Föstudagur 19.4.2013 - 13:51 - 2 ummæli

Svör vantar frá B og D

Það er sérkennilegt að hvorki stóri Framsóknarflokkurinn né litli Sjálfstæðisflokkurinn hafa hirt um það hingað til í kosningaumræðunni að gefa svör við brýnum spurningum á sviði náttúruverndar og umhverfismála – þar sem vaxtarbrodda atvinnulífsins er ekki síst að finna nú um stundir. Þó hafa síðustu fjögur ár í stjórnmálum einkennst ekki síst af framþróun á þessu sviði, í löggjöf annarsvegar, hinsvegar áætlunum, áformum og framkvæmdum bæði á opinberum vegum og hjá fyrirtækjum og félagasamtökum.

Fjögur dæmi:

Eitt: Á þessu kjörtímabili komust loksins í gagnið nýjar leikreglur um orkuvinnslu og verndarnýtingu eftir fjögurra áratuga deilur. Rammaáætlun. Þetta var að frumkvæði Samfylkingarinnar – eitt af kjarnamálum í stefnunni um Fagra Ísland. Fyrst voru lög um þetta samþykkt samhljóða, og svo kom fyrsta rammaákvörðunin – sem skilaði víðtækari verndaráformum á náttúrusvæðum en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni. Tímamót. Framsóknar- og Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn fyrstu rammaáætluninni á þingi og hafa síðan lýst yfir að það eigi að „taka upp“ rammaáætlun. Hvað merkir það? Ætla þeir að færa ákvarðanir um þetta aftur til ráðherranna, til Landsvirkjunar og HS og OR, og til bankanna og erlendu stóriðjufyrirtækjanna, með gömlu formúlunni Lowest Energy Prices?

Tvö: Aðgerðaáætlunin um græna hagkerfið er í gangi, og í hana eiga að renna verulegir peningar samkvæmt fjárfestingaráætluninni. Með því erum við að styðja til þroska atvinnufyrirtæki framtíðarinnar, á sviði þekkingar, lista, náttúruverðmæta og skapandi greina, en einnig græn verkefni í hefðbundnum atvinnugreinum. Alger þögn ríkir hjá stóru Framsókn og litla FLokki um áform á þessu sviði. Vilja þau halda áfram fyrir samtíð og framtíð að þroska Græna hagkerfið? Eða ætla þau að endurreisa Gamla hagkerfið?

Þrjú: Ísland er nú um heimsbyggðina talið í fyrsta flokki í loftslagsmálum. Annarsvegar vegna þess að við höfum gengið til samstarfs við Evrópusambandsríkin um losunarmarkmið og loftslagskvóta, hinsvegar af því að við vinnum eftir sérstakri áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum, ekki síst um orkuskipti í samgöngum, sem ásamt eldsneyti á miðunum er helsti loftslagsvandi okkar. Eru Sjálfstæðisflokksmenn tilbúnir í metnaðarfullan losunarsamdrátt? Ætlar Framsókn að halda áfram loftslagssamstarfinu við Evrópusambandið?

Fjögur: Ný náttúruverndarlög voru samþykkt í þinglok og taka við af gölluðum lögum frá 1999. Lögin eru mikið framfaraskref – gætu tryggt náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu verndarsvæða til frambúðar, leyst misjafnar þarfir útivistarmanna og náttúruunnenda með skynsamlegu skipulagi, eflt möguleika ferðaþjónustunnar. Þegar þau voru samþykkt núna í mars voru 17 þingmenn á rauða takkanum, úr B og D. Lögin taka ekki gildi fyrren á næsta ári – og þessvegna er óskað svara við brýnni spurningu sem enginn af þessum sautján svaraði á sínum tími: Hverju nákvæmlega ætla Litli og Stóri að breyta í nýju náttúruverndarlögunum?

Stjórnarmeirihlutinn hefur staðið fyrir verulegum framförum á þessum sviðum, í félagi við náttúruverndar- og umhverfissinna, við forustumenn í nýjum greinum og stórefldri ferðaþjónustu, við fræðimenn og frumkvöðla. Ætli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn að eyðileggja þennan árangur – þá er núna tíminn til að segja frá því. Kjósenda er síðan að segja til um hverjum þeir treysta best til forystu við umhverfisframfarir, náttúruvernd og nýja atvinnulífið.

 

(Líka í DV föstudaginn 19. apríl.)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.4.2013 - 16:30 - 3 ummæli

Með Evrópu á heilanum

Það verður oft nokkuð háfleygt og fjarlægt, allt talið með og á móti aðild að Evrópusambandinu – fyrir utan allt ruglið og nöldrið. Jamm, það þarf að finna leið út úr gjaldeyrishöftunum, og enginn hefur í raun og veru bent á neina aðra en að tengjast evrunni og taka hana svo upp. Jamm, fullveldisdeiling bæði í EES og ESB er ekkert áhlaupaverk, og þar má ekki rasa um ráð fram. Sjávarútvegsmálin, landbúnaðurinn, byggðirnar, fjármálamarkaðirnir o.s.frv. o.s.frv. En hvað kemur þetta venjulegu fólki við í daglegu brauðstriti og amstri – vandanum við að ná endum saman um næstu mánaðamót?

Margt er auðvitað óljóst ennþá um stöðuna eftir inngöngu okkar í Evrópusambandið ef af verður. Þessvegna erum við að semja. Og ýmislegt af kostum og göllum við aðild kemur ekki í ljós fyrren á líður. Það er reynsla annarra þjóða sem inn eru gengnar, svo sem Svía og Finna, Eystrasaltsþjóðanna, nýfrjálsu ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu.

Margt er líka nokkurnveginn ljóst, og varðar ekki síst hag fjölskyldnanna, almennings í landinu. Með evrunni minnkar allur kostnaður í viðskiptum okkar við evrulöndin – vöruverð fer niður. Vextir hafa verið hér alltof háir fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Þeir lækka með inngöngu og evru, og líklega strax með tengingu krónunnar við evru. Innganga og evra mundi slá á verðbólgu með sífelldum hækkunum verðlags og launa. Verðtryggingin hverfur með evrunni, enda er verðtryggingin hækja sem hin veika króna notar til að halda sér uppréttri.

Það rennur ekki upp paradís á jörðu daginn sem við göngum í Evrópusambandið. Sem fyrr eru Íslendingar sinnar eigin gæfu smiðir. Fyrir venjulegt fólk verður hinsvegar auðveldara að lifa, einfaldara að skipuleggja, meira öryggi við rekstur heimilisins.

Þessvegna skiptir svo miklu máli að klára samningana og taka til þeirra afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vel má vera að gallar við aðild vegi upp á móti þessum kostum fyrir lífskjör venjulegs fólks – það ákveður þjóðin. Þeir sem vilja stöðva samningagerðina, sem er komin á lokastig – þeir eru á hinn bóginn að útiloka þessar kjarabætur án þess að menn hafi fengið að athuga málið. Ekki kjósa þá frambjóðendur í alþingiskosningunum í mánaðarlokin.

 

 (Líka í Fréttablaðinu 18. apríl)

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.4.2013 - 10:02 - 3 ummæli

Virkjanahagkerfið snýr aftur

Auðlinda- og umhverfisþátturinn í Sjónvarpinu var afar upplýsandi: Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur vilja koma aftur af stað gamla virkjanahagkerfinu – þegar eitthvað bjátar á eru jarðýturnar settar í gang til að laga byggðaklúður og búa til nokkur þensluár. Svo er það búið, en þá má bara virkja meira, og ennþá meira. Orkan á Íslandi er endalaus, og skiptir ekki máli þótt ýmislegt gangi, náttúrudásemdir á Íslandi eru óþrjótandi.

Þarna var fullkominn samhljómur með Illuga Gunnarssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni og kom reyndar ekki á óvart þeim sem hafa fylgst með málatilbúnaði flokkanna tveggja á þingi kringum rammaáætlun og náttúruverndarlög (sjá líka Birgi Ármannsson hér að „leiðrétta kúrsinn“).

Þeir vilja báðir „sátt“ – en með því skilyrði að„sáttin“ sé á þeirra eigin flokksforsendum, og í vil þeim sérhagsmunum sem hverju sinni þarf að sinna. Báðir bentu þeir á „vísindamenn“ sem völdin hefðu verið tekin af – einmitt þeir flokkar sem hafa staðfastlega afneitað fræðilegum athugasemdum þegar þeim þóttu þær ekki falla að eigin niðurstöðu. Frægasta dæmið: Skipulagsstofnun og Kárahnjúkar.

Sáttin – það var aldrei hugmyndin með rammaáætlun að skapa „sátt“ um ráðstöfun einstakra náttúrusvæða og virkjunarkosta. Það er nánast ógerlegt – hérna vegast á miklir hagsmunir, miklar hugmyndalegar andstæður, miklar tilfinningar. Rammaáætlun var fyrst og fremst ætlað að vera samkomulag um leikreglur, þannig að ákvarðanir yrðu teknar í ljósi allra tiltækra upplýsinga og með yfirsýn um náttúrugæði og orkukosti. Þessi skipan getur svo skapað þokkalega sátt þegar menn hafa lært að beita verkfærum hennar – samanber Noreg. En í Noregi detta engum lengur í hug virkjanir á borð við þær sem Illugi og Jón Gunnarssynir vilja fá í Urriðafossi og Þjórsárverum, eða þær sem Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson óska sér í Hólmsá og í jökulsám Skagafjarðar.

Vísindamennirnir – þeim var aldrei ætlað að taka ákvörðun um einstaka kosti. Þeir starfa í fjórum faghópum og leggja þar fram fræðilegar niðurstöður með einskonar einkunnum um margvíslega þætti. Síðan tekur við röðun kosta samkvæmt þessum einkunnum, samvegnum, og að lokum flokkun þeirra í orkunýtingu, verndarnýtingu og bið. Þetta er hinsvegar allt faglegur ferill – og þær ákvarðanir sem ráðherrar og meirihluti alþingis tók voru líka faglegar. Það sést best á því að breytingarnar sem gerðar voru frá flokkunartillögunni, á tvisvar þremur virkjunarhugmyndum, í Þjórsá annarsvegar og hisnvegar á miðhálendinu norðvestan Vatnajökuls, gengu út á bið með frekari rannsóknum, en ekki endanlega ákvörðun um orkunýtingu eða verndarflokk.

Að senda rammaáætlunina aftur „til vísindamannanna“ kann að hljóma vel í sjónvarpsþætti en er algjört bull í raunverunni. Það vita bæði Illugi og Sigurður Ingi.

Það sem þeir hljóta að vera að meina er að eyðileggja rammaáætlun – rífa hana upp, einsog flokksfélagar þeirra orða það á framboðsfundum á Suðurlandi og fyrir norðan. Velja sjálfir þá kosti sem þeim og vildarvinum þeirra líst best á. Sigurður Ingi flutti á þinginu sérstakar tillögur um að virkja Hólmsá og stífla Farið við Langjökul – þvert á ráð „vísindamannanna“ sem eindregið vildu meiri rannsóknir og gögn um þessa kosti.

Framsóknarsjálfstæðisflokkurinn hefur ekki önnur ráð en stórvirkjanastefnuna til að koma hagvexti á nýtt þensluskrið og fjármagna ofurloforð sín um skattalækkanir og almenna skuldaniðurfellingu.

Þá er það á hreinu.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.4.2013 - 09:53 - 10 ummæli

Samvinnuboð um skuldirnar

Félagi Össur skrifar merka grein í Fréttablaðið í dag – og er í raun og veru boð til annarra stjórnmálaflokka um að leysa erfiðasta skuldavandann hjá heimilunum. Við höfum staðið fyrir miklum aðgerðum í þágu skuldsettra heimila einsog menn þekkja, fyrir ýmsa illa setta hópa en líka með verulegum vaxtabótum sem hjálpa öllum skuldurum. Samfylkingin hefur hinsvegar goldið varhug við uppástungum um „almenna“ leiðréttingu sem ósanngjarnrileið og óskynsamlegri.

Tveir hópar standa eftir, og vanda þeirra verður að leysa bæði af sanngirnis- og jafnræðisástæðum og af skynsemisástæðum, vegna þess að íslenskt samfélag má ekki við því að missa blómann úr mikilvægum kynslóðum í stöðugt skuldabasl. Þetta eru lánsveðshópurinn, sem vegna veðanna nýtur ekki 110%-leiðarinnar, og þeir sem keyptu verðtryggt árin fyrir hrun – en ekki sumsé gengistryggt.

Össur segir: Til að hægt sé að nýta sterka samningsstöðu okkar gagnvart kröfuhöfum bankanna þarf tíma. Það er óráð að ráðstafa þessu fé í kosningafyrirheit, og það getur hrundið af stað verðbólgu að hella inn í hagkerfið þeim milljarðahundruðum sem talað er um að hér kunni að fást. Þegar peningurinn kemur skulum við nota hann til að lækka ríkisskuldir, afnema gjaldeyrishöft og greiða fyrir nýju Evrópukrónunni í samstarfi við evruríkin.

Við getum hinsvegar fengið fé til að aðstoða skuldahópana, og reyndar á sömu slóðum að hluta til. Bankarnir græða og græða. Ekkert óeðlilegt að sá gróði sé notaður til að mynda aðstoðarsjóð, grynnka á skuldum verst settu hópanna, og bæta um leið kjör á leigumarkaði – því það má ekki gleyma þrautagöngu sívaxandi hóps fólks sem ekki hefur nein ráð til íbúðarkaupa.

Bankarnir eru ýmist í eigu ríkisins eða kröfuhafa. Ég vil með lögum láta þá borga 15 milljarða árlegan skatt á ofsagróða sinn í fimm ár. Sömuleiðis vil ég að sérstakur skattur upp á 0,1285% af öllum skuldum fjármálafyrirtækja verði líka látinn ná yfir fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Það gæfi tekjur upp á um 13 milljarða á ári. Næði þetta fram að ganga gæti þessi tvíþætta skattlagning á bankana skapað rými upp á 140 milljarða.

Hér hefur einn af reyndustu stjórnmálamönnum landsins tekið frumkvæði fyrir hönd Samfylkingarinnar í heitasta máli kosningabaráttunnar – og hugmyndir framboðanna að lausnum í þessum efnum hljóta líka að vera eitt af þremur-fjórum helstu grundvallarmálum þegar kosningum lýkur og tilraunir hefjast til stjórnarmyndunar.

Hver eru svörin?

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.4.2013 - 10:21 - 5 ummæli

Hætta til hægri

Hanna Birna Kristjánsdóttir er þriðji eða fjórði frambjóðandinn úr Sjálfstæðisflokknum á nokkrum dögum sem lýsir því yfir að fylgistölur flokksins merki að hann fari ekki í stjórn – næsta stjórn verði þessvegna vinstristjórn, sem er það ægilegasta sem inngrónir íhaldsmenn geta hugsað sér.

Þetta er gert til að reka kjarnafylgi Sjálfstæðisflokksins á kjörstað og hefta flóttann yfir til Framsóknar. Herbragð sem oft hefur verið notað áður í Valhöll í svipaðri stöðu – hræðsluáróður frá hægri.

Hættan er hinsvegar sú að fólk sem einmitt vill ekki Sjálfstæðisflokkinn í stjórn afturörfáum árum eftir hrun láti þennan áróður villa um fyrir sér. Finnist í góðu lagi að hrífast með af fyrirheitum Framsóknar í því trausti að með þeim veljist jafnaðarmenn eða vinstriöfl önnur í stjórnarmeirihluta.

Alveg kalt: Ekkert bendir til þess í málflutningi eða pólitískri líkamstjáningu Framsóknarmanna í kosningabaráttunni. Síðustu vikur og mánuði á þinginu var hinsvegar öllum ljóst sem vildu sjá að flokkurinn stefndi á samstarf til hægri – tók afstöðu með Sjálfstæðisflokknum í öllum málum nema var enn heiftúðugri í samningum um framgang mála í þinglok.

Það verður vissulega beiskur biti að kyngja fyrir Sjálfstæðisflokksmenn að verða „litli flokkurinn“ í samstarfi við Framsókn með Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra. Samt hefur þetta gerst áður þegar FLokkurinn var í vanda, á tímabilinu 1983–87 þegar Framsóknarmaður var forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokki í forystukreppu. Formaðurinn varð utanríkisráðherra, Geir Hallgrímsson, sem hætti í lok kjörtímabilsins. Og þá var Sjálfstæðisflokkurinn samt við þokkalega fylgisheilsu, miklum mun stærri en samstarfsflokkurinn með forsætisráðherrann.

Það er raunveruleg ástæða til að vera hræddur, og þarf ekki til neinn áróður: Langlíklegasta stjórnarmunstrið miðað við fylgistölurnar nú er hægristjórn B og D með þægilegan meirihluta á þinginu – gegn þrem-fjórum aumingjaflokkum í innbyrðis stjórnarandstöðuhasar.

Gott ráð: Efla Samfylkinguna, jafnaðarflokk með alvörulausnir, hugmyndir og reynslu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.4.2013 - 17:45 - 3 ummæli

Mývatn njóti vafans

Það má ekki eyðileggja Mývatn.

Mývatn er einstætt náttúrusvæði, meira að segja í rómaðri fegurð og fjölbreytileik íslenskrar náttúru. Lífríki vatnsins – þörungar, mý, silungur, fuglar – er smám saman að ná sér eftir námurekstur á botni vatnsins í fjóra áratugi. Mývatn og Laxá eru alþjóðlegt vatnsverndarsvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum. Með margvíslegum fjöllum sínum, eldhraunum, gígum, hverum, gróðursælum vatns- og árbökkum, glæsilegum sjóndeildarhring og auðnunum miklu að baki er Mývatnssveit paradís grænnar ferðamennsku, og eitt af fáum vetrarsvæðum í íslenskri ferðaþjónustu.

Bjarnarflagsvirkjun er vissulega í orkunýtingarflokki samkvæmt þingsályktun um rammaáætlun frá í vetur. Það þýðir hinsvegar ekki að alþingi hafi samþykkt að þar skyldi virkjað – ég minni á vandað álit meirihluta umhverfisnefndar (sjá 10. og 13. kafla) þar sem sérstaklega er fjallað um margvíslegan vanda við jarðvarmakostina.

Bakki – Þeistareykir

Umhverfismat Bjarnarflagsvirkjunar er að verða 10 ára gamalt. Við það aldursmark á að skoða málið upp á nýtt samkvæmt 12. grein laga um umhverfismat. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt ekki liggi fyrir að þörf sé að virkja þarna fyrir framkvæmdir á Bakka, enda eru virkjunarframkvæmdir nánast hafnar á Þeistareykjum, þar sem vart verður aftur snúið miðað við áhrif rannsóknaframkvæmda. Talað er um að allt að 200 MW fáist á Þeistareykjum. Þótt það verði að taka slíkum tölum öllum með mikilli varúð er þetta rúmlega tvöfalt meiri orka en talað er um á sama hátt í Bjarnarflagi, 90 MW.

Varúðarreglan

Varúðarregla umhverfisréttarins er komin inn í lögbók Íslendinga þótt nýju náttúruverndarlögin hafi ekki tekið gildi ennþá. Hún er svona í 9. grein þeirra laga:

Þegar tekin er ákvörðun, t.d. um skipulag, framkvæmd eða starfsleyfi, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.

Varúðarreglan segir okkur að virkja ekki í Bjarnarflagi fyrr en gengið er úr skugga um áhrif virkjunarinnar á lífríki Mývatns, og á heilsufar íbúa og ferðafólks í sveitinni. Til þess höfum við einmitt gott verkfæri. Það heitir mat á umhverfisáhrifum, og nú er eðlilegt að Landsvirkjun taki sjálf frumkvæðið og óski eftir að Skipulagsstofnun líti aftur á umhverfismatsskýrsluna sem þaðan var afgreidd hinn 26. febrúar 2014.

Samfylkingin: Mývatn njóti vafans

Náttúruverndar- og umhverfissamtök lögðu nýlega ýmsar spurningar fyrir stjórnmálasamtök í framboði við alþingiskosningarnar framundan. Þar á meðal var spurt hvort flokkurinn væri „hlynntur því að endurmeta umhverfisáhrif Bjarnarflagsvirkjunar á lífríki Mývatns og áhrif losunar brennisteinsvetnis á heilsufar heimamanna“. Samfylkingin hefur svarað:

Já. Áður en ákvörðun er tekin um hvort virkja eigi í Bjarnarflagi þarf Landsvirkjun að hafa gengið úr skugga um að öll áhrif á lífríki vatnsins liggi fyrir. Varúðarreglu umhverfisréttarins á að hafa að leiðarljósi. Mývatn á að njóta vafans.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.4.2013 - 21:23 - 8 ummæli

Kata Júl laaaangbest …

Efnahagsumræðuþátturinn í Sjónvarpinu var miklu betri en hægt var að búast við – og þar kom fram skýr munur milli aðalframboðanna. Ég var ákaflega ánægður með frammistöðu og styrk míns manns, Katrínar Júlíusdóttur, sem hélt frumkvæði og forustu allan þáttinn – auk Framsóknarformannsins sem auðvitað fær sérstaka athygli í svona þætti vegna fylgisins.

Fyrirgefið að maður er montinn af Kötu! Hún skýrði vel stöðu þjóðarbúsins og það svigrúm sem vonandi skapast á næstunni til að lagfæra skuldir heimilanna og lækka vaxtabyrði ríkissjóðs – sem er einhver mestu hagur almennra heimila, því vextina ógurlæegu borgum við ýmist með sköttum eða verri þjónustu í menntum og velferð. Katrín Júlíusdóttir var á heimavelli sem fjármálaráðherra og Evrópusinni, og var í sérstöku stuði í gjaldmiðilsumræðunni þar sem enginn annar lagði til málanna neitt af viti.

Nafna hennar Jakobsdóttir var góð framanaf en einsog missti flugið þegar hún ætlaði að nota næstu fjögur ár í gjaldmiðilsgreiningar. Og óþægilegt fyrir hana að þurfa að verjast árásum Jóns Bjarnasonar – vandi VG í hnotskurn er sá að flokkurinn telur sér ennþá skylt að sverja af sér svikabrigslin frá Framsóknarkommunum.

Og svo voru allir hinir. Píratinn sem bauð fram gjaldmiðilsstefnu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar – allir gjaldmiðlar í gangi í einu. Gallinn er bara sá að þá situr almi uppi með krónuna, alveg eins og fyrir hrun, en stórfyrirtækin og ríku kallarnir nota evru og dollar.

Hver var annars þessi hávaxni en feimnislegi sem talaði um skattana – var hann frá Hægri lýðræðisdögun? Eða Flokki heimilismannsins? Bjarni, hét hann víst. Benediktsson. Týndist alveg, stakkars gutten …

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.4.2013 - 13:28 - 12 ummæli

Það sem hægristjórn mundi spilla

Ef heldur fram sem horfir er líklegast að næsta ríkisstjórn verði hægristjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks – gömlu helmingaskiptin rétt einusinni, eftir hrunið og alles.

Þegar komið er að kjörborðinu verða menn að athuga hvað glannaskapur við þessar aðstæður getur kostað.

Hér eru fjórir helstu árangursáfangar í náttúruvernd og umhverfismálum sem líklegt er að hægristjórn mundi spilla – undir forustu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eða Bjarna Benediktssonar, með atvinnuvegaráðherrann Jón Gunnarsson eða Sigurð Inga Jóhannesson,  með fjármálaráðherrann Gunnar Braga Sveinsson eða Illuga Gunnarsson, með umhverfisráðherrann Ragnheiði Elínu Árnadóttur eða Vigdísi Hauksdóttur:

 

1. Rammaáætlun um orku- og verndarnýtingu

Á þessu kjörtímabili komust loksins í gagnið nýjar leikreglur um orkuvinnslu og verndarnýtingu eftir fjögurra áratuga deilur. Þetta var að frumkvæði Samfylkingarinnar – eitt af kjarnamálum í stefnunni um Fagra Ísland. Fyrst voru samþykkt lög um rammaáætlun, sem voru að lokum afgreidd samhljóða, og svo fyrsta rammaályktunin – sem skilaði víðtækari verndaráformum á náttúrusvæðum en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni, þótt ýmis vandi sé vissulega óleystur. Tímamót. Ályktunin var samþykkt með góðum meirihluta, 36 atkvæðum, en 21 var á móti: Framsóknar- og Sjálfstæðismenn. Þeir hafa síðan lýst yfir að þeir vilji „taka upp“ rammaáætlun, en ekki skýrt hvað það merkir.

Ætlum við að treysta því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jón Gunnarsson fari að hinum nýsettu leikreglum um náttúruverðmætin?

 

2. Græna hagkerfið

Aðgerðaáætlunin um græna hagkerfið er í gangi, og í hana eiga að renna verulegir peningar samkvæmt fjárfestingaráætluninni. Með því erum við að styðja til þroska atvinnufyrirtæki framtíðarinnar, á sviði þekkingar, lista, náttúruverðmæta og skapandi greina, en einnig græn verkefni í hefðbundnum atvinnugreinum. Áætlunin var unnin í þverpólitískum starfshóp undir forystu Samfylkingarmannsins Skúla Helgasonar, og samþykkt samhljóða á þingi

– en ímynda menn sér að þau Gunnar Bragi Sveinsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir telji þetta forgangsmál?

 

3. Gegn loftslagsvá

Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir og Svandís Svavarsdóttir hafa á undanförnum sex árum haft forgöngu um að Ísland er nú um heimsbyggðina talið í fyrsta flokki í loftslagsmálum. Annarsvegar með því að við höfum gengið til samstarfs við Evrópusambandsríkin um losunarmarkmið og loftslagskvóta, hinsvegar með því að vinna eftir sérstakri áætlun um aðgerðir   í loftslagsmálum á ýmsum sviðum atvinnugreina, fræða og daglegs lífs. Þau Össur Skarphéðinsson og Katrín Júlíusdóttir hafa svo hrint af stað verulegu starfi að orkuskiptum í samgöngum, sem ásamt eldsneyti á miðunum er helsti loftslagsvandi okkar. Þetta er framlag okkar til alþjóðastarfsins gegn loftslagsvánni, og skiptir um leið miklu máli fyrir orðspor og ímynd.

Telja einhverjir að innanlandsframmistaða og alþjóðasamvinna í loftslagsmálum sé einhverstaðar á pólitískri sjónarrönd Vigdísar Hauksdóttur eða Illuga Gunnarssonar – sem fyrir nokkrum árum hélt því fram að hitaaukning í heiminum stafaði af tímabundnum sólgosum?

 

4. Nýju náttúruverndarlögin

Ný náttúruverndarlög voru samþykkt í þinglok og taka við af gölluðum lögum frá 1999, frá tímum Davíðs og Halldórs. Lögin eru mikið framfaraskref – geta orðið grundvöllur alvöru-náttúruverndarpólitíkur næstu áratugina. Þau voru samþykkt með góðum meirihluta á þingi en 17 þingmenn voru á rauða takkanum: Þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sem þó höfðu fengið í gegn að lögin taka ekki gildi fyrr en á næsta ári, en vildu annars ekki ræða málið efnislega — ég veit það, ég var framsögumaður á þinginu. Og hafa enn ekki látið uppiskátt hvaða breytingar þeir hyggjast gera á lögunum ef þeir fá tækifæri til.

Hver vill láta það ráðast af geðþótta Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannessonar?

 

Þrátt fyrir ýmsa skýjabakka hefur stjórnarmeirihlutinn náð fram verulegum breytingum á síðustu árum á þessu sviði, í félagi við náttúruverndar- og umhverfissinna, við forustumenn í nýjum greinum og stórefldri ferðaþjónustu, við fræðimenn og frumkvöðla. Við getum verið stolt af þessum framförum langt út fyrir raðir Samfylkingarinnar og samstarfs- og stuðningsflokka hennar á kjörtímabilinu.

Nú þarf að halda áfram. Það gerir ný hægristjórn ekki.

 

Flokkar:

Fimmtudagur 28.3.2013 - 09:42 - 30 ummæli

Árangur

Er glasið hálf-fullt eða hálf-tómt? Eigum við að velta okkur upp úr vonbrigðunum eða gleðjast yfir því sem vel hefur gengið? Vissum við alltaf að þetta eru asnar – eða ætlum við að gera betur á morgun?

Það gekk mikið á síðustu daga þingsins – og hér með skal viðurkennt að í mínum huga er ekki sérlegur ljómi yfir þessum þinglokum, fyrst og fremst auðvitað út af afdrifum stjórnarskrármálsins. Mér finnst hinsvegar svikabrigsl og formælingar út í hött. Þessi vegferð var einfaldlega erfið og áhættusöm – í þeim aðstæðum að stjórnarflokkarnir voru komnir í minnihluta eftir brottflug flestra hinna rokgjörnu einda, fjögurra úr VG og líka ágæts drengs úr mínum flokki. Hreyfingarfólkið stóð sig vel en hefði þurft að standa sig ennþá snarpar og vera ennþá fórnfúsara, og svo þurfti að eiga við fýlupoka í stjórnarflokkunum sem voru ýmist á móti einstökum pörtum stjórnarskrárinnar, svosem jöfnu vægi atkvæða, eða þótti þetta brölt alltsaman frekar ómerkilegt og allsekki nógu róttækt. Litla leikritið hjá snyrtipinnunum í Bjartri framtíð — og svo Framsóknarflokkurinn – muniði sem veitti hlutleysi fyrir síðustu kosningar með skilyrði um stjórnlagaþing, ja, Framsóknarflokkurinn …

Stjórnarskrármálið vakir samt – eftir feikimikla vinnu, og næsta verkefni er að safna liði. Ekki gleyma að við höfum þrátt fyrir vonbrigðin síðustu vikur náð miklum árangri. Fyrir liggur klár stjórnarskrártexti sem mikill fjöldi fólks hefur átt þátt í að hugsa, semja, bæta, berjast fyrir. Stjórnarskráin er á dagskrá, og nú er viðurkennt að hún er í höndum þjóðarinnar, ekki séreign stjórnmálahöfðingja í bakherbergjum eða lögfræðigráskeggja í akademíum.

Já, ég hefði viljað beita 71. greininni og fá þjóðareignina í gildi. Já, ég var hundfúll yfir þessu kléna breytingafrumvarpi, og greiddi því ekki atkvæði í gær. En í dag vil ég halda áfram.

Gleymum ekki árangrinum. Við höfum einmitt verið snillingar í því mörg framsýnt fólk og jafnaðarmenn og græn og falleg og gáfuð – að ná miklum árangri en átta okkur ekki á því fyrren löngu seinna – þegar aðrir njóta eldanna.

Sigrarnir — náttúruverndin í gegn

Og þrátt fyrir stjórnarskrárdramað unnust sigrar síðustu vikurnar. Mér stendur næst að í gær komst í gegn náttúruverndarfrumvarpið, sem gæti orðið nýr grundvöllur að sambúð okkar við landið, feikilegt framfaraskref og eitt allra merkilegasta umhverfismálið síðustu fjögur ár – ásamt rammaáætluninni og verkefnalistanum sem kenndur er við græna hagkerfið.

Þetta var ekkert auðvelt, og síðustu sólarhringana stóð yfir snúin samningalota – til þess eins að fá málið á dagskrá í atkvæðagreiðslu gegnum málþófsmúr B/D, því meirihlutinn á þinginu var alveg klár: Allir gegn Framsóknarsjálfstæðisflokki, 38–25. Lykillinn var að gefa eftir nokkra mánuði í gildistöku, sem auðvitað þýðir að ef hér myndast grár meirihluti getur hann breytt frumvarpinu – en hefði hvort sem var getað breytt lögunum. Og svo var búin til talsverð löggjafar-barbabrella kringum greinarnar um utanvegaaksturinn, án þess að fórna neinum grundvallarávinningum. Þar vorum við áður búin að laga frumvarpið þannig að vélvætt útivistarfólk á að geta unað vel við, sem þarf að vera til að allir leggist á árar í sömu átt.

Það var merkilegt að vinna í náttúruverndarfrumvarpinu. Ekki síst vegna þess hvað margir voru uppteknir af málinu. Flott fólk sem vann Hvítbókina og lagði drög að frumvarpinu, fjöldi manns sem síðan hafði áhyggjur af einu, kom með ábendingar um annað. Sextán þúsund manns skrifuðu undir texta út af utanvegaakstrinum! Mér fannst það að vísu ekki góður texti – en í slíkum fjölda undirskrifta kemur vel fram hvað margir tengjast náttúrunni nánum böndum og hvað Íslendingum er ekki sama um landið sitt. Og það er sannarlega gott. Utanvegaaksturinn og almannarétturinn eru þó ekki nema einn hlutinn af þessari löggjöf. Sjáið sjálf hér og hér.

Nýju náttúruverndarlögin leggjast beint inn í kosningabaráttuna núna strax eftir páska. Þau eru til til dæmis um ávinninginn síðustu fjögur ár, upp úr hruninu og gegnum þokuna, vitnisburður um mikinn árangur sem vonbrigði síðustu dægra mega ekki spilla.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.3.2013 - 16:55 - 8 ummæli

1937, 1947, 1949, 1959, 1989

Greinin sem í núgildandi þingsköpum er númer 71., um takmörkun ræðutíma, hefur verið í þingskapalögunum síðan á 19.öld. Þessari heimild hefur ekki verið beitt oft – en um það eru þó fimm dæmi:

Hinn 7. apríl 1937 voru ákafar umræður í efri deild Alþingis um frumvarp um Síldarverksmiðjur ríkisins, sem tveir þingmenn Framsóknarflokksins fluttu. Þegar önnur umræða hafði staðið í þrjá heila klukkutíma lagði forseti til að framvegis tæki hver ræða ekki nema tíu mínútur. Tillaga forseta um að stytta ræðutíma var samþykkt með 10 atkvæðum gegn 3. Í ríkisstjórn voru þá Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, forsætisráðherra Hermann Jónasson. Forseti neðri deildar var Einar Árnason.

Hinn 16. desember 1947 var til umræðu í neðri deild stjórnarfrumvarp um dýrtíðarráðstafanir. Eftir átta klukkustunda umræðu lagði forseti til að ræðutími hvers þingmanns yrði tíu mínútur, enda væri alllangt liðið á nóttu. Tillagan var samþykkt með 16 atkvæðum gegn 6. – Í ríkisstjórn voru Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, forsætisráðherra Stefán Jóhann Stefánsson. Forseti neðri deildar var Barði Guðmundsson.

Hinn 30. mars 1949 fjallaði þingið um þingsályktun til staðfestingar á aðild Íslands að Nató, það var síðari umræða. Forseti sameinaðs Alþingis lagði til við upphaf umræðunnar tillögu um að hún stæði ekki lengur en þrjár klukkustundir alls. Tillagan var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 13. – Sama ríkisstjórn var við völd og í desember 1947. Forseti neðri deildar var Barði Guðmundsson.

Hinn 4. desember 1959, skömmu fyrir þingfrestun, lauk í neðri deild fyrstu umræðu um stjórnarfrumvarp um ýmis fjármál. Umræður hófust á þriðja tímanum eftir hádegi, en miklar umræður höfðu verið í þinginu um önnur mál. Laust eftir miðnætti lagði forseti til að umræður yrðu takmarkaðar eftir klukkan eitt um nóttina. Tillagan var samþykkt með 21 atkvæði gegn 18. – Í ríkisstjórn voru Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur (viðreisnarstjórnin), forsætisráðherra Ólafur Thors. Forseti neðri deildar var Jóhann Hafstein.

Hinn 13. apríl 1989 flutti utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) árlega skýrslu um utanríkismál. Klukkan rúmlega þrjú um nóttina ákvað forseti með tilvísun til þingskapagreinarinnar að stytta ræðutíma þeirra sem enn voru á mælendaskrá í tvær mínútur, að því er virðist án athugasemda.* Í ríkisstjórn voru Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur, forsætisráðherra Steingrímur Hermannsson. Forseti sameinaðs alþingis var Guðrún Helgadóttir.

 

—- — — —

*) Athugasemdir komu raunar fram síðar, sbr. Mbl. 29. apríl 1989, bls. 29.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur