Fimmtudagur 16.1.2014 - 13:59 - 5 ummæli

ESB-viðhorf í flokkabönd

Síðan Evrópusambandið var stofnað hafa gengið í það 22 ríki. Í mörgum þeirra hefur auðvitað verið mikil umræða um aðildina – og eitt grannríki okkar hefur hafnað aðild tvisvar eftir hatrammar deilur.

Oftast hafa einstakir stjórnmálaflokkar í þessum ríkjum tekið afstöðu til aðildarinnar en oft hefur komið fyrir að innan þeirra – oft hinna stærstu í ríkjunum – voru menn ekki sammála um aðildarmálið. Víðast hafa komið upp já- og nei-hreyfingar laustengdar einstökum flokkum – Evrópusambandsaðild er mál sem flokkakerfinu í löndunum hentar ekki vel að leysa.

Reyndar á þetta líka við um einstakar spurningar sem ESB-þjóðirnar hafa þurft að svara. Sósíalistaflokkurinn franski var ekki einhuga um Lissabon-samninginn á síðasta áratug. Einn helsti talsmaður hans í þjóðaratkvæðagreiðslunni var François Hollande, sem nú er forseti Frakklands. Einn helsti andstæðingur Lissabon-samningsins var Laurent Fabius, sem nú er utanríkisráðherra Frakklands.

Hér hafa línur í ESB-málum ekki fylgt flokkamörkum nákvæmlega. Samfylkingin tók snemma afstöðu með aðild, eða að minnsta kosti aðildarviðræðum, og VG gegn, en í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki voru skoðanir skiptar. Síðan hefur slaknað á andstöðunni í VG en Framsóknarmenn sem vilja skoða aðild hafa tamið sér þögnina. Annar nýju flokkanna á þingi vill klára viðræður, hinn hefur ekki skýra afstöðu. Samanlagt fellur Evrópusambandsmálið ekki í greinar flokkslínur hérlendis, að Samfylkingunni undantekinni. Og sú ríkisstjórn sem hóf viðræðurnar fyrir fjórum árum var skipuð stuðningsmönnum, efasemdarmönnum og andstæðingum – með eðlilegum fyrirvara um orðalag samnings, framtíðarástand og Evrópuþróun.

Þetta er breytt.

Ásmundur Daði Einarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra hefur nú kveðið upp úr með það að í ríkisstjórninni sem hann styður séu flokkarnir báðir andsnúnir Evrópusambandinu. Þessvegna verði engar frekari viðræður og engin þjóðaratkvæðagreiðsla um eitt eða neitt.

Með þessu segir Ásmundur Einar tvennt:

* Hann hlýtur sem þingmaður að beita sér fyrir afnámi viðræðna með nýrri þingsályktun.

* Hann hvetur áhugamenn um aðildarviðræður í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til að hætta þátttöku í þeim og styðja til áhrifa stjórnmálasamtökin Samfylkinguna og Bjarta framtíð.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.1.2014 - 14:18 - 5 ummæli

Þjórsárver: Flækja 22

Til að geta fjallað af viti um áform Sigurðar Inga Jóhannssonar um skerta friðlýsingu Þjórsárvera frá fyrri ákvörðun – totufriðlýsinguna – þurfa menn auðvitað að hafa kynnt sér nýjustu veituhugmyndir Landsvirkjunar á svæðinu.

En: Landsvirkjun vill ekki leyfa neinum að skoða veitu- og virkjunarhugmyndir sínar við Þjórsárver fyrren Sigurður Ingi Jóhannsson er búinn að skrifa undir totuna.

Þetta kom í ljós í svarbréfi Landsvirkjunar við beiðni minni frá föstudegi um að fá afhent þau gögn sem fyrir lægju um nýju tillögurnar:

Í ljósi þess að Landsvirkjun er ekki búin að senda inn umræddar breyttar útfærslur er á þessu stigi ekki hægt að gefa nánari upplýsingar um afl virkjananna og flatarmál lóna en fram koma í 2. áfanga rammaáætlunar.

Varðandi Norðlingaölduveitu þá óskar Landsvirkjun eftir umfjöllun um hana í 3. áfanga rammaáætlunar með breyttri útfærslu, nýrri veituútfærslu. Unnið er að þessum útfærslum og liggja þær ekki fyrir og friðlandsmörkin eru auk þess ekki ákveðin.

Sniðugt. Var kallað Catch 22 í frægri bandarískri skáldsögu frá miðri síðustu öld. Enn lengur hefur ásigkomulag af þessu tagi kennt við tékkneska rithöfundinn Franz Kafka.

Huggun harmi gegn er þó það að Hörður Arnarsson forstjóri hefur tekið að sér að lýsa fyrir okkur þessum veituáformum. Á þrettándanum sagði hann frá því í viðtali við 365 (hér á Vísi) að nýju tillögurnar frá Landsvirkjun um Norðlingaölduveitu væru algerlega frábærar.

Annars vegar erum við að skoða að vera með stífluna á sama stað en minnka lónið um helming þannig að lónið yrði alfarið í árfarveginum og hins vegar er möguleiki á að færa stífluna neðar eftir ánni.

Og það sem meira er: Verndun Þjórsárvera er tryggð og menn hafi núna einkum áhyggjur af áhrifum á fossaröðina í Þjórsá, þ.e. Kjálkaversfoss, Dynk og Gljúfurleitarfoss. Þau áhrif séu þó ofmetin:

Það er líka mikilvægt að þessi áhrif eru algjörlega afturkræf. Ef þjóðin vill eftir 20 ár eða eitthvað fjarlægja stífluna er ekkert því til fyrirstöðu og áhrifin hverfa þá algjörlega.

Eða eitthvað. Hörður vill greinilega fá að vera einn til frásagnar um nýju veitutillögurnar hjá Landsvirkjun – að minnsta kosti þangað til Sigurður Ingi er búinn með sinn part.

Opin stjórnsýsla – í anda Árósasamkomulagsins. Við bara skiljum þetta ekki ennþá.

 

 

Tölvupósturinn frá Landsvirkjun (Jóni Cleoni Sigurðssyni, samskiptasviði)  í heild:

Sæll Mörður,

Afsakaðu hvað þetta kemur seinnt.

Varðandi þá fimm kosti sem röðuðust í verndarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar hyggst Landsvirkjun senda inn breyttar tæknilegar útfærslur á fjórum virkjunarkostum sem lentu í verndarflokki þar sem tekið verður tillit til athugasemda varðandi áhrif á verðmæt landsvæði.

Þetta eru:

Tungnaárlón: Óskað er eftir umfjöllun með breyttri útfærslu.

Bjallavirkjun: Óskað er eftir umfjöllun með breyttri útfærslu.

Norðlingaölduveita: Óskað er eftir umfjöllun með breyttri útfærslu, nýrri veituútfærslu.

Gjástykki: Óskað er eftir umfjöllun með breyttri útfærslu.

Í ljósi þess að Landsvirkjun er ekki búin að senda inn umræddar breyttar útfærslur er á þessu stigi ekki hægt að gefa nánari upplýsingar um afl virkjananna og flatarmál lóna en fram koma í 2. áfanga rammaáætlunar.

Varðandi Hólmsárvirkjun:

Hólmsárvirkjun við Einhyrning, með miðlun: Óskað er eftir umfjöllun á grundvelli sömu gagna og lögð voru fram í 2. áfanga enda er aðeins verið að óska eftir umfjöllun um þennan virkjunarkost til samanburðar við aðrar útfærslur á Hólmsárvirkjun sem röðuðust í biðflokk í 2. áfanga rammaáætlunar.

Varðandi Norðlingaölduveitu þá óskar Landsvirkjun eftir umfjöllun um hana í 3. áfanga rammaáætlunar með breyttri útfærslu, nýrri veituútfærslu. Unnið er að þessum útfærslum og liggja þær ekki fyrir og friðlandsmörkin eru auk þess ekki ákveðin. Í ljósi þess að Landsvirkjun er ekki búin að vinna umræddar breyttar útfærslur er á þessu stigi ekki unnt að gefa nánari upplýsingar um orkugetu nýrrar veitutilhögunar eða lónstærð umfram þær upplýsingar er fram koma í 2. áfanga rammaáætlunar. Meðfylgjandi uppdráttur af fyrri útfærslum Norðlingaölduveitu sýnir lónhæðir 575 og 578 m y.s. sem Skipulagsstofnun féllst á í mati á umhverfisáhrifum 2002. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhverfisráðherra. Lónhæð 567,5 m y.s. sýnir þá útfærslu sem tekin var fyrir í 2. áfanga rammaáætlunar og er í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra um að veitan skuli ekki ná inn fyrir núgildandi friðlandsmörk Þjórsárvera sem eru í hæðinni 569 m y.s. í farvegi Þjórsár.

Kveðja,

Jón Cleon

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.1.2014 - 10:16 - 13 ummæli

Nóg að gera í leiðréttingunum

Gott hjá umhverfisráðuneytinu að gera athugasemdir við fréttaflutning New York Times. Í greinarlista um bestu ferðastaði árið 2014 sagði blaðið að nú væri sniðugt að ferðast um Ísland áður en það hyrfi í virkjanir og veitugarða. Þetta er sannarlega ofsagt um Þjórsáráform Landsvirkjunar, Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra.

En umhverfisráðuneytið fylgist vel með og leiðréttir jafnóðum ýkjusögur í erlendum fjölmiðlum um landið okkar Ísland og náttúru þess.

Næst hlýtur umhverfisráðuneytið að leiðrétta ýkjusögur sem Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra hefur komið á kreik – vonandi af því hann veit ekki betur.

Opið bréf frá fagmönnum

Það er stutt að fara. Tíu „fagmenn“ hafa sent honum opið bréf vegna staðhæfinga hans síðustu vikur um Þjórsárver og Norðlingaölduveitu (hér). Vísindamennirnir tíu sátu allir í svokölluðum faghópi 1 við gerð rammaáætlunar, og á grundvelli vinnu þeirra gerði formsannahópur verkefnisstjórnar þá tillögu til ráðherra og alþingis að setja landsvæðið við Þjórsárverafriðlandið, þar sem Landsvirkjun vildi/vill hafa Norðlingaölduveitu, í verndarflokk.

Rangt

Vísindamennirnir tíu í faghópi 1 segja það rangt hjá Sigurði Inga Jóhannssyni að svæðið hafi ekki verið skýrt afmarkað í vinnunni við rammaáætlun – en það hefur ráðherrann notað sem rök fyrir því að breyta fullbúnum friðlýsingargögnum. Svæðið var rækilega afmarkað – og við þá afmörkun ver engin athugasemd gerð í umsögnunum, ekki heldur frá Landsvirkjun.

Rangt

Vísindamennirnir tíu í faghópi 1 segja það rangt hjá Sigurði Inga Jóhannssyni að svæðið hafi verið teygt lengra til suðurs í fyrri friðlýsingartillögu en nemur svæðinu undir Norðlingaölduveitu. Þeir vekja athygli á að við þau hafi ekkert samband verið haft um þetta af hálfu ráðherrans eða starfsmanna hans.

Rangt

Vísindamennirnir tíu í faghópi 1segja það rangt hjá Sigurði Inga Jóhannssyni að breytingin sem hann ætlar nú að gera sé „minniháttar“ og að suðurmörkum svæðisins sé breytt „lítillega“. Slíkar fullyrðingar beri ekki vott „um mikinn skilning á verndargildi svæðisins“.

Totan rúlar

Hér er fótunum kippt undan einmitt helstu röksemdum Sigurðar Inga fyrir totutillöguni. Eftir stendur bara það sem allir vita, að umhverfisráðherrann svokallaði er að hlýðnast aðfinnslum frá ál- og orkubatteríinu, sem innan ríkisstjórnarinnar líkamnast í iðnaðarráðherranum Ragnheiði Elínu Árnadóttur, og skapar með totu-tillögunni rúm fyrir ný veitumannvirki á Þjórsárverasvæðinu.

Leiðréttingadeild umhverfisráðuneytisins á talsvert verk fyrir höndum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.1.2014 - 14:03 - 8 ummæli

Þjórsárver á vetrarútsölu

Svokallaður umhverfisráðherra er á hröðum fjölmiðlaflótta undan ákvörðun sinni um veituframkvæmdir í Þjórsárverum eða á áhrifasvæði þeirra.

Samt er það þannig að hann er núna að fullkomna hlýðni sína við Landsvirkjun og Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra frá í haust þegar hann hætti við nýja friðlýsingargjörð sem var svo langt komin að ráðuneyti hans var búið að senda í pósti sérstaka boðsmiða á undirritunarathöfnina.

Málið er þetta:

Með samþykkt þingsályktunartillögunnar um rammaáætlun ákvað alþingi að setja í verndarflokk landsvæðið þar sem Landsvirkjun hefur lengi ætlað sér að koma upp miðlunarveitu, sem nokkra hríð hefur verið kennd við Norðingaöldu. Þessi ályktun var samþykkt án mótatkvæða. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksmenn sátu hjá, en merkilegast við atkvæðagreiðsluna var að þótt uppi væru margvíslegar breytingartillögur – flestar frá þingmanninum Sigurði Inga Jóhannssyni – lagði enginn til að Norðlingaöldu-svæðið við Þjórsárver yrði fært úr verndarflokknum, þar sem formannahópur verkefnisstjórnar hafði valið því stað.

Vel var kunnugt að nokkrir þingmenn vildu Norðlingaölduveitu  − svo sem virkjunaröfgamaðurinn Jón Gunnarsson, en að lokum var engin slík tillaga flutt. Á sínum tíma var þetta túlkað þannig að pólitísk sátt hefði skapast um að slá Norðlingaölduveitu af þannig að Þjórsárver fengju þá vernd sem þau þurfa og allt náttúrusvæðið vestan árinnar yrði framvegis í friði fyrir virkjunarframkvæmdum. Við þetta miðaðist friðlýsingartillagan frá í haust.

Nú hefur Sigurður Ingi snúið við blaðinu vegna þrýstings frá Landsvirkjun og íhlutunar iðnaðarráðherra. Af hverju? Sigurður Ingi þekkir Þjórsárver, er þingmaður Sunnlendinga og veit vel af dálæti heimamanna á verunum – sem þar að auki eru fræg meðal fræðimanna og náttúruverndarfólks úti um allan heim.

Af því að Norðlingaölduveitan er ódýrasta leið sem hægt er til að búa til meiri raforku. Og hagvaxtardraumar ríkisstjórnarinnar eru gerðir úr orkuframkvæmdum.

Ríkisstjórninni – þessari núna og þeirri síðustu − gengur hinsvegar illa að fá til landsins orkufrek málmbræðslufyrirtæki. Það er kreppa, og þau vilja ekki koma nema fá afslátt á orkuverðinu. Helguvík er besta dæmið.

Landsvirkjun hefur tekið upp þá stefnu að selja ekki lengur raforku undir kostnaðarverði heldur á orkusala í framtíðinni að skila eðlilegum hagnaði.

Ríkisstjórnin á erfitt með að breyta þeirri stefnu Landsvirkjunar – þótt nú eigi að skipa þar nýja og hlýðnari stjórn. Mundi missa andlitið.

Og lausnin er Norðlingaölduveita. Með henni fengist orka sem hægt yrði að selja mjög ódýrt en þó með hagnaði, innan gæsalappa.

Þetta tekur nokkur ár – en fyrsti áfangi er að ráðast á friðlýsingarskilmála og rammaáætlun. Gott líka að losna við náttúruverndarlögin. Nú dregur Sigurður Ingi nýja friðlýsingarlínu. Svo kemur Landsvirkjun með nýja veitutillögu, sem verður nokkrum metra lægri en sú síðasta, og heitir alveg örugglega splunkunýju nafni. Að þessu samþykktu eru virkjunarmannvirkin komin vestur yfir ána, og þá má alltaf sjá til í framhaldinu.

Niðurstaða Sigurðar Inga Jóhannssonar, Landsvirkjunar og iðnaðarráðherrans: Ný útsala – á kostnað náttúru Íslands.

Cheapest energy prices aftur og aftur og aftur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.12.2013 - 08:44 - 7 ummæli

Að slíta sundur lögin

Ég sendi umhverfis- og samgöngunefnd alþingis umsögn um frumvarp ríkisstjórnarinnar og Sigurðar Inga Jóhannssonar um að fella niður náttúruverndarlögin – fresturinn rennur út í dag. Það er óvenjulegt að fyrrverandi alþingismaður skrifi ótilkvaddur umsögn um þingmál veturinn eftir að hann hverfur af þingi, og hafi sjálfur vélað um málið sem um er rætt. En þetta er líka óvenjulegt mál: Að henda nýsamþykktum lög eftir langan og vandaðan undirbúning.

Umsögnin sjálf er kannski aðeins óvenjuleg líka af því þar er ekki endilega verið að tala um einstakar greinar á lögfræðísku – ég var framsögumaður málsins í fyrravetur og reyni umfram málalengingar að skila þeirri reynslu til þingmannanna sem nú sitja í umhverfisnefndinni.

Og fyrirsögnin um að slíta sundur lögin er úr sögu alþingis — sótt í þingræðu sem snjall alþingismaður flutti fyrir hér um bil 1013 árum.

Hér er tengill. Þetta er soldill texti (18 blaðsíður) en á að vera vel læsilegur, og má kannski nota sem „Náttúruverndarlögin 101“. Lokakaflinn er nokkurnveginn svona:

 

Lagfæra, ekki eyðileggja

Ég hef reynt að spara stóru orðin vegna þess að erindi mitt er fyrst og fremst að eiga málefnalega samræðu við núverandi þingmenn í nefndinni sem fjallar um umhverfismál og náttúruvernd. Megintilgangurinn er þó að koma á framfæri þeirri hvatningu til ykkar að þið skoðið þetta mál vandlega. Vel kann að vera að enn séu endar lausir þótt við höfum vandað okkur einsog hægt var í fyrravetur. Ekkert er heldur við því að segja að nýr meirihluti á alþingi vilji setja mark sitt á þessa mikilvægu löggjöf og bæta þar með við það endurskoðunarstarf sem þegar hefur tekið fjögur ár. Nú er hægur vandi að gera það þegar málið er komið inn í umhverfisnefndina, og ekkert liggur á.

Mikið starf til ónýtis 

Setning nýrra náttúruverndarlaga er ekki einfalt mál. Ég hef ekki fulla yfirsýn nema um þann þátt sem ég vakti yfir, meðferð málsins í þinginu á síðasta stigi endurskoðunarstarfsins. Afgreiðsla og umfjöllun á því stigi var verulega vinna, fyrir framsögumanninn, formanninn (voru tveir á tímabilinu) og aðra þingmenn en ekki síður fyrir starfsmenn þingsins, umsjónarmenn málsins í ráðuneytinu, fulltrúa stofnana, samtaka og áhugahópa, og þá ósérhlífnu einstaklinga sem lögðu vinnu í málið. Þá er ótalið allt starf á fyrri stigum málsins, innan hvítbókarhópsins og þeirra sem hann starfaði með, öll umræðan á opnum fundum, í fjölmiðlum og meðal almennings á óformlegri vettvangi

Ekkert í staðinn

Á grundvelli þessarar reynslu tel ég sýnt að brottfall laganna jafngildi því að ekkert verði af endurskoðun náttúruverndarlaganna á þessu kjörtímabili. Þar með ónýtast allir þeir ávinningar sem áður eru taldir, náttúrunni til tjóns og síðari kynslóðum til furðu. Þetta væri okkur ekki til sóma. Miklu nær er að þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd fari yfir þá þætti laganna sem raunverulegur ágreiningur er um og nái þar niðurstöðu sem komi fram í einstökum breytingartillögum við lög nr. 60 frá 10. apríl 2013.

Að slíta sundur lögin

Mér finnst að með þeirri nýju aðferð sem lögð er til með brottfallsfrumvarpinu – að brjóta niður verk fyrri manna án þess að byggja sjálfur á ný – sé verið að rjúfa samhengið í sögu löggjafar um náttúruvernd hérlendis. Á vissan hátt er með þessu vegið að grundvellinum undir samstarf Íslendinga um meðferð náttúrugæðanna á Íslandi.

Það leitar á mig að lýsa þessu þannig að hér sé verið að slíta sundur lögin. Við því var varað með eftirminnilegum hætti í upphafi þess samfélags sem enn stendur á Íslandi.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.10.2013 - 08:00 - Rita ummæli

Næturhiminn Ofvitans

Margir muna að Ofviti Þórbergs Þórðarsonar var áhugamaður um gang himintungla og athugaði stöðu mála á næturhimninum reglulega úr Bergshúsi við Skólavörðustíg. Og svo kemur að kvöldi föstudagsins 20. október árið 1911. Ofvitinn á von á heimsókn:

Pilsaþytur í sálinni, ljúfur andblær í stráum. Fram úr tindrandi stjörnudýrðinni stígur falleg stúlka, há vexti, dökkt hár, brún augu, horfir eins og hún þrái eitthvað sem hún hefur aldrei getað fengið.

Hann ætlar að sýna Elskunni sinni stjörnurnar, og í sögunni er því lýst út um hvaða glugga þau horfa. Hægt er að finna gluggann á myndum af Bergshúsi — sem illu heilli var rifið um 1990, og af því höfundur er afar nákvæmur á má reikna út hvernig næturhiminninn leit út í tiltekna átt frá Skólavörðustígnum í Reykjavík þetta kvöld fyrir 102 árum og nokkrum sólarhringum.

Í nýútkominni greinargerð um Myrkurgæði á Íslandi er brugðið á leik með Ofvitanum — til að sýna hvað myrkurgæðum hefur hrakað í borginni með gríðarlegri raflýsingu. Fundin var út stjörnustaðan kvöldið 20. október 1911 og síðan giskað á hvernig sú sýn væri nú miðað við ljósmengun í Reykjavík á þessari öld sem liðin er. Síðla kvölds 20. október 1911, og síðla kvölds á svipuðum árstíma á 21. öld. Vetrarbrautin er greinileg 1911 og neðst til vinstri skín Síríus en Óríonsmerkið er nær miðju. Litirnir eru rautt, blátt, gult, grænt … Árið 2013 eru þessir stjörnulitir horfnir berum augum. Vetrarbrautin sést ekki lengur og aðeins greinanlegar nokkrar helstu stjörnur í Óríón.

Góðu fréttirnar eru þær að við getum endurheimt talsvert af næturhimni Ofvitans, að minnsta kosti í íbúðarhverfunum á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landsbyggðum. Sjá greinargerðina nýju.

Hér er næturhiminninn yfir Skólavörðustíg haustið 1911 og svo núna (smellið til að stækka, og á bak-örina efst til að minnka aftur):

Bh1911_2012

Snævarr Guðmundsson landfræðingur vann þetta með mér og bjó til líkingu næturhiminsins hér að ofan.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.10.2013 - 12:10 - 4 ummæli

Hvað vildi Samorka?

Gústav Adolf Skúlason framkvæmdastjóri Samorku kvartar undan því í Fréttablaðsgrein á fimmtudaginn (hér, bls. 24) að ekki hafi farið mikið fyrir samráði við gerð og afgreiðslu náttúruverndarlaganna sem núverandi umhverfisráðherra ætlar nú að „afturkalla“. Vissulega hafi verið tekið við athugasemdum á ýmsum stigum vinnunnar og hlustað á gagnrýni – en síðan þegar til átti að taka hafi ekkert verið gert með sjónarmið aðila á borð við sjálfa Samorku.

Þetta er athyglisvert framlag til umræðunnar um „afturkallið“. Nú vill svo til að athugasemdir Samorku liggja fyrir í umsögn samtakanna til þingnefndarinnar sem fjallaði um málið síðasta vetur. Þar eru – fyrir utan almennt spjall um yfirsýn, flækjustig og þarfleysi frekari náttúruverndar á Íslandi – sjö eiginlegar athugasemdir við frumvarpið. Þær varða: þinglega meðferð náttúruverndaráætlunar, tengsl við rammaáætlun,vernd jarðmyndana sem þykja merkilegar á svæðisvísu, heimild ráðherra til að banna framkvæmdir á viðkvæmum svæðum tiltekinn tíma, bótarétt landeigenda – og svo tvö meginatriði, annarsvegar sérstaka vernd merkilegra vistkerfa og jarðminja, hinsvegar meginreglur umhverfisréttarins sem settar eru fram í upphafi lagatextans.

Í fimm atriðum af þessum sjö voru lagðar til breytingar þar sem ýmist var fallist á rök Samorku og annarra umsegjenda eða komið verulega til móts við þau. Aðeins tvær athugasemdir Samorku reyndust árangurslausar þegar alþingi hafði gert frumvarpið að lögum: 28–0, 17 sátu hjá.

Varúðarreglan

Í annarri þeirra lagðist Samorka gegn meginreglum umhverfisréttarins, sérstaklega varúðarreglunni svokölluðu þar sem segir að náttúran eigi að njóta vafans: Þegar hætta er á alvarlegum spjöllum má ekki beita þekkingarskorti sem afsökun fyrir því að láta vaða. Þeir sem um frumvarpið véluðu við frumvarpsgerðina og á þinginu kusu að taka ekki mark á Samorku að þessu leyti en taka í staðinn mark á Ríósamningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 1992, EES-samningnum og OSPAR-samningnum um Atlantshafið norðaustanvert og lífríki þess, þar sem alstaðar er vísað til þessarar alþjóðlega viðurkenndu meginreglu.

Samorka er greinilega ósátt við þetta. Merkir það að Gústav Adolf, Landsvirkjun, Rarik og Orkuveita Reykjavíkur vilji hafa þetta öfugt? – að þau geti ráðist í hvaða framkvæmd sem er ef ekki hefur verið sýnt fram á með 100% vissu að hún skaði náttúruna til ólífis? – svo sem ef það er hægt að finna einn fræðimann sem efast? til dæmis á skrifstofum Samorku, Landsvirkjunar, OR og Rariks?

Sérstaka verndin

Greinin í lögunum frá 1999 um sérstaka vernd ákveðinna vistkerfa og jarðminja – svo sem eldhrauna, hvera, votlendis, fossa – hefur reynst haldlítil. Þessari grein var því breytt með nýju lögunum. Í stað þess orðalags í gömlu lögunum sem dró tennurnar úr lagagreininni, að röskun þessara náttúrufyrirbæra skuli forðast „eins og kostur er“, kemur ákvæði um að þeim verði ekki raskað „nema brýna nauðsyn beri til og aðrir kostir séu ekki fyrir hendi“. Samkvæmt gamla orðalaginu nægði að sá sem taldi sig af einhverjum ástæðum þurfa að eyðileggja náttúrufyrirbæri reyndi að gera það með lagni. Eins og kostur er. Samkvæmt nýja orðalaginu verða hinsvegar að búa að baki stórfelldir almannahagsmunir – til dæmis þörf á vatnsveitu – og áhugamenn um verkið verða að sýna fram á að aðrar leiðir að markmiðinu séu ekki færar.

Samorka vill halda gömlu lagagreininni. Það hlýtur að merkja að Gústav Adolf, Landsvirkjun, OR, HS og Rarik vilja fá að meta það sjálf hver kosturinn er við að forðast röskun. Sá sem kaupir sér jarðýtu og telur æskilegt að eyðileggja goshver, eldhraun, flæðiengjar, sjávarleirur, gervigíga, birkiskóga, vötn og tjarnir, fossa og hraunhella – hann þurfi ekki að íþyngjast við að sýna fram á að það sé óhjákvæmilegt í þágu almannahagsmuna.

Afturkall – til hvers?

Þetta eru þau tvö atriði sem eftir standa af athugasemdum Samorku, bæði afar mikilvæg. Ég þakka Gústavi Adolfi Níelssyni framkvæmdastjóra samtakanna kærlega fyrir að hafa bent alþjóð á það sem afturkallsmálið snýst um í raun og veru.

(Líka í Fréttablaðinu 21. október)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.10.2013 - 18:45 - 9 ummæli

Athyglisvert en ekki óvænt

Athyglisvert en ekki beinlínis óvænt – að Jón Steinar Gunnlaugsson skuli hafa fundið út að veiðigjaldið sé kolólöglegt og að sjálf stjórnarskráin banni afskipti Íslendinga af veldi útgerðarmanna á hafinu.

Athyglisvert en ekki beinlínis óvænt að Jón Steinar Gunnlaugsson skuli neita að gefa upp fyrir hvaða útgerðarfyrirtæki lögfræðiálitið var skrifað, og hvað eftirlaunahæstaréttardómarinn fékk fyrir verkið.

Ennþá athyglisverðast að Jón Steinar Gunnlaugsson og útgerðarfyrirtækið góða skuli hafa ákveðið að nota álitið í fjölmiðlaáróður – í staðinn fyrir að láta reyna á röksemdirnar og fara í mál við íslenska ríkið vegna hinna ólöglegu veiðigjalda og hins alvaralega stjórnarskrárbrots. En ekki afar óvænt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.9.2013 - 12:21 - 19 ummæli

Veit ekki hvað stendur í lögunum

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra virðist ekki vita sérlega mikið um nýju náttúruverndarlögin sem hann hefur ákveðið að „afturkalla“. Í slitróttum símtölum við fjölmiðla í gær voru tínd út úr honum nokkur atriði sem hann vildi láta leggjast yfir. Sumt auðvitað athyglisvert – og umrætt öll þau fjögur ár sem lagasmíðin tók. Annað afar einkennilegt, og ber því vitni að ráðherrann er einsog ekki undirbúinn.

Hér er aðalatriði RÚV-viðtals við Sigurð Inga Jóhannsson umhverfisráðherra frá í gær, þar sem hann

… segir að lögin séu of umdeild. „Til að mynda er varðar ferðafrelsi fatlaðra, umgengnisrétt landeigenda um sitt eigið land, og reyndar ýmis fleiri atriði sem varða skipulagsvald sveitarfélaga, og annað í þeim dúr,“ segir Sigurður.

Annað í þeim dúr, sumsé.

Tökum fyrsta atriðið: Ferðir fatlaðra. Rétt er að bæði Sjálfsbjörg og einstakir útivistarmenn úr hópi fatlaðra gerðu athugasemd við ákvæði frumvarpsins um utanvegaakstur af því þau þrengdu um of að ferðafólki sem vegna fötlunar sinnar ætti ekki annan kost til að komast á ýmis náttúrusvæði en að fara þangað í bíl eða öðru vélknúnu farartæki.

Þetta er reyndar sama staða og í lögunum frá 1999, en nýju lögunum er ætlað að koma í veg fyrir óþarfan utanvegaakstur með einskonar vegakerfi á hálendinu, með heimilum slóðum, og eftirliti með því að ekki sé ekið utan þeirra vega (frekar en vega á láglendi!). Þar höfðu fatlaðir ferðamenn ekki sérstöðu (nema í þjóðgörðum) samkvæmt upphaflega frumvarpstextanum.

Í umhverfisnefnd alþingis var erindi fatlaðra vel tekið. Á banninu við utanvegaakstri eru undantekningar, bæði í gömlu lögunum og þeim nýju, svo sem fyrir bændur, rannsóknarmenn, starfsmenn stofnana og fyrirtækja sem þurfa um hálendið vegna vinnu sinnar. Erfitt er að ná með sérstakri lagagrein yfir þau tilvik sem upp geta komið um ferðir fatlaðra þannig að við ákváðum að leggja til við þingið að samþykkja sérstaka undanþáguheimild um slíkar ferðir. Fyrst stóð til að fela Umhverfisstofnun samráð og mótun heimildarinnar, en að lokum var ákveðið – að ábendingu Sjálfsbjargar – að ráðherrann yrði látinn véla um þetta sjálfur. Svona er þetta í 4. og 5. málsgrein 31. greinar laganna sem á að „afturkalla“:

* Ráðherra skal, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, kveða í reglugerð á um undanþágur frá banni skv. 1. málsl. 1. mgr. [þ.e. banninu við akstri utan vega].
* Ráðherra er einnig heimilt að veita undanþágur vegna annarra sérstakra aðstæðna, svo sem fötlunar, og skal í reglugerð samkvæmt grein þessari kveða á um nánari skilyrði fyrir veitingu þeirra.

Nýju náttúruverndarlögin skerða ekki ferðafrelsi fatlaðra – þvert á móti. Þar ræður sá ráðherra sem um er rætt í 31. grein laganna, nefnilega umhverfisráðherra. Núverandi umhverfisráðherra heitir Sigurður Ingi Jóhannsson.

En Sigurður Ingi Jóhannsson hefur bara ekki lesið lögin sem hann ætlar að afnema.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.9.2013 - 10:39 - 12 ummæli

Rakalaus umhverfisráðherra

„Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd nr. 60/2013 sem voru samþykkt á Alþingi rétt fyrir þinglok í vor.“ Upphaf fréttar sem birtist á vefsetri umhverfisráðuneytisins í gærkvöldi?

Skrýtið orðalag – ráðherra „hefur ákveðið“? En þingið? Er það ekki alþingi sem samþykkir lög og breytir þeim? Og „afturkalla“? Hvað merkir það orð um lög? Er það eitthvað annað en nema úr gildi, afnema, ónýta fyrri ákvörðun?

En fyrst og fremst skortir rök í fréttatilkynninguna og ummæli ráðherrans í fjölmiðlum. Náttúruverndarlögin nýju eru afrakstur lengri og vandaðri vinnu og samráðsferils en nokkur annar sambærilegur lagabálkur á síðari áratugum. Rétt er að ekki var um þau fullkomin „sátt“ – það verður seint um lög sem þessi, en það er heldur ekki „sátt“ um núverandi lög frá 1999, sem eru stórgölluð þótt í þeim hafi á sínum tíma falist ákveðin framfaraskref.

Eftir mikla vinnu í umhverfisnefnd alþingis á síðasta þingi tókst hinsvegar að ná um frumvarpið bærilegri samstöðu þannig að flestir helstu gagnrýnendur töldu sig geta unað við lausnirnar. Helst bar á óánægju frá þremur afar mismunandi hópum: 1) ákveðnum harðlínumönnum í hópi vélvæddra útivistarmanna, sem ekki fella sig við neinskonar takmörkun á akstri utan vega, 2) sérflokki áhugamanna um skógrækt, sem í raun beinist ekki síður að núverandi lögum, 3) SA og ýmsum verktakahópum sem einkum óttuðust „sérstaka vernd“ ákveðinna jarðminja og vistgerða: Eldhraun, fossar, hverir – en einmitt þessi grein núverandi laga (37. greinin) hefur verið talin nánast ónýt með þeim afleiðingum að hægt er að ganga á augljós náttúruverðmæti þrátt fyrir fögur orð í lögunum.

Það var athyglisvert við umfjöllun um lagafrumvarpið í umhverfisnefnd að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru aldrei tilbúnir til neinskonar umræðu eða samningsumleitana um niðurstöðu mála. Þeir höfðu ekkert fram að færa í umræðu um akstur utan vega. Þeir hvorki tóku undir bollaleggingar skógarmanna né andæfðu þeim. Og þegar til átti að taka vildu þeir ekki setjast niður til að athuga samningsfleti á ákvæðunum um „sérstaka vernd“.

Í þinglok hófst hinsvegar eitt af hinum frægu málþófum, sem meðal annars beindist gegn frumvarpi til náttúruverndarlaga sem slíku – en að lokum varð samkomulag um afgreiðslu þess með gildistökufresti og sérstökum ákvæðum um utanvegaakstursgreinarnar. Í loka-atkvæaðgreiðslu varð frumvarpið gert að lögum með 27 atkvæðum gegn 0 – enginn Framsóknarmaður eða Sjálfstæðismaður greiddi atkvæði á móti lagafrumvarpinu sem nú á að henda í ruslið.

Áform ráðherrans um afnám laganna eru auðvitað brigð við það samkomulag – en mikilvægast er þó að rök hans eru engin fyrir afnámi laganna og gegn þeim brýnu framfaraskrefum sem í lögunum felast – um aukna náttúruvernd, um bætt nútímalegt skipulag friðunar, um aukinn almannarétt til ferða um landið en líka um raunhæfar aðgerðir gegn akstri utan vega.

Bót í máli að næstu daga gera allir helstu fjölmiðlar landsins skyldu sína, fara ofan í málið, skýra fyrir landslýð breytingarnar í nýju lögunum, tala við fræðimenn, sérfræðinga, lögspekinga, stjórnmálamenn, hagsmunaaðila og áhugafólk sem nærri hefur komið – og sleppa ekki ráðherranum fyrren hann hefur lagt fram alvörurök fyrir þeirri „ákvörðun“ sinni að „afturkalla“ nýju lögin um vernd íslenskrar náttúru.

 

Fréttin á vef ráðuneytisins hér, „Lög um náttúruvernd afturkölluð“.

Lögin hér, og hér álit meirihluta umhverfisnefndar með vandlegri umfjöllun um álitamál og gagnrýni á lögin.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur