Föstudagur 7.2.2014 - 17:49 - 43 ummæli

Opið bréf til RÚV og Stúdíó Sýrlands

grettir

Kæra RÚV og Stúdíó Sýrland,

Ég hef séð ýmislegt um dagana og kalla ekki allt ömmu mína þegar kemur að fitufordómum. Ég veit vel að við lifum í fitufóbísku samfélagi þar sem niðrandi athugasemdir um feitt fólk og stöðugt tal um megrun er sjálfsagður og lítt gagnrýndur hluti af menningunni. Ég hef lesið fjöldann allan af rannsóknum sem staðfesta hversu algengir og rótgrónir fitufordómar eru í vestrænum samfélögum og ég veit að þeir eru allsstaðar. Ég veit að fólki er mismunað í vinnu og skóla vegna holdafars síns, ég veit að feitt fólk fær verri þjónustu en grannt fólk og mætir fordómum í heilbrigðisþjónustu. Ég veit að stríðni vegna holdafars er ein algengasta tegund eineltis sem börn verða fyrir í skólum. Og ég veit að fjölmiðlar eru gegnsýrðir af fitufordómum.

Eins og ég segi – þá er ég mjög meðvituð um þessa stöðu og það þarf mikið til að slá mig út af laginu. En það tókst ykkur um daginn. Þann 3. febrúar síðastliðinn var sýndur þáttur í barnatíma RÚV um köttinn Gretti. Þátturinn hét  „Slegist við vigtina“ og þar komu fram einhverjir mest sláandi fitufordómar og megrunarviðhorf sem ég hef á ævi minni séð í barnaefni. Nánast hver einasta setning í þættinum fól í sér annað hvort niðurlægjandi athugasemdir eða megrunarskilaboð. Hér eru nokkur brot:

  • „Það er ekkert að honum. Ekkert nema þyngdin auðvitað.“
  • „Ef hann þyngist meira þarf ég lyftara til að gera þetta.“
  • „Missa eitt kíló strax, helst fyrir vikulok.“
  • „Fara á heilsuhæli: Þeir setja hann á strangan, fitulausan kúr.“
  • „Velkomin á kattaheilsuhæli Möggu, besta heilsustað í heimi fyrir lata og feita ketti…“
  • „Hann var svo feitur að þegar hann þurfti að fara frá stofunni inn í eldhús þá tók hann leigubíl.“
  • „Farðu með vigtina heim svo þú getir fylgst með árangrinum.“
  • Alltaf er verið að vigta Gretti og vigtin bregst við með niðrandi athugasemdum: „Ái, farðu af mér, þú níðþungi stampur af pasta og klístri“, „Ef þú þyngist aðeins meira ferðu að minna á póstnúmer“…
  • Borðar eina baun í kvöldmat.
  • Stöðugt talað um að missa kíló.
  • „Amma mín hleypur hraðar en þetta.“
  • „Hlunkur. Feitabolla.“
  • „Meira að segja skvapið á þér er feitt.“
  • „Þú ert svo feitur að þegar þú stígur á vigt segir hún: „Bara einn í einu“
  • „Ég verð að létta mig!“

Þessi þáttur er ætlaður yngstu kynslóðinni. Ætla má að áherfendur séu flestir á bilinu 3ja til 10 ára. Ég verð því að spyrja: Staldraði einhver við í þessu ferli til þess að velta fyrir sér hvort þessi þáttur væri í alvöru útsendingarhæfur? Þessi þáttur var ekki bara keyptur (af ríkisstofnun, sjónvarpi allra landsmanna, fyrir almannafé) og sendur út í blindni. Nei, þessi þáttur, eins og allt talsett barnaefni, fór í gegnum alveg heljarinnar ferli sem hefði, meðal fullorðins fólks með snefil af siðferðisvitund, átt að vekja upp spurningar sem hefðu átt að leiða til þess að þessi þáttur kæmist aldrei í loftið.

Að talsetningu þessa þáttar komu minnst tíu fullorðnir einstaklingar. Fyrst þýðandi – sem hefði átt að staldra við ef allt væri með felldu, hringja í RÚV og segja þeim að þessi þáttur sé einfaldlega ekki sýningarhæfur – og svo heilt teymi leikara, leikstjóra og tæknimanna, sem tóku upp þennan viðbjóð í góðu stuði. Stoppuðu orðin ekkert í hálsinum á ykkur, Siggi Sigurjóns, Hjálmar, Sigríður og þið hin? Hafið þið eitthvað kynnt ykkur starf kollega ykkar, Stefáns Karls, í tengslum við einelti barna? Eða tengduð þið bara ekki saman punktana? Hvað með þig, Rósa Guðný? Læddust engar hugsanir að þér við leikstjórnina um að þessi þáttur ætti ekkert erindi við börn? Hringdi einhver ykkar upp á RÚV og  lét umsjónarmenn dagskrárgerðar vita að þessi þáttur ætti aldrei að fara í sjónvarpið? Ég veit að það er ekki ykkar að ráða dagskrárgerð hjá RÚV en létuð þið eitthvað í ykkur heyra eftir að hafa farið svona rækilega yfir handritið?

Kannski eruð þið bara of vön því að talsetja fitufordómafullt barnaefni að þið eruð löngu hætt að taka eftir merkingu þess sem þið eruð að segja – ef þið föttuðuð það einhverntíman. En það er ágætt að staldra við og íhuga að það eru feit börn í áhorfendahópnum sem þið eruð að talsetja fyrir. Meira að segja börn sem hafa orðið fyrir einelti og þurft að þola þessi uppnefni, sem þið lesið inn á myndirnar, í sínu persónulega lífi. Hvernig ætli þeim líði þegar þau setjast fyrir framan sjónvarpið og heyra þessa endursögn á eineltinu í búningi skemmtiefnis sem allir eiga að hlæja að?

Ég get alveg lofað ykkur að mörgum börnum hefur liðið illa undir þessum þætti. Þau hafa farið að velta eigin holdafari fyrir sér og upplifað skömm. Ef þau hafa þegar upplifað einelti vegna útlits síns þá hefur þessi þáttur vakið upp sárar minningar. Öll börn sem horfðu á þennan þátt hafa fengið staðfestingu á því að feitt fólk er hópur sem ber að líta niður á og gera grín að. Ef eitthvert hrekkjusvínið hefur skort orðaforða eða hugmyndir til að níðast á feitum jafnöldrum sínum þá hefur sá hinn sami staðið upp með skotfærasafnið sitt ríkulega hlaðið. Þetta var eins og verkfærakista fyrir gerendur eineltis. Heill þáttur sem fjallaði eingöngu um fitufordóma án svo mikils sem andrýmis á milli skothríða.

Börnin sem horfðu á þennan þátt munu líka hafa lært að ef þú ert (eða heldur að þú sért) feitur þá áttu að fara í megrun. Megrun er áhættuhegðun meðal barna. Hvernig dettur fólki í hug að senda út barnaefni sem elur á slíkum hugmyndum? Samfélagslegar áherslur um megrun og þyngdartap auka líkur á því að börn þrói með sér neikvæða líkamsmynd og alvarlega geðræna kvilla eins og þunglyndi og átraskanir. Yngsta barnið sem hefur verið lagt inn á spítala hér á landi vegna átröskunar var 9 ára. Á hverju ári veikjast tugir ungmenna og rannsóknir sýna að heil 15% stúlkna í íslenskum framhaldsskólum uppfylla greiningarviðmið fyrir átröskun samkvæmt skimunarprófi.

Þetta er alvarleg staða og fjölmiðlar bera ríka ábyrgð á því að viðhalda þessu ástandi. Fjölmiðlar móta hugsun okkar, lífsgildi og viðhorf og börn eru þar viðkvæmasti hópurinn. Ég er móðir þriggja barna og hef sjaldan horft á barnatíma með þeim án þess að þar komi fyrir að minnsta kosti einn fitubrandari. Það er erfitt að ala upp börn með heilbrigða líkamsmynd og virðingu fyrir fjölbreytileika í dag. Þið verðið að hjálpa til.

Ég veit að það er langsótt, kæra RÚV og Stúdíó Sýrland, af því þið eruð búin að vera í þeim bransa að útsetja og senda út fitufordómafullt barnaefni í mjög langan tíma, en ég vona að mér hafi tekist að kveikja pínulítið ljós í huga ykkar. Ég vona að næst þegar þið kaupið inn eða talsetjið barnaefni þá veltið þið innihaldinu fyrir ykkur. Mynduð þið kaupa inn teiknimyndaþáttaseríu sem elur á kynþáttafordómum? Mynduð þið talsetja barnaþætti um yfirburði karlmanna gagnvart konum? Ég vona að næst þegar þið þurfið að þýða orð sem útleggjast sem „hlunkur“ eða „spikklessa“, þá staldrið þið við og veltið fyrir ykkur hvort þið viljið taka þátt í þessu. Ég vona að næst þegar þið þurfið að lesa inn orðið „fitubolla“, þá hugsið þið „halanegri“, „hommatittur“ eða „kerlingartussa“, og pælið svo í því hvort þið mynduð vilja að börnin ykkar horfðu á barnaefni sem angaði af slíkri mannfyrirlitningu? Ef ekki, látið þá fólkið sem er að kaupa af ykkur þessa vinnu vita. Segið þeim að það sem þau eru að fara að sýna börnum sé ekki í lagi.

 

Flokkar: Fitufordómar · Samfélagsbarátta

Fimmtudagur 6.2.2014 - 08:35 - Rita ummæli

Það besta í lífinu

diet

Þessi tími ársins er aftur runninn upp. Það er fljótt að koma í ljós hvað nýja árið þýðir hjá stórum hluta þjóðarinnar. Vonin um grennri, fegurri og þóknanlegri líkama hefur aftur náð völdum, allir búnir að gleyma síðasta áhlaupi og hvernig það skilaði nákvæmlega engu, nema brostnum vonum, ofátsköstum, uppgjöf, skömm og endurnýjaðri andúð á eigin líkama. En nú skal tekið á því fyrir alvöru. Nú mun það takast.

Það er magnað að sjá hvernig samtakamáttur þjóðarinnar birtist á þessum árstíma. Allir leggjast á eitt við að tryggja að hvergi verði rof í samhljóma kyrjun megrunaráróðursins. Meira að segja þeir sem hafa engan sérstakan hag af því að halda þessum áherslum á lofti. Á Borgarbókasafninu er til dæmis búið að stilla upp megrunarbókum tilefni janúarmánaðar: Manhattan kúrinn, Sjö daga safakúrinn og Franskar konur fitna ekki í bland við detox og LKL uppskriftir. Bókasafnið hefur nákvæmlega engan hag af því að fólk lesi megrunarbækur. En sökum einskærrar meðvirkni við megrunarmenninguna ákveður starfsfólkið―opinberir starfsmenn á fræðslu- og menningarstofnun―að hafa frumkvæði að því að ginna fólk í enn einn kúrinn.

Þetta er ástæðan fyrir því að talað er um megrunarmenningu. Af því hún er allsstaðar og fáir setja spurningamerki við hana nema hafa tekið viðhorf sín til gagngerrar endurskoðunar. En við ættum öll að staldra við. Við ættum að taka meðvitaða ákvörðun um eitthvað sem gegnsýrir svona allt okkar umhverfi frekar en að láta berast ósjálfrátt með straumnum. Þannig að skoðum málið.

Megrunarmenningin birtist okkur björt og hressileg með loforðum um allt það besta í lífinu: Heilsu, hamingju og fegurð. Þar sem hún er búin að telja okkur trú um að við séum bæði ljót og óheilbrigð í samanburði við hina frelsuðu þá langar okkur ofsalega til að trúa þessu. En efndirnar eru engar. Áratug eftir áratug koma fram nýjar og nýjar (það er að segja, gamlar og endurunnar) megrunaráherslur sem hvorki hafa skilað okkur grennri vexti né sálarró nema síður sé. Megrunaráherslur á Vesturlöndum hafa haldist fullkomnlega í hendur við vaxandi þyngd almennings síðustu áratugi. Í besta falli hefur allt þetta brölt engu breytt og í versta falli hefur það átt sinn þátt þeirri þyngdarþróun sem orðið hefur. Það er alls ekki svo fráleitt. Fæðuskortur (hvort sem hann stafar af raunverulegum matarskorti eða viljandi aðhaldi) ýtir undir matarlöngun og tilhneigingu til fitusöfnunar. Á endanum bresta varnirnar og þá er búið að koma líkamanum í það ástand að hann getur varla hætt að borða þegar hann er byrjaður og mokar öllu beint í fitugeymslurnar.

Megrunarmenningin hefur alið af sér slæma líkamsmynd, átraskanir og fordóma á grundvelli líkamsvaxtar. Meirihluti kvenna lifir alla ævi í líkama sem þær eru ósáttar við og átraskanir, sem eitt sinn voru fáheyrðar og sjaldgæfar geðraskanir, eru nú meðal algengustu geðraskana sem hrjá ungar konur. Einn af hverjum tíu nemum í framhaldsskóla hefur einkenni sem benda til átröskunar. Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta er bara ástand sem við höfum skapað.

Samanburður við aðra menningarheima sýnir að þessi vandi kemur nánast eingöngu fram í samfélögum sem hafa tileinkað sér vestrænar áherslur varðandi megrun og líkamsvöxt. Í rannsókn hollenskra vísindamanna á karabísku eyjunni Curaçao fundust til dæmis engin tilfelli átraskana meðal innfæddra. Tíðnin meðal hvíta minnihlutans var hins vegar svipuð þeirri sem þekkist á Vesturlöndum. Þegar dæminu var snúið við og átröskunartíðni könnuð meðal karabískra innflytjenda í Hollandi var engan mun að finna milli þeirra og annarra Hollendinga. Af þessum sökum eru átraskanir stundum kallaðar menningarbundnar geðraskanir. Þær fylgja vestrænni nútímamenningu.

Megrunarmenningin birtist okkur ekki bara á bókasafninu eða í áherslum fjölmiðla. Hún kemur fram spjalli á kaffistofunni. Hún endurómar í hugsunum okkar og viðhorfum. Við tökum öll þátt í að skapa hana og við þurfum öll að taka höndum saman ef við ætlum að breyta þessu. Það að samþykkja megrunarmenninguna sem sakleysislegt eða jafnvel gagnlegt fyrirbæri þýðir að leggja blessun sína yfir þann skaða sem hún veldur. Það er ekki hægt að vinna gegn neikvæðri líkamsmynd, átröskunum og fitufordómum öðruvísi en að hafna megrunarmenningunni. Þetta helst í hendur.

Það að hafna megrunarmenningunni þýðir ekki að hafna heilbrigði―heldur að endurheimta það. Það er búið að stela þessu hugtaki frá okkur og markaðssetja það. Heilbrigði felst ekki í tilteknu útliti eða öfgafullum, kostnaðarsömum og plássfrekum lífsvenjum. Ein mesta blekking megrunariðnaðarins felst í því að telja okkur trú um þetta. Flest af því sem skapar heilbrigt líf kostar ekki neitt: Ást og vinátta, samverustundir með fjölskyldu, hvíld, hugarró, göngutúrar, góður nætursvefn, tóbaksleysi, minna áfengi, minna gos og minni skjátími.

Það besta í lífinu er ókeypis. Þess vegna getur þú verið viss um að þú finnur það ekki í því sem verið er að reyna að selja þér.

Flokkar: Átraskanir · Megrun · Þyngdarstjórnun

Þriðjudagur 4.2.2014 - 00:36 - Rita ummæli

Stríðni vegna holdafars

Ég starfaði í nokkur ár sem námsráðgjafi í grunnskóla. Í skólanum komu oft upp mál er snertu líðan nemenda, félagstengsl, stríðni og nám. Í skólanum vann ég verkefni  í tengslum við stríðni vegna holdafars sem mig langar að deila með ykkur.

Kennari hafði áhyggjur af stríðni meðal nemendanna vegna holdafars eins þeirra. Stríðnin virtist hafa slæm áhrif á líðan allra sem að málinu komu. Kennarinn óskaði eftir aðstoð samstarfsmanna sinna og vildi stöðva stríðnina og um leið bæta líðan og líkamsmynd nemendanna.

confident-kids-logo

Við fórum af stað með verkefni og fræðslu í bekknum. Nemendur voru beðnir um að velta fyrir sér kostum mismunandi útlita. Ákveðið útlit var tekið fyrir í einu og kostir eða jákvæðir eiginleikar þess útlits kortlagðir, til að mynda kostir þess að vera hávaxinn, lágvaxinn, grannur eða feitur. Þegar nemendur voru búnir að nefna marga jákvæða eiginleika eða kosti áttu þeir að nefna fyrirmyndir sem pössuðu inn í hvern flokk. Sem dæmi má nefna það að ef nemendur nefndu að þeir sem væru hávaxnir gætu orðið góðir í körfubolta hentaði vel að nefna góðan körfuboltaleikmann sem fyrirmynd.

Dæmi um verkefni nemenda:

Hávaxinn

Lágvaxinn

Grannur

Feitur

Kostir:

Góður í körfubolta

Góður í fótbolta

Góð í handbolta

Góð í marki

Getur hjálpað öðrum t.d. náð í hluti sem eru hátt uppi

Góður í frjálsum íþróttum

Sterk

Sér vel á tónleikum

Góður leikari

Góður söngvari

Kostir:

Góður í dansi

Góður í fimleikum

Getur falið sig vel í feluleik

Góð í handbolta

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í frjálsum íþróttum

Góð í ballet

Góður söngvari

Góður leikari

Liðugur

Góð barnapía

Kostir:

Góð í fimleikum

Góður í ballet

Góður í karate

Kemst á milli þröngra staða

Góður í að fela sig í feluleik

Góður í frjálsum íþróttum

Liðugur

Góður í jazzballet

Sterkur

Góður söngvari

Góður leikari

Kostir:

Sterk

Góður í fótbolta

Góð í marki

Góður í handbolta

Góður í glímu

Góð í karate

Góður söngvari

Góður leikari

Góður í lyftingum

Góður í frjálsum íþróttum

Góð í júdó

Góður í boxi

Liðugur

Fyrirmyndir:

Ólafur Stefánsson

Nicole Kidman

Uma Thurman

Jón Arnór Stefánsson

Liv Tyler

 

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Bjarki Sigurðsson

Gróttu stelpurnar

Tom Cruise

Johnny Galecki

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Gróttu stelpurnar

Karate Kid

Kári Steinn

Selena Gomez

Fyrirmyndir:

Adele

Ólafur Darri

Margir júdómenn

Auðunn Jóns.

Christina Aguilera

Lauren í Glee

Út frá verkefninu komu skemmtilegar umræður. Til að mynda fannst nemendum áhugavert að sjá hve marga góða kosti útlitin áttu sameiginleg og töluðu nemendur um að útlit, kyn eða aðrir þættir höfðu greinilega ekki mikil áhrif á það hvað krakkar gætu gert, æft eða haft gaman af. Í þessum hópi nefndu nemendur til dæmis að það vera feitur eða grannur hafði lítið um það að segja hvort viðkomandi gæti orðið góður í frjálsum íþróttum. Í framhaldinu er gagnlegt fyrir kennara að draga fram fleiri atriði þar sem holdafar og líkamsstærð skiptir engu máli. Allir geta dansað, sungið, synt, o.s.frv. og leggja áherslu á að flest færni er óháð því hvort við erum hávaxin eða lágvaxin, gannvaxin eða feitlagin

Nemendur voru líka meðvitaðir um það að allar tegundir útlits ættu að þykja eðlilegar og fallegar þar sem við fæðumst ólík. Sumir eru dökkhærðir, aðrir ljóshærðir, sumir verða hávaxnir meðan aðrir verða lágvaxnir. Eins er holdafar okkar ólíkt frá náttúrunnar hendi.

Þetta verkefni getur verið góð leið til að hefja umræður um hve líkamsstærðir eru ólíkar og  hvort líkamsstærðin skipti endilega máli? Feit manneskja getur t.d. verið mjög liðug þótt það sé ekki partur af staðalmyndinni og grönn manneskja getur verið sterk. Allir geta dansað. Að mestu leyti veltur færni ekki á holdafari heldur á þjálfun og hæfileikum sem allir geta ræktað með sér.

Verkefni hvetur vonandi nemendur sem og okkur starfsmenn skólanna til að fagna fjölbreytileikanum.

Greinin birtist upphaflega á sjalfsmynd.com

 

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing

Mánudagur 16.12.2013 - 22:34 - 1 ummæli

Megrunarhátíð

excercise

Núna styttist í  megrunar“hátíðina“. Megrunar“hátíð“ kalla ég veisluna og fjörið á líkamsræktarstöðvum landsins í janúar og nokkra daga í febrúar. Mikill þrýstingur er á fólk að taka af sér hin svokölluðu jólaaukakíló og flykkjast margir í ræktina með það að markmiði. Flestar líkamsræktarstöðvar auglýsa „átaks“námskeið sem eiga að hjálpa fólki að styrkjast og grennast. Árangurssögur eru birtar með fyrir og eftir myndum þar sem fólk hefur misst fjölda kílóa á stuttum tíma.

Það er þó orðið ljóst að megrunariðnaðurinn vill lengja „hátíðina“ og berast okkur auglýsingar um námskeið til að ná af okkur kílóum FYRIR jól samanber; Í kjólinn fyrir jólin eða Jólakíló – Nei takk sem er nýjasta útspil líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar. Á heimasíðu Hreyfingar kemur fram að námskeiðið Jólakíló – Nei takk sé fjögurra vikna námskeið þar sem unnið er að því að fyrirbyggja hin árlegu „jólakíló“. Markmiðið er að komast í gott form fyrir jólin til að geta notið þess að borða góðan mat án þess að sitja uppi með aukakíló og vanlíða

Námskeiðið er auglýst sem sérstakt kvenna-námskeið og kemur fram í námskeiðslýsingu að það sé sértaklega fyrir ÞÆR sem vilja fyrirbyggja hin árlegu jólakíló. Þessi auglýsing Hreyfingar er gott dæmi um þann mikla þrýsting sem fólk og þá sérstaklega konur finna fyrir um að líta út á ákveðinn hátt.

Til að sýnast enn áreiðanlegri auglýsa sum fyrirtæki „langtímaárangur“. Þá eru oft fyrir og eftir myndir birtar og sögur um fólk sem viðhélt þyngdartapinu í marga mánuði, jafnvel ár.

En hvað köllum við langtímaárangur? Er það góður árangur að léttast um einhver kíló, taka við hrósum og hamingjuóskum en þegar frá líður fer hrósum ört fækkandi og jafnvel vandræðaleg þögn fylgir í kjölfarið þar sem kílóin hafa læðst aftur á okkur hvert á fætur öðru, flestum til ómældrar gremju? Er það góður árangur að festast í jójói megrunar, léttast og þyngjast á víxl, strengja sama megrunaráramótaheitið ár eftir ár?

Ég man ekki til þess að hafa séð einustu auglýsingu með fyrir og eftir myndum þar sem árangurinn hélst í mörg ár. Hvað þá myndir af hópi fólks sem viðhélt þyngdartapi sínu til margra ára. Raunveruleikinn er nefnilega sá að flestir bæta á sig kílóum eftir þyngdartap og verða jafnvel þyngri en fyrir megrunina þegar árin líða. Fjöldi rannsókna sýna einnig að við getum hreinlega ekki stjórnað þyngd okkar eins mikið og við höldum, þar sem líffræðilegir þættir hafa mun meira um þyngd okkar að segja en megrunariðnaðurinn vill viðurkenna.

Til er fjöldi rannsókna um megrun sem sýna að langtímaárangur er lítill. Einnig eru til rannsóknir sem sýna að það að hugsa vel um líkama sinn og hreyfa sig reglulega hefur jákvæð áhrif á okkur andlega og líkamlega. Þau jákvæðu áhrif sem þyngdartap á að hafa geta að miklu leyti náðst með því að hugsa vel um sig og hreyfa sig óháð líkamsþyngd. Til hvers þá að strengja aftur og aftur það áramótaheit að grennast, vitandi að það hefur ekki tekist hjá mörgum hingað til?

Ef markmiðið er að bæta líkamlega og andlega heilsu en ekki að brjóta sig niður fyrir misheppnaða megrunartilraun, af hverju ekki þá setja sér annars konar markmið? Til dæmis að lifa heilbrigðu lífi, hreyfa sig ánægjunnar vegna og njóta alls þess góða sem lífið hefur að bjóða?  Það er eitthvað sem við höfum mun meiri stjórn á en líkamsþyngd okkar.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Megrun · Þyngdarstjórnun

Mánudagur 21.10.2013 - 14:51 - 10 ummæli

Leikskólabörn á lágkolvetnakúr?

kindergarten

Í hvert skipti sem nýtt megrunaræði grípur um sig meðal Íslendinga hugsa ég með skelfingu til allra þeirra barna sem munu nú þurfa að alast upp við þrúgandi megrunar- og holdafarsáherslur á heimilinu. Þau munu fá að kynnast endalausu tali um kíló, fituprósentu, brennslu, hitaeiningar og hvaða matartegundir séu óhollar, fitandi, bannaðar eða beinlínis hættulegar. Þegar ég starfaði við meðferð átraskana kynntist ég því vel hvaða áhrif slíkar áherslur geta haft á börn. Þau einfaldlega læra það sem fyrir þeim er haft og vaxa úr grasi í aukinni hættu á að þróa með sér átvandamál þegar fram líða stundir.

Til þess að ala upp heilbrigð börn er mikilvægt að þau fái holla og góða næringu, en það er ekki síður mikilvægt að þau alist upp við heilbrigð og skynsamleg viðhorf til matar. Matur á að vera jákvætt fyrirbæri í lífum barna, ekki neikvætt, syndsamlegt, kvíðvænlegt eða hættulegt. Þau eiga að fá að njóta þess að borða og líta á mat sem uppsprettu orku, gleði og ánægjulegra samverustunda. Eitthvað sem mörg börn munu án efa fara á mis við í þeim uppgangi megrunar- og föstukúra sem hefur átt sér stað undanfarið.

Í síðustu viku birtist frétt um að séróskir foreldra um mataræði barna í leikskólum hafi aukist mjög á undanförnum árum. Vel má vera að oft séu eðlilegar ástæður þar að baki, svo sem fæðuóþol, trúarsiðir eða ofnæmi. Hins vegar má einnig gera ráð fyrir því, miðað við þau óttablöndnu viðhorf til matar sem margir virðast hafa tileinkað sér nú á dögum, að stundum liggi fátt annað að baki slíkum kröfum en matarfælni og áttruflanir foreldranna sjálfra. Það er mikilvægt að leikskólar séu á varðbergi gagnvart slíku og skoði málið vandlega ef foreldrar bera upp óhóflegar eða óeðlilegar kröfur um mataræði barna sinna. Í fyrrnefndri frétt kom fram að mikið hafi borið á óskum foreldra um að börn þeirra væru sett á kolvetna- eða fituskert fæði í leikskólanum. Þetta er óhugnanlegt ef rétt reynist og enn óhugnanlegra ef leikskólar verða í alvöru við slíkum beiðnum. Að ala leikskólabarn á megrunarfæði ógnar eðlilegum vexti þess, heilsu og þroska. Slíkar beiðnir ættu umsvifalaust að hringja varúðarbjöllum í hugum leikskólastarfsfólks. Það ætti aldrei að samþykkja mataræðiskröfur sem samræmast ekki næringarþörfum barna og beiðnir um slíkt ættu að vekja grunsemdir um aðbúnað og velferð barnsins. Ég vona að allir sem vinna með börnum geri sér grein fyrir því að þeim ber lagaleg skylda til þess að tilkynna til barnaverndar ef grunur vaknar um að barn búi við aðstæður sem ógna heilsu þess og velferð.

Það er óhugnanlegt að vita til þess að smitsjúkdómar, sem hafa ekki sést áratugum saman á Vesturlöndum, séu að koma fram aftur vegna þess að foreldrar láta ekki bólusetja börnin sín. Þessi staða hefði þótt fjarstæðukennd fyrir ekki svo löngu síðan. Ég velti því fyrir mér hvort einnig sé ástæða til þess að ætla að við munum á komandi árum fara að sjá merki um hörgulsjúkdóma sem hafa ekki sést áratugum saman sökum þess að börn séu í vaxandi mæli alin upp á sérviskulegum matarkúrum?

Það er mikilvægt að þeir sem vinna með ungum og jafnvel ómálga börnum beiti gagnrýnni hugsun þegar kemur að kröfum og óskum foreldra um mataræði þeirra. Ég efast ekki um að oft eigi séróskirnar rétt á sér en það er samt mikilvægt að skýr rökstuðningur liggi fyrir ef halda á tilteknum fæðutegundum frá börnum. Velferð barnsins verður alltaf að ráða.

Flokkar: Heilbrigt samband við mat · Megrun · Þyngdarstjórnun

Föstudagur 18.10.2013 - 16:08 - Rita ummæli

Saumaklúbburinn

girls-talking

Ég sit og spjalla við vinkonur mínar, við njótum yndislegra rétta sem ein hefur útbúið og boðið upp á í saumaklúbbnum. Umræðuefnið spannar vítt svið, frá kennslu, fjármálum, uppeldi, strákum og fleira. Eitt umræðuefni virðist þó ná athygli okkar allra og virðumst við allar hafa eitthvað til málanna að leggja, en það eru aukakílóin eða gallar við eigið útlit. Ein er í megrun, önnur nýbúin að losna við nokkur kíló, sú þriðja þolir ekki rassinn sinn, sú fjórða á erfitt með að losna við kílóin sem komu við barneignir, sú fjórða er ósátt við brjóstin og svo framvegis…. Þótt önnur málefnin en þau útlitstengdu séu áhugaverð og merkileg þá tökum við mismikinn þátt í þeim. Þær sem starfa í fjármálageiranum hafa margt um fjármálin að segja, við sem kennum höfum mikið um kennslu að segja og svo þreytum við eflaust barnlausu vinkonurnar með barnatali okkar… en að kvarta yfir kílóum eða líkama okkar, það kunnum við allar!

Ég stór efast um að vinkonuhópurinn minn sé afbrigðilegur, öðruvísi eða óvenjulegur, þannig að líklega má yfirfæra umræðuefnin úr okkar saumaklúbbi yfir á umræðuefni annarra saumaklúbba.

Kvartanir og tal um líkamann okkar, líkt og við konur festumst oft í, er kallað fitu- eða útlitstal. Á ensku kallast þetta Fat talk. Fitutal eða útlitstal er mun meira einkennandi meðal kvenna en karla (enda þætti okkur eflaust mjög sérkennilegt að heyra hóp karla kvarta og kveina yfir appelsínuhúð, maga eða slitum, þótt eflaust einhverjir geri það þó).

Fitutal virðist í fyrstu vera ósköp meinlaust tal meðal vinkvenna, en áhrif þess hefur verið rannsakað og benda niðurstöður  til þess að samtöl sem þessi hafi neikvæð áhrif á líðan okkar og líkamsmynd. Að kvarta ítrekað yfir eigin líkamsvexti, oft með það að markmiði að leita að sannfæringu um eigið ágæti,  eykur bara vanlíðan okkar yfir vextinum en ekki öfugt. Fitutal getur einnig verið mjög smitandi, við erum því ekki ein um að verða fyrir barðinu á neikvæðum áhrifum fitutals.  Fitutal annarra eykur líkur á því að við tölum illa um okkar eigin líkama sem síðan hefur neikvæð áhrif á líðan.

Að deila áhyggjum sínum og hugsunum með bestu vinkonunum er vonandi sjálfsagður hlutur hjá flestum og getur það haft gríðarlega góð áhrif. Það er ómetanlegt að eiga góða að sem hægt er að nöldra í, gráta hjá og hlæja með. Mikilvægt er þó að hafa í huga að fitutal getur verið smitandi og hefur ekki þau áhrif sem við flest öll teljum að það hafi þ.e. bæti líkamsmynd okkar og líðan þar sem við fáum mótrök við kvörtunum okkar. Ef einhver hefur áhyggjur af aukakílóunum eða lýsir óánægju með líkama sinn er algengasta svarið við því oftast eitthvað á þessa leið: „Nei, hvaða vitleysa, þú ert ekkert feit!“ og jafnvel nefnir sá sem er að svara kvörtununum eigin útlitsgalla í kjölfarið. Með þessum hætti festumst við í vítahring fitutals og getum átt erfitt með að losna úr samtölunum.

Með því að þekkja neikvæðu þætti fitutals getum við einbeitt okkur að því að minnka eða stöðva slíkt tal og verja tíma okkar með vinkonunum í skemmtilegri umræður. Það hefur reynst vel að ræða við vinkonurnar um það hve slæmt umræðuefnið er, benda þeim á hversu mikil neikvæð áhrif fitutalið hefur á líðan okkar og sjálfsmynd eða hreinlega breyta umræðuefninu, tala um eitthvað áhugaverðara eins og veðrið eða stjórnmál 😉

Flokkar: Líkamsmynd · Líkamsvirðing · Megrun · Útlitskröfur

Mánudagur 14.10.2013 - 20:35 - 2 ummæli

Fordómavekjandi umfjöllun fjölmiðla um offitu

headless fatties

Ég hef stundum verulegar áhyggjur af fréttaflutningi um offitu og hvernig hann hefur áhrif á líkamsmynd fólks og viðhorf gagnvart feitu fólki. Í fjölmiðlum hafa fréttir af „offitufaraldri“ aukist til muna síðan á 9. áratugnum. Fjölmiðlum finnst viðeigandi að nota orð sem í fortíðinni hefur verið notað yfir banvæna smitsjúkdóma eins og svarta dauða eða spænsku veikina, sem þurrkuðu út heilu kynslóðirnar. „Offitufaraldurinn“ er ekki hefðbundinn faraldur, því með þessari gerð af faraldri þarf fólk ekki lengur að sýna nein merki um veikindi til að vera talið í heilsufarslegri hættu. Þessi faraldur er birtur í fjölmiðlum sem vandamál þjóðarinnar og er birtur sem vísindalegur raunveruleiki, þó að gagnrýnisraddir hafi ítrekað bent á að holdafar sé ekki mælikvarði á heilsufar. Í mörgum tilvikum er þetta greinileg æsifréttamennska, eins og bent hefur verið á áður hér á síðunni. Oft eru birtar greinar á vefmiðlum landsins sem hvetja til alls konar vafasamra leiða til þyngdartaps, eins og það sé einhvers konar náttúrulögmál að fólk sé tilbúið að gera ALLT til að grennast – því það er auðvitað svo hræðilegt að vera feitur. Sjaldan eða aldrei er fjallað um siðferðislegar hliðar slíks áróðurs eða hvernig slíkur áróður gæti haft áhrif á félagsleg auðkenni og líf fólks. Skilningur á víðara menningarlegu samhengi í umræðu um heilsu, þyngd eða líkamsfitu er nánast hvergi að finna í fjölmiðlum. Hræðsluáróður um skaðsemi líkamsfitu getur haft þær afleiðingar að feitt fólk einangrast og verður fyrir fordómum, svo ekki sé minnst á skaðleg áhrif á líkamsmynd fólks.

Eitt einkenni fréttaflutnings um offitu eru myndir af líkömum feits fólks. Þessar myndir ýta undir fordóma, því fólkið á myndunum er oft sýnt borða ruslfæði, myndin er tekin aftan frá þar sem lögð er áhersla á stóra líkamsstærð, eða höfuðið er einfaldlega klippt burt af myndinni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort fólkið á myndunum hafi gefið leyfi fyrir þessari myndatöku. Á þennan hátt er feitt fólk sýnt sem táknmynd samfélagslegs vandamáls og þeirra eigin raddir, tilfinningar og skoðanir um það að vera feitur fá aldrei að heyrast. Með því að birta myndir af höfuðlausu feitu fólki á þennan hátt er verið gefa í skyn að að heimurinn væri betri án feits fólks og ýta enn frekar undir hræðslu samfélagsins á líkamsfitu. Rannsóknir sýna einnig að slíkar myndir af feitu fólki sem fylgja fréttum um offitu vekja fitufordóma hjá lesandanum, sama hvort fréttin sjálf gefi hlutlausar upplýsingar um offitu eða ekki. Því get ég ekki annað en sett spurningamerki við upplýsingagildi þessara mynda og hvort eini tilgangur þeirra sé að vekja hræðslu, hneykslan eða einfaldlega hatur. Ég hef til dæmis reynt, þegar mig vantar myndefni fyrir færslurnar mínar, að finna myndir sem sýna feitt fólk í jákvæðu ljósi eða stunda heilsusamlega hegðun. Það hefur tekist einu sinni. Ég fann eina mynd. Á öllu internetinu.

Félagslegar rannsóknir á fjölmiðlaumfjöllun um offitu sýna að offita er álitin samfélagslegt vandamál sem kosti samfélagið háar fjárhæðir. Um leið er skuldinni enn skellt á einstaklingana, þ.e. sú hugmynd að holdafar sé alfarið undir stjórn einstaklingsins er enn samþykkt. Þannig er feitt fólk látið bera ábyrgð á samfélagslegu „vandamáli“ því persónulegar orsakir og lausnir við offitu einkenna fréttaflutning. Í þau fáu skipti sem feitt fólk fær að láta í sér heyra er þegar því tekst að grenna sig. Einstaklingssögur af fitutapi ýta hins vegar enn frekar undir þá hugmynd að eina leiðin til betri heilsu sé með þyngdartapi og að allir geti grennst – ef þeir bara reyna nógu mikið. Í raun fáum við ítrekað þau skilaboð að feitt fólk sé ekki velkomið í okkar samfélagi. Þessi skilaboð eru reyndar yfirleitt sykurhúðuð með umhyggju eða áhyggjum af heilsufari fólks.

Sýnt hefur verið fram á að fjölmiðlar leika mikilvægt hlutverk í að miðla upplýsingum um heilsu til almennings. Með röngum upplýsingum og ljósmyndum sem vekja neikvæðar tilfinningar getur fréttaflutningur því haft alvarlegar afleiðingar. Við viljum öll bæta heilsufar þjóðarinnar en öfgakenndur hræðsluáróður um skaðsemi líkamsfitu er til þess fallinn að valda meiri skaða en bót. Ég vildi því óska þess að íslenskir fjölmiðlar fari að sýna gagnrýna hugsun og virðingu fyrir fjölbreytni í líkamsvexti.

Flokkar: Fitufordómar · Staðalmyndir · Stríðið gegn fitu

Mánudagur 7.10.2013 - 10:40 - 3 ummæli

Á að segja börnum að þau séu of feit?

happy_kidsÉg lenti í samræðum um þetta um daginn. Ef börn eru of feit, af hverju má ekki segja þeim það? Hvernig á eiginlega að tala við börn um holdafar? Á að telja öllum börnum trú um að þau séu grönn?

Það er flókið og erfitt mál að ræða holdafar í dag vegna þess að holdafar er svo gríðarlega félagslega og tilfinningalega hlaðið fyrirbæri. Mörgum, ef ekki flestum, sem vaxnir eru út fyrir ramma samþykktra líkamsviðmiða líður illa yfir því. Og flestir sem eru feitir vita af því, þannig að hver er tilgangurinn með því að draga fram það augljósa?

Ég held að það sé líka aðalspurningin: Hver er tilgangurinn? Er tilgangurinn að láta barnið vita að það sé eitthvað að því? Að líkami þess sé vandamál? Eða er tilgangurinn að hjálpa barninu að sættast við sjálft sig?

Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki tekist á við þá félagslegu og tilfinningalegu merkimiða sem fylgja því að vera feitur með því að telja öllu feitu fólk (og börnum) trú um að þau séu í raun ekki feit. Þau vita betur. Og á meðan það er litið neikvæðum augum að vera feitur þá mun þeim líða illa yfir því. Svo það er það sem þarf að breytast. Ekki merkimiðinn sjálfur heldur hvað hann þýðir.

Ég er lágvaxin. Ég er svo lágvaxin að ég er lægri en allir sem ég þekki, að börnum undanskildum. Ég held að dóttir mín hafi verið 10 ára þegar fyrstu vinkonur hennar fóru að gnæfa mér yfir höfuð. Ég næ ekki upp í næstneðstu hillurnar í eldhússkápunum mínum og þarf því að þvælast um með koll ef ég er að elda. Það má alveg segja að hæð mín sé „óeðlileg“ ef miðað er við þessar upplýsingar. Þegar ég vann með börnum og unglingum var ég meira að segja einu sinni spurð (af barni) hvort ég væri unglingur eða fullorðin, þannig að það má líka færa rök fyrir því að mögulega hafi hæð mín truflað trúverðugleika minn í vinnunni. Mér hefur hins vegar aldrei liðið illa yfir því að vera lítil. En ég held að það sé að stórum hluta vegna þess að ég er kona. Það er í lagi fyrir konur að vera litlar. Það er að minnsta kosti ekki almennt álitið neikvætt. Ef ég væri karlmaður þá væri sagan mögulega öðruvísi. Mögulega myndu ofangreind atriði trufla mig ef ég væri karlmaður. Ég væri væntanlega aðeins stærri en ég er núna ef ég væri karlkyns en ég væri samt lítill. Og karlmenn eiga ekki að vera litlir heldur stórir og sterkir. Rannsóknir sýna meira að segja að lágvaxnir karlmenn eiga erfiðara með að fá vinnu en hávaxnir, fá síður stöðuhækkun og fá lægri laun. Já. Þegar ég hugsa út í það þá er ég rosalega fegin að vera ekki karlmaður. En synir mínir eru það. Og þeir eru lágvaxnir líka.

Vitandi hvað bíður þeirra ef þeir vaxa úr grasi, alltaf minnstir í bekknum, og verða síðan lágvaxnir fullorðnir menn, þá er það eina sem ég get gert að stappa í þá stálinu. Hjálpað þeim að þróa með sér jákvæða sjálfsmynd út frá þeim mörgu styrkleikum og kostum sem þeir hafa til að bera. Ekki gera hæð þeirra að neinu aðalatriði en ekki vera heldur með neina vitleysu ef þeir viðra áhyggjur eða leiða yfir hæð sinni. Ég segi ekki: „Hvaða vitleysa, þú ert ekkert lítill“. Þeir vita að þeir eru litlir. Ég er sjálf lítil. Að halda öðru fram er bara kjánalegt. Það sem ég segi er að já, þeir séu frekar lágvaxnir en það sé ekkert að því að vera lítill. Fólk sé allskonar. Og svo er gott að spyrja af hverju þeir séu yfirleitt að hugsa um þetta. Gerðist eitthvað? Sagði einhver eitthvað? Er eitthvað að gerast í þeirra félagslega umhverfi sem ég þarf að bregðast við?

Ef börnin mín væru feit þá hugsa ég að ég myndi nálgast málið á sama hátt. Ég myndi hins vegar aldrei segja þeim að þau væru „of“ feit. Það er ekki það sama. Það felur í sér neikvæðan dóm. Ef þú ert „of“ eitthvað þá er eitthvað að þér. Ég segi sonum mínum ekki að þeir séu „of“ litlir þrátt fyrir að þeir skeri sig úr meðaltali íslenskra barna. Þeir eru bara nákvæmlega eins og náttúran skapaði þá. Þeir eiga ættarsögu um lága líkamshæð. Að ætlast til þess að þeir verði öðruvísi er ekki raunhæft. Þeir verða að mega vera litlir og þeim verður að geta liðið vel með það. Til þess þarf þýðing merkimiðanna að breytast. Það verður að vera í lagi að vera lítill. Það verður að vera í lagi að vera feitur. Annars erum við að dæma öll börn sem eru ekki vaxin samkvæmt meðaltali til að vaxa úr grasi sem brotnir einstaklingar, alltaf ósátt við að vera eins og þau eru. Það eru ekki örlög sem ég óska neinu barni.

Það er vert að minnast á að vissulega hefur orðið „feitur“ neikvæða merkingu í okkar samfélagi. Það þarf því að fara varlega í hvernig það er notað. Við ættum til dæmis aldrei að nota þetta orð í neikvæðu samhengi. Við ættum heldur ekki að ota því að börnum að fyrra bragði að þau séu feit. En ef þau spyrja þá þurfum við að svara. Ef okkur líður illa við að nota merkimiða yfir börnin okkar þá getum við bara sagt þeim að þau séu fullkomin eins og þau eru. Stundum er það einfaldast, sérstaklega þegar börn eru ung. Fyrir eldri börn gæti þetta hins vegar virkað eins og við værum að forðast umræðuefnið, svipað og að segja „hvaða vitleysa, þú ert ekkert feit“. Kannski situr barnið áfram með þá vitund að það sé feitt en að það sé svo slæmt að það megi ekki einu sinni ræða það. Við gætum líka ákveðið að nota önnur orð eins og „þéttur“ eða „stór“ í staðinn fyrir „feitur“ en þar er líka ákveðin hætta. Hún er sú að ef merking þess að vera feitur er áfram neikvæð þá munu öll orð sem tekin eru upp yfir þann líkamsvöxt líka öðlast neikvæða merkingu með tímanum. Ég sé því málið ekki leysast þannig. Ég sé lausnina felast í því gera það sama og við gerðum við orð eins og hommi og píka. Orð sem voru hreinlega blótsyrði fyrir ekki svo löngu síðan en hefur markvisst og meðvitað verið breytt í hlutlausari orð yfir það sem þau þýða: Samkynhneigða karlmenn og kynfæri kvenna. Þau breyttust af því við fórum að nota þau öðruvísi. Merking orðsins „feitur“ þarf líka að breytast ef þeim sem eru feitir á einhvern tíman að geta liðið vel í eigin skinni. Þetta orð er ekki neikvætt í eðli sínu. Þetta er bara lýsingarorð eins og „lágvaxinn“ eða „skolhærður“. Ef við æfum okkur í að nota það þannig þá hættir það loks að meiða.

 

 

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing

Laugardagur 21.9.2013 - 18:41 - Rita ummæli

Er baráttan fyrir líkamsvirðingu loks farin að bera sýnilegan árangur?

Haust eru yfirleitt álitinn tími breytinga. Þá verða árstíðaskipti og veturinn fer að láta sjá sig með kólnandi veðri. Að loknu sumarfríi sest fólk aftur á skólabekk, sumir jafnvel í fyrsta skipti. Sumir setjast EKKI á skólabekk í haust í fyrsta skipti á sinni löngu ævi. Þetta á meðal annars við um mig en ég lauk loksins langri og strangri háskólagöngu í vor. Vinnumarkaðurinn fer á fullt og rútína kemst aftur á. Og ekki má gleyma líkamsræktarstöðvunum sem eru að fyllast af fólki sem ætlar sér að “komast í kjólinn/sjá tólin” fyrir jólin. Haustið 2013 virðist líka ætla að verða tími samfélagsbreytinga. Allavega ef við tökum mið af líkamsvirðingarboðskapnum. Svo virðist sem fólk sé loksins farið að verða opið fyrir þeirri hugmynd að þetta sé boðskapur sem eigi erindi við samfélagið, að þetta sé boðskapur sem skipti sköpum fyrir mannréttindabaráttu. Ég vil nefna fjögur dæmi sem renna stoðum undir þessa ályktun mína:

 

  1. Auglýsingaherferð Kellogs Special K hefur snúið við blaðinu og breiðir út þau skilaboð að við séum meira en bara buxnastærðin. Auglýsingar þessa “heilsu”morgunkorns hafa hingað til snúist um megranir og niðurskurð. Þessi viðsnúningur hefur svo miklu meiri áhrif en við teljum við fyrstu sýn. Sjáið til, stórfyrirtæki eins og Kellogs stunda nefnileg gríðarlega viðamikil rannsóknarstörf til að auglýsingar þeirra falli sem best í kramið á almenningi. Rannsóknir eru gerðar á stórum þversniðsúrtökum til að komast að áherslum og gildum þátttakenda. Tilgangurinn er aðeins einn og hann er að finna svarið við spurningunni: “hvaða auglýsingaboðskapur eykur helst líkurnar á því að fólk kaupi vöruna okkar og hámarkar þar með hagnað fyrirtækisins?”.  Þessi auglýsing segir okkur þannig að líkamsvirðingarboðskapur sé það sem fólk vilji sjá. Það eru áherslur sem virðist höfða svo  vel til almennings að líklegara er að hann skipti við fyrirtæki sem dreifir út slíkum boðskap frekar en megrunarboðskap…
  2. Ritstjórnarpistill Hlínar Einars á bleikt.is. Bleikt.is hefur að mínu mati ekki alltaf verið líkamsvirðingarvænasti vefur landsins. Smám saman hafa þó verið að laumast inn líkamsvirðingarvænar færslur á síðunni og þann 30. ágúst síðastliðinn birtist þar áðurnefndur pistill. Í pistlinum segir Hlín m.a.: “Minn draumur er að við verðum sem flestar sáttar í okkar skinni og fögnum öllum líkamsformum, fögnum heilbrigðum lífsstíl sem hentar hverjum og einum.”. Hallelúja vinkona!! Það sem stendur kannski mest upp úr í þessum pistli er að Hlín þorir að nota orðið “líkamsvirðing”. Ég hef fundið fyrir ákveðnum ótta í kringum notkun orðsins, rétt eins og sumir þora ekki að kalla sig “feminista”. Í báðum tilfellum er þessi ótti byggður á misskilningi hvað varðar merkingu hugtakanna. Þessi ótti er vel skiljanlegur ef við höfum í huga hve margir trúa því að líkamsvirðingarsinnar séu að berjast fyrir aukinni tíðni kransæðastíflna og kæfisvefns. Það er helber misskilningur…sem er efni í aðra bloggfærslu.
  3. Þetta hérna. Flick My Life er með vinsælustu grínvefjum landsins og ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að markhópurinn sé í yngri kantinum. Vefurinn tekur við innsendum myndum og yfirleitt eru þetta myndir af skondnum mistökum eða einhverju sem lesendur telja ekki alveg fara saman við tíðarandann. Oft felst því í myndunum samfélagsleg gagnrýni með gamansömu ívafi. Í þessu tilfelli hefur árvökull lesandi vefsins komið auga á heldur betur fordómafulla lýsingu ruv.is á kvikmyndinni Shallow Hal eða eins og RÚV hefur íslenskað hana, Grunnhyggni Hal. Lýsingin hljóðar svo: “vitgrannur maður verður ástfanginn af akfeitri hlussu vegna innri fegurðar hennar”. Af titli færslunnar má ráða að sá sem sendi myndina inn hafi séð eitthvað athugavert við orðalagið “akfeitri hlussu”. Pressan.is nær síðan að orða betur hversu fjarstæðukennt þetta orðalag er. Ef þetta er ekki merki um það að líkamsvirðingarboðskapurinn og barátta gegn holdafarsfordómum hafi náð útbreiðslu þá veit ég ekki hvað!
  4. Að lokum langar mig að minnast á muninn á viðbrögðunum við þessum líkamsvirðingarpistli mínum og þessum hérna (og já ég veit alveg að þeir birtust í byrjun árs en ekki í haust. Ég ætla samt að nefna þetta dæmi). Eins og sjá má er boðskapur seinni pistilsins algjörlega andstæður hins fyrri. En takið eftir einu; líkamsvirðingarpistilinn hefur, þegar þetta er skrifað, fengið 4.793 “læk” á samskiptamiðlinum Facebook á meðan ó-líkamsvirðingarpistilinn hefur aðeins fengið 229 “læk”. Báðir pistlarnir eru birtir á mjög svipuðum tíma og því er ekki um tímamismun að kenna, þ.e. að seinni pistillinn hafi einfaldlega ekki haft tíma til safna nógu mörgum lækum. Það er greinilegt hvor boðskapurinn höfðar betur til íslensks almennings.

 

Að þessu sögðu get ég ekki annað en ályktað að almenningur sé orðinn opnari gagnvart hugtakinu “líkamsvirðing”. Margt hefur áunnist og nú erum við loksins komin að þeim tímapunkti þar sem meðbyrinn með líkamsvirðingarbaráttunni virðist ætla að verða allavega jafn mikill og mótbyrinn. En svo ég vitni aftur í nýja vinkonu mínu, hana Hlín Einars: “Raddir sem hvetja til líkamsvirðingar hafa orðið æ háværari enn sem komið er, en betur má ef duga skal.” Þetta eru orð að sönnu, sérstaklega ef við hugsum til þess að tökur standa nú yfir á íslenskri útgáfu af The Biggest Loser. En það er samt sem áður eitthvað sem segir mér að innan um allt fólkið sem streymir inn á líkamsræktarstöðvar um þessar mundir til að komast í kjólinn eða sjá í tólin, sé hærra hlutfall fólks en til að mynda haustið 2012, sem ætlar sér að vinna að líkamlegri og andlegri vellíðan frekar en þyngdartapi. Sem ætlar að stunda líkamsrækt óháð kílóatapi eða fituprósentu heldur til þess að gera einmitt það sem felst í orðinu líkamsrækt; að rækta líkama sinn. Ég tel einnig að margir muni bæta við dassi af líkamsvirðingu og að þeir ætli að öðlast sátt við líkama sinn hvernig svo sem hann lítur út. Til þeirra segi ég: Að bera einlæga virðingu fyrir líkama sínum er ævilangt ferli og í því felst mikil vinna. Vinnan fer að miklu leyti í hugarleikfimi, þ.e. að brynja sig fyrir og ígrunda þau látlausu megrunarskilaboð og holdafarsfordóma sem dynja á okkur daglegu. En ekki gefast upp! Því nú eru blikur á lofti og þessum neikvæðu skilaboðum virðist fara fækkandi. Þetta verður auðveldara. Og við í Samtökum um líkamsvirðingu ætlum svo sannarlega ekki að láta deigan síga. Við ætlum að halda vinnu okkar ótrautt áfram. Vonandi verður ykkar vinna við að öðlast líkamsvirðingu auðveldari fyrir vikið…

Flokkar: Bransinn · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Laugardagur 31.8.2013 - 13:48 - Rita ummæli

Gallabuxur og mannréttindi

going naked

Þessi pistill undirstrikar af hverju barátta fyrir líkamsvirðingu er mikilvæg. Fólk mun alltaf koma í mismunandi stærðum – meira að segja ef allir lifðu heilbrigðu og góðu lífi. Fjölbreytileiki mun alltaf einkenna hæð og þyngd fólks og við verðum að fara að skilja það. Jafnvel ef fólk grennist við að breyta lífsháttum sínum þá er það ekki svo að allir endi í kjörþyngd. Langt því frá. Heilbrigð þyngd er breytileg frá manni til manns.

Það er öllum mikilvægt að finnast þeir vera velkomnir í samfélagð og finna að það sé gert ráð fyrir þeim. Í verslunum, í flugvélum og farartækjum, innan sjúkrastofnana. Allsstaðar. Þegar þú finnur fyrir því að líkami þinn passar ekki einhversstaðar þá eru skilaboðin þau að það hafi ekki verið gert ráð fyrir fólki eins og þér. Að þú sért í raun ekki velkomin. Ef þú hefur ekki upplifað þá valdeflingu sem fylgir því að ná sáttum við líkama sinn og finnast eðlilegt að samfélagið geri það líka, þá mun þér líða eins og það sé líkama þínum að kenna að hann passi ekki. Og í stað þess að fyllast réttmætri reiði í garð umhverfis sem gerir ekki ráð fyrr þér, þá beinist reiði þín inn á við, í þinn eigin garð, og verður að skömm, sjálfsásökun og vonbrigðum yfir því að þú sért eins og þú ert.

En þú átt fullan rétt á að vera þú. Samfélagið á að gera ráð fyrir fjölbreytileika. Ef það gerir það ekki þá þurfum við að breyta því. Annars munu öll þau börn, unglingar, karlar og konur sem á eftir þér koma – og þau munu koma … í sínum margbreytilegu líkömum – þurfa að finna þessa sömu, sáru tilfinningu um að þau eigi ekki heima hérna. Rjúfum þessa keðju útilokunar og hættum að sakast við eigin líkama fyrir að vera mismunandi. Krefjumst þess frekar að gert sé ráð fyrir mismunandi líkömum.

Næst þegar þú lendir í þeirri stöðu að passa ekki einhversstaðar, þá hvet ég þig að hafa þetta hugfast. Þú ert ekki vandamálið heldur samfélagið sem gerir ekki ráð fyrir þér. Og því þarf að breyta.

 

 

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta · Tíska

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com