Föstudagur 18.3.2011 - 08:03 - 2 ummæli

Gleymdar sálir í limbó

Á ekki að leyfa fólki sem hefur farið í þrot með fyrirtækin sín að stofna önnur félög? Jú, segi ég.

Ástæðan er að fyrirtæki fara í þrot af margvíslegum ástæðum og fæstar vegna þess að eigandinn/stofnandi gerði eitthvað rangt.  Það getur verið vegna þess að hugmyndin einfaldlega gengur ekki upp, birgir lendir í erfiðleikum, viðkomandi veikist, skilur við makann, vegur er fluttur til af sveitarfélagi o.s.frv. Í langfæstum tilvikum er það vegna þess að fólk gerði eitthvað glæpsamlegt.  Ég segi líka jú vegna þess að fólk lærir af reynslunni – og annað, þriðja eða fjórða fyrirtækið sem fólk stofnar getur verið fyrirtækið sem gengur vel.

Ég fór að velta þessu fyrir mér eftir að ég heyrði af grein sem ríkisskattstjóri skrifaði í Tíund þar sem hann er að tala um kennitöluflakk og hversu lögaðilar skila illa inn skattaskýrslum og ársreikningum.

Það er að mínu mati löngu tímabært að félagaréttur á Íslandi verði endurskoðaður, en ekki  til að koma í veg fyrir að fólk geti stofnað félög með takmarkaða ábyrgð.  Íslendingar hafa verið duglegir að stofna ný fyrirtæki og það er mjög mikilvægur þáttur í framþróun samfélagsins.  Nauðsynlegur þáttur þess að fólk vilji stofna fyrirtæki er að það þurfi ekki að leggja allt sitt undir – að áhættan sé takmörkuð.  Annars dregur úr hvatanum til að stunda nýsköpun og taka þessi erfiðu skref sem fylgja því að stofna fyrirtæki. Vandinn er að við höfum meira og minna vísað öllum þessum frumkvöðlum inn í einkahlutafélagaformið og unnið síðan markvisst að því að gera lög um einkahlutafélög sem mest lík lögum um hlutafélög, þ.e.a.s. allt of flókin!

Þessu þarf að snúa við.  Endurskoða þarf líka önnur félagaform svo fólk hafi eitthvert val.   Svo þurfum við að styðja fólk betur við að hætta rekstri þegar fyrirtæki lenda í erfiðleikum og auðvelda afskráningu félaga.

Þetta ætti allt að fækka  fjölda lögaðila, sem hanga núna inni hjá fyrirtækjaskrá eins og gleymdar sálir í limbói.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.3.2011 - 10:24 - 2 ummæli

Enn of stórir til að falla

Við bankahrunið stóðu Íslendingar frammi fyrir ógnunum en jafnframt tækifærum.  Við, nánast ein þjóða, höfðum tækifæri til að skapa nýtt bankakerfi sem myndi þjóna þörfum íslensks samfélags og aldrei aftur ógna því.  Í staðinn hafa stjórnvöld unnið ötullega að því að endurreisa hið gamla.

„Nýja“ bankakerfið samanstendur fyrst og fremst af þremur stórum bönkum sem saman ráða yfir um 90% af bankamarkaðnum og eru með efnahagsreikninga sem er um 160% af landsframleiðslu.  Okkar bankar eru enn þá of stórir til að hafa eftirlit með og of stórir til að falla án íhlutunar ríkisins. 

Í nýlegum leiðara Viðskiptablaðsins er reynt að færa rök fyrir því að helsta vandamál íslenska fjármálakerfisins sé og hafi lengi verið of margir, litlir og illa reknir sparisjóðir.  Því geti það bara dregið úr kerfisáhættu að renna eins og einu sparisjóðakerfi inn í stóru bankana þrjá.  Þarna endurspeglar ritstjórn  Viðskiptablaðsins því miður þá skammsýni sem einkennt hefur endurreisn íslenska bankakerfisins. 

Við þurfum raunverulega stefnumörkun í endurreisn bankakerfisins, í stað þess að vaða áfram í blindni og trú á markaðinn.

Ég vil mátulega stórt bankakerfi.   Í þeim tilgangi lagði þingflokkur Framsóknarmanna fram þingsályktunartillögu þess efnis að stærð nýs bankakerfis myndi miðast við íslenskar innstæður en ekki íslenskar eignir.  Efnahagsreikningur bankanna hefði þá orðið rétt um landsframleiðslu.  Samsetning lánasafnanna hefði orðið betri og ekki hefði þurft að gefa út flókin og íþyngjandi skuldabréf á milli gömlu og nýju bankanna.  

Ég vil samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.  Ýmsar aðgangshindranir eru á íslenskum fjármálamarkaði, líkt og ólögmætt samráð kortafélaganna sannar.  Ragnar Önundarson, fv. framkvæmdastjóri Eurocard hefur staðfest að þar hafi verið um sameiginleg markaðsyfirráð  að ræða á milli þeirra fjármálafyrirtækja sem voru eigendur kortafélaganna. Margir af þeim sem voru þar í forystu eru í enn í lykilstöðu í fjármálakerfinu og velta má fyrir sér hvort þeir hafi eitthvað lært.

Ég vil að eignarhald fjármálafyrirtækja verði með fjölbreyttu sniði, sem skiptist á milli ríkisins, einkaaðila og svokallaðs samfélagslegs eignarhalds.   Hluti af því er að styrkja og breyta löggjöf um sparisjóði í samræmi við löggjöf nágrannalandanna. 

Ég vil að ríkið þurfi ekki að ábyrgjast innstæður í fjármálafyrirtækjum.  Forsendan fyrir því er að dreifa áhættunni og draga úr áhættusækni.  Það væri hægt að gera með því að setja hámark á hversu stórt hlutfall innstæðna getur verið í einni innlánsstofnun, gera kröfu um áhættutengd iðgjöld í tryggingasjóð og tryggja varanlegan forgang innstæðna í þrotabú.  Einnig væri hægt að takmarka skuldahlutfall bankanna og aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi.

Samþjöppun í bankakerfinu á heimsvísu hefur aukist gríðarlega á síðustu árum.  Hlutur 5 af stærstu bönkum heims af eignum bankakerfisins fór úr 8% árið 1998 í 16% árið 2008. Hlutur 10 stærstu alþjóðlegu bankanna (af þeim 1000 stærstu), fór úr 14% árið 1999, í 19% 2007 og var orðinn 26% árið 2009. Sama þróun er í gangi hér.

Vandinn við „too big to fail“ eða of stór til að fara í þrot hefur því aðeins versnað og þar með kerfisáhættan.  Hluti af þessu ferli er yfirtaka Landsbankans á SpKef, og því gagnrýni ég hana harkalega sem og stefnuleysi stjórnvalda.

(Birtist í Viðskiptablaðinu 17.mars 2011)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.3.2011 - 07:57 - 2 ummæli

Meira um afskriftir

Í gær fjallaði ég um frumvarp um birtingu afskrifta skulda sem ég og Margrét Tryggvadóttir höfum lagt fram á Alþingi, þar sem miða ætti við birtingu á skuldaeftirgjöfum yfir 100 milljónir kr.  Á Facebook sköpuðust töluverðar umræður um hver upphæðin ætti að vera.  Einhver taldi 20-30 milljónir vera rétt viðmið, og annar kom með þá hugmynd að hafa mismunandi viðmið fyrir einstaklinga og lögaðila.  Miða ætti við lágmarkslaun hjá einstaklingum (ca. 2-3 milljónir) og tífalda þá upphæð fyrir lögaðila.

Þegar ég var að vinna frumvarpið þá var ég að reyna að finna jafnvægi á milli réttar okkar til friðhelgi einkalífsins og samfélagslegrar hagsmuna að því að hafa þetta upp á borðinu.

Ég taldi samfélagslegu hagsmunina liggja í að fá réttar upplýsingar um stóru afskriftirnar, og lagði því til að miðað yrði við að skuldaeftirgjafir yfir 100 milljónir kr. yrðu birtar. Hins vegar myndi ég ekki gera athugasemd við að upphæðin væri lækkuð. 

Aðalatriðið er að þessar upplýsingar komi fram á heildstæðan og réttan máta, á meðan við erum að fara í gegnum þetta endurskipulagningarferli skulda fyrirtækja og einstaklinga. Þannig hreinsum við út eitruðu eplin.  Birtum það sem er rétt, gefum þess vegna út afskriftablað samhliða tekjublaðinu – og hreinsum út sögur og orðróma um að fjármálafyrirtæki séu á einhvern hátt að mismuna fyrirtækjum og fólki.

Þetta ætti heldur ekki að stangast á við reglur um bankaleynd. Nú getum við séð á skattaframtali okkar upplýsingar um allar skuldir og innstæður hjá lánastofnunum, allt fyrirframskráð.  Ríkisskattstjóri hefur þegar óskað eftir upplýsingum um afskriftir frá fjármálafyrirtækjunum, og með þessari breytingu eiga allir framtalsskyldir aðilar einnig að tilgreina sínar skuldaeftirgjafir. 

Þessar upplýsingar yrðu birtar í álagningarskrá og skattskrá og myndu liggja frammi í tvær vikur, árlega til ársins 2016.

Þannig yrði þetta einnig aðhald fyrir þær stofnanir sem eru í dag að taka ákvarðanir um hverjir fá afskriftir og hverjir ekki, hverjir fá að lifa og hverjir ekki.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2011 - 12:00 - 1 ummæli

Afskriftir = eitruð epli

Ég og Margrét Tryggvadóttir höfum lagt fram frumvarp sem leggur til að skattkerfið verði nýtt til að birta upplýsingar um hverjir hafa fengið skuldaeftirgjafir yfir 100 milljónir kr. óháð því hvort þær teljist til tekna eða ekki.  Upplýsingarnar verða tilgreindar á því formi og með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður. Upplýsingarnar verða svo birtar með álagningarskrá og skattskrá árin 2011-2016.

Mikil tortryggni ríkir í samfélaginu um starfsemi fjármálastofnana, afskriftir og niðurfærslur lána.  Afskrifaðar skuldir hafa verið kallaðar eitruð epli samfélagsins, þar sem þeir sem fá afskrifað eru þeir sem hafa færst of mikið í fang. Kaupmaðurinn á horninu eða einyrkinn fær litla sem enga aðstoð á meðan hundruð milljóna eða jafnvel tugmilljarðar króna eru strikaðar út hjá eignarhaldsfélögum með litla starfsemi og engin veð.

Erfitt getur verið að lesa úr ársreikningum fyrirtækja hversu mikið hefur verið afskrifað. CreditInfo hefur þó byggt upp kerfi sem greinir upplýsingar sem fram koma í ársreikningum, en þær munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir tvö til þrjú ár. Þá verður fyrst hægt að sjá meðaltal afskriftanna, hæstu og lægstu afskriftirnar og greint hvers konar fyrirtæki fengu mest afskrifað. Einnig verður þá hægt að sjá hvort fyrirtækin fara í þrot þrátt fyrir skuldaniðurfellingar. Með samþykkt þessa frumvarps yrði birting upplýsinganna flýtt.  Þær myndu þá liggja fyrir samhliða álagningaskrá og skattskrá, og hægt væri að kynna sér þær hjá skattinum.

Forsenda þess að dregið verði úr tortryggni og vantrausti er að meðferð fjármálastofnana á lánum viðskiptavina verði lýðræðisleg, og gagnsæ, – og eitruðu eplin verði hreinsuð út. 

Því er þetta frumvarp lagt fram.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2011 - 07:34 - 7 ummæli

ESB sem afvötnun?

Í nýlegri grein heldur Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar áfram áróðri Samfylkingarinnar um að eina leiðin til að ná tökum á íslenskum efnahag og afnema verðtrygginguna sé að ganga í Evrópusambandið. Þannig virðist aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrst og fremst vera hugsuð á efnahagslegum nótum.

Evrópusambandið var á sínum tíma stofnað til að tryggja frið og frelsi í Evrópu eftir hamfarir fyrri og seinni heimsstyrjaldar. Leiðin að því markmiði var víðtæk pólítísk samvinna, meðal annars, en ekki aðeins á sviði efnahagsmála. Helsti árangur Evrópusambandsins er einmitt friður og þar með velmegun í Evrópu. Því er það óásættanlegt að jafn merkilegt ríkjasamstarf og Evrópusambandið skuli eiga að verða einhvers konar afvötnunarstöð fyrir íslenskt efnahagslíf, ef marka má málflutning íslenskra aðildarsinna.

Það er jafnframt óraunsætt.

Reynsla hinna ýmsu aðildarríkja hefur sýnt og sannað að aðild að Evrópusambandinu tryggir ekki efnahagslegan stöðugleika og velsæld. Lykilatriðið er og verður efnahagsstjórnun hvers lands. Embættismenn frá Brussel geta ekki þakkað sér velgengni Svíþjóðar og Þýskalands né axlað ábyrgðina á efnahagshruni Írlands og Grikklands. Þá ábyrgð bera Svíar, Þjóðverjar, Írar og Grikkir með stjórnun sinni á innlendum efnahagsmálum.

Evra eða króna tryggir ekki ábyrga stefnu í peningamálum eða fjármálum ríkisins, né ábyrga stefnu í rekstri fyrirtækja og heimila. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir þurfa að bera ábyrgð á efnahagsstjórninni. Ekki bara stjórnvöld og Seðlabankinn og svo sannarlega ekki Evrópusambandið.

Upptaka evru myndi gera ábyrga efnahagsstjórnun enn brýnni. Reynslan hefur sýnt að þá er hætta á auknu innflæði fjármagns, aukinni skuldsetningu heimila og fyrirtækja og eignabólum og aðlögun að þrengri kosti er erfiðari með evru og fastgengi. Því tel ég nauðsynlegt að skilja á milli aðildar og upptöku evru. Það er ekkert sjálfsagt við það að taka upp evru, heldur þarf þjóðin að meta kosti hennar og galla burtséð frá aðild. Aðildin má ekki vera einhvers konar inngönguskilyrði að evrunni. Með því er helsti kostur aðildar hunsaður, þ.e.a.s. möguleikar okkar til að koma að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar í framkvæmdastjórninni, Evrópuþinginu og ráðherraráðunum.

Það er orðið löngu tímabært að Íslendingar fari að ræða aðild að Evrópusambandinu sem þátttöku fullvalda þjóðar í samstarfi Evrópuþjóða, en ekki sem þynnkumeðal við heimabrugguðum vandræðum.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 15.3.2011)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.3.2011 - 11:38 - 2 ummæli

Gengistryggð lán og málsókn

Óvissan um gengistryggð lán er enn þá til staðar, líkt og ég hef farið í gegnum í fyrri pistli.  Niðurstaða Hæstaréttar hefur létt byrðina fyrir suma, en fyrir aðra hefur staðan versnað umtalsvert.  Jafnvel hjá þeim hafa borgað mest.

Snemma var tekin ákvörðun um að vísa þeim sem væru ósáttir inn í dómskerfið.  Vandinn er að margir þeirra sem hafa góðar forsendur til að fara í mál, leita réttar sín og jafnvel skaðabóta hafa ekki efni á því. 

Lítið hefur verið gert til að koma til móts við það fólk.  Innanríkisráðherra hækkað lítillega tekjuviðmiðin vegna gjafsóknar, en enn þá hefur ekki verið opnað aftur fyrir gjafsókn á fordæmisgefandi málum.  Álfheiður Ingadóttir hefur nú lagt fram frumvarp sem tekur á þessu.  Með samþykkt þess yrði hægt að fá gjafsókn ef mál varðar úrlausn máls sem hefur verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.

Ég tel að flestir geti verið sammála að mál er varða gengisbundin lán uppfylli flest þessi skilyrði.

Sýnum að framlagning frumvarpsins sé ekki sýndarmennskan ein, – heldur að við viljum að réttarkerfið okkar virki óháð efnahags- og þjóðfélagslegri stöðu málsaðila.

Flokkar: Fjármálakerfið · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 13.3.2011 - 09:00 - Rita ummæli

Samvinna í verki

Samvinnustefnan byggir á þremur lykilstoðum. Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að unnið sé að því að hvetja til reksturs samvinnu félaga og annarra sameignar félaga sem hafi hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað.

Fram undan er mikil vinna við uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Hér tel ég að höfuðborgarsvæðið geti lært af reynslu landsbyggðarinnar. Landsbyggðin hefur barist árum saman við samdrátt og fólksfækkun og er að mínu mati aðeins tvennt sem hefur borið verulegan árangur. Annað er uppbygging menntakerfisins, þ.e. framhaldsskóla, fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og háskóla á landsbyggðinni.

Hitt eru vaxtarsamningarnir, sem byggja á hugmyndum Michael Porters um samvinnu í samkeppni, eða uppbyggingu klasa. Fyrirtæki, stofnanir, hið opinbera og einstaklingar skilgreina saman hver sé styrkleiki atvinnulífsins á svæðinu og vinna síðan markvisst að því að styrkja þá þætti enn frekar í samstarfi. Í raun ætti að endurnefna samningana og kalla þá samvinnusamninga, því þeir byggja á samvinnuhugsuninni og endurspegla skýrt hversu miklu sterkari við erum þegar við vinnum saman, en ekki sem einstaklingar.

Samþjöppun valds hefur einkennt íslenskt samfélag. Eignarhald fyrirtækja hefur safnast á æ færri hendur og það sama hefur gerst hjá hinu opinbera. Í stjórnarskránni kemur skýrt fram að við stofnun íslenska lýðveldisins var ætlunin að tryggja þrískiptingu valds í framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Forsetinn hefur framkvæmdavaldið en framselur það til ráðherranna, Alþingi á að setja lög og dómstólar að úrskurða samkvæmt þeim. Af þessum eru bara forsetinn og Alþingi kosin beinni kosningu af almenningi. Hefð hefur síðan skapast fyrir þingræði, og forsetinn hefur orðið nánast valdalaus innan íslenskrar stjórnskipan.

Til að ná fram sanngirni í samfélaginu verðum við að dreifa valdi, og það gerum við ekki nema með róttækum breytingum á íslenskri stjórnskipan. Á síðustu tveimur mánuðum hefur kristallast hversu veikt löggjafarvaldið er orðið gagnvart framkvæmdavaldinu, og samráð er nánast haft til málamynda við þingmenn og þingnefndir um skuldbindingar, samninga og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Þær breytingar sem þarf að gera til að treysta þrískiptingu valdsins eru meðal annars að banna að ráðherrar sætu jafnframt sem þingmenn. Ef þingmenn tækju að sér ráðherraembætti yrðu þeir að segja af sér þingmennsku, en sú leið er einmitt farin í Svíþjóð. Ganga mætti lengra og sameina hlutverk forseta og forsætisráðherra.

Forsætisráðherra yrði þá kosinn beinni kosningu og hann svo velur ráðherra sem yrðu að hljóta samþykki þingsins, líkt og gert er í Bandaríkjunum. Ráðherrar veldu sér síðan ráðuneytisstjóra og helstu trúnaðarmenn inn í viðkomandi ráðuneyti. Þannig væru völd embættismanna í ráðuneytum, sem enginn hefur kosið, einnig takmörkuð. Annar varnagli gegn samþjöppun valds væri að kjörnir fulltrúar gætu aðeins setið samfellt tvö kjörtímabil, enda eiga 8 ár að duga ágætlega til að koma hugmyndum sínum og hugsjónum á framfæri.

Endurskoða þarf löggjöfina um samvinnurekstur og aðlaga hana að nútímasamfélagi. Opna þarf fyrir rekstur samvinnulánastofnana, styrkja stöðu sparisjóðanna og nýta skattakerfið til að umbuna fyrirtækjum sem sýna samfélagslega ábyrgð og vitund í rekstri.

Græðgisvæðing íslensks samfélags reið því nærri að fullu. Ofuráhersla á hagnað, hagræðingu, vöxt og samþjöppun valds gerði það að verkum að auðgildið var sett ofar manngildinu. Til að rata út úr þessum ógöngum þurfum við að endurskoða stjórnskipan landsins, tryggja valddreifingu, jafnt stjórnvalds sem viðskiptalífs og byggja upp nýtt samfélag á grunni samvinnu, sanngirni og jafnréttis. Þar mun samvinnustefnan gegna lykilhlutverki.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19.12.2008)

Flokkar: Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.3.2011 - 14:51 - 2 ummæli

Umhverfisvæn greftrun á Mbl

Í Morgunblaðinu þann 9. mars sl. var fréttaskýring undir fyrirsögninni „Telur þurrfrystingu ekki vænlegan kost.“ Þar er fjallað um frumvarp um umhverfisvæna og fjölbreytari greftrunarsiði en ég er fyrsti flutningsmaður að frumvarpinu. 

Ég geri miklar athugasemdir við umfjöllunina. 

Í fyrsta lagi byggir fréttaskýringin á viðtali við einn mann, Þórsteinn Ragnarsson, forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæmis og formann Kirkjugarðasambands Íslands.  Ekki var leitað skýringa á málinu hjá mér né öðrum.  Í öðru lagi var fullyrt að hætt hefði verið við að bjóða upp á umhverfisvæna greftrun (promission) á Norðurlöndunum, – en áfram er unnið að því að bjóða upp á þessa aðferð í Svíþjóð þótt sænska kirkjan hafi dregið sig út úr verkefninu.   Jafnframt er unnið að henni í Bretlandi, Hollandi og fleiri löndum.  Einnig má benda á opinbera úttekt sænska ríkisins (SOU 2009:79) þar sem lagt er til að aðrar aðferðir við greftrun verði leyfðar, sem verði prófaðar af  stjórnvöldum almennt og  út frá umhverfisáhrifum (bls. 26.)

Í þriðja lagi geri ég sérstaklega athugasemdir við umfjöllun blaðsins um vinnu við frumvarpið og fullyrðingar Þórsteins Ragnarssonar um fljótaskrift á málinu þar sem verið sé að leggja til ákvæði sem þegar eru í lögunum. Með einföldum hætti hefði verið hægt að sannreyna að þar fór Þórsteinn með rangt mál.  Og það sem meira er, er að hann kannast ekki við ákvæði sem er nánast orðrétt í frumvarpinu sem hann vann sjálfur að sem formaður nefndar á vegum dómsmálaráðherra.  Þá er ég að vísa til 3. og 5. gr. þingmáls nr. 38 á 136. löggjafarþingi og 2. og 4. gr þess frumvarps sem ég er fyrsti flutningsmaður að.  Það frumvarp sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi varð aldrei að lögum og því er ákvæðin að sjálfsögðu ekki að finna í núgildandi lögum

Við sem erum viðmælendur fjölmiðla verðum að bera ábyrgð á okkar orðum.  Það hlýtur þó líka að vera hlutverk fjölmiðils að sannreyna fullyrðingar viðmælenda, sérstaklega þegar vegið er að heiðri fólks.

Greftrun er  málefni sem umgangast þarf af virðingu.  Því er fagleg, málefnaleg og hlutlaus umfjöllun einkar mikilvæg, ekki hvað síst hjá hagsmunaaðilum.  Þar þarf að taka upp rökin með og á móti á óhlutdrægan og vandaðan máta. 

Það var ekki gert í þessari umfjöllun og því hlýtur hún að vera  dregin til baka og leiðrétt af hlutaðeigandi.

PS. Áhugasömum um málið bendi ég á nokkrar greinar:

Telegraph 1

Telegraph 2

Clickgreen

Irish Times

 og vefsíðu Promessa í Svíþjóð.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.3.2011 - 09:00 - 3 ummæli

Við þurfum samvinnu

Á götum úti heyrist kallað eftir nýrri hugsun og nýjum hugmyndum fyrir nýtt Ísland.

Vinstri grænir segja að best sé að gera ekki neitt, á meðan Samfylkingin telur að Evrópusambandið leysi öll heimsins vandamál. Sjálfstæðisflokkurinn neitar að gera upp við frjálshyggjuna og skilur ekki hvað hugtakið að axla ábyrgð þýðir og Frjálslyndi flokkurinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara. Eini flokkurinn sem virðist ætla að svara kalli almennings eftir endurnýjun og uppgjör við fortíðina er Framsóknarflokkurinn.

Ný forysta verður valin í janúar og sú forysta verður að endurspegla gildi samvinnustefnunnar um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu. Móta þarf stefnu flokksins upp á nýtt og byggja hana á áherslum um sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum og jafnrétti þar sem allir hafa málfrelsi og jafnan atkvæðisrétt, sjálfstæði einstaklinganna, mikilvægi menntunar og fræðslu, samvinnu og umhyggju fyrir samfélaginu. En hvernig útfærir maður falleg orð yfir í stjórnmálastefnu?

Samvinnustefnan leggur mikla áherslu á ábyrgð einstaklinganna á sjálfum sér og sínu lífi. Er það meitlað í stein að skólar eða heilsugæsla eigi að vera rekin af hinu opinbera, þótt þeir séu fjármagnaðir með skattfé? Foreldrar og kennarar sem hafa áhuga á mótun skólastarfs í sínu samfélagi eiga að geta stofnað skóla. Þetta hefur verið gert í nágrannalöndum okkar, þar á meðal Bretlandi og Svíþjóð. Þar hafa verið stofnuð samvinnufélög um skólana þar sem meðlimir velja fulltrúa í stjórn og nemendur, kennarar og foreldrar taka þannig virkan þátt í stjórnun þeirra. Námið er svo skipulagt í samræmi við þarfir viðkomandi samfélags á grunni hugsjóna um sjálfshjálp, samfélagslega vitund og sanngirni.

Ýmsir möguleikar eru varðandi þróun heilbrigðisþjónustu þar sem hægt er að byggja á samvinnu og samfélagslegri vitund. Þannig er hægt að hætta að einblína á „hagræðingu“ og „styttingu biðtíma“ og fara í staðinn að hugsa um val sjúklinga og möguleika þeirra til að hafa áhrif á þá þjónustu sem þeir fá. Heilbrigðisstarfsmenn og almenningur gætu þannig tekið sig saman og stofnað t.d. heilsugæslu, fæðingarheimili, mæðravernd eða endurhæfingarstöðvar. Sjúkratryggingar Íslands settu svo kröfur fyrir greiðslu, sem gætu m.a. verið að eigendur yrðu meðlimir í samvinnufélagi, en ekki hluthafar, lýðræði ríkti meðal meðlima og þeir tækju virkan þátt í rekstrinum miðað við framlag þeirra. Tilgangur samvinnufélagsins væri þannig að hámarka þjónustu, en ekki bara hagnað.

Jafnrétti og jafnræði hefur alltaf verið ofarlega í huga samvinnumanna og hefur sú stefna endurspeglast mjög skýrt í stefnu Framsóknarflokksins. Eitt stærsta skrefið í átt að jafnrétti á vinnumarkaði var tekið með lögum um Fæðingarorlofssjóð auk þess sem mikil áhersla er lögð á jafnrétti í öllu flokksstarfi, sem hefur m.a. leitt til þess að nú eru konur í meirihluta í þingflokki Framsóknarflokksins. En betur má ef duga skal. Útrýma þarf kynbundnum launamun, jafna hlut karla og kvenna á vinnumarkaði og auka fræðslu um jafnréttismál. Samvinnuhugsjónin er öflugt tæki til þess.

Til að ná árangri þurfum við að gera samvinnu og samstöðu að lykilhugtökum í íslensku samfélagi.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 16.12.2008)

Flokkar: Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.3.2011 - 18:00 - 3 ummæli

Aftur til samvinnu

Íslenskur almenningur situr nú í brunarústum óhefts kapítalisma. Hin ósýnilega hönd hins frjálsa markaðar var eftir allt saman ekkert ósýnileg, hún var hreinlega ekki til. Sýnin um að sífellt væri hægt að stækka kökuna með því að ýta undir græðgi einstaklinganna reyndist vera draumsýn, fals eitt þar sem engin raunveruleg verðmæti voru sköpuð. Óheftur kapítalismi er hruninn líkt og kommúnisminn í lok síðustu aldar.

Tími er til kominn að skoða aðra hugmyndafræði, sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun þar sem fólk leggur saman þekkingu sína, reynslu og hagsmuni til að ná ákveðnum sameiginlegum markmiðum. Það er kominn tími til að endurreisa samvinnuhugsjónina á Íslandi.

Í allt of langan tíma hefur samvinna verið ljótt orð í íslensku. Hugmyndafræðin á bak við samvinnustefnuna hefur týnst og meira að segja menn innan samvinnuhreyfingarinnar sjálfrar hafa týnt sér í frjálshyggjunni og græðgisvæðingu hins íslenska samfélags, eins og sorgardæmið um Samvinnutryggingar sýnir svo átakanlega.

En fyrir hvað stendur samvinnustefnan? Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameignarfélaga sem hafa hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað. Þar sem manngildi er sett ofar auðgildi. En hún er dáin, er það ekki?

Samvinnumenn vilja vissulega ná árangri, en á grunni siðferðislegra gilda og sterkrar samfélagslegrar vitundar. Þetta endurspeglast í viðhorfum þeirra gagnvart samfélaginu og umhverfinu. Gildin eru: sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstaða. Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslum þeirra á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsinga til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju fyrir samfélaginu sem þeir starfa í.

En er samvinnuhreyfingin ekki dauð? Er hún ekki jafn útbrunnin og kapítalismi og kommúnismi? Á vefsíðu ICA (ica.coop), regnhlífarsamtaka samvinnumanna um heim allan kemur fram að alls standa að þeim 221 félagssamtök frá 87 löndum með meira en 800 milljónir meðlima. Félög sem starfa í anda samvinnustefnunnar má finna í landbúnaði, lánastarfsemi, sjávarútvegi, heilsugæslu, fasteignum, iðnaði, tryggingum, ferðaþjónustu, verslun, þróunaraðstoð og stjórnmálum. Meira að segja í hinu svokallaða höfuðvígi kapítalismans, Bandaríkjunum, sjá samvinnufélög í raforkuframleiðslu 25 milljónum manna fyrir rafmagni, eiga helming raforkulínanna og reka heilsugæslu, sem grundvallast á samvinnuhugsjóninni, fyrir 1,4 milljónir fjölskyldna.

Framsóknarflokkurinn á rætur sínar í samvinnuhreyfingunni. Í stefnuskrá hans segir m.a.: „Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.“ Í stefnuskránni segir líka „við setjum manngildi ofar auðgildi …“ En hvar hafa áherslur flokksins verið? Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar voru meðal annars tveir bankar einkavæddir, eitt símafyrirtæki selt og hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja seldur. Markmiðið var að framselja eignir almennings til auðvaldsins í þeirri von að nokkrir brauðmolar dyttu af borðum hinna útvöldu til almúgans.

Man einhver eftir hugmyndum um samvinnurekstur í heilbrigðisþjónustu, skólakerfinu eða bönkunum? Leik-, grunn-, og framhaldsskólum sem reknir væru af kennurum og foreldrum? Heilsugæslu þar sem læknar og sjúklingar sameinuðust um reksturinn? Húsnæðisfélögum þar sem íbúar taka höndum saman til að tryggja sér húsnæði á sanngjörnu verði? Skattalegri umbun til fyrirtækja sem sinna samfélagslegum verkefnum? Eða samvinnusparisjóðum þar sem markmiðið væri að lána peninga á sanngjörnum kjörum til meðlima?

Framsóknarflokkurinn þarf, eins og aðrir, að gera upp við kapítalismann sem ráðið hefur ríkjum síðustu tvo áratugi. Það gerir hann best með því að leita aftur til upprunans og hefja samvinnustefnuna, sem hann var grundvallaður á, til fyrri metorða. Samvinna, samstarf og samvinnurekstur mega ekki lengur vera bannorð í íslensku samfélagi.

(Ég vildi birta aftur inn á nýju bloggi samvinnugreinarnar mínar. Þar setti ég fram mínar hugsjónir og hugmyndir á grunni samvinnu.  Þær voru allar birtar í Fréttablaðinu um áramótin 2008.  Aftur til samvinnu birtist 13.12.2008)

Flokkar: Óflokkað · Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur