Þriðjudagur 16.02.2016 - 08:29 - 8 ummæli

París árið 2050?

IMG_4767

 

Hausmann og Napóleon III fengu hugmyndir um að breyta Parísarborg og gerðu það  eins og lesa má í síðustu pistlum.  Og París er sennilega í dag svipuð því sem þeir sáu fyrir sér fyrir um 150 árum.

Menn eru alltaf  að velta fyrir sér framtíðinni og reyna að hafa áhrif á gang mála.

Le Corbisiere gerði  áætlanir um að breyta Parísarborg eins og sjá má af teikningum neðst í færslunni.  Það var fyrir rúmum 90 árum.  Sem betur fer varð ekkert úr þeim áætlunum.

++++

Nú hefur belgíski arkitektinn Vincent Callebaut (1977-) skilgreinir sig sem “ecological” arkitkekt lagt fram hugmyndir um að breyta Parísarborg í vistvænan atað með mikilli þéttingu. Callebaut segist hafa það markmið að breyta hugsunarhætti viðskiptavina sinna og fá þá til að feta vistvænar brautir.

Cellebaut hefur vakið heimsathygli fyrir hugmyndir sínar. Fyrir réttum fimm árum var skrifað á þessum vef um fljótandi borgir samkvæmt hugmyndum unga arkitektsins. Hann má lesa hér :

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/07/global-warming-fljotandi-borgir/

Nýlega hefur hann lagt fram hugmyndir um að gera stórborgina París að vistvænni borg og breyta henni verulega. Í hugum flestra er þetta svona “Case study” sem á að lýsa möguleikum stórborga til þess að verða vistvænar í breiðum skilningi. Hugmyndin er auðvitað góð og nauðsynleg en vonandi verður útfærsla Cellebaut ekki ofaná.

Hér koma nokkrar myndir af hugmyndunum og ein af fljótandi borg sem áður hefur verið fjallað um. Efst er mynd af forsíðu bókar um verk Callebaut. Þetta er yfirlitsmynd yfir París framtíðarinnar eins og arkitektinn sér hana. Á Signu eru vistvænir bátar á siglingu.

Svo neðst koma myndir sem sýna hugmyndir Le Corbusiere frá 1925,

IMG_4770

Hér má sjá hvernig arkitektinn sér fyrir sér Rue de Rivoli. Vonandi eru þetta allt rafbílar sem þarna aka.

IMG_4769

Hér að neðan má sjá mynd af fljótandi borg Vinbcent Callebaut. Sjálbæra borg fyrir tugi þúsunda íbúa.

LILYPAD.-COURTESY-VINCENT-CALLEBAUT-ARCHITECTURES

Að neðan má sjá hugmyndir Le Corbusiere af miðborg Parísar frá 1925. Sem betur fer gekk þetta ekki eftir.

le-corbusier

,

Le Corbusier Plan Voisin 01

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Er þetta ekki bara svona hugmynd eða tillaga sem hent er fram til þess að ná upp umræðu.

  • Birgir Örn Jónsson

    Sem betur fer þarf ekki að vera alfarið með eða á móti hugmyndum um umhverfið, og afgreiða svona verkefni eftir því.

    Það er kostulegt að Voisin verkefnið skuli enn þann dag í dag vera dregið fram sem einhversskonar varnagli um ósvífni ‘nútímaarkitektúrs’, eða jafnvel arkitekta yfir höfuð. Það var augljóslega, og snilldarlega, sett fram sem mjög ýkt stunt til að vekja umræðu og koma með strategískar hugmyndir um borg sem væri ekki eins óheilnæm og yfirfull og 19. aldar borgin var um þetta leyti. Þetta var pólemískt verkefni sem hafði ekkert skipulagslegt vægi, enda var það nefnt eftir bílaframleiðandanum sem kostaði það og sýndi.

    Það leynast fjölmargar athyglisverðar hugmyndir í svona hugmyndaverkefnum, en það er harla fánýtt að dæma þau sem einhverskonar alhliða úrlausnir. Annars væri eins hægt að tæta í sig skort á ‘staðaranda’ í verkefnum Archigram.

  • Magnús Skúlason

    Vonandi hafa Paríarbúar vit á að hafna svona dellu á sama hátt og þeir mótmæltu kröftuglega áformum um háhýsi eftir að Montparnassturninn var byggður árið 1971. Þá var öllum háhýsum komið fyrir í nýju hverfi Le Defense sem er utan periferiunnar. Þangað þarf maður einungiis að koma einu sinni! Kannske gætu verk svona snillinga fengið að njóta sín þar.

  • Það vantar alveg loftbelginn og sólina sem skín svo fallega frá norðri á þessar myndir.

  • J. Gunnarsson

    Þetta á vonandi eftir að hljóta sömu örlög og hugmyndir Le Courbusiere. Það sem mér kemur alltaf í hug þegar ég sé svona er spurningin.: Af hverju geta arkitektar ekki látið miðborgirnar gömlu í friði og sprellað einhversstaðar annarsstaðar?. Svona borg eins og hér er lýst mætti gjarna byggja einhverstaðar úti á túni, en ekki í gamalli miðborg sem allir elska eins og hún er!. Þetta gerðu bretar í Docklands, parísarbúar í La Defence. Við í Borgartúni o.s.frv. kaupmannahafnarbúar á gömlu hafnarsvæðunum. Allir vilja vernda gömlu miðborgirnar eins og tök eru á….nema arkitektar. Þeir rjúka altaf til og byrja að setja persónulegt mark sitt á miðborgirnar. Þeir eru að skemma Reykjaík, London og gömlu Kaupmannahöfn. Almenningur vill ekki þessi modernisku hús í gömlu miðborgunum en arkitekar eru vitlausir í þetta. 🙁

    • ,,Allir vilja vernda gömlu miðborgirnar eins og tök eru á….nema arkitektar. Þeir rjúka altaf til og byrja að setja persónulegt mark sitt á miðborgirnar.“

      Leyfum þeim bara að pésa á einhvern útvalinn staur í miðborginni, heh, úr því málið snýst ekki um annað en það.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Merkilegt, hvað þessar myndir sem eiga að sýna framtíðina eru allar keimlíkar og hafa í rauninni lítið breyst í tímans rás. Ef við skoðum „fútúrista“ – hugmyndir frá miðri síðustu öld með opnum, kjarnorkuknúnum einka-þotum á fleygiferð yfir alls kyns kúlulaga mannabústöðum minnir þetta allt óneitanlega mest á „Star – Trek“ & Dr. Spock. Þessi „París 2050“ er, að mínu mati, af nákvæmlega sama sauðahúsi – einungis bætt miklu grænu laufi við hugmyndasnauðan og ótrúlega einsleitan gler – og steinsteypu-arkítektúrinn. Einu framtíðar – draumóramennirnir sem eitthvað var spunnið í voru þeir Boullée ( 1728 – 1799 ) og Ledoux ; uppdrættirnir að byggingunum – t. d. minnisvarðinn um Newton (1784 ) – voru auðvitað öldungis óframkvæmanlegir í raun, en sem teikningar eða listaverk ekki lausar við sjarma. Það er meira en hægt er að segja um þessar hugmyndir Callebauts.

    • Hilmar Þór

      Þarna er ég sammála þér Orri Ólafur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn