Miðvikudagur 31.10.2012 - 15:29 - 33 ummæli

Útlitsdýrkun á meðgöngu og eftir barnsburð

 

Meðganga er tími mikilla líkamlegra breytinga sem getur reynst erfiður fyrir konur, bæði líkamlega og andlega. Þetta á alveg sérstaklega við um konur sem hafa lengi verið í stríði við líkama sinn. Meðganga er yfirleitt yndislegur tími en því miður virðist útlitsdýrkun hafa þvingað sér leið að ófrískum líkama konunnar. Svo virðist sem meðganga sé orðin enn ein leiðin til að láta konum líða illa með líkama sinn. Slúðurblöð hamra á því hvernig stjörnurnar náðu að losa sig við meðgöngukílóin á ljóshraða, auk þess sem reglulega birtast myndir af nöktum óléttum stjörnum á forsíðum slúðurblaða. Á þessum myndum má yfirleitt ekki sjá neina auka fitu umfram það sem nemur bumbunni sjálfri. Þeim sem hafa náð meðgöngukílóunum af sér á kraftaverkalíkum  hraða eftir barnsburð er hampað og fagnað og sjaldan er sett spurningamerki við það hvort það sé heilsusamlegt.  Fylgst hefur verið náið með frægum konum sem hafa átt erfitt með að ná af sér meðgöngukílóunum og þær oft gagnrýndar harkalega. Hér má til dæmis sjá lista yfir 109 fyrirsagnir að slúðurfréttum um Jessicu Simpson og meðgöngukílóin hennar, sem er mjög lýsandi fyrir hversu mikil bilun er í gangi. Þessi þráhyggja er náttúrulega orðin stórhættuleg fyrir konur og börnin sem þær ganga með.

Salma Hayek steig stórt skref og mótmælti þeirri kröfu um að hún ætti að grennast hratt eftir barnsburð og sagði að eina leiðin til að gera það væri að borða lítið sem ekkert og vera með barn á brjósti á sama tíma. Hún benti á að það er augljóslega óhollt fyrir barnið að fara þessa leið, en við það má bæta að það er auðvitað ekki hollt fyrir móðurina sjálfa heldur. Þetta er góður punktur hjá henni því það virðist yfirleitt vera aukaatriði hvort aðferðin hafi verið heilsusamleg, svo lengi sem þær gjöri svo vel og drífi sig í nákvæmlega sama líkamlega ástand og þær voru í fyrir barnsburð.

Konur fá stanslaust þau skilaboð að fylgst sé með kílóafjölda þeirra á meðgöngu og eftir hana. Ein kona talaði um það við mig að ein vinsælasta spurningin sem hún fékk eftir barnsburð var hvort hún væri komin í sömu þyngd og áður, og það aðeins nokkrum vikum eftir fæðingu. Enginn spurði hvort hún væri búin að jafna sig eftir blóðmissinn í fæðingunni, svona til samanburðar. Það er því nokkuð ljóst að þessi áróður er farinn að hafa áhrif á hugsunarhátt fólks og augljóst að hann hefur áhrif á andlega líðan kvenna á barnseignaraldri. Þetta er ekki aðeins slæmt fyrir ófrískar konur og konur sem hafa átt börn, því allar konur sem gætu mögulega orðið ófrískar (sem sagt flestar konur á barnseignaraldri) þurfa nú að óttast það að fitna á meðgöngu.

Þó að líklegt sé að Salma Hayek hafi rétt fyrir sér varðandi kraftaverkaþyngdartap stjarnanna eftir barnsburð, verð ég að bæta því við að sumar konur, af náttúrunnar hendi, jafna sig mun hraðar en aðrar og bumban minnkar stuttu eftir barnsburð. Aðrar eru lengur að jafna sig, jafnvel nokkur ár, og enn aðrar munu alltaf bera þess merki að hafa eignast barn. Einnig er mjög mismunandi hvort og hversu hratt konur grennast eftir barnsburð.  Þessu er ekki alltaf svo auðvelt að stjórna, þó annað sé ítrekað gefið í skyn í umfjöllunum um þyngdartap eftir barnsburð. Eins eru konur mjög mismunandi hvað varðar þyngdaraukningu á meðgöngu og geta margir þættir spilað þar inn í. Aðalatriðið sem fólk þarf að hafa í huga er að þyngdaraukning á meðgöngu er bæði eðlileg og æskileg, bæði fyrir næringu barnsins en líka til að undirbúa konuna undir brjóstagjöf. Þetta kann að virðast sumum almenn skynsemi en mér finnst rétt að minnast á þetta því miðað við öll skilaboðin sem konur fá í dag um að vera grannar, er mjög líklegt að þessi almenna skynsemi sé fokin út um gluggann.

Fyrir þær konur sem eru óöruggar með líkamann sinn, mæli ég með því að skoða þessa síðu. Mér finnst mikilvægt að konur fái aðgang að myndum af venjulegum líkömum eftir barnsburð, til þess að vega upp á móti öllum þeim myndum sem varpað er fram af hinum fullkomna líkama. Það er líka mikilvægt að noramlísera slit, bumbu, appelsínuhúð og húðpoka. Konur þurfa að vita að þetta er allt saman eðlilegt og það þarf ekki að þvinga líkamann í eitthvað ákveðið form eftir barnsburð. Mikilvægast er að hugsa vel um líkama og sál, sem er bæði móður og barni fyrir bestu.

Flokkar: Átraskanir · Líkamsmynd · Þyngdarstjórnun

Föstudagur 26.10.2012 - 20:15 - 1 ummæli

Klikkuð tækifæri fyrir ungar stúlkur

Í gær var frumsýnd heimildarmyndin Girl Model í Bíó Paradís, sem segir frá óhugnarlegum heimi barnungra fyrirsæta tískuiðnaðarins. Þessi mynd veitir innsýn inn í veröld, sem marga grunar eflaust að geti verið til, en fæstir gera sér í hugarlund hversu slæm er í raun og veru. Þetta er veröld sem einkennist af vinnuþrælkun, hörku og virðingarleysi, sem ekki er bjóðandi fólki í neinni atvinnugrein, hvað þá unglingum undir lögaldri.

Við þurfum aðeins að leyfa þessu að setjast í huga okkar: Tískuiðnaðurinn er byggður upp af unglingsstúlkum sem í sumum tilfellum eru ekki einu sinni búnar að klára grunnskóla. Þetta eru „konurnar“ sem ganga á tískupöllunum og birtast okkur í myndaseríum hátískublaðanna. Þetta eru „konurnar“ sem hin venjulega kona ber sig saman við og óskar þess að hún gæti líkst meira í útliti.

Í umfjöllun DV um myndina í dag, er vitnað í Þórhildi Þorkelsdóttur stílista, sem segir:

Fyrir tveimur árum kom fram á sjónarsviðið fyrirsæta, Andrej Pejic, sem er ótrúlega fallegur karlmaður. Hann er notaður sem fyrirsæta fyrir kvenföt. Ég var svo slegin þegar hann var settur á pallana. Ég hugsaði með mér er þetta bara komið núna allan hringinn. Núna sér maður hversu ótrúlega óraunhæfar útlitskröfurnar eru. Það er enginn svona vaxinn. Sögusagnirnar um átraskanir. Þetta eru ekki ýkjur. Þetta er svona.

Fjöldi rannsókna hafa birst undanfarna áratugi sem sýna að konum líður verr með sjálfar sig eftir að hafa skoðað myndir af fyrirsætum. Þeim er kennt að unglingsstúlkur, sem hafa ekki tekið út sinn fullorðinsvöxt, séu hin sanna ímynd kvenlegrar fegurðar. Við virðumst vera að tala um einhversskonar barnagirnd en samt leyfum við þessum sturlaða bransa að ákveða fyrir okkur hvað telst fallegt og eftirsóknarvert og hvað ekki.

Allt við þennan heim er rangt. Vinnuþrælkun barna og unglinga er röng. Ímyndarruglið og útlitsdýrkunin er röng. Kynlífsvæðingin og hlutgervingin er röng. Átraskanirnar, sveltið, fíkniefnin, andlega ofbeldið og misnotkunin er röng. Það að halda að þetta byggi upp sjálfstraust ungra stúlkna er veruleikafirring sem byggir ekki á neinu öðru en söluræðum þeirra sem gera sér lifibrauð úr ástandinu.

Þegar ég vann við meðferð átraskana kynntist ég nokkrum stelpum með fyrirsætudrauma. Þeir voru undantekningarlaust partur af veikindum þeirra, því þær vildu ekki taka sénsinn á því að batna og missa af „stórkostlegum“ tækifærum fyrir framtíðina. En svo urðu þær ekki nýjasta undrið í tískuheiminum og fengu í staðinn endalausa höfnun og vonbrigði. Sem gerir auðvitað mikið fyrir sjálfstraustið.

Í fyrirsætubransanum er stelpum kennt að byggja sjálfsmynd sína, framtíð og atvinnutækifæri á einhverju sem þær hafa enga raunverulega stjórn á: Útliti sínu og velþóknun annarra. Hvernig hægt er að telja sér trú um að þetta hjálpi þeim að öðlast sjálfstraust og blómstra á eigin forsendum er óskiljanlegt. Þetta hlýtur að vera eitt ömurlegasta veganesti sem hægt er að gefa ungri manneskju.

 

Flokkar: Bransinn · Tíska · Útlitskröfur

Laugardagur 13.10.2012 - 12:54 - Rita ummæli

Alvöru birnir

Hér er hugljúft fitufordómamyndband sem teflt er fram gegn jólaherferð kókakóla þar sem hamingjusamir ísbirnir drukku kók og höfðu það kósí. Þessu myndbandi er ætlað að sýna skuggahliðar gosneyslunnar og benda á að gos gerir fólk ekki hamingjusamt heldur óheilbrigt. Það er allt gott og blessað enda inniheldur gos enga næringu en fullt af sykri og aukaefnum sem líkaminn hefur ekkert að gera við. Það sem er sorglegt er þó að ekki skuli vera hægt að gera þetta án þess að hafa fitufordóma sem meginþema.

Sú mynd sem dregin er upp af feitu fólki (eða feitum ísbjörnum) er að hér fari hópur sem geri fátt annað en að vagga um í eigin spiki, þamba gos og standa sig illa í rúminu. Yfirskrift myndbandsins er „The real bears“ og vísar væntanlega til þess að hér sé verið að tala um hvernig hlutirnir eru í alvörunni, ólíkt því hvernig þeir eru í blekkingarleik kókakóla. En þetta er ekki heldur í samræmi við raunveruleikann. Feitt fólk er ekki svona ömurlegt. Við þekkjum fullt af fólki sem telst í offituflokki en gerum okkur kannski ekki grein fyrir því vegna þess að sú mynd sem er dregin upp af „offitu“ er svo öfgakennd að fæstir kannast við hana úr daglegu lífi. Hversu margir þekkja annars einhvern sem hefur misst útlim eða fest sig í dyrakarmi vegna offitu?

Við lifum í veruleika þar sem stöðugt er verið að draga upp öfgamynd af feitu fólki – sem á sér kannski einhversstaðar samsvörun – en er langt frá því að vera dæmigerð fyrir veruleika þeirra 20% landsmanna sem flokkast í offitu. Flestir þeirra eru ósköp venjulegt fólk sem hvorki rúllar eftir götunum í eigin spiki né brýtur húsgögn vegna gríðarlegs líkamsþunga síns.

Með því að draga upp þessa stereótýpísku mynd erum við ekki aðeins að búa til hóp sem hægt er að nota sem úrhrök samfélagsins heldur erum við að draga athygli frá því að ALLIR líkamar þurfa umhyggju. Grannt fólk þambar líka gos og borðar allt of mikið nammi. Þetta vitum við. En með því að benda ásakandi fingri á feitt fólk og hrista hausinn getum við friðað eigin samvisku og hugsað með okkur að við séum að minnsta kosti ekki eins og þau.

Líkamar okkar eru dýrmætir. Ef við hugsum ekki vel um þá verða þeir veikir og deyja jafnvel fyrir aldur fram. Þeir eiga betra skilið en að vera fylltir af næringarlausu drasli og eiturefnum. En þeir eiga líka betra skilið en að vera niðurlægðir fyrir stærð sína og lögun. Til að þjóna tilgangi sínum þarf alvöru heilsuefling að taka mið af bæði umhyggju fyrir líkamanum og virðingu fyrir fjölbreytileika hans.

 

Flokkar: Fitufordómar

Föstudagur 28.9.2012 - 12:23 - 2 ummæli

Lady Gaga og líkamsvirðingarbyltingin hennar

Ég endaði mína síðustu færslu á því að tjá litla tiltrú á Lady Gaga. Ég vonaði að hún sneri þyngdaraukningu sinni upp í eitthvað jákvætt en hélt þó að hún myndi láta undan þrýstingi fjölmiðla og grenna sig í snatri. Það sem ég heyrði fyrst af hennar viðbrögðum virtist svo vera smá þversagnakennt; hún sagðist elska líkama sinn og að hún væri „fædd svona“ (born this way) en í næstu setningu sagðist hún bara ætla að drekka djús því hún væri í megrun.

Einhverjir hafa samt bent á að Lady Gaga er mjög opin með það að hún hafi barist við átröskun frá unglingsaldri og að áherslan hjá henni sé aldrei að hún hafi barist við átröskun og sigrast á henni; áherslan sé á að baráttan eigi sér enn stað. Það er ekki óalgengt hjá fólki með átraskanir að vilja elska líkama sinn og vilja sætta sig við þyngdaraukningu en á sama tíma eiga erfitt með hana og langa allra helst að grenna sig. Á þann hátt er Gaga ekki ólík öðrum í hennar sporum. Það sem gerir hana þó ólíka er áhrifastaða hennar og það að hún ákvað að stíga skrefið og segja „Nei, það er ekki allt í lagi segja við mig að ég eigi að grennast”. Það næsta sem ég heyrði nefnilega af Lady Gaga var það að hún sneri vörn í sókn og skrifaði á heimasíðuna sína að hún hafi stofnað til LÍKAMSVIRÐINGARBYLTINGAR (BODY REVOLUTION) og að hún geri það til að veita öðrum innblástur, sýna hugrekki og hvetja til samhyggðar. Hún hvetur aðdáendur sína til „að þora” að sýna líkamlega galla okkar og gera þá með því að  einhverju sem við getum sætt okkur við og taka með því það „ljóta” burt. Hún hvetur fólk til vera hugrakkt og senda myndir af sér sem sýna það svart á hvítu hvernig fólk komst yfir óöryggi sitt. Hér er svo linkur á litlu skrímslasíðuna þar sem allt er að gerast. Myndirnar sem fólk sendir inn eru frábærar og sendendur eru feitt fólk, grannt fólk, vöðvastælt fólk og fólk sem er ákaflega smávaxið eða á einhvern annan hátt frábrugðið hefðbundnum viðmiðum um fegurð. Þessar myndir fá svo jákvæðar viðtökur hjá öðrum notendum síðunnar og endalausar jákvæðar og uppbyggilegar athugasemdir streyma inn.

Ég er mjög ánægð með Gaga og tel að þarna hafi hún stigið skref sem enginn tónlistarmaður né kona (svo ég viti til) hefur áður stigið og ég vona að þessi bylting fari sem víðast. Nú þegar hefur byltingin hlotið jákvæð viðbrögð hjá aðdáaendum hennar sem margir hverjir eru ungir og ómótaðir, og hefur byltingin líka náð til fólks af öllum aldri sem ekki eru áðdáendur hennar fyrir. Mér finnst frábært að Lady Gaga hafi sýnt þennan kjark og ekki leyft fjölmiðlum að segja henni að hún sé óaðlaðandi og eigi að grennast; í staðinn segir hún óbeint að þetta sé bilun og snýr hlutunum við eins og kona í hennar áhrifastöðu getur gert. Það er raunar skrítið að engin stjarna hafi gert þetta áður, en á sama tíma ekkert skrítið því við erum bara öll manneskjur sem lifum í samfélagi sem hefur kennt okkur að grannt sé fallegt en fita ljót. Kannski nær Lady Gaga að hafa áhrif á þessar hugmyndir, hver veit, en ég leyfi mér að vera bjartsýn!

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Fimmtudagur 20.9.2012 - 22:57 - Rita ummæli

Bilun

Lady Gaga er mjög áhrifamikil kona og þekkt fyrir frábært samband sitt við aðdáendur sína. Þetta einstaka samband hennar við aðdáendur sína sem hún kallar litlu skrímslin gerir það að verkum að margir setja hana á háan stall og hún er fyrirmynd fjöldamargra ungra kvenna. Mér finnst Lady Gaga virka skemmtilegur karakter en ég tel hana ekki vera mjög góða fyrirmynd því hún á það til að „tvíta“ skilaboðum um hvað hún borðaði (lítið) og leggja ofuráherslu á grannt holdarfar. Hún hefur rætt opinskátt um það að hún hafi þjáðst af lotugræðgi þegar hún var yngri svo að óánægja hennar með líkama sinn hefur fylgt henni um langa tíð. Þessi óánægja með líkama sinn mun líklega ekki yfirgefa hana í bráð því nýlega gerði Lady Gaga sig seka um stórfelldan glæp. Glæpurinn er sá að hún þyngdist um nokkur kíló og var í kjölfarið tekin af lífi í hinum ýmsu fjölmiðlum ætluðum konum. Miðillinn Jezebel er góður miðill sem er oft mjög líkamsvirðingarvænn og þær gerðu nýlega þessa góðu umfjöllun um Lady Gaga og viðbrögðin við þyngdaraukningu hennar.

Ég hef nú svo sem ekki miklu við það að bæta nema það að þessar myndir sem ég hef séð af hinu feitu Gaga eru kómískar því á þeim sést að hún er nokkuð langt frá því að vera feit. Venjuleg já, feit nei. Nánast allir slúðurmiðlar hafa birt fréttir af þessari sjokkerandi þyngdaraukningu og ber það eitt og sér vott um fitufordóma.  Athugasemdir í athugasemdarkerfum neðtmiðla sýna svo neteinelti í hæsta gæðaflokki, athugasemdirnar eru magar á þann veg að hún sé ógeðsleg, líti út eins og flóðhestur og hún eigi að hylja líkama sinn núna þegar líkami hennar er ekki lengur örmjór. Smástirni eins og Kelly Osbourne hefur svo lagt sitt lóð á vogarskálarnar með getgátum um að Lady Gaga sé ólétt.  Ég hef hingað til ekki rekist á mikla umfjöllun um holdarfar þessarar Lady Gaga, mig rámar í að hafa lesið einu sinni að vinir hennar hefðu áhyggjur af því að hún borðaði ekki nóg og að hún væri of grönn og svo talar Jezebel um að Elton John hafi haft áhyggjur af henni þar sem hún hafi litið út fyrir að vera vannærð. Þessar áhyggjur af því að hún væri of grönn hafa ekki vakið jafn mikla athygli og þyngdaraukningin og sýnir það á afgerandi hátt að það þyki í lagi og eðlilegt að stjörnur séu grannar. Einhverra hluta vegna finnst fólki í lagi að fólk ástundi óheilbrigða hegðun til að ná fyrirmyndarútlitinu en það að stjarna bregði út frá norminu með því að bæta á sig virðist ekki samræmast heimsmynd margra.

Ég verð að viðurkenna að svona fár í kringum agnarlitla þyngdaraukningu fyllir mig vonleysi. Ef fólk sem tekur þátt í dægurmenningunni sýnir svona eindregin áhuga á að halda á lofti fitufordómum og taka undir þá á hinum ýmsustu netmiðlum þá eygi ég litla von um breytt samfélag þar sem einsleitar hugmyndir um fegurð eru á undanhaldi. Ég leyfi mér þó örlitla bjartsýni og vona að Lady Gaga stígi fram og vinni það þrekvirki að koma með einhvern jákvæðan áróður um það að fólki leyfist að elska líkama sinn þó hann falli ekki að stífum viðmiðum fjölmiðlaafla um hvað teljist fallegur líkami. Svartsýnis röddin segir mér þó að þessi viðbrögð ýti undir viðhorf hennar og margra kvenna sem er á þann veg að líkami sem ekki er örmjór beri að hata og breyta.

Flokkar: Fitufordómar · Staðalmyndir · Útlitskröfur

Þriðjudagur 28.8.2012 - 15:45 - Rita ummæli

Að alast upp í brengluðum heimi


Alls staðar, já bókstaflega alls staðar, sjáum við skilaboð um hvernig við eigum að líta út. Í dagblaðinu, í sjónvarpinu, á risastórum auglýsingaskiltum, í strætóskýlum, á netinu, í tímaritum, í tónlistarmyndböndum, í dótakassa barnanna okkar og ekki má gleyma í barnaefni. Við erum öll berskjölduð fyrir þessum óstöðvandi áróðri um fullkomið útlit. Bæði börn og fullorðnir.

Margir telja kannski að þessi skilaboð hafi ekki svo mikil áhrif, að fólk hafi vit á því að láta þessi skilaboð ekki síast inn.  Raunveruleikinn er hins vegar sá að flest okkar eru verulega óánægð með að minnsta kosti einhvern hluta líkama okkar. Lærin eru of þykk, rassinn of útstæður eða flatur, maginn of breiður, ójafn, hrukkóttur og slitróttur, brjóstin of lítil, of stór, of sigin eða misjöfn, handleggirnir of feitir, undirhakan of stór, nefið of stórt, kálfarnir of feitir. Ég veit ekki hvar ég á að hætta. Fullkomnun á ekki við náttúruleg fyrirbæri, sem mannslíkaminn er. Því spyr ég, hvaðan fengum við þá hugmynd að líkami okkar þurfi/eigi að vera fullkominn og að það sé yfir höfuð mögulegt?

Líklega höfum við orðið fyrir áhrifum af útlitsdýrkun sem einkennir til dæmis auglýsingar fyrir fegrunarvörur og undirföt, þar sem má sjá photoshoppaða líkama með svo sléttar og fullkomnar mjaðmir, rass og læri að það mætti halda að maður væri að horfa á ávalar og aflíðandi sandöldur í eyðimörk.

Árið 1995 fengu Fiji eyjar loksins aðgang að sjónvarpi og þar myndaðist kjörið tækifæri til að rannsaka áhrif fjölmiðla á sálarlíf fólks. Eyjarnar fengu aðgang að vestrænu sjónvarpsefni með allri þeirri útlitsdýrkun sem tilheyrir slíku efni. Árin fyrir sjónvarp var átröskun nánast óþekkt á eyjunum og flestar konur voru ánægðar með líkama sinn. En aðeins þremur árum eftir að sjónvarpið varð hluti af daglegu lífi íbúanna voru 11 prósent stúlkna farnar að kasta upp til að stjórna þyngd sinni og 62 prósent stúlkna höfðu farið í megrun síðastliðnu mánuðina.

Það sem hræðir mig enn meira er að bókstaflega öllum myndum í dag af dáðum stjörnum og fyrirsætum hefur verið breytt með aðstoð tölvutækni. Á þeim er engin viðvörun um að ekki eigi að miða sig við þessar myndir. Þessar myndir þjálfa okkur í hvernig við eigum að túlka okkar eigin líkama. Verslunarkeðjan H&M gekk meira að segja svo langt að setja mennsk höfuð á tölvutilbúinn líkama á heimasíðu sinni. Húðlit líkamans var aðeins breytt eftir húðlit fyrirsætunnar sem átti höfuðið. Nú erum við komin á þann stað að mennskir líkamar eru ekki einu sinni nógu góðir til að nota í auglýsingar.

Þessi þróun hefur orðið til þess að átraskanir hafa aukist og þráhyggja og vanlíðan yfir líkamsvexti, útliti, mataræði og hreyfingu er orðin stór hluti af lífi margra. Það er ekki lengur þannig að átröskun finnist aðeins hjá ungum stúlkum heldur er þessar raskanir farnar að breiðast yfir mun fjölbreyttari hóp fólks. Ekki má svo gleyma að líkamsræktarþráhyggja er ekki skilgreind sem átröskun en er sú leið til öfgafullrar þyngdarstjórnunar sem margir stunda í dag.

Því er það mikilvægur partur af uppeldi barna að ræða við þau um hættur þessa brenglaða heims. Að kenna börnum að lesa í skilaboð fjölmiðla og auglýsinga á skynsaman hátt og spjalla við þau á gagnrýninn hátt um þessar myndir er nauðsynlegur hluti af því að undirbúa börnin fyrir lífið. Ein besta leiðin til að efla sjálfsmynd og líkamsmynd barna er samt að sýna gott fordæmi og tala aldrei á niðurlægjandi hátt um eigin líkama né annarra. Kennum börnum að elska líkama sinn og rækta hann og skammast sín ekki fyrir að vera ófullkomin, því enginn er með fullkominn líkama – nema þá kannski tölvumennin sem H & M snillingarnir bjuggu til.

Flokkar: Átraskanir · Líkamsmynd · Tíska · Útlitskröfur

Fimmtudagur 16.8.2012 - 12:58 - 7 ummæli

Til þeirra sem gengur gott eitt til

 

 

Aðeins tveimur dögum eftir að Íslendingar fjölmenntu niður í bæ til þess að taka þátt í gleðigöngunni og fagna réttindum samkynhneigðra og transfólks birtist þessi pistill á vinsælum dægurmálavef. Rúmlega 500 manns hafa gefið til kynna að þeim líki þessi skrif, sem sýnir líklega hversu skammt við erum á veg komin í mannréttindabaráttunni – tilhneiging okkar til þess að níðast á öðrum hefur lítið minnkað – við höfum bara fundið nýja hópa til að níðast á. Þannig hefur þetta gengið alla mannkynssöguna og fátt bendir til þess að við séum tilbúin að taka upp nýja siði. Þrátt fyrir að ákveðnir hópar fái uppreisn æru þá kemur alltaf einhver annar í staðinn sem okkur finnst nauðsynlegt að traðka á. Í dag er þessi hópur feitt fólk. Það er enginn annar hópur sem býr við jafn áberandi fordóma og fyrirlitningu sem flestum finnst eiga fullkomnlega rétt á sér. Þeir sem taka það að sér að láta þennan hóp vita að hann sé ógeðslegur og óvelkominn réttlæta gjörðir sínar oft með því að þeim gangi gott eitt til. Þetta sé fólkinu sjálfu fyrir bestu. Augljóslega – fyrst það er ennþá feitt – skilur það ekki að það er slæmt að vera feitur og þarf að finna fyrir andúð samfélagsins til að vilja gera eitthvað í sínum málum!

Í umræðunni eru heilsufarsrök notuð kerfisbundið til að réttlæta fjandsamleg viðhorf og framkomu í garð feitra. Vísindalegum „staðreyndum“ er beitt af samskonar heilagri vandlætingu og tilvitnanir í biblíuna voru (og eru) notaðar af þeim sem líta á samkynhneigð sem óeðli. Og rétt eins og þeir sem vísa í Biblíuna til að réttlæta hatur sitt missa af raunverulegum boðskap hennar, þá virðast þeir sem nýta sér heilsufarssjónarmið til að réttlæta fitufordóma lítið þekkja til þeirra vísinda sem þeir þykjast sérfróðir um. Ýkjur og rangfærslur einkenna málflutning þeirra og staðfastlega er horft framhjá atriðum sem orðið gætu til þess að tempra æsinginn. Eins og að Íslendingar séu ekki önnur feitast þjóð í heimi (heldur í sjötta sæti OECD ríkja sem telja heldur ekki allan heiminn). Að offita barna sé ekki vaxandi vandamál hér á landi (heldur hafi tíðni offitu meðal barna (5%) ekkert breyst síðasta áratuginn). Að sykursýki II sé ekki katastrófískt vandamál á Íslandi (heldur sé tíðnin hér á landi innan við 5%, sem er einhver sú lægsta í heimi). Að lífsvenjur okkar hafi ekki farið versnandi síðustu áratugi (heldur almennt tekið jákvæðum breytingum). Að það geti ekki allir grennst ef þeir bara leggja sig nógu mikið fram (heldur sé langvarandi þyngdartap undantekningin sem sem sannar þá reglu að flestir þyngjast aftur). Og að fitufordómar virki ekki sem hvatning til uppbyggilegra lífsstílsbreytinga (heldur vinni gegn því að fólk hugsi vel um sig og líði vel). Nei, fordómafullt fólk hefur ekki áhuga á slíkum staðreyndum enda skemmir þekking fordóma og því réttast að halda sig frá henni.

Pistillinn sem vísað er í hér að ofan er eins og skólabókardæmi um hvernig fitufordómar birtast undir yfirskini heilbrigðissjónarmiða. Og verður eflaust notaður sem slíkur nú þegar fitufræði (fat studies) eru að ryðja sér til rúms sem fræðasvið á háskólastigi. Hann verður höfundi sínum til ævarandi skammar. Ég hvet ykkur, sem gengur gott eitt til, að hugsa um það næst þegar ykkur langar að viðra skoðanir ykkar.

 

Flokkar: Fitufordómar · Stríðið gegn fitu

Laugardagur 11.8.2012 - 10:08 - Rita ummæli

Fordómar eru fordómar

Fyrir líkamsvirðingarsinna sem enn hafa ekki kveikt á síðunni Jezebel.com er vert að vekja athygli á henni. Hér er um að ræða stórskemmtilega síðu með femínískum undirtón þar sem nokkrar eiturtungur leiða saman hesta sína við að gaumgæfa málefni líðandi stundar. Þar birtast gjarnan áhugaverðar hugleiðingar um útlitsdýrkun og fituhatur sem ættu að vera regluleg lesning þeirra sem hafa áhuga á líkamsvirðingu.

Þar sem Hinsegin dagar standa nú yfir langar mig að benda lesendum á frábæra grein sem birtist nýlega á Jezebel. Þar er fjallað um styrrinn sem staðið hefur um Chick-fil-A skyndibitakeðjuna, sem er opinberlega fjandsamleg í garð samkynhneigðra, og mótmæli þeirra sem eðlilega deila á slíka framgöngu. Margir þeirra sem mótmælt hafa mannfjandsamlegu viðmóti fyrirtækisins í garð samkynhneigðra gera það nefnilega með því að halda á lofti mannfjandsamlegum viðhorfum í garð feitra. Rökin eru á þá leið að fólkið sem skiptir við þessa veitingahúsakeðju hljóti að vera feitt og ógeðslegt pakk. Af því bara feitt fólk borðar skyndibita. Og af því feitt fólk er ógeðslegt pakk.

Svona tvískinnungur er því miður alltof algengur. Það er ekki hægt að kveða niður fordóma í einu horni með því að ala á fordómum í öðru. Það eina sem við gerum með því er að færa andstyggðina á milli staða og viðhalda þeim leiða sið að líta niður á annað fólk. Við þurfum að skilja að mannréttindi eru ALGILD og að ALLIR eiga rétt á virðingu óháð litarhætti, kynhneigð, kyni, holdafari, aldri og öllu öðru sem notað er til að draga mannfólkið í dilka. Fordómar eru jafn ömurlegir hvert sem þeir beinast. Munum það.

Gleðilega hátíð, öllsömul!

Flokkar: Fitufordómar · Samfélagsbarátta

Fimmtudagur 2.8.2012 - 14:42 - Rita ummæli

Fegurð og fjölbreytileiki

Þessi mynd er farin að rúlla um netið. Þetta er samanburður á herferð Dove snyrtivörufyrirtækisins, sem byggðist á því að sýna fegurðina í fjölbreytilegum vexti raunverulegra kvenna, og nýjustu herferð Victoria’s Secret nærfatarisans. Eins og andstæður þessara herferða væru ekki nógu augljósar þá dregur yfirskrift þeirrar síðarnefndu skýrt og greinilega fram að hér er ekki markmiðið að hvetja konur til að elska sinn eigin líkama  („love your body“), heldur að dýrka og dá þann líkama sem fyrirsæturnar sýna („love MY body“).

Ég veit að Dove er ekki heilagt fyrirtæki. Það tilheyrir Unilever risaveldinu sem selur m.a. SlimFast megrunarvörur. En ég er samt þakklát fyrir þessar auglýsingar. Þær hjálpa til við að opna augu okkar og skilja að það er ekkert að okkur. Ekki neitt. Við höfum bara verið heilaþvegnar af miskunnarlausum markaðsöflum sem telja okkur trú um að líkamar okkar séu ómögulegir. Hvernig gera þau það? Nú með því að halda á lofti einsleitri hugmynd um fegurð sem fæstar konur komast nálægt því að líkjast. Auglýsingar Dove hjálpa til við að stinga títuprjóni í þá loftbólu og fyrir það er ég þakklát. Þessar auglýsingar ná til milljóna kvenna og munu hafa margfalt meiri áhrif á líkamsmynd kvenna heimsins en aktivistar eins og ég geta nokkurn tíma gert. Fyrir það er ég þakklát.

Prófið að gera smá tilraun á ykkur. Skoðið fyrst efri myndina og svo þá neðri. Takið eftir því hversu sjúklega einsleitir þessir líkamar eru (þeir gætu jafnvel verið sami líkaminn með mismunandi hausum – annað eins hefur nú gerst í þessum sjúka bransa) og hversu fjarri þeir eru líkömum flestra kvenna. Hvað sjáið þið margar svona konur í sundi? En takið líka eftir áferðinni á þessum líkömum samanborið við líkama kvennanna á neðri myndinni. Hversu mikið ætli líkamarnir á efri myndinni – eins vel og þeir ættu nú að passa í hið þrönga piparkökumót fullkominnar fegurðar – hafi verið fótósjoppaðir eftir að myndatöku lauk? Svipurinn á konunum segir líka sitt. Á hvorri mynd virðast konurnar hamingjusamari? Sjálfsöruggari? Sáttari? Undirgefnari?

En síðast en ekki síst skuluð þið taka eftir því hvernig ykkur líður við að skoða þessar myndir. Prófið að skoða fyrst bara efri myndina. Og svo bara þá neðri. Er munur á því hvernig ykkur líður með ykkar eigin líkama? Hugsið ykkur ef allar auglýsingar, sem beint er til kvenna, hefðu að geyma glaðar og sáttar konur í allskonar stærðum. Hvernig ætli líkamsmynd okkar væri þá?

Flokkar: Fjölbreytileiki · Staðalmyndir · Útlitskröfur

Þriðjudagur 17.7.2012 - 13:36 - 2 ummæli

Passaðu barnið þitt!

Ég hef lengi fjallað um líkamsmynd, megrun og átraskanir á opinberum vettvangi og stundum hefur fólk samband við mig af því það hefur áhyggjur af börnunum sínum hvað þessi mál snertir. Undanfarið hef ég fengið símtöl sem vekja hjá mér ugg þar sem áhyggjufullir foreldrar og íþróttaþjálfarar greina frá því að börn í íþróttum séu hvött, jafnvel skylduð, til þess að fylgjast náið með fæðuinntöku sinni og skrásetja allt sem þau borða. Þetta sé sett fram sem nauðsynlegur hluti af því að ná árangri.

Hér eru nokkur dæmi af frásögnum sem ég hef fengið að heyra að undanförnu. Öll áttu sér stað í skipulögðu íþróttastarfi fyrir börn og unglinga:

  • Að börn allt niður í 9 ára gömul séu látin skrifa niður hvað þau eru ánægð með að hafa borðað og hvað þau eru óánægð með að hafa látið inn fyrir sínar varir.
  • Að unglingar séu skyldaðir til að skrá nákvæmlega og telja kaloríur í öllu sem þau borða og það sé sett sem skilyrði fyrir því að eiga möguleika á því að komast áfram í íþróttagreininni.
  • Að börn og unglingar fái kynningu á fæðubótarefnum undir því yfirskyni að þau séu nauðsynleg fyrir árangur í íþróttum.

Við sendum börnin okkar í skipulagða hreyfingu af því við trúum því að það geri þeim gott. Að þar sé heilbrigt umhverfi sem byggi þau upp og undirbúi þau fyrir framtíðina. En víða er pottur brotinn og í dag er ákveðin hætta á því að börn græði ekki aðeins aukið þol, styrk, færni og metnað til að ná árangri með því að stunda íþróttir, heldur fái einnig afbrigðileg viðhorf til matar og líkamans í kaupbæti. Á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans koma reglulega til meðferðar alvarleg tilfelli átröskunar sem hófust þegar íþróttaþjálfari hvatti krakkana til að halda matardagbók, passa þyngdina, losna við nokkur kíló, kom inn samviskubiti yfir að borða ákveðinn mat o.s.frv. Þessi skilaboð eiga ekki heima í íþróttastarfi frekar en hvatning til annarrar áhættuhegðunar. Ef því er haldið fram að börn og unglingar þurfi að fylgjast náið með mataræði og þyngd til þess að geta stundað íþróttir eða náð árangri þá er staðan einfaldlega þannig að foreldrar þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en þeir senda börnin sín í slíkar tómstundir.

Þeir sem starfað hafa við meðferð átraskana meðal barna og unglinga eru flestir sammála um að þessi vandi sé einn sá erfiðasti sem hægt er að fást við. Foreldrar lýsa því stundum þannig að þeir hafi tapað barninu sínu, svo miklar verða breytingar á skapferli, persónuleika, hegðun og virkni barns sem veikist af átröskun. Meðferð getur tekið mjög langan tíma, jafnvel nokkur ár, og sumir foreldrar endurheimta barnið sitt aldrei að fullu þar sem ákveðnir einstaklingar festast í vef átröskunar ævilangt. Það að verið sé að taka áhættu um að þátttaka barns í skipulögðu íþróttastarfi geti leitt til átröskunar er ekki verjandi með nokkru móti. Þau dæmi sem ég nefndi hér að ofan sýna að þessar áherslur eru sannarlega til staðar í íþróttum og jafnvel að færast í aukana.

Ég hvet alla foreldra til þess að fylgjast náið með því hvaða skilaboð verið er að senda börnunum þeirra í íþróttastarfi. Foreldrar ættu að krefjast þess að þeir séu spurðir leyfis ÁÐUR en börnunum þeirra er úthlutað verkefnum eða æfingum í tengslum við mataræði. Að ekki sé leyfilegt að vigta börnin þeirra eða mæla fituhlutfall án samþykkis foreldra. Að þeim séu ekki boðin fæðubótarefni án samþykkis eða vitundar foreldra. Sömuleiðis er full ástæða til þess að foreldrar taki það skýrt fram að fyrra bragði við íþróttafélagið og þjálfarann að þeir vilji ekki að börnunum þeirra sé kennt að telja kaloríur, keppast við fitubrennslu eða hafa neikvæðar tilfinningar til þess sem þau borða. Það kann að hljóma ankannalega en eins og dæmin sanna eru slíkar kröfur hvorki óþarfar né óviðeigandi.

Það ætti að vera sjálfsagt að börn fái að stunda heilbrigða hreyfingu í heilbrigðu umhverfi sem er ómengað af útlitsáherslum, fitufordómum eða matarkomplexum – en því miður er það ekkert sjálfsagt. Það er á okkar ábyrgð að vernda börn fyrir þessum skilaboðum eins og öðrum sem ógna velferð þeirra, heilsu og líðan.

Flokkar: Átraskanir · Heilbrigt samband við mat

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com