Fimmtudagur 20.10.2011 - 14:36 - 7 ummæli

Lífeyrir eða lægri skuldir?

Í grein Ólafs Margeirssonar Saga sjóðsfélaga er borin saman ávöxtun á séreignasparnaði í Almenna lífeyrissjóðnum og láni hjá sama sjóði.  Niðurstaðan var sláandi, en á tímabilinu 2008 til 2011 var 10 sinnum minni nafnávöxtun á séreignasparnaðinum (1,2%) en á vaxtagreiðslur (12%) af láninu.

Á grundvelli þessa ráðlagði hann fólki að taka frekar út séreignasparnaðinn og greiða niður lán.

Oft er staða lífeyrissjóðanna notuð sem rökstuðningur fyrir því af hverju ekki má afnema verðtrygginguna.

Að við eigum að borga og borga, jafnvel allt að 10 falt meira af lánunum okkar alla ævi svo við getum örugglega fengið smá meiri lífeyri í lok ævikvöldsins.

Er ekki eitthvað skrítið við þetta?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2011 - 08:13 - 2 ummæli

Plan B á verðtrygginguna

Fyrir nokkrum áratugum varð til hin fullkomna íslenska aðferð til að steypa fólki í skuldir með hjálp verðbólgunnar. Verðtryggingu var komið á. Eftir sitja íslenskir skuldarar að drukkna í feni þess fyrirbæris.

Fjölmargir íslenskir stjórnmálamenn hafa talað fyrir afnámi verðtryggingarinnar. Þrátt fyrir það gerist afskaplega lítið. Þegar meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir fékk gullið tækifæri í kjölfar hrunsins til að aftengja vísitölu neysluverðs vegna forsendubrests brást henni kjarkur frammi fyrir svonefndum sérfræðingum, sem margir hafa hagsmuna að gæta af viðhaldi verðtryggingar.

Því er ekki að undra að fyrir stuttu var ég spurð: „Af hverju koðna allir niður í baráttunni gegn verðtryggingunni?“ Svarið er að þetta snýst um mikla hagsmuni. Þeir sem skulda verðtryggt eru líklegri til að vera yngri, muna síður eftir verðbólgutímunum og skulda mikið í eigin húsnæði. Þeir sem eiga verðtryggt eru væntanlega líklegri til að vera eldri, muna betur eftir áhrifum óðaverðbólgu og skulda lítið í eigin húsnæði.

Þessir hagsmunir hafa ítrekað tekist á.

„Lausnirnar“ hafa aftur og aftur sýnt hvaða hagsmunir hafa haft betur, hagsmunir fjármagnseigenda. Til dæmis var einfalt að aflétta verðtryggingu launa þar sem hún var talin verðbólguhvetjandi með víxlhækkunum verðlags og launa – þótt bent hafi verið á að sama megi segja um verðtryggingu skulda. Einnig mátti breyta viðmiðunarvísitölu til að auðvelda skuldurum að greiða af lánum sínum sbr.greiðslujöfnunarvísitalan.

Engin sanngirni liggur í að leggja þyngstu byrðarnar á kynslóðina sem byggir upp lífeyrissjóðina með greiðslu iðgjalda í sjóðina og skatts til að fjármagna lífeyri þeirra sem ekki hafa áunnið sér rétt til greiðslu úr sjóðunum, þá kynslóð sem einna helst tekur verðtryggðu lánin. Engin sanngirni liggur heldur í því að skerða lífeyri þeirra sem þegar hafa hafið töku hans. Allra síst liggur sanngirni í viðvarandi verðbólgu, sem verðtryggingin viðheldur þegar stýritæki Seðlabankans virka ekki.

Það er kominn tími til að leita sátta á milli kynslóða, sátta á milli skuldara og fjármagnseigenda.

Hættum að koðna niður frammi fyrir óvininum. Vinnum saman að því að afnema verðtrygginguna, með Plani B.

(Birtist fyrst í FBL 20. október 2011)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.10.2011 - 10:51 - 1 ummæli

Guðrún Ebba

Viðtalið við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur snerti mig djúpt. Ég trúi henni.

Það var tvennt sem gerði það sérstaklega að verkum.  Skýring hennar á því af hverju hún varði föður sinn þegar hann var sakaður um kynferðisbrot árið 1996 og lýsing hennar á því þegar faðir hennar braut aftur á henni á fullorðinsárum.

Þarna var engin tilraun til að fegra sjálfa sig, aðeins skýr frásögn af ljótum veruleika.

Veruleika sem er erfitt að skilja.

Veruleika sem má ekki þegja um.

…má ekki sætta sig við.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.10.2011 - 12:53 - 13 ummæli

Meiri tekjur, meiri afskriftir

Opni fundurinn í efnahags- og viðskiptanefnd var um margt fróðlegur. Eitt af því sem þar kom fram var ábending um athyglisverða útfærslu Landsbankans á 110% leiðinni. Allir bankarnir draga eignir frá niðurfærslu á einhvern hátt, en eru jafnframt með ákveðið fríeignamark á móti (líkt og frítekjumark skattkerfisins). Er þar í flestum tilfellum miðað við fasta krónutölu. Landsbankinn fer hins vegar þá frumlegu leið  að miða við tveggja mánaða ráðstöfunartekjur að viðbættri 1 milljón.

Þetta þýðir í raun að eftir því sem fólk er tekjuhærra, því hærra fríeignamark hefur það og því meira fær það afskrifað. Tekjuháir einstaklingar fá því mun meiri afskriftir en tekjulágir.

Er þetta norræna velferðin í boði banka allra landsmanna?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.10.2011 - 07:39 - 1 ummæli

Opinn fundur efnahags- og viðskiptanefndar

Efnahags- og viðskiptanefnd verður með opinn fund kl. 9.30 með efnahags- og viðskiptaráðherra um áherslumál ráðherrans í vetur.

Vonandi verður þar fjörleg umræða um bankana, peningastefnu, gjaldeyrishöft, afskriftir lána og síðast en ekki síst verðtrygginguna!

Verður í beinni útsendingu á vef Alþingis.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.10.2011 - 12:40 - 12 ummæli

Birtum afskriftir

Mikil tortryggni ríkir í samfélaginu um starfsemi fjármálastofnana, afskriftir og niðurfærslur lána.  Öll þekkjum við hvernig sögur og orðrómar geta verið magnaðri en raunveruleikinn sjálfur.

Því tel ég að birta eigi upplýsingar um hverjir hafa fengið afskriftir.

Þess vegna hyggst ég endurflytja frumvarp mitt um birtingu afskrifta.

Frumvarpið leggur til að skattkerfið verði nýtt til að birta upplýsingar um hverjir hafa fengið skuldaeftirgjafir yfir 100 milljónir kr. óháð því hvort þær teljist til tekna eða ekki.  Þær verða tilgreindar á því formi og með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður og skulu birtar með álagningarskrá og skattskrá árin 2012-2016.

Þessar upplýsingar munu koma fram í ársreikningum fyrirtækja, ekki fyrr en eftir tvö til þrjú ár skv. CreditInfo.  Þá fyrst verður hægt að sjá meðaltal afskrifta, hæstu og lægstu afskriftirnar og greina hvers konar fyrirtæki fengu mest afskrifað.  Einnig hvort fyrirtækin fara í þrot þrátt fyrir skuldaniðurfellingar.

Með samþykkt þessa frumvarps yrði birting upplýsinganna flýtt.  Þær myndu liggja fyrir samhliða álagningarskrá og skattskrá og hægt væri að kynna sér þær hjá skattinum.

Þetta yrði gert í þeirri von að draga úr tortryggni,  vantrausti og tryggja gagnsæi í meðferð fjármálastofnana á lánum viðskiptavina, – án þess að fórna bankaleyndinni.

Þess vegna verður þetta frumvarp lagt aftur fram.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.10.2011 - 13:19 - 5 ummæli

Kynjuð nefndaskipan

Alþingi skipaði upp á nýtt í fastanefndir og alþjóðanefndir Alþingis á laugardaginn. Eftir að forseti hafði lesið upp nefndarmenn í einstökum nefndum lá fyrir að Alþing hefur enn á ný náð að skipta kynjum bróðurlega á milli nefnda.

Þær nefndir sem fara með fjár-, atvinnu- og utanríkismál eru skipaðar körlum að mestu, á meðan konur sitja frekar í nefndum sem fara með velferðar-, mennta- og dómsmál.

Ég hafði áhyggjur af því að þetta gæti orðið niðurstaðan þegar lá fyrir að skipa ætti á ný í nefndir þingsins og lagði áherslu á að formenn þingflokka yrðu að tala saman um skipan í nefndir m.a. út frá kynjasjónarmiðum.

Ástæðan var að ég tel best að sjónarmið beggja kynja fái að heyrast jafnt, -líka þegar kemur að fjár-, atvinnu- og utanríkismálum. Þess vegna hef ég t.d. stutt kynjaákvæði í lögum Framsóknarflokksins og félagarétti.

Því miður virðist það ekki hafa verið forgangsatriði.

Af hverju ætlar þetta að reynast okkur svona erfitt?

PS. Vinsamlegast ekki segja að skipunin byggist á hæfni eða að konur gefi ekki kost á sér. Hvorugt á við í þessu tilviki.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.10.2011 - 14:20 - 8 ummæli

Raunverulega framtíðarsýn, takk

Þegar Franklin D. Roosevelt tók við embætti forseta Bandaríkjanna árið 1932 flutti hann eina mögnuðustu ræðu sem ég hef lesið.

Þar sagði hann meðal annars:

„… we face our common difficulties. They concern, thank God, only material things….Yet our distress comes from no failure of substance. … Primarily this is because the rulers of the exchange of mankind’s goods have failed, through their own stubbornness and their own incompetence, have admitted their failure, and abdicated. Practices of the unscrupulous money changers stand indicted in the court of public opinion, rejected by the hearts and minds of men…. They know only the rules of a generation of self-seekers. They have no vision, and when there is no vision the people perish. The money changers have fled from their high seats in the temple of our civilization. We may now restore that temple to the ancient truths. The measure of the restoration lies in the extent to which we apply social values more noble than mere monetary profit.

Happiness lies not in the mere possession of money; it lies in the joy of achievement, in the thrill of creative effort. The joy and moral stimulation of work no longer must be forgotten in the mad chase of evanescent profits. These dark days will be worth all they cost us if they teach us that our true destiny is not to be ministered unto but to minister to ourselves and to our fellow men.

Recognition of the falsity of material wealth as the standard of success goes hand in hand with the abandonment of the false belief that public office and high political position are to be valued only by the standards of pride of place and personal profit; and there must be an end to a conduct in banking and in business which too often has given to a sacred trust the likeness of callous and selfish wrongdoing. Small wonder that confidence languishes, for it thrives only on honesty, on honor, on the sacredness of obligations, on faithful protection, on unselfish performance; without them it cannot live.

Restoration calls, however, not for changes in ethics alone. This Nation asks for action, and action now.

Our greatest primary task is to put people to work. This is no unsolvable problem if we face it wisely and courageously…“

Allt þetta tel ég að eigi við á Íslandi árið 2011.

Endurreisnin verður á byggjast á raunverulegum gildum, ekki eltingarleik við gullkálfinn.

Gildi vinnunnar, gildi velferðarinnar.

Gildi jöfnuðar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.10.2011 - 09:42 - 7 ummæli

Vinna, – ekki niðurskurður

Árið 2003 fór Framsóknarflokkurinn fram undir slagorðinu vinna, vöxtur, velferð.  Í mínum huga hefur þetta alltaf verið kjarni framsóknarstefnunnar, – og sýn okkar á hvernig við getum sem best tryggt hag þjóðarinnar.

Þess vegna tölum við af ástríðu um lækkun skulda.  Íslensk heimili eru að drukkna í skuldum.  Þegar fólk er að drukkna í skuldum eyðir það ekki peningum. Það sparar við sig í mat, fer ekki í klippingu og endurnýjar ekki sjónvarpið.

Afleiðingin er að eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja minnkar.  Fyrirtæki ráða því ekki fólk í vinnu, framleiða ekki meira og skapa ekki meiri verðmæti.

Vöxtur verður lítill sem enginn.

Ríkið fær minni skatttekjur og velferðin dregst saman. Þetta sjáum við í nýja fjárlagafrumvarpinu þar sem skera á niður í heilbrigðisþjónustu og skólunum okkar enn á ný.

Krafan er því einföld.

Lækkum skuldirnar, – og þannig skulum við sjálf tryggja velferðina í landinu.

Með vinnu.

PS. Þann 10.-16. okt. ætla Bandaríkjamenn að krefjast  vinnu í stað niðurskurðar (Jobs not cuts). Hvernig væri að við gerðum það sama?

PSS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.9.2011 - 09:15 - 6 ummæli

Samningsplan Lilju og Ólínu?

Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir hafa lagt fram tillögur um breytingar á kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og boðist til að taka verkefnið að sér.

Frumvarpið væri gallað og tími kominn til að hvíla Jón aðeins…

Hvað vilja vestfirsku valkyrjurnar svo gera?

Þær leggja upp með sömu tímalengd varðandi nýtingarsamningana og eldra frumvarpið, sem hefur verið einn helsti ágreiningurinn við útgerðarmenn. Hærra hlutfall af aflamarkinu fari í leigupott til að auðvelda nýliðun. Nýliðum verði gefið tækifæri til að kaupa nýtingarsamninga og handhafar nýtingarsamninga geti leigt til sín aflaheimildir.

Hugsanlega eru þær að búa sér til samningsstöðu hér, – í meðförum þingsins verði samið um lengri samningstíma fyrir núverandi handhafa aflaheimildanna, sem og meiri sveigjanleika í framsali en í staðinn fá þær stærri leigupott og meiri strandveiðar.

Þær vilja bjóða upp á frjálsar handfæraveiðar innan skilgreindar strandveiðilandhelgi, – sem ætti að falla ágætlega í kramið hjá stuðningsmönnum þeirra. (Það verður áhugavert að sjá Bolvíkinginn knáa Einar K. tala gegn þessu…)

Þær leggja til að óunninn fiskur verði seldur á markaði og að fjárhagslegur aðskilnaður verði milli vinnslu og útgerðar. Sjómenn hafa kallað eftir hvoru tveggja og með þessu væri komið til móts við þá.

Hér er greinilega komin áætlun um samningaviðræður, – en stóra spurningin er hvort menn séu tilbúnir að treysta Ólínu og Lilju Rafney til verksins.

Hmmm…

(Ahh, ef maður gæti bara verið fluga á vegg á næsta ríkisstjórnarfundi :))

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur