Þriðjudagur 9.6.2015 - 07:03 - 29 ummæli

Leikskólar fá gefins barnabók um líkamsvirðingu

kroppurinn er kraftaverk.indd

Kroppurinn er kraftaverk – líkamsvirðing fyrir börn kom út fyrir ári síðan á Degi líkamsvirðingar þann 13. mars 2014. Hún er skrifuð með það að markmiði að efla jákvæða líkamsmynd barna, umhyggju þeirra fyrir líkama sínum og virðingu fyrir líkömum annarra. Bókin er hugsuð fyrir börn á aldrinum 3-7 ára en fjölmargir foreldrar, kennarar, afar og ömmur og aðrir fullorðnir hafa haft orð á því að bókin teygi sig mun víðar í aldri og hafi ekki síður átt erindi til þeirra en barnanna 🙂

Bókin hefur hlotið glimrandi góðar viðtökur bæði innanlands og utan og verið gefin út, eða gengið frá samningum um útgáfu hennar, á fimm tungumálum í átta löndum utan Íslands – í Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Kanada, Danmörku, Brasilíu, Gvatemala og Suður-Kóreu. Bókinni hefur verið vel tekið ytra og mælti virtur líkamsmyndarsérfræðingur með bókinni í breska dagblaðinu The Times og bresk samtök um lífsleiknikennslu (PSHE Education Association) hafa mælt með bókinni fyrir líkamsmyndarkennslu í breskum skólum.

En aftur hingað til lands. Undir lok síðasta árs ákvað ung framhaldsskólastúlka, Elín Ósk Arnarsdóttir, að setja af stað fjársöfnun með það að markmiði að gefa öllum íslenskum leikskólum þessa bók. Hugsjón þessarar ungu konu var að öll börn á Íslandi fengju að alast upp við jákvæðar hugmyndir um líkama sinn og virðingu fyrir fjölbreytileika þannig að þeim gæti liðið vel í eigin skinni og forðast neikvæðar afleiðingar slæmrar líkamsmyndar.

Elín Ósk Arnarsdóttir, framhaldsskólanemi og
Sigrún Daníelsdóttir, höfundur Kroppurinn er kraftaverk

Elín hafði samband við Samtök um líkamsvirðingu, fékk þau í lið með sér og nú, hálfu ári síðar hefur safnast nægt fé til að gefa um 60 leikskólum þessa fínu gjöf. Auk þess hafa nokkur sveitarfélög, þar á meðal Reykjavíkurborg, Mosfellsbær og Fjarðabyggð, ákveðið að kaupa bókina fyrir alla sína leikskóla. Hér fyrir neðan má sjá Ingibjörgu M. Gunnlaugsdóttur, þróunarfulltrúa á fagskrifstofu leikskólamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, afhenda bókargjöfina á fundi leikskólastjóra þann 30. apríl sl.

IMG_9004

 

Það er því ekkert að vanbúnaði að senda gjafir til fleiri leikskóla og gildir reglan fyrstur kemur, fyrstur fær. Þeir skólar sem þegar eiga eintak af bókinni, eða eiga von á henni frá sínu sveitarfélagi, eru þó vinsamlegast beðnir um að leyfa frekar öðrum að njóta gjafarinnar 🙂 Leikskólastjórar geta sent óskir um bókagjöf í netfangið likamsvirding@gmail.com.

Endilega látið orðið berast sem víðast og deilið með leikskólastarfsfólki og foreldrum um land allt!

 

Flokkar: Líkamsvirðing

Fimmtudagur 12.3.2015 - 16:25 - Rita ummæli

Líkamsvirðingarbarátta í áratug

handleggir

Á morgun, 13. mars, er Dagur líkamsvirðingar. Þessi dagur er mikill örlagadagur í sögu líkamsvirðingar því á þessum degi árið 2009 var fyrsta bloggfærslan send út af líkamsvirðingarblogginu undir yfirskriftinni „Slagurinn er hafinn“ og þremur árum síðar – án þess að nokkur hefði áttað sig á tengslunum á þeim tímapunkti – voru Samtök um líkamsvirðingu stofnuð sama dag árið 2012.

Í dag er því vert að líta yfir farinn veg og skoða hvernig baráttan fyrir líkamsvirðingu hefur þróast hér á landi. Það er alltaf erfitt að tímasetja upphaf samfélagsbaráttu því þetta er svona fyrirbæri sem þróast og maður áttar sig kannski ekki á því að það sé byrjað fyrr en löngu eftir að það er farið af stað. Saga baráttunnar fyrir líkamsvirðingu fer þó að spanna ansi langan tíma eftir því hvenær byrjað er að telja. Í mínum huga hófst baráttan árið 2004. Þá kom ég fílefld heim af alþjóðlegri átröskunarráðstefnu, nýbúin að kynnast heilsu óháð holdafari (Health at Every Size), og var svo upprifin af þessu öllu saman að ég skrifaði langa blaðagrein í fljúgandi innblæstri um árangursleysi megrunar, líffræðilega stjórnun þyngdar og feitt fólk í góðu formi sem birtist í víðlesnu dagblaði þarna um sumarið. Viðbrögðin voru nákvæmlega engin en þarna var teningunum kastað. Ég ætlaði að verða aktivisti.

Á þeim tíma voru samt ekki komin nein íslensk orð yfir það sem ég ætlaði að fara að gera, hvorki yfir það sem ég vildi berjast fyrir (líkamsvirðing) né það sem ég vildi berjast gegn (fitufordómar, útlitsdýrkun og megrunarmenning). Þetta var allt frekar óljóst en ég vissi að ég vildi leggja mitt af mörkum til að breyta samfélagslegum viðhorfum um útlit og líkamsvöxt. Ég vissi að núverandi staða væri slæm og skapaði margvísleg vandamál og vanlíðan. En ég vissi ekki alveg hvað ætti að koma í staðinn eða hvað það ætti að heita.

Ég kynntist Megrunarlausa deginum (International No Diet Day) í tengslum við vinnu mína við meðferð átraskana. Hann átti sér langa sögu og hafði verið haldinn árlega víða um heim í 15 ár. Þessi baráttudagur virtist viðráðanlegt verkefni fyrir nýbakaðan aktivista sem vissi ekki alveg hvað ætti til bragðs að taka. Næstu sjö árin stóð ég, í samvinnu við ýmsar góðar konur, fyrir margvíslegum uppákomum með það að markmiði að vekja samfélagið einu sinni á ári upp af sínum megrunardoða. Við gáfum út blað, prentuðum póstkort og framleiddum barmmerki, sendum skjáauglýsingar í sjónvörp og kvikmyndahús, bjuggum til baðvogir sem gáfu hrós og merktum strætisvagna Reykjavíkur með líkamsvirðingarvænum skilaboðum. Það var einmitt í tengslum við Megrunarlausa daginn sem orðið líkamsvirðing fæddist. Ég var búin að brjóta heilann í margar vikur og mánuði yfir því hvernig ég ætti fara að því að orða það sem þessi barátta snérist um. Hvað vorum við eiginlega að reyna að gera? Hvert er markmiðið?

Markmiðið er að jöfn virðing sé borin fyrir öllum líkömum. Á ensku var til dæmis verið að nota orð eins og „size-acceptance“ en fyrir mér átti að ganga lengra en bara að samþykkja eitthvað eða sættast við það. Við viljum virðingu. Standa jafnfætis í félagslega stiganum óháð stærð eða lögun. Mannvirðing. Sjálfsvirðing. Líkamsvirðing. Þetta orð nær bæði yfir það persónulega (samband okkar við eigin líkama) og hið pólitíska (hvernig umhverfið tekur líkömum okkar).

Fljótlega kom þó í ljós að árlegur viðburður var ekki nóg. Það þurfti stærra og lengra samtal. Árið 2009 ákvað ég því að byrja að blogga og þá fóru hlutirnir að gerast. Þá fékk ég til dæmis að kynnast haturspósti. Það er alltaf einhverjum sem hugnast ekki sú frekjulega hugmynd að allir eigi að hafa jafnan tilverurétt og ná ekki upp í nef sér af hneykslun og réttlátri reiði yfir því að einhver skuli dirfast að leggja þvílíkt og annað eins til. Það er svolítið fyndið og svolítið sorglegt að sjá þetta gerast í hvert einasta sinn sem mannréttindabarátta fer af stað. Alltaf sama sagan. Og þegar samfélagsbarátta er jafn stutt á veg komin eins og líkamsvirðingarbaráttan þá er mikið samfélagslegt rými fyrir slíka aðila til að hrópa fordómana sína yfir holt og hæðir. Það er áhugavert að fylgjast með því.

En það gerðist fleira. Þegar bloggið fór af stað, og seinna líkamsvirðingarsíðan á Facebook, dró það ekki bara hatursormana út úr holunum sínum heldur kallaði líka fram fleiri hugrakka aktivista. Smám saman bættist í líkamsvirðingarhópinn þannig að sproti að grasrót fór að myndast. Höfundum á líkamsvirðingarblogginu fór að fjölga og sífellt fleiri létu til sín taka í umræðunni. Árið 2012 var kominn myndarlegur hópur sem stofnaði með sér samtök og það árið var Megrunarlausi dagurinn kvaddur með pompi og prakt. Við stóðum fyrir flottu samstöðuátaki með bandarískum aktivistum sem ýttu úr vör átakinu „I stand“ sem var andsvar við fitusmánandi lýðheilsuskilaboðum sem birtust víða um Bandaríkin á þeim tíma. „I stand“ eða „Ég stend“ gaf almenningi kost á því að taka afstöðu gegn slíkum áreitum með því að senda inn myndir af sér ásamt slagorðum um það sem það vildi standa fyrir (eða gegn) í þessum málum. Á Íslandi tóku tæplega 200 manns á öllum aldri þátt í þessu uppátæki og ef þið þurfið einhverntíman á innblæstri að halda þá mæli ég með því að heimsækja myndaalbúmið sem finna má á facebook síðu líkamsvirðingar undir heitinu „Fyrir hvað stendur þú?“.

Við sem stofnuðum Samtök um líkamsvirðingu vorum þó sammála um að við vildum frekar að baráttudagur okkar tengdist því sem við erum að berjast fyrir en því sem við erum að berjast gegn. Það er bara skýrara að segja hvað maður vill frekar en hvað maður vill ekki. Megrunarlausi dagurinn, eins skemmtilegur og hann var, var óttalega misskilinn. „Á maður þá að vera í megrun alla hina dagana?“ og „ég fékk mér stóra köku í tilefni dagsins“ var meðal þess sem heyrðist aftur og aftur. Fólk virtist skilja þennan dag að miklu leyti í gegnum megrunarlinsuna sem gegnsýrir samfélagið. Það var þreytandi að leiðrétta það í sífellu að þetta væri ekki átdagurinn mikli, og nei, það er ekki pælingin að vera bara laus við megrun í einn dag. Við óttuðumst að við værum ekki að ná almennilega í gegnum þessa linsu heldur værum bara að gefa fólki einn megrunarfrídag á ári þar sem það gæti farið og fengið sér köku. Það er svolítið eins og ef þú segir fólki að hugsa EKKI um bleika fíla, þá bara hugsar það um bleika fíla. Ef þú vilt að það hugsi um eitthvað annað þarftu að beina sjónum þangað. Við vildum skilgreina baráttudag okkar út frá því sem við vildum alveg endilega fá fólk til að hugsa meira um: Líkamsvirðingu.

Í fyrra var Dagur líkamsvirðingar haldinn í fyrsta sinn. Þá héldum við líkamsvirðingarhátíð á leikskóla með Pollapönkurum sem komu og léku lagið sitt „Enga fordóma“ fyrir krakkana sem ætluðu að ærast úr fögnuði. Við sendum líka bréf til allra leik-, grunn- og framhaldsskóla í landinu og hvöttum þá til að vinna með líkamsvirðingarþema þennan dag. Við fengum í kjölfarið að heyra ótrúlega fallegar og hjartnæmar sögur frá kennurum sem tóku þetta alla leið með sínum nemendum og unnu skemmtileg verkefni í tengslum við líkamsvirðingu. Þennan fyrsta líkamsvirðingardag kom líka út fyrsta líkamsvirðingarbókin, Kroppurinn er kraftaverk, sem hefur það að markmiði að efla jákvæða líkamsmynd og virðingu fyrir fjölbreytileika líkamsvaxtar meðal yngstu barnanna.

Nú í ár ætlum við að taka samtalið lengra. Við búum í litlu samfélagi og getum ráðið því svo mikið sjálf hversu mikla útlitsdýrkun og fitufordóma við viljum hafa í samfélaginu okkar. Á morgun munu því Samtök um líkamsvirðingu bjóða fjölmiðlum upp á ókeypis örnámskeið til að fræðast um hvernig menningin okkar elur á fitufordómum, megrunarþráhyggju og útlitsdýrkun. Við ætlum að freista þess að fá fjölmiðla í lið með okkur um að vera hluti af lausninni frekar en vandanum. Það verður spennandi mælikvarði á hversu langt við erum komin í þessari baráttu að sjá hversu margir munu vilja eiga þetta samtal við okkur.

 

 

Flokkar: Líkamsvirðing

Sunnudagur 8.3.2015 - 11:10 - Rita ummæli

„Borðaðu hrökkbrauð og drekktu meira vatn“

Eva_HuldÞessi pistill er eftir Evu Huld Ívarsdóttur og birtist hér með leyfi höfundar:

„Borðaðu hrökkbrauð og drekktu meira vatn“ var setning sem ég fékk að heyra í mæðravernd, komin 5 mánuði á leið. Ég þurfti að vigta mig í hvert sinn sem ég mætti á heilsugæsluna. Ég byrjaði á að hengja upp úlpuna mína, fara úr skónum og stíga á vigt. Fara svo inn og segja ljósmóðurinni töluna og fylgjast með henni reikna út hve mikið ég hafði bætt á mig. Daginn sem hún sagði mér að fara að borða hrökkbrauð (ráð sem ég hef fengið oftar en ég kæri mig um að muna) fór þyngdin upp í nýjan tug. Kílóatölu sem ég hafði komist niður fyrir einhverjum árum áður og óttaðist eins og rauðan dauðan. Enda sá ég rautt þegar ég horfði á vigtina og forðaði mér af henni hið snarasta.

Ég og vigtir eigum nefnilega sögu. Sú var tíðin að ég steig á slíka hátt í 30 sinnum yfir daginn. Megranir eru nefnilega dauðans alvara og ekki dægradvöl eða partur af því sammannlega málefni sem matur er, að njóta þess að borða og skiptast á uppskriftum, þetta höfum við verið minnt rækilega á í fjölmiðlum undanfarna daga. Það var lánið mitt þennan dag að á sama tíma var ég í meðferð við átröskun, lánið mitt því ég veit ekki hvað hefði gerst og hvernig ég hefði unnið úr þessu ef ég hefði ekki átt tíma hjá sálfræðingi daginn eftir, eða ef ég hefði ekki mætt. Ég hafði líka nægan tíma um þessar mundir því yfirmanninum mínum hafði þótt undirförult af mér að verða ólétt og rak mig. Mér tókst að drekka eina Hleðslu það sem eftir lifði dags og náði fljótt góðu róli aftur. Því ég bar jú ábyrgð á einhverju mikilvægara en mér.

Ég fékk mikla hjálp, var hjá sálfræðingi með góða þekkingu á vandamálinu sem styrkti mig og hjálpaði mér að sjá og leiðrétta hugsanaskekkjurnar. Ég talaði líka reglulega við næringarfræðing sem fór með mér yfir það sem ég borðaði og fullvissaði mig hægt og rólega um að það væri ekki á mínu valdi hvað ég þyngdist mikið á meðgöngunni. Ekki frekar en ég réði hvernig veðrið yrði daginn eftir. En þetta var byltingarkennd hugmynd, eiginlega sú klikkaðast sem ég hafði heyrt um dagana. Að þyndin mín og líkamsform var ekki eitthvað sem var á mínu valdi, ekki á meðgöngu og ekki aðra daga ársins. Og ég varð að gera allt sem ég gat fyrir þetta barn sem mér var svo umhugað um, og skyndilega skipti líkami minn máli. Hann var ekki bara gangandi martröð og verkefni sem var á allra vitorði að ég réð ekki við, ekki bara sjáanlegt merki um að ég væri agalaus og mislukkuð. Heldur var hann eiginlega svolítið dýrmætur og ég þurfti að vera með honum í liði.

Þegar ég mætti næst í mæðraverndina og steig á vigtina sá ég þetta skýrar. Ég hafði ekki bætt á mig sex kílóum, þau voru bara tvö. Heilbrigðisstarfsmaðurinn sem tók meðgönguskýrsluna af mér (og hafði verið samferða mér alla meðgönguna, skráð niður að ég væri í meðferð við átröskun og hrósað mér fyrir að takast á við vandann) efaðist ekki einu sinni um að ég hefði lesið vitlaust á vigtina eða velti því fyrir sér hvort væri æskilegt fyrir konu að sjá sjálf um vigtunina, hafandi geðrænan sjúkdóm sem nánast grundvallaðist á hugsannaskekkjum á gildi þess sem vigt segir. Hún sagði mér bara að borða hrökkkex.

Ég útskrifaðist úr átröskunarmeðferðinni ekki löngu eftir að ég átti dóttur mína, því ég var jú ekki svo veik að ég þyrfti hjálp á göngudeild Landspítalans lengur og margar verr staddar en ég þurftu að komast að. Maðurinn minn hvatti mig til að athuga hvort einhver á heilsugæslunni gæti hjálpað mér með alla þessa vanlíðan, kannski væri ég með fæðingarþunglyndi. Blóðprufa var tekin og ég greind með vanvirkan skjaldkirtil. Ég bað um að tala við sálfræðing en það gerðist aldrei. Ég fór að taka hormóna en ekkert breyttist nema blóðprufurnar. Í dag hef ég loks ratað til góðs sálfræðings sem getur hjálpað mér með þetta og hjálpað mér að halda bata. Það er stundum erfitt í fársjúku samfélagi.

Ég er auðvitað efins um að skrifa um þetta. Ég er pínu hrædd um einkalíf mitt og æruna. En ég óska þess bara svo heitt að við bætum samfélagið sem við búum í. Ég læt mig dreyma um að ég verði síðasta stúlkan sem byrjar í megrun 6 ára og mistekst alla ævi. Að ég verði sú síðasta sem hélt og trúði innst inni að hún væri einskis verð ef megrunin tækist ekki. Sú síðasta sem á að baki fjölda ára í baráttu við þessa þráhyggju og hörmungar. Sem lifðir í einskonar helvíti þar sem tala ræður ríkjum og allir virðast með augun á því hversu nálægt henni hún er.

Mig langar svo til þess að við sleppum takinu aðeins af holdarfarinu okkar og útliti og förum að leggja áherslur á hluti sem skipta máli. Ég hef varla hitt þá konu sem óttast ekki að þyngjast á meðgöngunni, eða hefur liðið á einhvern hátt illa eftir hana vegna eðlilegra breytinga á líkama hennar. Ég get e.t.v. talið á fingrum annarar handar hversu margar konur ég þekki sem hafa heilbrigt og afslappað viðhorf til holdarfars. Getum við látið líkama kvenna í friði? Getum við leyft þeim að vera eins og þeir eru? Getum við hætt að tala um megrun? Getum við bætt heiminn? Þetta er samfélagslegur kvilli, ekki bara mitt vandamál eða vandamál kvenna þó þar liggji minn reynsluheimur.

Ég þurfti að skrifa þetta niður eftir umræðuna undanfarið, ég trúi að við getum breytt heiminum og að við skiptum öll máli, sama hvernig og í hvaða stærð. Þetta er það sem liggur mér á hjarta því líf eru allt of verðmæt til að fara svona með þau. Fólk byrjar í megrun daglega í þeirri trú að það sé ekki nógu gott eins og það er og það er ekki eðlilegt. Fólk græðir á að ljúga að okkur og ég er bara þakklát að hafa lifað þetta af. Fyrir að hafa öðlast frelsi til að hætta í megrunn, (lífstílsbreytingu) þráhyggju. Getum við hætt að hugsa og tala svona mikið um útlit og megrun? Mér er dauðanns alvara.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.2.2015 - 14:30 - 2 ummæli

Að vera eða vera ekki byrði á þjóðfélaginu

 

fat people responsible for everything

 

Nýlega varð ég vitni að umræðuþræði á netinu þar sem fólk viðraði áhyggjur sínar af heilbrigðiskerfi Íslendinga og hinum gríðarlega kostnaði sem það taldi fylgja því. Eftir þúfur og þras meðal þátttakenda var niðurstaðan sú að íslenska heilbrigðiskerfið væri alls ekki svo kostnaðarsamt samanborið við önnur lönd, hins vegar væri feitt fólk að sliga það.

Það að feitt fólk sé byrði á samfélaginu er algengt stef í umræðunni og áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna það þykir í lagi að taka þennan hóp fyrir með þessum hætti þegar það þætti annað hvort óviðeigandi eða fáránlegt gagnvart flestum öðrum hópum. Tökum karlmenn sem dæmi.

Ég efast um að margir hafi leitt hugann að því en það væri auðvelt halda uppi ríkulegri umræðu um þann samfélagslega kostnað, álag og áhættu sem fylgir karlmönnum. Karlmenn lifa óheilsusamlegra lífi en konur, þeir neyta minna af ávöxtum, borða oftar skyndibita, drekka meira gos, sofa minna og bursta sjaldnar í sér tennurnar. Þeir nota meira tóbak, drekka meira og glíma frekar við áfengis- og vímuefnafíkn. Þeir lenda oftar í umferðarslysum og eru líklegri til að slasast alvarlega. Karlmenn fá hjartasjúkdóma fyrr en konur og yfir 80% þeirra sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerðir á Landspítalanum eru karlmenn. Fyrir utan öll afbrotin. Langflest ofbeldisbrot eru framin af karlmönnum og yfir 90% fanga á Íslandi eru karlkyns. Í samfélagi þar sem karlmenn nytu lítillar virðingar er auðvelt að sjá hvernig hægt væri að halda uppi nánast linnulausri, ásakandi umræðu um karlmenn og allt það vesen sem þeim fylgir.

Nú gæti einhver sagt að þessi mál séu óskyld því karlmenn geti lítið að því gert að vera karlmenn, en feitt fólk geti hins vegar ráðið því hvort það er feitt eða ekki. Málið er þó ekki svona einfalt. Við fæðumst með mismikla tilhneigingu til að fitna og rannsóknir undanfarinna áratuga sýna svo ekki verður um villst að persónuleg stjórn fólks yfir holdafari sínu er mun minni en almennt er álitið. Niðurstöður eru allar á sömu leið: Flestir geta grennst í byrjun en fæstum tekst að viðhalda þyngdartapi til lengri tíma. Það er afar sjaldgæft að feitt fólk breytist í grannt fólk. Undantekningar eru vissulega til og fer svo sannarlega mikið fyrir þeim í fjölmiðlum, sem skapar þá tálsýn að stórfellt og varanlegt þyngdartap sé algengt. En því fer fjarri.

Svo má spyrja sig hvort karlmenn geti ekkert gert að því að þeir drekki meira, tannbursti sig sjaldnar og fremji fleiri kynferðisbrot? En réttlætir sú tölfræðilega staðreynd það að tala um alla karlmenn sem fyllibyttur og nauðgara? Nei að sjálfsögðu ekki.

Það er óréttmætt að gera alla meðlimi tiltekins hóps ábyrga fyrir því sem sumir innan hópsins gera. Það er ósanngjarnt að tengja samfélagsleg vandamál á borð við ofbeldi eða vímuefnafíkn sérstaklega við kyn frekar en aðra mikilvæga áhrifaþætti sem vitað er að stuðla að slíkum vanda. Það er einnig siðferðilega rangt að ráðast að fólki sem glímir við alvarlega sjúkdóma og auka þjáningar þeirra með því að gera það að sakamönnum í eigin veikindum. En það er sérstaklega siðlaust og samfélagslega óábyrgt að ala á neikvæðum viðhorfum í garð hópa sem þegar eru jaðarsettir.

Feitt fólk er jaðarsettur hópur í samfélaginu sem býr við gríðarlega fordóma, neikvæðar staðalmyndir og kerfislægt misrétti. Hann er í ofanálag álitinn persónulega ábyrgur fyrir þessari stöðu sinni þar sem undirliggjandi hugmyndin sú að ef feitt fólk væri ekki svona latt og laust við sjálfsaga, þá væri það ekki feitt og þar af leiðandi ekki litið hornauga. Þannig er þolandinn gerður ábyrgur fyrir fordómunum sem að honum beinast og gerandinn þarf ekki að skammast sín. Nýlega birtist rannsókn sem staðfestir það sem við öll vitum: Að fitufordómar eru algengir og samþykktir í umræðum á netinu og ríkjandi staðalmyndin er sú að feitt fólk sé latt, heimskt og veiklundað. Þetta endurspeglast í því hve margir eru ófeimnir við að láta fordóma sína í ljós opinberlega og hve sjálfsagt það þykir að ræða um feitt fólk sem samfélagslega meinsemd. Þetta kemur ekki síst fram í hinni síendurteknu heimsósóma umræðu um offitu sem virðist snúast um fátt annað þegar öllu er á botninn hvolft en að koma á framfæri skilaboðum til undirskipaðs samfélagshóps um að hann sé ekki velkominn. Eins og það hafi eitthvað farið á milli mála.

 

Þessi pistill birtist í örlítið breyttri mynd á Stundinni 13.02.2015

Flokkar: Fitufordómar · Stríðið gegn fitu

Þriðjudagur 3.2.2015 - 19:34 - 4 ummæli

Birtingarmynd fitufordóma hjá börnum vs. fullorðnum

Ég rakst á grein um daginn, aðsendan pistil inn á bleikt.is. Þar talar hún Sædís Inga Ingimarsdóttir um einelti sem hún varð fyrir á grunnskólaárunum sem hún telur sig hafa orðið fyrir vegna holdafars síns. Hún vísar til þess að oft virðist sem holdarfar sé gild ástæða til eineltis og rifjar upp hvernig hún var meðal annars kölluð belja, fituhlussa, offitusjúklingur, hlass og hvalur. Þessi reynsla hefur ennþá áhrif á hana í dag og tekur hún fram að “sumt grói aldrei á sálinni”. Ég hika ekki við að kalla svona hegðun fitufordóma, jafnvel þó að gerendurnir séu ung börn sem skilja jafnvel ekki hugtakið fordómar. Í nýrri handbók fyrir starfsfólk skóla, Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla, sem gefin er út á vegum Vitundarvakningar Velferðarráðuneytisins um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum er sérstaklega tekið fram að fordómar séu meginorsök ofbeldis og að grunnskólar gegni stóru hlutverki við að stuðla að eflingu jafnréttis- og lýðræðisvitundar nemenda sinna, og í leiðinni að draga úr fordómum. Það sem vakti kannski sérstaklega athygli mína var að nokkrar algengustu tegundir fordóma sem valda ofbeldi eru nefndir og þar á meðal eru fordómar gagnvart feitum börnum. Tel ég þetta til marks um að almenningur er að vakna til vitundar um skaðleg áhrif fitufordóma og áherslu á grannan líkamsvöxt.

 

Stríðni og einelti á grundvelli fitufordóma skera sig þó enn frá öðru einelti að vissu leyti því að meira er um að hinir fullorðnu samþykki það. Þeim þykir vissulega leiðinlegt að barnið skuli verða fyrir einelti og telja það að sjálfsögðu ekki eiga slíkt skilið. Hinsvegar verði foreldrar barnsins „að fara að hugsa sinn gang. Offita barna og ungmenna í dag sé jú orðið að brýnu heilsufarsvandamáli og að lífsgæði barnsins hljóti að verða fyrir skerðingu vegna hinna meintu heilsufarsvandamála. Ekki sé nóg með það heldur mun barnið deyja langt fyrir aldur fram ef ekkert verður að gert!“ Þegar fullorðið fólk ber þessar tilvitnanir fyrir sig heyri ég ekkert annað en afsakanir fyrir því að halda áfram nákvæmlega sama ofbeldinu og barnið verður fyrir frá jafnöldrum sínum. Krakkarnir eru einfaldlega heiðarlegri með það, þeim finnst feita barnið bara ljótt og annars flokks. Allavega sé ég seint fyrir mér að sönglað sé á leikvellinum: “nananabúbúúú, þú munt deyja fyrir þrítugt vegna kransæðastíflu, ekki ééééég!!”.

 

Fyrir lesendur sem vilja meina að offita barna sé stöðugt vaxandi heilbrigðisvandi sem beri svo sannarlega að taka alvarlega…ég er ekki hissa! Það eru skilaboðin sem við fáum frá samfélaginu og þá helst fjölmiðlum. Ég bið ykkur hinsvegar að hafa það í huga að þyngd íslenskra barna hefur ekki orðið fyrir marktækum breytingum frá aldamótum. Sama er uppi á teningunum með fullorðna Íslendinga. Íslendingar eru jafnframt með langlífustu þjóðum heims en við erum til dæmis í 5. sæti yfir þau lönd sem hafa hvað hæstu lífslíkurnar innan OECD. Langlífisspár gera ekki ráð fyrir lækkandi lifialdri Íslendinga. Ennfremur erum við í fjórða sæti yfir heilbrigðustu þjóðirnar innan OECD sem hafa sambærileg gögn þess efnis. 77.8% Íslendinga teljast nú við góða heilsu. Á sama tíma erum við þó í tíunda sæti yfir feitustu þjóðirnar. Við vorum ekki einu sinni svona heilbrigð og langlíf. En við höfum tekið miklum framförum og lífstílsbreytingum undanfarna áratugi… og viti menn, á sama tíma og við fitnuðum hvað mest! Eins og sést haldast langlífi og heilsufar ekki endilega í hendur við holdafar. Jafnan milli holdafars og heilsufars er einfaldlega mun flóknari en svo. Svo margir þættir koma við sögu að við erum meira að segja langt frá því að þekkja þá alla. Því tel ég okkur verða að leyfa feitu fólki að njóta þessa vafa, ef ekki hreinlega falla frá öllum ályktunum um áhrif holdafars á heilsu. Þannig tryggjum við mannréttindi allra óháð holdafari.

 

Flokkar: Fitufordómar

Sunnudagur 18.1.2015 - 22:16 - 34 ummæli

Hvers vegna er The Biggest Loser umdeilt sjónvarpsefni?

 

yelling_at_fat_lyr_copy

Líklega hefur það ekki farið framhjá mörgum að sýningar á annarri seríu af The Biggest Loser Ísland eru að hefjast. Á nánast öllum strætóskýlum á höfuðborgarsvæðinu eru skilaboðin skýr: „Baráttan heldur áfram“. The Biggest Loser þættirnir hafa notið mikilla vinsælda frá upphafi og breiðst út um heiminn þannig að í dag eru staðbundnar útgáfur af þáttunum sýndar í 27 mismunandi löndum og landsvæðum í heiminum. Þeir hafa hins vegar líka sætt töluverðri gagnrýni, þannig að þegar fyrsta íslenska þáttaröðin var auglýst með þeim orðum að þættirnir væru „vottaðir af sálfræðingum, næringarfræðingum og læknum“ gaf fjöldinn allur af félagasamtökum fagfólks hér á landi út yfirlýsingu, þar sem skýrt var tekið fram að þættirnir væru hvorki vottaðir né samþykktir af íslensku fagfólki. Fleiri gagnrýnisraddir heyrðust einnig, svo sem frá Röggu Nagla og Dóra DNA. 

Ljóst er að The Biggest Loser er umdeilt sjónvarpsefni og er þessi pistill skrifaður til að varpa ljósi á hvers vegna svo er. Áhrifamáttur þáttanna og tilgátur um að þeir ýti undir fitufordóma hafa jafnvel orðið að fræðilegu rannsóknarefni. Því er mikilvægt að fólk skilji um hvað ádeilan snýst áður en það ákveður að setjast gagnrýnislaust fyrir framan sjónvarpið. Markmiðið er ekki að gagnrýna keppendur og mikilvægt að umræðan verði ekki misskilin með þeim hætti.

Í The Biggest Loser er fylgst með hópi feitra einstaklinga keppa í þyngdartapi. Sá vinnur sem hefur misst mestan hluta af þyngd sinni í lokin. Gagnrýni á þættina hefur því einna helst beinst að þeim óhóflegu áherslum sem lagðar eru á mikið þyngdartap á stuttum tíma, sem er talsvert fjarri ráðleggingum fagfólks um hálft til eitt kíló á viku sem viðmið um heilbrigt þyngdartap. Sömuleiðis hefur gagnrýnin beinst að því að sérstök áhersla virðist lögð á að sýna feitt fólk í niðurlægjandi ljósi, svo sem að þola öskur og skammir af hendi þjálfara eða vera stillt upp hálfnöktu við vigtun fyrir framan alþjóð. Bent hefur verið á að kvenkynsþátttakendur þurfa að vera í íþróttatopp á meðan þær eru feitar en fá svo að vera í hlýrabol eftir að þær hafa grennst. Hvað er það?

article-0-1B34D16F00000578-233_638x483

Við skulum líta nánar á það í hverju gagnrýnin á þættina felst og hvað niðurstöður erlendra rannsókna á þáttunum hafa leitt í ljós.

Öfgafull megrun

Margar rannsóknir hafa sýnt að mikið þyngdartap á stuttum tíma, eins og er greinilega markmiðið í þáttunum, hefur yfirleitt slæmar heilsufarslegar afleiðingar í för með sér. Óháðir og hlutlausir læknar og næringarfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af mikilli fæðuskerðingu og allt að átta klukkutímum af brennsluæfingum á dag í erlendu útgáfu þáttanna. Þeir sem vinna með átraskanir eða hafa reynslu af átröskun hafa tjáð áhyggjur sínar af þeim öfgakenndu skilaboðum sem þættirnir senda um mataræði, hreyfingu og samband heilsu og holdafars. Þá hefur verið bent á þann möguleika að keppendur þáttanna gætu sumir átt við vanda að stríða sem verður ekki lagaður með öfgafullri megrun. Þátttakendur í bandarísku útgáfunni hafa líka komið opinberlega fram og tjáð sig um þau slæmu áhrif sem þátttaka þeirra hafði á heilsu þeirra. Ein þeirra sagði frá því að hún hefði þrófað með sér átröskun í þáttunum ásamt því að afhjúpa ómanneskjulega meðferð á keppendum. Einnig hefur verið sagt frá hættulegum megrunaraðferðum, svo sem svelti og ofþornun, til að auka líkur á sigri. Gengið er svo hart að fólki að fólk hefur lent á spítala þegar líkaminn er kominn í þrot. Aðeins örfáir keppendur hafa þorað að tala við fjölmiðla um neikvæða upplifun sína því þeir eiga á hættu að fá himinháar fjársektir fyrir að tjá sig án leyfis framleiðanda. Rachel-Frederickson-300x300

 

Þó margir virðast hafa gleypt gagnrýnislaust við áherslum The Biggest Loser í áranna rás þá virtist fólk vakna til vitundar þegar vinningshafi einnar þáttaraðarinnar þótti líta út fyrir að vera hættulega grannur. Internetið logaði og allt í einu fór fólk að efast um heilsusamlegt gildi þáttanna. Ég spyr sjálfa mig hvers vegna þetta komi fólki svona svakalega mikið á óvart. Umræddur keppandi braut engar reglur og gerði bara nákvæmlega það sem ætlast var til af henni. Það hlaut að vera einungis tímaspursmál að einhver keppandi myndi komast í undirþyngd. Einnig finnst mér það lýsandi fyrir mótsögnina í samfélagi okkar að fólk sé tilbúið að horfa á skemmtiþátt þar sem fólk er niðurlægt og líkömum þeirra er misþyrmt, en um leið og einhver lítur út fyrir að hafa mögulega veikst af átröskun, þá allt í einu eru þessar áherslur ekki í lagi. Þessar sömu áherslur hafa ríkt í þáttunum í meira en áratug og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þátturinn er tengdur við þróun átröskunar án þess að það hafi haft teljandi áhrif á áhorfið. En þetta var í fyrsta skipti sem þessi áhrif urðu áberandi sýnileg og þá loks kviknar á perunni.

Niðrandi framkoma

Rannsókn á viðhorfum feitra gagnvart The Biggest Loser sýndi að meirihluti aðspurðra hafði neikvætt álit á þættinum. Meðal þess sem fólki fannst vafasamt var að þátturinn notar þyngd fólks í skemmtanatilgangi og að fólki sé stillt upp eins og viðundrum í sirkusi („a side show at some kind of circus“). Fólki fannst þátturinn móðgandi og niðurlægjandi. Meira að segja nafnið á þættinum mætti skilja þannig að þátttakendur séu aumingjar. Margir höfðu áhyggjur af þeirri opinberu niðurlægingu sem felst í því að vera vigtaður á undirfötunum fyrir framan alþjóð og töldu það geta haft langvarandi tilfinningaleg áhrif á keppendur.

Ófagleg og niðurlægjandi framkoma þjálfaranna hefur einnig farið fyrir brjóstið á mörgum og dæmi hver fyrir sig:

jillian2

 

 

Í íslensku útgáfunni má sjá svipaða stemmingu:

Í dag birtist svo umfjöllun á New York Post um frásagnir keppenda af algjörri einangrun, heilaþvætti, svelti, næringar- og orkusnauðu mataræði, fáránlegu magni af æfingum þrátt fyrir alvarleg meiðsli, niðurbrjótandi setningum sem jaðra við andlegt ofbeldi, áreitni og einelti. Meira að segja var sagt frá grun um að tölva keppanda hefði verið hleruð af þáttastjórnendum. Engan skal undra að sumir keppendur hafi veikst við þessar aðstæður.

Fitufordómar

Áhyggjur fagfólks um þessa þætti beinast þó ekki eingöngu að velferð keppenda og þeim bjöguðu skilaboðum sem send eru út í samfélagið um heilbrigt líferni. Rannsóknir sýna að fitufordómar aukast þegar fólk horfir á sjónvarpsefni sem sýnir neikvæðar staðalímyndir af feitu fólki. Í þáttunum er ítrekað ýtt undir þá hugmynd að feitt fólk stundi reglulegt ofát, borði bara óhollt, séu algjör sófadýr og að lausn allra þeirra vandamála sé að grennast hratt. Ein rannsókn sýndi að fólk sem horfir á aðeins einn þátt af The Biggest Loser finnur fyrir auknu neikvæðu viðhorfi gagnvart feitu fólki og aukinni trú á að þyngd sé fullkomlega undir stjórn einstaklingsins eftir áhorfið. Rannsóknir sýna líka að því meira sem fólk trúir því að þyngd fólks sé alfarið hægt að stjórna með eigin hegðun, svo sem með mataræði og hreyfingu, því meiri fitufordóma sýnir það. Að líta svo á að feitt fólk geti sjálfu sér um kennt um holdafar sitt réttlætir fordóma og misrétti í þeirra garð.

Áhrif og viðbrögð í samfélaginu

Miðað við vinsældir þáttanna bæði hérlendis og erlendis má búast við því að þeir hafi umtalsverð áhrif í samfélaginu. Heyrst hefur til dæmis að íslenskir vinnustaðir hafi notað þættina sem fyrirmynd að megrunarkeppnum innan fyrirtækja, þar sem vegleg verðlaun eru veitt fyrir mesta þyngdartapið. Verður að teljast líklegt að slíkar áherslur geti stuðlað að óheilbrigðu andrúmslofti, megrunarþrýstingi og jafnvel ýtt undir fitufordóma á vinnustað. Nú þegar liggja fyrir rannsóknir sem sýna að konum er mismunað eftir holdafari í íslensku atvinnulífi svo það er varla á það bætandi.

Fljótlega eftir að birtingar hófust á síðustu þáttaröð af The Biggest Loser á Íslandi birtist frásögn stúlku á facebook um atburð sem hún hafði orðið vitni að í matvöruverslun. Kona í búðinni sýndi nokkuð brjálæðislega hegðun vegna þess að henni fannst önnur feit kona ekki sinna heilsufarslegum skyldum sínum gagnvart samfélaginu nógu vel, skammaði hana fyrir að vera með óhollan mat í innkaupakörfunni sinni, skipti kexpakka í körfunni út fyrir salat, og endaði á því að segja henni að fara heim og horfa á The Biggest Loser.

Mikilvægt er að fólk skilji að fitufordómar eru ekki bara spurning um dónaskap eða særandi atburði sem síðan gleymast. Það að lifa við fordóma hefur alvarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks, félagslega stöðu og öll lífsgæði. Fitufordómar skerða atvinnumöguleika, stuðla að launamisrétti, hafa neikvæð áhrif á heilsutengd lífsgæði, draga úr áhuga á hreyfingu og auka líkur á átvandamálum, lágu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, þunglyndi og sjálfsvígshugsunum (sjá heimild hér). Ekki ætti að gera lítið úr alvarleika þess að þættir sem fá jafn mikið áhorf og The Biggest Loser skuli reynast ýta undir fitufordóma samkvæmt rannsóknum og sérstaklega ætti það að vera varhugavert í litlu samfélagi eins og okkar.

Hvort þættirnir séu komnir til að vera hér á landi og hvort þeir eigi eftir að auka fordóma og holdafarsmisrétti hérlendis á eftir að koma í ljós. Ég legg engu að síður áherslu á mikilvægi þess að siðferðislega þenkjandi almenningur kynni sér þá gagnrýni sem komið hefur fram á þessa þætti úr margvíslegum áttum og velti alvarlega fyrir sér hvort þeir vilji leggja þessum skilaboðum lið með því að halda uppi áhorfi á þættina. Sjónvarpsefni hefur áhrif á áhorfendur, bæði börn og fullorðna, og ef um vinsælt sjónvarpsefni er að ræða ná áhrifin langt út fyrir áhorfendahópinn. Biggest Loser vinnustaðarkeppnir eru aðeins eitt dæmi um hvernig þessir þættir geta orðið að risavöxnum samfélagslegum áhrifavaldi. Þegar um er síðan að ræða efni sem þykir ýta undir samfélagslegt misrétti og óheilbrigða þráhyggju samfélagsins varðandi megrun og holdafar er full ástæða til að staldra við.

Flokkar: Bransinn · Fitufordómar · Samband þyngdar og heilsu · Stríðið gegn fitu · Þyngdarstjórnun

Laugardagur 13.9.2014 - 11:27 - 3 ummæli

Útlitstal

Vöðvar

Ég var stödd á fimleikaæfingu með syni mínum þegar ég varð vitni að eftirfarandi samtali milli móður og sonar: „Mamma ég er þreyttur má ég ekki bara fara núna?“ Móðirin svarar: „Nei, viltu ekki klára æfinguna, þú verður ekki sterkur eins og fimleikaþjálfararnir nema með því að vera duglegur á æfingum. Sjáðu þjálfarana þína, sérðu hvað þeir eru með stóra vöðva. Vilt þú ekki líka fá svona stóra vöðva?“

Á þessum tímapunkti  átti ég erfitt með að hemja mig og svara ekki móðurinni fullum hálsi. Myndir þú hvetja stelpuna þína til að halda út æfingu svo hún gæti orðið jafn grönn og þjálfararnir?

Hvað við segjum við börnin okkar og hvað við segjum fyrir framan þau mótar þau. Barn sem elst upp við sífellt útlitstal foreldra sinna, foreldri sem stendur fyrir framan spegilinn og klípur í maga sinn með ógeðissvip eða spyr makann sinn „er ég feit í þessu“ fær skýr skilaboð um að ákveðið útlit sé óásættanlegt.

Í rannsókn sem unnin var í Háskólanum í Minnesota kom í ljós að það hvernig við ræðum við börnin okkar um líkama þeirra sem og okkar eigin getur haft mikil áhrif á líkamsmynd þeirra. Samtöl um kíló, líkamsútlit, vöðva og fleira getur ýtt undir óheilbrigðar matarvenjur og vanda með líkamsmyndina.

Börn fæðast ekki með hugmyndir um hvað þykir fallegt og hvað ekki, þau læra það af umhverfi sínu. Börn taka oft upp hugmyndir foreldra sinna og því ber að varast að stimpla ákveðið vaxtarlag sem betra eða verra. Að ræða um kosti þess að vera vöðvastæltur við drengi getur haft mikil áhrif á líkamsmynd þeirra. Verum dugleg að fagna fjölbreytileikanum, forðumst að hylla undir ákveðið vaxtarlag og einbeitum okkur frekar að öllu því góða sem líkaminn gerir okkur kleift að gera, hlaupa, ganga, lyfta hlutum, dansa og melta mat.

 

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsmynd · Líkamsvirðing · Staðalmyndir · Útlitskröfur

Þriðjudagur 10.6.2014 - 21:13 - 1 ummæli

Fitubollurnar – taka tvö!

Hæ Teitur!

Ég verð að segja að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með þig í dag þegar þú birtir pistilinn þinn í Fréttablaðinu. Þar varaðirðu við þróun ofþyngdar, offitu og aukakvillum hennar sem eru vísar til að “fylla sjúkrahús og heilsugæslur landsins”. Tilefnið var sú “skelfilega þróun” sem ráða mátti úr tölum sem birtust nýlega í læknatímaritinu Lancet, en svo virðist sem engin þjóð af heilum 188 löndum hafi tekist að lækka tíðnitölur ofþyngdar og offitu sl. 33 ár. Þvert á móti hafi fjöldinn aukist! Ja, detti mér allar lýs úr höfði!

Neeeeeei, ég er bara að djóka!! Það meikar reyndar heilmikinn sens þar sem megrun virkar ekki. Meira að segja Alþjóða Heiilbrigðisstofnunin, sem þú vísar til í greininni þinni, hefur viðurkennt að enn hafi ekki fundist leið til að léttast og viðhalda þyngdartapinu til lengri tíma, sama hvaða aðferðir eru notaðar (1, 2). Þetta eru sérstaklega slæmar fréttir því að heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum komust að þeirri niðurstöðu árið 1996 að rannsóknir hefðu ekki náð að sýna fram á að skammtíma þyngdartap hefðu jákvæð áhrif á heilsufar (3). Þvert á móti verður afleiðingin oft hin svokallaða jójómegrun, þ.e. fólk sér tólin/kemst í kjólinn fyrir jólin í smástund áður en það þyngist aftur. Jójómegrun er hvimleiður andskoti því fyrirbærið getur aukið hættu á lífstílstengdum kvillum, óháð þyngd. Aðeins einn slíkur “hringur” getur til að mynda aukið dánarlíkur vegna hjarta- og æðasjúkdóma marktækt meðal karla samanborið við karla sem halda stöðugri þyngd (4,5). Og hverjir eru það sem fara langoftast í megrun? Jú, við fitubollurnar! Það er því spurning hvort komi á undan, þegar við ræðum lífstílstengda kvilla; fitubollan eða megrunin?

Í greininni þinni segirðu líka að við séum í níunda sæti þegar komi að tíðni ofþyngdar og offitu og það finnst þér sko ekki vera neitt sem við Íslendingar ættu að geta verið stoltir yfir, sérstaklega þar sem “stefnir í að við færumst jafnvel enn ofar á þessum skammarlista”. Þér að segja hefur tíðni ofþyngdar og offitu ekki aukist meðal fullorðinna Íslendinga síðan árið 2007 og hjá börnum hefur hún minnkað! (6, 7).

Næst nefnirðu að ofþyngd og offita séu leiðandi ástæður fyrir ótímabærum dauðsföllum og að á heimsvísu sé talið að ríflega fjórar milljónir manna deyi árlega af þessum völdum. Sérstaklega tekurðu fram hérna að þá séu ekki talin með þau dauðsföll vegna lífstílssjúkdóma. Ef ég skil þig rétt þá áttu við að offita, ein og sér, valdi öllum þessum dauðsföllum. Þarna setti mig hljóða. Af hverju er allt þetta feita fólk að drepast eins og flugur, bara út af því að það er feitt? Bráðnar það í sólinni? Er það svo þungt að gólf í háhýsum halda því ekki uppi og það dettur bara í gegnum hverja hæðina á eftir annarri þar til það verður að pönnuköku? Verður offitan brjáluð þegar hún fær ekki ísinn sinn, tekur völdin af líkamanum og labbar með allar fitubollurnar útí sjó? Manni er spurn. Ég held að þú hljótir barasta að vera eitthvað að misskilja. Vegna þess að þegar offita er tengd við dauðsföll er það yfirleitt í gegnum eitthvað annað fylgnissamband, en eins og þú segir til dæmis í greininni þinni, eru ofþyngd og offita talin hafa áhrif á tæplega 50% þeirra sem greinast með sykursýki, 25% í hjarta-og æðasjúkdómum og á bilinu 7-40% í illkynja sjúkdómum. Þetta eru sláandi tölur! En ef þetta er allt saman satt, og offita er svona beintengd við alla þessa lífshættulega kvilla, af hverju höfum við þá náð stórkoslegum árangri í að fækka tíðni dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á tímabilinu, 1981-2005, akkúrat á þeim tíma sem við erum að fitna hvað mest og hraðast? Og ekki nóg með það heldur hefur nýjum tilfellum kransæðasjúkdóma fækkað meðal karla um 57% og um 59% meðal kvenna á aldrinum 25­‐74 ára á árunum 1980 til 2005 (8, 9, 10).

Í raun, þegar Ísland er borið saman við aðrar Evrópuþjóðir, kemur í ljós að íslenskar konur teljast að meðaltali í lágri áhættu á dauða af völdu hjarta‐ og æðasjúkdóma fyrir 75 ára aldur og karlar eru rétt fyrir ofan meðaláhættu. Í heildina stendur Ísland því vel hvað þetta varðar. Þessa lækkun er ekki hægt útskýra að fullu með framförum í lyfjagjöf eða læknismeðferðum (8), sérstaklega þar sem þessi lækkun hófst að einhverju leyti áður en til slíkra framfara kom (11).

Sykursýki 2 hefur aukist eitthvað, en þó afar hægt og við stöndum reyndar mjög vel þegar kemur að sykursýki. Á meðan 10% bandaríkjamanna hafa sykursýki, (en bandaríkin eru í efsta sæti yfir lönd með hvað flestar fitubollurnar), er samsvarandi hlutfall hér á landi 1,6% (12, 8).

Til þess að slá botninn úr þessu öllu saman hafa lífsíkur okkar Íslendinga aukist jafn og þétt undanfarna áratugi. Íslendingar geta nú búist við að lifa þar til þeir verða 81,5 ára og eru þeir í sjöunda sæti yfir þau lönd sem hafa lengstu lífslíkurnar innan OECD. Ennfremur eru þeir í sjöunda sæti yfir þau OECD‐lönd sem hafa hvað hæst hlutfall heilbrigðra einstaklinga af þjóðinni. En 80,3% Íslendinga teljast nú við góða heilsu. Á sama tíma erum við þó í áttunda sæti yfir feitustu þjóðirnar (13).

Sérðu mótsagnirnar hérna Teitur? Þetta er ekki eitthvað nýtt fyrirbæri. Það er marg búið að sýna fram á að það er hægt að vera heilsuhraustur þótt BMI stuðullinn sé hár – það sem skiptir mestu eru heilsuvenjurnar. Ég mæli með því að þú kynnir þér þessar rannsóknir, sérstaklega því að þær lýsa svo vel íslensku stöðunni. Við erum þung en heilbrigð þjóð. Mér finnst að við íslensku fitubollurnar ættum að geta verið stoltar af því! Við erum greinilega að gera eitthvað rétt. Fjármunum til forvarna og fræðslu væri líklega best varið í að fræða fólk um ranghugmyndir um heilsu og fitufordóma miðað við þín skrif. Það væri awesome, þá fengi ég kannski pening fyrir að blogga. Góð hugmynd Tara!!!!

Jæja, ég nenni þessu ekki lengur. Ég er farin að fitubollast eitthvað…

 

Heimildir

  1. http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0010/74746/E90711.pdf
  2. http://whqlibdoc.who.int/trs/WHO_TRS_894.pdf
  3. Goodrick, G. K., Poston II, W. S. C. og Foreyt, J. P. (1996). Methods for voluntary weight loss and control: Update 1996 [rafræn útgáfa]. Nutrition, 12, 672-­‐676.
  4. Bacon, L. (2008). Health at every size: The surprising truth about your weight. Dallas, TX: BenBella Books, Inc.
  5. Garner, D. M. og Wooley, S. C. (1991). Confronting the failure of behavioral and dietary treatments for obesity. Clinical Psychology Review, 11, 729-­‐780.
  6. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/28/bmi_studullinn_stendur_i_stad/
  7. Of feitum börnum fækkað um helming (2012, 5. júní). Fréttablaðið, bls. 6.
  8. Gunnar Sigurðsson, Vilmundur Guðnason, Tor Aspelund, Kristín Siggeirsdóttir og Bylgja Valtýsdóttir. (2008). Handbók hjartaverndar. Sótt 20. október 2012 af http://www.hjarta.is/Uploads/document/Timarit/Handbok%20Hjartaverndar.pdf
  9. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir, Örn Ólafsson og Vilmundur Guðnason. (2001). Þróun ofþyngdar og offitu meðal 45-­‐64 ára Reykvíkinga á árunum 1975-­‐1994 [rafræn útgáfa]. Læknablaðið, 87, 699-­‐704.
  10. Margrét Valdimarsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Elva Gísladóttir, Jón Óskar Guðlaugsson og Þórólfur Þórlindsson. (2009, september). Líkamsþyngd og holdafar fullorðinna Íslendinga frá 1990-­‐2007. Sótt 27. september 2012 af http://www2.lydheilsustod.is/media/manneldi/rannsoknir/Holdafar.skyrsla.25.sept.p df
  11. María Lilja Þrastardóttir. (2012, 5-­‐7. október). Hjarta og æðasjúkdómar algengasta dánarorsökin. Fréttatíminn, bls. 42.
  12. http://professional.diabetes.org/admin/UserFiles/0%20-%20Sean/FastFacts%20March%202013.pdf
  13. http://www.oecd.org/health/healthataglance

 

Flokkar: Fitufordómar · Megrun · Samband þyngdar og heilsu · Stríðið gegn fitu

Mánudagur 10.3.2014 - 09:42 - 1 ummæli

Dagur líkamsvirðingar 13. mars

self-love

 

Samtök um líkamsvirðingu hafa valið næstkomandi fimmtudag, 13. mars, sem sinn árlega baráttudag. Samtökin voru stofnuð þennan dag árið 2012 og án þess að við hefðum haft hugmynd um það á þeim tíma er þetta sami dagur og fyrsta bloggfærslan var send út af líkamsvirðingarblogginu árið 2009. Þetta er því örlagadagur í sögu líkamsvirðingar á Íslandi. Þennan dag ætlum við að nota ár hvert til að minna á líkamsvirðingu og hvetja samfélagið til að leiða hugann að því hversu mikilvægt það er að skapa umhverfi þar sem allir eru velkomnir.

Í ár ætlum við sérstaklega að beina skilaboðum okkar til yngstu kynslóðarinnar. Börnin sem nú eru í leikskóla eiga mörg hver eftir að þróa með sér neikvæða líkamsmynd ef áfram heldur sem horfir. Í dag eru 40% stúlka í kjörþyngd annað hvort að reyna að léttast eða telja sig þurfa að léttast. Tölfræðilegt samband ríkir milli líkamsþyngdar og lífsánægju stúlkna. Önnur hver unglingsstúlka á Íslandi fer í megrun og vaxandi fjöldi ungra drengja. Þegar komið er upp í framhaldsskóla uppfyllir einn af hverjum tíu nemendum greiningarviðmið fyrir átröskun. Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta eru afleiðingar umhverfisskilyrða sem við höfum skapað börnunum okkar. Þeim þarf að breyta ef við óskum þeim bjartari framtíðar.

Í takt við þessar hugmyndir ætla Samtök um líkamsvirðingu að halda líkamsvirðingarhátíð á leikskóla þann 13. mars með meðlimum hljómsveitarinnar Pollapönk. Þeir ætla að koma og syngja með börnunum um að það skipti ekki máli hvort við erum feit eða mjó, lítil eða stór. Svo ætlum við að skoða saman nýja barnabók um líkamsvirðingu sem kemur út á þessum degi. Henni er ætlað að styðja við jákvæða líkamsmynd ungra barna, efla umhyggju þeirra fyrir líkama sínum og virðingu fyrir fjölbreytileika. Vonandi á hún eftir að reynast gagnlegt verkfæri í fjársjóðskistum leik- og grunnskólakennara, sem og foreldra, til þess að opna þessa umræðu með börnum og vinna í átt að umhverfi sem hjálpar þeim að lifa sátt í eigin skinni.

Við hvetjum að lokum alla sem starfa með börnum eða ala upp börn til að nýta tækifærið og vinna með þetta þema í næstu viku. Hvetja börn og ungmenni til að þykja vænt um líkama sinn og kenna þeim að bera virðingu fyrir hvert öðru óháð holdafari, útliti og öllu því sem greinir okkur hvert frá öðru. Við hvetjum einnig starfsfólk og stjórnendur skóla til að taka holdafar og útlit inn í stefnur skólanna um jafnrétti, virðingu og einelti. Þótt stríðni vegna holdafars sé algeng tegund eineltis er sjaldnast minnst á holdafar í eineltisstefnum eða jafnréttisyfirlýsingum skóla, jafnvel þótt mörg önnur einkenni séu þar talin upp. Við þurfum að vakna til vitundar um að miklir fordómar og mismunun ríkja í tengslum við líkamsvöxt og holdafar í samfélaginu og það þarf að vernda börn og unglinga gegn slíku.

Saman getum við búið til betra umhverfi. Byrjum snemma!

 

Flokkar: Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Sunnudagur 23.2.2014 - 18:25 - 4 ummæli

Yfirlýsing vegna Biggest loser

no loser

Samtök um líkamsvirðingu ásamt Félagi fagfólks um átraskanir, Sálfræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands, Matarheillum og Félagi fagfólks um offitu hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna Biggest loser þáttanna:

Nýlega hófust sýningar á íslenskri útgáfu sjónvarpsþáttanna The Biggest Loser hjá Skjá Einum. Þar sem þættirnir hafa verið kynntir hér á landi undir þeim formerkjum að þeir séu „vottaðir af sálfræðingum, læknum og næringarfræðingum“ (http://www.skjarinn.is/einn/islenskt/biggest-loser-island/) vilja neðangreind félög senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Biggest loser þættirnir hafa sætt mikilli gagnrýni bæði erlendis og hérlendis fyrir öfgakenndar áherslur á þyngdartap, mikla fæðutakmörkun, æfingaálag og harkalega framkomu þjálfara í garð keppenda. Við teljum þessa nálgun ekki samræmast faglegum vinnubrögðum og sú framkoma sem þjálfarar sýna keppendum samræmist hvorki siðareglum né lögum um heilbrigðisstarfsmenn sem kveða skýrt á um að skjólstæðingum skuli sýnd virðing. Rannsóknir benda ennfremur til þess að áhorf á þættina ýti undir fitufordóma og að litlar líkur séu á þættirnir hvetji  áhorfendur til aukinnar hreyfingar og bættra lífshátta.

Við viljum taka skýrt fram að meint „vottun“ sem þættirnir eru sagðir hafa fengið frá læknum, sálfræðingum og næringarfræðingum á ekki við um fagfólk hér á landi. Enginn íslenskur heilbrigðisstarfsmaður gæti viðhaft þá nálgun gagnvart sínum skjólstæðingum sem einkennir þessa þætti án þess að það væri brot á siðareglum viðkomandi fagstéttar og gildandi lögum um heilbrigðisstarfsmenn.

 

Heimildir:

Berry TR, McLeod NC, Pankratow M, Walker J. Effects of Biggest Loser exercise depictions on exercise-related attitudes. Am J Health Behav. 2013; 37:96-103.

Domoff SE, Hinman NG, Koball AM, Storfer-Isser A, Carhart VL, Baik KD, Carels RA. The effects of reality television on weight bias: an examination of The Biggest Loser. Obesity (Silver Spring). 2012; 20:993-8.

Lög um heilbrigðisstarfsmenn nr.34/2012.  http://www.althingi.is/altext/stjt/2012.034.html.

Readdy T, Ebbeck V. Weighing in on NBC’s The Biggest Loser: governmentality and self-concept on the scale. Res Q Exerc Sport. 2012;83:579-86.

Yoo JH. No clear winner: effects of The Biggest Loser on the stigmatization of obese persons. Health Commun. 2013;28(3):294-303.

Flokkar: Fitufordómar · Líkamsvirðing · Stríðið gegn fitu

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com