Sunnudagur 29.1.2012 - 15:09 - 10 ummæli

MBL vs. RÚV

Það hefur verið bráðskemmtilegt að sjá RÚV og MBL takast á um hlutdrægni eða hlutleysi sitt.

Sérstaklega í ljósi þess að ritstjórn Morgunblaðsins hefur rekið mjög ákveðna ritstjórnarstefnu.  Sú stefna virðist vera í góðri sátt við eigendur blaðsins, og litlu skipta færri lesendur eða minnkandi traust á blaðinu.

Ekkert að því að hafa skýra ritstjórnarstefnu.

Hins vegar væri fyrst ástæða til að hafa  áhyggjur af hlutleysi RÚV, –  ef fréttamatið væri eins og hjá hæstráðanda í Hádegismóum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.1.2012 - 08:00 - 10 ummæli

Hvetjum til húsnæðissparnaðar

Sögulega hefur lítill sparnaður verið á Íslandi.  Því hafði það alvarlegar afleiðingar þegar lög um sparnað vegna húsnæðis voru afnumin í lok síðustu aldar.  Það unga fólk sem keypti sína fyrstu eign á árunum 2000 til 2008 átti lítið sem ekkert eigið fé.  Til að koma til móts við takmarkað eigið fé stóðu því til boða lán með allt að 100% veðsetningu.  Fáir valkostir buðust umfram séreign og eina leiðin sem margir sáu til að tryggja sér öruggt húsnæði var að taka lán og fá lánað veð hjá ættingjum og vinum.

Í dag stendur þessi hópur eftir með þunga skuldabyrði vegna mikilla hækkana á verðtryggðum lánum og lækkandi fasteignaverðs.  Búsetuformum hefur ekki fjölgað, verðtryggingin tröllríður enn bókhaldi íslenskra heimila og enginn hvati er til sparnaðar vegna húsnæðiskaupa.

Því er ekki að furða að þeir sem hafa ekki enn drekkt sér í skuldum horfa með hryllingi til þátttöku á íslenskum húsnæðismarkaði. Úr þessu verður að bæta

Undir minni forystu lagði meirihluti verðtryggingarnefndar efnahags- og viðskiptaráðherra til fjölmargar leiðir til að búa til betri húsnæðismarkað.  Þar er lagt til að innleitt verði óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd, í stað verðtryggðra jafngreiðslulána.  Brýnt væri að fjölga búsetuformum með því að styrkja rekstrarumhverfi leigufélaga og húsnæðissamvinnufélaga.  Það væri hægt að gera með því að styðja við fjármögnun þeirra með stofnstyrkjum, ívilnunum og tímabundnum opinberum stuðningi, breytingum á húsnæðisbótakerfinu.  Þegar er unnið að þessu.

Síðast en ekki síst þyrfti að hvetja til sparnaðar.  Það verður að gera til að hraða eignamyndun, lækka fjármagnskostnað og minnka skuldsetningu heimilanna.

Því hyggst ég leggja fram frumvarp um skattaívilnun til ungs fólks sem vill leggja til hliðar peninga til að kaupa húsnæði eða búseturétt.  Þar er lagt til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur veiti 20% skattaafslátt af innleggi hvers árs, að hámarki 200 þús. kr.  Sparnaðurinn yrði undanþeginn fjármagnstekjuskatti.

Þannig tryggjum við að börnin okkar steypi sér aldrei aftur í sömu skuldir og við.

(Greinin birtist fyrst í FBL. 27. janúar 2012)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.1.2012 - 22:41 - 2 ummæli

Lögreglustjóri vísar frá kærum v/ vörslusviptinga

Innanríkisráðherra hefur svarað fyrirspurn minni um starfsreglur lögreglunnar við kærum vegna vörslusviptinga.

Þar staðfestir hann að lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út leiðbeinandi reglur til starfsmanna sinna um að vísa frá kærum vegna vörslusviptinga þar sem þær séu einkaréttarlega eðlis.

„Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út leiðbeinandi reglur um meðferð erinda vegna vörslusviptinga meðal annars með hliðsjón af niðurstöðu ríkissaksóknara í tilefni þess að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði vísað frá kæru á hendur þeim sem staðið hafa að vörslusviptingu. Í reglunum er kveðið á um að kærum til lögreglu á hendur fjármögnunaraðila vegna vörslusviptingar fyrir þjófnað, nytjastuld, gertæki og eitthvert annað brot verði að vísa frá. Ástæða og rök fyrir slíkri afgreiðslu málsins sé að um sé að ræða einkaréttarlegan samning sem leysa beri úr í einkamáli, þar á meðal ágreiningi sem lúti að uppgjöri samnings.“

Innanríkisráðherra hefur haft töluverðar áhyggjur  á mannréttindum og talið mikilvægt að gæta réttlætis að undanförnu.  Þrátt fyrir það hafa litlar sem engar  breytingar orðið á möguleikum fátæks fólks til að höfða mál til að fá úrskurðað um lögmæti gjörða fjármálafyrirtækjanna, jafnvel í fordæmisgefandi málum.

Í svarinu kemur fram að ráðherra hafi í júní varað við lögbrotum vegna vörslusviptinga.  Þar benti ráðherrann á að í lögum um aðför væri kveðið á um að ef einhver teldi sig eiga eign í vörslu annarra sem hann vildi fá í sínar hendur og ágreiningur væri með aðilum þyrfti að afla dómsúrskurðar um að taka mætti eignina úr vörslu umráðamanns.

Ekki kemur fram í svörunum hvort fjármálafyrirtækin hafi aflað dómsúrskurðs í þeim tilvikum sem kærð voru til lögreglunnar og vísað var frá né vitað hvort viðkomandi skuldarar væru komnir í greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara.

Hvað svo?  Jú, ríkislögreglustjóri er víst enn að vinna leiðbeinandi reglur í ljósi áhyggja ráðherra af hugsanlegum lögbrotum í júní 2011.

Í janúar 2012 bíðum við enn spennt…

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.1.2012 - 17:07 - 4 ummæli

Sannleiksnefnd fyrir suma, en ekki aðra?

Ýmsir mætir menn hafa upp á síðkastið kallað eftir sannleiksnefnd, þar á meðal Árni Páll Árnason, Benedikt Jóhannesson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Sannleiksnefndin eigi að skoða alla söguna frá 2000 til dagsins í dag.  Ekki til að dæma menn til refsingar heldur til þess að þjóðin viti hvað gerðist í raun og veru.

Ég þarfnast frekari útskýringa frá þessum einstaklingum á því hvað þeir eiga við.

Í 1.mgr. 1.gr. laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða segir: „Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknanefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.“

Rannsóknarnefnd Alþingis var sannleiksnefnd.

Hennar hlutverk var að leita sannleikans um orsakir hrunsins 2008 og hafði hún valdheimildir til að skoða atburði fyrir og eftir hrun.  Í leit sinni að sannleikanum talaði hún við 147 einstaklinga og vitnaði mjög nákvæmlega í þau samtöl í skýrslu sinni.  Enginn af þeim, ekki einn einasti viðurkenndi ábyrgð á hruninu.

Í lögunum segir einnig að nefndin eigi að gera ráðstafanir til að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.

Sannleiksnefndin upplýsti okkur í 9 binda skýrslu um hvað gerðist í raun og veru.

Telja hinir mætu menn að fólk hafi logið að sannleiksnefndinni?  Að sannleikurinn hafi ekki komið fram? Að menn hafi verið hræddir um að varpa á sig sök og því kosið að ljúga? Eru menn að kalla eftir því að allir þeir sem vilja vitna fyrir hinni nýju sannleiksnefnd verði lausir allra mála?  Að þeir 300 sem nú eru með réttarstöðu grunaðra fái niðurfelldar sakir, ef þeir aðeins segja satt í beinni útsendingu frá Austurvelli?

Við ættum þá kannski að velta fyrir okkur víðtækari notkun á sannleiksnefndum.  Hvað með sannleiksnefnd fyrir þá sem hafa stolið armbandsúrum, sparkað í höfuð manns í miðbænum eða nauðgað unglingsstúlku?

Eða eru hinir mætu menn aðeins að tala um ráðherra?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.1.2012 - 09:00 - 3 ummæli

Lífeyrissjóður fjármagni eigin kaup á húsnæði?

Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, var í pallborði á fundi um verðtrygginguna. Þar ræddi hann hugmynd um að lífeyrissjóðir fjármagni eigin kaup sjóðsfélaga á húsnæði.

Nú kynni einhver að spyrja, – er það ekki einmitt það sem þeir hafa gert í gegnum kaup á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og sjóðsfélagalánum?

Ragnar sagði að hugmyndin hefði kviknað út frá fléttunni sem Sigurjón Árnason, fv. bankastjóri Landsbankans, lék með fasteign sína og lífeyrissjóðinn sinn.  Sigurjón með góðra manna hjálp gerði fasteign sína óaðfararhæfa með því að veðsetja hana upp í topp með kúluláni úr séreignalífeyrissjóði sínum.  Við gjörninginn voru áunnin réttindi Sigurjóns beintengd við ávöxtunarkröfu lánsins.

Hugmynd Ragnars er að sjóðfélagar fái framreiknaðar upphæðir frá lífeyrissjóði til íbúðarkaupa þar sem vaxtastigið og upphæðin sem lánuð er verður beintengd þeim réttindum sem þeir ávinna sér.  Vextirnir yrðu aukaatriði þar sem eignamyndun í fasteign vegur upp á móti áunnum réttindum.  Í dag eru þessu ólíkt farið þar sem lánin éta upp eigið fé og rýra réttindi.

Eitthvað sambærilegar pælingar hafa verið í gangi í Bretlandi.

Er þetta eitthvað sem myndi ganga?  Myndi þetta ekki þýða að sameignarsjóðirnir okkar yrðu að séreignasjóðum?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.1.2012 - 13:53 - Rita ummæli

Forræðismál íslenskra barna

Fyrir nokkru barst þingmönnum tölvupóstur þar sem ungur drengur grátbað um aðstoð vegna forræðisdeilu íslenskrar móður hans og danskrar stjúpföður um systkini hans.  Forræðisdeila þeirra var hafin í október 2010 þegar móðir barnanna fór frá Danmörku og kom til Íslands með dætur þeirra þrjár, á aldrinum þriggja til sjö ára. Íslenskir dómstólar kváðu upp þann úrskurð að móðurinn bæri að fara aftur til Danmerkur með dæturnar og ljúka forsjármálinu þar. Þann nítjánda janúar féll dómur Landsréttar í Danmörku í forræðisdeilu þeirra um að foreldrarnir hefðu sameiginlegt forræði með börnunum en að börnin ættu lögheimili hjá föður sínum.

Forræðisdeilur eru alltaf erfiðar.

Forræðisdeilur í erlendu landi geta verið sérstaklega erfiðar.

Fjöldi fólks hefur flutt erlendis eftir hrun vegna atvinnuleysis og bágrar efnahagsstöðu.   Því má leiða líkum að því að forræðisdeilum milli landa muni aukast hjá íslenskum ríkisborgurum. Því vöktu athugasemdir eftirlitsnefndar um framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er varða forræðismál barna athygli mína.

Þar segir:

„The Committee recommends that the State party revise its social benefits programmes with the aim to provide adequate assistance to families in vulnerable situations and increase its funding to mediation services to parents in dispute. It further recommends that the State party ratify the Convention on the Recognition and Enforcement of Decisions relating to the Maintenance Obligations, the Convention on the Law Applicable to Maintenance Obligations, and the Convention on Jurisdiction, Applicable Law, Recognition, Enforcement and Cooperation in respect of Parental Responsibility and Measures for the Protection of Children.“ (Mín þýðing: Nefndin mælir með að stjórnvöld endurskoði almannatryggingakerfið sitt með það að markmiði að bjóða upp á næga aðstoð við fjölskyldur í viðkvæmum aðstæðum og hækki framlög sín til milligönguþjónustu fyrir foreldra í ágreiningi.  Nefndin mælir jafnframt með að stjórnvöld fullgildi sáttmálann um viðurkenningu og framkvæmd dóma um meðlagsskuldbindingar, sáttmálann um lög er varða meðlagsskuldbindingar, og sáttmálann um lögsögu, beitingu laga, viðurkenningu, framkvæmd og samvinnu með tilliti til foreldrarábyrgðar og ráðstafana til verndar börnum.“)

Þarna virðist eftirlitsnefndin vera að benda á að fjölmargir alþjóðlegir sáttmálar er varða forræðismál hafa ekki verið fullgiltir hér á landi.

Ég myndi telja að þetta ætti að vera eitt af forgangsverkefnum innanríkisráðuneytisins að skýra þessi mál sem fyrst til heilla fyrir börnin.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.1.2012 - 13:30 - 5 ummæli

Auðlindaákvæði A, B eða C?

Stjórnlagaráð hefur lagt til ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá.  Það gerði þingflokkur Framsóknarmanna einnig undir forystu Guðna Ágústssonar á 135. og 136. löggjafarþingi.  Það gerðu einnig forystumenn Samfylkingarinnar, Vinstri Grænna, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins á 136. löggjafarþingi fyrir kosningar 2009.

Spurning dagsins er því:  Hver er tillaga Stjórnlagaráðs, hver er tillaga Framsóknarmanna og hver er tillaga forystumanna fjögurra flokka?

A.  „Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar. Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi. Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

B. „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

C. „Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.  Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi. Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“

Google-aðstoð er leyfileg.

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir svar í ummælum, sem og biðja Facebook vini að taka þátt líka með því að deila pistlinum.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það tekur tekið tíma fyrir ummælin að birtast. Jafnframt áskil ég mér rétt til að samþykkja ekki inn ummæli.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.1.2012 - 13:11 - 27 ummæli

Vonbrigði

Það er tilfinningin sem bærist innra með mér i dag.

Það kom fátt á óvart í gær í atkvæðagreiðslunni. Hjá fæstum þingmönnum, ef einhverjum, snérist atkvæðagreiðslan um Geir H. Haarde, heldur eitthvað allt annað. Hjá sumum snérist þetta um reiði þeirra gagnvart samherjum sínum og vonbrigði með lítið breytt vinnubrögð. Skort á réttlæti. Núverandi stjórnvöld væru ekkert betri. Enn aðrir voru að spila um stöðu sína í flokknum. Ríkisstjórnina. Einhverjir voru hræddir við hvað gæti komið fram við réttarhöldin.

Fyrir mér snérist þetta um þrískiptingu valdsins, virðingu fyrir stjórnarskránni og lögum, – að valdi verður að fylgja ábyrgð. Kannski föst í eigin sannfæringu, eigin staðfestingarskekkju.

Veit ekki.

Búsáhaldabyltingin átti 3 ára afmæli í gær. Miklar vonir voru bundnar við hana, nýtt fólk á Alþingi, ný vinnubrögð, nýtt Ísland.

Í dag talar enginn um nýtt Ísland lengur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.1.2012 - 15:00 - 25 ummæli

Rannsókn á einkavæðingu bankanna?

Á sínum tíma taldi ég að frekari rannsókn á fyrri einkavæðingu ríkisbankanna myndi ekki skila samfélaginu neinu.  Næg gögn lægju fyrir um að einkavæðingarferlið hefði verið ámælisvert og ástæða til að lýsa yfir vanþóknun á ferlinu.  Á grundvelli þeirra gagna varð það niðurstaða þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis væri áfellisdómur yfir ferlinu og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem að því komu.

Þremur árum eftir hrun virðist lítill lærdómur hafa verið dreginn af fyrra einkavæðingarferli.  Ekki hefur verið lögfest rammalöggjöf um einkavæðingu ríkisfyrirtækja eða mörkuð opinber stefna um eignarhald opinberra fyrirtækja og síðari einkavæðing fjármálafyrirtækja borið öll einkenni þess að menn hafa ekkert lært.  Fáir virðast jafnvel hafa lesið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, – jafnvel ekki fyrsta bindið þar sem fjallað er ítarlega um einkavæðingu bankanna og atriði í ferlinu sem gætu hafa haft áhrif á gjaldþrot bankanna.

Í dag kallaði Björgólfur Thor eftir áframhaldandi starfi rannsóknarnefndar Alþingis í nýjum pistli.  Áframhaldandi starf nefndarinnar er væntanlega ekki versta hugmynd sem Björgólfur Thor hefur fengið.  Með því að endurvekja nefndina gæti Björgólfur Thor fengið að koma að athugasemdum sínum og við jafnframt falið henni ítarlega rannsókn á einkavæðingu bankanna, bæði þeirri fyrri og síðari.

Þegar skýrsla þingmannanefndarinnar var til umræðu í þinginu lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fram tillögu að fram færi:

  • Rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. sem fram fór á grundvelli laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, með síðari breytingum. Þannig verði rannsakað hvernig að undirbúningi og framkvæmd einkavæðingar Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. var staðið, lagt mat á hvort vikið hafi verið frá viðmiðum eða kröfum til kaupenda sem stöfuðu frá ráðherranefnd um einkavæðingu og framkvæmdanefnd um einkavæðingu, skoðað hverjir raunverulegir kaupendur bankanna voru og það gert opinbert, lagt mat á hvort kaupendur hafi í raun og veru uppfyllt viðmið eða kröfur sem fyrir lágu varðandi val á mögulegum kaupendum bankanna, hvort einstökum kaupendum hafi verið veittur afsláttur frá umsömdu kaupverði og þá hvaða forsendur lágu slíkum afslætti til grundvallar, hverjir hafi staðið að því að verðmeta þær eignir sem inni í bönkunum voru fyrir sölu þeirra, hvernig slíku mati hafi verið háttað og hvort samræmi hafi verið á milli þess mats og þeirra raunverulegu verðmæta sem afhent voru kaupendum bankanna við einkavæðingu þeirra. Samhliða framangreindu verði gert opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf. og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, KBI hf. (síðar Arion banka hf.) og NBI hf., skýrt dregið fram hverjir eru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.
  • Rannsókn á sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.) og NBI hf. Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni.
  • Rannsókn á stofnfjáraukningu sparisjóða frá gildistöku laga nr. 4/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Rannsakað verði hvernig að stofnfjáraukningunni var staðið, hvernig undirbúningi hennar var háttað og hvernig framkvæmd hennar fór fram. Leitt verði í ljós hvaða mat lá til grundvallar vali á nýjum stofnfjáraðilum, hvernig sú stofnfjáraukning var fjármögnuð og hvaða tryggingar voru að baki þeirri fjármögnun.
  • Rannsókn á styrkveitingum sparisjóða til stjórnmálamanna frá árinu 2004. Gert verði opinbert hvort einstakir stjórnmálamenn fengu styrki frá sparisjóðunum, beint í eigin nafni eða óbeint í nafni hluta- eða einkahlutafélags.

Er kannski kominn tími til að dusta rykið af þessari tillögu og leggja hana aftur fram?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.1.2012 - 12:40 - Rita ummæli

Daniel og dormandi bankareikningar = Stærra samfélag?

Pressan birti frétt um leit sýslumannsins í Keflavík að Daniel Lee Newby í tengslum við uppgjör á dánarbú móður hans.  Hann er eini erfinginn sem hefur ekki gefið sig fram í tengslum við skiptin og því eigi hann milljónir á íslenskum bankareikningi í vörslu sýslumannsins.

Ég vona að Daniel finnist og hann geti fengið arfinn sinn. En við lestur fréttarinnar fór ég að velta fyrir mér það væru fleiri svona reikningar þar sem ekki er vitað um eigendur eða þeir hafa ekki vitjað reikninganna í töluverðan tíma?

Í Bretlandi er vitað að umtalsverðar upphæðir eru á hinum svokölluðu dormandi bankareikningum (en. dormant bank accounts).  Árið 2008 voru því sett sérstök lög um þessa bankareikninga  þar sem stjórnvöldum var heimilað að taka yfir dormandi reikninga ef eigendur hefðu ekki vitjað þeirra í 15 ár.  Ef eigandinn finnst (t.d. í óbyggðum Alaska) eftir að stjórnvöld hafa tekið yfir reikninginn getur hann samt fengið peningana sína plús vexti frá ríkinu.

Árið 2011 var hægt að sækja um 5 milljónir punda á grundvelli þessara laga í gegnum Big Society Investment Fund/Big Society Capital Group.  Í lok árs var um 3,1 milljón punda úthlutað til að fjármagna m.a. viðskiptahugmyndir langtímaatvinnulausra, aðstoða ungt fólk við að fá vinnu, bæta orkusjálfbærni samfélaga og starta fyrsta samfélagslega hlutabréfamarkaðnum.

Big Society (ís: Stórt samfélag) verkefni bresku ríkisstjórnarinnar er allt mjög áhugavert.  Markmið verkefnisins er að tryggja almenningi meiri áhrif og tækifæri til að stjórna lífi sínu.  Lykilhugtök samvinnuhugsjónarinnar eru þar mjög áberandi: Samvinna, lýðræði, sjálfsábyrgð, valddreifing, samfélagsábyrgð og jafnrétti.   Samfélagið; fjölskyldur, vinir, nágrannar, frjáls félagasamtök, samfélagsrekstur og netverk, eiga að verða stærri og sterkari með valddreifingu, með því að gefa fólki og samfélögum raunveruleg áhrif og ábyrgð og tryggja þannig sanngirni og tækifæri fyrir alla.

Það ætlar breska ríkisstjórnin að gera m.a. með því að:

  1. Tryggja sveitarfélögum aukin áhrif og völd.
  2. Gera íbúum kleift að taka yfir rekstur opinberrar þjónustu á samfélagslegum grunni.
  3. Hvetja til sjálfboðavinnu og þátttöku í samfélagslegum verkefnum.
  4. Umbuna fyrir gjafir til góðgerðasamtaka.
  5. Styðja við samfélagsrekstur á borð við samvinnufélög, gagnkvæm félög og góðgerðasamtök og hvetja þau til þátttöku í rekstri opinberrar þjónustu.
  6. Gefa opinberum starfsmönnum tækifæri til að stofna samvinnufélög í þeirra eigu og bjóða í þá starfsemi sem þeir veita.
  7. Nýta fjármagnið á dormandi bankareikningum til setja á stofn samfélagsfjárfestingasjóð/-banka.

Því miður hafa íslensk stjórnvöld sýnt lítinn áhuga á sambærilegum hugmyndum.

Sorglegt.

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur