skerptur til muna. Því ættu ráðherrar ekki að gegna þingmennsku og ráðning hæstaréttardómara að vera aðskilin frá framkvæmdavaldinu.  Beint lýðræði yrði aukið og oftar leitað til þjóðarinnar um álit hennar á einstökum málum.  Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum yrði tryggt í stjórnarskrá. Mannréttindi yrðu ætíð í hávegum höfð og þess gætt að allir þegnar gætu haldið reisn sinni.  Brýnt væri að tryggja sjálfstæði fjölmiðla, sem oft eru nefndir fjórða valdið.

En hvar stöndum við nú?

Löng barátta
Framsóknarmenn hafa lengi barist fyrir grundvallarbreytingum á stjórnarskránni. Í ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknar gaus upp mikill ágreiningur um breytingar á stjórnarskránni fyrir kosningarnar 2007.  Þá var ekki hvað síst tekist á um auðlindaákvæðið og synjunarvald forsetans.  Bitur reynsla okkar framsóknarmanna af því ferli leiddi til hugmyndarinnar um sérstakt stjórnlagaþing sem yrði skipað þjóðkjörnum fulltrúum.  Aðeins þannig sáum við fram á að hægt yrði að ná fram jafn víðtækum breytingum á stjórnarskrá Íslands í átt að auknu lýðræði og réttlæti og okkur dreymdi um.  Á flokksþingi árið 2009 var því samþykkt tillaga um sérstakt stjórnlagaþing í þeirri von að átök á milli einstaklinga, hópa og stjórnmálahreyfinga og hremmingar undanfarinna ára byrgðu ekki sýn til framtíðar.

Mjög brösuglega hefur gengið að ná þessum markmiðum og er skemmst að minnast ógildingar Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings.  Mjög skiptar skoðanir hafa verið á milli þingmanna um ferlið í framhaldinu. Niðurstaða meirihluta Alþingis var að skipa stjórnlagaráð sem hefur skilað af sér tillögum um nýja stjórnarskrá. Er nú stefnt að því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu ásamt tilteknum grunnspurningum sem gætu aðstoðað þingmenn við úrvinnslu tillagna stjórnlagaráðs.

Af hverju breyta stjórnarskránni?
Í átökunum um þetta ferli getur verið auðvelt að gleyma sér og tapa sjónar á því hver markmiðin eru með breytingum á stjórnarskránni. Við breytum ekki bara breytinganna vegna. Við breytum til að ná fram ákveðnum markmiðum um betri stjórnskipun, betra samfélag, aukið lýðræði og aukið réttlæti.

Ég hef reynt að nálgast tillögur stjórnlagaráðsins á grundvelli framsóknar- og samvinnustefnunnar.  Þar legg ég annars vegar til grundvallar stefnuskrá flokksins fyrir síðustu kosningar og þau markmið með stjórnarskrárbreytingum sem þar komu fram og hins vegar grunngildi Framsóknarflokksins og samvinnuhreyfingarinnar. Þar segir að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar og að manngildi sé ætíð sett ofar auðgildi.

Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslu á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsingar til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju manna fyrir samfélaginu sem þeir starfa í. Undir þetta er svo tekið í grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins um að byggja þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.  Þar sem við berjumst fyrir mannréttindum og höfnum hvers konar mismunun.

Þessi gildi vil ég sjá endurspeglast í nýrri stjórnarskrá.

Samvinnuverkefni
Endurritun stjórnarskrár hlýtur alltaf að vera samvinnuverkefni. Líkt og einstakir meðlimir stjórnlagaráðs þurftu að láta af ítrustu kröfum sínum í einstökum málum til að ná sátt þurfa einstakir þingmenn og þingflokkar, sem og þjóðin öll að gera slíkt hið sama. Stjórnarskrá lýðveldisins getur aldrei orðið stefnuyfirlýsing einstakra flokka og hún má heldur ekki taka mið af einstökum dægurmálum, hversu brýn sem þau eru.

Hún þarf að vera rammi um samfélag okkar til framtíðar.

Fyrir okkur öll.

(Greinin birtist fyrst í DV 2. maí 2012)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.4.2012 - 17:03 - Rita ummæli

Líf og dauði

Ég dvaldi í tvo mánuði á meðgöngudeild Landspítalans sumarið 2006 vegna fyrirsætrar fylgju og blæðinga.  Yngri dóttir mín fæddist svo með keisaraskurði nokkrum vikum fyrir tímann.

Þetta var einkennilegur tími.  Erfiður tími.  Eftirminnilegur tími.

Konur komu og fóru.  Sumar stoppuðu stutt, aðrar í nokkrar vikur.

Fréttir utan deildarinnar hættu að skipta máli.  Mestu máli skipti baráttan innan dyra.  Á hverju kvöldi og hverjum morgni tékkaði ég á hreyfingum hjá dóttur minni.

Ég gleymi aldrei þegar herbergisfélagi minn kom inn eitt kvöldið og sagði: „Það var barn að deyja.“ Ég spurði: „Hvernig veistu?“  og hún svaraði: „Þær voru að kveikja á kerti.“

Starfsfólkið sagði ekki orð heldur sinnti okkur af sömu umhyggju og alltaf.

En þetta kvöld var mikil kyrrð yfir öllum á deildinni.

Við vorum allar minntar á af hverju við vorum þarna.

Að þetta snérist um líf og dauða.

———–

Ég vil því hvetja alla til að styðja við Styrktarfélag Líf sem safnar nú fyrir betri aðstöðu fyrir konur sem fæða andvana börn ásamt meistaraflokki kvenna í Val.

Hægt er að hringja í síma 9081515 og gefa 1500 kr. eða mæta á styrktarleikinn hjá Valskonum 2. maí.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.4.2012 - 08:24 - 6 ummæli

Framtíð á Íslandi

Fyrir stuttu kvaddi ég gamla vini.  Þau voru að flytja erlendis og höfðu ekki í hyggju að snúa aftur.  Staðan á Íslandi var rædd.  Fleiri vinir sögðu að þeir væru að íhuga að fara.  Allt barnafólk með góða menntun, í vinnu og búsett á höfuðborgarsvæðinu.

Allir nefndu baslið við að halda í húsnæðið, reka bílinn og borga tómstundir fyrir börnin.  Húsnæðislánakerfið væri í rugli, verðtryggðu lánin hækka bara og hækka, launin duga varla til að standa undir lágmarksframfærslu og afborgunum, og áherslan virðist vera á að refsa fólki fyrir að standa í skilum, – hvað þá að eiga börn.

Samanburður við vini þeirra erlendis þegar kæmi að launum og lánum væri sláandi.

Einn dæsti og sagði: „Það er hálfeinkennilegt að flokkast sem hátekjufólk, starfandi við kennslu hjá ríkinu.  Greiða aukalega í skatt, fá nánast engar vaxta- eða barnabætur með þrjú börn og ná ekki endum saman í alltof lítilli íbúð og fimm ára gömlu fólksbíl.  Hvaða framtíð er eiginlega á Íslandi?“

Allt misskilningur?
Ég var mjög hugsi eftir þetta samtal og birti pistil um þetta á vefsíðu minni.  Viðbrögðin voru margvísleg.  Margir bentu á Evrópusambandið og evruna sem lausn á meðan aðrir töldu að menn ættu nú ekki að kvarta yfir 5 ára gömlum bíl.  Grasið væri ekki alltaf grænna í útlöndum og þingmaður ætti nú ekki að láta svona svartagallsraus frá sér.

Skilaboðin frá núverandi stjórnvöldum eru  mjög svipuð.  Það varð hrun, staðan sé ekkert slæm miðað við það, margir hafa það verr, fólksfækkunin sé ekkert meiri en í síðustu kreppu og þetta sé allt á réttri leið.

Hlutverk þeirra sem stjórna landinu er að hlusta, greina vandann, koma með lausnir og framkvæma þær.  Lausnir sem gera það að verkum að fólk hafi trú á framtíð hér á Íslandi.   Ég hef trú á Íslendingum og getu okkar til að vinna okkur út úr þessu.   Leiðin til þess er ekki  að veifa niðurskurðarhnífnum og hækka skatta. Við vinnum okkur út úr vandanum aðeins með því að taka á skuldavandanum og atvinnusköpun.

Án vinnu verður hvorki vöxtur né velferð og heimili og fyrirtæki sem eru að drukkna í skuldum skapa engin ný störf.  Fyrirtæki sem eru tæknilega gjaldþrota leggja ekki í fjárfestingar, rannsóknir eða þróun og ráða ekki nýja starfsmenn.  Heimili sem eru á mörkum þess að geta greitt skuldir sínar bíða með að endurnýja teketilinn, fara sjaldnar í klippingu og aka eins lengi á gömlu sumardekkjunum og mögulegt er.

Afleiðingin er engin vinna, enginn vöxtur og engin velferð.

Framsóknarlausnir
Þess vegna hefur þingflokkur Framsóknarmanna ítrekað lagt fram tillögur til lausnar á skuldavandanum.  Nú síðast með því að leggja til að skattkerfið verði nýtt til að koma til móts við vanda yfirskuldsettra heimila og takast á við lánsveð og skort á greiðsluvilja.  Auk þess höfum við lagt fram frumvarp um 4% þak á hækkun verðtryggingar á meðan við leitum leiða til að afnema verðtryggingu á neytendamarkaði og lækkum vexti.

Samhliða aðgerðum til lausnar skuldavandans verður að grípa til aðgerða til atvinnusköpunar.  Grunnurinn að því eru nær 50 tillögur til sköpunar 12 þúsund nýrra starfa sem þingflokkur Framsóknarmanna hefur lagt fram á Alþingi.  Sköpun meiri verðmæta með vinnu er forsenda hærri launa, betri samkeppnishæfni og aukinnar velmegunar.

Í atvinnusköpuninni verðum við að trúa á getu okkar til að vera sjálfum okkur sem mest nóg.  Við verðum að velta fyrir okkur hvað við getum framleitt hér innanlands í auknu mæli til að búa til störf og spara gjaldeyri.  Mikilvægur þáttur í því er að nýta auðlindir, landið og fólkið okkar á sem bestan máta, – til að skapa framtíð fyrir börnin okkar.

Eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar var það mikil framsýni hjá Íslendingum að beina Marshall aðstoðinni m.a. í uppbyggingu virkjana, vega og sjávarútvegsins og njótum við öll góðs af því enn í dag.  Næstu stóru skref verða að koma landbúnaðinum, sjávarútveginum, bílaflotanum og flugvélunum okkar yfir á innlenda, endurnýjanlega orkugjafa. Sama nálgun þarf að vera í uppbyggingu á innlendri matvælaframleiðslu.  Að við tryggjum að sem mest af íslenskum matvælum verði í matarkörfu okkar, á borðum erlendra ferðamanna sem sækja okkur heim og til útflutnings.

Tökum á skuldunum.  Byggjum upp atvinnu.  Tryggjum þannig velferðina.

Framtíð á Íslandi fyrir okkur öll.

(Greinin birtist fyrst í DV)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.4.2012 - 17:09 - 15 ummæli

Framsóknarfordómar Óttars

Ég og félagar mínir fengum slæma útreið hjá Óttari Guðmundssyni, rithöfundi og geðlækni nýlega í frétt á Visir.is.  Eftir að hafa tjáð sig ítarlega um geðraskanir Egils Skallagrímssonar segir Óttar: „…hann hefði getað orðið dæmigerður framsóknarbóndi og stundað þar grimma eiginhagsmunahyggju, en hann hugsaði alltaf fyrst og fremst um sig sjálfan.“

Mig setti hljóða um stund eftir að hafa lesið þetta.

Í siðareglum lækna er talað um að læknir skuli rækja starf sitt af vandvirkni og samviskusemi án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi áhrifa. Hann skal jafnframt hafa velferð sjúklinga og samfélags að leiðarljósi.

Ég tel tjáningarfrelsi vera eitt af grundvallarréttindum hvers manns. Þannig mun ég standa vörð um rétt hvers og eins til að tjá fordóma sína og andúð á framsóknarmönnum, sama hversu ógeðfellt það kann að vera, – að því gefnu að ekki sé hvatt til refsiverðar háttsemi.

Hins vegar verð ég að gera þá kröfu að aðgát sé höfð í nærveru sálar. Óttar Guðmundsson, læknir og starfsmaður Landspítalans verður því að íhuga hvers konar tilfinning þá sé fyrir framsóknarmann að leita sér aðstoðar hjá honum eftir þessi orð.

Að læknirinn telji hann snarklikkað, siðblint illmenni með alvarlega geðhvarfasýki, sem hugsi alltaf fyrst og fremst um sjálfan sig, – bara vegna stjórnmálaskoðana sinna?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.4.2012 - 08:55 - 1 ummæli

Landsdómur

(Ræða flutt á Alþingi 20.9.2010).

Virðulegi forseti. Ég fæ að vitna hér, með leyfi forseta:

„Hrun íslensku bankanna í byrjun október olli einstaklingum hér og erlendis miklu fjárhagslegu tjóni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir allt samfélagið, menntun og menningu, jafnt sem atvinnu og athafnalíf. Hið himinhrópandi ranglæti sem er afleiðing af hruni fjármálakerfisins er það að almennir borgarar sitja uppi með reikninginn. Afar brýnt er að skorið verði úr um ábyrgð stjórnenda og eigenda bankanna annars vegar og stjórnvalda hins vegar á því sem gerðist. Réttlætiskrafan lýtur fyrst og fremst að því að sannleikurinn verði leiddur í ljós, að engum verði hlíft við að horfast í augu við mistök eða misgjörðir ef um slíkt er að ræða og að opinská umræða fari fram um þær ákvarðanir sem ýmist stuðluðu að hruninu eða dugðu ekki til að koma í veg fyrir það. Krafan um réttlæti er oft einnig krafan um makleg málagjöld þeirra sem brotið hafa af sér. En í því hruni sem orðið hefur hér á landi er erfitt að sjá fyrir sér hvers konar málagjöld eru viðeigandi. Sú spurning er samofin spurningunni um það hvernig við sem þjóð sjáum Ísland fyrir okkur sem réttarríki.“

Þessa yfirlýsingu sendu 14 heimspekingar frá sér í nóvember 2008. Mér varð hugsað til þessarar yfirlýsingar þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt og nefndarmenn upplýstu að af 147 einstaklingum sem kallaðir voru fyrir nefndina viðurkenndi enginn sök eða ábyrgð í aðdraganda hrunsins.

Mér varð aftur hugsað til þessa þegar ljóst var að þeir ráðherrar og embættismenn sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi hafa orðið uppvísa að vanrækslu í störfum sínum virtust ekki geta horfst í augu við mistök eða misgjörðir sínar. Og enn á ný hefur mér orðið hugsað til þessara orða undanfarna daga þegar ýmsir hafa spurt hvers vegna við getum ekki einfaldlega sett á stofn sátta- og sannleiksnefnd í anda þeirrar sem sett var á laggirnar í Suður-Afríku til að gera upp aðskilnaðarstefnu hvíta minni hlutans þar í landi. Það er nefnilega svo að fyrsta skrefið til að hægt sé að leita sátta er að menn horfist í augu við eigin gjörðir, viðurkenni ábyrgð sína, viðurkenni mistök sín og viðurkenni vanrækslu sína. Aðeins þannig er hægt að byrja að fyrirgefa.

Ekkert réttlæti er fólgið í því að sópa öllu undir teppið og neita að horfast í augu við þá staðreynd að bæði fólk og stefna brást í aðdraganda hrunsins. Það getur ekki verið réttlæti. Þannig getur Ísland ekki verið sem réttarríki.

Því er það sannfæring mín að hluti af endurreisn Íslands sé að skera úr hver sé ábyrgð stjórnenda og eigenda bankanna annars vegar og stjórnvalda hins vegar í samræmi við leikreglur réttarríkisins.

Samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar er það í höndum Alþingis að taka ákvörðun um málshöfðun á hendur ráðherra. Greinin er svohljóðandi:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Þess vegna erum við hér samankomin í dag til að ræða hvort Alþingi eigi að kæra ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra fyrir landsdómi. Í lok árs 2008 tók Alþingi ákvörðun um að setja á stofn rannsóknarnefnd Alþingis. Hlutverk hennar skyldi m.a. vera að taka saman upplýsingar svo að Alþingi gæti tekið afstöðu til hugsanlegra brota á lögum um ráðherraábyrgð. Nauðsynlegt var að skipa nefndina þar sem eitt af frumskilyrðum þess að Alþingi geti tekið afstöðu til ráðherraábyrgðar er að ítarleg rannsókn hafi farið fram á þeim sakargiftum sem bornar eru á ráðherra. Því sagði í 14. gr. laga um rannsóknarnefnd Alþingis, með leyfi forseta: „Um ábyrgð ráðherra fer samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.“

Jafnframt segir í 14. gr., með leyfi forseta:

„Ekki er heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum.“

Réttarstaða einstaklinga fyrir rannsóknarnefndinni var þannig tryggð með því að þeir gátu neitað að tjá sig, þeir gátu líka haft með sér lögmann og þar að auki má ekki nota framburð þeirra fyrir nefndinni fyrir landsdómi eða öðrum dómstólum. Þingmannanefndin var svo kosin í lok árs 2009 og var falið að taka afstöðu til þeirra ítarlegu gagna sem lágu fyrir um hvort athafnir eða athafnaleysi ráðherra í fyrsta og öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vörðuðu við ráðherraábyrgðarlögin.

Ef Alþingi ákveður að samþykkja þingsályktunartillögu þess efnis mun saksóknari Alþingis leggja nýjan grunn að málinu með yfirheyrslum, vitnaleiðslum o.s.frv. Landsdómur hefur einnig verulegt svigrúm til að túlka málsmeðferðarreglur laganna um landsdóm til samræmis við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Eftir að þingsályktunartillaga er samþykkt um málshöfðun og saksóknari og varamaður kosinn ásamt fimm manna þingnefnd er málið komið úr höndum Alþingis.

Mikil umræða hefur verið um hvort málsmeðferðin stangist á við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Árið 1996 reyndi á málsmeðferð danska ríkisréttarins sem er á margan hátt mjög sambærilegur landsdómi fyrir mannréttindadómstóli Evrópu. Helstu röksemdir fyrir þeirri kæru voru að málsmeðferðin fyrir rannsóknarréttinum, sem var sambærilegur rannsóknarnefndinni hér, hafi ekki verið réttlát, ríkisrétturinn hafi ekki verið óháður og óvilhallur dómstóll, sakborningur hafi ekki fengið að leiða tvö vitni fram til stuðnings frávísunarkröfu, afrit yfirheyrslna fyrir rannsóknarréttinum voru lögð fyrir ríkisréttinn sem verður ekki heimilt hér, meðferð málsins var haldið áfram þrátt fyrir slæmt heilsufar sakbornings og að málinu hafi ekki verð lokið innan hæfilegs tíma. Árið 1999 vísaði Mannréttindadómstóll Evrópu málinu frá.

Í upphafi vinnu þingmannanefndarinnar var töluverð umræða um málsmeðferðina á meðan við sátum og biðum eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Án efa vorum við eina fólkið í landinu sem þakkaði fyrir hvern dag sem skýrslan tafðist svo að við gætum undirbúið okkur sem best og tíminn var nýttur mjög vel til að grandskoða lög um landsdóm og ráðherraábyrgð. Niðurstaða þeirrar vinnu var að ekki væri nauðsynlegt að fara í breytingar á lögum um landsdóm. Sú ákvörðun var tekin áður en við vissum hver niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis yrði.

Ástæðan fyrir minni afstöðu var tvíþætt. Í fyrsta lagi vegna þess að ég sannfærðist um að lögin standist mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi ef svo ólíklega vildi til að svo væri ekki væri það mjög óeðlilegt og óréttlátt gagnvart þeim ráðherrum sem hugsanlega yrðu ákærðir að breyta lögunum um landsdóm eftir að hugsanleg brot voru framin einfaldlega til að geta neglt betur viðkomandi ráðherra. Slíkt hefði jafnvel jaðrað við afturvirkni og einstaklingsbundna lagasetningu sem Mannréttindadómstóllinn hefur tekið mjög skýra afstöðu gegn og telur vera mannréttindabrot.

Hlutverk okkar þingmanna er skýrt. Við erum ekki hér samankomin til að dæma eða útdeila refsingu. Hlutverk okkar er að meta hvort skilyrði ráðherraábyrgðarinnar eru uppfyllt eða ekki. Við erum í hlutverki ákæranda, en ekki dómara. Aldrei dómara.

Lög um ráðherraábyrgð setja tvenns konar skilyrði fyrir ábyrgð ráðherra; huglæg og hlutlæg. Huglæg skilyrði eða hin svokölluðu saknæmisskilyrði varða vilja afstöðu ráðherra til hins ólögmæta atferlis, en hin hlutlægu hið ólögmæta ferli sem ábyrgð varðar og eru tilgreind í 8.–10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna. Til að uppfylla þessi saknæmisskilyrði dugar ekki almennt gáleysi. Ráðherra verður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi að hafa framið þau brot sem um ræðir í lögunum. Ráðherraábyrgðarlögin varða embættisbrot ráðherra eða þá háttsemi sem ráðherra hefur viðhaft í krafti þess valds sem fylgir embætti hans. Í lögunum er að finna þrjár tegundir brota; stjórnarskrárbrot, brot á öðrum landslögum og brot á góðri ráðsmennsku og geta brotin verið fólgin bæði í athöfnum og athafnaleysi. Í þingsályktunartillögunum, sem við erum að fjalla hér um, er að finna tillögur um ákærur vegna brota á stjórnarskránni og brots á góðri ráðsmennsku, til vara er auk þess lagt til að ákært sé fyrir 141. gr. almennra hegningarlaga er varðar stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í opinberu starfi.

Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis verður ráðið að ríkisstjórnin í heild hafi ekki fengið skýrslu eða rætt formlega málefni bankanna á ráðherrafundi frá ársbyrjun 2008 og þangað til allt var komið í óefni í lok september sama ár. Í 17. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra sem forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis og nefnist hann forsætisráðherra.“

Ganga verður út frá því að vandamál þau sem blöstu við ríkisstjórn frá febrúar fram í október 2008 varðandi aðsteðjandi hættu er þá vofði yfir fjármálastofnunum landsins og ríkissjóði hafi mátt teljast mikilvæg stjórnarmálefni í skilningi 17. gr. stjórnarskrárinnar. Vart er hægt að hugsa sér öllu mikilvægari stjórnarmálefni en þau óveðursský sem þá voru að hrannast upp.

Telja verður að til að mynda þær upplýsingar sem fram komu samandregnar á fundum 7. febrúar 2008 og ekki hvað síst yfirlýsingin frá 15. maí 2008, þar sem þrír ráðherrar samþykktu að víkja stjórnarsáttmála ríkisstjórnar til hliðar, verði að teljast mikilvæg stjórnarmálefni. Ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja að besta mögulega ákvörðun verði tekin þar sem betur sjá augu en auga. Markmiðið er að tryggja lýðræðislega aðkomu allra þeirra sem stjórna eiga landinu. Það var ekki virt. Við fáum því aldrei úr því skorið hvort samráð milli þeirra ráðherra sem málið heyrði undir sem og samráð við aðra ráðherra hefði haft áhrif á framvindu mála, til að mynda með því að auka þrýsting á forsætisráðherra og aðra ráðherra sem málið varðaði til að afla frekari upplýsinga og gagna og vinna meira í málefnum bankanna.

Þótt því hafi verið haldið fram að alvanalegt sé að ráðherrar og þá einkum forustumenn ríkisstjórnarflokka ræði saman utan formlegra ríkisstjórnarfunda og leiði óformlega til lykta ýmis vandasöm úrlausnarefni hefur slík framkvæmd ekki myndað stjórnskipunarvenju og má ekki gera það. Slíkt fyrirkomulag kann að virðast skilvirkt og hagkvæmt en það brýtur einfaldlega í bága við þá stjórnskipun sem hér ríkir. Við búum við lýðræði á Íslandi, ekki einræði og ekki oddvitaræði. Þetta fyrirkomulag ógnar lýðræðinu og ógnaði heill íslenska ríkisins.

Því er lagt til að allir fjórir ráðherrarnir verði ákærðir sérstaklega fyrir brot á 8. gr. c laga nr. 4/1963, eða hinum svokölluðu ráðherraábyrgðarlögum, sem felst í því að fyrirsjáanleg hætta er varðaði heill íslenska ríkisins, sem sífellt óx, skuli ekki hafa verið rædd á ráðherrafundi eins og skylt er skv. 17. gr. stjórnarskrárinnar.

Jafnframt er lagt til að allir fjórir ráðherrarnir verði ákærðir fyrir 10. gr. b-liðar sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum: Ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir.“

Lykilatriðið sem ég bið alla þingmenn að hafa í huga hvað varðar þessa grein er hugtakið „fyrirsjáanleg hætta“ sem stofnar heill ríkisins í hættu. Hér er um að ræða hættubrot og þá gildir fyrir hv. þingmenn að skoða hættuna sjálfa. Vissu ráðherrarnir af tilvist hættunnar? Var hættan fyrirsjáanleg frá almennu sjónarmiði, þ.e. fyrir fram sýnileg manni í sporum ráðherra óháð því hvort hlutaðeigandi ráðherra hefur í raun gert sér grein fyrir hættunni eða ekki? Höfðu ráðherrarnir vitund um hættuna? Og brugðust ráðherrarnir ekki við hættunni þótt þeim hefði verið það unnt? Sé öllu þessu svarað játandi er um ásetningsbrot að ræða, en hafi ráðherra skort vitund um hættuna var vanræksla hans að líkindum stórkostlegt hirðuleysi.

Ákvörðun okkar flutningsmanna um að leggja til að fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, verði kærður fyrir brot gegn b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna og 141. gr. hegningarlaga til vara byggist á því að athafnaleysi ráðherrans falli undir verknaðarlýsingu ákvæðisins. Á ráðherrunum hvíldi m.a. sú skylda að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Hann bar ábyrgð á málefnum Seðlabankans. Aðeins verður sakfellt fyrir brot framin af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi. Því vísum við til yfirlýsinga forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra til norrænu seðlabankanna, fyrir utan þann finnska, frá 15. maí 2008. Þar var því heitið að dregið yrði úr stærð bankanna, breytingar gerðar á Íbúðalánasjóði, gjaldeyrisvaraforðinn aukinn og sparað í ríkisrekstri, en lítið var um efndir. Ef einnig er höfð hliðsjón af fundinum 7. febrúar og af þeim viðvörunarbjöllum sem klingdu þetta vor, áhlaup á Landsbankann í London í byrjun apríl, athugasemdir Jean Claude Trichets í mars, apríl og júlí o.fl. og að forsætisráðherra undirritaði aðgerðaáætlun til að tryggja fjármögnun Seðlabankans, eru saknæmisskilyrðin uppfyllt að mínu mati.

Hvað varðar ákvörðun okkar flutningsmanna um að leggja til að fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, verði kærð fyrir brot á b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna, eru rökin eftirfarandi:

Þáverandi utanríkisráðherra skrifaði undir yfirlýsinguna gagnvart norrænu seðlabönkunum sem utanríkisráðherra. Undirritunin var embættisverk utanríkisráðherra en ekki pólitísk forusta. Að auki sat utanríkisráðherra margnefndan fund 7. febrúar 2008 auk fleiri funda, m.a. í aprílbyrjun, þegar áhlaup var gert á Landsbanka Íslands í London. Ráðherra hafði því allar forsendur til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að aðhafast vorið 2008. Telja verður að utanríkisráðherra, sem hefur skrifað undir formlega yfirlýsingu af því tagi sem hér um ræðir, beri skylda til að fylgja því eftir að unnið sé að því sem þar er tiltekið. Það er því niðurstaða flutningsmanna að ákæra beri fyrrverandi utanríkisráðherra rétt eins og hina ráðherrana sem hér er fjallað um fyrir að hafa af ásetningi, eða a.m.k. af stórkostlegu hirðuleysi, látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að ríkisvaldið brygðist við alvarlegum upplýsingum um stöðu bankanna og einkum að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, að minnsta kosti með tillögu um það til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli, vinna að því að draga úr stærð bankakerfisins og ekki hvað síst að tryggja flutning Icesave í Bretlandi í dótturfélag.

Við leggjum einnig til að fyrrverandi fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, verði kærður fyrir brot gegn b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna og 141. gr. hegningarlaga til vara — þar sem fyrrverandi fjármálaráðherra var einn þeirra ráðherra sem undirrituðu yfirlýsinguna gagnvart danska, norska og sænska seðlabankanum. Fjármálaráðherra ber að hafa almennt eftirlit á valdsviði sínu og hafa frumkvæði að nauðsynlegum aðgerðum á því sviði og við stjórn landsins almennt í samvinnu við aðra ráðherra. Honum ber að annast almennt um fjármál ríkisins og um lánsfjármál ríkissjóðs, lántökur ríkisstofnana og ríkisábyrgðir. Í krafti þessa fékk hann svipaðar eða sömu upplýsingar og forsætisráðherra. Í krafti þessa bar honum að grípa til aðgerða eða tryggja að aðrir gerðu það. Ráðherrann hafði jafnframt upplýsingar um stöðu mála er varðar Icesave-reikningana í gegnum samráðshópinn og því þykir rétt að ákæruliður um athafnaleysi í tengslum við flutning reikninganna í dótturfélag nái einnig til fyrrverandi fjármálaráðherra, sérstaklega í ljósi starfssviðs eða valdsviðs ráðherrans sem ég fór í gegnum hér áðan.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem ég stend að er lagt til að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, verði ákærður fyrir brot á 10. gr. b-liðar og 141. gr. hegningarlaga til vara. Þetta er þrátt fyrir að staða ráðherrans hafi að mörgu leyti verið önnur en staða fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra. En viðskiptaráðherra vissi af fundinum 7. febrúar nokkrum dögum eftir að hann átti sér stað. Hann fundaði með bönkunum í framhaldi af því. Hann átti aðkomu að samráðshópnum og það liggur algerlega skýrt fyrir að hann fékk þær upplýsingar sem hann þurfti þaðan og hann fékk upplýsingar strax í apríl um að seðlabankastjóri Evrópu teldi íslensku bankana leggja að hluta til málamyndagerninga að veði fyrir lánum hjá seðlabanka Lúxemborgar. Í gegnum fundi samráðshópsins fékk hann einnig fullnægjandi upplýsingar um starf hópsins, en þar var t.d. flutningur Icesave-reikninganna og staða tryggingarsjóðsins ítrekað rædd. Undir ráðherrann féll einnig að hafa eftirlit með Fjármálaeftirlitinu og Tryggingarsjóði innstæðueigenda.

Hvað mína afstöðu varðar réði það síðast en ekki síst ákvörðun um að leggja til ákæru á hendur fyrrverandi viðskiptaráðherra að starfssvið viðskiptaráðherra var fyrst og fremst fjármálakerfið. Það var hans verkefni að fylgjast með, greina og reyna að skilja það sem fram fór í kringum hann. Þeirri ábyrgð gat hann ekki komið á aðra né aðrir létt af honum.

Í landinu eru í gildi lög um ráðherraábyrgð og landsdóm. Hlutverk okkar þingmanna er því skýrt. Við erum ekki hér saman komin til að dæma eða útdeila refsingu. Okkar hlutverk er að meta hvort skilyrði ráðherraábyrgðarinnar eru uppfyllt eða ekki. Við höfum stjórnskipulega skyldu að leggja efnislegt mat á fyrirliggjandi gögn og málsatvik samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi og fylgja sannfæringu okkar í því mati. Grundvöllur þess mats er viðamesta rannsókn sem hefur verið farið í á Íslandi sem hefur verið birt í níu bindum rannsóknarnefndar Alþingis.

Þetta hlutverk okkar er erfitt. Þá vil ég hins vegar minna hvern og einn þingmann á að ekkert af þeim verkefnum sem við fáumst við hér á þingi er auðvelt. Þau eru öll erfið. Þau varða öll líf fólks. Við erum kosin til að sinna þessu hlutverki okkar. Við erum kosin til að sinna því af hugrekki, heiðarleika og festu. Ég vona að við munum gera nákvæmlega það í þessu máli.

Flokkar: Fjármálakerfið · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.4.2012 - 22:20 - 4 ummæli

Kræklingur í Hvalfirði

Fjölskyldan ákvað að eyða deginum í leit að kræklingi í Hvalfirðinum.  Tékkað var hvenær háfjara væri, góðum vinum boðið með, stígvél fengin að láni hjá vandamönnum og nesti pakkað í stóra tösku.

Veðurguðirnir voru með á nótunum og fjörðurinn nánast spegilsléttur.

 

Afrakstur dagsins kominn heim í vaskinn…

 

Og í pottinn.

Góður dagur að kveldi kominn 🙂

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.4.2012 - 20:33 - 23 ummæli

Framtíð á Íslandi?

Ég kvaddi fyrir stuttu  gamla vini.  Þau voru að selja allt sitt hafurtask og flytja af landi brott.  Stefna ekki að því að koma aftur heim.

Staðan á Íslandi barst í tal. Fleiri viðstaddir sögðu að þeir væru að íhuga að fara.  Allt barnafólk með góða menntun og í ágætis vinnu.  Allir að basla við að halda í húsnæðið, reka bílinn og borga tómstundir fyrir börnin sín. Húsnæðislánakerfið væri allt í rugli, verðtryggðu lánin hækka bara og hækka, launin duga varla til að standa undir lágmarksframfærslu og afborgunum, og áherslan virðist vera á að refsa fólki fyrir að standa í skilum, – hvað þá að eiga börn.

Samanburður við vini þeirra erlendis þegar kæmi að launum og lánum væri sláandi.

Einn dæsti og sagði: „Það er hálfeinkennilegt að flokkast sem hátekjufólk, starfandi við kennslu hjá ríkinu. Greiða aukalega í skatt, fá nánast engar vaxta- eða barnabætur með þrjú börn og ná ekki í endum saman í alltof lítilli íbúð og fimm ára gömlum fólksbíl.“

„Hvaða framtíð er eiginlega á Íslandi?“ spurði hann.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.4.2012 - 08:31 - 7 ummæli

Óhreyfð innlán til góðs?

Innlánsreikningar sem staðið hafa óhreyfðir í 15 ár eða lengur eru 100.084 með um 1,5 ma. kr. inn á þessum reikningum.  Ef eigendur vitja þeirra ekki að 20 árum liðnum fyrnast þeir og fjármálafyrirtækin eignast þessa peninga sbr. 4. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Bretar ákváðu að engin ástæða væri til að styrkja fjármálafyrirtækin sérstaklega hvað þessa reikninga varðar.  Þeir ákváðu að breyta lögum þannig að óhreyfðir innlánsreikningar skyldu fyrnast að 15 árum liðnum og fara í sérstakan sjóð til styrktar góðgerðarmálum, the Big Society Investment Fund.  Í lok árs 2011 var úthlutað úr sjóðnum m.a.  til að fjármagna viðskiptahugmyndir langtímaatvinnulausra, aðstoða ungt fólk við að fá vinnu, bæta orkusjálfbærni samfélaga og starta fyrsta samfélagslega hlutabréfamarkaðnum.

Ef eigendur óhreyfðu innlánsreikninganna vitja peninganna eftir að þeir hafa verið fluttir yfir  í sjóðinn, fá þeir peningana aftur með vöxtum.

Þessi sjóður er hluti af stærra verkefni, hinu svokallaða Big Society.  Big Society er ætlað að tryggja almenningi meiri áhrif og tækifæri til að stjórna lífi sínu.   Samfélagslegi hluti samfélagsins (fjölskyldur, vinir, nágrannar, frjáls félagasamtök, samfélagsrekstur og netverk)  á að verða  stærri og sterkari með valddreifingu, með því að fólk og samfélög fái raunveruleg áhrif og ábyrgð og tryggja þannig sanngirni og tækifæri fyrir alla.

Allt hluti af grunngildum samvinnuhugsjónarinnar um samvinnu, lýðræði, sjálfsábyrgð, valddreifingu, samfélagsábyrgð og jafnrétti.

Í þessum pakka eru hugmyndir á borð við að tryggja sveitarfélögum aukin áhrif og völd, gera íbúum og opinberum starfsmönnum kleift að taka yfir rekstur opinberrar þjónustu á samfélagslegum grunni (lesist: hagnaðarlaus samvinnufélög / coop), skattalegar ívilnanir fyrir gjafir til góðgerðasamtaka, styðja við samfélagsrekstur á borð við samvinnufélög, gagnkvæm félög og góðgerðasamtök og síðast en ekki síst nýta fjármagnið á óhreyfðum innlánsreikningum til setja á stofn samfélagsfjárfestingasjóðinn Big Society Investment Fund.

Ég hef mikinn áhuga á að sjá sambærilegt verkefni  hér á landi. Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp um skattaívilnanir til góðgerðasamtaka, spurst fyrir um óhreyfða innlánsreikninga og hyggst koma fram með frekari tillögur þessa efnis.

Er ekki löngu kominn tími til að styðja við samfélagið okkar og hvetja til samvinnu?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2012 - 22:15 - 6 ummæli

Markaðsverð á fisk

Í bókun við skýrslu endurskoðunarnefndar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sögðu fulltrúar Farmanna  og Fiskimannasambands Íslands, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjómannasambands Íslands og VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna að:

  1. ákvæði komi inn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um þjóðareign á auðlindinni.
  2. veiðiheimildir verði bundnar við skip.
  3. framsal á veiðiheimildum frá skipi verði bannað. Geti útgerð ekki nýtt veiðirétt sinn sjálf beri að skila umframrétti til ríkisins, sem síðan endurúthlutar réttinum til annarra eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Þó verði útgerð heimilt að flytja veiðiheimildir milli eigin skipa og útgerð verði einnig heimilt að skipta við aðrar útgerðir á veiðiheimildum í einstaka tegundum, enda sé um jöfn skipti að ræða miðað við þorskígildisstuðla sem gefnir verða út opinberlega.
  4. allur óunninn afli sem landað er verði seldur á markaði eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða í beinum viðskiptum.
  5. í lög verði sett ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu, á hliðstæðan hátt og kveðið er á um í raforkulögum nr. 65/2003. Þar sem óheimilt verði, út frá samkeppnissjónarmiðum, að fénýta aflaheimildir til niðurgreiðslu á hráefni í eigin vinnslur. *

Undir þessa bókun tek ég. Ekki endilega að allur fiskur fari á markað, – heldur að markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða er kemur að uppgjöri við sjómenn í beinum viðskiptum.

Fyrirtæki greiða ekki útsvar. Það gera sjómenn. Því myndi þetta skipta  miklu máli fyrir sjávarbyggðirnar.

Þetta væri hugsanlega mun skilvirkari leið til að skila verðmætunum af auðlindinni til samfélagsins en tillaga stjórnvalda um  hærra auðlindagjald.

*Hér er ekki átt við eignarlegan aðskilnað.  Enn gætu sömu aðilar átt og stjórnað virðiskeðjunni en fyrirtækið yrði gert upp sem sjálfstæð bókhalds- og skattaleg eining.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur