Síðan Evrópusambandið var stofnað hafa gengið í það 22 ríki. Í mörgum þeirra hefur auðvitað verið mikil umræða um aðildina – og eitt grannríki okkar hefur hafnað aðild tvisvar eftir hatrammar deilur.
Oftast hafa einstakir stjórnmálaflokkar í þessum ríkjum tekið afstöðu til aðildarinnar en oft hefur komið fyrir að innan þeirra – oft hinna stærstu í ríkjunum – voru menn ekki sammála um aðildarmálið. Víðast hafa komið upp já- og nei-hreyfingar laustengdar einstökum flokkum – Evrópusambandsaðild er mál sem flokkakerfinu í löndunum hentar ekki vel að leysa.
Reyndar á þetta líka við um einstakar spurningar sem ESB-þjóðirnar hafa þurft að svara. Sósíalistaflokkurinn franski var ekki einhuga um Lissabon-samninginn á síðasta áratug. Einn helsti talsmaður hans í þjóðaratkvæðagreiðslunni var François Hollande, sem nú er forseti Frakklands. Einn helsti andstæðingur Lissabon-samningsins var Laurent Fabius, sem nú er utanríkisráðherra Frakklands.
Hér hafa línur í ESB-málum ekki fylgt flokkamörkum nákvæmlega. Samfylkingin tók snemma afstöðu með aðild, eða að minnsta kosti aðildarviðræðum, og VG gegn, en í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki voru skoðanir skiptar. Síðan hefur slaknað á andstöðunni í VG en Framsóknarmenn sem vilja skoða aðild hafa tamið sér þögnina. Annar nýju flokkanna á þingi vill klára viðræður, hinn hefur ekki skýra afstöðu. Samanlagt fellur Evrópusambandsmálið ekki í greinar flokkslínur hérlendis, að Samfylkingunni undantekinni. Og sú ríkisstjórn sem hóf viðræðurnar fyrir fjórum árum var skipuð stuðningsmönnum, efasemdarmönnum og andstæðingum – með eðlilegum fyrirvara um orðalag samnings, framtíðarástand og Evrópuþróun.
Þetta er breytt.
Ásmundur Daði Einarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra hefur nú kveðið upp úr með það að í ríkisstjórninni sem hann styður séu flokkarnir báðir andsnúnir Evrópusambandinu. Þessvegna verði engar frekari viðræður og engin þjóðaratkvæðagreiðsla um eitt eða neitt.
Með þessu segir Ásmundur Einar tvennt:
* Hann hlýtur sem þingmaður að beita sér fyrir afnámi viðræðna með nýrri þingsályktun.
* Hann hvetur áhugamenn um aðildarviðræður í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til að hætta þátttöku í þeim og styðja til áhrifa stjórnmálasamtökin Samfylkinguna og Bjarta framtíð.