Þriðjudagur 19.11.2019 - 11:45 - Rita ummæli

Borgarskipulagið vaknar.

 

Það er ánægjulegt að verða var við að skipulagsyfirvöld í Reykjavik séu að átta sig á grundvallaratriðum fræðanna um borgarskipulag. Þau hafa um nokkurra ára bil álitið skynsamlegt að beina öllum  fjölmennustu vinnustöðunum  inn í miðborgina. Það var einkum rökstutt með því að þannig væri hægt að leysa helstu samgönguvandamál borgarinnar.

Þessi skipulagshugmynd er auðvitað á misskilningi byggð og á það hefur verið bent um margra ára skeið. Ef grannt er skoðað gerir gildandi aðalskipulag Reykjavíkur ráð fyrir því að atvinnutækifærum sé dreift um línulega Reykjavík meðfram svokölluðum „þróunarás“ frá miðborginni að Keldum.  Borgin hefur ekki stutt þetta góða markmið skipulagsins í verki.  Nægir þar að nefna staðsetningu Landspítalans í miðborginni. byggingu höfuðstöðva Landsbankans og fl.

Nú bregður svo við að þegar finna á nýjan stað fyrir fjölmennan vinnustað í miðborginni, sem er Tækniskólinn, vakna menn. Þeir eru ekki að velta fyrir sér að byggja við hann og stækka á núverandi stað á Skólavörðuholti, eða finna honum nýja lóð í miðborginni eða í nágrenni hennar. Nei, þeir vinna faglega og halda sig við eina af meginstoðum AR2010-2030 og vilja finna honum stað á þróunarásnum við hinn enda upphaflegu borgarlínu aðalskipulagsins á landinu í Ártúnsholti. Þar ná þeir fram þrem markmiðum aðalskipulagsins. Styrkja hugmyndina um línulega borg, bæta farþegagrunn borgarlínunnar í báðar áttir og draga úr einkabílaumferð

Skipulagsfulltrúi borgarinnar segir, svo vitnað sé til hans í Morgunblaðinu í morgun að „Tækniskólinn á Ártúnsholti, einu helsta þróunarsvæði borgarinnar, myndi skapa feiknarlega spennandi tækifæri fyrir heildarskipulag og framtíðarþróun Reykjavíkurborgar“ Þetta er vel mælt og eins og allir vita í fullu samræmi við stefnumótun sem mörkuð var í AR2010-2030 en hefur ekki verið fylgt eftir af nægjanlegri festu eins og flestir vita, fyrr en kannski nú.

Nú þurfa menn að lyfta sér svona 5 kílometra upp í loftið og horfa á borgina ofanfrá.  Þá blasa við mistök og tækifæri. Í þessu sambandi ættu borgaryfirvöld að brjóta odd af oflæti sínu og finna nýrri samgöngumiðstöð stað við Elliðaárósa þar sem allar helstu stofnæðar höfuðborgarsvæðisins mætast í stað þess að hanga á gömlum hugmyndum, sem aldrei voru góðar, og byggja slíka miðstöð á fullnýttri Hringbraut og stuðla þannig að enn meir þrengslum og vandræðum  í umferðinni þar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.10.2019 - 10:30 - Rita ummæli

Upphaf hugmyndarinnar um Borgarlínu?

Hugmyndin um línulegan miðbæ Reykjavíkur og „öflugum almenningssamgöngum“ (þ.e. Borgarlínu) kom fyrst fram í grein eftir Pétur H. Ármannsson arkitekt, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 17. september 2005.

Þar skrifar hann um hugmyndina um línulegan miðbæ og samgönguás í ítarlegri grein um þróun miðborgar Reykjavíkur. Þessi grein hefur haft mjög mikil áhrif og er orðrétt vitnað í hana í Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030.

Það er ánægjulegt til þess að vita að þessi hugmynd Péturs hefur vakið fólk til umhugsunar um borgarskipulagið en á hinn vængin er sárt til þess að hugsa að þessi hugmynd hefur ekki náð að vera sú kjölfesta í skipulaginu sem hún hefði átt að vera.

Það ríkir einhver losaragangur í skipulagi borgarinnar nú eins og oft áður.

Greinin var skrifuð fyrir 15 árum og á fullt erindi inn í umræðuna enn í dag. Kannski enn meira erindi nú en þá?

Hér kemur niðurlag greinar Péturs H. Ármannssonar.

Kvosin – Keldnaholt / línulegur miðbær

 

„Sem innlegg í umræðuna um skipulag Reykjavíkur er vert að kynna til sögunnar hugmynd sem kalla mætti Kvosin-Keldnaholt, línulegur miðbær Reykjavíkur frá austri til vesturs. Ólíkt hástemmdum hugmyndum um eyjabyggðir og landfyllingar er þessi hugmynd tiltölulega jarðbundin. Í reynd er hún aðeins ábending um þróun sem þegar hefur átt sér stað og teikn eru á lofti um að halda muni áfram, hvað sem öllum skipulagsáætlunum líður. Að því leyti er hún í samhljómi við þá skoðun að eðlilegasta þróun borga sé sú sem gerist hægt og sígandi á löngum tíma. Hugmyndin felst í því að viðurkenna í hugsun og verki línulegan vöxt miðborgarinnar til austurs, frá Kvosinni í vestri að Mörkinni í austri, og til lengri tíma litið áfram yfir á Ártúnshöfða allt að Keldnalandi. Þetta felur í sér að gamli miðbæinn er skilgreindur út frá sérhæfðu hlutverki sínu og umhverfisgæðum, hinn sögulegi kjarni og aðsetur æðstu stjórnsýslu og menningarstofnana, ekki sem hinn eini MIÐBÆR heldur sem elsti og mikilvægasti hlekkurinn í langri keðju.

Með því að endurhanna framhald Laugavegarins austan við Hlemm og áfram inn Suðurlandsbraut sem fallega borgargötu yrði til eins konar línuleg hryggsúla eftir endilöngu nesinu með öflugum almenningssamgöngum í báðar áttir, hjólastíg og greiðum gönguleiðum, auk hefðbundinnar bílaumferðar. Slík gata yrði annars konar samgönguleið, manneskjulegur valkostur samsíða Miklu(hrað)brautinni, sem í dag er eina tenging úthverfanna við miðbæinn. Með þessum umhverfisbótum er verið að nýta dýrmæta fjárfestingu sem fyrir er á svæðinu, t.d. í hótelum og skrifstofuhúsum, í stað þess að reisa ný hverfi frá grunni.

Með því að framlengja hinn nýja Laugaveg með nýrri brú yfir Breiðholtsbraut og Elliðaárósa yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að tengja úthverfi Reykjavíkur við byggðina á nesinu. Að hinum línulega ás liggja mikilvæg þróunarsvæði sem sjá má fyrir sér að gangi í gegnum sams konar endurnýjun og Borgartúnið. Þar má nefna Brautarholt og Skipholt (Hlemmur plús), Suðurlandsbraut og Múlahverfi, Skeifan, Fenin, Dugguvogur og Ártúnshöfði, allt inn að Keldnaholti. Öll svæðin uppfylla þau skilyrði sem hugmyndin um endurnýtingu lands felur í sér og mörg þeirra bjóða auk þess upp á heillandi staðhætti, t.d. við ósa Elliðaáa, vesturhlíð Ártúnshöfða og ströndina inn að Bryggjuhverfinu. Til yrði samhangandi atvinnu-, þjónustu- og íbúðarsvæði með blandaðri, þéttri borgarbyggð sem hefði þann ótvíræða kost að liggja að flestum stærri íbúðahverfum borgarinnar. Mun fleiri borgarbúar en ella ættu þess kost að búa í göngufæri við hinn stækkaða miðbæ. Í stað þess að einskorða þéttingu byggðar og eflingu mannlífs við vestanvert nesið myndu allir hlutar borgarinnar njóta góðs af og Reykjavík þróast í þá átt að verða ein borgarheild, fremur en aðgreindir hverfishlutar tengdir saman af neti hraðbrauta“.

++++

Efst er mynd sem fylgdi grein Péturs í Lesbók fyrir 15 árum ogsýnir afar sterka og rökfasta tillögu hans að þróun borgarinnar þar sem miðborgin er línuleg og sögulega studd. Í greininni kemur fram skýrt hlutverk Miklubrautar og skýrt hlutverk Lagavegar og Suðurlandsbrautar.

Að neðan kemur greinin í heild sinni. Hana er vonandi hægt að lesa ef tvísmellt er á myndina.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.10.2019 - 10:58 - Rita ummæli

Deilan um Laugaveg sem göngugötu.

Það einkennir umræðuna hér á landi að menn skipa sér í tvær andstæðar fylkingar í flestum málum. Það er að segja með eða á móti einhverju.  Allt er annað hvort svart eða hvítt. Svo grafa menn skotgrafir og hrópa hver á annann öllum til leiðinda.  Menn leita ekki lausna og reyna ekki að málamiðla.

Þetta er svona líka í skipulagsumræðunni.

Þetta kemur glöggt fram um umræðuna um Laugaveg sem göngugötu sem var rædd í borgarstjórn í gær. Sumir vilja að þetta sé bílagata en aðrir göngugata. Þetta er svona annað hvort eða og ekkert þar á milli. Svona er þetta ekki í öðrum löndum þar sem ég þekki til. Menn málamiðla og reyna að ná sáttum.

Varðandi Laugaveg göngugata þá er til góður millivegur.

Það er PPS gatan eða „Pedestrian Priority Street“ þar sem bílar eru leyfðir en gangandi hafa forgang. Þetta er mjög einfalt ódýrt og virkar vel um víða veröld.

Það þarf lítið annað að gera en að setja upp skilti sem á stendur „Gangandi hafa forgang“.

Svo þarf að leggja niður öll almenn bifreiðastæði, en halda samt nokkrum stæðum fyrir fatlaða og kannski þá sem komir eru yfir sjötugt og málið er dautt og leyst þar til tíminn leysir vandann og Laugavegur verður hrein göngugata eins og fyrirsjáanlegt er.

Ákvörðunin um að breyta akstursstefnu Laugavegar á kafla er mér skipulagslega óskiljanleg hrokafull della, þó vissulega sé það visst kænskubragð til þess að ná markmiðinu um hreina göngugötu.

+++

Hjálagt eru tvær ljósmyndir sem ég tók fyrir 10 dögum í Paris, á Rue de Buci, sem margir þekkja. Þetta er ein af mörgum PPS götum borgarinnar. Efst sést hvernig bíll seitlar um götuna meðan gangandi hafa tekið götuna yfir. Svo er málað  á götuna stór gangandi maður, minna reiðhjól og bíllinn er minnstur svo þetta sé skiljanlegt öllum.

Að neðan er svo mynd af skilti sem segir vegfarendum hver á réttinn. Hámarkshraðin er að vísu nokkuð hár. Hann ætti að vera gönguhraðinn sem er um 5 km á klukkustund.

Hér að neðan er mynd frá Strædet í Kaupmannahöfn sem fræðimaðurinn Jan Gehl skilgreinir sem PPS götu. Þarna seitla bílar ofurhægt innan um fótgangandi og barnavagna fáum til leiðinda.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.9.2019 - 11:04 - Rita ummæli

Flugvöllur í Vatnsmýrinni í heila öld

Ég hitti tvo kollega mína við þriðja mann í vikunni. Staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni kom til umræðu ásamt skipulagsáætlunum þar.

Fljótlega var farið að tala um inngrip Breta í borgarskipulagið og hversu illa Reykjavíkurborg hefði farið út úr heimstyrjöldinni síðari þegar Bretar ákváðu staðsetningu Reykjavíkurflugvallar nánast í miðri borginni, sem ver auðvitað tóm vitleysa þó borgin hafi síðar byggst umhverfis flugvöllinn.

Ég leyfði mér að mótmæla þessu og sagði að flugvallastæðið hefði verið ákveðið af okkur Íslendingum meira en tveim áratugum áður en Bretar tóku sig til við að leggja flugvöllinn. Tveir áratugir er langur tími þegar hugsað er til þess að flug á Íslandi er einmitt í dag 100 ára gamalt og flugsagan í heild sinni aðeins 116 ára.

Þessu mótmæltu kollegar mínir kröftuglega og fengu sterkan stuðning frá þriðja manninum sem er verkfræðingur.

Þarna var um ofurefli að etja. Flökkusagan hafði djúpar rætur, vitnað var til ummæla margra og engu var haggað.

En lítum nú á staðreyndirnar.

Vorið 1919 fékk Knud Ziemsen, þá bæjarstjóri, frænda sinn, flugmanninn Rolf Ziemsen, til þess að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Hann taldi Vatnsmýrina besta kostinn fyrir flugvöll í Reykjavík. Þeir töldu flugsamgöngur mikilvægar fyrir bæinn sem höfuðstað landsins. Í framhaldinu lagði bæjarstjórnin til 92.300 fermetra svæði, svonefnt Briemstún, undir flugvöll. Þá var kominn Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrina og hefur varið þar í heila öld.

Það var sem sagt bæjarstjórn sem útvegaði landið sem þá var tæpir 10 hektarar.

Um haustið (1919) kom svo til landsins flugvél af gerðinni AVRO 504. Flugvélin flaug þónokkuð. Mest útsýnisferðir. Fyrsti flugmaðurinn var Cecil Faber. Árið eftir tók vesturíslenskur flugmaður við starfi Fabers, hann hét Frank Fredrickson.

Árið 1928 var nýtt flugfélag stofnað að fumkvæði Alexanders Jóhannessonar prófessors. Það starfaði á Reykjavíkurflugvelli til 1931 þegar heimskreppan og fleira urðu því að falli.

Næstu árin var flugvöllurinn notaður af útlendingum. Aðallega hollenskum veðurathugunarmönnum. Þá hafið verið byggt þarna flugskýli og fl. vegna starfseminnar.

Árið 1937 teiknaði Gústaf E. Pálson bæjarverkfræðingur flugvöll í Vatnsmýrinni en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en 1940 þegar Bretar tóku til við að leggja flugvöllinn eftir eigin skipulagi.

Svona eru nú staðreyndirnar í mjög stuttu máli.

Allar þessar lífseigu flökkusögur um að Bretar hafi ekki spurt kóng né prest og tekið Vatnsmýrina og lagt undir flugvöll að okkur forspurðum eru hæpnar. Einkum vegna þess að bæjarstjórn Reykjavíkur tók sjálf ákvörðunina 21 ári áður öllum til heilla.

En svo oft er hægt að endurtaka flökkusögur að þær enda sem einskonar sannleikur í hugum fólks.

Ástæða er til þess að óska Íslendingum og sérstaklega höfuðborgarbúum til haminngu með flug á Íslandi í 100 ár.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.8.2019 - 14:24 - Rita ummæli

Eru íslendingar úti að aka?

Samkvæmt Morgunblaðinu í gær eru 712 einkabílar á hverja 1000 íbúa á Íslandi. Danir eiga samkvæmt sömu heimild 438 bíla á hverja 1000 íbúa. Eiga því íslendingar 63% fleiri einkabíla en Danir.

Hvernig stendur á þessu?

Skýringarnar eru eflaust margar. Í fyrsta lagi búum við fá í harðbýlu stóru landi og við misjöfn veður. Bílar eru ódýrir og hér er mikið dreifbýli og svo eru það skipulagsmálin.

Með betra borgarskipulagi, sjálfbærum borgarhlutum minnkar þörfin fyrir einkabíla og grunvöllur fyrir almenningssamgöngur batna. Sem betur fer er unnið að því víðast í heiminum að draga úr notkun einkabíla enda er hann dýr og hættulegur fólki og umhverfinu öllu.

Í áratugi hefur í allri kennslu í skipulagsfræðum verið lögð áhersla á að yfirráð yfir einkabíl sé ekki forsenda búsetunnar. En það er langur vegur frá hugsun til veruleika og góðir hlutir gerast hægt.

Íslendingar eru nú um 360 þúsund og ef talan í Morgunblaðinu er lögð til grundvallar þá eru um 260 þúsund einkabílar á landinu. Ef meðal sætafjöldi í bílunum er fimm sæti þá eru um 1.3 miljónir ágætra hægindastókar í þessum bílum sem eru tómir 90-95% sólahringsins. Ef allir íslendingar eru úti að aka samtímis er um það bil ein milljón hægindastóla tómir á fullri ferð á götum og vegum landsins.

Eftir nokkra áratugi munu börnin spyrja: Voru virkilega tveir bílar á mörgum heimilum í gamla daga? Og jafnvel fleiri? Svarið er já, og á mörgum heimilum eru fleiri en tveir bílar. Ojbara, þvílíkur sóðaskapur, munu börnin þá segja.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.7.2019 - 21:06 - Rita ummæli

Hvalá og leiðin þangað.

Ég kom í Norðurfjörð á Stöndum fyrir allmörgum árum í vinahópi, sem um áratugaskeið hefur farið árlega á fjöll saman. Vegna umræðna undanfarin misseri var ferðinni í ár heitið til Ingólfsfjarðar og Ófeigsfjarðar. Aðallega til þess að skoða Hvalársvæðið og náttúruna sem þar er að finna.

Leiðin frá Norðurfirði yfir Meladal að Eyri við Ingólfsfjörð fyrir Seljanes að ósum Hvalár og Rjúkandi er einhver sú skemmtilegasta og fallegasta leið sem ég hef ekið á landinu. Þetta er nánast slóði eða einbreið tröð sem liggur að mestu alveg í sjávarmálinu framhjá eyðibýlum og klettasyllum þar sem ægifagurt landslag blasir hvarvetna við. Tignarleg fjöll, sauðfé á beit og reki í fjöruborðinu og auðvitað Drangaskörð.

Það sem mér fannst merkilegast var að þegar komið var á leiðarenda við ósa Hvalár var að þá fékk maður sömu tilfinninngu og þegar gengið er upp á hátt fjall eða tind. Þetta er tilfinning sem kölluð er á ensku „sense of arrival“ eða fullvissu um að nú sé maður kominn á áfangastað. Þarna við ósinn blasti við ein vatnsmesta bergvatnsá sem ég hef séð, silfurtær og fellur um flúðir og fossa til sjávar. Þegar gengið var upp með ánni varð tærleikinn, fegurðinn og hreinleikinn æ tilkomumeiri.

Nú les maður á netinu að þarna munu framkvæmdir við virkjum ánna tveggja, Rjúkandi og Hvalá hefjast á morgun, mánudaginn 22. júlí 2019. Hvalárósar og ósnortið víðerni þar fyrir ofan mun breytast í vinnusvæði með stórvirkum vinnuvélum sem munu breyta öllu þessu einstaka náttúruundri í eitthvað sem ekki verður hægt að endurheimta. Þarna munu koma flennistór miðlunarlón og stórt landsvæði verða ekki náttúruleg lengur. Fossar og flúðir munu hverfa.

Þetta var ógleymanleg ferð, sem fleiri ættu að fá notið.

Efst er mynd af Drangaskörðum eins og þau blöstu við handan Ingólfs- og Ófeigsfjarðar.

Hér að neðan eru myndir sem ég tók á síma minn á ferðalaginu. Neðstu tvær myndirnar fékk ég af veraldarvefnum.

Bergvatnsáin beljar fram, silfurtær.

Á heiðinni eru víða litlar tjarnir sem minntu á málverk Hrings Jóhannessonar.

Maðurinn er lítill frammi fyrir sköpunarverki náttúrunnar. En stórvirkar vinnuvélar eiga auðvelt með að farga öllu þessu ef heimildir verða gefnar til þess.

Rekinn er allstaðar.

Þetta er Húsárfoss í Ófeigsfirði sem ekki mun verða fargað.

Rolla með lömb sín tvö fylgast stóískar með umferðinni. Þær grunar ekki að þessum slóða á að breyta í fjölfarinn virkjanaveg á næstu vikum ef fram heldur sem horfir.

Séð til norðurs að Eyri við Ingólfsfjörð.

 

 

Slóðin, einbreið, liggur oftast alveg í flæðamálinu. Í fjarska má sjá Drangaskörð.

+++++++

Að neðan koma svo tvær fallegar myndir frá ósum Hvalár sem fengnar eru af veraldarvefnum.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.6.2019 - 12:10 - Rita ummæli

Flugsamgöngur við Reykjavík

 

 

Fyrir nokkrum árum setti Ólafur Þórðarsson arkitekt, sem starfar í New York, saman kort sem sýnir fjarlægðir frá flugvöllum nokkurra helstu borga í Evrópu og teiknaði inná kort af Reykjavík og nágrenni. Þetta er mjög áhugavert og í tengslum við hugmyndir Guðjóns Thors Erlendssonar um Hringborgina á Höfuðborgarsvæðinu og brú yfir Skerjafjörð sem fjallað hefur verið um á þessum vef opnast margir möguleikar. Vert að skoða þetta nánar með það í huga hvort hagkvæmt geti verið að halda flugvellinum í Vatnsmýrini næstu áratugina eða þar til hann verður talinn óþarfir vegna betra vegakerfis og annarrar samgöngutækni. Það má ekki gleyma því að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og þeirrar sérstöðu að engar eru hér járnbrautirnar.

Samkvæmt korti Ólafs  er lengst á flugvöll í Moskvu, eða um 42 km. Völlurinn fyrir Osló og Stokkhólm, Mílanó og svo Keflavík eru þarna á bilinu 37-39km. Miðgildið úrtaksins sennilega nærri 10 eða 11 km. Í þessu úrtaki reynast vegalengdirnar í loftlínu vera:

 • Moskva: 42, 29, 28  (Lest)
 • Mílanó: 39, 7, 7  (Lest)
 • Keflavík: 38
 • Osló: 37  (Lest)
 • Stokkhólmur: 37, 7.3  (Lest)
 • Árósar: 30
 • Munchen: 28 (Lest)
 • Heathrow: 22 (Lest)
 • París deGaulle: 22 (Lest)
 • Aþena: 18 (Lest)
 • Gautaborg: 17
 • Berlín: 17, 8, 4 (Lest)
 • Helsinki: 15.5 (Lest)
 • Róm: 13, 7
 • Istanbúl: 13
 • Madríd: 12
 • Amsterdam: 11
 • Glasgow: 11
 • Brussel: 10
 • Frankfurt: 10
 • Prag: 10
 • Hamborg: 9, 8
 • Zurich: 9
 • Dublin: 8
 • Feneyjar: 8
 • Varsjá: 7
 • Mallorka: 7
 • Kaupmannahöfn: 6.4 (Lest)
 • Bern: 5
 • Vilnius: 5
 • Riga: 4
 • Lissabon: 4
 • Napoli:

Annað sem ber að athuga er að oft eru lestarsamgöngur góðar og tengjast flugvöllum beint og samgöngur góðar innan borganna. Lestir af flugvöllum fara oft ekki einungis á einn endastað, heldur tengjast almenningssamgöngukerfi  í viðkomandi borg. Kaupmannahöfn er einstaklega góð í þessu sambandi, þar sem bæði er skammt á Kastrup (6.5km loftlína) og lestarferðin þægileg og tengist borginni allri.

Það er mikill munur á að geta ferðast á flugvöll með lest og ekki hafa allir aðgang að einkabíl. Reykjavík er líkari Bandaríkjunum að þessu leyti, áhersla skipulagsins hefur beinst fyrst og fremst að þörfum ökumanna einkabifreiða. En það er vonandi að breytast hér  með tilkomu fluglestarinnar sem er í undirbúningi og Borgarlínunnar í tengslum við hana.

+++

Nú hef ég bráðum skrifað um arkitektúr, skipulag og staðarprýði á þennan vef í 10 ár.

Það hefur vekið athygli mína hvað kollegar mínir eru þöglir þegar um þessi mál er rætt. Það eru eins og þeir þori ekki að tjá sig eða vilji það ekki. Líklega er ástæðan sú að umræðuhefðin hér á landi er frumstæð. Menn eru ekki akademiskir og geta ekki gert greinarmun á umræðuefninu og þeirri persónu sem tekur þátt í umræðunni. Það er ráðist á manninn og enginn greiarmunur gerður á skoðunum, tilgátum, tillögum eða staðreyndum. Þátttakandi í umræðunni fer oftast illa útúr því að leggja eitthvað til málanna. Honum er strax skipað i eitthvað hólf og er þá annaðhvort góður maður eða slæmur.  Þetta er mjög áberandi á Alþingi Íslendinga þar sem málamiðlanir eru illa séðar og meirihlutinn ræður bara og valtar yfir minnihlutann. Þetta er ekki svona á norðurlöndum. Þar ríkir oftast tillitssemi og menn reyna að sklija sjónarmið hvers annars, tala saman, finna lausnir, skilgreina kosti og galla og ná oftast sáttum.

Undantekning á þessu eru kollegar mínir sem búa erlendis. Það er eins og þeir þrífist í öðru umhverfi. Þeir taka þátt í umræðunni hér á landi alveg hik- og kinnroðalaust. Sem er auðvitað frábært. Ég nefni til dæmis arkitektana Bergþóru Úlfarsdóttir í París, Gunnlaug Stefán Baldursson í Köln, Óla Rúnar Eyjólfsson í Kaupmannahöfn, þá Guðjón Thor Erlendsson í London og Ólaf Þórðason í New York. Þau eru öll virki í skipulagsumræðunni hér á landi.

Þeir félagar Guðjón og Ólafur hafa sett fram efni sem varðar Ísland og höfuðborgarsvæðið sem er mjög upplýsandi og áhugavert og  báðir lagt mikla vinnu í. Guðjón um Hringborg Höfuðborgarsvæðisins og brú yfir Skerjafjörð sem hvorutveggja er frábærlega vel unnið og Ólafur um flugsamgöngur við Reykjavík þar sem þessi gæði eru borin saman við borgir í Evrópu og austurströnd Ameríku og hér er til umræðu.

++++++

Að neðan er samsvarandi kort frá austurströnd Ameríku sem sýnir fjarlægð frá flugvöllum inn í miðborgirnar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.5.2019 - 08:33 - Rita ummæli

Tillaga að breytingu á Notre Dame.

     

Það er mikið rætt um með hvaða hætti á að takast á við uppbyggingu Notre Dame í París eftir brunann mikla í síðasta mánuði og sitt sýnist hverjum.

Fyritækið Miysis í Belgíu sem eru sérstakir sérfræðingar í þrívíðum tölvumyndum er mjög upptekið af þessu og hefur að eigin frumkvæði lagt fram nokkuð ítarlegar tillögur um hvernig best væri að endurbyggja helgidóminn.

Þau leggja út frá þeirri hugmynd að viðhalda einkennum byggingarinnar og segjast vilja gæta þess að hún tapi ekki reisn sinni og glæsileika þó byggt verði í samræmi við þá tíma sem við lifum á í dag.

Þetta er auðvitað eldgömul klisja sem sífellt heyrist, en á nokkuð á brattann að sækja og mun líklega þykja hallærisleg eftir svona 100 ár.

Þau reyna að breyta engu um stærð eða hlutföll upphaflega þaksins eða kirkjunnar sem allir elska, en breyta þakrýminu sem þekkt var sem Skógurinn („La Forét“) og endurskapa það sem bjart grænt svæði. Þau vilja endurbyggja hluta gamla trévirkisins og flétta því saman við nútímalega uppbyggingu.

Þetta er mjög fallega unnið og gaman að skoða og velta fyrir sér. Til dæmis má velta fyrir sér hvort kirkjan, sem er fyrst og fremst helgidómur, kirkja og mikilvægar menningarminjar, eigi að breytast í ferðamannastað, fyrst og fremst. Er skynsamlegt að breyta kirkjunni í hús sem er fyrst og fremst hugsað fyrir túrista þar sem þeir geta „minglað“ við aðra túrista og horft af grænum vetrargarði í þakrýminu yfir borg borganna?  Það er líka sjónarmið, sengja nýhyggjumennirnir og spyrja, hvort við eigum að afneita því að þessi mikli bruni átti sér stað og láta sem ekkert hafi gerst og byggja kirkjuna upp aftur nákvæmlega eins og hún var fyrir brunann?

Áhuginn fyrir þessu verkefni er gríðarlegur og umræðurnar fara með himinskautum. Þúsundir eru að vinna með þetta og velta fyrir sér af miklum áhuga.

Staðfesting á því er þessi mikla vinna Mysis. sem þau segjast hafa gert til þess að bæta í umræðuna. Þau hafa gert þetta á sinn reikning og segjast ekki munu senda þetta inn í hugsanlega samkeppni um verkið. Þau biðja um að þessu sé dreift en vilja að nafn þeirra sé getið. Það er öll þóknunin.

Þetta sé umræðutillaga í aðdraganda samkeppni. Mikið væri skemmtilegt ef meira væri af svona hugsjónafólki á sviði byggingarlistarinnar.

https://www.miysis.be

+++++

Að neðan koma nokkrar myndir af hugmynd Miysis.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.5.2019 - 11:44 - Rita ummæli

EES samningurinn og starfsumhverfi arkitekta.

Það gera sér ekki margir grein fyrir hvað EES samningurinn, sem er 25 ára gamall um þessar mundir, breytti miklu fyrir arkitekta. Samningurinn breytti nánast öllu, það varð gjörbreyting á starfsumhverfi og tækifærum arkitekta. Samkeppni sem var nánast engin, jókst verulega eftir að samið var um EES og byggingalistin varð betri.

Á níunda áratugnum voru líklega 4-6  öflugar sjálfstæðar arkitektastofur á landinu, ef frá eru taldar ríkisteiknistofurnar þrjár, teiknistofa Húsnæðismálastofnunnar og Teiknistofu landbúnaðarins og teiknistofa Húsameistara Ríkisins. Ríkisteiknistofurnar niðurgreiddu arkitekltateikningar og skekktu allt umhverfi.

Sumar þessarra sjálfstæðu teiknistofa tengdust Sjálfstæðisflokknum og allskonar mismunandi tengslanetum á þeim vængnum og aðrar tengdust Framsóknarflokknum og einhverju sammengi stjórnmála- og embættismanna með hinum hópnum.

Þetta voru nánast svona helmingaskipti.

Svo voru nokkrar svona tveggja manna stofur með sitt tengslanet, sem hirtu mylsnuna af því sem af borðunum féll hjá hinum stóru. Frammistaðan í byggingalistinni skipti nánast engu máli þegar arkitektar voru valdir til verka. Það var tengslanetið sem skipti öllu sem var kallað „klíka“ í þá daga.

Íbúðahúsamarkaðurinn var nánast lokaður á þessum tíma vegna þess að þar voru mikil undirboð. Byggingafræðingar teiknuðu um 80% íbúðahúsa og teiknistofur ríkisins niðurgreiddu sína vinnu.

Það voru margir steinar í götu ungra manna sem ætluðu að hasla sér völl sem arkitektar á Íslandi á árunum kringum 1980. Klíkur og allskonar stjórnmálaleg- og fjölskyldutengsl voru allsráðandi eiginlega forsenda fyrir rekstrinum. Menn voru í allskonar klúbbum og reglum og klíkum. Þeir voru Frímúrarar, Oddfellowarar og Lionsarar og svo voru jafnvel íþróttafélög hluti af tengslanetinu. Spilaklúbbar og veiðifélagar o.s.frv. skipti líka máli. Klíkurnar þjöppuðu sér saman og héldu utan um sitt og létu aðrar klíkur að mestu í friði með sitt. Pössuðu sig samt á að hleypa engum jaðarhópum að.

Þannig blasti þetta við mér þegar ég kom heim frá námi og þannig var þetta bara.

Vilmundur Gylfason talaði um „varðhunda valdsins“ og hagsmunavörslu í íslensku samfélagi í minnistæðri þingæðu hans í nóvember 1982. Vissulega ekki af tilefnislausu. Enda allt hagsmunatengt og ekki pláss fyrir ástríðufult ungt fólk sem vildi leggja sitt af mörkum í þessu þjóðfélagi. Þetta var sérstaklega erfitt fyrir unga arkitekta sem vildu kveða sér hljóðs og koma að gagni við að byggja upp gott samfélag. Varðhundar valdsins voru allstaðar í veginum og lögðu beinlínis steina í götu unga fólksins. Það var um aðeins tvo kosti að vejla. „Join them or fight them“.

Það virtist útilokað að fá verkefni nema í gegnum einhverja klíku. Eina vonin til að afla sér verkefna fyrir þá sem ekki tengdust einhverri klíku eða „varðhundum valdsins“ eins og Vilmundur kallaði þá, voru samkeppnir. En samkeppnir voru afar fáar. Í mesta lagi ein á ári oftast  minna. Klíkunum fannst samkeppnir óþarfar. Og ef samkeppni átti að færa arkitektum verkefni varð að vinna fyrstu verðlaun.

Svo var líka möguleiki að komast að hjá einhverjum verktaka í alútboðssamkeppni sem komu fyrst rétt uppúr 1980.  Alútboðin voru þannig að ungu arkitektarnir fundu verktaka sem þeir teiknuðu svo fyrir og svo var boðið í bygginguna með allri hönnun og skilum á fullbúinni framkvæmd. Alútboð voru harðlega gagnrýnd af stóru stofunum af augljósum ástæðum.

Eftir að hinn svokallaði EES samningur tók gildi 1. janúar 1994 breyttist allt starfsumhverfi arkitekta. Skylda var að bjóða út öll verk á vegum ríkis og sveitarfélaga þannig að varðhundar valdsins misstu smátt og smátt tökin á opinberum verkum. Útboðin voru ýmist opnar samkeppnir eða lokaðar að undangengnu forvali eða aðrar gagnsæjar leiðir til þess að finna arkitekt. Nokkrum árum eftir gildistöku samningsins lögðu menn ríkisteiknistofurnar niður.

Þetta voru tímamót sem margir gera sér ekki grein fyrir og eru sjálfsagt margir búnir að gleyma.

Í kjölfar EES samningsins spruttu upp öflugar teiknistofur sem ekki áttu nokkur tækifæri til þess að festa rætur áður. Arkitektúrinn blómstraði og varð betri og all vinnulag breyttist. Samfara þessu og um þetta leiti urðu tölvur algengar og breyttu starfslagi stéttarinnar verulega. Ekki er víst hvort tilkoma talvanna hafi verið til bóta fyrir byggingalistina.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.5.2019 - 12:59 - Rita ummæli

Notre Dame – Endurgerð eða endurnýjun?

 

 

Einhver sagði að það að horfa á Notre dame brenna hafi verið eins og að horfa á einhvern deyja.

Notre Dame kirkjan á Ile de la Cité er fyrst og fremst helgidómur. Í annan stað er hún sögustaður, einhverjar merkilegustu menningarminjar Evrópu og í þriðja lagi stókostleg bygging og helsta kennileiti glæsilegustu borgar álfunnar.  Stórkostleg á alla lund.

Þetta er bygging sem allir sem hana heimsækja heillast af að því tilskildu að þeir skilji það sem þeir sjá.

Kiskjan brann á dögunum og greip þá um sig mikil taugaveiklun sem er auðvitað fullkomlega eðlilegt. Þetta var fyrir marga eins og að missa móður sína eða fyrirvinnu. Tíminn stóð í stað og fólk var ekki visst um hvort hann mundi halda áfram.

Macron forseti Frakklands fór starx á vetvang í fylgd með fosætisráðherranum og tilkynnti að það yrði haldin alþjóðleg samkeppni um að byggja kirkjuna upp með nútímalegum hætti.

Mörgum var nokkuð brugðið, ekki síður arkitektum, og töldu að það ætti ekki að endurbyggja kirkjuna með nútímalegum hætti heldur endurnýja hana eins og hún var. Í mesta lagi endurbyggja hana með nútíma tækni, eins og gert var við kirkjuna í Chartre í Frakklandi, þannig að hún haldi því útliti sem hún hafði haft fyrir brunann og í hartnær 1000 ár.

Ýmis stórfyrirtæki buðust til þess að leggja fjármuni til uppbyggingarinnar og á fyrsta degi voru komin fyrirheit um hunduð miljóna frá aðilum sem voru fulltrúar þekktra vörumerkja.

Stjörnuarkitektar víða að tjáðu sig strax og sögðust gjarna vilja leggja sitt að mörkum til þess að endurnýja kirkjuna. Þeirra á meðal var Jean Novelle hinn heimsfrægi franski arkitekt og margir fleiri. Það var vísað á inngang arkitektsins I.M.Pei sem gerði stókostlega byggingu, sem hefur þjónað sem inngangur í listasafnið Louvre, að beiðni Mitterend forseta,. Allir vilja nú vera Mitterand eða I. M. Pei. En Louvre er ekki Notre Dame heldur allt annað. Píramidi I. M. Pei er inngangur í listasafn sem var nauðsynlegur til þess að flæði fólks inn í safnið væri starfrænt. Breytingin var nauðsynleg starfsseminnar vegna og byggingastaðurinn ekkert merkilegur í samanborið við safið jálft svo maður tali nú ekki um Notre Dame. Það kallar ekkert á breytingar á Notre Dame vegna starfseminnar. Hún hefur staðið fullkomlega fyrir sínu og ekkert hefur breyst.

Arkitektar í Frakklandi brugðust við og andmæltu þessu og sögðu „Restauration pas Redesigne“ eða „endurbygging en ekki endurnýjun“. Þeir virðast skiptast í þrjá hópa samkvæmt skoðanakönnun.  Í fyrsta lagi þá sem vilja endurreisa kirkjuna nákvæmlega eins og hún var sem er lang stærstur.  Í öðru lagi þeir sem vilja endurbyggja hana með nútíma tækni en samt þannig að hún haldi gömlu ásjónu sinni og ekki sjáist að átt hafi verið við hana. Sá hópur er nokkuð minni. Og  svo í lokin nokkur tilbrygði ag endurgerð hennar í samræmi við nútíma hugsum í byggingalist. Sá hópur er lang minnstur.

Það hafa strax komið fram all margar tillögur frá málsmetandi arkitektum. Manni sýnist að nálgun þeirra byggi oft á því að ná til túristanna eins og það sé sérstök þörf á hví. Það ganga um 12 miljónir manna inn um dyrnar á hverju ári. Höfundarnir sjá fyrir sér starfssemi í þakrýminu þar sem verði glerþak og gott útsýni yfir borgina og fleira í þá veru. Það fylgja hér nokkrar myndir af þesum tillögum. Í framhaldi af þessu hafa arkitektar lagt fram gríntillögur að endurnýjun kirkjunar. Það fylgja nokkrar slíkar hér með.

Svo ég endurtaki, þá er Notre Dame kirkjan  fyrst og fremst helgidómur. Í annan stað er hún sögustaður og  einhverjar merkilegustu menningarminjar Evrópu og í þriðja lagi stókostleg bygging og helsta kennileiti glæsilegustu borgar álfunnar. Stórkostleg á alla lund.  Hún er eitthvað alt annað en bara eitthvað aðdráttarafl fyrir túrista. Hun var byggð sem kirkja og er kirkja. Þvert á margt annað eins og Effelturninn sem er kennileiti og var byggður sem kennileiti.

Það á að stíga afskaplega varlega til jarðar þarna. Í Frakklandi vinnur um 80% arkitekta að endurnýjun eldri húsa og við að uppfæra þau til þarfa nútímans á forsendum húsanna og næsta umhverfis. Það rétta væri af Macron að handvelja nokkra færustu arkitekta á þessu sviði í Frakklandi i hönnunarteymi og láta þá vinna verkið.  Vel og örugglega.2.

+++++ +

Efst er mynd af Notre Dame þegar bruninn stóð sem hæst. Þarna sjást tvö af helstu kennileitum Parísarborgar. Annarsvegar helgidómur sem byggður var drottni til dýrðar fyrir „lifandi steina í musteri Guðs“ Og hinsvegar effelturninn sem byggður var til þess að vekja athygli á sjálfum sér og mikilli sýningu sem þar var fyrir réttum 130 árum. Að neðan koma nokkrar myndir sem tengjast kirkjunni, sögunni  og framtíð hennar.

Á myndinni að ofan sést hvar Napoleon Bonaparte tekur kórónuna úr hendi páfa og setur á höfuð sér og krýndi sig keisara. Þetta var 2. desember árið 1804 eða fyrir bráðum 215 árum.

Hér eru Gina Lollobrigida og Anthony Quinn, sem lék krypplinginn Quasimodo, í hlutverkum sínum í Hringjaranum frá Notre Dame eftir Victor Huga í kvikmyndinni frá 1956. Bókmenntaverkið var til þess að auka vinsældir kirkunnar og virðingu.

 

Það kemur mörgum á óvart hvað timburverkið „eikarskógurinn“ sem brann  er lítill hluti kirkjunnar, Það er guli hlutinn efst í sneiðmynndinni.

Hér er ljósmynd af þakrýminu fyrir brunann. „Eikarskógurinn“

Að ofan er þakrými kirkjunnar í Chartres sem endurnýjað var fyria margt löngu. Kirkjan sjálf var byggð á árunum 1194-1220 Bent hefur verið á þessa lausn varðandi Notre Dame. Hún er sögð mun fljótlegri og ódýrari.

Að ofan er gömul ljósmynd sem tekin var þegar Hausmann og Napóleon III voru að endurskipuleggja borgina fyrir um 170 árum.

 

Margar tillögur hafa verið settar fram af málsmetandi arkitektum um edurbygginguna. Það koma myndir af nokkrum hér á eftir.

Hér leggur arkitektinn til að gerður verði útsýnisgarður ofan á Notre Dame.

Einhverskonar flóðlýsing sem dregur frekar úr einkennum kirkjunnar.

 

 

 

Að lokum koma hér myndir þar sem gert er grín að hugmyndum um að endurbyggja í samræmi við nútíma byggingalist.

Grínistarnir telja á Hadid hefði viljað hafa þetta einhvwernvegin svona.

Þeir velta fyrir sér hvort kirkjan mundi líta svona út ef styrktaraðilarnir fengju að ráða ferðinni!

Hér er svo“ bland í poka“ þar sem ýmsum nútímalegum byggingum sem almenn eru vel þokkaðar er klastrað á gömlu kirkjunna.

 

Hér er mynd að lokum sem sýnir Notre Dame og umhverfi hennar áður en Hausmann og Napoleon III tóku sig til við að endurhugsa borgina.

Athugasemdir við að halda samkeppni um endurbyggja kirkjuna í nútína stíl hafa fengið dræmar undirtektir utan Frakklands. Sitt sýnist vissulega hverjum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn