Föstudagur 17.12.2010 - 14:11 - 24 ummæli

Frank Gehry í Ástralíu

 

Frank Gehry er að vinna að byggingu fyrir University of  Technology í Sydney. (UTS) Þetta er fyrsta bygging Gehrys í Ástralíu og að líkindum sú síðasta enda er maðurinn orðinn 81 árs gamall. Þó verður maður að hafa í huga að góðir arkitektar lifa oft lengi. Frank Loyd Wright kláraði stórbyggingu eina þegar hann var 92 ára að aldri, árið sem hann dó.(Marin Center. St. Rafael CA.)

Hús UTS í Sydney er 11 hæða bygging sem verður úr múrsteini á einni hlið og með glerskífu hinumegin. Múrsteinninn er skýrskotun til hefðarinnar í Sydney og hin liðin  enduspeglar byggingarnar í nágrenninu. Það má segja að þarna sé einhver staðarvitund í gangi hjá gamla manninum.

Framkvæmdir munu hefjast á árinu 2012 og þeim á að ljúka árið 2014. Byggingin er um 16.000 fermetrar og á að kosta 150 milljón dollara sem gerir um 9300 dollara á fermetra sem er aftur rúm milljón íslenskra króna.

Eins og í flestum verkum Gehrys þá er útlitið meginviðfangsefið í byggingunum líkt og tíðkaðist áður en nýtjastefnan kom til sögunnar. Ég hef skoðað allnokkrar byggingar Gehrys og verð þrátt fyrir þetta að viðurkenna að það hallar oft furðulítið á starfræna þætti þegar þær eru skoðaðar nánar.  Allt sprellið, sem er að mestu órökstutt, þvælist ekki eins mikið fyrir funktioninni og maður gæti haldið.

Í einni setningu þá mundi ég skilgreina þetta hús Gehrys, eins og mörg önnur hans verka, sem skúlptúr. Hér sem skúlptúr til að læra í.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Jón Pétursson

    Flott

  • Gunnar Einarsson

    Er þetta ekki grín ?
    Það er engu líkara en FG og félagar hafi hannað hús og gert af því líkan en svo ákveðið að henda því í ruslið en skipt svo um skoðun og lappað upp á líkanið og útkoman er svona krumpuð..
    Kanski er FG búin að missa dómgreindina eftir farsælan feril.
    kv.GE

  • örnólfur hall

    Það er rétt hjá meistara Þorgeiri að Gyðingar fengu á baukinn í kreppunni miklu, enda miklir spakvitringar í fjármálum en brást bogalistin eins og fleirum.
    Mörg önnur þjóðabrot áttu heldur ekki upp á pallborðið og voru ekki að flíka óálitlegum bakgrunni. – Svo við tölum nú ekki um vesalings svertingjana.
    En Gyðingar eru óvenjuleg þjóð sem lætur ekki bugast* þó á móti blási og á snillinga á öllum sviðum hlutfallslega langt umfram aðrar þjóðir, þó sumir séu umdeildir.

    *Gott dæmi um þetta er sá frægi Al Jolson söngkvikmyndanna áranna eftir kreppu .

    NB: Mín léttvæga söguskoðun átti aðallega við um Gyðinga, nútímans í BNA, sem þurfa ekkert að fela þjóðerni sitt.

    PS: Stefáni mælist vel eins og alltaf og notar Péturskirkju sem viðmið og talar föðurlega til okkar „strákanna“.

    PS: Ég tek undir þetta með áráttu og sértrú íslenskra yfirvalda um að allt sé vænt sem vel sé danskt. Má nefna langan lista þar um.

    Enn og aftur – Gleðileg jól- og takk fyrir gott og skemmtilegt spjall.

  • Þorgeir Jónsson

    Vel mælt Stefán!
    Það er nú frekar léttvæg söguskoðun já meistara Örnólfi um gyðinga í BNA.
    Gyðingar voru blórabögglar kreppunnar 1930 rétt eins og „Sölsarar“( lesist Útrásarvíkingar) Íslands eru nú. Að vera gyðingur í USA eftir kreppuna 1930 var ekki ávísun á verkefni og vinnu. Listamenn reyndu sérstaklega að fela uppruna sinn og trú. Kvikmyndaiðnaðurinn losaði sig fljótt við þá á þessum tíma. Svo var um fleiri listgreinar. Hvað með okkur arkitekta á Íslandi í dag?……ja…..betra að nota danska arkitekta.

    Gleðileg jól !

    Ps. Svo verðum við allir komnir með dönsk eftirnöfn eftir áramót!

  • stefán benediktsson

    Gleðileg jól Hilmar og langlífi (vegna vefsíðunnar). Takk fyrir þennan vettvang, einn af þeim sen gefur því gildi að opna augun þá morgnana, sem þú skrifar. Munið strákar að GEHRYar þessa heims eru aðal kveikjan að samræðum okkar og vangaveltum um tilgang starfs okkar. Tíminn dæmir þá síðan hægt og bítandi. Framlög Bramantes, Michaelangelo, Maderno og Berninis til Péturskirkjunnar í Róm eru mjög ólík og á stundum yfirgnæfir verk eins verk hinna en í dag lítum við köldum augum á það sem læra má af því sem er framúrskarandi, því sem betur mætti fara og því sem ekki ætti að vera. Það eru ekki GEHRYarnir sem þurfa að átta sig á því hvað þeir vilja, heldur við og það er ekki nóg að vilja ekki vera GEHRY. Hann er bara eitt af mörgum goðum sem við eða aðrir settu á stall og þau eru ennþá fleiri sem eru brotin, gleymd og týnd og varða veg þróunar viðhorfa okkar til fagsins.

  • örnólfur hall

    Það er réttmætt að benda okkur „Pragmatistum“ á fyrri skeið F. Gehry áður en hann tók til við beglunina (brenglunina). Ég kann betur að meta þær byggingar hans þar sem hryggjarstykkin í byggingunum hafa verið hornrétt (línurétt) t.d. háhýsi á Manhattan NY.
    Er þetta kannski íhaldssemi í mér ?

    PS: Gyðingar í BNA eru mikils metnir og áhrifamiklir í listum, efnahagslífi og pólitík. Þeir verða
    fyrir öfund og skensi eins og mörg önnur þjóðarbrot (t.d. Írar, Ítalir).
    Ég tel að ekki sé hægt að segja að þeir séu ofsóttir þó einhvert ofurtúarfólk í Biblíubeltinu hatist út í þá fyrir að vera af þeim kynstofni sem varð Jésúsi að bana.

    Nefnandi Jésús þá – Gleðileg jól – til Hilmars Þórs
    og allra hér á undan og eftir!

  • Hefur kallinn séð kassana hans Birgis Andréssonar?

  • Þorgeir Jónsson

    Mér finnst að sumir félagar okkar í arkitektastétt ættu að bera meiri virðingu fyrir gömlum meisturum. Gery var einu sinni frekar hornréttur ef ég man rétt. Því skildi hann ekki fá að krumpast svolítið. Nafnabreytingin kom til af því að gyðingar voru ofsóttir í BNA. Það var því ekki auglýsingarmennska heldur sjálfsvörn sem kallaði á breytinguna. Það mættu margir Pragmatistar (isminn í dag) temja sér vinnubrögð FG og stofu hans.

  • örnólfur hall

    Um aldamótin sjá ég þátt um F.Gehry þar sem hann sagðist hafa breytt nafni sínu úr Goldberg í Gehry vegna þess að það væri svo venjulegt og gyðinglegt og lítt nothæft til frama. – Auglýsingagaldrar virðast honum í blóð bornir. – Í þættinum sagðist hann helst velja sér flugvélaverkfræðinga til samstarfs. Arkitektar voru ekki nefndir til sögu.
    Hann hefur verið gagnrýndur fyrir sýniþörf og brellur til að vekja athygli.

    Gagnrýnin hefur m.a. snúist um :
    1) Fúnktion-laus form.
    2) Sýniþörf í hámarki.
    3) Byggingar sem birtast eins og Skrattinn úr sauðarleggnum í
    umhverfi sínu.
    4) Engin tenging við það yfirbragð (karakter) sem er á staðnum og
    honum sýnd óvirðingmeð því.
    5) Ekki tekið tillit til veðurfars á viðkomandi stað ( sól, regn, vindur).
    6) Fyrir utan speglunarvandamál hefur þurft að taka á
    spennuvandamálumvegna hitabreytinga (brak og brestir).

    PS: Eins og fyrr segir þótti forsvarenda Hörpu, með burtkallaða vegg„gimmickið“, rétt að hafa hana samnefnda við Gehry-hús og ekkert síðri.

    PS: Má ekki kalla Æra-Tobba líka til með þeim Heiðurshjónum sem nefnd voru hér að ofan til grínsins ?

  • Þá vantar bara Grýlu og Leppalúða, þá er þetta fullkomið.

    En án gríns þá orkar Gehry tvímælis. Spurningin er hvort skólinn,UTS í Sydney, sé þarna að leita að kennileiti fyrir skólann. Allar stofnanir þurfa slíkt. Allavega vona ég að byggingar skólans séu almennt ekki svona „absúrd“

  • Hilmar Þór

    Ég hef verið að safna heitum yfir “ismana”í byggingalistinni. Seinasti sem ég heyrði um var “Fasadismi” það var sá tólfti.

    Kannski eru þeir þá orðnir þrettán eins og jólsveinarnir. Það er vel við eigandi nú á aðventunni og sá 13 er þá ”absúrdismi” að tillögu Árna Ólafssonar!

    1. Funktionalismi
    2. Brutalismi
    3. Postmodernismi
    4. Regionalismi
    5. Metafysik
    6. Minimalismi
    7. Dekonstruktivismi
    8. New Wave
    9. Biomorf arkitektúr
    10. Nýrationalismi
    11. Internationalismi.
    12. Fasadismi.
    13. Absúrdismi(!)

  • Árni Ólafsson

    Fyrst komið er út í -isma: Er þetta ekki absúrdismi?

  • Hilmargunn

    FG hefur gert einhverjar fínar byggingar. Ég man eftir einni í Prague og svo endurreisti hann efnahag heillar borgar með byggingarlist sinni.

    Ég hef búið við hliðina á tveimur byggingum eftir hann, önnur er Disney Hall í LA og hin byggingin er nýlegri og er í Árósum. Sú fyrrnefnda var ég mjög hrifinn af og ég smellti ófáum ljósmyndum af henni, alveg óháð öllum vandræðunum sem hún olli (þurfti að skipta út klæðningunni vegna endurkast ljóss). Sú síðarnefnda er verulega hófstillt múrsteinsbygging sem fellur ágætlega að umhverfi sínu og eru tilbrigðin innanhúss að mestu.

    Stofan hans er verulega framþróuð í tölvustuddri hönnun og hafa þeir þróað áfram sinn eigin hugbúnað (DP) sem auðveldar samrýmingarhönnun á milli allra hönnuða.

    Ég heyrði viðtal við hann ekki fyrir löngu og mér heyrðist hann ansi hrokafullur kallinn. Hann gerði lítið úr sustainable design, vildi meina að sá vettvangur væri fyrir þá sem vanhæfir til að skapa áhugaverðan arkitektúr osfr.

    Mér finnst samlíkingin við Lady GaGa ekki svo gaga. Gróteskur-andspyrnu-anti-contextualismi.

    Annars væri lífið leiðinlegra án Gehry 😉

  • Árni Ólafsson

    „FG hefur svo gífurlegt auglýsingargildi sem verkkaupar eru að miklu leiti að falast eftir.“
    Nýju fötin keisarans!
    Hver ætli tilgangur og metnaður verkkaupans sé?

  • Það verður þó líka að benda á að útaf FG þá erum við á Íslandi að tala um eitthvern háskóla í Ástralíu, og örugglega fleiri að gera það sama út um allan heim. FG hefur svo gífurlegt auglýsingargildi sem verkkaupar eru að miklu leiti að falast eftir. það má alltaf gagnrýna vinnu FG á grundvelli kostnaðar, notagildis eða fagurfræði, en auglýsingar-valdið sem FG hefur er gífurlegt að það venjulega réttlætir allt þetta excessive rugl sem oft er í gangi í hans vinnu. Að vera meira excessive en síðast er örugglega eitthvað sem ætlast er af honum. Hann og Lady GaGa eru í raun ekkert ósvipaðir karakterar.

  • Ragnar Runólfsson

    Örugglega hægt að fá einhvern til að trúa því að þessi óskapnaður sé voðalega smart.

  • Pétur G.

    Er þetta ekki einhverskonar athyglissýki bæði verkkaupans og arkitektsins sem fær þarna útrás á annarra kostnað?

  • Einhversstaðar stóð: „Varist stjörnuarkitekta“ . Þetta listasnobb kostar 1.000.000.- krónur á fermetra sem er þrefalt eðlilegt verð. Hvaða háhryf hefur það á skólagjöldin?

  • Þetta er allt forljótt eftir hann. Voðalega nýmóðins og sniðugt . En er bara nóg að vera öðruvísi bara til að vera öðruvísi?

  • örnólfur hall

    Af húsum Gehrys & Hörpu:

    Það er skondið að hús Gehrys voru dregin inn í umræðuna um Hörpu þegar ryð og tæring fundust í stálvirki glerhjúpsins í mars 2010. Í viðtali við blaðamann DV (17/3/10) segir hönnunarstjóri Hörpu R.K. að lokum: „ Maður reisir ekki einu sinni bílskúr án þess að vandamál komi upp. Þetta verk er óvenjulegt því það er verið að byggja heilt hús sem listaverk. Glervirkið er að sama skapi óvenjulegt. Þegar glerið kemur upp verður að hluta til komið upp lituðu gleri sem mun gefa húsinu mjög merkilegan karakter. Húsið mun verða ekki síðra en til dæmis hús Franks Gehry, arkitektsins heimsfræga, og mun draga ótrúlegan fjölda menningartúrista til Íslands. Húsin* sjálft mun verða vinsælt og ekki síður starfsemin innan þess, tónlistin“ Svo mörg voru þau orð.

    Gölluðu stálgrindareiningar niðurrifnu, tvist og bast út um lóðina, minna óneitanlega á óreiðuna í byggingum Gehrys sem eru, vægast sagt, mjög umdeildar. – Við þekkjum þetta líka með kostnaðarrammana ekki satt.
    *Á væntanlega að vera: húsið.

    PS : Tek undir með Árna.

  • Hilmar Þór

    Já, Stefán, þeir verða margir gamlir þessir góðu. Oscar Niemeyer varð 103 ára í fyrradag þann 15 des. Það má lesa um hann hér:

    http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/10/07/oscar-niemeyer-bratt-102-ara/

    Gísli Halldórsson varð 96 ára í ágúst síðastliðinn og er enn ástríðufullur áhugamaður um skipulags og byggingamál þó hann hafi ekki teiknað mikið síðustu ár.

    Varðandi Gehry þá hafa margir ráðlagt honum að hætta og fara á ellilaun þar sem fólki finnst nóg komið af þessu hjá honum.

  • Stefán Snævarr

    Takk fyrir forvitnilega færslu, þú gleymir Oskar Niemeyer sem var enn að síðast þegar fréttist, yfir 100 ára.

  • Árni Ólafsson

    Nei – í alvöru. Mér finnst þetta ekkert sniðugt.

    „Þó verður maður að hafa í huga að góðir arkitektar lifa oft lengi. “ – Hvað hefur það með Frank Gehry að gera? Hann er bara skúlptör. Ef kafað er í verk hans koma í ljós ljót dæmi þar sem hann hefur haft vankunnandi verkkaupa að fíflum. Hann hefur skilað af sér óstarfhæfum byggingum sem á engan hátt mæta þeim grunnkröfum sem gerðar eru til góðrar byggingarlistar auk þess sem hann er þekktur fyrir að bjróta alla skynsamlega kostnaðarramma með fullkomnu virðingarleysi fyrir stöðu verkkaupa. Hins vegar má spyrja á hvaða forsendum verkkaupar leita til FG. Oft á tíðum til þess að gera lítilsiglda starfsemi að óviðeigandi kennileiti á röngum stað.

    Á hinn bóginn á hann einnig athyglisverð verk – hann má eiga það. Ég á eftir að gera mér ferð til Bilbaó – til þess að skoða verk eftir Gehry!

  • Er ekki bara reglulega gaman að þessu?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn