Fimmtudagur 30.5.2013 - 09:05 - 5 ummæli

Manstu gamla daga?

Nýja ríkisstjórnin og Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra ætla að „taka upp“ rammaáætlun. Markmiðið er að koma átta kostum í orkunýtingarflokk: þrjár Þjórsárvirkjanir, þrjár á hálendinu við Vatnajökul norðvestanverðan, Hólmsárvirkjun austan Mýrdalsjökuls, Hagavatnsvirkjun (Farið) við Langjökul.

Kenningin er sú að á síðasta stigi faglegs ferils sérfræðinga hafi fyrrverandi stjórnarflokkar með skítugum pólitískum fingrum breytt hinum vísindalegu niðurstöðum og skemmt áform um atvinnuuppbyggingu með því að taka sex þessara kosta úr orkunýtingarflokki.

Staðreyndirnar eru svolítið aðrar, en þessi pistill er ekki um þessa kenningu. Bendi á stutta en skýra umfjöllun um rammaferlið í nefndaráliti frá síðasta þingi hér (5. kafli um verkþættina).

Pólitísk ákvörðun um faglega skoðun

Sú ákvörðun sem ráðherrar, umhverfisráðherrann Svandís Svavarsdóttir og iðnaðarráðherrarnir Katrín Júlíusdóttir og Oddný G. Harðardóttir, og alþingi, með 36 atkvæðum gegn 21, tóku að lokum var vissulega pólitísk, enda voru það ráðherrar og alþingismenn sem hann tóku.

Hvað varðar Þjórsárkostina þrjá og kostina þrjá við Vatnajökul fólst hin pólitíska ákvörðun hins vegar í því að taka mark á umsögnum frá almenningi og öðrum haghöfum með því að setja þessa kosti í frekari faglega athugun. Ný verkefnisstjórn á að kanna þessa kosti sérstaklega og skila skýrslu um þá í mars á næsta ári. Höfuðviðfangsefni þeirrar athugunar er öllum ljóst: Laxamálin í Þjórsá, á hálendinu nálægðin við Vatnajökulsþjóðgarð.

Hin pólitíska ákvörðun var tekin á faglegum forsendum, á grunni laga sem samþykkt voru samhljóða á alþingi. Ákvörðunin var um frekari faglega vinnu.

     Sigurður Ingi?

Hvað gerist nú? Sigurður Ingi er ekki búinn að segja okkur ennþá hvaða aðferðum hann ætlar að beita við að „taka upp“ rammaáætlun. Ætlar hann að stöðva vinnu nýju verkefnisstjórnarinnar? Breyta lögunum sem samhljóða voru samþykkt? Vitum það ekki. En hann virðist vera búinn að ákveða fyrirfram hverjar niðurstöðurnar verða.

Ákvörðun um að náttúran njóti vafans

Sú ákvörðun sem ráðherrarnir og alþingi tóku um Þjórsá og hálendiskostina var ekki endanleg ákvörðun þar sem kostirnir væru settir annaðhvort í verndarnýtingu eða orkunýtingu. Hún var um að bíða með ákvörðun um þessa kosti, hafa þá í biðflokki þangað til svör hefðu fengist við hinum áleitnu spurningum um laxa og áhrif á þjóðgarðinn. Þetta var ákvörðun um að náttúran njóti vafans, í samræmi við varúðarregluna, eina af meginreglum umhverfisréttarins – sem nú er komin inn í lögbók Íslendinga með nýsamþykktum náttúruverndarlögum.

     Sigurður Ingi?

Hvað gerist nú? Við vitum ekki hvað Sigurður Ingi er að hugsa en við vitum að sjálfur er hann búinn að taka endanlega pólitíska ákvörðun, um að þessir kostir verði að virkjunum.

Manstu gamla daga …

Þetta var um Þjórsá og hálendiskostina. Þegar svo kemur að Hólmsá og Hagavatni breytist hljóðið í Sigurði Inga. Í tillögudrögum frá formannahópnum svokallaða (formenn faghópanna plús formaður verkefnisstjórnar) voru þessir kostir settir í bið vegna þess að mikilvægar upplýsingar skorti, sem faghóparnir þyrftu að meta. En nú telur Sigurður Ingi ekki þörf á að taka mark á „fagmönnunum“ heldur er sjálfur búinn að ákveða að þetta eigi að virkja.

Holur hljómur? Já – ekki síst vegna þess að nýi umhverfisráðherrann ætlar samkvæmt yfirýsingum sínum ekki að virða þær leikreglur sem eru kjarni sjálfrar rammahugmyndarinnar – heldur er á leiðinni inn í gamla daga þegar ákvarðanir um virkjunarmál og náttúrugæði voru teknar í iðnaðarráðuneytinu og í skrifstofum stórfyrirtækja.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.5.2013 - 10:00 - 10 ummæli

Fáum við kartöflu?

Sumir segja að í kosningunum í apríl hafi íslenska þjóðin í raun og veru ákveðið að setja skóinn út í glugga.

Og nú bíða menn eftir því að sjá hvað jólasveinninn ætlar að setja í skóinn.

Fáum við afnám verðtryggingar þannig að með betri hagstjórn sé í áföngum hægt að lækka verðbólguna og auka verðmætasköpun í samfélaginu enda sé gætt hófs í almennum kjarasamningum?

Fáum við lausn á skuldavanda heimilanna að minnsta kosti sumir að hluta til ef fjármagn fæst í málið með samningum við kröfuhafa á síðari hluta kjörtímabilsins?

Fáum við lægri skatta fyrst á útgerðamenn og fjármálafyrirtæki, svo á hátekjumenn og að lokum nokkur prósentubrot í almennum tekjuskatti enda dragi úr velferðarþjónustu og barnabörnin okkar borga seinna?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.5.2013 - 09:46 - 11 ummæli

Skilyrði forsetans

Rétt hjá Agli Helgasyniyfirlýsing forsetans um stjórnarmyndunarumboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er óvenjuleg — að fyrirheitin um lausn á skuldavanda heimilanna og um slag við vogunarsjóðina hafi fært honum sigur í kosningunum og þessvegna hafi forsetinn valið hann til verka.

Það er ekki víst að Ólafur Ragnar sé í sjálfu sér að víkja svo mjög út af venju við stjórnarmyndun. Fyrri forsetar kunna einnig að hafa miðað við fyrirhuguð verkefni eða stefnumið í tilfæringum sínum við stjórnarmyndanir — sérstaklega þeir fyrstu. Og við síðustu stjórnarmyndun, 2009, talaði forsetinn líka talsvert mál um verkefni nýju stjórnarinnar.

Það sem hér er merkilegast er auðvitað það að forseti Íslands hefur með þessu hætti skilyrt umboðið sem hann veitir formanni Framsóknarflokksins  til að mynda stjórn.

Og nú eru Sigmundur Davíð og nýja stjórnin veskú bundin þessu skilyrði sem stjórnarmyndunin byggist á, að létta á skuldum heimilanna á kostnað vogunarsjóðanna. Annars hlýtur forsetinn fyrr eða síðar að kalla aftur umboðið, hefja aðra stjórnarmyndun eða rjúfa þing og boða til kosninga.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.4.2013 - 10:29 - 5 ummæli

Taktlausir verkalýðsforingjar

Þegar menn ná ekki takti — þá er oft gott að athuga hvort það er einhver taktur í tímanum.

Nokkrir forystumenn verkalýðsfélaganna í Reykjavík eru óánægðir með „grænu gönguna“ sem umhverfis- og náttúruverndarmenn hafa boðað til 1. maí. Forseti ASÍ segir í Fréttablaðinu að þetta sé dagur launafólks og aðrir eigi að láta hann í friði: „umhverfisverndarsinnar, fyrirtækin í landinu og aðrir hagsmunahópar“.

Get vel skilið þessa afstöðu – 1. maí á að vera fyrsti maí og ekki almenn skemmtihátíð eða einhver allsherjar bolludagur. Skil hinsvegar síður jöfnuna „umhverfisverndarsinnar, fyrirtækin í landinu og aðrir hagsmunahópar“.

Umhverfisvitund og náttúruvernd eru mikilvægur partur af lífsgæðum og lífskjörum alþýðu manna, á Íslandi og annarstaðar. Þessi mál varða bæði vinnustaðina og heimilin í landinu – og eiga núna að vera kjarninn í mótun atvinnustefnu sem byggist á sjálfbærri þróun og jafnrétti kynslóðanna.

Verkalýðshreyfingin á að fagna því að áhugamenn um umhverfismál leggi sitt af mörkum á baráttudegi verkalýðsins og sýni virðingu hinum rauða þræði sem sá dagur sífellt spinnur um betri kjör og réttlátt þjóðfélag.

Reyndar ættu forystumennirnir að fagna sérstaklega öllum þeim sem geta gætt lífi þennan gamla baráttudag, sem fyrir nokkrum árum var að lognast út af í höndunum á þeim – ekki langt síðan fram kom tillaga í alvöru um að hafa bara 1. maí í Húsdýragarðinum.

Ekki í fyrsta sinn

Þetta er svosem ekki í fyrsta sinn sem forystumenn verkalýðsfélaganna í höfuðborginni amast við fólki og öðrum hagsmunahópum sem vogar sér að trufla hinn hefðbundna lúðrablástur 1. maí.

Það sama fengu einmitt að heyra konur á rauðum sokkum 1. maí 1970 – þegar baráttuganga verkalýðsins í Reykjavík varð upphafsviðburður nýju kvennahreyfingarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2013 - 18:24 - 22 ummæli

Daginn eftir

Já, auðvitað breytti Icesave-dómurinn miklu. Framsókn vann í því lotteríi og þeyttist upp á stjörnuhimininn meðan þeir flokkar sem töldu sig hafa axlað ábyrgð, S, V og líka D, stóðu uppi einsog aumingjar ef ekki föðurlandssvikarar – og má segja að enginn þeirra næði síðan almennilega vopnum sínum.

En það var miklu fleira á ferðinni. Kjósendur um öll Vesturlönd hafa undanfarin misseri verið að gefa skít í leiðtoga og ríkisstjórnir hægri-vinstri: Danmörk, Bretland, Frakkland, Spánn, Ítalía. Um alla álfuna og miklu víðar eflist vantrú á stjórnmálamönnum og á hefðbundnum stjórnmálum, þeim mun meira sem kreppan og erfiðleikarnir standa lengur.

Fylgisleysi ríkisstjórnarinnar á sér rætur á Íslandi, í erfiðleikum bráðari en nokkurstaðar annarstaðar, í fyrirheitum sem ekki tókst að standa við, í séríslensku óþoli um lausnir strax í gær, og í innri veikleikum – hún var að lokum minnihlutastjórn. Djúpvandinn er hinsvegar alþjóðlegur og varðar efnahagslegan jöfnuð, lýðræði, nýfrjálshyggju og kapítalisma, límið í samfélögunum, trosnun gamalla gilda, ótta við hið ókomna.

Hugmyndafræði – framtíðarsýn

Ég held að þrátt fyrir ýmis mistök og vonbrigði – sem urðu sérlega sár í þinglok fyrir rúmum mánuði – kannist stór hluti landsmanna við margvísleg afrek ríkisstjórnarinnar og kunni að meta þau. Maður fann þann streng óma frá rósafundi vinkvennahópsins við Stjórnarráðið á föstudaginn, og síðustu daga kosningabaráttunnar fannst mér að landið væri að rísa. Viðmót kjósenda var orðið betra, og margir næstum móðgaðir að Jóhanna og stjórn hennar skyldi ekki njóta sannmælis í kosningaslagnum. Klöppuðu okkur á bakið og óskuðu velgengni.

Þakklæti fyrir unnin verk er hinsvegar ekki mikill áhrifaþáttur í pólitík. Vorkunn ennþá síður.

Í þessum kosningum þurftu stjórnarflokkarnir að kynna árangur sinn eftir hrunið – og umfram allt: byggja á honum skýra framtíðarsýn fyrir land og fólk. Það gerðist ekki, nema á lokasprettinum örlaði á viðleitni hjá VG. Og það einsog vantaði hugmyndafræðina, sem Svavar Gestsson vakti athygli á í Sjónvarpinu í nótt.

Hvar var eiginlega staddur hugmyndagrunnur jafnaðarmanna með alla sína íslensku og alþjóðlegu sögu, alla sína reynslu og vit, alla sína margvíslegu höfðun? Hvar var framtíðarsýnin þar sem við eigum þó svo góðan efnivið, höfum unnið að svo lengi?

Rétt hjá Árna Páli að ein hugmynd um eina útfærslu á einu máli yfirgnæfði kosingabaráttuna – en svar Samfylkingarinnar í slíkri stöðu hlaut að vera tvennskonar. Annarsvegar sértækar tillögur um skuldamálin (svipað og Össur var að móta síðustu vikurnar), hinsvegar brýning um grundvallargildi jafnaðarstefnunnar og erindi hennar í íslenskum nútíma.

Þetta gerðist ekki. Í staðinn voru settar fram yrðingar, sem kalla má góðar fyrir sinn hatt í tilteknu samhengi – en hljóma eftir á ekki afar eggjandi og var varla tekið sem sérstökum fyrirheitum um lausnir í anda jafnaðarstefnunnar:

Leyfum atvinnulífinu að blómstra og tryggjum vel launuð störf.

Framhald afskrifta á skuldum heimilanna á grundvelli almennra leikreglna.

Horfumst í augu við öll tækifærin sem bíða landsmanna og nýtum þau.

Þetta var ekki allt svona vont. En forystu Samfylkingarinnar tókst aldrei að setja fram tillögur um framtíðina sem hefði tengsl við gömul góð jafnaðargildi og fyndi hljómbotn í hjörtum almennings. Reyndar mundi mig reka í vörðurnar ef einhver spyrði snögglega um meginskilaboð flokksins í kosningunum. Var ég þó þingmaður í framboði.

Við þurfum að vita af hverju þetta gerðist svona. Mig langar ekkert í einhverjar langvinnar pælingar eða hugmyndafræðileg átök. Spyr mig samt hvort ein ástæðan sé að blairisminn frá því fyrir nokkrum árum hafi enn ekki fjarað út. Hvort flokkinn vanti ennþá strategíu sem gengur út á annað en að komast í næstu stjórn með næsta samstarfsflokki. Hvort við höfum vanrækt flokkinn sem vettvang og samfélag samherja þrátt fyrir rýnifundi og umbótaskýrslur, þannig að ekki gefist færi á samráði og gagnrýni á störf hinna kjörnu fulltrúa. Hvort sá kúltur sé ennþá virkur að forystumennirnir líti á flokk og stuðningsmenn sem skip og föruneyti en ekki uppsprettu hinna pólitísku starfa.

Samt var landsfundurinn okkar í febrúarbyrjun feikivel heppnaður og sýndi baráttuglaðan flokk í fínu formi. Eitthvað mikið gerðist síðustu þrjá mánuðina. Eða gerðist ekki.

Forystumenn og atburðarás

Bráðar eru blóðnætur – eftir áföll einsog í gær er rétt að fara sér hægt og taka eitt skref í einu. Ósigur Samfylkingarinnar er ekki Árna Páli Árnasyni einum að kenna – frekar en Jóhönnu Sigurðardóttur – eða til dæmis mér. Árni Páll er hæfileikamaður og gerði margt vel. Stundum fannst manni samt að atburðarásin bæri hina nýju forystu flokksins ofurliði, að hún kannski ímyndaði sér að hún væri stödd í allt annarri atburðarás – þeirri sem hefði átt að verða en ekki þeirri sem varð.

Þetta byrjaði strax fyrstu vikuna eftir velheppnaðan landsfund. Þá var eðlilegt að nýta byrinn með kynningu, almannafundum og ráðslagi við áhrifahópa – en í staðinn virtust hollvinir Árna Páls vera að bíða eftir að hann yrði forsætisráðherra – sem aldrei stóð til af því slík skipti voru ekki á valdi Samfylkingarinnar. Svo kom þessi langi og erfiði stjórnarskrárkafli í þinglok þar sem nýja forystan tók að sér að leysa málin, en því lauk nánast án árangurs og olli miklum vonbrigðum í kjarnafylgi flokksins og næsta nágrenni.

Forystusveitin virtist heldur aldrei komast í samband við meginefni kosningabaráttunnar, einsog áður er rakið. Samfylkingin hefur átt 13 ára samleið með þjóðinni í gegnum blítt og strítt, og þar áður voru móðurflokkar og hreyfingar í bráðum heila öld. Við erum hluti alþjóðahreyfingar jafnaðarmanna og tengjumst þar mörgum fremstu stjórnmálamönnum og hugsuðum Norðurlanda, Evrópu og heimsins alls. Við höfðum í framboði 17 þekkta alþingismenn, þar af sjö ráðherra nú- og fyrrverandi, hvern með sína kunnáttu og tengsl og sérsvið og höfðun. Við vorum í þessum kosningum að kveðja Jóhönnu Sigurðardóttur eftir 35 ár á þingi, fyrstu konuna í forystu íslenskrar ríkisstjórnar, stjórnmálamann sem snertir streng í mörgu hjarta og er tákngervingur baráttunnar fyrir jöfnuði og mannréttindum.

Þessir kostir voru ekki nýttir í kosningunum en í staðinn lögð öll áhersla á persónu formannsins. Það getur virkað – ef formaðurinn vekur athygli og hefur höfðun í samhengi við framboðið og skilaboð þess. Fljótt kom í ljós að það var því miður ekki í þetta skipti, hvað sem síðar kann að verða. Þá virtist ekki hægt að haga seglum eftir vindi heldur var enn meiri áhersla lögð á formanninn. En sú áhersla kann að lokum að hafa hrakið meira frá en laðað að – enda voru flokkurinn og gildi hans nánast horfin bakvið talbólurnar.

Þessi taktísku mistök við erfiðar aðstæður juku á ósigurinn. Það sést best á samanburði við VG sem tókst í lokin að forðast algert afhroð með áherslu á grunngildi sín, á árangur ríkisstjórnarinnar, og á leiðtoga sinn sem fremstan meðal jafningja í talsverðum hópi álitlegra frambjóðenda.

Þetta, og miklu fleira, þurfum við í Samfylkingunni að skoða næstu vikur og mánuði af fullum heiðarleik, en án gremju og og illinda. Átta okkur á nýrri stöðu, á erindi okkar og á samhenginu til vinstri við miðju núna þegar stutt er í tvo flokka sem eru nánast jafnstórir og við.

Aumingi minn

Takk, þið mörg sem sýnduð þessum frambjóðanda stuðning og hlýju í snúinni kosningabaráttu, takk aðrir S-frambjóðendur og allt það fína fólk sem kom og vann í framboðinu. Ég hef sjálfur ekki átt von á frekari þingmennsku frá því í prófkjörinu í nóvember – þrátt fyrir ágæta kosningu var fjórða sæti suður ekki líklegt þingsæti að þessu sinni. Næstu daga gengur maður með sjó og situr við eld. Það er ég líka að reyna í þessu bloggi.

Og ég hef ákveðið að vakna aftur á morgun, og líka á þriðjudaginn. Pólitíkin gengur svona og svona en lífið heldur áfram, hjá okkur öllum sem erum svo heppin að upp rennur nýr dagur, og um þetta sama líf segir Sigfús okkur beiskjulaust og í trúnaði að hvað sem öðru líður sé það – „mjög dásamlegt“.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.4.2013 - 11:26 - 24 ummæli

Ekki eyða atkvæðinu þínu

Má vel vera að 5%-reglan sé ósanngjörn og grimmileg gagnvart smáflokkum og ýmsu frumkvæðisfólki í stjórnmálum. Hún er hinsvegar í gildi og virkar þannig að ef maður greiðir atkvæði framboði sem ekki nær einum tuttugasta fylgis yfir landið – þá fellur það atkvæði dautt niður. Þó ekki alveg áhrifalaust því reikningsreglan um úthlutun þingsæta (d’Hondt) verður til þess að dauðu atkvæðin nýtast best stærsta flokknum eða flokkunum – sem nú lítur út fyrir að verði Framsóknarsjálfstæðisflokkarnir.

Staðan er sú að í könnunum eru tveir nýir flokkar rétt yfir 5%-mörkunum, píratar og BF. Líklegt er að bæði þessi framboð mælist of sterk í könnununum, vegna þess að öldruðum kjósendum, sem eru frekar tregir að kjósa þessi framboð, er ekki veitt næg athygli í sumum þeirra, og vegna þess að afstaða yngstu kjósendanna, þar sem bæði þessi framboð hafa haft talsvert fylgi, er sveiflukenndari en hinna eldri. Píratar og BF eru ekki örugg. Og áhrif þeirra á þingi raunar umdeilanleg með 3–5 manna þingflokk ef þeim tækist að ná 5%-múrnum.

Önnur framboð – T, G, L o g svo framvegis – hafa náð mest 2–3%. Þar þarf kraftaverk ef maður á að nást inn fyrir dyr alþingis.

Það er margt álitlegt við þessi framboð og flokka. Víða eru þarna dugmiklir og hugmyndaríkir einstaklingar, og svo stefnumál ágæt. Sum nýstárleg og eiga eftir að setja svip á þjóðmálaumræðu næstu árin. Önnur kannski kunnuglegri. Ég skil þá hneigð að styðja einstaka menn eða velhljómandi málefnapakka með atkvæði á eitthvert þessara framboða. Eftir vonbrigði með stjórnarskrá og fisk, og skuldirnar hafa víða lítið lagast eða tekjurnar skánað. En samt var Jóhanna kvödd í gær með söng og þakkarhrópum – af því hún hafði forustu fyrir því að bjarga samfélagi sem var að rifna sundur eftir mesta áfall í Íslandssögu síðari tíma.

Og nú er að ákveða sig. Áhættan er sú að eyða atkvæðinu og styrkja um leið B- og D-lista á leiðinni í nýju millastjórnina. Eða nýta atkvæðið á Samfylkinguna sem ein getur komið í veg fyrir slíka framtíð ef hún fær til þess nægan styrk.

Nú er að ákveða sig.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.4.2013 - 09:58 - 5 ummæli

Kjósum gegn stóriðjustjórn

Tólf eða þrettán frambjóðendur í hverjum sjónvarpsþætti eða málefnafundi í kosningabaráttunni og tala hver upp í annan – svörin oftast þokukennd og óskýr eða þá passa ekki við spurningarnar sem brenna á. Tveir flokkar að koma úr ríkisstjórn sem ekki kláraði sitt prógramm og skilur eftir sig fullt af vandamálum , og svo allir hinir, gömlu og nýju, sem hrópa og kalla: Sjáiði mig, mig, nei mig!

Já, þetta finnst frambjóðendunum sjálfum stundum líka, og ég get vel skilið þá sem yppta öxlum.

Einfalt

Og samt er staðan einföld. Jafnaðarmenn eru að skila af sér kjörtímabili þar sem allir kraftar stjórnar og almennings fóru í að ná efnahagslífinu upp úr hruni án þess að samfélagsgerðin rifnaði í sundur. Það tókst, og nú eru allar vísbendingar upp á við. Það tókst ekki allt á þessum fjórum árum, og var engin von til – en flokkarnir tveir sem höfuðábyrgð bera á hruninu nýta sér hinsvegar óþol og óánægju eftir langt erfiðleikatímabil. Lofa gulli og grænum skógum, skattalækkun og skuldaniðurfellingu langt umfram það svigrúm sem nú er búið að skapa og án tillits til þess að við þurfum jafnframt að létta á bókhaldi heimilanna hvers fyrir sig og allar saman með því að lækka himinháar vaxtagreiðslur úr ríkissjóði og bæta velferðarþjónustuna, ekki síst heilbrigðiskerfið.

Fyrir utan töfrabrögð benda flokkarnir tveir aðeins á eina leið til að fjármagna dæmið. Hún heitir „atvinnuuppbygging“ sem í þeirra orðabók þýðir virkjanir og stóriðja. Vegna þess að fjárfestar veraldarinnar bíða ekki í röð með peningana sína eftir fjárfestingarfærum á Íslandi frekar en annarstaðar á kreppuslóðum okkar tíma – en BD-flokknum liggur á – er eina aðferðin að nú renni upp gamlir tíma undirboða, í orkuverði, sköttum og umhverfistilliti. Stóriðjustjórn framundan – með hefðbundnum helmingaskiptum á forsendum sérhagsmunanna.

Ekki eyðileggja atkvæðið

Til að koma í veg fyrir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verður að tryggja að öll atkvæði nýtist. Í síðustu könnunum eru þessir flokkar tveir með góðan meirihluta þingmanna – en minnihluta atkvæða! Því olli veruleg dreifing atkvæða á framboð sem mældust með kringum 2 prósent hvert um sig. þau atkvæði falla niður dauð. Tvö framboð í viðbót eru samkvæmt könnunum rétt yfir mörkunum, og eru í verulegri hættu. Þar er líka veruleg hætta á ónýtum atkvæðum.

Svarið: S

Til að koma í veg fyrir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verður líka að tryggja að til mótvægis sé jafnaðarflokkur með skýra og samstæða stefnu í þeim málum sem mestu varða næstu ár – um hagstjórn, skuldir, vinnu og velferð, umhverfi og náttúruvernd, menntun og menningu, og um Evrópu. Flokkur sem er ókvíðinn hjörs í þrá – en tilbúinn að leita samkomulags og málamiðlunar á forsendum almannahagsmuna. Sterk Samfylking getur komið í veg fyrir pólitískt stórslys um næstu helgi.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.4.2013 - 10:47 - 5 ummæli

Lánsveð — Staðið við fyrirheitin!

Loksins! Fékkst niðurstaða í samningum um að létta byrði lánsveðshópsins svokallaða – um tvö þúsund heimili með yfirveðsetningu en gátu ekki notað 110%-leiðina af því lánardrottnarnir höfðu augastað á veðunum sem fólkið hafði fengu hjá pabba og mömmu, Jóa bróður og svo framvegis. Augljóst sanngirnismál eftir að stór hópur í svipaðri stöðu, en án annarra veða en í íbúðinni sjálfri, hafði komist í skárri stöðu með 110%-leiðinni.

Á ýmsan veg hefur barátta lánsveðshópsins sýnt vel erfiðleikana sem við er að fást í skuldamálunum. Annarsvegar er fólk í vanda sem sanngirni og skynsemi mæla með að verði létt á – hinsvegar lánastofnanir sem fara eftir eigin lögmálum – lífeyrissjóðirnir allra harðastir og vísa til þess að þar sé geymt almannafé sem ekki megi hella út um gluggann.

Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því yfir fyrir rúmu ári minnir mig að ríkistjórnin mundi beita sér fyrir því að lánsveðshópnum yrði léttur róðurinn, og við höfum ýmis, innan þings og utan, tekið duglega undir þau markmið forsætisráðherra. Með samkomulaginu í gær er þetta fyrirheit efnt, ef næsta þing fellst á samninginn við lífeyrissjóðina, sem vissulega gerir ráð fyrir talsverðum fjárveitingum úr hinum sameiginlegum sjóði.

Óska lánsveðsfólkinu á heimilunum tvö þúsund til hamingju. Næst er það fólkið með stökkbreyttu verðtryggðu lánmin frá 2005–2008, og ekki síður vaxandi hópur leigjenda með himinháan húsnæðiskostnað.

Tíðindin um lánsveðshópinn úr Fréttablaðinu í dag:

Ríkisstjórnin og Landssamtök lífeyrissjóða gerðu í gær með sér samkomulag um aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila sem eru með lán með veð í eignum annarra. Er stefnt að því að þessi heimili fái nú svipaða lausn sinna mála og öðrum yfirveðsettum heimilum stóð til boða í gegnum 110% leiðina.

„Þessi lausn er mikið réttlætismál þar sem lánsveðshópnum býðst sama úrlausn mála og þeim sem fóru 110% leiðina. Við höfum barist fyrir þessu lengi og þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða,“ segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu um samkomulagið í gær. Samkvæmt því skal stefnt að því að eftirstöðvar húsnæðislána með lánsveð verði færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar lántaka.

Kostnaðurinn við þessar aðgerðir mun dreifast þannig að lífeyrissjóðirnir greiða fyrir 12% en ríkissjóður fyrir 88%. Áður en hægt er að framkvæma þær þarf ríkisstjórnin þó að afla lagaheimilda til þess að skuldbinda ríkissjóð til þessa kostnaðar. Auk þess þarf að afla staðfestingar frá stjórnum hlutaðeigandi lífeyrissjóða.

Samkvæmt niðurstöðum sérfræðingahóps sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið skipaði í fyrra var í lok árs 2011 1.951 lántakandi, sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveði á árunum 2004 til 2008, með húsnæðisskuld umfram 110% af fasteignamati. Þessi hópur gat ekki tekið þátt í 110% leiðinni þar sem lífeyrissjóðirnir, sem eru eigendur langflestra lánanna, töldu það ekki heimilt samkvæmt lögum.

 

Flokkar: Húsnæðisskuldir

Mánudagur 22.4.2013 - 22:21 - 1 ummæli

Og var ekki í framboði

Aðeins einn umræðufundur hefur verið haldinn um umhverfisstefnu og náttúruvernd núna fyrir kosningarnar. Hann fór fram í Odda í dag á vegum Ungra umhverfissinnna og Politica, félags stjórnmálafræðinema.

Ágætur fundur miðað við fjölda framsögumanna, þökk sé snarpri fundarstjórn. Svandís frá VG, ég fyrir Samfó, Róbert frá BF, Ólöf Guðný frá Dögun, og svo framvegis. Þorvaldur á R-listanum kom annaðhvort byltingunni eða kapítalismanum inn í hvert einasta svar, sem mér þótti vænt um að heyra.

Vigdís Hauksdóttir var Framsóknarmaðurinn og tókst að komast frá fundinum nánast án þess að hönd festi nokkurstaðar á umhverfisstefnu Framsóknarflokksins. Því miður er erfitt að fá ófúst fólk til að standa fyrir máli sínu þegar þátttakendurnir eru tólf. Þó kom í ljós að Vigdís og Framsóknarflokkurinn telja af hinu illa viðskiptakerfi Evrópusambandsríkja, Noregs og Íslands með loftslagsheimildir og þrá ennþá gömlu og góðu ,,íslenska ákvæðið“ (sem að vísu kom ESB ekkert við). Flokkurinn ætlar líka að virkja einsog þarf og ,,taka upp“ rammaáætlun (en enginn veit hvernig). Ennþá er óljóst hvaða virkjanir komast upp nema Þjórsárvirkjanir tvær, hugsanlegt að Urriðafoss verði látinn bíða. Svo heyrðist mér hún ætlaði að ,,hlífa háhitasvæðunum“ en gæti hafa verið misheyrn.

Ég leit í kringum mig í upphafi fundarins að vita hvort þarna væri Birgir Ármannsson eða Guðlaugur Þór Þórðarson – og kannski sjálfur Jón Gunnarsson! en greip í tómt.

Milli Píratans og Júlíusar húmanista sat geðþekkur ungur maður, Magnús Júlíusson að nafni. Þessi Magnús reyndist vera fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ég mundi ekki eftir honum á D-listunum á höfuðborgarsvæðinu og datt í hug að gá að Magnúsi á vefsetri Valhallar.

Í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn hafði sent á eina umhverfisfund kosningabaráttunnar mann sem ekki er í framboði.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.4.2013 - 12:34 - 1 ummæli

Stóriðjan mikilvægari en skuldirnar

Sigurður Ingi Jóhannsson var opinskár í Bylgjuviðtali í gær – takk fyrir það. Hann lýsti því yfir að Framsókn væri á leiðinni í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Fyrir varaformanni Framsóknarflokksins eru tvö mál í húfi eftir kosningar. Annarsvegar einhverskonar efndir á loforðum flokksins  um almenna skuldaleiðréttingu. Það veit hann að verður erfitt en virðist þó telja að það gæti helst gengið í samvinnu við Samfylkinguna og önnur miðju- og vinstriöfl.

Hitt málið er „atvinnuuppbygging“. Þar treystir Sigurður Ingi engum nema Sjálfstæðisflokknum.

Í munni Sigurðar Inga Jóhannssonar merkir „atvinnuuppbygging“ bara eitt: Virkjanir og stóriðju. Sigurður Ingi og flokkur hans greiddu atkvæði gegn tillögunni um rammaáætlun, og Sigurður Ingi flutti þar sérstakar tillögur um tvær virkjanir á Suðurlandi sem „vísindamennirnir“ og „sérfræðingarnir“ höfðu mælt með að færu í bið og frekari athuganir – Hólmsárvirkjun og Hagavatnsvirkjun við Langjökul. Báðar yrðu fyrstu virkjanirnar á heilu vatnasviði. Báðar ganga þvert á náttúruverndarsjónarmið og hagsmuni ferðaþjónustunnar. Sú seinni var eittsinn talin mundu geta unnið gegn jarðvegseyðingu og foki, en um það eru nú mikil áhöld, svo talað sé kurteislega – og Sigurður Ingi vissi allt um þær röksemdir þegar hann lagði fram tillöguna. Þessi framganga á þinginu í vetur sýnir ágætlega hvað Sigurður Ingi á við með „atvinnuuppbyggingu“ – enda hafa hann og félagar hans síðan heitið því á kosningafundum að „taka upp“ eða „rífa upp“ rammaáætlun.

„Lowest Energy Prices“

Nú er það reyndar svo að stóriðjuáform hafa að undanförnu ekki einkum strandað á tregðu stjórnvalda – mörgum finnst ráðherrar V og S hafa verið nokkuð undanlátssamir gagnvart minnstu vísbendingum um erlendar fjárfestingar – heldur því að stóriðjufjárfestar halda að sér höndum, ekki bara hér heldur í öllum okkar heimshluta.

Ef stóriðjan á að sjá um „atvinnuuppbyggingu“ Sigurðar Inga er eina leiðin að bjóða sig niður í skítinn, lækka til hennar orkuverð og veita stórkostlegar ívilnanir í sköttum og aðstöðu. Einmitt þetta hefur – þrátt fyrir Bakka – verið að breytast síðustu árin, bæði hjá orkufyrirtækjum og stjórnvöldum. Menn eru að sjá að orkan á Íslandi er takmörkuð auðlind. Við eigum að nýta hana með varúð, með fullu tiliti til umhverfisþátta og fyrir hana verður að koma eðlilegt gjald. Og vaxtarbroddarnir í atvinnulífinu eru annarstaðar en í stóriðjunni þótt þar kunni enn sað vera færi – ekki síst í náttúrutengdum greinum á borð við ferðaþjónustu og ýmiskonar sköpunar- og þekkingargreinum, og í grænkandi sjávarútvegi og landbúnaði.

Stóriðjubandalag frekar en samstarf gegn skuldum

Þetta er óvenju skýrt hjá Sigurði Inga. Hann telur óvíst að ná saman við Sjálfstæðisflokkinn um skuldirnar, og veit að þar eru meiri möguleikar til vinstri. En finnst mikilvægara að ná öruggu bandalagi við íhaldið um stórvirkjanir og hefja útsölu á rafmagni undir merkjum „atvinnuuppbyggingar“ en gegn framtíðarhag þjóðarinnar og náttúru Íslands.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur