Laugardagur 21.7.2012 - 20:49 - 21 ummæli

Bjarni: Hægri snú

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir því yfir að nú þurfi að skera meira niður í velferðarþjónustunni, af því tilefni að hrunreikningar á ríkissjóð – svosem frá þrotabúi Sparisjóðs Sjálfstæðisflokksins í Keflavík – hafa aukið hallann umfram áætlun. Hér.

Erlendis er litið til Íslands sem fordæmis við að vinna sig út úr kreppunni, einmitt vegna þess að hér hefur verið gætt meðalhófs og skynsemi við niðurskurð ríkisútgjalda og reynt sem frekast má verða að hlífa lág- og meðaltekjuhópum. Og samt hafa undanfarin missiri verið sagðar fréttir um það á hverjum degi að merkar stofnanir og verkefni tengd velferðarþjónustunni og samneyslunnin séu á hrakhólum og handan þolmarka. Því miður. Alþingismenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið duglegir við að bera slíkar fréttir inn á vettvang alþingis – takk – og hvatt um leið til aukinna útgjalda úr sameiginlegum sjóðum …

Nú er þess að vænta að liðsmenn Bjarna snúi við blaðinu og beri fram tillögur um þann niðurskurð sem foringinn boðar – réttur staður fyrir þær tillögur er auðvitað við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið strax þegar þing kemur saman í haust.

Innanflokksógnir?

Af hverju tekur Bjarni þennan pól í hæðina einmitt núna? Tölurnar um fjárlagahallann voru ekki óvænt tíðindi, og engar sérstakar fréttir hafa borist í sumar af stefnumótun í Sjálfstæðisflokknum sem sem gæfi til kynna slíka stefnubreytingu – einmitt þegar flestum er að skiljast að stefna ríkisstjórnarinnar upp úr kreppunni var nákvæmlega rétt.

Mér sýnist ákvörðun Bjarna um að taka beygju til hægri og boða villtan niðurskurð einkum snúast um að verja stöðu sína innan Sjálfstæðisflokksins og bregðast við ógnunum sem nú glittir í.

Máli skiptir að innan flokksins virðist hörð hægrihyggja í sókn – sem sjá má á SUS, AMX, Morgunblaðinu og ýmsum pistlum í Viðskiptablaðinu. Nú síðast var ákveðið að stofna sérstakt frjálshyggjusetur kringum Hannes H. Gissurarson og Ragnar Árnason. Bjarni á í vök að verjast þar sem hann hefur hingað til frekar staðið fyrir hefðbundna mið-hægri-hyggju í Haarde-stíl, og tók við flokki sem hlaut að hörfa nokkur skref frá nýfrjálshyggjudekri Davíðsáranna.

Styrmir hótar 

Máli skiptir líka að Styrmir Gunnarsson gaf fyrir stuttu út sérstaka viðvörun til forystusveitar Sjálfstæðisflokksins með því að hvetja til þess að í prófkjörum næsta vetur yrði þeim frambjóðendum refsað sem 1) ekki tækju skýra afstöðu gegn Evrópusambandinu, 2) væru persónulega tengdir hruninu. Nokkur nöfn koma strax upp í hugann – og eitt það allra heitasta er auðvitað nafn Bjarna Benediktssonar.

Skýrar línur!

Af hvaða völdum sem formaður Sjálfstæðisflokksins kýs að snúa hart til hægri – þá er í sjálfu sér fagnaðarefni að hann skuli draga svo skýrar línur. Um þetta hljóta þá næstu kosningar ekki síst að snúast: Uppbyggingarleið stjórnarflokkanna með því að verja kjör og opinbera þjónustu eða nýja ,,leiftursókn“ Flokksins – í þeim stíl einmitt sem nú er efast um hvað háværast annarstaðar í Evrópu.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.7.2012 - 13:36 - 7 ummæli

Alveg sannfærður

Eftir ýmsar efasemdir um nýju miðbæjartillöguna sannfærðist maður algerlega í Fréttablaðinu í morgun – þar sem forseti alþingis færði okkur þau viðhorf um skipulagsmál kringum Austurvöll að umfram allt þyrfti að tryggja framhaldslíf bílastæða við vestanvert Kirkjustræti.

Í fullri alvöru þarf náttúrlega að skoða sérstaklega vel útfærslu þessarar grunntillögu bæði um viðbygginguna sunnanvið Landsímahúsið og um baksvip Nasa-hússins (sem reyndar heitir Sigtún í minni kynslóð). Menn mega þó ekki gleyma sér í status kvó – af Austurvelli horft að því húsi yfirgnæfir það núna áletrunin CENTRAL HOTELS frá Moggahúsinu. Hverjum finnst það fagurt?

Það er lagt upp með óskaplegt nýtingarhlutfall en tillagan hefur ýmsa kosti, og kannski þann helstan að umbylta Ingólfstorgi svokölluðu – hugmynd sem aldrei hefur gengið upp.

Öllu skiptir samt praxísinn, að trúnaðarmenn okkar í borgarstjórninni sjái til þess að nýju húsin verði ekki einhverjar ófreskjur, að á neðstu hæð meðfram götum verði búðir og veitingahús og líf allan daginn, og að ekki kafni allt í bílum.

Það þarf að passa uppá Gamla kvennaskólann frá 1878, en húsið fyrir aftan, utanum sjálfan salinn í Nasa/Sigtúni/Sjálfstæðishúsinu/mötuneyti Pósts og síma, er ekki ýkja merkilegt. Er ekki bara góð hugmynd að endurgera salinn með gömlu innréttingunum fyrir nýjar rokkkynslóðir?

Nú hlýtur skipulagsnefndin í Reykjavík að halda sýningu og hafa umræðufundi og safna áliti frá fólki og hugmyndum – allir Reykvíkingar eiga Austurvöll saman, og reyndar allir landsmenn.

Þar á eftir er svo bara að fá að vita hvað Ögmundi Jónassyni finnst.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.7.2012 - 10:31 - 11 ummæli

Velheppnað fullveldisframsal

Óska blaðamönnunum Erlu Hlynsdóttur og Björk Eiðsdóttur innilega til hamingju með dóminn í Strassborg – og um leið áhugamönnum um tjáningarfrelsi og opna umræðu á Íslandi.

Þetta leiðir til breytinga á meiðyrðalöggjöfinni, segir í sumum fréttum. Kannski. Ég fór einusinni að leita að þessari meiðyrðalöggjöf og hélt þetta væri meiriháttar lagabálkur, en fann að lokum nokkrar greinar inní hegningarlögunum, ágætar greinar almennt orðaðar (gr. 233a–242 sýnist mér, hér). Hér er fyrst og fremst um að kenna dómaframkvæmdinni ef ég skil það rétt – það eru dómstólarnir sem hafa sveiflast til í túlkun þessara lagagreina sem hafa verið nokkurnveginn eins síðan í Grágás, og nú uppá síðkastið fellt hvern dóminn öðrum einkennilegri gegn blaðamönnum. Sem þurfa einmitt á að halda skýrum reglum um æru manna, ábyrgð á ummælum og vernd einkalífs.

En gegn undarlegheitum í íslensku réttarfari og útnesjamennsku í íslenskri stjórnsýslu höfum við sem betur fer Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg.

Velheppnað framsal

Mannréttindadómstóll Evrópu er eitthvert allra besta dæmi okkar tíma um góða alþjóðasamvinnu – og ekki síður um velheppnað fullveldisframsal – sem er núna að verða eitt af dónalegu orðunum í nútímaíslensku. Við höfum lögleitt alþjóðasamning, mannréttindasáttmálann, og þar með skuldbundið okkur til að lúta dómstólnum sem æðsta dómstól í tilteknum málum – sem varða mannréttindi – og úrskurður hans gengur framar íslenskum hæstarétti þótt í Strassborg sitji erlendir dómarar (reyndar einn íslenskur, nú Davíð Þór Björgvinsson, dómararnir koma sinn frá hverju ríki í ráðinu).

Dómstóllinn í Strassborg  hefur komið við sögu ýmiskonar umbóta í réttarfari og stjórnsýslu síðustu áratugina – frægast er líklega málið sem Akureyringurinn Jón Kristinsson (pabbi Arnars leikara) fór með fyrir dómstólinn um 1990 og varð til þess að aflagður var sá aldagamli ósiður að sami maður væri lögga og dómari, nefnilega gamli sýslumaðurinn. Fyrir bara rúmum tuttugu árum! Væri líklega svona enn ef ekki væri þessi tenging við Strassborg.

Ísland er ekkert einsdæmi í dómstólnum – þar er enn verið að fella úrskurði sem leiða til breytinga á löggjöf og dómaframkvæmd gróinna lýðræðis- og réttarríkja í Vestur-Evrópu – við mismikinn fögnuð heimafyrir. Einkum eru Bretar hörundsárir, að minnsta kosti gula pressan, enda eru þeir herramenn einsog Vigdís Hauksdóttir á móti öllu sem byrjar á stóru E-i. Síðasti skandall var að Strassborgardómarar fundu að því að fangar í Bretlandi væru sviptir kosningarétti, slíkar mannréttindaaðfinnslur þóttu auðvitað meiriháttar evrópskur vitleysisgangur og árás á gamalbreskan kommon sens. Dómstóllinn situr hinsvegar við sinn keip, sem heitir mannréttindasáttmáli Evrópu og Bretar skrifuðu undir og staðfestu. Það má ekki dæma af fólki kosningarétt. Mannréttindadómstólinn er trúr verkefni sínu, og þaðan kemur honum traustið sem fólk ber til hans um alla álfuna.

Dómstóllinn er hinsvegar fórnarlamb eigin velgengni. Hann er að drukkna í málum, fyrst og fremst frá fyrrverandi kommúnistaríkjum í Mið- og Austur-Evrópu, og mál frá Tyrklandi eru víst legíó. Þetta leiðir til þess að biðin er löng eftir málsmeðferð – og einkum þó eftir því að vita hvort mál séu talin tæk, sem fæst þeirra reynast vera. Það er verið að breyta vinnulaginu núna til að stytta þessa bið og bægja frá málum sem ekki eiga heima í Strassborg, en menn vilja fara varlega til að skemma ekki allra dýrmætasta eiginleika dómstólsins, það að hver og einn hinna 800 milljóna íbúa Evrópu getur spurt dómstólinn um rétt sinn gegn stjórnvöldum í eigin ríki.

Dóttir Evrópuráðsins

Í öðrum álfum öfunda menn okkur í Evrópu fyrst og fremst af tveimur Evrópufyrirbrigðum: Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva auðvitað, og svo Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg.

Dómstóllinn er afsprengi Evrópuráðsins sem líka hefur aðsetur í Strassborg – í næstu byggingu við dómstólinn – í því eru öll Evrópuríki, nema einræðisríkið Hvítarússland, alls 47 ríki, það starfar á ráðherrastigi og þar er líka þing, sem yðar einlægur tekur nú þátt í við þriðja mann fyrir hönd Íslendinga. Þar er auðvitað mikið talað, og margt reyndar gáfulegt miðað við ýmis önnur þing – en hvað merkast hlutverk þessa þings er einmitt að kjósa dómara í dómstólinn eftir vandaðan undirbúning val- og skoðunarnefnda í hverju ríki og á vegum þingsins.

Evrópuráðið glímir nefnilega við ákveðinn samsemdarvanda þrátt fyrir velgengni sína allt frá stofnun 1949 (Ísland inn 1950) – meðal annars og ekki síst vegna Evrópusambandsins, sem í eru 27 af Evrópuráðsríkjunum 47. Þetta lýsir sér svo sem í því að fáni Evrópuráðsins er sá sami og ESB, og nafn Evrópuráðsins (Council of Europe / Conseil de l’Europe) er nauðalíkt opinberum heitum tveggja mikilvægra ESB-stofnana, ráðherraráðsins og leiðtogaráðsins.

Það er ekki víst að sérlega margir af hinum 800 milljónum íbúa Evrópuráðsríkjanna viti mikið um Evrópuráðið, og margir innbyggjarar ESB-ríkja rugla þessu tvennu örugglega saman  – en mikill meirihluti þeirra veit sínu viti um Mannréttindadómstólinn í Strassborg. Líka Íslendingar – því dómstóllinn í Strassborg er ekki „yfir“-þjóðleg stofnun, ekki vettvangur erlends valds gegn Íslendingum, heldur sam-þjóðleg stofnun, handhafi fullveldis 47 þjóða á tilteknu sviði, og þarmeð merkileg íslensk stofnun sem við eigum að líta á sem hluta af samfélagi okkar og stjórnkerfi okkar og vera stolt af. Sigur Erlu og Bjarkar var undirbúinn með hinu velheppnaða fullveldisframsali við lögfestingu mannréttindasáttmálans sem hluta landsréttar á Íslandi árið 1994.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.7.2012 - 12:54 - 26 ummæli

Njólinn lifi

Af hverju sprettur þessi ótrúlegi pirringur út í náttúrlegan gróður á umferðareyjum og túnskikum í Reykjavík? Og þessi hystería yfir að ekki skuli heyjað í borginni mörgum sinnum á sumri?

Alltaf virt það við Hrafn Gunnlaugsson að halda uppi vörnum fyrir náttúrlegan gróður í borgarlandinu – þetta voru og eru melar og mýrar fyrst og fremst og hér eiga auðvitað að vera þau grös sem að fornu spruttu – þar á meðal hvannjólinn, sem er eiginlega einkennisjurt höfuðborgarinnar, og partur af heimi æskuáranna, að minnsta kosti okkar Hrafns. Við bara búum hérna í einmitt þessari náttúru, og það er segin saga að hinar gervilegu skrúðgrastorfur láta sífellt undan síga fyrir reykvískum villigróðri nema með ævintýralegu nostri. En það nostur á heima í görðum, húsgörðum fjölskyldnanna og sameiginlegum garðsvæðum íbúanna, ekki á almennu reykvísku bersvæði.

Og slátturinn – hvar ætla Júlíus Vífill og Silfur-Egill að sækja peninginn sem þarf til hans?

Snöggskornar grasflatir með standardgróðri eru einkenni amerísku bílaborgarinnar sem var gerð að fyrirmynd í Reykjavík kringum 1960, illu heilli. Nú eiga þeir tímar loksins að vera liðnir.

Lifi njólinn!

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.7.2012 - 10:25 - 3 ummæli

Moggi býr til framsal

Í tvo daga hefur Morgunblaðið sagt landsmönnum að frá því þingi lauk sé í gangi hræðilegt fullveldisframsal – samkvæmt nýjum lögum um loftslagsmál þar sem stóriðjufyrirtækin komast inn í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.

Ég las fréttina í fyrradag og blandaðist svo inn í fréttaflutninginn í gær, en hélt eftir það að í dag birtist látlaus frétt á innsíðu með kyrrlátri fyrirsögn, vegna þess að framsalið í lögunum reyndist vera fullkominn misskilningur. Þau Evrópulög sem um ræðir, og lögspekingar hafa skrifað um vandaða greinargerð – þau eru ekki grunnur laganna sem voru samþykkt í vor. Framsal fullveldis vegna þeirra hefur því ekki farið fram ennþá, og stendur reyndar ekki til af hálfu íslenskra stjórnvalda, samkvæmt minnisblöðum úr utanríkisráðuneytinu.

Forsíða Mogga má hinsvegar ekki vera tóm, og þessvegna kýs blaðið að skilja ekki staðreyndir málsins heldur birtir aðra frétt – þar sem þeir Birgir Ármannsson og Atli Gíslason eru látnir misskilja valdaframsalið og fara mikinn gegn Evrópusambandinu og hinum svikráðu taglhnýtingum þess hérlendis. Gott ef Þuríður Backmann hefur ekki verið tekin upp ólesin líka í þetta skiptið.

Nú spái ég því hinsvegar að hljótt verði framvegis á síðum Mogga um nákvæmlega þetta afar meinta fullveldisframsal.

EES-vandinn

Hið raunverulega álitamál sprettur af tilskipun eða leiðarlögum sem til eru orðin í Evrópusambandinu um einn þátt þessa samvinnusamnings, skráningarkerfið. Þar er gert ráð fyrir sameiginlegri stofnun með ákveðnar heimildir til að halda stóriðjufyrirtækjum við efnið, og ef Íslendingar yrðu með í þessu óbreyttu fælist í því fullveldisframsal sem þau Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen telja í greinargerð að ekki sé heimilt samkvæmt stjórnarskránni. Lausn okkar í bili er þá helst sú að búin verði til hliðarstofnun Efta-ríkjanna, alveg eins og stóra stofnunin, þar sem þessum heimildum yrði ,komið fyrirʻ. Þannig gengi þetta gagnvart stjórnarskránni, telja þau Stefán Már og Björg.

Þetta væri auðvitað heldur vandræðalegt og innihaldslítið. Í nánu samstarfi af þessu tagi þarf hin sameiginlega stofnun að hafa tiltekin völd og heimildir, og geta beitt þeim hratt og vel. Lang-hreinlegast væri að bæta við stjórnarskrána ákvæði þar sem alþingi fengi heimild til að framselja þetta vald í tilvikum einsog þessum – þá auðvitað þannig að hægt sé að kalla þá heimild aftur. Slíkt ákvæði er reyndar að finna í frumvarpsdrögunum frá stjórnlagaráði.

Vandinn er hinsvegar almennari, og felst í því að aukaaðild okkar að Evrópusambandinu gegnum EES-samninginn verður sífellt snúnari. Annarsvegar vegna þess að við erum alltaf í stöðu þiggjandans, eftir að búið er að ráða ráðum og ganga frá málum, ekki þátttakendur sem geta gripið inn í mikilvæg mál og haft áhrif frá upphafi. Hinsvegar vegna þess að í Evrópusamvinnunni verða til sífellt fleiri samþjóðlegar (hef aldrei skilið orðið yfirþjóðlegur) stofnanir sem fara hver um sig með afmarkað vald sem áður var búið um í þjóðríkjunum. Sameiginleg samþjóðleg stofnun er sett á fót til að leysa sameiginlegan samþjóðlegan vanda – sem ekki virðir landamæri. Um það eru umhverfismálin almennt og loftslagsmálin sérstaklega skýrt dæmi.

Þriðja málið á skömmum tíma

Það má segja að þessi nýi vinkill á regluverkinu kringum loftslagskerfið sé þriðja málið af þessu tagi sem kemur upp í utanríkismálanefnd þingsins á skömmum tíma. Hin fyrri voru annarsvegar regluverk kennt við fjárhagsstöðugleika, þar sem er heldur ekki gert ráð fyrir sérlausn fyrir Efta-ríkin innan EES, og svo vegabréfsmál sem af því spratt að Frakkar neituðu að sjá áfram um áritanir fyrir okkur í nokkrum ríkjum nema þeim yrði heimilt sjálfum að neita um áritun án þess að spyrja fyrst í Reykjavík. Það er að vísu ekki EES-mál en náskylt að eðli.

Morgunblaði Matthíasar og Styrmis hefði líklega þótt þetta afar áhugavert, og leitað svara við spurningum sem þessi staða kveikir hjá tiltölulega nýfrjálsri þjóð sem byggir afkomu sína og lífssýn á viðskiptum og samvinnu yfir hafið. En Davíðsmoggi lætur sér fátt um finnast, þar nægir að finna dalega eitthvað á ESB og ríkisstjórnina.

Og samt náði yðar einlægur að svara Matthíasi og Styrmi í Morgunblaði dagsins:

„Þetta mál sýnir ágætlega þann vanda sem við stöndum frammi fyrir sem aðilar að EES-samningnum eftir átján ár. Það þarf að leysa þann vanda því við getum ekki búið við hann til frambúðar. Ég geri ekki ráð fyrir því að því verði tekið með miklum fögnuði að tveggja stoða lausnin sé notuð í öllum tilvikum þar sem þessi staða kemur upp, þá á ég við Evrópusambandið og samstarfsfólk okkar í EES og EFTA. Enda væri það nánast feluleikur. Hinsvegar teldi ég eðlilegt að breyta stjórnarskránni þannig að hægt sé með ákvörðun alþingis að deila fullveldisréttinum í tilvikum einsog þessum. Það leysir málið að hluta. Samt sem áður stöndum við frammi fyrir þeim ágöllum EES-aðildarinnar sem hér býr að baki. Mín lausn á vandanum er að ganga í Evrópusambandið og verða þátttakandi í þessu ferli, og ekki bara þiggjandi. Aðrir verða svo að gera grein fyrir sinni lausn.“

 

Flokkar:

Miðvikudagur 27.6.2012 - 17:36 - 1 ummæli

Steingrímur í Strassborg, o.fl.

Upphefð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur kemur sannarlega að utan – það er hlustað með mikilli athygli alstaðar þar á heimsbyggðinni sem sagt er frá endurreisn Íslands frá hruninu fram á okkar daga – en á Íslandi eru þau tíðindi helst að forsetaframbjóðendurnir keppast hver um annan þveran við að fjarlægja sig sem allra lengst frá nokkrum samhljómi við þann árangur sem nú liggur fyrir í efnahag, lýðræði og framtíðarsýn.

Síðast var mjög fagnað góðri ræðu Steingríms Sigfússonar efnahagsráðherra á þingi Evrópuráðsins hér í Strassborg – enda mæltist honum vel og hafði frá ýmsu að segja – í umræðu sem geisar á þinginu og út um alla Evrópu um markmið og leiðir út úr kreppunni. Steingrímur benti á að okkur hefði tekist að skera niður ríkisútgjöld og auka tekjurnar, meðal annars með skattahækkunum, án þess að ganga að velferðarþjónustunni í nokkurri líkingu við það sem nú er að gerast á Grikklandi, Spáni, Írlandi og Portúgal. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar ætti sér vissulega hugmyndafræðilegar forsendur en ekki síður hefði hún reynst efnahagslega skynsamleg. Steingrímur sagði líka frá því – og þá hlustuðu menn vel víða í salnum – að samvinna okkar við Alþjóða-gjaldeyrissjóðinn hefði gengið vel og sjóðurinn hefði tekið mark á okkar stefnu þegar þeir sáu að Íslendingar ætluðu að takast á við vandann í alvöru.

Sjá hér.

Ég var nokkuð ánægður með Steingrím Jóhann og næstum búinn að fyrirgefa honum Vaðlaheiðardelluna – enda hefur ræðan endurhljómað hér síðan, bæði í umræðunni um kreppuna í gærdag og í góðri umræðu í dag, miðvikudag, um vanda lýðræðisins á okkar óræðu krepputímum.

Þar hljómaði önnur íslensk rödd – nefnilega yðar einlægs. Án nokkurs samanburðar við efnahagsráðherrann var ég líka að reyna að flytja fréttir að heiman og bjóða fram dæmi aaf íslenskri reynslu síðustu ára, ekki síst um tilraunir okkar með beint lýðræði og samhengi þess við fulltrúalýðræðið. Ég benti á stjórnarskrárferlið sem fyrirmynd þar sem fulltrúalýðræði af tvennu tagi – stjórnlagaráðið og alþingi  – héldist í hendur við beint lýðræði – þjóðfundinn og væntanlegar þjóðaratkvæðagreiðslur. Hinsvegar taldi ræðumaður líka vert að benda á þann lærdóm af íslenskri reynslu síðustu ára að aðferðir beins lýðræðis, svo sem almennar atkvæðagreiðslur, væru lítils virði og gætu jafnvel verið skaðlegar ef þær yrðu viðskila við hugmyndafræðilegt innihald sitt og hlutverk í lýðræðisferlinu. Dæmi um þetta væru Icesave-atkvæðagreiðslurnar, sem hefðu átt þátt í að æsa upp billegan popúlisma sem við sæjum ekki enn fyrir endann á. Við þurfum að finna skynsamlegt jafnvægi milli hins hefðbundna fulltrúalýðræðis og beina lýðræðisins. Þessir kumpánar eiga að vera góðir vinir, ekki fjandmenn í hefndarvígum. (Sjá ræðuna í heild að neðan, á ensku.)

Þessu var nokkuð vel tekið – og framsögumaður í lýðræðisumræðunni lýsti í lokin sérstakri ánægju yfir að Íslendingar væru ekki aðeins að klára sig gæfulega eftir kreppuáfallið heldur líka að læra af því með umbótum í samfélagsgerðinni.

En þá er að muna að í Strassborg var ekkert sagt frá forsetakosningunum …

 

– – – – –

Ræðan um lýðræðið, á ensku (í umræðu um skýrslu frá Andreasi Gross, svissneskum jafnaðarmanni):

 

The excellent report of Mr Gross contains at least three very important points regarding democracy:

Firstly, that democracy is not a static goal to be reached once and for all. In fact, it is quite the opposite, a dynamic process that is constantly evolving, but also always in danger.

Secondly, that there is no prototype of democracy. When democracy is being developed, one of the methods is to build upon the foundation of consultation and discussion patterns present in every society and upon the social possibilities of every new generation. This gives a different view from the stereotype that has prevailed in our part of the world, and must improve optimism in emerging democracies such as Arab countries. This fact is also important for those of us who stand before the task of renewing and deepening democracy in the countries that have a long democratic tradition.

Thirdly, in order to have a good democracy you need a sound state. Therefore, one can counterconclude that a weak state equals less democracy. Less cohesion in society entails less democracy and more „law of the jungle“. Therefore the discussion on democracy can never be anything but political in nature.

Iceland is an old democracy and we have done quite well by general comparison, although perhaps we have been a bit too pleased with ourselves in the past.

In the last decades, some doubts have emerged regarding the state of matters in Iceland, especially since the crash in 2008. It may help others to know a bit more of the situation.

On the positive side, I would like to point out the preparation of a new constitution entailing four stages: The first stage was a random choice meeting – a world café – finding out the core values to build on. Then an assembly with individually chosen representatives – instead of from a party list – worked with the core values in order to create a draft for a new constitution. The third stage is now ongoing, the parliamentary discussion. And finally, the fourth stage will be a referendum on a new constitution. This is a happy combination of direct and representative democracy.

All of this has not been done without criticism but has been quite successful and constitutes a vital part of a necessary post-crash reconciliation.

We really are looking towards direct democracy as a method that can prevent us from repeating the mistakes of the past and we hope that the new constitution will help us on that path.

However, I would like to warn you that utilizing the tools of direct democracy without including its content and ideology can lead to cheap populism. We have seen examples of this in Iceland in two referendums on delicate international financial matters – the Icesave agreements.

That experience does not necessarily tell us that some issues are too complex or subtle for direct democracy, but rather that if the real issue is to be put before the voters, then – for a real decision to be made – we need a lot of information, time and money, just like we know from the parliamentary work. This also means that we need to find ways for the representative half of the democratic system to work in harmony with the direct democracy half of the system. In a sound state, those two halfs must not be vendetta enemies but respectful friends.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.6.2012 - 10:42 - 19 ummæli

64. greinin

Samkvæmt 64. grein þingskapalaga getur forseti eða níu þingmenn lagt fram tillögu um að ljúka umræðu um mál á þingi. Um slíka tillögu skal þá greiða atkvæði strax. Þrennt kemur til greina:

1. Að hætta umræðum samstundis og ganga til atkvæða.

2. Að ákveða þann tíma sem eftir er, annaðhvort ljúka henni á ákveðnum tíma ákveðins dags – um hádegi næsta fimmtudag til dæmis – eða tiltaka lengd umræðu sem eftir er, til dæmis að ekki skuli talað lengur umm málið en tíu tíma í viðbót.

3. Að hver þingmaður fái ákveðinn ræðutíma, sem hann ræður síðan hvort hann notar og að hve miklu leyti. Raunar getur forseti úrskurðað um þetta án atkvæðagreiðslu.

Meirihluti þingsins getur því beitt þessari lagagrein með ýmsum hætti og gætt allrar sanngirni þótt ákveðið sé að umræðan taki enda.

Skilyrði eru þau að umræðan hafi „dregist úr hófi fram“.

Ég tel — ásamt Margréti Tryggvadóttur og miklu fleiri þingmönnum — að nú hafi umræður um mikilvæg mál á alþingi dregist svo úr hófi fram að varðar þjóðarhag. Veit allt um málþóf og hef varið rétt stjórnarandstöðu til að taka þátt í skipan mála á þinginu og hafa áhrif á landstjórnina. Það sem nú er að gerast á þinginu eru hinsvegar strákapör og skemmdarverk.

Hér er þessi þingskapagrein í heild:

64. gr. Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.

Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.

Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður.

Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.

Ákvæði þessarar greinar ná einnig til ræðutíma ráðherra.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.6.2012 - 17:51 - 20 ummæli

Skutu sig í fótinn

Þeir skutu sig í fótinn, sagði við mig gamall sjómaður á Austurvelli og átti við aðgerðir LÍÚ sem lauk með útifundinum góða.

Þetta var sannarlega brjóstumkennanlegt eftir allar sjónvarpsauglýsingarnar og peningaausturinn – og hetjuflautið úr höfninni í allan dag. Sjálfsprottin Facebook-mótmæli gegnmótmælum LÍÚ voru nánast jafnfjölmenn og LÍÚ-fundurinn sjálfur, og miklum mun öflugri – þegar hátölurunum sleppti.

Og nú er hún sumsé búin, alþýðuuppreisnin mikla hjá LÍÚ gegn þjóðareign á sjávarauðlindinni.

Frekar daufir þingmenn úr B og D sem ég kom auga á á Austurvelli. Ennþá daufari inni í sal Höskuldur Þórhallsson að segja okkur að þetta væri allavega ekki sjávarútvegsstefnu Franmsóknarflokksins að kenna.

 

Flokkar:

Miðvikudagur 6.6.2012 - 10:15 - 7 ummæli

Bogesenar hinir nýju

Það er ömurlegt að horfa upp á LÍÚ misbeita valdi sínu þessa dagana – í afar gamalkunnum stíl sem maður var farinn að halda að tilheyrði kannski einkum síðustu öld öndverðri: þeim Bogesen og Pétri þríhross í sögum Kiljans. Úr bréfi í morgun frá áhugamanni um sjávarútvegsmál:

Ég hef undanfarna daga haft aðstöðu til að ræða við gamla félaga af sjónum, mest skipstjóra og stýrimenn. Það er og hefur verið sáð á síðustu árum miklum ótta meðal þeirra um að veiðigjald verði dregið af óskiptum afla eftir fyrirhugaðar breytingar. Mönnum hefur verið haldið undir þrælsótta og gæti t.d. varðað brottvikningu úr starfi ef menn dansa ekki eftir línu útgerðar. Það er kallað neikvæðni og getur kostað starfsmissi.

Auðvitað hefur aldrei staðið til að veiðigjaldið reiknist af óskiptum afla! – það veiðigjald sem nú er í málþófi LÍÚ-flokkanna í þinginu á að reiknast af umframarði eftir skatta og eftir ríflegan hagnað útgerðarinnar. Eðlilegast væri auðvitað að auðlindarentan yrði ákvörðuð á vel afmörkuðum markaði – þar sem lysthafar byðu einfaldlega í veiðileyfin eftir aflaflokkum og svæðum. Þá mundi útgerðarmaðurinn fyrst borga aðgangseyrinn, og svo tækju við veiðar, rekstur og sala. En þetta vilja útgerðarmenn allra síst, af því þeir halda að þannig misstu þeir allt vald á kvótanum – og ættu í rauninni síst að kvarta yfir aðferð frumvarpsins sem tryggir þeim ágætan arð áður en kemur að því að borga fyrir afnotin af auðlindum þjóðarinnar.

Bréfritari heldur áfram um Bogesena hina nýju:

Það er þannig ástand núna að menn þora ekki annað en að mæta á fundi þó það þýði jafnvel 5–6 tíma akstur til að hlusta á illskiljanlega ummræðu. En þeir verða að sýna sig annað gæti kostað starfið. Því miður eru þekkt atvik sem menn þora ekki að leggja fram lögleg veikindavottorð af ótta við starfsmissi. Svona virðist mórallinn vera sums staðar, en ekki alstaðar sem betur fer.

Ekki alstaðar. Það sést meðal annars á bloggi sjómannsins Birgis Kristbjörns Haukssonar – hér á vef höfundar, hér  í ágætri innpökkun Láru Hönnu.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.5.2012 - 18:41 - 13 ummæli

Sammála Páli Óskari

Páll Óskar góður í Sjónvarpsfréttum. Mannréttindi í Aserbaídsjan koma okkur við. Það er reyndar ekki sanngjarnt að ætlast til að Gréta og Jónsi standi í mótmælum í Bakú, en Ríkisútvarpið hefur staðið sig ótrúlega illa við að segja okkur frá ástandinu í landinu.

Ég ákvað áðan að kjósa sænsku stelpuna. Þar að auki segir Linda að sænska lagið sé bara nokkuð gott.

😉

Flokkar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur