Miðvikudagur 6.6.2012 - 17:40 - 5 ummæli

Er fitspiration nýjasta thinspiration?

Þeir sem hafa farið inn á síður eins og Pinterest kannast líklega við innblástursmyndir fyrir líkamsrækt, líka þeirri hér til hægri. Þessar myndir hef ég reyndar líka séð á Facebook og hafa verið kallaðar „fitspiration“. Það er margt sem truflar mig við þessar myndir. Myndirnar einkennast flestar af því að á þeim birtast líkamar, jafnvel án höfuðs, sem eru mjög vöðvastæltir, skornir, fitusnauðir og photoshoppaðir. Einnig fylgja þeim setningar sem einkennast af því að líkamsrækt eigi að dýrka til þess að öðlast ákveðið útlit og að þeir sem eru vöðvastæltir og grannir séu á einhvern hátt æðri þeim sem ekki eru það. Ég tek fram að þetta á ekki við um allar slíkar myndir, sumar einblína ekki eins mikið á útlit og líkamsvöxt. En því miður virðast flestar myndirnar gera það.

Það er lítið pláss fyrir pælingar um heilbrigði á þessum myndum þegar markmiðið er augljóslega umfram allt að ná ákveðnu útliti. Ég er ekki viss um að þessar myndir séu í raun sérlega hvetjandi til að stunda heilbrigt líferni, heldur eru þær áminning um þann fegurðarstaðal sem við „ættum“ öll að vilja ná. Fitspiration myndir minna mig óhugnanlega mikið á svokallaðar „thinspiration“ myndir sem notaðar eru til að hvetja til átröskunar, þar sem birtar eru myndir af mjög grönnum konum. Myndirnar eiga það sameiginlegt að birta útlitsímynd sem erfitt er að ná og fólk þarf oft jafnvel að setja heilsuna til hliðar til að öðlast slíkan vöxt. Hugsanlega hafa margar af þeim konum sem birtast á fitspiration myndum  þurft að tileinka sér óheilbrigt samband við mat og hreyfingu til að ná þessu útliti. Skilaboðin virðast vera að það skipti ekki máli hvernig þessu útliti er náð, svo lengi sem maður nær því. Umbunin felst í útlitinu og þeim félagslegu forréttindum sem fylgja slíku útliti.

Fegurðarviðmið hafa verið af ýmsum toga á ólíkum tímum mannkynssögunnar. Það er ekki svo langt síðan hið svokallaða „heróínlúkk“ var í tísku – að vera fölur og fár og gríðarlega grannur. Í dag er grannt en stælt útlit uppi á teningnum en það getur verið jafn óraunhæft fyrir hina venjulegu manneskju að öðlast og þær aðferðir sem fólk notar til þess geta verið álíka óheilbrigðar. Hluti fólks sem telur sig vera að lifa heilbrigðu lífi gerir það á óheilbrigðum forsendum og er í raun að skemma líkama sinn fremur en að styrkja hann og efla. Það að útlitsdýrkun skuli vera jafn ríkjandi innan heilsuræktargeirans og raun ber vitni er auðvitað bara fóður fyrir slíka óheilbrigða aðkomu að heilsurækt og réttlætir öfgar við að ná fram hinu „rétta“ útliti. Við verðum að muna að við þurfum á líkamsfitu að halda og að ofþjálfun er ekki holl fyrir neinn. Ofþjálfun virðist hins vegar vera félagslega samþykkt og er oft sett fram sem innblástur á þennan hátt.

Ég hef einnig tekið eftir að sum hvatningarorð gera lítið úr einni líkamsgerð til að upphefja aðra. Þá er aðallega gert lítið úr annað hvort feitu fólki eða mjög grönnu fólki og vöðvastælt fólk sett upp á einhvern stall sem er yfir aðra hafinn. Til dæmis: „Skinny girls look good in clothes, fit girls look good naked“ eða „strong is the new skinny“. Á þessum myndum er auðvitað alltaf, beint eða óbeint, verið að segja fólki að hætta að vera feitt. Vöðvastæltir líkamar eiga auðvitað rétt á sér en það á líka við um granna og feita líkama. Mér virðist sem verið sé að reyna að sporna gegn hugmyndum um að fallegast sé að vera horaður, en er þetta eitthvað skárra? Eru þessar myndir ekki alveg jafn vel til þess fallnar að hvetja fólk til líkamsþráhyggju og ýta undir lélega líkamsmynd?

Það skapar alltaf vandamál þegar verið er að hefja eina líkamsgerð upp yfir aðra vegna þess að líkamar eru fjölbreytilegir. Með þessari elítustefnu er verið að segja fjölda fólks, sem ekki passar inn í það form sem þykir fallegast hverju sinni, að það sé ekki nógu gott. Það er ekkert heilbrigt eða gott við þau skilaboð, þau ala á mannfyrirlitningu og hroka. Það er sömuleiðis varhugarvert þegar verið er að halda því að fólki að allir geti öðlast draumalíkamann ef þeir eru bara tilbúnir að ganga nógu langt til þess. Einhvers staðar las ég að fitspiration væri í raun bara thinspiration í íþróttabúningi. Ég held að það sé nokkuð til í því.

Flokkar: Líkamsmynd · Staðalmyndir · Útlitskröfur

Miðvikudagur 30.5.2012 - 15:17 - Rita ummæli

Um form og forsetaframboð

Ég hef hingað til verið mjög ánægð með hvað íslenskir fjölmiðlar eru lítið að pæla í útliti frægra kvenna eftir barnsburð. Ég bý í Englandi þar sem ákveðin dagblöð og netmiðlar hreinlega ofsækja frægar konur sem nýverið hafa eignast barn. Fylgst er mjög grannt með þeirra holdarfari, ótal margar myndir teknar af þeim og holdafar þeirra gagnrýnt og skoðað með ítrustu nákvæmi. Ofuráhersla er lögð á að skoða hvort konan sé komin í sama form og fyrir barneign, minni áhersla er lögð á að konan hafi gengið í gegnum þá undursamlegu lífsreynslu að eignast barn. Auðvitað eru konur misjafnar og sumar breytast sáralítið við að ganga með barn. Frægar konur sem falla í þann flokk uppskera mikið hrós fyrir og jákvæða umfjöllun. Þær sem ekki láta undan þrýstingnum eða eiga erfiðara með að koma sér í ,,form” á undurskjótan hátt eru svo bókstaflega lagðar í einelti og gagnrýndar þar til þær flestar láta undan og fara í einhvers konar sveltikúr. Örfáar láta hinsvegar ekki undan þrýstingnum eins og Bollywood leikkonan Aishwarya Rai hún gaf einmitt út þá yfirlýsingu (eftir harða gagnrýni um of mikla fitusöfnun í kjölfar barnsburðar) að hún hefði núna um annað og mikilvægara að hugsa en holdafar sitt.

Ég varð því fyrir alveg ólýsanlegum vonbrigðum þegar ég sá umfjöllun Smartlands um holdafar Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda. Með þessari umfjöllun ákvað Marta María að ríða á vaðið og skapa fordæmi fyrir ,,í form eftir barnsburð” greinum um íslenskar konur. Ég vildi óska þess að hún hefði sleppt því. Íslenskt samfélag er að mörgu leyti ótrúlega framsækið og á margan hátt á undan öðrum löndum hvað viðhorf til kvenna varðar. Svona umfjöllun er okkur einfaldlega til skammar. Þóra Arnórsdóttir var að eignast barn og það er frábært. Er það ekki merkilegra en holdafar hennar ? Þóra hefur fullt af öðrum kostum og það að draga holdafar hennar og útlit stöðugt inn í umræðuna er okkur til minnkunar. Tískubloggið snýr þessu við og beinir sjónum sínum að karlkyns frambjóðandanum Ólafi Ragnari svona til að sýna fáránleikann í þessu máli. Það er margt sem þarf að taka til greina þegar ákveðið er hvern skal kjósa sem þjóðhöfðingja Íslendinga en við hljótum að geta verið sammála um að holdafar, hárlitur og skóstærð séu þar aukaatriði.

Flokkar: Útlitskröfur

Fimmtudagur 24.5.2012 - 10:50 - Rita ummæli

Michelle Obama í The Biggest Loser

Áður hefur verið fjallað um offituherferð Michelle Obama hér á síðunni auk þess sem vakin hefur verið athygli á öfgunum í þáttunum The Biggest Loser.  Nú hefur Michelle birst í þáttunum til að óska þátttakendunum til hamingju með að vera fyrirmyndir. Það verður að teljast vonbrigði að jafn áhrifamikil kona og hún skuli hvetja fólk til að stunda svo öfgakennda megrun eins og sýnd er í þáttunum. Aðferðirnar sem eru notaðar eru svo öfgakenndar að nokkrir þátttakendur hafa verið lagðir inn á sjúkrahús á meðan tökum stóð, fólk hefur ofþornað mjög illa auk þess sem læknar hafa varað við því að léttast svona mikið á svona skömmum tíma. Aðferðirnar eru ekki bara skaðlegar heldur líka árangurslitlar til lengri tíma því margir hafa bætt aftur á sig eftir þættina. Í þáttunum virðist ríkja einhvers konar viðhorf um að feitt fólk sé ekki mennskt og hafi ekki sömu mannlegu þarfir og aðrir.

Sumir þátttakenda hafa tekið þá áhættu að tala um reynslu sína þrátt fyrir að eiga mögulega von á sektum fyrir það. Hér má lesa viðtal við Kai Hibbard, fyrrverandi þáttakanda. Þessi partur sló mig líklega mest:

“So I got to a point where I was only eating about 1,000 calories a day and I was working out between 5 and 8 hours a day. . . .  And my hair started to fall out.  I was covered in bruises.  I had dark circles under my eyes.  Not to get too completely graphic, but my period stopped altogether and I was only sleeping 3 hours a night.  I tried to tell the TV show about it and I was told, ‘save it for the camera.’

Og þessi:

“It gave me a really fun eating disorder that I battle every day, and it also messed up my mental body image because the lighter I got during that TV show, the more I hated my body.  And I tell you what, at 144 and at 262 and at 280, I had never hated my body before that show.

Ef það er markmið Michelle að auka heilbrigði þjóðar sinnar þá er þetta líklega ekki leiðin. Það er ekkert að því að hvetja fólk til að hreyfa sig og borða hollan mat, en það er hins vegar skaðlegt að einblína á þyngdartap sem einu leiðina að heilbrigðara lífi. Opinber niðurlæging á feitu fólki ýtir undir skömm og fordóma sem eykur líkur á að fólk stundi ofát og óheilbrigðar leiðir til þyngdartaps. Fitufordómar stofna andlegri og líkamlegri heilsu fólks í hættu. Í tilviki Kai Hibbard leiddi þátttaka hennar í The Biggest Loser til alvarlegrar átröskunar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að tilraunir við að ná fram grönnum vexti leiða oft af sér eitthvað allt annað en heilbrigði. Eitthvað sem Michelle Obama hefur augljóslega ekki mikið verið að velta fyrir sér.

Flokkar: Átraskanir · Megrun · Stríðið gegn fitu

Sunnudagur 13.5.2012 - 10:27 - 35 ummæli

Takk Ísland!

Fyrir viku lauk herferðinni Fyrir hvað stendur þú? sem hrundið var af stað  í tilefni Megrunarlausa dagsins 6. maí. Alls tóku tæplega 200 manns á öllum aldri þátt í herferðinni með því að senda inn myndir af sjálfum sér ásamt jákvæðum skilaboðum um útlit og heilsu og enn fleiri studdu átakið með hvatningarorðum. Eins og albúmið sýnir voru  myndirnar og skilaboðin sem fylgdu bæði falleg og áhrifamikil og verða ævarandi áminning um að saman getum við breytt útlits- og þyngdaráherslum samfélagsins ef við viljum. Við erum ótrúlega þakklát öllu því frábæra fólki  sem lagði okkur lið og vorum djúpt snortin af þessari gríðarmiklu þátttöku. Það er greinilegt að sífellt fleiri eru að vakna til vitundar um mikilvægi þess að lifa í sátt við sjálfan sig og hægt sé að hlúa að heilsu og vellíðan án þess að hafa þyngdina sem útgangspunkt.

Við gerum okkur þó grein fyrir því að ekki eru allir  sammála okkur og fengum ýmiskonar gagnrýni á meðan á átakinu stóð. Við erum ekkert að stressa okkur á því að fólk hafi aðrar skoðanir á þessum málum en við – sú staðreynd að önnur viðhorf en þau sem við hvetjum til eru ríkjandi í samfélaginu er einmitt ástæðan fyrir því að við stöndum í þessari baráttu. En verra þykir okkur þegar fólk er ósammála okkur vegna misskilnings og þess vegna langar okkur að svara fyrir nokkra gagnrýnispunkta:

1. Það eru ekki nógu margir feitir í herferðinni

Sumum fannst asnalegt að mikið af fólki, sem virtist vera í kjörþyngd, tæki þátt í átakinu en staðreyndin er að við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að fá fólk af öllum stærðum og gerðum til að vera með. Það að fólk í þéttari kantinum hafi verið í minnihluta þeirra sem sendu inn myndir staðfestir bara hve margir upplifa óöryggi og skömm yfir líkama sínum – sem er akkúrat það sem við erum að reyna að breyta með þessari baráttu. Við heyrðum sannarlega í nokkrum sem vildu vera með en voru feimnir við að koma fram af ótta við gagnrýni vegna stærðar sinnar.

2. Grannt fólk á ekki erindi í þessa baráttu

Það er einfaldlega ekki hægt að vera í réttri stærð fyrir þennan málstað. Ef þú ert grannvaxin þá færðu að heyra að þú vitir ekkert hvað þú ert að tala um af því þú ert ekki feit. Ef þú ert feit þá færðu að heyra að þú sért bara að reyna að réttlæta tilvist þína af því þig skortir viljastyrk til að grennast. Þau viðhorf sem við tölum fyrir eru ögrandi og því er reynt að kveða þau niður með því að gera fólkið sem talar fyrir þeim ómarktækt. Staðreyndin er að ríkjandi þyngdaráherslur meiða alla. Þegar við dæmum fólk á grundvelli holdafars þá eru allir gagnrýndir nema þeir sem falla inn í þann þrönga flokk sem við höfum skilgreint sem „norm“ eða „fegurð“ eða whatever. Við erum allskonar og því tapa allir ef fjölbreytileikinn er ekki virtur. Allir hafa fitu, bara í mismiklum mæli , en flestir hafa nóg til að hafa komplexa yfir því. Það er því öllum í hag að hugmyndir um þóknanlega líkama séu víkkaðar út.

3. Við hvetjum til offitu

Með því að hvetja til virðingar gagnvart öllum líkömum erum við ekki að gera annað en að skapa fólki af öllum stærðum og gerðum viðunandi lífsskilyrði. Við erum ekki að hvetja til þess að fólk lifi óheilbrigðu lífi og lítum ekki á það sem hluta af líkamsvirðingu að hunsa  þörf líkamans fyrir holla næringu og hreyfingu. Við viljum bara ekki senda þessi skilaboð út í nafni þyngdarstjórnunar því þá erum við að styrkja það félagslega flokkunarkerfi á grundvelli holdafars sem við teljum að sé skaðlegt. Offita hefur verið litin hornauga á Vesturlöndum alla 20. öldina en ekki hefur það stuðlað að grennri vexti. Hvernig stendur á því að við ríghöldum í þá hugmynd að þessi viðhorf verji okkur gegn offitu? Rannsóknir sýna að ungmenni sem hafa jákvætt viðhorf til líkama síns hugsa betur um hann og sömuleiðis sýna rannsóknir að fitufordómar, skömm og neikvæð líkamsmynd eru mörgum hindrun í því að hreyfa sig. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé hættulegt að lifa með reisn og þykja vænt um líkama sinn en margt bendir til þess að fordómar og líkamskomplexar vinni gegn heilbrigðu lífi.

4. Við hvetjum til ofáts

Þetta er eflaust algengasti misskilningurinn varðandi megrunarlausa daginn og undirstrikar rækilega það truflaða viðhorf sem við höfum til matar. Ef við erum ekki í megrun þá hljótum við að vera í ofáti. Svona hugsa aðeins þeir sem hafa tapað eðlilegum tengslum sínum við mat og matarlyst. Lítil börn eru ekki í megrun, þau hafa ekki áhyggjur af kaloríum eða fitu, þau nærast þegar þau eru svöng og vilja ekki meir þegar þau eru orðin södd. Þetta heitir eðlilegt samband við mat og það er þetta sem við viljum koma áleiðis. Ekki láta hræðsluáróður, megrunarþráhyggju, samviskubit eða hugsunarlaust ofát stýra því hvernig þú borðar. Lærðu að hlusta á líkama þinn, taka eftir því hvað fer vel í þig og hvað ekki, hvernig þér líður af matnum sem þú borðar, hvenær þú þarft að næra þig og hvenær þú hefur fengið nóg. Gerðu þetta allt án dómhörku og lærðu á líkama þinn af forvitni. Þannig myndar þú ástríkt og uppbyggilegt samband við líkama þinn sem er laust við togstreitu, ofurstjórn og stjórnleysi.

 

Flokkar: Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Þriðjudagur 1.5.2012 - 11:00 - Rita ummæli

Megrunarlausi dagurinn 2012

Megrunarlausi dagurinn er þann 6. maí nk. og af því tilefni ýtum við úr vör vitundarvakningarherferðinni  „Fyrir hvað stendur þú?“ sem gerð er að erlendri fyrirmynd eins og áður hefur komið fram. Konan á myndinni hér fyrir ofan heitir Helga Bryndís Ernudóttir og er snillingurinn á bak við alla myndvinnslu í þessari herferð. En þar sem þetta er í 7. sinn sem þessi baráttudagur er haldinn hátíðlegur hér á landi er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg.

Við fögnum því að samfélagið sé smám saman að vakna til vitundar um það að megrunaráherslur, matarþráhyggja, öfgalíkamsrækt og holdafarsfordómar eru skaðleg fyrirbæri sem hafa ekkert að gera með heilsu og vellíðan. Það að vera með vigtina á heilanum, borða samkvæmt flóknum reglum og æfa 2x á dag er ekki nauðsynlegt til að lifa heilbrigðu lífi og getur meira að segja verið mjög óheilbrigt. Heilbrigði er margþátta fyrirbæri sem snýst ekki bara um líkamlegt ástand heldur einnig andlega líðan og félagstengsl. Atriði eins og þolinmæði, þrautseigja, velvild, samkennd og samskipti eru ekki síður hluti af því sem við ættum að tengja við heilsu. Samband okkar við líkamann er sömuleiðis alveg jafn veigamikill þáttur heilbrigðis eins og regluleg hreyfing eða tannburstun.

Við fögnum því að mjúkum línum sé skartað af meira stolti en áður og víðsýni í sambandi við líkamsvöxt er smám saman að taka við af þröngsýni. Það felur ekki í sér andúð á grönnum vexti heldur að hver og einn geti fundið sátt við sitt eðlislæga líkamsform í stað þess að keppa að einhverju öðru sem talið er betra. Það er jafn fáránlegt að skipa grönnu fólki að þyngja sig og gengur yfirleitt jafn illa og þegar feitu fólki er sagt að grennast. Okkur gengur almennt séð fremur illa að stjórna líkamsvexti okkar en við getum haft heilmikið um heilsu okkar og líðan að segja með því að einbeita okkur að því sem við höfum stjórn á: Hegðun okkar. Hver og einn ber ábyrgð á eigin heilsu og hvort sem við erum feit eða grönn þá þarf líkami okkar daglega umhirðu í formi hollrar fæðu, hreyfingar, hreinlætis og hvíldar. Og ástar!

Að lokum ber að fagna því að fitufordómar mæta meiri mótstöðu en áður og það þykir ekki alveg jafn sjálfsagt að tala um fitubollur og sófaklessur. Vissulega heyrast þessi viðhorf víða og þarf ekki annað en að renna örstutt í gegnum athugsasemdakerfi þessarar síðu til að finna smjörþefinn af þeim. En þessi viðhorf eru deyjandi fyrirbæri sem munu smám saman mokast út í horn þegar fleiri átta sig á því að fjölbreytileikinn er eðlilegur og honum ber að fagna.

Það gerum við!

P.s. Fleiri myndir má sjá hér og áfram verður hægt að senda inn myndir á likamsvirding@gmail.com ef fleiri vilja slást í hópinn 🙂


Flokkar: Samfélagsbarátta

Miðvikudagur 4.4.2012 - 22:42 - Rita ummæli

Viðtal um nýstofnuð samtök

Ég vildi bara rita hér nokkrar línur til að benda ykkur á skemmtilegt viðtal við Sigrúnu Daníelsdóttur. Í viðtalinu ræðir hún um nýstofnuð Samtök um líkamsvirðingu og var þetta tekið upp fyrir Samfélagið í nærmynd. Áhugasamir vinsamlegast smellið hér.

Njótið vel.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.3.2012 - 21:00 - 15 ummæli

Samtök um líkamsvirðingu

Í dag voru stofnuð Samtök um líkamsvirðingu. Samtökin hafa það að markmiði að stuðla að virðingu fyrir fjölbreytileika holdafars, jákvæðri líkamsmynd og heilsueflingu óháð holdafari. Sömuleiðis munu samtökin gera sitt til að vinna gegn útlitsdýrkun og fitufordómum í samfélaginu. Það er von okkar að hér megi rísa öflug hreyfing gegn öllum þeim óheilbrigðu og jafnvel siðlausu áherslum sem virðast ríkja í tengslum við heilsu og holdafar í dag. Margt af því sem sett er fram í nafni heilsu á ekkert skylt við heilbrigði og fordómar og mannfyrirlitning virðast ráða ríkjum á mörgum sviðum. Við viljum búa til samfélag þar sem allir líkamar eru velkomnir og heilsuefling snýst um vellíðan og umhyggju fyrir líkamanum. Við viljum að börn læri að þykja vænt um líkama sinn og bera virðingu fyrir margbreytileikanum. Við viljum víkka út þröngsýnar hugmyndir um fegurð. Við viljum að fataverslanir bjóði föt fyrir raunverulegt fólk í allskonar stærðum. Við viljum ekki að neinn þurfi að forðast að fara í sund vegna líkamskomplexa. Við viljum binda endi á átraskanir, stríðni vegna holdafars og stríðið gegn offitu. Við viljum frelsi.

Flokkar: Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Laugardagur 3.3.2012 - 13:04 - 64 ummæli

Er þátttaka í fitness heilsusamleg?

Hvað er fitness?

Flestir hafa sennilega heyrt um „fitness“ eða hreysti eins og mætti þýða orðið á íslensku. Mikil umfjöllun hefur verið um þetta fyrirbæri í fjölmiðlum um nokkurt skeið og iðkendum fitness gjarnan stillt upp sem fyrirmyndum hvað varðar heilbrigt líferni. En snýst fitness um heilsueflingu? Margir hafa bent á að fitness hafi lítið með hreysti og heilbrigði að gera en sé fyrst og fremst útlitsdýrkun undir formerkjum heilsueflingar. Hildur Edda Grétarsdóttir (2009), sem gerði lokaverkefni sitt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands um þetta efni,  lýsir málinu á þessa leið:

Keppni í fitness felst í því að koma fram, yfirleitt mjög fáklædd/-ur, fyrir dómnefnd sem leggur mat á útlit keppenda, svo sem líkamsbyggingu, vöðvastærð og jafnvel andlitsfegurð. Undanfari keppninnar er stíf styrktarþjálfun þar sem markmiðið er að stækka vöðva en síðan er líkamsfita skorin niður eins mikið og hægt er til þess að gera vöðvana meira áberandi, eða að vera „skornari“ eins og oft er sagt. Því fylgir yfirleitt strangt mataræði, sem er miðað að því að halda sem mestum vöðvamassa en skera burt fitu. Langflestir keppendur bera síðan á sig gríðarlegt magn af brúnkukremi og/eða stunda sólböð sem á enn frekar að skerpa ásýnd vöðvanna.

Í raun má því segja að keppni í fitness sé fyrst og fremst keppni í ákveðnu útliti og erfitt að sjá hvernig slík keppni er frábrugðin dæmigerðri fegurðarsamkeppni að öðru leyti en því að það útlit sem keppt er í er ólíkt.

 

Hverjar eru afleiðingar þess að taka þátt í fitness?

Lesendur þessarar síðu vita líklega flestir að megrun og tilraunir til fitutaps eru eru alla jafna gagnslítið og jafnvel áhættusamt athæfi. Í rannsókn Andersen, Bartlett, Morgan og Brownell frá árinu 1995 kom fram að keppendur í vaxtarrækt höfðu endurtekið farið í megrun, og  tæpur helmingur sagðist hafa stundað ofát (binge-eating) eftir þátttöku í keppni. Langflestir, eða rúm 80%, sögðust einnig hafa þrálátar hugsanir um mat. Þá kom í ljós að allt að því helmingur þátttakenda sagðist glíma við sálræna erfiðleika á meðan þeir bjuggu sig undir keppni, svo sem kvíða, skapvonsku eða reiði. Í stuttu máli sagt áttu þátttakendur í afar óheilbrigðu sambandi við mat og glímdu margir við andlega vanlíðan.

Áhrif fitnessiðkunar á Íslandi hafa einnig verið könnuð. Sigurður Heiðar Höskuldsson og Sigurður Kristján Nikulásson (2011) könnuðu áhrif undirbúnings og þátttöku í fitness á líkamlega og andlega líðan kvenna, bæði meðal fyrrverandi keppenda í fitness og þeirra sem bjuggu sig undir keppni á þeim tíma sem rannsóknin fór fram. Í ljós kom að hitaeiningafjöldi sem keppendur neyttu var langt undir ráðlögðum viðmiðum Lýðheilsustöðvar, en keppendur stunduðu stífar æfingar allt að því sjö sinnum í viku. Tæp 40% þátttakenda sögðust finna fyrir aukinni skapstyggð við mikið æfingaálag, líkt og á undirbúningstímabili fyrir keppni og um 30% sögðust finna fyrir svefntruflunum. Um það bil 70% þátttakenda rannsóknarinnar sem voru þá við það að keppa í fitness sögðust hafa fundið fyrir átröskunareinkennum á þjálfunar-/keppnistímabilinu. Rúm 50% þátttakenda í sama hópi sögðust hafa fundið fyrir röskun á tíðahring miðað við um 90% fyrrum keppenda í fitness sem tóku þátt í rannsókninni. Einn fyrrum fitness keppandi gekk m.a.s. svo langt að fullyrða að nær allir kvenkyns keppendur í fitness finni fyrir röskun á tíðahring og að það sé jafnvel takmark margra þeirra að fara ekki á blæðingar. Það sé til marks um að fituprósentan sé komin niður fyrir ákveðin mörk, sem sé álitið einkar eftirsóknarvert. Rúmur helmingur allra þátttakenda rannsóknarinnar taldi notkun stera og annarra ólöglega lyfja algenga í fitness. Enginn fyrrum keppenda sem rannsakendur ræddu við hafði hug á að taka aftur þátt en flestir þeirra sem bjuggu sig undir fitness á þeim tíma sem rannsóknin fór fram sögðust hafa áhuga. Það er í raun ekki undarlegt ef litið er til þess að þeir sem eru í undirbúningi fyrir keppni hafa fórnað miklu og lagt á sig gríðarlega mikið erfiði til þess að ná árangri. Á þeim tímapunkti finnst fólki gjarnan að tilgangurinn helgi meðalið og það er erfitt að viðurkenna fyrir sjálfum sér að eitthvað sem maður eyðir miklum tíma, orku og fjármunum í sé ekki þess virði. Afleiðingarnar verða oft ekki ljósar fyrr en seinna, þegar litið er til baka.

 

Hvar er gagnrýnin hugsun fjölmiðla?

Stanslaus upphafning granns eða vöðvamikils líkamsvaxtar í fjölmiðlum og í daglegu tali hlýtur að móta hugmyndir okkar um hvað telst eðlilegt og fallegt. Fitness og vaxtarrækt fá afar jákvæða athygli og umfjöllun í fjölmiðlum þrátt fyrir að þessi iðja snúist mest um útlit og minna um líkamlega hreysti, jafnvel þannig að fólk skaðar líkama sinn til þess að geta náð sem mestum árangri. Fólki er hrósað í hástert fyrir að hafa sigrast á líkama sínum, náð tökum á lífi sínu og jafnvel sigrast á átröskunum með því að keppa í fitness. Stóru orðin eru ekki spöruð! Það hlýtur að teljast ámælisvert hversu gagnrýnislaust fjölmiðlar hampa og hvetja til þessa lífsstíls þegar litið er til þess hversu alvarlegar afleiðingar hann getur haft. Hvergi er minnst á neikvæða fylgifiska eða mögulega skaðsemi heldur tekið undir að þessi lífsstíll sé heilbrigður og öllum til eftirbreytni. Vitundarvakningar er þörf! Heilbrigður lífsstíll á ekkert skylt við þær öfgar og þá áhættusömu hegðun sem oft virðist einkenna fitness. Þvert á móti getur þetta verið önnur birtingarmynd útlitsþráhyggju, neikvæðrar líkamsmyndar og átraskana sem aldrei ætti að hvetja til, hvað þá að upphefja sem ímynd heilsu.

 

Heimildir:

Andersen, R.E., Bartlett, S.J., Morgan, G.D. og Brownell, K.D. (1995). Weight-loss, psychological, and nutritional patterns in competitive male body builders. International Journal of Eating Disorders, 18, 49 – 57.

Hildur Edda Grétarsdóttir. (2009). Fitness og Þrekmeistarinn: Þjálffræðilegur bakgrunnur fitness- og þrekmeistarakeppni, fræðileg umfjöllun og almennar upplýsingar. Óbirt BS ritgerð, Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Sigurður Heiðar Höskuldsson og Sigurður Kristján Nikulásson. (2011). Áhrif þátttöku kvenna í fitness á andlega og líkamlega heilsu þeirra. Óbirt BS ritgerð, Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Flokkar: Líkamsmynd · Útlitskröfur · Þyngdarstjórnun

Þriðjudagur 21.2.2012 - 14:11 - 1 ummæli

Fyrir hvað stendur þú?

Kæru unnendur líkamsvirðingar. Munið þið eftir bandarísku herferðinni sem við sögðum frá um daginn? Þar gat fólk sent inn myndir af sér ásamt slagorðum um hvað það vildi standa fyrir (eða gegn) í stríðinu um líkamann. Nú ætlum við að fara af stað með svipaða herferð hérlendis og köllum eftir fólki sem vill taka þátt. Við viljum vekja íslenskt samfélag til vitundar um hversu skaðleg þessi sífellda krafa um megrun og rétt útlit getur verið, hvernig þráhyggja varðandi mat, þyngd og hreyfingu getur hæglega farið langleiðina með að eyðileggja líf fólks og hvernig heilsa og hamingja einkennast af jafnvægi og vellíðan sem eru ekki bundin við tölu á vigtinni. Við vonumst því sérstaklega eftir fjölbreytileika í þessu sambandi og vonum að fólk af öllum stærðum og gerðum, aldri, kyni, starfstéttum, kynhneigð, þjóðerni o.s.frv. vilji taka þátt í þessu með okkur.

Ef þú vilt vera með í því að skapa samfélag sem styður okkur öll til þess að líða vel í eigin skinni, þá sendu inn mynd af þér ásamt slagorði sem hefst á orðunum: „Ég stend fyrir/gegn…“ á netfangið likamsvirding@gmail.com. Myndirnar verða svo unnar á svipaðan hátt og þær sem sjást hér á síðunni og birtar í tengslum við Megrunarlausa daginn 2012 í vor.

 

Vonum að sem flestir sláist í för með okkur. Lifi byltingin!

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Miðvikudagur 8.2.2012 - 12:22 - Rita ummæli

Karlmenn og hinn “fullkomni líkami”

Oft finnst mér karlmenn gleymast aðeins í umræðunni um líkamsvirðingu og líkamsvöxt. Það eru ýmist teikn á lofti um að ungir karlmenn í dag séu undir meiri samfélagsþrýstingi en karlmenn af eldri kynslóðum. Samantekt á rannsóknum sýnir að á árum áður þá voru menn ánægðari með líkama sinn  en í dag er öldin önnur og þegar karlmenn eru beðnir að velja drauma líkamann þá velja þeir yfirleitt líkama sem er mun vöðvastæltari en þeirra eigin líkami. Þegar menn velja draumalíkamann þá nota þeir í miklum meirihluta vaxtarlag sem birtist á öldum ljósvakans sem viðmið. Þeir líkamar sem þar birtast virðast með mjög lága fituprósentu, vöðvarnir eru útblásnir og líkaminn er V laga, þ.e. breiðar axlir og mjótt mitti.

Samantekt á rannsóknum sýnir einnig að karlmenn sem horfa á myndir af vöðvastæltum, myndvinnsluunnum mönnum upplifa óánægju með líkamsvöxt sinn í kjölfarið og benda rannsóknir til þess að ítrekað áhorf sé einn af þremur mikilvægum þáttum sem ýta undir varanlega óánægju með líkamsvöxt. Hinir þættirnir eru félagsþrýstingur og áhrif fjölskyldu. Varanleg óánægja með líkamsvöxt gerir karlmenn líklegri til að taka vaxtaraukandi hormón (stera) en slík neysla er mikið áhyggjuefni þar sem hún getur aukið árásargirni. Þá gerir óánægja með líkamsvöxt karlmenn viðkvæma fyrir því að þróa með sér líkamsímyndarraskanir af ýmsu tagi. Vöðvafíkn er líkamsímyndarröskun sem er að aukast meðal karlmanna en einkenni hennar birtast meðal annars sem óánægja með líkamann á þann hátt að vöðvarnir eru aldrei nógu stórir, ofuráhersla á mataræði og bætiefni í mataræði, öfgakennd líkamsrækt, skapsveiflur o.m.fl.. Margir unglingsstrákar horfa gangrýnislaust á myndir af ofurvöðvastæltum mönnum. Það út af fyrir sig er hættulegt því að gagnrýnin hugsun getur skipt sköpum og komið í veg fyrir að fólk samþykki sjálfkrafa að svona “eigi það að vera.”

Það eru til fullt af myndböndum sem sýna hvernig myndvinnsluforrit búa til hina “fullkomnu konu” (sjá t.d hér) og margt fólk  er því meðvitað um að útlit kvenfyrirsæta er tálsýn ein. Hingað til hefur þó verið minni áhersla á umfjöllun um hversu óeðlilegir líkamar karlfyrirsæta oft eru. Ég varð því einkar glöð þegar ég sá að sambærilegt myndband hefur verið gert fyrir karlmenn. Það sem gerir það síðan enn betra er að það er unnið af óháðum aðila, en ekki snyrtivörufyrirtæki. Þetta myndband sem ég vil sýna ykkur er mjög áhugavert fyrir margar sakir, aðallega vegna þess að þarna stígur karlmaður fram og talar til kynbræðra sinna en einnig vegna þess að þarna eru sýndar svart á hvítu blekkingarnar sem búa að baki hinum “fullkomna líkama.”

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com