Miðvikudagur 14.9.2016 - 08:06 - Rita ummæli

Almennar íbúðir fyrir fatlað fólk og öryrkja

Lög um almennar íbúðir voru samþykkt á vorþinginu.  Með lögunum er komið á nýju félagslegu húsnæðiskerfi þar sem ríki og sveitarfélög munu veita allt að 30% stofnframlög til fjölgunar leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda þ.m.t. námsmenn, ungt fólk, aldraðir, fólk í félagslegum og fjárhagslegum vanda og fatlað fólk og öryrkjar. Í tengslum við kjarasamninga var lofað að fjölga almennum íbúðum um 2300 á fjórum árum.

En hvað þýðir þetta? Tökum tvö dæmi.

Brynja – Hússjóður Öryrkjabandalagsins er eitt stærsta leigufélag landsins.  Félagið á ríflega 780 íbúðir og hlutverk þess er að eiga og reka íbúðir fyrir öryrkja.  Tilgangi sínum nær sjóðurinn með því að kaupa og byggja leiguíbúðir.  Meirihluti þeirra er á höfuðborgarsvæðinu, en aðrar víðs vegar um landið.  Á undanförnum árum hefur félagið fjölgað um 20 íbúðir á ári hjá sér, en biðlistar eru langir.

Hússjóður Landsamtakanna Þroskahjálpar hefur byggt íbúðarhúsnæði fyrir fatlað fólk í samstarfi við sveitarfélög um árabil en víða er mikil eftirspurn eftir húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem lítið hefur verið byggt á undanförnum árum.

Brynja hússjóður og Þroskahjálp munu geta fjölgað verulega hjá sér leiguíbúðum með því að sækja um 30% stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum fyrir sína skjólstæðinga.  Til viðbótar er gert ráð fyrir 4% aukaframlagi frá ríkinu vegna íbúða fyrir öryrkja.  Gert er ráð fyrir að afgangurinn verði fjármagnaður með lántöku frá lánastofnun að eigin vali.

Þegar eru hafnar viðræður við sveitarfélög um byggingu hundruðir leiguíbúða á vegum þessara félaga, en forsenda fyrir stofnframlagi ríkisins er að sveitarfélög veiti jafnframt stofnframlög sem getur verið til dæmis í formi lóða, niðurfellingar gjalda eða beinna fjárframlaga.  Framlag ríkisins verður í formi beinna styrkja eða vaxtaniðurgreiðslu og hefur Íbúðalánasjóður þegar auglýst eftir fyrstu umsóknunum um stofnframlög ríkisins.

Breytingar á húsnæðisbótakerfinu sem taka gildi um áramótin og samkomulag við sveitarfélög um að öll sveitarfélög muni bjóða sérstakar húsaleigubætur mun styðja enn frekar við leigjendur sem búa við fötlun og skerta starfsgetu.  Þar má nefna að tekið verður tillit til allra heimilismanna þannig að húsnæðisbætur skerðist ekki við að barn verður 18 ára og geta bætt allt að 75% af húsaleigu. Börn einstæðra foreldra munu teljast sem heimilismenn hjá báðum foreldrum sínum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um umgengni. Jafnræði verður einnig tryggt á milli leigjenda þegar kemur að ákvörðun um sérstakar húsaleigubætur.

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 6.9.2016 - 12:39 - 1 ummæli

Hvað viltu borga þér í vexti?

Merkileg breyting er að verða á íslenskum húsnæðislánamarkaði þar sem sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna til fasteignakaupa hafa aukist verulega. Þannig eru æ fleiri nánast að taka beint lán hjá sjálfum sér, í stað þess að fjármálafyrirtæki eða Íbúðalánasjóður fái lánað hjá lífeyrissjóðunum og við greiðum milliliðunum viðbótarálag á vexti lífeyrissjóðanna okkar.  Aukin útlán lífeyrissjóðanna til fasteignakaupa hafa líka þann kost að peningamagn í umferð eykst ekki, heldur færast þeir frá öðrum fjárfestingarkostum sem bjóðast lífeyrissjóðum, – ólíkt því þegar fjármálafyrirtæki lána.

Í dag er Lífeyrissjóður Verslunarmanna, gamli lífeyrissjóður minn, að lána óverðtryggt á 6,25% vöxtum sem bundnir eru til þriggja ára. Fastir vextir á verðtryggðum lánum sjóðsins eru 3,60%. Lágmarksávöxtunarviðmið hans og annarra sjóða er svo 3,5% raunávöxtun.

Í samanburði við hin Norðurlöndin eru þetta þó háir vextir.

Hér má sjá húsnæðislánareikni SEB, gamla bankans míns í Svíþjóð, sem ég hvet fólk til að prófa. (Athugið að þar er nú krafa um 15% lágmarksútborgun, að borga verði afborganir af lánunum ásamt vöxtum, auk þess sem greiðslumatið miðast við töluvert hærri vexti til að athuga greiðslugetu greiðandans. Í húsnæðissamvinnufélögum (bostadsrätt) er einnig greitt mánaðargjald sem getur verið 500-700 SEK/m2/ár, en stundum mun hærra eða mun lægra.)

Talið er að raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna á árinu 2015 hafi verið yfir 8% að jafnaði sem er vel yfir því 3,5% viðmiði sem þeir búa við.  Ávöxtunin hér er með besta móti í samanburði við ávöxtun lífeyrissjóða í öðrum ríkjum innan OECD. Meðalávöxtun sjóða innan þessara ríkja var rúm 2% á árinu 2015 eða mun nær þeim húsnæðislánavöxtum sem nú eru í boði til dæmis í Svíþjóð.  Vegið meðaltal ávöxtunar þeirra var enn lægra eða 0,4%.  Í skýrslu nefndar um afnám verðtryggingar af neytendalánum var t.d. bent á nauðsyn þess að taka lagaumhverfi lífeyrissjóða til endurskoðunar með það að markmiði að lækka lágmarksávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna eða tengja það markaðsvöxtum hverju sinni.

Ekki hefur náðst samstaða um þetta og ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna er óbreytt.

Við getum haft áhrif á þetta, bæði í gegnum okkur sem eru kjörnir fulltrúar og í gegnum lífeyrissjóðina okkar. En fyrst þurfum við að svara spurningunni hvort við viljum lægri vexti og þar af leiðandi minni ávöxtun á lífeyrinn okkar eða hvort við viljum háa húsnæðislánavexti og hærri lífeyri?

Fá meira núna eða seinna.

Hvað vilt þú borga þér í vexti?

Flokkar: Fjármálakerfið · Húsnæðismál

Fimmtudagur 18.8.2016 - 15:09 - 7 ummæli

McKinsey: Meira framboð af lóðum

Oft tölum við um að húsnæðisskortur sé eitthvað séríslenskt fyrirbæri.  Í lok árs 2014 birti McKinsey Global Institute skýrslu um húsnæðisvandann á heimsvísu.  Í skýrslunni  kemur fram að 330 milljónir heimila í heiminum hafi ekki aðgang að hagkvæmu húsnæði og þeim muni fjölga um 100 milljónir fram til 2025.

Ein af lykiltillögum þeirra til að bregðast við vandanum og lækka kostnað við húsnæði er aukið lóðaframboð.

Ég hef áður skrifað um mikilvægi þess að auka lóðaframboð, ekki hvað síst hér á höfuðborgarsvæðinu og bent á bæði innlendar og erlendar fyrirmyndir. Í Almere Poort hverfinu í Hollandi lögðu sveitarstjórnarmenn áherslu á að tryggja nægt framboð af lóðum þar sem fólk gæti sjálft byggt sitt eigið heimili eða notið aðstoðar iðnaðarmanna og arkitekta.  Lóðirnar voru seldar á mismunandi verði eftir tekjum fólks.  Tekjulægra fólk gat keypt lóðir fyrir 2,6 m.kr. og valið svo úr nokkrum tegundum af forsmíðuðum húsum.  Jafnframt voru í boði lóðir fyrir tekjuhærra fólk og fyrir fjölbýlishús.

 

Almere Poort, The Netherlands. (Adrienne Norman)

Almere Poort, The Netherlands. (Adrienne Norman)

Litlar sem engar kröfur voru gerðar til húsanna umfram lágmarkskröfur um gæði húsa, þéttleikinn var ýmist mikill eða lítill og sveitarfélagið fór ekki í lokafrágang á vegum og grænum svæðum fyrr en búið er að byggja öll hús í einstökum hluta.

Sama var gert á Íslandi í Smáíbúðahverfinu og í Grafarvoginum.

Smaibudahverfi_teikningar_3

Árangurinn af því að auka frelsi fólks til húsbygginga má sjá í Noregi þar sem mikil hefð er fyrir að fólk byggi sjálft.  Ekkert Norðurlandanna er með jafn hátt hlutfall af séreignum og ein-og tvíbýlum á húsnæðismarkaðnum og Noregur.

Tökum dæmi.  Í Hafnarfirði er á vef sveitarfélagsins auglýst til sölu 682 m2 lóð fyrir einbýlishús sem kostar 11,9 m.kr.  Aðeins tvær lóðir eru þar til sölu.  Ef þessum lóðum væri skipt í þrennt þá væri hver lóð um 227 m2 og myndu kosta tæpar 4 m.kr.  Húsin gætu verið 50-100 m2 að grunnfleti  og hýst 2-4 herbergja íbúðir.  Ef við miðum við 120 þús.kr. á m2 á  kanadískum eða íslenskum einingahúsum fyrir timburverkið (útveggi, milliveggi, þak, klæðningu, einangrun, glugga og hurðir ásamt festingum) þá væri verðið komið á byggingarstað 6- 12 m.kr.  Ef við áætluðum að annað efni og vinna við húsið væri um 130 þús. kr. á m2 þá kostnaður við 50m2 einbýlishús ásamt lóð 19 m.kr. og 100 m2 einbýlishús ásamt lóð 34 m.kr.

Í staðinn fyrir að tvær fjölskyldur væru komnar með heimili, þá gætu sex fjölskyldur verið búnar að koma sér vel fyrir í sínum eigin húsum.

Þegar er umtalsverður áhugi á þessari nálgun sem endurspeglaðist vel á fundi sem haldinn var um smáhús á Íslandi og í nýstofnuðu Hagsmunasamtökum um áhugafólks um smáheimili.

Því óska ég enn á ný eftir byggingafulltrúum og sveitastjórnarmönnum sem eru tilbúnir að brjótast út úr kassanum og hjálpa fólki til að eignast eigið heimili.

Flokkar: Húsnæðismál

Miðvikudagur 20.7.2016 - 07:21 - 2 ummæli

Sanngjarnan stuðning frekar en skuldir

Fyrir stuttu hafði fjölskyldufaðir með fjögur börn á framfæri samband við mig. Þau hjónin voru með 600 þús. kr. ráðstöfunartekjur á mánuði og bjuggu í hóflegu húsnæði. Hann hafði verið að fara yfir fjármál fjölskyldunnar og sá enga leið færa aðra en að endurfjármagna og lengja í húsnæðislánum fjölskyldunnar til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði þeirra.

Á þessu kjörtímabili hef ég lagt áherslu á að auka stuðning við fjölskyldur. Því hef ég barist fyrir því að húsnæðisstuðningur í gegnum húsaleigu- og vaxtabótakerfi, yrði sameinaður í eitt húsnæðisbótakerfi þar sem byggt yrði á efnahag fjölskyldunnar frekar en að umbuna þeim sem geta tekið sem hæst lán líkt og vaxtabótakerfið gerir. Því miður náðist ekki samstaða um það og lög um nýtt húsnæðisbótakerfi sem taka gildi um áramótin taka aðeins til leigjenda en ekki allra heimila. Þar er þó stuðningur við fjölskyldur með lágar og meðaltekjur aukinn verulega.

Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ, bendir á að vaxtabætur hafa rýrnað mikið frá árinu 2013. Vaxtabætur lækkuðu um 25 prósent á árinu 2015 og þeim sem fá þær fækkaði um 21 prósent. Sömuleiðis fækkar þeim sem fá barnabætur greiddar. Í fjármálaáætlun fjármálaráðherra til næstu fimm ára er boðað að draga eigi enn frekar úr barnabótum og vaxtabótum. Slík forgangsröðun fjármálaráðuneytisins var ástæða þess að ég setti alvarlega fyrirvara við þessa áætlun þegar hún var samþykkt í ríkisstjórn.

Ég tel því mikilvægt að opna umræðu um að færa stuðning við heimili landsins yfir til velferðarráðuneytisins, þar sem velferð frekar en skattar er í fyrirrúmi. Sameina ætti vaxtabætur nýju húsnæðisbótakerfi og taka stuðning við barnafjölskyldur til gagngerrar endurskoðunar. Þar hefur verkalýðshreyfingin bent á tillögur um barnatryggingar þar sem barnalífeyrir almannatrygginga og barnabætur yrðu sameinaðar.

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem veita á fólki sanngjarnan stuðning, en ekki þvinga það til skuldsetningar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí 2016.

Flokkar: Fjármálakerfið · Húsnæðismál

Mánudagur 27.6.2016 - 14:14 - Rita ummæli

Almennar íbúðir fyrir konur í neyð

Lög um almennar íbúðir voru samþykkt á vorþinginu.  Með lögunum er komið á nýju húsnæðiskerfi leiguíbúða fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á því að halda, þ.m.t. námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Í tengslum við kjarasamninga fyrir ári var einnig lofað að fjölga almennum íbúðum um 2300 á fjórum árum.

En hvað þýðir þetta í reynd?

Tökum dæmi.  Ekki er langt síðan fulltrúar Samtaka um kvennaathvarf bentu á að hluti þeirra kvenna sem leituðu til athvarfsins í neyð vegna ofbeldis í nánum samböndum ættu erfitt með að komast út úr athvarfinu og inn á leigumarkaðinn.

Ástæðurnar væru meðal annars að ekki væri búið að ganga frá skilnaði, þær ættu ekki rétt á húsaleigubótum, fjárhagur þeirra væri bágur, sem og að rannsóknir sýni að minni vilji sé til að leigja konum sem komi úr Kvennaathvarfinu.  Þetta bætist við þá erfiðu stöðu sem hefur verið á leigumarkaðnum, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru konur af erlendum uppruna í sérstaklega veikri stöðu.

Hvernig gætu ný lög hjálpað þessum konum í neyð þeirra?

Atira_1

Í British Columbia í Kanada starfa félagasamtökin Atira Women‘s Resource Society sem vinna að því að binda enda á ofbeldi gegnum konum.  Það gera þau með beinni þjónustu og samfélagsfræðslu á feminískum grunni.  Samtökin voru stofnuð 1983 og opnuðu sitt fyrst athvarf, Durrant House árið 1987.  Síðan þá hafa samtökin keypt, byggt og þróað ýmis konar húsnæðisúrræði fyrir konur, t.d. athvarf fyrir konur með fíknivanda, konur eldri en 55 ára og millistigshúsnæði fyrir konur sem þurfa frekari stuðning en neyðarathvarf til að komast út úr ofbeldissambandi.

Nýjustu húsnæðisúrræðin eru Margaret‘s (Maggie´s) Housing for Elder Women og Oneesan Housing for Women.

contemporary-living-room

Atira Women‘s Resource Society á félag sem heitir Atira Property Management sem sér um og rekur húsnæðið fyrir félagið og veitir jafnframt öðrum félögum, bæði hagnaðarlausum og hagnaðardrifnum, þjónustu við að þróa húsnæðislausnir. Allur ágóði að rekstri Atira Property Management fer í að reka Atira Women‘s Resource Society.

index_banner2

Með lögum um almennar íbúðir er búinn til lagagrundvöllur fyrir sambærilegt félag hér á landi, til stuðnings eða í samstarfi við starfandi samtök.  Hér á landi gætu til dæmis sveitarfélög og frjáls félagasamtök á borð við kvennasamtök, hjálparsamtök, samtök innflytjenda, mannréttindasamtök og trúfélög gerst stofnaaðilar að íslenskri húsnæðissjálfseignarstofnun að fyrirmynd Atiru og sótt um stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum fyrir konur sem vilja komast út úr ofbeldissamböndum.  Ríki og sveitarfélög koma svo með 30% stofnframlög og er gert ráð fyrir að afgangurinn (70%) verði fjármagnaður með lántöku frá lánastofnun að eigin vali.

Atira_3

Reksturinn yrði fjármagnaður með leigutekjum og væri hægt að nýta hugsanlegan rekstrarafgang til að fjölga íbúðum og til að sinna samfélagslegri fræðslu gegn ofbeldi í nánum samböndum.

Stofnunin yrði með sjálfstæðan efnahagsreikning og því væri áhætta stofnaðila hennar takmörkuð við það stofnfé sem þeir leggja inn.  Hægt væri að sækja um stofnframlög fyrir eina íbúð eða fleiri í senn.  Nýtt húsnæðisbótakerfi mun jafnframt styðja við einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaðnum til að lækka húsnæðiskostnað leigjenda.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um stofnframlögin hjá Íbúðalánasjóði eða velferðarráðuneytinu.

PS Ljósmyndir eru af starfsemi á vegum Atira Women‘s Resource Society í Kanada og vefsvæði samtakanna.

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 21.6.2016 - 11:35 - 1 ummæli

Almennar íbúðir og heimilislaust fólk

Lög um almennar íbúðir voru samþykkt á vorþinginu.  Með lögunum er komið á nýju húsnæðiskerfi þar sem ríki og sveitarfélög munu veita allt að 30% stofnframlög til fjölgunar leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.  Í tengslum við kjarasamnninga fyrir ári síðan var jafnframt lofað að fjölga almennum íbúðum um 2300 á fjórum árum.

En hvað þýðir þetta?  Hvernig mun þetta virka?

Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem ég hef fengið frá því að lögin voru samþykkt.

Tökum dæmi að erlendri fyrirmynd.

Y-foundation fékk World Habitat verðlaunin árið 2015 fyrir nálgun sína í að leysa húsnæðisvanda heimilislauss fólks í Finnlandi.  Y-foundation er  finnsk sjálfseignastofnun sem var stofnuð 1985 af sveitarfélögunum Helsinki, Espoo, Vantaa, Turku og Tampere, sambandi finnskra sveitarfélaga, finnska kirkjuráðinu, finnska Rauða krossinum, samtökum finnska byggingaiðnaðarins, verkalýðsfélagi finnskra byggingariðnaðarmanna, finnsku áfengisversluninni Alko og finnsku samtökunum fyrir fólk með geðheilbrigðisvanda.

WHA14_810_FINLAND2

Markmið stofnunarinnar er  að tryggja heimilislausu fólki öruggt og hagkvæmt leiguhúsnæði til langframa, ekki tímabundin úrræði á borð við gistiskýli eða athvörf og byggir þannig á Housing first hugmyndafræðinni.  Hún á nú tæplega 7000 íbúðir og er nú með starfsemi í 52 borgum og sveitarfélögum í Finnlandi.  Íbúðirnar eru einstaklingsíbúðir eða litlar tveggja herbergja íbúðir. Daglegur rekstur er fjármagnaður með leigutekjum og er rekstrarafgangurinn nýttur til að fjölga íbúðum, bæði með því að byggja þær og kaupa á markaði og til að fræða um vanda þeirra sem eru heimilislausir.  Hið opinbera styður við starfsemi Y-foundation með styrkjum og lánum frá ARA, íbúðalána- og þróunarsjóði Finnlands.

WHA14_1020_FINLAND1

Með lögum um almennar íbúðir er búin til lagagrundvöllur fyrir sambærilega stofnun hér á landi.  Hér gætu til dæmis sveitarfélög og frjáls félagasamtök á borð við trúfélög, hjálparsamtök, félög atvinnurekenda og verkalýðsfélög gerst stofnaðilar að íslensku Y-húsnæðissjálfseignastofnuninni og sótt um stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum fyrir heimilislaust fólk.  Ríki og sveitarfélög koma svo með 30% stofnframlag og er gert ráð fyrir að afgangurinn (70%) verði fjármagnað með lántökufrá lánastofnun að eigin vali.

WHA14_810_FINLAND3

Nýtt húsnæðisbótakerfi styður síðan enn frekar við heimilislaust fólk, þar með talið einstaklinga sem hafa verið á meðferðar- eða endurhæfingarstofnun eða í fangelsi með sambærilegum undanþágum og áður voru veittar til námsmanna á námsgörðum.  Húsnæðisbætur fyrir einstakling á framfærsluaðstoð sveitarfélags eða atvinnuleysisbótum verða 31.000 kr. á mánuði frá og með gildistöku laganna um næstu áramót eða 372.000 kr á ári.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um stofnframlögin hjá Íbúðalánasjóði eða velferðarráðuneytinu.

PS. Ljósmyndir eru af húsnæði á vegum Y-foundation í Finnlandi.

Flokkar: Fjármálakerfið · Húsnæðismál

Sunnudagur 19.6.2016 - 17:51 - Rita ummæli

Til hamingju með daginn!

Í dag eru 101 ár frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt með staðfestingu stjórnarskrárbreytingar þann 19. júní 1915.  Þótt mörg skref hafi verið tekin síðan þá í jafnréttisátt þá eigum við enn mikið verk að vinna.

Þegar Alþingi kom saman í fyrsta sinn eftir að stjórnarskrárbreytingin um kosningarétt kvenna hafði öðlast gildi las Ingibjörg H. Bjarnason upp ávarp reykvískra kvenna til Alþingis.  Orðrétt sagði hún: „Vér vitum og skiljum, að kosningaréttur til Alþingis og kjörgengi er lykillinn að löggjafarvaldi landsins, sem á að fjalla um alla hagsmuni þjóðarinnar, jafnt karla sem kvenna.  Vér trúum því, að fósturjörðin, stóra heimilið vor allra, þarfnist starfskrafta allra sinna barna, jafnt kvenna sem karla, eins og einkaheimilin þarfnast starfskrafta alls heimilisfólksins, og vér trúum því, að vér eigum skyldum að gegna og störf að rækja í löggjöf lands og þjóðar, eins og á einkaheimilum.“

Undir þetta getum við öll tekið.

Heimilin, einkaheimilin, landið allt þarfnast starfskrafta allra heimilismanna.  Enn þá í dag erum við minnt rækilega á að við þurfum að vinna að því að eyða kynbundnum staðalímyndum, að því að jafna ábyrgð á fjölskyldunni á milli karla og kvenna og að vinnumarkaðurinn verður að laga sig betur að þörfum fjölskyldunnar í þessu skyni.  Við sjáum að staðalímyndir ráða enn miklu um framtíðarvettvang drengja og stúlkna í atvinnulífinu.

Síðast en ekki síst má nefna kynbundin launamun og skarðan hlut kvenna í ráðandi stöðum í samfélaginu.

Í dag var úthlutað í fyrsta skipti úr Jafnréttissjóði Íslands.  Sjóðurinn var stofnaður með ákvörðun Alþingis á liðnu ári þegar 100 ár voru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.  Sjóðurinn hefur 100 milljónir króna á ári af fjárlögum á árunum 2016 til 2020.  Í ár bárust 115 umsóknir og var það niðurstaða stjórnar sjóðsins að styrkja 42 verkefni að þessu sinni.

Verkefnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg.

Má þar til dæmis nefna verkefni þar sem könnuð verður tíðni áfalla í æsku hjá íslenskum konum og tengsl við heilsufar, hvernig megi stuðla að auknum áhuga karla á yngri barna kennslu, greining á undirbúningi og skipan í störf dómara á Íslandi, stuttmynd um sexting, hrelliklám og stafræn borgararéttindi, námskeið til að stuðla að sjálfstyrkingu, valdeflingu og aukinni þekkingu á mannréttindum og margþættri mismunun fyrir fatlað fólk, rannsókn um áskoranir og hindranir í jafnréttisstarfi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, rannsókn á reynslu kvenna af áfengis- og vímuefnameðferð út frá sjónarhorni þjónustuþega og verkefni um hvernig stuðla megi að verðskulduðum atvinnutækifærum fyrir kvenkyns innflytjendur og fleiri.

Óska ég öllum styrkþegum innilega til hamingju með þessu flottu verkefni og okkur öllum til hamingju með daginn okkar, 19. júní.

Daginn þar sem við tökum enn eitt skrefið í áttina að því að nýta til jafns starfskrafta okkar allra, karla og kvenna í þágu lands og þjóðar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.6.2016 - 15:20 - Rita ummæli

Fjölskyldustefna fyrir gott og fjölskylduvænt samfélag

Nýverið lagði ég fram á Alþingi tillögu um fjölskyldustefnu til næstu fimm ára með áherslu á börn og barnafjölskyldur. Að baki liggur vönduð vinna með skýrum markmiðum og tillögum um aðgerðir til að efla velferð barna og skapa betra og fjölskylduvænna samfélag.

Verkefnisstjórn um mótun fjölskyldustefnu var falið að móta stefnuna með það að markmiði að tryggja félagslegan jöfnuð með áherslu á að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað.

Í stefnunni endurspeglast grunngildi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Er horft til þess að þannig megi auka velferð barnafjölskyldna og leitast við að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar á sviði fjölskyldu og mannréttinda. Áhersla er lögð á forvarnir ásamt tillögum um aðgerðir sem tryggja eiga efnahagslegt öryggi og auka stuðning við umönnun og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

Öruggt húsnæði er ein af grunnforsendum þess að búa börnum gott atlæti. Fjögur lagafrumvörp mín um húsnæðismál með þetta að markmiði urðu að lögum frá Alþingi nýlega og má því segja að framkvæmd fjölskyldustefnunnar sé að nokkru leyti hafin.

Sporna þarf við öllum hugsanlegum birtingarformum ofbeldis í samfélaginu enda varðar það miklu um möguleika barna til að þroskast og njóta öryggis. Þetta kemur skýrt fram í fjölskyldustefnunni og styður vonandi enn frekar við víðtækt landssamráð um aðgerðir gegn ofbeldi sem hófst á liðnu undir forystu þriggja ráðuneyta.

Samverustundir foreldra og barna hafa forvarnargildi og stuðla að vellíðan fjölskyldunnar. Samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs er því mikilvægt verkefni þar sem jafnframt þarf að leggja áherslu á að auka þátttöku karla í umönnunar- og uppeldishlutverkinu. Í þessu skyni er mikilvægt að hrinda í framkvæmd tillögum nefndar um framtíðarskipan fæðingarorlofs. Fyrsta skrefið verður hækkun hámarksfjárhæðar fæðingarorlofs í 500.000 kr. á mánuði.

Það er von mín að tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu sem nú liggur fyrir Alþingi muni leiða okkur áfram í átt að enn betra og barnvænlegra samfélagi.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. júní 2016)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.6.2016 - 07:43 - Rita ummæli

Ofbeldi gegn fötluðum börnum

Ofbeldi er brot gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi einstaklingum.  Ofbeldi er alltaf alvarlegt en við vitum líka að sumir hópar eru líklegri en aðrir til að sæta ofbeldi og eiga jafnframt erfiðara með að sækja sér hjálp.  Í rannsóknum í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) kom fram að fötluð börn eru 3,7 sinnum líklegri til að verða fyrir hvers konar ofbeldi en ófötluð börn, 3,6 sinnum líklegri til að verða fyrir líkamlegu ofbeldi en ófötluð börn og 2,9 sinnum líklegri til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en ófötluð börn.  Börn með þroskaskerðingu virtust í mestri hættu, og voru tæplega fimm sinnum líklegri til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en ófötluð börn.

Fordómar, þöggun og mismunun auk skorts á þekkingu á aðstæðum fatlaðs fólk eru taldir vera þættir sem skýra af hverju ofbeldi er jafn mikil ógn í lífi fatlaðs fólks og þessar tölur bera með sér.  Barátta fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra hefur skipt miklu máli til að opna á umræðuna.

Skref hafa verið tekin sem þoka okkur áfram.

Má þar nefna meðal annars sérstakt framlag ráðuneytisins til Stígamóta til að ráða sérfræðing til að veita fötluðu fólki ráðgjöf og stuðning vegna kynferðisofbeldis, samstarf Réttindavaktar ráðuneytisins og réttindagæslumanna við lögregluna um bætt verklag og aukið samstarf við rannsókn ofbeldismála gegn fötluðu fólki, útgáfu fræðsluefnis um kynheilbrigði fyrir fatlað fólk með þroskaskerðingu og samstarfsnefnd um orlofsmál fatlaðs fólks sem leitt hefur af sér skýrari verklagsreglur fyrir þjónustuveitendur.

En mun meira þarf til, og þar er þekking okkar besta vopn.

Fyrr á þessu ári tók ég ákvörðun að veita Barnaverndarstofu styrk í því skyni að efna til ráðstefnu og námskeiðahalds fyrir fagfólk, bæði til að auka þekkingu og til að veita leiðbeiningar um vinnubrögð þegar á reynir.  Munu bandarísku sérfræðingarnir Chris Newlin og Scott Modell miðla af þekkingu sinni til fjölbreytts hóps fagfólks sem vill efla og bæta þekkingu sína í þágu fatlaðra barna.

Vonandi verður það til góðs.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2016 - 11:40 - 2 ummæli

Kæru sveitarfélög, – lóðir óskast.

Að byggja sjálfur sitt eigið hús er draumur sem hefur orðið æ fjarlægari fyrir marga eftir því sem aðgengi að lóðum hefur minnkað og kröfur til húsnæðis hafa aukist.

Ekki bara hér á landi heldur víða annars staðar.

Þessu vildi hollenski stjórnmálamaðurinn Adri Duivesteijn breyta. Kjarninn í hans hugmyndafræði var að íbúarnir sjálfir ættu að fá aftur valdið til sín og fjárfestar og verktakar hefðu alltof lengi setið einir að framleiðslu á íbúðarhúsnæði. Árangurinn má sjá í Almere Poort í Hollandi þar sem 250 hekturum af landi í eigu sveitarfélagsins var breytt í lóðir fyrir fólk til að byggja sjálft.

Lóðirnar voru seldar á mismunandi verði eftir tekjum fólks. Tekjulægra fólk gat keypt lóð fyrir 2,6 m.kr. og valið svo úr nokkrum tegundum af forsmíðuðum húsum.  Jafnframt voru í boði lóðir fyrir fólk með hærri tekjur sem og lóðir fyrir fjölbýlishús.

Markmiðið er að á endanum rísi í Almere Poort 3500 hús sem fólk hefur byggt sjálft eða með aðstoð iðnaðarmanna og arkitekta. Litlar sem engar kröfur eru gerðar til húsanna, þéttleikinn er ýmist mikill eða lítill og sveitarfélagið fer ekki í lokafrágang á vegum og grænum svæðum fyrr en búið er að byggja öll hús í hverjum einstökum hluta. Í grunninn er þetta ekki flókið, – og við þekkjum til sambærilegra dæma í íslenskra húsasögu á borð við Smáíbúðahverfið og Grafarvoginn.  Sama aðferðarfræði var notuð í Almere Poort.  Sveitarfélagið skipulagði einfaldlega land sem það átti með fjölbreyttum valkostum, litlar lóðir og stórar, litlar íbúðir og stórar íbúðir, einbýlishús og fjölbýlishús, íbúðar- og atvinnuhúsnæði eða jafnvel blöndu af hvoru tveggja.

Og bauð það til sölu.

Engar niðurgreiðslur, engar sérstakar kvaðir um húsagerð eða flóknar reglur.  Bara hundruðir lóða til sölu hjá sveitarfélaginu þar sem væntanlegur íbúi mætir í sérstakar ‘Landverslanir’, velur lóð, greiðir fyrir og fer svo og byggir sitt hús, sjálfur eða í samstarfi við góðan arkitekt og iðnaðarmenn.

Hér má sjá vefsíðu sveitarfélagsins Almere – Ik bouw mijn huis in Almere – með leiðbeiningum um hvernig hægt er að byggja draumahúsið sitt.

Gæti þetta verið næsta skref í húsnæðismálum okkar?

Það eru ákveðin teikn á lofti um að svo gæti orðið.  Hugsanlega.  Sveitarfélagið Garðabær auglýsti fyrir stuttu eftir hugmyndum um skipulag hverfis fyrir ungt fólk og Hafnarfjörður hefur verið að endurskoða skipulagsmál sín. Tvöhundruð manns mættu á fund um byggingu smáhúsa á Íslandi og umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þegar tekið stórt skref til að liðka fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis og boðað frekari breytingar.

Í anda Adri Duivesteijn. Þar sem fólk tekur líf sitt í eigin hendur.

Flokkar: Húsnæðismál

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur