Fróðlegt að fylgjast með heimsókn Bans framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann kom hingað í boði utanríkisráðherra, sem nú heitir Gunnar Bragi Sveinsson, en hinn raunverulegi gestgjafi var allan tímann Ólafur Ragnar Grímsson, princeps eternus Islandiæ.
Forseti Íslands sótti að sjálfsögðu fyrirlestur Bans Ki-Moons í hátíðasal Háskóla Íslands, sem haldinn var á vegum utanríkisráðuneytisins, Háskólans og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ban þakkaði Ólafi Ragnari sérstaklega fyrir komuna, og það var auðvitað forsetinn, og hvorki utanríkisráðherra né rektor, sem fylgdi Ban til dyra að fyrirlestrinum loknum.
Svo hitti Ban forsætisráðherrann á Þingvöllum í árbít en að dagslokum var reiddur fram kvöldverður fyrir hinn tigna gest. Það var ekki hjá utanríkisráðherranum (auðvitað nokkuð langt í Skagafjörð og Kaupfélagið) heldur á Bessastöðum. Þangað mun Ban einmitt hafa komið nokkru fyrir upphaf kvöldverðarins til að ræða við forsetann um heimsmálin.
Og hvar gisti framkvæmdastjórinn? Í svítunni á Sögu eða öðru þokkalegu hóteli í boði Gunnars Braga utanríkisráðherra? Neinei — hann fékk inni í villunni við Fjólugötu, hinu virðulega stórhýsi sem Silli í Silla-og-Valda gaf forsetaembættinu á sínum tíma og notað er síðan fyrir einkagesti forsetans.
Niðurstaðan í þessari prótókollísku kremlólógíu er auðvitað bara sú að núverandi ríkisstjórn, sem oftast er sögð tveggja flokka, er í raun þreföld. Hana mynda:
* Framsóknarflokkurinn með Sigmund Davíð og félaga í forsætisráðuneyti, þjóðmenningu, virkjunum og skuldavesini,
* Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna í peningunum og Illuga í ídeólógíunni,
* – og Ólafur Ragnar Grímsson með utanríkisráðherrann á Rauðarárstígnum en höfuðstöðvar á Sóleyjargötunni.
—
(Örlítið breytt frá upphafsgerð í ljósi nýrra upplýsinga.)