Þriðjudagur 27.8.2013 - 21:57 - 2 ummæli

Líkamsvirðingarskilaboð frá Special K

Þegar snyrtivörufyrirtækið Dove hóf að auglýsa vörur sínar með boðskap um jákvæða líkamsmynd og fjölbreytileika undir yfirskriftinni Real Beauty voru (og eru) á því ansi skiptar skoðanir. Sumum fannst fáránlegt að snyrtivörufyrirtæki héldi á lofti boðskap um heilbrigða líkamsmynd þegar það er á sama tíma að viðhalda þeirri hugmynd að hlutverk kvenna sé að vera fallegar. Aðrir fögnuðu því einfaldlega að milljónir kvenna, sem fá almennt aðeins þau skilaboð frá auglýsendum að þær séu ómögulegar – en geti bætt úr því með því að kaupa réttu vöruna – fái nú loks að heyra að þær séu í lagi eins og þær eru. Auglýsingar hafa mikil áhrif og það sé nú betra að áhrifin séu uppbyggjandi frekar en niðurrífandi.

Nú hefur annað fyrirtæki bæst í hóp þeirra sem virðast ætla að tengja sig við líkamsvirðingu. Fyrirtækið sem hefur um árabil sagt okkur að fara í megrun svo við getum passað í smærri gallabuxur…

…hefur nú snúið við blaðinu og heldur því fram að við séum annað og meira en bara buxnanúmer:

Eins og lög gera ráð fyrir er þessi auglýsing umdeild og mörgum finnst einstaklega falskt og ósvífið að fyrirtæki, sem hefur verið svo áberandi í megrunaráróðri að það er nú barasta hlægilegt, ætli nú að fá uppreisn æru með því að skjalla konur svolítið.

Meira að segja hefur því verið haldið fram að þessi hugmynd sé stolin úr herbúðum líkamsmyndaraktivista, sem eru að vonum ekki ánægðir með að erkifjandinn græði peninga á þeirra hugmynd. Og ekki í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum fór Special K af stað með herferðina What will you gain when you lose, þar sem hugmyndin um Vei! vigt kemur fyrir – en í öðrum búningi en upprunalega:

Vei! vigtin (Yay! scale) er uppfinning aktivistans Marilyn Wann, sem hefur hannað og selt slíkar vigtir í áraraðir til að hvetja fólk til að hætta að meta sjálft sig eftir tölu á vigtinn. Í herferð Special K var þessi fallega hugmynd hins vegar afskræmd með því að láta vigtina sýna hvað fólk myndi græða mikið á því að grennast: Sjálfstraust, gleði, lífsfyllingu. Þið skiljið af hverju þetta féll í grýttan jarðveg…

Engu að síður eru sumir þeirrar skoðunar, hvað sem öllum óþokkabrögðum líður, að það sé bara fagnaðarefni ef áberandi fyrirtæki á markaðnum, sem beinir sjónum sérstaklega að ungum konum, hverfi frá þeirri stefnu að auglýsa vörurnar sínar með megrunarboðskap. Það verður þá bara til þess að draga úr megrunarþrýstingi í samfélaginu og er það ekki hið besta mál?

Hvað finnst þér… kaupirðu þetta?

 

Flokkar: Bransinn · Líkamsmynd · Líkamsvirðing

Sunnudagur 28.7.2013 - 15:40 - 1 ummæli

Félagslegt misrétti í nafni heilbrigðis

I want you to lose some weigh_2

Í gær sagði fréttastofa BBC frá því að vísa ætti suður-afrískum manni úr landi í Nýja-Sjálandi fyrir þær sakir að vera feitur. Þessi maður vegur 130 kíló en þegar hann kom fyrst til landsins var hann 160 kg. Hann hafði því grennst um 30 kg. frá árinu 2007. Tekið var fram í fréttinni að þyngd mannsins auki hættu á því að hann þrói með sér háþrýsting, sykursýki eða hjartasjúkdóma – sem bendir til þess að hann þjáist ekki af þessum kvillum í dag. Ef hann hugsar vel um sig og einbeitir sér að því að lifa heilbrigðu lífi minnkar hættan á því að hann fái þessa sjúkdóma töluvert. Engu að síður er hann metinn óæskilegur og verður að líkindum gerður brottrækur.

Sú óhugnanlega staða virðist komin upp að heilsufar og holdafar fólks má nýta sem félagslegt kúgunartæki. Heilsa er ekki lengur eitthvað gott og fallegt, gæfa og blessun sem maður óskar sjálfum sér og öðrum, heldur eitthvað sem dregur fram ljótustu hliðar mannfólksins. Hún er hinn nýji grundvöllur félagslegrar flokkunar og stéttaskiptingar

Opinber áróður síðustu 15 árin um að feitt fólk sé heilsulaust og efnahagsleg byrði á samfélaginu hefur fest þá hugmynd í sessi að feitt fólk sé óæskilegir borgarar. Ef við erum heiðarleg þá verðum við að horfast í augu við að þessi samfélagslega árás, sem gengur undir nafninu „stríðið gegn offitu“ og er á kaldhæðnislegan hátt keyrð áfram í nafni heilsu og velferðar, hefur valdið gríðarlegum skaða. Hún hefur valdið því að feitt fólk er nú álitið óvinir samfélagsins – opinber skotmörk fordæmingar og fyrirlitningar samferðamanna sinna. Fólk sem ekki þykir vænlegt að ráða í vinnu af því það er álitið gangandi tímasprengjur. Fólk sem ætti að greiða hærri skatta af því það er svo dýrt í rekstri fyrir samfélagið. Fólk sem má koma fram við eins og annars flokks manneskjur.

Þeir heilbrigðisstarfsmenn, stjórnmálamenn, fræðimenn og fjölmiðlafólk sem kynt hafa undir þessa baráttu bera þunga ábyrgð. Kannski vissu þau ekki betur. En í dag á fólk að gera það. Í dag er ekkert sem réttlætir að áhrifamikið fólk hagi málflutningi sínum á þann hátt sem getur ýtt undir félagslega kúgun og óréttlæti.

Það er kominn tími til að binda endi á þetta grimmilega og siðlausa stríð. Þetta er ekki leiðin að heilsu og velferð.

 

 

Flokkar: Fitufordómar · Stríðið gegn fitu

Fimmtudagur 4.4.2013 - 19:37 - 2 ummæli

Bikinikroppur

bikini

Hverri árstíð fylgir iðulega regluleg áminning frá fjölmiðlum um að við þurfum að passa okkur að verða ekki feit. Fyrir jólin erum við vöruð við því að fitna yfir jólin og við fáum skýr skilaboð um að hátíðarhöld gefi engum leyfi til að sleppa því að hugsa um hitaeiningar. Ekki í eina einustu mínútu er okkur leyft það frelsi að borða eftir eigin matarlyst eða vera ánægð með líkamann okkar. Fyrir páska sjáum við greinar um hvernig væri hægt að forðast að fitna um páskana. Eftir hátíðirnar fáum við síðan endalaus skilaboð um hvernig við eigum að losna við þau kíló sem við mögulega bættum á okkur yfir hátíðarnar.

Nú fer að koma sumar og þá er ekki seinna vænna en að fjölmiðlar og sjálfskipaðir heilsugúrúar fari að bretta upp ermarnar og ota að fólki auglýsingum og upplýsingum um hvernig eigi að öðlast hinn eina sanna bikinikropp. Það er nefnilega eins gott að þú látir ekki sjá þig á baðfötunum ef þú samsvarar ekki hugmyndum samfélagsins um hinn fullkomna líkama. Krafa samfélagsins um nánast fitulausan líkama hefur orðið til þess að mörgum finnst ekkert jafn niðurlægjandi og erfitt en að þurfa að opinbera líkama sinn í baðfötum. Mikill kvíði og vanlíðan fylgir því að standa í mátunarklefa og máta baðföt fyrir sumarið og margir fara í megrun til að reyna að minnka þessa vanlíðan.

Ég varð því himinlifandi þegar ég sá þessa grein sem vegur á móti þessum hugmyndum. Eins og höfundur greinarinnar kemst að orði: „We happen to believe that if you’re physically able to put on a bathing suit, you’re bikini-ready.“ Bikinikroppar eru alls konar, eins og sést á þessum myndum. Ég mæli með því að þið skoðið þessar myndir sem sýna konur af mörgum stærðum og gerðum, klæddar í baðföt, að skemmta sér í sólinni. Það þarf ekki að þröngva líkamanum í neitt ákveðið form til að geta notið sumarfrísins í sátt við sjálfan sig. Áfram alls konar!

Flokkar: Fjölbreytileiki · Staðalmyndir · Útlitskröfur

Föstudagur 29.3.2013 - 13:00 - Rita ummæli

Heilsa óháð holdafari og Hvíta húsið

LetsMovePeeps

Ég hef áður ritað um „Let’s move“ herferð Michelle Obama og lýst áhyggjum mínum af yfirlýstu markmiði hennar um að „útrýma offitu barna á einni kynslóð“. Svona yfirlýsingar eru bæði óábyrgar og óraunhæfar af því offitu (það er að segja feitu fólki) á ekkert að útrýma og verður aldrei útrýmt. Heilbrigðisboðskapur á ekki að snúast um útrýmingu tiltekinna líkama heldur um að hver manneskja, hvernig sem hún er vaxin, geti lifað sem heilbrigðustu og hamingjusömustu lífi miðað við sína persónulegu styrkleika og takmarkanir. Við erum öll mismunandi.

Michelle Obama virðist loks vera búin að ná þessu. Kannski hafa gagnrýnisraddir undanfarinna ára náð eyrum hennar og kannski er hún svo vel gerð að hún hlustar. Í það minnsta talar hún nú um að allir líkamar séu mismunandi og að heilsuefling eigi ekki að snúast um holdafar heldur um heilbrigðar lífsvenjur. Forsetafrúin sat nýlega fyrir svörum í þættinum „Fireside Hangout“ þar sem  kemur skýrt og greinilega fram að hún telji réttu leiðina að heilsu og velferð barna vera einfaldlega að skapa þeim heilbrigt umhverfi þar sem hollur matur er á borðum og hreyfing er gerð að skemmtilegum leik. Það sé engin þörf á að minnast einu orði þyngd eða holdafar. Hún telur sérstaklega mikilvægt að áherslan sé lögð á hegðun en ekki holdafar í ljósi þess að við viljum ekki ýta undir fitufordóma eða þyngdarþráhyggjur meðal ungs fólks.

Ég á tvær ungar dætur. Við tölum aldrei um þyngd. Ég gæti þess sérstaklega. Ég vil ekki að börnin okkar verði upptekin af þyngdinni. Ég vil að þau einbeiti sér að þessu: Hvað þarf ég að gera, í þessum líkama – af því allir líkamar eru mismunandi, líkami hverrar manneskju er ólíkur – hvað þarf ég að gera svo ég verði eins heilbrigð (ur) og ég get orðið.

Það lá við að ég klökknaði. Ein áhrifamesta kona heims að tala á svona ótrúlega skynsamlegan og mannúðlegan hátt um heilsu og holdafar. Eitthvað sem sárvantar svo í alla umræðu af þessu tagi sem enn einkennist svo mikið af virðingarleysi og fjandsamleika í dulbúningi „heilbrigðisumræðu“.

Frú Obama hefur alveg misstigið sig áður. Og, já, það er enn talsverður fókus á holdafar á heimasíðu Let’s move átaksins. Kannski er hún ekki alveg búin að ná þessu. En samt. Hvílík vatnaskil.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Samfélagsbarátta

Sunnudagur 27.1.2013 - 14:02 - Rita ummæli

Leiðarvísir að heilsurækt óháð holdafari

Ég hef nokkrum sinnum verið beðin um leiðbeiningar varðandi hvernig hægt er að stunda  heilsurækt án þess að áherslan sé á þyngd eða þyngdarbreytingar. Það er sáraeinfalt. Þú gerir bara nákvæmlega það sama og venjulega nema þú sleppir því að pína líkama þinn, hunsa þarfir hans eða rembast við að breyta honum.

Í praxís lítur þetta svona út. Þetta er ekki tæmandi listi því það er hægt að hugsa vel um og hlúa að líkama sínum á endalaust marga vegu. Allt lýtur þó að því sama – að láta þér líða vel:

1. Farðu í ræktina, út að ganga, hlaupa, hjóla eða synda. Það skiptir ekki öllu hvað þú gerir svo lengi sem þú gerir eitthvað og hafir gaman af því.

2. Gerðu eingöngu það sem lætur þér líða vel og styrkir þig. Hlustaðu á merki líkamans um þreytu eða verki og farðu eftir þeim. Aldrei pína líkama þinn eða ganga fram af honum.

3. Ekki bera þig saman við aðra. Það sem aðrir gera og geta á ekki við um þig. Þú ert þú og þau eru þau.

4. Ekki mæla árangur þinn með vigt eða málbandi. Finndu árangurinn innan í þér í því hvernig þér líður á meðan þú ert að hreyfa þig og eftir hreyfingu, hvernig styrkur þinn, sveigjanleiki og þol eykst og hvernig þú getur hlaupið hraðar, synt lengur og lyft þyngri hlutum en þú gast áður.

5. Ekki setja þér markmið um útlitsbreytingar og ekki líta á þær sem tilganginn með því að lifa heilbrigðu lífi. Þú hefur litla stjórn á því hvernig þú lítur út en þú hefur talsverða stjórn á því sem þú gerir og hvernig þú lifir. Það er viturlegt að læra að gera greinarmun á þessu tvennnu.

6. Heilsurækt er eins og tannburstun. Takmarkinu verður aldrei náð. Þetta er einfaldlega eitthvað sem þú þarft að gera alla ævi til að halda þér hraustum. Því fyrr sem þú áttar þig á þessu því betra. Þess vegna þarf sú heilsurækt sem þú velur þér að meika sens, vera ánægjuleg, viðráðanleg og henta þínu lífi. Þú myndir aldrei gera átak í því að bursta í þér tennurnar í nokkrar vikur og hætta því svo mánuðum saman þar til næsta átak hefst. Hugsaðu langt. Ævilangt.

7. Nærðu þig á mat sem þér líður vel af. Hlustaðu á líkama þinn á meðan þú borðar og eftir máltíð. Stundum bragðast matur vel en líkamleg líðan eftir á segir þér að þessi matur geri þér ekki gott. Og öfugt. Stundum finnst þér matur ekki bestur í heimi en þú finnur á líðan þinni að þetta er matur sem gerir líkama þínum gott og stuðlar að vellíðan.

8. Ekki neita þér um nauðsynlega næringu. Borðaðu þangað til þú ert södd/saddur og ekki fá samviskubit yfir því sem þú borðar. Þú átt rétt á því að borða og það er ekkert til að skammast sín fyrir. En borðaðu bara þegar þú finnur fyrir hungri. Ekki skerandi, nístandi, æpandi hungri, heldur mildum merkjum um að nú fari líkama þinn að vanta eldsneyti. Ef þig langar í mat þegar þú ert ekki svöng/svangur þá vantar þig ekki mat heldur eitthvað allt annað, eins og félagsskap, hvíld eða útrás.

9. Lærðu á líkama þinn. Það fylgja honum engar leiðbeiningar og allir líkamar eru mismunandi. Hlutverk hvers og eins okkar er að komast að því hvaða lífsvenjur henta okkar líkama og gera okkar besta til að tileinka okkur þær. Til þess þurfum við að hlusta á þau merki sem líkaminn gefur okkur, allan daginn, alla daga.

10. Lærðu að meta hvernig líkami þinn er bæði að utan og innan. Þú hefur kannski einhverjar fastmótaðar hugmyndir um hvernig hann ætti að vera, en þetta eru lærðar hugmyndir, byggðar á ytri kröfum, og yfirleitt ekki í neinum tengslum við veruleikann. Líkami þinn er eins og hann er. Það skiptir engu hvaða veikleika hann hefur, á meðan hjarta þitt slær er líkami þinn lifandi kraftaverk. Hann er duglegur og þrautseigur og gerir sitt á hverjum degi til að halda þér á lífi. Þú átt honum allt að þakka og hann á allt það besta skilið. Þar með talið ást, umhyggju og virðingu.

11. Njóttu lífsins og nærðu gleðina þína. Ef þú nýtur ekki lífsins skiptir fátt annað máli. Þetta gleymist oft í heilsurækt en þetta er það sem skiptir allra, allra, allra mestu máli. Lífsgleði og lífsgæði. Sama hvort líf þitt verður stutt eða langt, þá skiptir öllu að það hafi verið gott og þér hafi liðið vel. Geðheilsa er aðalatriði og ef „heilsurækt“ þín ógnar henni á einhvern hátt þá er það engin heilsurækt. Það er engin heilsa án geðheilsu.

Flokkar: Heilbrigt samband við mat · Heilsa óháð holdafari · Líkamsvirðing

Föstudagur 18.1.2013 - 09:59 - 3 ummæli

Janúarátak Samtaka um líkamsvirðingu

Janúar er mánuður átaka. Þetta er sá tími þegar fólk setur sér markmið og strengir þess heit að gera betur á nýju ári. Eitt algengasta áramótaheitið er að koma sér í form og er það eflaust eitt það besta sem fólk getur gert fyrir sjálft sig. Ef þau fjölþættu og jákvæðu áhrif hreyfingar á líkamsstarfsemina væri hægt að fá í lyfjaformi, þá væri þetta lyf gefið öllum, hvort sem þeir væru veikir eða heilsuhraustir, á hvaða aldri sem er, og bæði sem forvörn og meðferð. Allir hafa gott af hreyfingu og hún bætir ekki aðeins heilsufar heldur líka andlega líðan, minnkar streitu og vinnur gegn þunglyndi. Hreyfing bætir, hressir og kætir.

Það sorglega er þó að margir þeirra sem stefna að því að komast í form á nýju ári eru lítið með hugann við þetta heldur einblína fyrst og fremst á þær mikilfenglegu breytingar á útliti og þyngd sem hreyfingin á að framkalla. Fólk lofar sjálfu sér að það muni verða grennra, stæltara, flottara og fittara en í fyrra, eða eins og segir í líkamsræktarauglýsingunni, verða betri útgáfa af sjálfu sér. Maður kemst ekki hjá því að greina dapurlegan tón í svona loforðum. Þetta er andstæðan við að lifa sáttur í eigin skinni. Ef við trúum því að til þess að vera í lagi þurfum við að verða öðruvísi – eða að minnsta kosti betri útgáfa af okkur – þá þýðir það að okkur finnst við ekki í lagi eins og við erum. Þennan hugsunarhátt fóðrar megrunar-líkamsræktar-fegrunarmaskínan með endalausum flaumi auglýsinga sem segja allar það sama: Þú ert ömó. Breyttu þér!

Þetta er ekki góður grunnur til að byggja á. Það er ekki hægt að hlúa að líkama sínum og hata hann um leið. Hreyfing hefur endalausa kosti og hún mun hafa jákvæð áhrif á alla sem hana stunda af skynsemi, en hreyfing mun ekki gera okkur öll grönn. Það er ekki öllum ætlað að vera grannir. Breytingar á holdafari er það sem er erfiðast að ná fram og viðhalda í líkamsrækt en samt er þetta það markmið sem flestir einblína á. Vísindin segja okkur að fæstum þeirra, sem setja sér markmið um þyngdartap nú í byrjun árs, mun takast ætlunarverk sitt. Og það sem verra er, af því markmiðið var fyrst og fremst að breyta holdafari en ekki að bæta heilsu og vellíðan, þá munu flestir smám saman hætta að hreyfa sig þegar þeir komast að því hvað það er erfitt að grennast til langframa. Þetta er uppskrift að uppgjöf og vonleysi.

Janúarátak Samtaka um líkamsvirðingu snýst um dálítið annað. Við viljum koma þeirri hugsun áleiðis að hreyfing sé eitt það besta sem þú getur gert fyrir líkama þinn og hreyfing hefur gildi í sjálfri sér. Hún er ekki leið að öðru markmiði, hún er markmiðið. Hreyfing mun gera líf þitt betra, þú verður sterkari, hraustari, liðugri, úthaldsmeiri, hressari, glaðari og kraftmeiri manneskja. Þú munt sofa betur og þér mun líða betur. Hún er ókeypis í þokkabót og stendur öllum til boða hvenær sem er. Allir geta fundið hreyfingu við hæfi, hvernig sem þeir eru vaxnir, í hvernig formi sem þeir eru, hvernig sem heilsufari þeirra er háttað og sama á hvaða aldri þeir eru.

 

Michael Moore, heimildarmyndagerðarmaðurinn frægi, tók þá ákvörðun fyrir um ári síðan að fara út í göngutúr og hefur gert það daglega allar götur síðan. Um gönguferðir sínar segir hann:

Ég er oft spurður að því hvað ég sé búinn að missa mörg kíló af öllu þessu labbi. Fyrst skildi ég ekki spurninguna. Ég meina, af hverju skyldi ég vilja tapa einhverju? Mér finnst nógu erfitt að finna lyklana mína! En svo fattaði ég það — grannt fólk — þriðjungur fólksins í landinu mínu, vill að við hin verðum eins og þau. En hvað það er fallegt af þeim.

Hann ætlaði sér ekkert að grennast. Hann ákvað bara að fara út á hverjum degi og ganga í 30 mínútur, hvar sem hann væri staddur. Það er alltaf hægt að stela hálftíma, hvort sem það er í matartímanum í vinnunni, í sumarbústað uppi í sveit eða í erindagjörðum niðri í bæ. Og við það að fara í heilsubótargöngu á hverjum degi hefur margt frábært gerst í lífi Michael Moore. Hann hefur öðlast meiri orku til daglegra starfa, hann sefur betur og nýtur lífsins í ríkari mæli. Það bara þó nokkuð. Hverjum er ekki sama hvort hann grennist eða ekki? Þetta hefur hann sjálfur að segja um þyngdarþráhyggjuna:

Sannleikurinn er sá að líkamsrækt virkar ekki, megrun virkar ekki, það að líða ömurlega með sjálfan sig virkar ekki. Ekkert virkar. Mitt ráð er þess vegna: Hættu að reyna að vera eitthvað annað en þú ert, vertu ánægður með lífið sem þér var gefið og farðu í góðan göngutúr. … Stígðu niður af hlaupabrettinu, hættu að drekka diet kók og hentu út öllum reglunum. Þetta er allt saman plat sem heldur þér óhamingjusömum. Ef það stendur „fitusnautt“ eða „sykurlaust“ eða „aðeins 100 hitaeiningar!“, hentu því þá út. Mundu að eitt af grundvallaratriðum kapítalismans er að fylla neytandann ótta, óöryggi, öfund og óhamingju til þess að hann kaupi, kaupi, kaupi sér leið út úr ástandinu og, fjandinn hafi það, líði betur í smá stund. En okkur líður ekkert betur, er það? Leiðin að hamingjunni – og innst inni vitum við þetta – er kærleikur, umhyggja fyrir sjálfum sér, samvistir við annað fólk og að upplifa sig hluta af samfélagi, vera þátttakandi en ekki áhorfandi, og vera á hreyfingu. Hreyfast. Hreyfast allan daginn.

Hreyfing er ekki bara fyrir þá sem eru grannir eða ætla sér að verða grannir. Hreyfing er fyrir alla og hraustir líkamar eru af öllum stærðum og gerðum.

 


Flokkar: Fjölbreytileiki · Heilsa óháð holdafari · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Fimmtudagur 10.1.2013 - 10:10 - Rita ummæli

Heilsurækt í sátt við þyngdina

Flest okkar langar til að eiga langt líf við góða heilsu. Við vitum að til þess að auka líkurnar á því þurfum við að hugsa vel um líkama og sál. Við þurfum að borða hollan og góðan mat, mestan hluta af tímanum, og stunda hreyfingu. Því miður eru hins vegar margir sem leggja allt of mikla áherslu á þyngd sína sem mælikvarða á heilsu. Staðreyndin er sú að þyngd er ákaflega lélegur mælikvarði á heilsufar. Það er nefnilega vel hægt að vera feitur og í formi. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að megrun virkar ekki til langs tíma og langstærstur hluti fólks nær ekki að viðhalda þyngdartapi. Það eru því miklu fleiri ókostir við það að stunda heilsurækt með það markmið að létta sig, heldur en kostir. Marylin Wann, höfundur bókarinnar Fat! So?, bendir réttilega á nokkra af þeim óteljandi göllum við að vilja grenna sig:

  • Þú hugsar aðeins um mataræði og líkamsrækt þegar þú ert í „átaki“.
  • Þú gefst upp á að rækta líkama þinn þegar þú sérð ekki breytingu á vigtinni.
  • Þú hættir að stunda heilsurækt ef þú nærð að grenna þig í stuttan tíma, af því þér finnst að markmiðinu sé þegar náð.
  • Þú missir nokkur kíló með því að borða rétt og hreyfa þig, en ekki eins mikið og þú vonaðist til og grípur því til öfgakenndra aðferða sem leiða þig í ógöngur.
  • Þú heldur að líkamsrækt sé einungis ætluð grönnu fólki.
  • Þú uppgötvar að það er vonlaust að létta sig, svo þú hættir við alla heilsurækt.

Að mörgu leyti finnst mér það skiljanlegt að fólk vilji grennast og ég er ekkert endilega á móti þyngdartapi í sjálfu sér ef það gerist sem aukaverkun af því að taka upp heilbrigðari lífshætti. En margt getur farið úrskeiðis ef þyngdartap er þungamiðja lífsstílsbreytinganna og leitt til niðurstöðu sem er ekki endilega heilbrigð, eins og punktarnir hér fyrir ofan undirstrika. Það er miklu meira vit í því að stunda heilsurækt í þeim tilgangi að fá bætta heilsu, heldur en til þess að grennast. Betra er að einbeita sér að hegðuninni sjálfri og sleppa því að einblína alltaf á vigtina. Fólk virðist nefnilega oft telja að inni í hverjum feitum líkama búi grönn manneskja sem þurfi að frelsast undan fargi fitunnar. Þetta er misskilningur. Við fæðumst með mismunandi tilhneigingu til að fitna og holdafar ræðst af mörgum mismunandi þáttum sem falla alls ekki allir undir persónulega stjórn og rannsóknir benda til þess að erfðir spila stórt hlutverk. Líklega mun þín heilbrigða þyngd koma í ljós ef þú færð næga hreyfingu og borðar fjölbreyttan mat eftir merkjum svengdar og saðsemi. Einnig er viturlegt að fara hægt í breytingar og leyfa líkama og sál að venjast hverri breytingu í mánuð eða tvo. Kannski muntu missa einhver kíló, kannski ekki. Það mikilvægasta er að þú ert að koma vel fram við líkamann þinn. Því vil ég hvetja fólk til að slíta tengslin milli heilsuræktar og megrunarhugsana. Við eigum öll skilið að fá góða næringu, góða hreyfingu og gott heilsufar. Ef markmiðið er alvöru heilsurækt þá verður hugarfarið og tilfinningalífið líka að vera heilbrigt.

Flokkar: Fjölbreytileiki · Heilsa óháð holdafari · Samband þyngdar og heilsu · Þyngdarstjórnun

Fimmtudagur 27.12.2012 - 15:33 - Rita ummæli

Heilsutrend ársins 2012

 

Líkamsvirðing var talin upp sem eitt af heilsutrendum ársins 2012 í Fréttatímanum núna fyrir jólin…á eftir blandaðri bardagalist, steinaldarmataræði, Zumba og snorkli!

 „Heilbrigð líkamsímynd: Nokkur umræða skapaðist á árinu, á Íslandi jafnt sem ytra um tengslin á milli heilbrigðis og líkamsgerðar. Ljóst þykir að ekki sé endilega samasemmerki á milli líkamsstærðar og heilbrigðis. Með tilkomu samtaka um líkamsvirðingu voru augu almennings fyrir fitufordómum opnuð. Samtökin sendu svo erindi til stjórnsýslu og eftirlitssviðs Alþingis um mikilvægi þess að nefna holdafar meðal atriða sem talin eru upp, undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá“

Við erum upp með okkur yfir því að vera nefnd meðal þess sem hæst hefur borið í heilsufarsumræðunni á árinu sem er að líða. En við vonum samt, allra okkar vegna, að það verði meira en bara trend að líða vel í eigin skinni.

Við vonum að heilbrigð líkamsmynd og virðing fyrir fjölbreytileika sé komin til að vera og það verði jafn sjálfsagt að hlúa að sambandi barna við líkama sinn eins og að vernda sjálfsmynd þeirra – og það verði jafn sjálfsagt að bera virðingu fyrir fjöbreytileika holdafars eins og fjölbreytni á öðrum sviðum mannlífsins. Við bíðum eftir þeim degi þegar fitubrandarar verða jafn mikið turn off og kynþáttabrandarar, þegar megrun verður álíka fáránleg og afhommun og þegar ráðleggingar um hvernig hægt er að öðlast fullkomið útlit verða eins hallærislegar og leiðarvísar um háttvísi fyrir prúðar stúlkur. Þessar fordómafullu, hamlandi, idíótísku hugmyndir um hvernig við eigum að vera og ekki vera eru arfur fortíðar þegar fylgispekt var æðst allra gilda. Þær eru til ama og við höfum ekkert við þær að gera.

Við vonum því að líkamsvirðing verði eins og skokkið og jógað. Eitthvað sem var einu sinni framandi trend en festi rætur af því það gerir lífið betra. Líf án líkamsvirðingar er dapurleg tilhugsun og við vonum að þeir dagar sem við erum nú að upplifa verði síðustu leifar slíkrar tilveru.

Gleðilegt nýtt ár og bjarta framtíð!

Flokkar: Líkamsvirðing

Laugardagur 15.12.2012 - 16:10 - 1 ummæli

Offita sem barnaverndarmál

Í síðustu viku varð fjaðrafok í fjölmiðlum þegar greint var frá því að árlega bærust nokkrar tilkynningar til Barnarverndar Reykjavíkur þar sem holdafar barns væri meðal áhyggjuefna. Þetta mátti skilja sem svo að offita barna væri orðin svo skelfilegt vandamál að hún væri nú farin að koma til kasta barnaverndaryfirvalda. Þetta þurfum við að skoða nánar. Í fyrsta lagi er vert að benda á það enn einu sinni að offita barna hefur ekki aukist síðustu 14 árin. Í öðru lagi kom skýrt fram í fréttinni að barnarverndaryfirvöldum hefðu aldrei borist tilkynningar eingöngu vegna holdafars barna, heldur væru alltaf aðrir þættir með í spilinu. Eins og Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir í fréttinni (skáletrunin er mín):

Það hafa verið alltaf núna undanfarin ár, ekki mörg mál, það geta verið svona tvö til fimm kannski á ári þar sem að þetta er eitt af því sem að áhyggjur eru af þegar tilkynnt er um börn til okkar. Við höfum ekki fengið ekki fengið tilkynningar sem varða einungis ofþyngd barnsins…

Í fréttinni er talað um margþættan vanda á borð við fátækt og að foreldrar hafi misst tökin á uppeldi barnsins síns. Hér er því augljóslega um flóknari félagslegan vanda að ræða en tölu á vigtinni. Ég velti líka fyrir mér hvernig þetta er skilgreint fyrst um margþættan vanda er að ræða. Ef barnaverndarnefnd berst tilkynning vegna slæms aðbúnaðar barns, vanrækslu, kynferðislegrar misnotkunar eða líkamlegs ofbeldis auk þess sem áhyggjur eru af holdafari barnsins, erum við þá að tala um „barnaverndarmál vegna offitu“? Ætli holdafar barnsins sé aðaláhyggjuefnið í slíkum aðstæðum? Í fréttinni kom einnig fram að börn hafi aldrei verið tekin af heimilum sínum eingöngu vegna holdafarsins, enda má gera ráð fyrir því að fleiri og alvarlegri þættir séu á ferðinni ef slíkum úrræðum er beitt.

Í fyrrgreindri frétt var talað um að tvö til fimm mál á ári kæmu inn á borð til Barnaverndar Reykjavíkur þar sem holdafar barns væri meðal áhyggjuefna. Ef við gerum ráð fyrir að um svipaðan fjölda sé að ræða úti á landi, þá værum við að tala um allt að 10 börn á landinu öllu. Til samanburðar bárust yfir 9000 tilkynningar til barnaverndar árið 2010, samkvæmt skýrslum Barnaverndarstofu, sem vörðuðu rúmlega 5000 börn. Því má gera ráð fyrir að holdafar barns hafi hugsanlega verið hluti af vandamálinu í 0,2% tilfella. En hvað með hin 99,8% málanna?

Árið 2010 bárust þrjú þúsund tilkynningar vegna vanrækslu barns, þar af  voru tæplega 700 vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu foreldra. Staldrið aðeins við þetta. Sjö hundruð tilkynningar á ári, eða um það bil tvær á dag, þar sem drykkja og eiturlyfjaneysla foreldra er talin ógna velferð barns hér á litla Íslandi. Jafnvel þótt aðeins helmingur þessara tilkynninga ætti við rök að styðjast þá væru það samt 350 börn sem eru að alast upp við skelfilegar aðstæður. Auk þessa bárust tvö þúsund tilkynningar um að barn væri beitt ofbeldi, þar af yfir þúsund vegna sálræns ofbeldis, 520 vegna líkamlegs ofbeldis og 440 vegna kynferðisofbeldis. Yfir 1000 tilkynningar vörðuðu börn undir fimm ára aldri.

Ætli sé kominn tími til þess að við tökum okkur pásu frá því að súpa hveljur yfir holdafari barna og beinum athyglinni að þeim hundruðum eða þúsundum barna hér á landi sem búa við óviðunandi og eyðileggjandi aðstæður? Í fyrra bárust 613 tilkynningar til barnaverndaryfirvalda í gegnum Neyðarlínuna 112. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það hafi verið vegna offitu.

 

Flokkar: Stríðið gegn fitu

Fimmtudagur 29.11.2012 - 21:10 - 2 ummæli

Hvað næst? Mannréttindi?

 

Fyrir nokkrum vikum sendu Samtök um líkamsvirðingu erindi til Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um mikilvægi þess að holdafar verði nefnt meðal þeirra atriða sem talin eru upp undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá Íslendinga. Í dag var fjallað um málið á vef Morgunblaðsins og fyrsta athugasemdin við fréttina var: HVAÐ KEMUR EIGINLEGA NÆST???

Mismunun vegna holdafars er raunverulegt vandamál sem fjöldi rannsókna hefur staðfest að á sér stað á margvíslegum sviðum lífsins. Hún hefur jafn neikvæð áhrif á líðan, tekjumöguleika og lífsgæði og önnur mismunun. Hún er jafn mikið í andstöðu við mannréttindi og jafnræði og önnur mismunun. Samt er talið fáránlegt að vilja banna hana. Hvað undirstrikar betur nauðsyn þess að það verði tilgreint sérstaklega í stjórnarskrá landsins að þessi mismunun sé óheimil?

Mismunun þýðir einfaldlega að þú færð ekki sömu tækifæri og aðrir. Samantekt tæplega þrjátíu rannsókna á fitufordómum í atvinnulífi sýndi að mismunun vegna holdafars átti sér stað á öllum starfsstigum – við ráðningu, möguleika á stöðuhækkun, launagreiðslur og brottrekstur. Feitt fólk fær lægri laun fyrir sömu vinnu, er síður ráðið í valdastöður og hlýtur sjaldnar stöðuhækkun en þeir sem eru grannir. Sérstaklega á þetta við um feitar konur, sem þéna talsvert minna en grennri kynsystur þeirra. Holdarfar hefur minni áhrif á laun karla en feitir karlar lenda þó frekar í lægri stöðum en grennri kynbræður þeirra. Íslenskar rannsóknir hafa einnig staðfest að mismunun vegna holdafars á sér stað í atvinnulífinu hér á landi og til dæmis hefur komið í ljós að feitar konur misstu frekar vinnuna eftir hrun.

Tilvist mismununar á grundvelli holdafars er staðreynd í okkar þjóðfélagi. Að standa gegn því að holdafari verði bætt við þau atriði sem talin eru upp undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá er að standa gegn sjálfsögðu réttlæti og segja að mannréttindi séu bara fyrir suma.

Þetta kemur því ekkert við hvaða skoðun við höfum á offitu sem heilbrigðismáli. Við viðurkennum mannréttindi annarra hópa óháð heilsufari þeirra og heilsuhegðun. Eiga mannréttindi homma sem reykja að vera minni en þeirra sem reykja ekki? Eiga konur sem hjóla með hjálma að búa við meiri mannréttindi en þær sem gera það ekki? Mannréttindi eru algild og koma heilsufarsástandi ekkert við.

Nú reynir á. Hér höfum við tækifæri til þess að veita stórum hópi í þjóðfélaginu, sem staðfest hefur verið að býr við kerfisbundna mismunun, stjórnarskrárvarinn rétt fyrir lögum. Að gera það ekki er að leggja blessun sína yfir mismununina og samþykkja að hún haldi áfram. Er það þannig sem við viljum vígja nýja stjórnarskrá okkar?

Hvað næst? spyr maðurinn. Vonandi mannréttindi. Alla leið.

 

 

 

Flokkar: Fitufordómar · Fjölbreytileiki · Samfélagsbarátta

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com