Fimmtudagur 24.5.2012 - 15:40 - 16 ummæli

Evrópuviðræður með nýju umboði

Vænn áfangi í stjórnarskrármálinu í dag: Alþingi samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarpið frá stjórnlagaráðinu – gegn atkvæðum þeirra sem aldrei hafa viljað nýja stjórnarskrá nema þeir hafi öll völd á henni sjálfir, og – því miður – gegn atkvæðum velflestra Framsóknarmanna sem þó lofuðu hvað háværast nýrri stjórnarskrá frá sérstöku stjórnlagaþingi í síðustu kosningum.

Atkvæðagreiðslan verður í október, síðan fer málið aftur í þingið sem afgreiðir nýja stjórnarskrá fyrir kosningar næsta vor – það verður svo nýkjörins alþingis sumarið 2013 að taka lokaafstöðu til nýrra grundvallarlaga.

Í leiðinni ákvað alþingi fyrir sinn hatt að setja ESB-viðræðurnar á fulla ferð með því að fella tillögu um sérstaka atkvæðagreiðslu um að stöðva viðræðurnar. Tillagan var frá Vigdísi Hauksdóttur sem nú er að verða einhver helsti leiðtogi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, og útnefndi sjálfa sig „ræðudrottningu þingsins“ í einu af 25 ávörpum sínum meðan atkvæðagreiðslan stóð frá kl. 10.30 til 14.30.

Dronning Vigdís hefur gert landi og þjóð mikinn greiða með tillöguflutningnum, því eftir atkvæðagreiðsluna um tillöguna hennar (34–25), er ljóst að utanríkisráðherra og viðræðunefnd Íslands hefur fullkomið umboð frá þinginu til að halda áfram og ganga frá samningi – sem síðan verður settur í vald þjóðarinnar allrar á grundvelli upplýstrar umræðu.

Og þá getum við haldið áfram með næstu stórmál: Fiskveiðistjórn og rammaáætlun.

Góður dagur á alþingi. 2–0, einsog á tilteknum knattspyrnuvelli í gærkvöldi, að hafnfirskum fimleikamönnum algerlega ólöstuðum.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.5.2012 - 15:12 - 6 ummæli

Stórfenglegur árangur

Fyrra blogg: 11. ræða Péturs Blöndals, sett inn um þrjúleytið þriðjudag:

Man eftir því á þingi fyrir nokkrum árum að Pétur Blöndal sagði það um frammistöðu manna í ræðustól að sá kynni ekki að tala sem ekki gæti komið á framfæri afstöðu sinni til tiltekins máls á fimmtán mínútum.

Fannst þetta nokkuð gott, og hafði auðvitað reynt þetta á sjálfum mér. Ég var reyndar ekki alveg sammála Pétri, því auðvitað geta mál verið það yfirgipsmikil og flókin að það þurfi uppundir hálftíma til að fara yfir þau – en allt yfir því er orðið annaðhvort fyrirlestur eða vitleysa.

Nú sé ég á þingvefnum að þessi sami Pétur Blöndal ætlar hvað úr hverju að fara að halda 11. ræðu sína um stjórnarskrármálið í þessari lotu. Þá hefur hann þegar haldið tíu ræður, eina 20 mínútna, eina 10 mínútna og átta 5 mínútna, og þar að farið einum 22 sinnum í andsvör, tvisvar tvær mínútur hverju sinni. Þetta gera samtals 198 mínútur – sem eru þrír klukkutímar og átján mínútum betur. Hvað ætli það séu mörg korter?

Á dagskrá ásamt Pétri eru í þessum orðum innslegnum þau Guðlaugur Þór Þórðarson með 6. ræðu sína, Vigdís Hauksdóttir, einnig með 6. ræðuna, Sigurður Ingi Jóhannsson með 3. ræðuna, Þorgerður K. Gunnarsdóttir með 6. ræðuna, Ragnheiður E. Árnadóttir með 4. ræðuna, Einar K. Guðfinnsson í annarri ræðu, Bjarni Benediktsson með 4. ræðuna, Ólöf Nordal með 5. ræðuna og Gunnar Bragi Sveinsson með 8. ræðu. Og nú hefur bæst við Ásmundur Einar Daðason með 5. ræðuna sína.

Og hér er sko aldeilis ekki töluð nein vitleysa – heldur eru þessir snillingar að koma í veg fyrir þann óskunda að þjóðin fái að segja álit sitt á nýjum stjórnarskrárdrögum.

Ýtið hér eftir nokkur korter til að sjá Pétur Blöndal flytja elleftu ræðuna.

 

Seinna blogg: Stórfenglegur árangur! — sett inn þriðjudagskvöld

PS: Þær urðu víst 13, ræðurnar hjá Pétri, áður en BD hætti málþófinu um fimmleytið. Mér er sagt að þeir hafi fengið það út úr málþófinu að fleygja út frumvarpi sem hefði stöðvað auglýsingar fyrir bjórdrykkju, einkum unglinga — og svo tókst þeim víst að tefja för framfaramáls um náttúruvernd, þar á meðal ráðstafanir  gegn akstri utan vega. Stórfenglegur árangur! Innilega til hamingju, Ragnheiður Elín og Vigdís Hauks!

 

Flokkar:

Fimmtudagur 17.5.2012 - 16:16 - 18 ummæli

Við strendur Afríku

Tók fyrst núna eftir forsíðu Moggans í gær, miðvikudag. Morgunblaðið er sem kunnugt er systurfyrirtæki Ísfélags Vestmannaeyja, og í gær fagnar blaðið komu nýjasta fiskiskips félagsins, Heimaeyjar VE-1, sem er komið yfir hafið frá Síle.

Af því tilefni eru eigendurnir sjálfir á forsíðunni. Það er nefnilega vá fyrir dyrum, segir Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Ísfélagsins – já einmitt sami Gunnlaugur Sævar sem á fyrri dögum var framkvæmdastjóri Faxamjöls og stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar og eigandi eignarhaldsfélagsins Hnotskurnar og formaður útvarpsráðs og vinur Davíðs og Hannesar – og Gunnlaugur Sævar segir að ef fer sem horfi þurfi líkegast að „selja þetta glæsilega skip úr landi“. Ástæðan er sú að „fólk sem nýtur einskis trausts og á að líkindum aðeins nokkra mánuði eftir á valdastóli“ ætlar að „svipta fjölda fólks lífsviðurværinu og gera milljarðafjárfestingar verðlausar“.

Gunnlaugur Sævar er greinilega vonda löggan í hópnum kringum Ísfélagið og Morgunblaðið. Góða löggan er Guðbjörg Matthíasdóttir, yfireigandi þessara fyrirtækja, og er ekki alveg jafn-svartsýn og stjórnarformaðurinn: „Við skulum vona að skipið fái verkefni við hæfi svo til þess komi ekki.“

Framan á DV segir svo af öðrum útgerðarmönnum, og kannski vísar sú frétt veginn fyrir Gunnlaug og Guðbjörgu út úr þessum ósköpum og til nýrra verkefna við hæfi:

„Moldríkir Samherjafrændur: Milljarðar í vasann“ – fyrir veiðar við strendur Afríku.

Á þeim slóðum er nefnilega ekki við stjórnvölinn „fólk sem nýtur einskis trausts“ og ætlar að „svipta fjölda fólks lífsviðurværinu og gera milljarðafjárfestingar verðlausar“. Við strendur Afríku er ekkert veiðigjald og engir skattar og ekkert eftirlit með fiskveiðum og enginn almenningur sem þykist eiga auðlindina og vill fá borgað fyrir afnot af henni.

Já. Þetta er auðvitað málið fyrir hrausta menn og sjálfstætt fólk. Af hverju er ekki Ísland – og Vestmannaeyjar – og Morgunblaðið – við strendur Afríku?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.5.2012 - 14:01 - 21 ummæli

Lífeyrissjóðir, skuldir, ábyrgð

Guðmundur Gunnarsson skrifar hér á Eyjunni pistil um lífeyrissjóði og atgervislitla alþingismenn – ég reyndi að koma þar að athugasemd en mistókst af einhverjum tæknilegum ástæðum. Hér er hún nokkurnveginn:

Þegar stjórnmálamenn eða aðrir tillögusmiðir benda á peninga í lífeyrsissjóðunum til að kosta hugmyndir sínar – þá sýnir það yfirleitt að tillögurnar eru vanhugsaðar og settar fram fyrst og fremst til að fá athygli svolitla stund. Það er rétt hjá Guðmundi að þetta eru peningar sem fólk hefur unnið fyrir og ber að fara með einsog eign annarra. Sá sannleikur stendur jafnréttur eftir þótt margir stjórnarmenn í sjóðunum hafi hagað sér einsog asnar í hruninu – enda hljóta þeir að vera hættir störfum.

Á hinn bóginn er vandinn vegna húsnæðisskuldanna núna þannig að forystumenn lífeyrissjóðanna geta ekki látið hann einsog vind um eyru þjóta. Til þess eru félagsleg rök sem snerta eigendur lífeyrissjóðanna, en þó einkum þau rök að íslensku lífeyrissjóðirnir hafa sjálfir gert sig að lánastofnunum fyrir einstaklinga sem standa í húsnæðisöflun. Þeir bera því þá ábyrgð gagnvart neytendum á lánamarkaði sem lánastofnanir almennt gera og bankarnir hafa gengist undir, að minnsta kosti að einhverju leyti.

Þessvegna vakna svona hörð viðbrögð við þveru neii frá lífeyrissjóðunum í málum lánsveðshópsins, fólksins sem gerði þau afdrifaríku mistök að notfæra sér lánatilboð lífeyrissjóðanna, eða fékk til þess foreldra sína og aðra vandamenn.

Við eigum að meta við Guðmund varðstöðu hans um fé almennings í lífeyrissjóðunum, og vonum að hann standi jafn-ákaft á móti tilraunum sem nú eru í gangi til að merja þaðan peninga í glæfraleg stórvirkjunaráform.

Og Guðmundur virðist gera sér grein fyrir að lífeyrissjóðirnir geti ekki bara verið stikkfrí í skuldamálunum, samanber þessa tilvitnun:

Lífeyrissjóðirnir gætu aftur á móti lánað ríkissjóði fjármuni á hagstæðum vöxtum til langs tíma sem þeir gætu síðan úthlutað til landsmanna sem væru í efnahagsvanda.

Eðlilegast væri þó að lífeyrissjóðirnir gengju sjálfir til liðs við björgunarsveitir skuldavandans með niðurfellingum sem ekki nema nema örlitlu broti af því sem þeir töpuðu á spilavítisaðferðum hrunáranna. Ég held að allir eigendur lífeyris með fullu viti skilji þörfina á slíku framlagi. Ef það verður ekki hlýtur að vera eðlilegt að lífeyrissjóðirnir séu látnir hætta að leika banka.

Kannski það ætti bara að nota lýðræðið — og efna til atkvæðagreiðslu um þetta meðal sjóðfélaga?

 

Flokkar:

Fimmtudagur 10.5.2012 - 20:22 - 13 ummæli

Nýja málþófið

Lagði eyrun aðeins við málþófinu á þingi í dag – Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn eru núna komnir í þriðju og fjórðu ræðu – Vigdís Hauksdóttir að flytja fimmtu ræðuna meðan þetta er skrifað, hver ræða fimm mínútur, og svo koma sýndarandsvör: Mér finnst ríkisstjórnin vond og stjórnarþingmenn vitlausir – hver er skoðun háttvirts þingmanns á því … Jú, þetta finnst mér einmitt líka … bla bla bla

Fyrir ræðu í tuttugu mínútur þarf jafnvel vanur maður að undirbúa sig, vita að minnsta kosti sirka hvað hann ætlar að segja og í hvaða röð – þá þarf helst að hafa einhverja punkta og vera klárlega tilbúinn með endinn. Fyrir fimm mínútna málþófsræðu þarf þokkalega þjálfaður þingmaður ekki einusinni að depla auga, bara opna munninn og láta vaða þangað til slegið er í bjölluna.

Og þeir láta svo sannarlega dæluna ganga – um allt og ekkert, með tauti og skömmum, ruglkenndum upprifjunum, gervihneykslun, ýkjum, hálfsannleika og hreinum staðleysum. Það er enginn að hlusta, það skiptir engu máli hvað þeir segja, það er bara að klára mínúturnar fimm og fara svo í andsvaraleikritið á eftir við þrjá eða fjóra kollega í tíu-tólf mínútur í viðbót.

Ég veit allt um málþóf eftir kjörtímabilið 2003 til 2007. Það getur verið hetjuskapur þegar mikið er undir, og ákveðin skemmtun fyrstu dægrin, en yfirleitt snýst málþófið gegn þeim sem þæfir. Hann agar ekki mál sitt, skipar efninu ekki niður á eðlilegan hátt, gætir ekki að sér í stíl og orðbragði, hættir að bera virðingu fyrir því sem hann er að gera: Tjá sig frammi fyrir þjóðinni sem þjóðkjörinn fulltrúi á alþingi Íslendinga.

Nýju reglurnar sem áttu að slá á málþóf gerðu það í staðinn miklu auðveldara — og stjórnarandstaðan núna hefur verið í málþófi næstum samfellt síðan ég kom aftur inn á alþingi vorið 2010.

Horfi aðeins í kringum mig stundum núna og held að þetta stöðuga málþóf hafi spillt mörgum þeim þingmönnum sem settust nýliðar í gamla salinn vorið 2009 eða 2007. Þeir eru hættir að vanda sig í ræðustól, finnst í lagi að segja hvað sem vera skal, engin þörf á að færa rök að máli sínu eða móta viðhorfum sínum annan farveg en æðibununnar og upphrópunarinnar. Nota málþófsstíllinn líka í alvöru-umræðum um alvöru-mál.

Sem betur fer eru á þessu ýmsar undantekningar. Eygló Harðardóttir. Illugi Gunnarsson. Ragnheiður Ríkarðsdóttir.

Þar á móti kemur að ýmsir reyndari þingmenn eru sokknir á bólakaf í nýja málþófið. Guðlaugur Þór Þórðarson. Einar K. Guðfinnsson. Og núna síðast blessaður kallinn hann Jón Bjarnason.

 

Flokkar:

Sunnudagur 6.5.2012 - 22:18 - 9 ummæli

Salut, Hollande

Adieu Sarkozy — Salut Hollande!

Forsetaskiptin í Frakklandi koma auðvitað ekki á óvart eftir úrslitin fyrir hálfum mánuði og forustu Hollandes í könnunum samfellt síðan baráttan hófst.

Þetta eru samt mikil tíðindi í frönskum stjórnmálum – bara annar vinstriforsetinn fimmta lýðveldisins frá 1958 – og sigur Hollandes gæti strax haft verulega áhrif á þróunina í Evrópu þar sem díverse íhaldsflokkar hafa verið einir um ráðsmennsku í verstu efnahagskreppu í átta áratugi – með þeim afleiðingum sem best sjást á úrslitunum í Grikklandi . . .

Reyndar var fyrirsjáanlegur sigur frambjóðanda jafnaðarmanna/sósíalista í forsetakosningunum í Frans þegar farinn að vigta í ráðagerðum á æðstu stöðum um kreppulausnir, og meira að segja mýkri tónar hljómað frá mönnum Merkel í Berlín um aðrar aðgerðir en stöðugan niðurskurð þar sem hann kemur sér verst. Kannski þeir setjist næst yfir ,,íslensku leiðina“ … sem loksins núna er að fá verðskuldaða viðurkenningu hér heimafyrir.

Að loknum forsetakosningum tekur við vel rúmur mánuður þangað til ný stjórn sest að völdum í París. Síðari umferð þingkosninganna fer fram íslenska þjóðhátíðardaginn 17. júní, og munurinn á Hollande og Sarkozy er of lítill til að neinu verði slegið föstu um úrslitin. Ólíklegt samt að það verði mynduð stjórn gegn forsetanum, en hugsanlegt að hann fái ekki hreinan vinstrimeirihluta. Ég heyrði í frönskum þingmanni úr flokki Hollandes fyrir mánuði – hann var vongóður um sigur síns manns en taldi að þar yrði fyrst og fremst um að þakka útbreiddri óánægju með Sarkozy – og í þingkosningunum  verður enginn Sarkozy! sagði Monsieur le Sénateur – og þessvegna sé ekkert gefið um úrslitin.

Mér sýnist þetta hafa breyst síðustu vikur kosningabaráttunnar, og held að persónan François Hollande og pólitískt yfirbrafgð hans hafi að lokum skipt meira máli en senatorinn taldi. Hollande bauð sig fram sem ,,venjulegan forseta“ – président normal — auðvitað til að höggva í hinn yfirborðskennda glingurforseta Sarkozy, sem mörgum hefur einmitt fundist alveg normal – en líka til að gefa aðra mynd af pólitíkusum en vant er í Frakklandi – mynd af manni í þjónustu við borgarana, pólitíkus sem vissulega ræður við verkefni sín og sýnir forsetastarfinu þá virðingu sem því hæfir en skilur líka að hann hefur fyrst og fremst skyldur við kjósendurna, le peuple – og telur sér sjálfsagt að halda við það nálægð: ,,être proche“ einsog hann lauk frægu eintali í sjónvarpseinvíginu við Sarkozy um erindi sitt í forsetahöllina.

Venjulegi forsetinn — ég vona Frakklands vegna og fyrir okkur öll hin í Evrópu að honum takist einmitt þetta, að vera venjulegur forseti. Að Hollande vilji í raun og veru, og takist ef hann vill það – að breyta forsetadæminu í Frans þannig að Frakklandsforseti breytist úr einskonar hálfguð í bónapartískum dúr í ,,venjulegan“ pólitískan þjóðarleiðtoga sem hugsar meira um almannahag en sjálfan sig og ,,pólitísku pólitíkina“ einsog það heitir þar í landi.

Og kannski tekst núna, eftir óhugnanlegt daður fráfarandi forseta við Marínu Le Pen og hennar fólk alla kosningabaráttuna að höggva skörð í sífelld og sundrandi blokkamæri í franskri pólitík þannig að vinstrimenn næðu bandalagi við hugsandi sentrista á borð við Bayrou gegn þrálátum hægri-meirihluta í þessu merkilega ríki. Það yrðu tíðindi.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.4.2012 - 05:52 - 10 ummæli

Jafnræði í sjávarútvegi

Við Valgerður Bjarnadóttir höfum á alþingi lagt fram breytingartillögu sem ætlað er að tryggja jafnræði og afnema í áföngum forræði tiltekinna útgerðarmanna á veiðiheimildum. Við gerum ráð fyrir tuttugu ára aðlögunartíma þar sem útgerðir fái í sinn hlut verulegan hluta af andvirði þeirra heimilda sem þær láta af hendi en borga veiðigjald af öllum heimildum. Að loknum þessum tíma ræðst arður almennings af auðlindinni af viðskiptum á virkum markaði þar sem þó er hægt að taka tillit til byggðahagsmuna. Við teljum tillögu okkar mikilvæga viðbót við stjórnarfrumvörpin um fiskveiðistjórnun, sem við styðjum í megindráttum.

Í þessum frumvörpum felast mikilvæg framfaraskref. Mestu skiptir að þar er kveðið afdráttarlaust á um að þjóðin eigi sjávarauðlindina í sameiningu, og að fyrir afnot þeirra skuli koma fullt gjald.

Jafnræði

Helsti galli þeirra er sá að þar virðist staðfest að þeir sem nú hafa undir höndum heimild til nýtingar aflahlutdeildar geta búið áfram að sífelldum forgangi til nýtingar. Ákvæði um leigupott og strandveiðar virðast ekki hnekkja þessum forgangi enda enginn hvati byggður inn í frumvarpið til að útgerðarmenn sem fá sjálfkrafa nýtingarleyfi til tuttugu ára með framlengingarrétti færi sig yfir í leigupott með uppboðsfyrirkomulagi.

Jafnræði til að sækja sjó er því ekki tryggt með frumvarpinu um fiskveiðstjórn, og óvíst að það standist skoðun Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á grundvelli hins fræga álits hennar frá 24. október 2007.

Tilgangur breytingartillagnanna er að koma á jafnræði útgerðarfyrirtækja til aðgangs að langtímaveiðirétti og skapa sjávarútvegnum þjálar starfsaðstæður leikreglur sem haldist í grunninn samar að 20 árum liðnum.

Tuttugu ára aðlögun

Í þessu skyni er gert ráð fyrir að gefin verði út nýtingarleyfi til einstakra útgerða á grundvelli þeirra aflahlutdeilda sem þær hafa nú. Leyfin verði afmörkuð í 20 hluti og verði stysta leyfið til eins árs en það lengsta til 20 ára. Ári eftir gildistöku kerfisins koma því fyrstu leyfin til endurráðstöfunar og stöðugt og jafnt eftir. Ný nýtingarleyfi í stað þeirra sem renna út verða afmörkuð og boðin til leigu á kvótaþingi til 20 ára. Til að veita eðlilegan aðlögunartíma að breytingum er reiknað með ívilnun til útgerða þeirra skipa sem í upphafi fá leyfi til að nýta aflahlutdeild. Þessi skip skulu fá 90% af því endurgjaldi sem fæst fyrir þau leyfi sem leigð verða út í staðinn á kvótaþingi.

Afraksturinn rennur til þjóðarinnar með sölu heimilda á kvótaþingi, þar sem hægt er að taka ákveðið tillit til byggðahagsmuna. Þar til þetta kerfi er að fullu komið á þarf þó að notast veiðigjald til að tryggja eigandanum eðlilega rentu af auðlindinni.

Með þeirri leið sem hér er lýst yrði öllum langtímaveiðirétti komið fyrir í nýtingarleyfum sem endurúthlutað er með stöðugu framboði á kvótaþingi. Framtíðarfyrirkomulagið færi strax að virka. Það tryggði jafnræði í greininni og eðlilega verðmyndun á nýtingarleyfunum.

Mannréttindanefnd SÞ — stjórnarsáttmálinn

Þessar tillögur, sem byggjast á hugmyndum Jóhanns Ársælssonar, fyrrverandi alþingismanns, opna nýliðum leið inn í greinina og tryggja fullt jafnræði við úthlutun nýtingarsamninga að loknum 20 ára aðlögunartíma. Með breytingartillögunum eru skilyrðin í áliti Mannréttindanefndar SÞ uppfyllt með sanngirni og undir merkjum meðalhófs.

Síðast en ekki síst eru tillögurnar í samræmi við áratugalanga baráttu gegn óréttlætinu sem núverandi kerfi hefur valdið. Þær eru lagðar fram í beinu framhaldi af sáttmála stjórnarflokkanna og falla miklum mun betur að honum en samsvarandi þættir stjórnarfrumvarpsins. Þær mæta líka athugasemdum og kröfum ýmissa þeirra hagsmunahópa sem hafa gagnrýnt frumvarpið vegna þess að þar sé ekki gætt jafnræðis og ekki gert ráð fyrir að forgangi núverandi handhafa kvóta – keypts eða gefins – linni.

— Rétt er að taka fram að við Valgerður takmörkumokkur við jafnréttisbreytingar og aðlögun í tillöguflutningnum, og hreyfum ekkert við öðrum þáttum frumvarpsins.

– – – – –

Sjá breytingartillöguna sjálfa hér með stuttri greinargerð. Fyrir þá sem vilja leggjast í tillögurnar koma hér líka skýringar við hvern lið þeirra, og greinar frumvarpsins jafnóðum með breytingunum. Best að skoða þetta með því að prenta út breytingartillögurnar og fara yfir þetta saman lið fyrir lið.

Skýringar við einstakar breytingartillögur

1. Við 8. grein:

Sú aðferð sem felst í breytingartillögunni tryggir stöðugt framboð nýtingarleyfa og jafnræði til aðgangs að þeim. Nægilegt framboð skammtímaaflaheimilda virðist nokkuð tryggt með leigupottinum í bráðabirgðaákvæði II og eftir öðrum leiðum. Því er ekki lengur sérstök þörf á að láta hluta aflaaukningar renna í pottana.

Breytt 8. grein:

Úthlutun samkvæmt aflahlutdeildum.

Hafi nytjastofni, sem veiðar eru takmarkaðar úr skv. 7. gr., verið ráðstafað í aflahlutdeildir, skal ráðherra með reglugerð skipta heildaraflamarki hvers fiskveiðiárs í stofninum í flokka sem hér segir: 1. Flokkur 1: Samkvæmt aflahlutdeildum og krókaaflahlutdeildum, sbr. IV. kafla. 2. Flokkur 2: Samkvæmt annarri aflahlutdeild, sbr. VI. kafla.

Verði ákveðinn heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiár, sbr. 1. mgr., sem nemur meira en 202.000 lestum, fyrir ýsu sem nemur meira en 66.000 lestum, fyrir ufsa sem nemur meira en 50.000 lestum eða fyrir steinbít sem nemur meira en 14.000 lestum skulu 60% þess aflamarks sem umfram er í hverri tegund renna til flokks 1 og 40% til flokks 2.

 

2. Við 11. grein

a-liður: Hér er lagt til að gefin verði út nýtingarleyfi til einstakra útgerða á grundvelli þeirra aflahlutdeilda sem þær hafa nú. Leyfin verði afmörkuð í 20 hluti (aflahlutdeildin deilt með 20) og verði stysta leyfið til eins árs en það lengsta til 20 ára. Ári eftir gildistöku kerfisins koma því fyrstu leyfin til endurráðstöfunar á kvótaþingi í formi nýrra afmarkaðra nýtingarleyfa til 20 ára, og síðan jafnt og stöðugt eftir það. Fyrstu tvö árin þarf þó sérstakt fyrirkomulag vegna aukningar í pottum, samanber ákvæði til bráðabirgða II.

b-liður: Hér er lagt til að í stað þeirra nýtingarleyfa sem renna út skuli afmörkuð ný nýtingarleyfi til 20 ára og boðin til leigu á kvótaþingi. Þess vegna er lagt til að ákvæði um að nýtingarleyfi framlengist um 1 ár í senn þannig að alltaf verð 15 ár fram undan hjá útgerðinni falli brott. Þessi ákvæði verða óþörf vegna þess að sú aðferð sem í tillögunni felst tryggir útgerðinni 20 ára öryggi. Fyrstu 20 árin, fram til 2032/33 rennur mestur hluti andvirðisins til fyrrverandi handhafa leyfanna, sbr. nýtt bráðabirgðaákvæði VIII.

c- og d-liðir: Breytingartillögunum við síðustu málsgrein er ætlað að tryggja að öll nýtingarleyfi sem gefin verða út samkvæmt 1. mgr. 11.gr. fái samskonar meðferð hvað varðar takmarkanir, gildistíma og skilyrði, ekki síst til aðgreiningar frá ,nýjum‘ leyfum til 20 ára sem gefin verða út í stað þeirra sem renna út eða koma úr leigupottinum skv. 18. gr.

Breytt 11. grein:

Leyfi til að nýta aflahlutdeild.

Til og með 1. ágúst 2012 býðst eigendum þeirra skipa sem þá ráða yfir aflahlutdeild að staðfesta hjá Fiskistofu, með undirritun eða öðrum fullgildum hætti, að gangast undir leyfi til að nýta aflahlutdeild til 20 ára í 20 hlutum sem deilast jafnt á næstu 20 ár frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 að telja. Tefjist veiting leyfis umfram frest þennan af ástæðum sem ekki varða stjórnvöld er viðkomandi aðila óheimilt að nýta aflamark frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013. Aflaheimildum hans verður ráðstafað til flokks 2 hinn 1. desember 2012 hafi hann á þeim tíma ekki gengist undir leyfið.

Fiskistofa gefur út nýtingarleyfi. Leyfi til að nýta aflahlutdeild felur í sér ígildi samkomulags milli ríkisins og handhafa leyfis um handhöfn þeirra hlutdeilda sem leyfinu fylgja til afmarkaðs tíma. Leyfishafi viðurkennir að honum er veittur aðgangur að sameiginlegri og ævarandi eign þjóðarinnar, honum er skylt að fara að lögum á sviði fiskveiðistjórnar og ber að greiða gjald fyrir nýtingarheimild sína. Bæði leyfishafi og íslenska ríkið skuldbinda sig til að viðhalda og varðveita nytjastofnana sem leyfið er byggt á. Með nýtingarleyfinu skal fylgja skrá um aflahlutdeildir skipsins. Framsal leyfisins er ekki heimilt, hvorki að hluta né heild.

Tilkynni ráðherra ekki að annað sé fyrirhugað framlengist nýtingarleyfi um eitt ár í senn, og ár frá ári, þannig að 15 ár verði jafnan eftir af gildistíma þess. Tilkynningu um fyrirhugaðar grundvallarbreytingar eða brottfall nýtingarleyfis er fyrst heimilt að gefa út þegar fimm ár eru liðin af tímalengd leyfis skv. 1. mgr. Ráðherra skal, áður en slík tilkynning er gefin út, leita samþykkis Alþingis í formi þingsályktunartillögu. Nýtingarleyfi fellur niður sé engin aflahlutdeild bundin því.

Í stað þeirra nýtingarleyfa sem renna út skulu ný nýtingarleyfi til 20 ára afmörkuð og boðin til leigu á kvótaþingi.

Allir þeir sem eiga fiskiskip sem hefur almennt veiðileyfi og flytja á það aflahlutdeild frá þeim skipum sem fá leyfi til að nýta aflahlutdeild skv. 1.mgr. eiga rétt á útgáfu nýtingarleyfis með sömu takmörkunum um gildistíma og skilyrðum sem gilda um upphafleg nýtingarleyfi, sbr. 1.–3. mgr. Þannig skal upphafleg tímalengd nýrra slíkra leyfa miðast við 1. ágúst 2012.

 

3. Við 12. grein

a-liður: Annarsvegar er hér lagt til orðalag sem á að tryggja öruggt samband milli nýtingarleyfa og aflahlutdeilda. Hinsvegar er lagt til að skerðing vegna flutnings aflahlutdeilda falli niður. Með þeirri skipan sem lögð er til yrði komið á virkum og þjálum vettvangi til viðskipta með langtímaveiðirétt, og engin rök fyrir því að hamla viðskiptum milli aðila í greininni samkvæmt reglum á opinberum markaði. Í þessari skipan er heldur ekki sérstök þörf á aukningu í potta.

b-liður: Með nýrri skipan er engin ástæða til að amast við framsali þar sem verðmyndun yrði eðlileg og miðaðist við verðlag á kvótaþingi í þeim tilvikum að viðskipti færu fram utan þess.

Breytt 12. grein:

Framsal aflahlutdeilda.

Fiskistofa skal leyfa flutning aflahlutdeilda milli fiskiskipa, ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:

1. Flutningur aflahlutdeildar leiðir ekki til þess að aflaheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.

2. Fullnægjandi upplýsingar um kaupverð aflahlutdeildar fylgja.

3. Skip sem flutt er til hefur almennt veiðileyfi.

4. Framsal fellur ekki undir takmörkun skv. 13. gr.

Þegar aðilaskipti verða að fiskiskipi, eða aflahlutdeild er flutt milli fiskiskipa skv. 1. mgr., skal Fiskistofa skerða aflahlutdeild fiskiskipsins, eða þá aflahlutdeild sem er framseld, um 3% og ráðstafa í flokk 2. Til aðilaskipta teljast kaup og sala, sameining og yfirtaka. Þegar aðilaskipti verða að fiskiskipi, eða aflahlutdeild er flutt til eða á milli fiskiskipa skv. 1. mgr., skal Fiskistofa endurskrá aflahlutdeildir á útgefin og ný nýtingarleyfi aðila í samræmi við magn aflahlutdeilda og í samræmi við nýrra og áður útgefinna leyfistíma. Til aðilaskipta teljast kaup og sala, sameining og yfirtaka.

Hámark á framsali aflahlutdeildar einstakra tegunda af skipi skal vera hlutfall heildaraflamarks í viðkomandi tegund eins og því var úthlutað fiskveiðiárið 2011/2012 og heildaraflamarks í tegund á því ári sem framsal fer fram. Hlutfall þetta skal margfalda með aflahlutdeild skipsins í viðkomandi tegund og útkoman segir til um hve stóran hluta af aflahlutdeildinni er heimilt að framselja. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Heimild til framsals aflahlutdeilda samkvæmt þessari grein fellur niður við upphaf fiskveiðiársins 2032, án tillits til framlengingar leyfa skv. 3. mgr. 11. gr. og útgáfu nýrra leyfa skv. 4. mgr. 11. gr.

 

4. Við 17. grein

Með tillögunum er staðfest með skýrum hætti að á kvótaþingi fari fram viðskipti með aflahlutdeildir. Á kvótaþingi eru í nýrri skipan boðnar upp annarsvegar aflahlutdeildir til 20 ára, hinsvegar aflamarkstonn innan fiskveiðiársins.

Breytt 17. grein:

Kvótaþing.

Fiskistofa starfrækir markað fyrir aflahlutdeildir og aflamark, kvótaþing, sem skal:

a. vera vettvangur viðskipta með aflahlutdeildir og aflamark,

b. annast greiðslumiðlun milli kaupenda og seljenda aflamarks á kvótaþinginu,

c. safna og miðla upplýsingum um viðskipti með aflahlutdeildir og með aflamark.

Þegar um er að ræða framsal aflamarks í tegund þar sem viðskipti eru svo lítil að ekki eru forsendur til myndunar markaðsverðs á tilboðsmarkaði getur Fiskistofa veitt undanþágu frá viðskiptaskyldu á kvótaþingi.

Fiskistofa skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um framsal krókaaflamarks og aflamarks, þar á meðal um magn eftir tegundum, auk upplýsinga um verð, eftir því sem við á. Fiskistofa skal jafnframt birta aðgengilegar upplýsingar um meðaltalsviðskiptaverð einstakra tegunda á kvótaþingi síðastliðins hálfs mánaðar.

Gjald fyrir kostnaði Fiskistofu af rekstri kvótaþings skal ákveðið af ráðherra. Gjaldið skal greitt fyrir fram eða samhliða flutningi aflahlutdeildar eða aflamarks. Hæð gjaldsins skal að hámarki standa undir kostnaði Fiskistofu af rekstri kvótaþings.

Komi í ljós að aðili, einstaklingur eða lögaðili, hafi selt á kvótaþingi aflamark sem ekki var heimilt að ráðstafa skal útgerð þess skips sem aflamark var flutt af bæta það tjón sem slík sala hefur valdið. Enn fremur er heimilt að útiloka slíkan aðila frá frekari viðskiptum á kvótaþingi nema hann flytji fyrir fram aflamark frá skipi sínu og setji viðbótartryggingar sem nægilegar eru að mati Fiskistofu.

Óheimilt er einstaklingum eða lögaðilum að taka þátt í, stuðla að eða hvetja til viðskipta með aflamark eða annarra aðgerða í því skyni að gefa ranga mynd af umfangi viðskipta með aflamark í tilteknum tegundum eða hafa óeðlileg áhrif á verðmyndun þess.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um viðskipti með aflahlutdeildir og aflamark, m.a. um tilgreiningu upplýsinga um magn og verð á aflahlutdeildum og aflamarki, hámarksmagn sem hver aðili getur boðið í og um skiptingu milli tímabila. Þar er einnig heimilt að kveða á um fjármál, tryggingar, gerð, skráningu og meðferð sölu- og kauptilboða, lágmarksverð, skráningu og frágang viðskipta, greiðslumiðlun og meðferð upplýsinga.

 

5. Við 19. grein

Lagt er til að með breyttri fyrirsögn og 1. mgr. verði lögbundin sú aðalregla að veiðiheimildir fari um kvótaþing. Einnig er stjórnvöldum heimilað að binda í reglugerð úthlutun heimilda við tiltekin svæði með nánari skilyrðum. Ákvæðin eiga annars vegar að tryggja jafnræði til úthlutana og hins vegar rétt byggðarlaga til að nýta auðlindina.

Breytt 19. grein:

Ráðstöfun til um kvótaþings.

Heimilt er að ráðstafa aflamarki um kvótaþing. Í reglugerð er heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum svæðum að bundum nánari skilyrðum.

Ráðstöfun aflahlutdeildar og aflamarks skal fara um kvótaþing nema á annan veg sé kveðið í lögum þessum. Í reglugerð er heimilt að skilyrða ráðstöfun einstakra heimilda að öllu leyti eða að hluta við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum svæðum að bundnum nánari skilyrðum.

Tekjur sem aflað er við ráðstöfun aflahlutdeildar og aflamarks úr flokki 2 samkvæmt þessari grein renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Úr sjóðnum er ráðstafað samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Skal ríkið njóta 40% tekna, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%.

 

6. Við bráðabirgðaákvæði II

Hér er lagt til að ákvæðið verði samræmt þeirri aðalreglu breytingartillagnanna að nýtingarleyfi verði einsleit og verði boðin með jöfnum og fyrirsjáanlegum hætti til leigu á kvótaþingi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir aukningu í potta, flokk 2, á fyrsta ári. Aukningin er hér færð á tvö ár. Einn tuttugasti hluti, 5%, rennur í pottana á fyrsta ári, fiskveiðiárinu 2012/13, og fá útgerðir því aldrei í hendur fyrsta leyfið af hinum 20 sem gert er ráð fyrir í brtill. við 8. gr. Þær fá hinsvegar 90% andvirðis þess á kvótaþingi. Annað árið, 2013/14, renna 5%-in að hluta í pottana og að hluta sem aflahlutdeild í sölu á kvótaþingi.

Breytt bráðabirgðaákvæði II:

Aflahlutdeildir fiskiskips skerðast frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 um 9,5% af þorski, 6,9% af ýsu, 7,2% af ufsa, 9,8% af steinbít og 5,3% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Þessari aflahlutdeild er ráðstafað varanlega í flokk 2.

Aflahlutdeildir fiskiskipa skerðast frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 um 5% af þorski, 5% af ýsu, 5% af ufsa, 5% af steinbít, og 5% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Frá upphafi fiskveiðiársins 2013/2014 skerðast aflaheimildir um 4,5%, af þorski, 1,9% af ýsu, 2,2% af ufsa, 4,8% af steinbít og 0,3% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Fyrrgreindum aflahlutdeildum skal ráðstafað varanlega í flokk 2.

Við frádrátt skv. 1. mgr. skal tekið mið af sérstakri tilgreiningu eigenda veiðiskipa á þeim tegundum sem hlutfall skal dregið frá. Slíkt er þó aðeins heimilt að því leyti sem samanlögð þorskígildi aflaheimilda sérstaklega tilgreindra tegunda eru jöfn samanlögðum þorskígildum frádreginna aflaheimilda. Aðeins er heimilt að tilgreina ýsu, ufsa, þorsk og steinbít.

Þeim aflaheimildum sem dregnar eru frá heildarafla skv. 1. mgr. er ráðherra heimilt að skipta í aðrar tegundir. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu ákveðna framkvæmdaþætti til að tryggja að skipti þessi geti gengið eftir. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur.

Við útgáfu nýtingarleyfa skv. 1. mgr. 11. gr. skal skerðingu á heildarafla skv. 1. mgr. þessa ákvæðis til bráðabirgða mætt með því að stysta nýtingarleyfið fellur niður og það næsta í röðinni skerðist í samræmi við skerðingarhlutföll fiskveiðiársins 2013/2014.

 

6. Bráðabirgðaákvæði VIII

Með þessu ákvæði er útgerðum létt aðlögun að nýrri skipan þar sem leyfi til að nýta nytjastofna á Íslandsmiðum, sameign þjóðarinnar, eru goldin fullu verði. Útgerðirnar njóta í 20 ár þess kvóta sem þær ráða nú, hvort sem hann var fenginn endurgjaldslaust í upphafi eða keyptur af upphaflegum handhöfum. Í tillögunni er notað orðalagið „metið endurgjald“ þar sem markaðsbrestur er hugsanlegur í viðskiptum á kvótaþingi. Gert ráð fyrir að ráðherra útfæri slík undantekningartilvik nánar í reglugerð.

Nýtt bráðabirgðaákvæði VIII:

Í stað þeirra nýtingarleyfa sem gefin verða út í upphafi skv. 11. gr. skal jafnskjótt og þau renna út afmarka og bjóða til leigu á kvótaþingi ný leyfi til 20 ára, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II. Útgerðir þeirra skipa sem fá í upphafi leyfi til að nýta aflahlutdeild samkvæmt 11. gr. skulu fá 90% af metnu endurgjaldi, meðaltalsverði tegundar á viðkomandi ári, sem fæst fyrir ný leyfi í þeirra stað á kvótaþingi fram að upphafi fiskveiðiársins 2032.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.4.2012 - 07:42 - 43 ummæli

Hugsa fyrst, tala svo

Fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, flokksbróðir minn, telur samkvæmt Eyjufréttum að sú ríkisstjórn beri ekki sök á bankahruninu og hafi ekki átt kost á að grípa til neinna aðgerða til að afstýra því. Þetta segi Landsdómur.

Skrýtið. Í hinni frægu skýrslu rannsóknarnefndar alþingis er talið að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hin síðari hefði að sönnu varla átt þess kost að afstýra hruninu – en hafi hinsvegar átt ýmislega möguleika á að draga úr skelfingunum haustið 2008 og lengi áfram. En kannski er sú skýrsla nú úr gildi fallin?

Það hlýtur að minnsta kosti að eiga við um skýrslu umbótanefndar Samfylkingarinnar. Umbótanefndin taldi einmitt að flokkuirnn yrði að taka á sig sinn hluta ábyrgðar á vanrækslu ríkisstjórnarinnar 2007—2009, og leiðir að því margvísleg rök í skýrslu sinni. Eftir verulegt starf og umræður í kjölfar skýrslunnar bað Samfylkingin landsmenn afsökunar á frammistöðu þessarar ríkisstjórnar í frægri ályktun í árslok 2010, og hét því að bæta um betur í stefnumálum, skipulagi og starfsháttum.

Nú er annar uppi, segir ráðherrann góði. Þarf þá ekki að draga til baka skýrslu umbótanefndar og byrja á því öllusaman upp á nýtt? Þarf svo ekki líka að biðjast afsökunar á afsökunarályktuninni?

Ég held – héðan frá Strassborg – að nú sé best að menn spari stóru orðin. Úrskurður landsdóms er einsog hann er: Dómur um stórfellda vanrækslu í einu atriði, sýkna frá refsiábyrgð í þremur öðrum atriðum. Og það er rétt að hafa alveg á hreinu að landsdómur fjallar um ábyrgð að lögum, en ekki um pólitíska ábyrgð eða siðræna ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.4.2012 - 09:23 - 7 ummæli

Annar fundur í næstu viku

Þótt deila megi um hvort bréf dómsforseta Efta-dómstólsins til utanríkisráðherra um aðildarstefnu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins inn í Icesavemálið teljist „meiri háttar utanríkismál“ í skilningi 24. greinar þingskapa um samráð ríkisstjórnar og utanríkismálanefndar alþingis – þá áttu utanríkisráðherrann og samninganefndin að kveikja á perunni strax og þetta bréf barst um mánaðamótin og láta nefndina vita. Punktur basta.

Í dag, föstudag, er þetta orðin niðurstaðan í Stóra Þjóðernis- og Fullveldismálinu frá í gær, fimmtudag. Í gær gafst aldeilis tækifæri til að sýna hetjulundina og berjast fyrir Ísland. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins krafðist þess að ESB-viðræðunum yrði slegið strax á frest. Ragnheiður Elín Árnadóttir – sem samþykkti Icesavesamninga III á þingi sællar minningar – gekk feti framar og sagði viðræðunum sjálfhætt. Fleiri frjálsræðishetjur bættust svo í hópinn þegar leið á daginn. Allt vegna hins arga dónaskapar framkvæmdastjórnarinnar að notfæra sér skýran rétt til svokallaðrar meðalgöngu, sem meðal annars felst í því að íslenska samninganefndin getur svarað röksemdum framkvæmdastjórnarinnar skriflega.

Á fundum utanríkismálanefndar var að vísu komið fram fyrir löngu að þetta væri langlíklegasta atburðarásin, og á ýmsan hátt heppilegra fyrir okkur en hefðbundin þátttaka framkvæmdastjórnarinnar í málum fyrir dómstólnum.

Á fundinn í gær kom svo utanríkisráðherrann og samninganefndin í heilu lagi (nema Tim Ward sem mætti um daginn), en um skipan samninganefndarinnar var einsog menn muna haft sésrtakt samráð milli allra flokka. Rætt var um reglur EFTA-dómstólsins, um mikilvægi Icesave-málsins í alþjóðasamhengi, hugsanleg skilaboð framkvæmdastjórnarinnar með aðildarstefnunni, ekki síst til eigin ríkja, um skynsamlegt hátterni fyrir dómstólum, um lagatæknileg atriði í málsvörninni af íslenskri hálfu, um það hvort málarekstur lögmanna eða skjólstæðinga þeirra í fjölmiðlum hjálpaði til við að sannfæra dómara í réttarhöldum, og ekki síst um afstöðu aðalsamningamanns Íslendinga til nýjustu tíðinda.

Í gær: Þrumur og eldingar, rétta úr hnjánum og standa í lappirnar, Íslandi allt!

Í dag, eftir spjallið við samninganefndina: Leiðinlegt að hafa ekki getað spekúlerað meira í þessu um páskana. Endilega annan fund í næstu viku.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.4.2012 - 13:00 - 22 ummæli

Væll

Ég held með íslenska landsliðinu í fótbolta, handbolta, skíðum, skák et cetera – en ég skil ekki þennan hávaða útaf ESB og Icesave.

Evrópusambandið heldur vel utan um hagsmuni þeirra ríkja sem það mynda. Eru það tíðindi? Það sýnist mér ekki – heldur einmitt ein af ástæðunum fyrir því að Íslendingar eiga að gerast aðilar.

Viðbrögð sem stungið er upp á núna – að hætta viðræðunum við Evrópusambandið eða fresta þeim af þessu tilefni – bíðum við: Voru það ekki einmitt okkar forystumenn, úr öllum flokkum, sem lýstu því yfir að Icesave-málið og aðildarumsóknin væru óskyld mál? Ætlum við núna að tengja þau saman? Kannski makrílinn líka til að allt fari í hnút alstaðar og endurreisnin stöðvist örugglega fyrir kosningar?

Reyndar sagði samningamaður Íslands, Tim Ward, fyrir um einmitt þessa atburðarás á fundi utanríkismálanefndar – og fagnaði henni að sumu leyti þar sem vörnin yrði auðveldari.

Aðalmálið hér er auðvitað það að þeir sem völdu dómstóla umfram samninga – meirihluti þjóðarinnar – verða að gjöra svo vel sætta sig við torfærurnar á þeirri leið.

Við skulum svo sameinast öll í vörn fyrir íslenska hagsmuni – en ekki vera að væla yfir sjálfsögðum hlutum.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur