Fimmtudagur 22.8.2013 - 19:54 - 4 ummæli

30. mars bara plat?

Allar helstu ákvarðanir um utanríkistengsl Lýðveldisins Íslands hafa verið teknar með fulltingi alþingis. Til eru undantekningar en þau tilvik hafa sætt verulegri gagnrýni, svo sem ákvörðun tveggja ráðherra um opinbera afstöðu í Íraksstríðinu fyrir nokkrum árum. Þar var þó ekki gengið þvert gegn ályktun alþingis heldur vanrækt samráð sem skylt er við þingið samkvæmt stjórnarskrá.

Merkilegt í ljósi nýjustu tíðinda að eitthvert mesta hitamál í íslenskum stjórnmálum á síðari hluta aldarinnar sem leið á einmitt rætur að rekja til þingsályktunar. Hún er hér – og var samþykkt á alþingi hinn 30. mars 1949 með 37 atkvæðum gegn 13. Tveir sátu hjá.

Var þá eftir allt saman ekkert að marka þennan fræga 30. mars? Eða erum við kannski alls ekkert í Nató?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.7.2013 - 10:05 - Rita ummæli

S, P og óvissan

Það er algerlega sjálfsagt að leiðrétta skekkjur í forsendum lánshæfismatsfyrirtækjanna.

Klaufaleg röksemdafærsla samt hjá ráðherrunum gagnvart Standard og Poor’s: Það sé ekki hægt að meta væntanlegar skuldaráðstafanir vegna óvissu um það hvernig þær verða.

En það er einmitt óvissan sem einkum skiptir máli í leiðbeiningum fyrirtækja einsog S og P! Þau eru ekki að spá fyrir um gang mannkynssögunnar eða einstakra þjóða – heldur að selja fjármálastofnunum og stórfyrirtækjum mat sitt um það hversu traust ríkin eru sem lántakendur og móttakendur fjárfestinga. Þar er óvissan einmitt allra verst – finnst öllum nema hrægömmum sem spekúlera í óvissu.

Það sem stendur upp á ríkisstjórn Íslands er þessvegna ekki að gagnrýna óvissumat Standards & Poor’s, enda er sú PR-axjón fyrst og fremst ætluð innanlandsmarkaði – heldur að eyða óvissunni.

Flokkar:

Fimmtudagur 4.7.2013 - 10:18 - 7 ummæli

Utanríkisráðherra forseta Íslands

Fróðlegt að fylgjast með heimsókn Bans framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann kom hingað í boði utanríkisráðherra, sem nú heitir Gunnar Bragi Sveinsson, en hinn raunverulegi gestgjafi var allan tímann Ólafur Ragnar Grímsson, princeps eternus Islandiæ.

Forseti Íslands sótti að sjálfsögðu fyrirlestur Bans Ki-Moons í hátíðasal Háskóla Íslands, sem haldinn var á vegum utanríkisráðuneytisins, Háskólans og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ban þakkaði Ólafi Ragnari sérstaklega fyrir komuna, og það var auðvitað forsetinn, og hvorki utanríkisráðherra né rektor, sem fylgdi Ban til dyra að fyrirlestrinum loknum.

Svo hitti Ban forsætisráðherrann á Þingvöllum í árbít en að dagslokum var reiddur fram kvöldverður fyrir hinn tigna gest. Það var ekki hjá utanríkisráðherranum (auðvitað nokkuð langt í Skagafjörð og Kaupfélagið) heldur á Bessastöðum. Þangað mun Ban einmitt hafa komið nokkru fyrir upphaf kvöldverðarins til að ræða við forsetann um heimsmálin.

Og hvar gisti framkvæmdastjórinn? Í svítunni á Sögu eða öðru þokkalegu hóteli í boði Gunnars Braga utanríkisráðherra? Neinei — hann fékk inni í villunni við Fjólugötu, hinu virðulega stórhýsi sem Silli í Silla-og-Valda gaf forsetaembættinu á sínum tíma og notað er síðan fyrir einkagesti forsetans.

Niðurstaðan í þessari prótókollísku kremlólógíu er auðvitað bara sú að núverandi ríkisstjórn, sem oftast er sögð tveggja flokka, er í raun þreföld. Hana mynda:

* Framsóknarflokkurinn með Sigmund Davíð og félaga í forsætisráðuneyti, þjóðmenningu, virkjunum og skuldavesini,

* Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna í peningunum og Illuga í ídeólógíunni,

* – og Ólafur Ragnar Grímsson með utanríkisráðherrann á Rauðarárstígnum en höfuðstöðvar á Sóleyjargötunni.

 

 

 

(Örlítið breytt frá upphafsgerð í ljósi nýrra upplýsinga.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.7.2013 - 09:19 - 2 ummæli

Þar dunar undir

Mér finnst það almennt gott fyrirkomulag að ríkisvaldið láti sveitarstjórnirnar um skipulagsvaldið. Eðlilegt að heimamenn ráði hvernig þeir skipuleggja byggðina og nærumhverfi hennar. Svo koma ýmsar spurningar, svosem sú hvort allt landflæmi viðáttumikilla sveitarfélaga sé í raun eðlilegt skipulagssvæði þeirra, þar á meðal á miðhálendinu.

Þegar ríkir almannahagsmunir liggja við er skynsamlegt að fulltrúar allra landsmanna komi við sögu skipulags – þessvegna er orðið til landsskipulag sem mætti vera öflugra, og þess vegna var skipulagsmálum í rammaáætlun komið þannig fyrir að sveitarfélögin verða að lokum að sætta sig við verndar- eða orkunýtingarákvörðun alþingis.

Kannski bara af því ég er Reykvíkingur hafa mér hinsvegar ekki hugnast hugmyndir um sérstök afskipti alþingis eða ríkissstjórnar í Kvosinni. En er nú fullkomlega reiðubúinn að skipta um skoðun.

Forsætisráðherrann nýi hefur nefnilega boðið aðstoð sína og ríkisvaldsins við að leysa þar leiðinlegt skipulagsvandamál.

Það er reyndar ekki nema sanngjarnt, því vandinn er í upphafi sínu ríkinu að kenna. Ákvæði í skipulagslögum (nú í 51. grein, hér) veitir lóðareigendum feikilegan skaðabótarétt ef framtíðarmöguleikar þeirra eru skertir með nýju skipulagi, og af þessum völdum eru sveitarstjórnarmenn afar hikandi við skipulagsbreytingar sem kynnu að koma af stað dómsmálum – reyna frekar að semja sig framhjá gífurlegum fjárútlátum sem hin besta skipulagslausn kynni að valda. Þetta ákvæði ætti eiginlega að kalla braskaragreinina – því hún er mikið haldreipi þeirrar arfhelgu stéttar. Og skaðræði fyrir gamla sögulega byggð. Tilraunir hafa verið gerðar til að breyta greininni (svosem hér) en það er auðvitað ekki hægt aftur í tímann.

Í Kvosinni vill svo til að í gildi er skipulag sem einmitt hefur reynst bröskurum hvatning til að fjárfesta – Davíð Oddsson bjó þetta til á sínum tíma með öðrum stórkörlum. Vandinn sem sveitarstjórnarmenn í borginni standa frammi fyrir núna er sá að ef þeir ná ekki samningum eiga þeir, og allir Reykvíkingar, á hættu gríðarleg fjárútlát ef reynir á braskaragreinina fyrir dómstólum.

Ríkissjóður hjálpar Reykvíkingum!

Forsætisráðherra hefur nú komið til bjargar. Hann ætlar að sameina skipulagsvald í hluta gamla miðbæjarins þannig að ríki og borg verði í einum báti gagnvart bröskurunum og 51. greininni í skipulagslögum. Þetta eiga borgarfulltrúar að íhuga alvarlega. Ekki verður betur séð en að í ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Austurvelli á föstudaginn felist fyrirheit um liðsinni – annaðhvort með því að ríkissjóður og borgarsjóður kaupi í sameiningu af aðalbraskaranum þær fasteignir í Kvosinni sem slagurinn stendur um, eða að ríkissjóður verði ásamt borgarsjóði traustur bakhjarl í dómsmáli sem fasteignaeigandinn höfðar eftir nýtt sögulegt og þjóðmenningarlegt deiliskipulag í Kvosinni.

Þar dunar undir sem hoffmennirnir ríða.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.6.2013 - 07:58 - 19 ummæli

Allt vill lagið hafa: Teigsskógur, Þjórsárver

Skammt stórra högga á milli – og samt einsog kemst nýja stjórnin ekkert áfram (hvar er Helguvík eiginlega, og öll hin verðmætasköpunin sem átti að borga skuldir heimilanna?). Eftir djarflega framrás Framsóknarmannsins í mörgu ráðuneytunum gegn rammaáætlun og veiðigjaldi er komið að ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Nú ætlar Hanna Birna Kristjánsdóttir að rústa Teigsskógi og þvera tvo firði fyrir vestan rétt eftir umhverfisslysin í Kolgrafarfirði – hún er búin að skoða skóginn og hefur komist að því að þarna sé ekkert sem máli skiptir: Jújú, þarna er ósköp fallegt en það er víða á Vestfjörðum. (Muniði? — Kárahnúkar, oft séð svona áður).  Og hún ætlar reyndar ekki að ákveða þetta sjálf, neinei, heldur á svarið að koma út úr nýja umhverfismatinu – og þar annaðhvort talar hún þvert á eigið vit eða fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og borgarstjóri veit ekki hvað umhverfismat er: Á endanum ákveða hinir kjörnu fulltrúar og bera ábyrgð – en HBK er búin að ákveða hvað sem ábyrgðinni líður.

Af hverju ekki göng? Má aldrei vinna náttúrunni í hag? Möguleikum framtíðarinnar í útivist og ferðaþjónustu? Verst er kannski að ástæðan fyrr því að Teigsskóg á að brjóta í spón er ekki ferðavandi í Patreksfirði-Tálknafirði-Bíldudal heldur metnaður og hégómagirnd ráðherrans sem nú ætlar að veifa tré athafna og framkvæmda og sýna hvað í henni býr þótt hinir séu seinir til.

Annar ráðherra úr sama flokki, Ragnheiður Elín Árnadóttir, ruddist svo fram á sviðið í gærkvöldi og heimtar að stækkun friðlandsins í Þjórsvárverum verði frestað – langþráður áfangi sem sem síðasti umhverfisráðherra gat ráðist í eftir samþykkt alþingis um að leggja af áform um Norðlingaölduveitu (rammaáætlun!). Hér verður sko aldeilis að athuga málið betur og tala aftur við Landsvirkjun, segir hinn grandvari iðnaðarráðherra – og skipar aumingja Sigurði Inga Jóhannssyni að hætta við þegar auglýsta ferð sína í dag í Árnes.

Allt vill lagið hafa, einsog segir bifvélavirkinn í Spaugstofunni — þessi með sleggjuna.

 

PS: Nýjasta nýtt — Landbúnaðar-, sjávarútvegs- og umhverfisráðherra stóð sig einsog hetja, hlýddi skipun Ragnheiðar Elínar og hefur frestað friðlýsingunni sem hann hafði sjálfur auglýst. Engin athöfn í Árnesi klukkan 15. Allt vill lagið hafa.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.6.2013 - 13:48 - 10 ummæli

Aumingja litlu og meðalstóru útgerðirnar!

Aumingja litlu og meðalstóru fyrirtækin sem eru að fara á hausinn vegna veiðigjaldsins. Brim, Þorbergur, Rammi. Vísir, Ögurvík, Fisk-Seafood. Og fleiri bónbjargaútgerðir. Sjá vefsetur HA-nema.

En nú ætlar blessuð ríkisstjórnin að aumkva sig yfir þessa vesalinga.

Samherji litli og meðalstóri er að vísu ekki þarna – en dóttirin ÚA er þó mætt fyrir hönd þeirrar fátæku fjölskyldu.

Í staðinn fær allt vinstribótapakkið puttann og var sannarlega kominn tími til eftir útþensluna síðustu árin.

Guð blessi Ísland og LÍÚ.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.6.2013 - 11:26 - 8 ummæli

Illugi: Sama gamla

Ný kynslóð á þinginu, var sagt í stefnuumræðunum – ætli Illugi Gunnarsson sé af þeirri kynslóð?

Þá er kynslóðin ekki verulega ný – því fyrsta verk Illuga Gunnarssonar er að fara með blessað Ríkisútvarpið í sama gamla.

Með breytingunum á lögunum um Ríkisútvarpið í vor var meðal annars samþykkt athyglisverð leið við að velja stjórn fyrirtækisins – þannig að pólitíkin stæði fjær en áður. Í stíl við bestu almannaútvörp annarstaðar.

Fimm manna valnefnd á að kjósa í stjórnina að meirihluta til – og í valnefndinni eru formaður frá ráðherra, fulltrúi frá menntamálanefnd alþingis og svo nefndarmaður frá starfsmönnum, frá samtökum listamanna og frá háskólunum.

Svo kemur Illugi – og þá má ekki einusinni prófa þessa nýju skipan. Ráðherrann segir þetta „ólýðræðislegt“ án frekari útskýringa og ætlar að fara í gamla farið með hrein-pólitíska útvarpsstjórn.

Í umræðunum um RÚV-frumvarpið í vor pirruðu ýmsir ræðumenn Sjálfstæðisflokksins sig á mörgum atriðum frumvarpsins, þar á meðal þessu, en bentu ekki á aðra kosti. Engin breytingartillaga var lögð fram við greinina um stjórn Ríkisútvarpsins. Og Illugi Gunnarsson tók hvorki þátt í 1., 2. né 3. umræðu um málið – og lét alveg vera að tjá sig um hina ólýðræðislegu skipan á almannafjölmiðlinum.

Þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins samþykktu frumvarpið að lokum, líka fimm Framsóknarmenn: Ásmundur Einar Daðason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigfús Karlsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Siv Friðleifsdóttir. Þrír þeirra virðast nú hafa skipt um skoðun!  Nokkrir Sjálfstæðismenn sögðu nei en flestir sátu hjá, þar á meðal Illugi Gunnarsson. Meira máli skipti þetta nú ekki fyrir þremur mánuðum.

Ég er ekki afar gefinn fyrir samsæriskenningar í pólitík. En hef á tilfinningunni að hér búi eitthvað undir hjá hinum glæsta fulltrúa nýju kynslóðarinnar í menningar- og menntamálaráðuneytinu. — ???

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.6.2013 - 15:24 - 13 ummæli

Evrópuráðsþing og landsdómur

Í tillögu sem laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins leggur fyrir næsta fund þingsins 24.–28. júní er hvatt til þess að aðildarríkin geri skýran greinarmun á pólitískri ábyrgð stjórnmálamanna – sem þeir eiga um við borgarana og kjósendurna – og sakarábyrgð þeirra, hvort sem þeir hafa brotið af sér í starfi eða sem almennir borgarar.

Í tillögunni er varað við lagabókstaf um víðtæka og óljósa sakarábyrgð. Það þurfum við sannarlega að taka til okkar og skoða í því ljósi stjórnarskrárákvæðið um landsdóm, lögin um landsdóm og lögin um ráðherraábyrgð, sem varla hafa breyst í hálfa öld.

Í ályktunardrögunum er getið eins tilviks og aðeins eins: Meðferðar Úkraínustjórnar á Júlíu Tímósjenkó og Júrí Lútsjenkó. Þarna er ekkert um Ísland, ekkert um landsdóm og ekkert um Geir H. Haarde.

Í upphaflegri tillögu hollenska íhaldsmannsins Péturs Omtzigts er hinsvegar fjallað um landsdómsmálið og felldir um það ýmsir dómar, einsog enn má sjá í greinargerð hans sem fylgir ályktunartillögu nefndarinnar. Setningar þar sem fjallað var um landsdómsmálið á Íslandi í tillögu Omtzigts voru á hinn bóginn felldar brott í umfjöllun laga- og mannréttindanefndar um málið í apríl, meðal annars vegna upplýsinga og röksemda í ítarlegu athugasemdaskjali Þuríðar Backman, sem átti sæti í nefndinni þar til hún lauk þingferli sínum í apríllok.

Sjálfsagt auðvitað að menn noti tækifærið og fjalli um landsdómsmálið – sérstaklega ef það yrði til þess að breyta stjórnarskrá og lögum um það einkennilega fyrirbæri.

Rétt er þó að muna í þeirri orðræðu að textinn sem Hollendingurinn Pétur Omzigt skrifaði um landsdómsmálið er bara eftir Pétur Omtzigt. Evrópuráðsþingið fjallar í mánaðarlok um tillögu þar sem meðal annars eru gerðar alvarlegar athugasemdir  við réttarhöldin gegn Júlíu Tímósjenkó og Júrí Lútsjenkó í Úkraínu. Í þeirri tillögu er ekkert fjallað um Ísland, landsdóminn eða Geir Haarde.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.6.2013 - 15:21 - 10 ummæli

Ríkisstjórn forseta Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson færir enn út völd sín sem forseti Íslands. Hann telur sig hafa til þess skýrt umboð eftir tvennar kosningar, annarsvegar forsetakosningarnar í fyrra og hinsvegar alþingiskosningarnar í vor þar sem óskakandídat forsetans vann góðan sigur og hefur nú myndað ríkisstjórn í umboði og eftir tilmælum Ólafs Ragnars. Við bætist að ekki tókst að skilgreina verksvið forsetans og valdmörk í nýrri stjórnarskrá — vegna andstöðu Sjálfstæðisflokks- og Framsóknarflokksmanna við stjórnarskrárbreytingar.

Nú talar Ólafur Ragnar nokkurnveginn hreint út um andstöðu sína við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu — sem þó hefur ekki verið dregin til baka — og leggur hinni nýju ríkisstjórn línurnar í utanríkismálum. Það er nýtt.

Ólafur Ragnar hefur með þessu unnið mikinn sigur. Í utanríkismálum eru allar hugmyndir og stefnumið nýju stjórnarinnar runnar af rótum Ólafs Ragnars, úr ,,útflutningsleiðinni“ 1994-95, frá Kína- og Indlandslínu síðari ára, og af ævinlegri tortryggni Ólafs Ragnar í garð Evrópusambandsins. Meira að segja sérstök hlýja nýju stjórnarinnar í garð Bandaríkjanna á sér samhljóm í hjarta forsetans sem þar þekkir miklu betur til en í meginlands-Evrópu.

Skondið að sjá Sjálfstæðisflokkinn sitja og gnapa án þess að leggja til þessara mála. En við skiljum auðvitað að Bjarni þurfti að komast inn í Stjórnarráðið.

Franskir tímar?

Menn hafa furðað sig aðeins á utanríkisráðherravali Sigmundar Davíðs — af því nýi utanríkisráðherrann hefur ekki mika reynslu á því sviði þótt hann sé hinn vaskasti að öðru leyti. En kannski þarf hann ekki mikla reynslu? Hún er næg á Bessastöðum!

Frakkar hafa þingbundið forsetaveldi einsog menn þekkja. Staða utanríkisráðherra innan pólitíska kerfisins í Frans hefur — óháð því hvað mennirnir heita eða flokkarnir þeirra — lengi verið sú að hann er fyrst og fremst trúnaðarmaður forsetans. Forsætisráðherra Frakklands fæst við mál innan landamæranna og lætur utanríkisráðherrann í friði.

Ætli hér séu að renna upp franskir tímar í  utanríkispólitík?

 

Flokkar: Dægurmál

Sunnudagur 2.6.2013 - 21:45 - 8 ummæli

Vissi hann ekki um Sigurð Inga?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer mikinn á heimasíðu sinni um strá og sorgir. Og segir meðal annars þetta um þá sem hafa sett spurningarmerki við yfirlýsingar hans og Sigurðar Inga Jóhannssonar um rammaáætlun:

Það fór varla framhjá neinum að þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fór að krukka í niðurstöðum faghópanna og gera pólitískar breytingar á rammaáætlun þá andmæltu núverandi stjórnarflokkar því harðlega, sem og fjölmargir aðrir. Því var jafnframt lýst yfir að þessu yrði breytt aftur við fyrsta tækifæri. Nú er látið eins og það komi á óvart og sé á einhvern hátt í andstöðu við náttúruvernd að taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið með faglegu vinnuna.

Sigmundur Davíð hefur sumsé ekki tekið eftir því að sá sem átti að taka upp þráðinn — Sigurður Ingi Jóhannsson — hefur skipt um skoðun! Eftir yfirlýsingarnar nokkrum dögum eftir ráðherratignina kom löng þögn þar sem blaðamenn náðu ekki til nýja umhverfisráðherrans. Og á föstudaginn kom í ljós að varaformaður Framsóknarflokksins er hættur við að „taka upp þráðinn“ og ætlar einfaldlega að láta rammaferlið ganga sinn gang samkvæmt lögum, ákvörðunum meirihluta síðasta þings og erindisbréfi Svandísar Svavarsdóttur til nýrrar verkefnisstjórnar. Þetta gerðist algerlega hávaðalaust með tilkynningu á vefsetri umhverfisráðuneytisins undir fyrirsögninni: „Fagleg vinnubrögð í forgrunni við endurskoðun rammaáætlunar.“

Þar segir meðal annars um hin faglegu vinnubrögð við rammaáætlunina hingað til:

Ráðherra lagði sérstaka áherslu á að fagleg vinna verkefnisstjórnar haldi áfram eins og lagt hefur verið upp, svo og þeirra faghópa sem hún skipar, m.a. vinna við rannsóknir og greiningu á þeim virkjunarkostum sem nú eru í biðflokki. Lagði ráðherra til að við sína forgangsröðun tæki verkefnisstjórn til skoðunar þá orkukosti, sem fjallað er um í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá því í vetur. Eru þessar áherslur í samræmi við lög um rammaáætlun og áherslur í fyrirliggjandi þingsályktun.

Við endurtökum:

… í samræmi við lög um rammaáætlun og áherslur í fyrirliggjandi þingsályktun.

Þessi tilkynning jafngildir því að Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra dragi til baka fyrri orð sín um faghópaniðurstöðukrukk og óviðeigandi pólitísk afskipti af faglegu ferli. Hann er nú orðinn sáttur við þá aðferð sem fyrrverandi ráðherrar – Svandís, Katrín Júl., Oddný – og meirihluti alþingis (36–21) beittu við meðferð málsins. Nefnilega að setja í bið þá kosti sem þurfti að rannsaka betur og taka ekki pólitíska ákvörðun fyrr en þeim rannsóknum væri lokið!

Svona getur afstaða manna breyst þegar þeir fara að kynna sér málin í alvöru. Kannski Sigmundur Davíð ætti að reyna þetta líka?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur