Í umfjöllun Rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma var gagnrýnt harkalega hversu opin heimildin var um að selja ríkisbankana. Allt mat og stefnumörkun á kaupendum, verði, áformum kaupenda, tímapunktur sölunnar o.s.frv. var í höndum framkvæmdavaldsins.
Einkavæðingarferlið á ríkisbönkunum tveimur á sínum tíma var óásættanlegt. Allir þingmenn tóku undir það. Þó nokkrir stjórnarliðar töldu sig þó þurfa frekari upplýsingar og fluttu tillögu um rannsókn á einkavæðingunni.
Því hef ég velt fyrir mér hvað stjórnarliðum finnst um núverandi einkavæðingarferli?
Ríkisstjórnin hefur nú einkavætt fjóra banka. Jafnframt hefur verið ákveðið að einkavæða nokkra sparisjóði. Í engu þessara tilvika hefur þótt nein sérstök ástæða til að ráðfæra sig við Alþingi.
Í tilfelli einkavæðingar nýju bankanna neyddist meirihluti fjárlaganefndar til að leggja sjálfur fram frumvarp um heimild til sölu eftir að ábendingar höfðu borist nefndinni um hugsanlegt stjórnarskrárbrot ráðherra og brot á lögum um fjárreiður ríkisins. Byr er seldur. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við ferlið og enn á ný var skortur á lagaheimild frá Alþingi. Í frétt RÚV nýlega um málið var það þó kallað „formsatriði“. Við fáum loksins, loksins að ræða einkavæðingu sparisjóðanna í þingsal á morgunn.
Enginn virðist vita fyllilega hverjir kaupendurnir eru, hver áform þeirra eru (annað en kreista íslenskan almenning), eða hvað felst í kaupsamningnum.
Fjármálaeftir hefur áætlað að 60% af eigendum Íslandsbanka/ Byrs og Arionbanka séu erlendir vogunarsjóðir, hrægammasjóðir sem keyptu kröfurnar á slikk. Hrægammar sem eru að fá um 76 ma.kr. af niðurfærslu lána beint í sinn hlut í gegnum svokallað endurmat lánasafnanna og miskunnarlausa innheimtu þeirra.
Í dag lág fyrir að hluti samnings vegna Byrs hafði verið lagður fram undir kvöðum um trúnað og aðeins til hluta þingmanna.
Sama dag og átti að afgreiða fjáraukalög með formsatr… afsakið, lagaheimildina um söluna á Byr.
Hvað nákvæmlega lærðu stjórnvöld af einkavæðingu ríkisbankanna fyrir áratug?