Já, auðvitað breytti Icesave-dómurinn miklu. Framsókn vann í því lotteríi og þeyttist upp á stjörnuhimininn meðan þeir flokkar sem töldu sig hafa axlað ábyrgð, S, V og líka D, stóðu uppi einsog aumingjar ef ekki föðurlandssvikarar – og má segja að enginn þeirra næði síðan almennilega vopnum sínum.
En það var miklu fleira á ferðinni. Kjósendur um öll Vesturlönd hafa undanfarin misseri verið að gefa skít í leiðtoga og ríkisstjórnir hægri-vinstri: Danmörk, Bretland, Frakkland, Spánn, Ítalía. Um alla álfuna og miklu víðar eflist vantrú á stjórnmálamönnum og á hefðbundnum stjórnmálum, þeim mun meira sem kreppan og erfiðleikarnir standa lengur.
Fylgisleysi ríkisstjórnarinnar á sér rætur á Íslandi, í erfiðleikum bráðari en nokkurstaðar annarstaðar, í fyrirheitum sem ekki tókst að standa við, í séríslensku óþoli um lausnir strax í gær, og í innri veikleikum – hún var að lokum minnihlutastjórn. Djúpvandinn er hinsvegar alþjóðlegur og varðar efnahagslegan jöfnuð, lýðræði, nýfrjálshyggju og kapítalisma, límið í samfélögunum, trosnun gamalla gilda, ótta við hið ókomna.
Hugmyndafræði – framtíðarsýn
Ég held að þrátt fyrir ýmis mistök og vonbrigði – sem urðu sérlega sár í þinglok fyrir rúmum mánuði – kannist stór hluti landsmanna við margvísleg afrek ríkisstjórnarinnar og kunni að meta þau. Maður fann þann streng óma frá rósafundi vinkvennahópsins við Stjórnarráðið á föstudaginn, og síðustu daga kosningabaráttunnar fannst mér að landið væri að rísa. Viðmót kjósenda var orðið betra, og margir næstum móðgaðir að Jóhanna og stjórn hennar skyldi ekki njóta sannmælis í kosningaslagnum. Klöppuðu okkur á bakið og óskuðu velgengni.
Þakklæti fyrir unnin verk er hinsvegar ekki mikill áhrifaþáttur í pólitík. Vorkunn ennþá síður.
Í þessum kosningum þurftu stjórnarflokkarnir að kynna árangur sinn eftir hrunið – og umfram allt: byggja á honum skýra framtíðarsýn fyrir land og fólk. Það gerðist ekki, nema á lokasprettinum örlaði á viðleitni hjá VG. Og það einsog vantaði hugmyndafræðina, sem Svavar Gestsson vakti athygli á í Sjónvarpinu í nótt.
Hvar var eiginlega staddur hugmyndagrunnur jafnaðarmanna með alla sína íslensku og alþjóðlegu sögu, alla sína reynslu og vit, alla sína margvíslegu höfðun? Hvar var framtíðarsýnin þar sem við eigum þó svo góðan efnivið, höfum unnið að svo lengi?
Rétt hjá Árna Páli að ein hugmynd um eina útfærslu á einu máli yfirgnæfði kosingabaráttuna – en svar Samfylkingarinnar í slíkri stöðu hlaut að vera tvennskonar. Annarsvegar sértækar tillögur um skuldamálin (svipað og Össur var að móta síðustu vikurnar), hinsvegar brýning um grundvallargildi jafnaðarstefnunnar og erindi hennar í íslenskum nútíma.
Þetta gerðist ekki. Í staðinn voru settar fram yrðingar, sem kalla má góðar fyrir sinn hatt í tilteknu samhengi – en hljóma eftir á ekki afar eggjandi og var varla tekið sem sérstökum fyrirheitum um lausnir í anda jafnaðarstefnunnar:
Leyfum atvinnulífinu að blómstra og tryggjum vel launuð störf.
Framhald afskrifta á skuldum heimilanna á grundvelli almennra leikreglna.
Horfumst í augu við öll tækifærin sem bíða landsmanna og nýtum þau.
Þetta var ekki allt svona vont. En forystu Samfylkingarinnar tókst aldrei að setja fram tillögur um framtíðina sem hefði tengsl við gömul góð jafnaðargildi og fyndi hljómbotn í hjörtum almennings. Reyndar mundi mig reka í vörðurnar ef einhver spyrði snögglega um meginskilaboð flokksins í kosningunum. Var ég þó þingmaður í framboði.
Við þurfum að vita af hverju þetta gerðist svona. Mig langar ekkert í einhverjar langvinnar pælingar eða hugmyndafræðileg átök. Spyr mig samt hvort ein ástæðan sé að blairisminn frá því fyrir nokkrum árum hafi enn ekki fjarað út. Hvort flokkinn vanti ennþá strategíu sem gengur út á annað en að komast í næstu stjórn með næsta samstarfsflokki. Hvort við höfum vanrækt flokkinn sem vettvang og samfélag samherja þrátt fyrir rýnifundi og umbótaskýrslur, þannig að ekki gefist færi á samráði og gagnrýni á störf hinna kjörnu fulltrúa. Hvort sá kúltur sé ennþá virkur að forystumennirnir líti á flokk og stuðningsmenn sem skip og föruneyti en ekki uppsprettu hinna pólitísku starfa.
Samt var landsfundurinn okkar í febrúarbyrjun feikivel heppnaður og sýndi baráttuglaðan flokk í fínu formi. Eitthvað mikið gerðist síðustu þrjá mánuðina. Eða gerðist ekki.
Forystumenn og atburðarás
Bráðar eru blóðnætur – eftir áföll einsog í gær er rétt að fara sér hægt og taka eitt skref í einu. Ósigur Samfylkingarinnar er ekki Árna Páli Árnasyni einum að kenna – frekar en Jóhönnu Sigurðardóttur – eða til dæmis mér. Árni Páll er hæfileikamaður og gerði margt vel. Stundum fannst manni samt að atburðarásin bæri hina nýju forystu flokksins ofurliði, að hún kannski ímyndaði sér að hún væri stödd í allt annarri atburðarás – þeirri sem hefði átt að verða en ekki þeirri sem varð.
Þetta byrjaði strax fyrstu vikuna eftir velheppnaðan landsfund. Þá var eðlilegt að nýta byrinn með kynningu, almannafundum og ráðslagi við áhrifahópa – en í staðinn virtust hollvinir Árna Páls vera að bíða eftir að hann yrði forsætisráðherra – sem aldrei stóð til af því slík skipti voru ekki á valdi Samfylkingarinnar. Svo kom þessi langi og erfiði stjórnarskrárkafli í þinglok þar sem nýja forystan tók að sér að leysa málin, en því lauk nánast án árangurs og olli miklum vonbrigðum í kjarnafylgi flokksins og næsta nágrenni.
Forystusveitin virtist heldur aldrei komast í samband við meginefni kosningabaráttunnar, einsog áður er rakið. Samfylkingin hefur átt 13 ára samleið með þjóðinni í gegnum blítt og strítt, og þar áður voru móðurflokkar og hreyfingar í bráðum heila öld. Við erum hluti alþjóðahreyfingar jafnaðarmanna og tengjumst þar mörgum fremstu stjórnmálamönnum og hugsuðum Norðurlanda, Evrópu og heimsins alls. Við höfðum í framboði 17 þekkta alþingismenn, þar af sjö ráðherra nú- og fyrrverandi, hvern með sína kunnáttu og tengsl og sérsvið og höfðun. Við vorum í þessum kosningum að kveðja Jóhönnu Sigurðardóttur eftir 35 ár á þingi, fyrstu konuna í forystu íslenskrar ríkisstjórnar, stjórnmálamann sem snertir streng í mörgu hjarta og er tákngervingur baráttunnar fyrir jöfnuði og mannréttindum.
Þessir kostir voru ekki nýttir í kosningunum en í staðinn lögð öll áhersla á persónu formannsins. Það getur virkað – ef formaðurinn vekur athygli og hefur höfðun í samhengi við framboðið og skilaboð þess. Fljótt kom í ljós að það var því miður ekki í þetta skipti, hvað sem síðar kann að verða. Þá virtist ekki hægt að haga seglum eftir vindi heldur var enn meiri áhersla lögð á formanninn. En sú áhersla kann að lokum að hafa hrakið meira frá en laðað að – enda voru flokkurinn og gildi hans nánast horfin bakvið talbólurnar.
Þessi taktísku mistök við erfiðar aðstæður juku á ósigurinn. Það sést best á samanburði við VG sem tókst í lokin að forðast algert afhroð með áherslu á grunngildi sín, á árangur ríkisstjórnarinnar, og á leiðtoga sinn sem fremstan meðal jafningja í talsverðum hópi álitlegra frambjóðenda.
Þetta, og miklu fleira, þurfum við í Samfylkingunni að skoða næstu vikur og mánuði af fullum heiðarleik, en án gremju og og illinda. Átta okkur á nýrri stöðu, á erindi okkar og á samhenginu til vinstri við miðju núna þegar stutt er í tvo flokka sem eru nánast jafnstórir og við.
Aumingi minn
Takk, þið mörg sem sýnduð þessum frambjóðanda stuðning og hlýju í snúinni kosningabaráttu, takk aðrir S-frambjóðendur og allt það fína fólk sem kom og vann í framboðinu. Ég hef sjálfur ekki átt von á frekari þingmennsku frá því í prófkjörinu í nóvember – þrátt fyrir ágæta kosningu var fjórða sæti suður ekki líklegt þingsæti að þessu sinni. Næstu daga gengur maður með sjó og situr við eld. Það er ég líka að reyna í þessu bloggi.
Og ég hef ákveðið að vakna aftur á morgun, og líka á þriðjudaginn. Pólitíkin gengur svona og svona en lífið heldur áfram, hjá okkur öllum sem erum svo heppin að upp rennur nýr dagur, og um þetta sama líf segir Sigfús okkur beiskjulaust og í trúnaði að hvað sem öðru líður sé það – „mjög dásamlegt“.