Laugardagur 24.12.2011 - 09:26 - Rita ummæli

Rauðar jólakúlur, Stollen og Jamie.

Jólin eru að koma.  Vindurinn gnauðar fyrir utan, Herjólfur siglir ekki en það er hlýtt og notalegt inni í gamla húsinu mínu.

Bergsson og Blöndal í útvarpinu.  Jólatréð er skreytt rauðum jólakúlum. Trönuberjasósan ilmar af eplum, kanil og appelsínum. Stollen hvílir í hvítum sykurhjúpnum á eldhúsborðinu og kalkúninn bíður eftir að komast að í ofninum.

Jólastollen

Jólastollen

Undanfarin ár hefur hátíðarmáltíð Williams frænda verið á borðum mínum á aðfangadag.  Jamie Oliver náði að troða sér aðeins inn á matseðilinn í ár, þökk sé sjónvarpsþætti hans á Stöð 2. Má sjá áhrif hans í rósarkálinu, rauðkálinu, sósunni og snickers ísnum. Lakkrísbragðið kemur sérstaklega á óvart í rauðkálinu og sósunni.

Að auki prófuðum við hjónin í fyrsta skipti að baka La bûche de Noël (jólatrédrumb).

Jóladrumbur

Jóladrumburinn

Vatn í munninn bara við að skrifa þetta…

Ég óska lesendum gleðilegra jóla og góðra samverustunda með fjölskyldu og vinum.

Flokkar: Matur

Fimmtudagur 15.12.2011 - 08:50 - 10 ummæli

Nei, takk við sölu á Landsvirkjun

Lífeyrissjóðirnir bera sig aumlega þessa dagana yfir að hafa ekki fengið að kaupa hlut í Landsvirkjun, Landsneti eða Landsbankanum.  Sérfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson lögðu nýlega til að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki yrðu gerð að almenningshlutafélögum og hluti einkavæddur.  Sambærilegt ferli var viðhaft á sínum tíma þegar bankarnir voru einkavæddir.

Þessi umræða vekur upp tilfinningu af deja vu frá 2007.  Þá skrifaði ég pistil undir fyrirsögninni Hryllingssaga af raforkumarkaðnum í tilefni þess að ýmsir voru farnir að tala fyrir því að einkavæða orkufyrirtækin og horfðu þá til einkavæðingar bankanna sem ákveðinnar fyrirmyndar.

Þar benti ég á mikilvægi þess að læra af reynslu annarra.

Svíar hafa einkavætt hluta af orkufyrirtækjunum á meðan hluti er ennþá í eigu hins opinbera (sveitarfélaganna).  Skv. skýrslu sem unnin var um málið bjóða opinber raforkufyrirtæki að jafnaði 24,% lægra verð en einkarekin og 16% lægra en þrjú stærstu einkafyrirtækin.  Gildir það hvort sem litið er til einstaklinga eða fyrirtækja.  Hagnaður hinna opinberu er eitthvað lægri en þeirra einkareknu en svo sem ekkert til að fúlsa við (20-30%).

Ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að styðja við einkavæðingu orkufyrirtækjanna ef árangurinn fyrir almenning á að vera hærra verð og lélegri þjónusta.

Meira að segja til  lífeyrissjóða okkar landsmanna, undir styrkri stjórn ýmissa verkalýðsfrömuða og forystumanna atvinnurekenda.

Því þakka ég stjórnvöldum kærlega fyrir að hafa ekki ljáð máls á því að selja hlut í þessum fyrirtækjum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.12.2011 - 08:39 - 5 ummæli

Obama stal jólunum

Forval Repúblikana í Bandaríkjunum tekur á sig ýmsar myndir eftir því sem örvænting frambjóðenda eykst.

Rick Perry byrjaði forvalið með miklum lúðrablæstri og væntingum.  Eftir frekar misjafna frammistöðu í kappræðum hefur stuðningur við hann nánast horfið.

Lausnin?

Að fullyrða nánast að Obama hafi stolið jólunum og noti samkynhneigða hermenn til þess að stoppa bandarísk börn frá því að biðja í skólunum…

PS: Þýðing á orðum Perry:

Ég skammast mín ekki fyrir að viðurkenna að ég er kristinn, en þú þarft ekki að sitja á kirkjubekknum á hverjum sunnudegi til að vita að það er eitthvað að í landi þar sem samkynhneigðir geta opið þjónað í hernum en börnin okkar geta ekki opið haldið upp á jól eða beðið bænir í skólanum.

Sem forseti, mun ég enda stríð Obama gegn trú.  Og ég mun berjast gegn árásum frjálslyndra á trúarhefð okkar.

Trú gerði Ameríku sterka.  Hún getur gert hana sterka aftur.

Ég er Rick Perry og ég samþykki þessi skilaboð.

PSS: Í stjórnarskrá Bandaríkjanna er aðskilnaður kirkju og trúarbragða áskilinn sbr. Congress shall make no law respecting an establishment of religion, or prohibiting the free exercise thereof...  Hæstiréttur bannaði því fyrir um 40 árum bænir í skólum í Bandaríkjunum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.12.2011 - 11:50 - 4 ummæli

Já, takk við smokki

Í dag er alþjóð alnæmisdagurinn.  Dagur til að íhuga og skoða hver staða málefna tengd HIV og alnæmi er.

Á árinu sem er að líða hafa 17 einstaklingar greinst HIV-jákvæðir, þrír af þeim með alnæmi og lést einn þeirra á árinu.  Þetta eru ívið færri en í fyrra, en þó sami fjöldi og greindist árið 1985 skv. Svavar G. Jónssyni formaður samtakanna HIV Ísland.

Það er fullkomlega óásættanlegt að sami fjöldi sé að smitast af HIV núna og fyrir 26 árum.

Hins vegar er ekkert óvænt við það ef við skoðum neðangreindar staðreyndir.

Í glænýrri skýrslu Velferðarráðuneytisins um heilbrigði ungs fólks á Íslandi er fjallað sérstaklega um kynhegðun og kynheilbrigði.  Þar kemur fram að ungt fólk á Íslandi byrjar tiltölulega snemma að sofa hjá, sérstaklega stúlkurnar, og þær eiga sér einnig flesta bólfélaga miðað við hin Norðurlöndin.  Notkun smokka í yngsta aldurshópnum er einna minnst hér af Vesturlöndunum og ýmsir kynsjúkdómar þar af leiðandi algengastir hér á landi.

Við verðum að gera eitthvað í þessu.

Ég kalla eftir auknum forvörnum, heilsugæslu í framhaldsskólum og ódýrari smokkum með því að lækka vsk á þá úr 25,5% í 7%.

Segjum já takk við ódýrari smokkum. Segjum já takk við að nota smokkinn.  Segjum já takk við bættu kynheilbrigði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.11.2011 - 09:56 - 4 ummæli

Ræðst á þá sem lakast standa

ASÍ hefur staðið í baráttu við stjórnvöld um túlkun á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga frá því í maí.  Þar lýsti norræna velferðarstjórnin því yfir að stjórnvöld myndu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir nytu hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.

Samkvæmt yfirlýsingunni og túlkun ASÍ ættu því lægstu laun og þar með bætur eiga að hækka um 6,5% 1. febrúar 2012.  Ríkisstjórnin ákvað í stað einhliða að bætur skyldu aðeins hækka um helming af því sem samið var um í kjarasamingunum.

Miðstjórn ASÍ ályktaði af þessu tilefni sérstaklega þar sem hún hafnaði síendurteknum árásum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á íslenskt launafólk og að þeim yrði svarað af fullri hörku.

Nú hefur SA tekið undir túlkun ASÍ.

Ríkisstjórnin hefur að vísu verið önnum kafin við ýmis innanbúðarmál á síðustu dögum. Kannski eru „síendurteknar árásir á launafólk“ smámunir miðað við þá draumsýn ýmissa að reka Jón Bjarnason…

Undir það get ég ekki tekið.

Því hef ég óskað eftir fundi í velferðarnefnd með ASÍ og SA til að fara yfir túlkun þeirra og afleiðingar þess að fyrirætlanir stjórnvalda verða að raunveruleika.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.11.2011 - 10:36 - 4 ummæli

Ríkið greiði kostnað við gjaldþrotaskipti

Alþingi samþykkti í fyrra að stytta fyrningarfrest í tvö ár á þeim kröfum eða þeim hluta þeirra sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti.  Við meðferð málsins var bent á að efnaminnstu  einstaklingarnir myndu ekki geta farið fram á gjaldþrotaskipti vegna hárrar greiðslu fyrir skiptakostnað.

Því er raunveruleg hætta á að þessir einstaklingar hangi í lausu lofti í langan tíma, ófærir um að taka virkan þátt í þjóðfélaginu.

Héraðsdómara er skylt að fara fram á tryggingu fyrir skiptakostnaði áður en hægt er að samþykkja beiðni um gjaldþrotaskipti. Skiptakostnaður í dag er um 250.000 kr.

Tölur Creditinfo frá 2008 sýna að flestir lánardrottnar hætta innheimtu krafna við árangurslaust fjárnám.  Þá urðu 5.200 einstaklingar greiðsluþrota vegna árangurslauss fjárnáms en aðeins 198 einstaklingar voru teknir til gjaldþrotaskipta.  Leiða má að því líkum að ástæða þess sé að árangurslaust fjárnám hefur að mati lánardrottna samsvarandi áhrif á fjármálalíf einstaklings og gjaldþrot en sparar um leið kröfuhafa að leggja út 250.000 kr. fyrir skiptakostnaðinum.

Ég mun því leggja fram frumvarp þess efnis að ef farið hefur fram árangurslaust fjárnám hjá einstaklingi sem óskað hefur sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum og héraðsdómari telur ekki ljóst hvort eignir skuldarans muni duga fyrir skiptakostnaði skuli ríkissjóður ábyrgjast tryggingu og þar með greiðslu skiptakostnaðar.

Til að koma til móts við kostnað ríkisins væri hægt að hækka gjald vegna fjárnámsbeiðna.  Þá má gera ráð fyrir að fjármunir sparist við þetta hjá umboðsmanni skuldara. Kostnaður tilsjónarmanns við greiðsluaðlögun hefur verið svipaður og skiptakostnaður.

Verði þetta frumvarp að lögum mun það auðvelda þeim einstaklingum að hefja nýtt líf sem sjá enga leið aðra út úr fjárhagsörðugleikum en gjaldþrot, en hafa til þessa ekki haft efni á að fara fram á slíkt sjálfir.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.11.2011 - 21:14 - 7 ummæli

Að læra að einkavæða?

Í umfjöllun Rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma var gagnrýnt harkalega hversu opin heimildin var um að selja ríkisbankana.  Allt mat og stefnumörkun á kaupendum, verði, áformum kaupenda, tímapunktur sölunnar o.s.frv. var í höndum framkvæmdavaldsins.

Einkavæðingarferlið á ríkisbönkunum tveimur á sínum tíma var óásættanlegt.  Allir þingmenn tóku undir það.  Þó nokkrir stjórnarliðar töldu sig þó þurfa frekari upplýsingar og fluttu tillögu um rannsókn á einkavæðingunni.

Því hef ég velt fyrir mér hvað stjórnarliðum finnst um núverandi einkavæðingarferli?

Ríkisstjórnin hefur nú einkavætt fjóra banka.  Jafnframt hefur verið ákveðið að einkavæða nokkra sparisjóði. Í engu þessara tilvika hefur þótt nein sérstök ástæða til að ráðfæra sig við Alþingi.

Í tilfelli einkavæðingar nýju bankanna neyddist meirihluti fjárlaganefndar til að leggja sjálfur fram frumvarp um heimild til sölu eftir að ábendingar höfðu borist nefndinni um hugsanlegt stjórnarskrárbrot ráðherra og brot á lögum um fjárreiður ríkisins. Byr er seldur. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við ferlið og enn á ný var skortur á lagaheimild frá Alþingi.  Í frétt RÚV nýlega um málið var það þó kallað „formsatriði“.  Við fáum loksins, loksins að ræða einkavæðingu sparisjóðanna í þingsal á morgunn.

Enginn virðist vita fyllilega hverjir kaupendurnir eru, hver áform þeirra eru (annað en kreista íslenskan almenning), eða hvað felst í kaupsamningnum.

Fjármálaeftir hefur áætlað að 60% af eigendum Íslandsbanka/ Byrs og Arionbanka séu erlendir vogunarsjóðir, hrægammasjóðir sem keyptu kröfurnar á slikk.  Hrægammar sem eru að fá um 76 ma.kr. af niðurfærslu lána beint í sinn hlut í gegnum svokallað endurmat lánasafnanna og miskunnarlausa innheimtu þeirra.

Í dag lág fyrir að hluti samnings vegna Byrs hafði verið lagður fram undir kvöðum um trúnað og aðeins til hluta þingmanna.

Sama dag og átti að afgreiða fjáraukalög með formsatr… afsakið, lagaheimildina um söluna á Byr.

Hvað nákvæmlega lærðu stjórnvöld af einkavæðingu ríkisbankanna fyrir áratug?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.11.2011 - 07:27 - 22 ummæli

Jónas og lögmál Goodwins

Lögmál Goodwins segir að með nægum tíma, sama hvaða umræðuefni, mun einhver að lokum gagnrýna eitthvert atriði með því að líkja því við hegðun og atferli Hitlers og Nazisma.   Goodwin segir jafnframt að í hvert sinn sem deiluaðili líkir hinum við Hitler og co þá er rökræðunni lokið og viðkomandi hefur sjálfkrafa tapað umræðunni.

Jónas Kristjánsson hefur nú náð að uppfylla lögmál Goodwins hratt og vel.  Hann hefur jafnframt tékkað sjálfan sig út úr allri rökrænni umræðu um það málefni.

Að vísu kemur fátt á óvart þar.

Andúð og fordómar Jónasar á Framsókn er víðfræg.

Svona er að tapa sér í hatrinu.

Greyið.

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.11.2011 - 13:39 - Rita ummæli

Afleiðingar eineltis

Afleiðingar eineltis er margvíslegar.  Í rannsókn sem Námsmatsstofnun gerði kom í ljós marktæk neikvæð tengsl á milli eineltis og námsárangurs (-0,10).  Einelti fylgja lægri einkunnir. Rannsóknin sýnir einnig að tengslin á milli eineltis í  4. bekk við einkunnir í 10. bekk eru síst minni en tengslin milli eineltis í 4. bekk við einkunnir á sama tíma. Einelti í 4. bekk segir sem sagt jafnmikið til um einkunnir í 4. bekk og einkunnir 6 árum síðar, – í 10. bekk. (Höfundar að rannsókn: Ragnar F. Ólafsson, Karl Fannar Gunnarsson og Sigurgrímur Skúlason)

Svíar hafa farið þá leið að láta skólastjórnendur bera ábyrgð á því að tekið sé af festu á einelti með lagasetningu.

Er það sem við ættum að gera?

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.11.2011 - 05:55 - 35 ummæli

Örvænting ESB aðildarsinna

Aþena er fallin, Róm brennur og París og Berlin vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þessar staðreyndir eru sárar fyrir þá sem vilja að Ísland gangi inn. Örvænting ESB aðildarsinna er fullkomin.

Lausnin er að tala niður Ísland og allt sem íslenskt er.

Því er ráðist á þá sem telja að hagsmunum Íslands sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið. Á þeim dynja ásakanir um þjóðernisöfgar og hatur á útlendingum. Að vera á móti lýðræði og samvinnu.

Því eina leiðin til að koma Íslendingum inn í ESB er að berja inn í þá efasemdir um eigin getu.

Efasemdir um hæfni okkar til að vera sjálfstæð þjóð.

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ómálefnaleg, ósönn eða nafnlaus ummæli.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur