Miðvikudagur 2.12.2020 - 13:08 - Rita ummæli

Borgarlínan, fyrsti áfangi – Þarf ekki að ræða hann eitthvað?

Borgarlínan, fyrsti áfangi.

Ég var að kynna mér skýrslu Mannvits frá árinu 2014 þar sem skoðaðar eru þrjár sviðsmyndir varðandi bifreiðaumferð á höfuðborgarsvæðinu eftir 20 ár. Skýslan heitir „Höfuðborgarsvæðið 2040 – Mat á samgöngusviðmyndum“.

Skýrslan var unnin til glöggvunar á umferðamálum á næstu áratugum og Borgarlínunni í því sambandi. Skoðaður var kostnaður hins opinbera vegna uppbyggingar samgöngukerfis og breyttra ferðavenja og fl. Ýtarlega var farið yfir umferðaspá en engar tillögur gerðar í skýrslunni um legu Borgarlínu né áfangaskyptinu. Enda var hún hugsuð sem undanfari þess.

En þegar skýrslan er lesin kemur það fram sem öllum var ljóst. Umfeðin austur og vestur í Reykjavík verður vandamál í náinni framtíð verði ekkert að gert og leiðin suður í Hafnarfjörð er í miklum vandræðum sem mun fara vaxandi.

Það er hverjum manni ljóst að í fyrsta áfanga muni verða leiðin frá Keldum að Kvos og strax eða á sama tíma leiðin frá Reykjavík suður í Hafnarfjörð en á þessum leiðum kreppir að.

Önnur leiðin mun létta verulega á umferð um Miklubraut og hin mundi létta verulega á umferð um Hafnarfjarðarveg og tengja miðbæi Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar vel saman í starfræna heild. Og ekki bara það heldur stytta ferðatímann á þessum leiðum. Þetta liggur í augum uppi og er aðkallandi verkefni sem er staðfest í umræddri skýrslu Mannvits.

En hvað kemur á daginn?

Nú eru áform um eitthvað allt annað. Vissulega á að tengja saman Keldur og Kvos með Borgarlínu. Það er óumdeilt, rökrétt og nauðsynlegt. Svo eru hugmyndir um að tengja saman Lækjartorg og Hamraborg um Vatnsmýrina yfir Fossvog að Kársnesi! Línan frá Lækjartorgi að Hamraborg er óskiljanleg og illa rökstudd. Hvergi í raunheimum og hvergi í skýrslu Mannvits er kallað eftir þessari tengingu. En samt er hún á teikniborðinu, óhemju dýr og óhemju óskynsamleg sem fyrsti áfangi þó hugsanlega kæmi hún síðar. Líklega kostar áætlaður fyrsti áfangi sem samtals er um 13 km meira en línurnar Keldur-Kvos og Reykjavík – Hafnarfjörður til samans.

Það liggja fyrir skýrslu og úttektir á þessu en manni finnast þær eru ekki sannfærandi. Þessvegna koma upp í kollinn tilgátur um hversvegna þetta sé svona? Hver er ávinningurinn fyrir að fara þessa leið frá Lækjargötu að Hamraborg og hver er fyrirstaðan fyrir að fara beinustu og ódýrustu leiðina um Kringlumýrarbraut til Hafnarfjarðar.

Maður getur reynt að notfæra sér vinnulag vísindamanna og koma með tilgátur um forgangsrönunina sem svo þarf að hrekja eða sanna. Læt ég lesendum það eftir.

Það læðist að manni sá grunur að ástæðan fyrir þessari legu fyrsta áfanga sé að finna í einhverskonar togi milli hagsmunaaðila eða hreppapólitík. Kópavogur telur sig þurfa öfluga tengingu vegna of mikillar uppbyggingar á Kársnesi. Landspítalinn kallar eftir sterkari tengingu við borgarvefinn vegna þess að hann var svikin um Kópavogs- Öskjuhlíðar- og Skólavörðuholtsgöng og fl. HR vill líka Borgarlínu vegna sömu svika og svo er það auðvitað hin sífellda barátta vegna flugvallarina. Ef Borgarlínan kemur þarna mun þrýstingur á meiri uppbyggingu í Vatnsmýrinni aukast verulega.

En sannleikurinn er sá að fjarlægðin frá Kringlumýrarbraut að HR er í göngu- og rafskútufæri. Um fjarlægðina frá Lækjartorgi að HÍ gildir það sama. Fjarlægðin frá Hlemmi að Landspítalanum á það sama við. En þess utan má leysa öll þessi mál með venjulegu strætókerfi í tengslum við Borgarlínuna fyrir miklu minna fé.

Af hverju fer maður ekki með Borgarlínuna beina og greiða leið suður í Hafnarfjörð um Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarveg sem smellur inn í sögulega þróun höfuðborgarsvæðisins s.l. 100 ár. Það er ekki auðvelt að koma auga á það en líkleg tilgáta er að það eru uppi áætlanir að rífa upp stótann hluta Miklubrautar og gatnamót Krinlumýrar og Miklubrautar vegna verkefnisins „Miklabraut í stokk“. Það er ekki skynsamlegt að mati þeirra sem trúa á það verkefi að leggja þarna Borgarlínu til þess að rífa hana upp aftur eftir 5-10 ár.  Aðrar tilgátur finn ég ekki.

+++

Efst er uppdráttur sem gerður er af VSO verkfræðistofu og er að finna í skýrslu Mannvits frá 2014. Þar sést að umferðin um Ártúnsbrekku verður um 100 þúsund bílar á sólahring þrátt fyrir að þarna er gert ráð fyrir um 50 þúsund bílum um Sundabraut. Um Hafnarfjarðarveg verða um 100 þúsund bílar á sólahring og svipað um Reykjanesbraut. Þessar tölur kalla eindregið á Borgarlínu frá Keldum að Kvos og frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Ekki er hægt að sjá að línan frá Lækjartorgi að Hamraborg sé aðkallandi eða bæti umferðarálag á Hafnarfjarðarvegi eitthvað.

 

Að ofan er mynd sem fylgdi grein Péturs H. Ármannssonar árið 2005. Þarna er línulegur miðbær Reykjavíkur dreginn upp og samgönguás í rauðum lit. Ör hefur verið bætt á uppdráttinn sem sýnir hugsanlega tengingu suður til miðbæja Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

++++

Á myndinni strax að neðan eru dregnir upp samgönguásar Borgarlínunnar eins og þeir eru nú hugsaðir. Hér  er þessi einfalda góða hugmynd úr AR2010-2030 orðin að stóru, óskýru og flóknu leiðakerfi. Hana vantar þann skýrleika sem er hornsteinn skilvirks samgöngukerfis. Kerfið var ekki í neinum tengslum við borgarvefinn og þróun hans.

Þarf ekki að staldra við og hugsa þetta uppá nýtt.

Síðan þessar flóknu línur voru dregnar upp hefur margt breyst. Í fyrsta lagi ganga menn og hjóla mun meira nú en þá og svo hafa rafskutlurnar og rafhjól komið til og gert upptökusvæði Borgarlínunnar mun stærra, jafnvel þrefaldað í sumum tilfellum. Þessu til viðbótar hefur hávær gagnrýni á áætlanirnar engin áhrif haft. Það eitt vekur athygli. Í svona málum dugar engin óbilgirni. Hagsmunirnir eru miklir og rökin þung. Það verður að málamiðla og ná víðtækri samstöðu um málið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.8.2020 - 17:03 - Rita ummæli

Minnkandi fylgi við Borgarlínuna.

 

Í vikunni birti Fréttablaðið könnun um fylgi fólks við Borgarlínuna eins og hún hefur verið kynnt. Niðurstöður könnunarrinnar voru mikil vonbrygði fyrir okkur sem höfum stutt Borgarlínuna. Við héldum og vonuðum að fylgi við Borgarlínuna færi vaxandi í kjölfar mikillar kynningar og umfjöllunar undanfarna mánuði. Skemmst er frá því að segja að frá síðustu könnun fyrir 10 mánuðum síðan hefur þeim sem eru mjög eða frekar andvígir borgarlínunni fjölgað um 20%. Þeim sem eru henni fylgjandi hefur fækkað um 6-7% ef marka má grafið í blaðinu.

Við meigum ekki taka könnunina í Fréttablaðinu af einhverri léttúð eins og borgarsjórinn gerði í blaðinu og sjá má á hjálagðri mynd. Hann segist „… mjög ánægður með þennan sterka stuðning“ við Borgarlínu. Það er ekki gott að segja svona þegar staðreyndin er sú að stuðningurinn fer minnkandi. Nær væri að hann kallaði til neyðarfundar, bregðast við og hugsanlega endurskoða áætlanirnar. Það er dauðans alvara ef stuðningur við Borgarlínuna fer minnkandi eftir alla þá kynningu og umræður sem átt hafa sér stað síðan í október á síðasta ári. Þetta er borðleggjandi gott mál en það er eitthvað sem verið er að gera vitlaust þegar fylgið minnkar svona við frekari kynningu.

Ég er þess fullviss að nálægt allir landsmenn eru fylgjandi almenningssamgöngum og vilja hafa þær góðar. Ég er líka sannfærður um að nánast allir vilji betri almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og vilja draga úr notkun einkabílsins. Það er líka sjálfsögð krafa að hægt sé að búa hér á svæðinu án þess að þurfa að eiga einkabíl. Þetta eru líklega allir sammála um.

Hversvegna fer þá fylgið við Borgarlínuna minnkandi eftir því sem málið er kynnt betur?

Líklegt er að það sé útfærslan og óvissan. Skrifstofu Borgarlínunnar hefur ekki tekist að sannfæra fólkið um ágæti þeirra hugmynda sem uppi eru.

Ég hef sagt og verð sífellt sannfærðari um að Borgarlínuhugmynd aðalskipulags Reykjavíkur hafi verið snilldarhugmynd. Hún var af þeirri stærðargráðu og því umfangi að hún var óumdeild þegar hún var kynnt í AR2010-2030. Auðvelt hefði verið að framkvæma hana á 4-6 árum. Í framhaldinu og eftir nokkurra ára rekstur væri eftirleikurinn auðveldur og hægt að útvíkka hana verulega. En borgin dró lappirnar og aðhafðist lítið í ein 10 ár. Hún tók ekki við sér fyrr en þetta var orðið svo stórt og óskýrt að fáir skilja þetta  og eru því hikandi.

Þegar hugmyndin um Borgarlínuna, sem kom frá Pétri H. Ármannssyni arkitekt, (í Lesbókargrein árið 2005) rataði í Aðalskipulag Reykjavíkur, fylltist ég mikilli bjartsýni og taldi að nú loks yrði Reykjavík bundin saman í línulega heildstæða, strarfræna og vistvæna borg. Ég hélt að Borgarlínan samkvæmt AR2010-2030 yrði komin í fullan rekstur innan fárra ára. Þetta var óumdeild win-win hugmynd sem kostaði ekki mikið og var auðveld í framkvæmd.

En borgarstjórn dró lappirnar. Samþykkti deiliskipulag við Austurhöfn (Hafnartorg) án þess að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni. Samþykkti deiliskipulag á mörgum reitum milli Laugavegar og Hverfisgötu án þess að gera ráð fyrir Borgarlínunni. Endurgerði sjálfa Hverfisgötuna með miklum tilkostnaði án þess að gera ráð fyrir Borgarlínunni. Endurgerði Geirsgötuna án þess að gera ráð fyrir Borgarlínunni. Hélt samkeppni um uppbyggingu í Vogabyggð þar sem meiri hluti tillagna gerði ekki ráð fyrir Borgarlínunni (Sem leiðir hugan að því að líklega var ekki gert ráð fyrir Borgarlínunni í forsögninni). Það er ljóst að borgarstjórn skorti kjark eða trú á verkefnið. Hreppapólitík hljóp í málið og ósjálfbær sveitafélög í grenndinni vildu vera með og hoppuðu á vagninn og ríkissjóður kom að málinu. Þessi litla fína hugmynd blés út og er orðin 10 sinnum stærri og líklega 20 sinnum dýrari en sú snilldarhugmynd sem kynnt var í AR2010-2030.

Það blasir við mér að það á að nota Borgarlínuna til þess að draga úr áhrifum skipulagsmistaka undanfarinna ára. Til dæmis með því að láta hana ganga framhjá Landspítalanum og Háskólanum í Reykjavík og um brú út á Kársnes þar sem verið er að byggja meira en núverandi gatnakerfi ræður við.

Ef Borgarlínan gengi eins og sjá má á myndinni að neðan sem er frá Pétri H. Ármannssyni, væri einungis um einn kílómeter frá Tryggvagötu að aðalbyggingu Háskóla Íslands. Það er 10 mínútna gangur sem tekur enga stund á rafskutlu. Sama má segja um Háskólann í Reykjavík ef Borgarlínan yrði látinn ganga í öðrum áfanga frá Borgartúni um Kringlumýrarbraut til Hafnarffjarðar.  Þá  væru um 1,5 kílómetrar frá Kringlumýrarbraut að aðalbyggingu HR, sem er um 15 mínútna ganga eða innan við fimm mínútur á rafskutlu, sem nemar og starfsmenn hefðu með sér í Borgarlínuna. Þetta er svona heppileg heilsubótarganga.

Það virðist ljóst að það þarf að endurskoða núverandi áætlanir. Vinna þetta betur. Svara áleitnum spurningum og sníða sér stakk eftir vexti ef tryggja á fylgi almennings við áætlanirnar.

+++

Efst er mynd af forsíðu Fréttablaðsins og að neðan frumhugmynd Péturs H. Ármannssonar að Borgarlínunni frá 2005 sem fimm árum síðar rataði í og var aðlöguð aðalskipulagi Reykjavíkur.

Að ofan má sjá hvernig samgöngu- og þróunarás aðalskipulags Reykjavíkur er dreginn upp. Einfaldur og skýr með miklum þéttingatækifærum.

 

 

Að ofan er síða úr AR2010-2030 þar sem samgönguásinn og hinn línulegi miðbær er skilgreindur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.6.2020 - 13:08 - Rita ummæli

Borgarlínan í opinberri kynningu

Um þessar mundir eru liðin 15 ár síðan Pétur H. Ármannsson arkitekt setti fram tillögu sína um Borgarlínu í Reykjavík. Þetta var mjög vel rökstudd hugmynd sem var í fullkomnu samræmi við þarfir Reykjavíkur og eðlilega þróun hennar í meira en 80 ár. Hugmyndin var þannig vaxin að ekki var hægt að líta framhjá henni. Þegar aðalskipulag Reykjavíkur var endurskoðað og AR2010-2030 var gefið út var hugmynd Péturs eðlilega þar inni og fékk staðfestingu.

Síðan Pétur skrifaði grein sæina eru bráðum liðin 15 ár.

Eins og sést á myndinni efst í færslunni, sem er frá Pétri, og lesa má um í aðalskipulaginu gekk þessi lína frá Kvos að Keldum. Þarna var dregin upp hugmynd sem stefndi að þvi að gera Reykjavík að sterkri, þéttri og starfrænni línulegri borg. Aldeilis eitthvað sem beðið hafði verið eftir. Þessu var fagnað, enda dæmigerð „win win“ hugmynd.

Ég fyrir minn hlut fagnaði þessu sérstaklega studdi það og skrifaði margar greinar um málið auk þess að minna á Borgarlínuna þegar deiliskipulagsbreytingar voru gerðar í grennd við línuna.

Ég taldi víst að þessi Borgarlína aðalskipulagsins yrði komin í rekstur frá Lækjartorgi inn í Skeifu innan 3-4 ára og yrði fullbyggð fyrir 2020. Þetta var einfalt, nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir utan að vera algerlega óumdeilt.

Það voru engin ljón í veginum,  en þrátt fyrir það gekk þetta ekki eftir, þó ótrúlegt sé.

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík fylgdu málinu ekki nægjanlega vel eftir og dró lappirnar. Hafnartorg var byggt án þess að í deiliskipulagi yrði gert ráð fyrir Borgarlínunni. Hverfisgatan var endurbyggð án þess að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni o.s.frv.

Í staðinn blés þessi einfalda rökrétta hugmynd út og varð ógnarstór. Hún tífaldaðis í umfangi og varð svo stór að sveitarfélögin réðu ekki við hana og hefðu líklega aldrei sameinast um þetta án þess að kalla rikið til og greiða 75% kostnaðarins. Reykjavíkurborg hefði hinvegar vel ráðið við þessa hugmynd, ein og óstudd.

Ég veit ekki hvað gerðist en það var eins og hreppapólitík hlypi í málið. Ósjálfbær sveitafélög á jaðri höfuðborgarsvæðisins vildu vera með og menn sáu tækifæri til þess að leiðrétta skipulagsmistök með því að teygja Borgarlínuna úr 6-8 kílómetrum upp í tæplega 60, eða næstum tífalt. Ósjálfbærum jaðarsveitafélögum á nú að bjarga með línunni í stað þess að ráðast að rótum vandans og jafna umferðaálagið á samgöngukerfinu með þekktum skipulagslegum úrræðum, stundum kallað skipulagshalli. Ég óttast að ekkert verði úr þessu úr þessu vegna þess hvað þetta er orðið ofvaxið.

Þau herfilegu skipulagsmistök að staðsetja Háskólann í Reykjavík úti í mýri án nokkurra tengsla við borgarvefinn á nú að lagfæra með Borgarlínunni. Og til þess að það sé hægt að selja þessa hugmynd er hún látin halda áfram yfir Fossvog og þá leiðina um venjulegar húsagötur í Kópavogi að Hamraborg. Og svo til þess að styrkja „farþegagrunninn“ á þessari línu var hafin mikil uppbygging í Kársnesinu og enn frekari uppbygging er fyrirhuguð í gamla miðbæ Kópavogs.

Maður spyr sig af hverju er ekki bara farinn Hafnarfjarðarvegurinn um Kópavog og Garðabæ alla leið suður í Hafnarfjörð.  Það væri ekki mikið dýrara en leiðin frá Landspítalanum um Vatnsmýri og brú yfir Fossvog, endilöngu Kársnesinu að Hamraborg. Ef farin yrði Kringlumýrarbrautin og Hafnarfjarðarvegur tengdist línan Miklubraut, Kringlunni, Borgarspítalanum og sveitarfélugumum í suðri á þeirri leið sem umferðavandinn er mestur. Höfuðborgarsvæðið allt væri tengt saman að undanskildum Mosfellsbæ.

Nú er fyrsti áfangi Borgarlínunnar í kynningu og opnað á umræðu um þetta mikla mál. Það á að skila athugasemdum fyrir 9. júní n.k. Vonandi koma margar lausnamiðaðar ábendingar og kröftug málefnaleg umræða í kjölfarið sem leiðir okkur að skynsamlegri niðurstöðu, öllum til heilla. Verkefnastofa Borgarlínu er komin með fyrstu drög að tillögum sem má finna inná https://www.borgarlinan.is/

Ég held að það sé skynsamlegt að hafa fyrsta áfanga nokkru minni en núverandi hugmynd gengur út á. Láta hann ganga frá Ártúnsholti að Landspítala/Umferðamiðstöð og sleppa því að láta leiðina fara um Tjarnarbrúnna. Hana á að gera að göngugötu og sameina þannig Tjarnirnar tvær og Hljómskálagarðinn miðborginni, Gamla Austurbæ og Vesturbæ.

Frá gatnamótum  Njarðargötu og Hringbraut að aðalbyggingu Háskóla Íslands eru ekki nema um 500 metrar sem þeir sem skólann sækja hafa gott af ganga. Nemendur í Háskólanum í Reykjavík sem munu nota Borgarlínuna munu að sama skapi taka strætó eða ganga að skólanum sínum eða fara á rafhlaupahjólunum sínum í skólann. Þetta eru ekki nema um 1400 metrar sem er ekki mikið. Rafhjólin hafa þau auðvitað með sér í þetta nýja og þægilega almenningssamgöngutæki.

Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti og gera fyrsta áfanga Borgarlínunnar starf- og rekstrarhæfa þannig að allur almenningur sannfærist um ágæti hennar. Þá verður eftirleikurinn auðveldur.

+++

Efst er mynd sem sýnir upphaflega legu Borgarlínunnar samkvæmt hugmynd Péturs H. Ármannssonar frá árinu 2005.

Slíkur línulegur miðbær er í raun „vísbending um þróun sem þegar hefur átt sér stað“ eins og höfundurinn orðaði það og stendur í aðalskipulaginu. Línulegi miðbærinn er í samhljómi við þá viðurkenndu skoðun að eðlilegasta þróun borga gerist hægt og sígandi á löngum tíma. „Hugmyndin felst í því að viðurkenna í hugsun og verki, línulegan vöxt miðborgarinnar til austurs“ að Keldnalandi, svo aftur sé vitnað í Pétur og aðalskipulagið. Þetta er tækifæri sem almenn ánægja var með og var óumdeilt. Þeir sem vinna að undirbúningu Borgarlínunnar og aðrir ættu að skoða þessa frábæru hugmynd betur áður en lengra er haldið.

 

Að ofan er frumniðurstaða erlendu ráðgjafanna COWI  sem mér skilst að sé að mestu óbreytt. Mér sýnist þetta net vera óþarflega þétt og óþarflega langt jafnvel þó litið sé til mjög langrar framtíðar. Í raun svo þétt að ég á ekki auðvelt með að trúa því að þetta geti orðið að veruleika nema kannski ef hugsað er til 40-60 ára eða svo. Þetta líkist meira venjulegu strætisvagnakerfi en Borgarlínu til fjöldaflutninga. Bara aukin þróun annarra samgangna um betri göngu og hjólastíga þar sem eru rafdrifin reið- og hlaupahjól sem menn taka með sér í Borgarlínuna mun einfalda kerfið stórkostlega fyrir utan öll hin skipulagslegu úrræði sem blasa við. Þá skipta máli sjálkeyrandi bílar, sveigjanlegur vinnutími, styttri vinnuvika og að fólk vinni meira heiman frá sér eða í minni „sattelite“ starfstöðvum stærri fyritækja í íbúðahverfunum. Svo er stefnt að því að gera borgarhlutana og úthverfin sjálfbær hvað varðar alla þjónustu og atvinnutækifæri, sem mun minnka umferð einkabíla verulega. Svo þarf auðvitað að draga úr skipulagshallanum eins og þeir vildu sem töldu nýjan Landspítala, langstærsta vinnustað landsins, betur settann við Keldur en í umferðakraðakinu við Hringbraut. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?

Þau herfilegu skipulagsmistök að staðsetja Háskólann í Reykjavík úti í mýri án nokkurra tengsla við borgarvefinn á nú að lagfæra með Borgarlínunni. Og til þess að það sé hægt að selja þessa hugmynd er hún látin halda áfram yfir Fossvog og þá leiðina um venjulegar húsagötur í Kópavogi að Hamraborg. Og svo til þess að styrkja „farþegagrunninn“ á þessari línu var hafin mikil uppbygging í Kársnesinu og enn frekari uppbygging er fyrirhuguð í gamla miðbæ Kópavogs.

 

Hugsanlegt væri að minnka þennan fyrsta áfanga úr 13 km í 7 km og láta hann ganga frá Ártúnshöfða um miðborgina að Landspítalanum og sleppa því að láta hana fara yfir Tjarnarbrúnna.  Sleppa Vatnsmýrinni, Fossvogsbrúnni og Kársnesinu fyrst um sinn enda er ekki sá umferðavandi sem brýnast er að leysa þar. Leggja frekar áherslu á að tengja Borgarlínuna við Laugaveg/Suðurlandsbraut om Kringlumýrarbraut við Kringluna, Borgarspítalann, miðbæ Kópavogs, Garðabæjar og Hafnafjarðar í starfrænt og sögulegu samhengi. Leiðin um Kringlumýrarbraut að miðbæ Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar mun þjóna fleirum, þó það halli á HR, og líklega verða ódýrara. Við þurfum að varast það að lagfæra ein skipulagsmistök með öðrum. Svo þarf að láta þarna staðar numið og láta á þessa góðu framkvæmd reyna í 5-10 ár áður en lengra er haldið. En við verðum að gera ráð fyrir að þetta hafi allt  verið skoðað og metið af okkar helstu sérfræðingum í Borgarlínumálum sem munu svara öllum svona hugmyndum í kynningarferlinu.

Samkvæmt áætlunum er fyrirhugað að Borgarlínan liggi um Tjarnarbrúnna. Það er að margra áliti þróun í öfuga átt. Nær væri að gera Skothúsveginn frá Bjarkargötu að Fríkirkjuvegi að göngusvæði. Maður sem ég hitti í kaffinu í morgun velti fyrir sér hvort þeir sem legðu þetta til væru svo þröngsýnir að þeir sæju ekki smáatriðin í heildarmyndinni fyrir Borgarlínunni?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.5.2020 - 15:21 - Rita ummæli

Manneskjulegt umhverfi í Reykjavík.

Ég var að skoða vandað Aðalskipulag Reykjavíkur AR 1984-2004 í gærkvöldi. Þá fór ég að hugsa um hvað margir fótgönguliðar í arkitektastétt hafa áratugum saman barist fyrir því að draga úr vægi einkabílsins í borgarskipulaginu og gera borgina manneskjulegri.

Þessi þrotlausa vinna virðist nú vera að skila árangri. En það er samt svo að það er eins og þessi langa barátta sé að mestu gleymd. Það er eins og að núna séu arkitektar að fleyta rjómann af allri vinnu fyrirrennara sinna og hafi gleymt áratuga baráttunni.

Ég man þegar ég hóf störf á teiknistofu Gests Ólafssonar vorið 1975 þegar stofan hans var að vinna að endurskipulagningu eldri hverfa í Reykjavík. Þetta var svæði frá Snorrabraut niður í Lækjargötu og frá Lindargötu að Skólavörðustíg. Þá var lykilorðið „manneskjulegt umhverfi“. Gestur hafði aðra nálgun hvað landnotkun varðaði en áður tíðkaðist. Landnotkunin var ekki svæðaskipt eins og áður var algengt heldur lagskipt þannig að neðst voru verslanir og þjónusta og á annarri hæð skrifstofur og atvinnustarfssemi og á efri hæðum íbúðir. Í tengslum við þetta var lagt til að Laugavegurinn yrði í framtíðinni göngugata frá Snorrabraut alla leið vestur í Aðalstræti. Til þess að þetta gæti gerst þurfti að fæða miðborgina um Skúlagötu/Sæbraut og gera Hverfisgötu að þjónustugötu þar sem einkabíllinn fór um og framboð af bílastæðum nægjanlegt. Svo gengu menn frá upp á iðandi göngugöruna, sólríka og fallega með sínum sterku einkennum sem siðar hefur verið kallaður staðarandi. Þetta var allt faglega og vel unnið. En það voru engar glansandi söluteikningar eins og við þekkjum núna.

Hverfisgötubílastæðunum var komið fyrir við Vitatorg og gengt Þjóðleikhúsinu en af einhverjum ástæðum eitt á Stjörnubíóreit sem voru auðvitað mistök ef gera á Laugaveg að göngugötu.

Nokkrum árum síðar var samýkkt deiliskipulag Kvosarinnar þar sem hún var næstum öll gerð að bíllausu svæði. Það var kvosarskipulag Dagnýjar Helgadóttir og Guðna Pálssonar arkitekta. Um svipað leiti var hluti Laugavegarins gerður að vistgötu. Það voru arkitektarnir Jóhannes Kjarval og Krisján Ásgeirssin sem höfðu umsjón með þeirri vinnu. Jóhannes heitinn sagði mér frá baráttunni. Það var ekki bara hugmyndaleg barátta heldur líka hönnunarleg. Smáatriði eins og hellulögn og steypujárnsrósettur umhverfis trjástofna kostuðu mikla baráttu. En það versta var að notendur kunnu ekki að nota götuna. Hvorki rekstraraðilar né vegfarendur.Líklega var það vegna þess að nánast engin umræða var um skipulagsmál á þessum árum. Það var eins og fólk héldi að skipulagið kæmi frá Guði. Bílarnir töldu sig hafa sama rétt og áður og skipti þá engu máli hvort hér væri vistgata eða ekki. (Ég held jafnvel að hugtakið „vistgata“ hafi ekki verið til á þessumárum frekar en „staðarandi“)

Í AR1984-2004 er mynd af Óðinstorgi sem er gert að göngusvæði um leið og bílastæðin sem þarna voru eru færð undir yfirborðið og fjölgað nokkuð. Svo er önnur mynd þar sem hugmynd af endurbótum á Skarphéðinsgötu austan Snorrabrautar er útfærð í skissuformi þar sem mannífið er í fyrsta sæti.

Þessar hugmyndir um að draga úr áhryfum einkabílsins voru allar samkvæmt fræðunum sem okkur var kennd í arkitektaskólunum á árunum uppúr 1965. Þetta er líka í samræmi við aðgerðarinna í USA í byrjun sjötta áratugarins, með Jane Jacobs í fararbroddi. Það má því segja að nú hefur baráttan um manneskjulega miðborg Reykjavíkur staðið í 55 ár eða allar götur síðan bílaskipulagið AR1962-84 var samþykkt. Það er ekkert nýtt undir sólinni og góðir hlutir gerast hægt og eiga að gerast hægt þegar um skipulagsmál er að ræða.

+++

Allar myndirnar í þessari færslu eru úr AR1984-2004 og gefa vísbendingu um hvað menn voru framsýnir á þessum árum og vildu vel. Formaður skipulagsráðs var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lögfræðingur, skipulagsstjóri Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt og borgarstjóri var Davíð Oddsson. Efsta myndin sýnir Austurstræti á góðum degi. Þarna var hvorki menningarnótt né 17. júni. Líklaega bara góður föstudagur. Ef mér skjátlast ekki er fremstur á myndinni Egill Helgason fjölmiðlamaður sem hefur alla tíð verið mikill borgari og borgarrýnir.

Hér gefur að líta ljósmynd úr AR1984-2004 þar sem vistgata samkvæmt hönnun Jóhannesar Kjarval og Kristjáns Ásgeirssonar er fullgerð. Þarna er hellulögnin látin ganga frá húsvegg að húsvegg og lítill greinarmunur gerður á svæði gangandi og akandi.  Notendur, hvorki vegfarendur né rekstraraðilar áttuðu sig á tækifærinu. Líklega vegna þess að umræða um skipulagsmál var á þessum árum nánast enginn og fólk áttaði sig ekki á hugmyndinni og tækifærunum sem lögð voru á borð. En hugmyndin er jafngóð fyrir því.

Hér er mynd úr AR 1984-2004 sem sýnir hve mikill einhugur var um að gera miðborgina manneskjulegri. Bílarnir eru settir undir yfirborðið og mannekjan i félagslegt umhverfi baðað sól og yndislegheitum. Teikningin er gerða af Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt

Hér er dæmi úr Norðurmýrinni þar sem hugmynd Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts er að gera hluta Skarphéðinsgötu að hreinni göngugötu til þess að auka mannlífið milli húsanna í hverfinu.

Mynd úr A1984-2004 sem sýniir hluta Kvosarinnar sem göngusvæði. Þarna er gert ráð fyrir endurhönnun Austurvallar þannig að hann henti betur útifundum aðgerðarsinna og fl. Bílar eru víkjandi fyrir fótgangandi.

Þar sem Kvosin og torgin þrjú sem þar eru, Lækjartorg, Ingólfstorg og Austurvöllur voru hugsuð sem borgartorg með hörðu yfirborði var lögð áhersla á að gera Arnarhól mjúkan og grænan. Myndin að ofan er af fyrstuverðlaunatillögu Birnu Björnsdóttur. Af einhverjum ástæðum var ekki nema lítill hluti hugmyndarinnar framkvæmd eins og flestar þær frábæru hugmyndir sem fram komu í AR1984-2004 til þess að gera Reykjavík að manneskjulegri borg. Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt og pistlahöfundur unnu með Birnu að þessu verki.

Laugardalur var hannaður sem einskonar lunga borgarinnar með margvíslegri starfsemi ætlaða til lýðheilsu. Þarna á uppdrætti Reynis Vilhjálmssonar er gert ráð fyrir tónlistarhúsi Guðmundar Jónssyni arkitekts austast En Dalbrautin er þarna ekki lengur sem hugsuð var sem tengibraut milli Dalvegar og Grensásvegar ef ég man rétt.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.4.2020 - 18:22 - Rita ummæli

Svona á miðbær Kópavogs að líta út.

 

Samkvæmt þeim hugmyndum sem nú liggja fyrir í skipulagsráði Kópavogs eru áætlanir um að endurhanna og endurskapa allt gamla miðbæjarsvæðið við Fannborgina, gamla og sögulega miðbæ bæjarins. Tillaga sú sem nú er til umfjöllunar gengur út á að rífa mörg lítil og stór hús á svæðinu og byggja stórbrotnar og stórar nýjar byggingar í alþjóðlegum stíl. Meðal þeirra húsa sem eiga að víkja er helsta og elsta menningarhús bæjarins. Félagsheimili Kópavogs, sem er mörgum kært. Þetta er húsið, sem byggt var af hugsjón og harðfylgi,  húsið þar sem Kópavogsbíó og bæjarstjórnarskrifstofurnar voru til húsa um áratugaskeið.

Það kæmi mér ekki á óvart að gömlum Kópavogsbúum og hagsmunaaðilum á svæðinu, finnist nóg um.

Af öllum gögnum og greinargerð má sjá að þetta er nokkuð ítarlega unnið og tekið á mörgum mikilvægum þáttum. Mikið af tilvísunum í vandaða erlenda byggingalist og líflegt götulíf í útlöndum. Þarna er  dregin upp mynd af umhverfi sem flestir sækjast eftir.  Hugmyndafræðin er nokkuð áræðin og stórkallaleg sem vert er að kynna sér og skoða vel.

Þegar svæðið er skoðað og núverandi ástand hugleitt, blasir við að það þarf að taka til og endurskipuleggja og lagfæra margt. Einkum með tilliti til Borgarlínunnar sem þarna á að fara um og þau tækifæri sem í henni felast. Margir töldu að stefna ætti að lágstemmdari og manneskjulegri uppbyggingu í þessum gamla miðbæ kaupstaðarins, með menningu og stjórnsýslu  sem meginþunga meðan miðhverfi verslunar og viðskipta yrði vísað á svæðið við Smáralind.  En nú virðist Kópavogur ætli að gera þetta með þeim hætti sem hjálagðar myndir sýna.

Myndirnar og kortin sem hér fylgja segja meira en tíu þúsund orð og skýra sig að mestu sjálfar.

 

Á loftmyndinni er skipðulagsreiturinn afmarkaður með bláu. Ef rétt er skilið þarf að rífa allar byggingarnar innan reitsins, alls 11 talsins.

 

 

 

 

Af sneiðmyndum skipulagsin má sjá að nýbyggingarnar eru engin smásmíð.

Þessar hugmyndir leiða hugann að nauðsyn þess að sameina öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Maður getur spurt sig hvort það sé svo að ef höfuðborgarsvæðið þyrfti tvö „La Defence“ svæði, hvort ættu þau þá bæði að vera í Kópavogi?. Og hvort Borgarlínan væri ekki hagkvæmari, minni og ódýrari í stofnkostnaði og rekstri ef um væri að ræða eitt sveitarfélag. Nú svo er ég ekki viss um að umræðan um Reykjavíkurflugvöll væri svona hörð ef það mál væri á herðum sveitarfélaganna allra. Ég held líka að húsfriðun og staðarandi fengi þyngra vægi og miðbær Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengju nánast friðun.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.2.2020 - 19:56 - Rita ummæli

„Stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingarlist“.

 

Stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingarlist – in memoriam

Það eru áratugir síðan menn fóru að hafa áhyggjur af því að gengið væri á staðaranda Reykjavíkur með nýjum byggingum og nýjum skipulagsákvörðunum. Hugtakið „staðarandi“ var reyndar ekki til þá, en festi sig í málinu fyrir svona 10 árum.

Það eru rétt 15 ár síðan Þorvaldur S. Þorvaldsson borgararkitekt í Reykjavík og áður skipulagsstjóri til áratuga, kallaði saman hina færustu sérfræðinga til þess að semja drög að „Stefnumörkum Reykjavíkurborgar í byggingarlist“. Þetta er stórmerkilegt skjal sem ærið tilefni er til Þess að minna á.  Vegna kjarkleysis eða viljaleysis stjórnmálamanna má segja að þessi vinna hafi í hita og þunga dagsins gleymst niðri í skúffu allan þennan tíma sem liðin er. En samt ekki alveg. Í kjölfarið, árið 2007, var gefin út Menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð á vegum Menntamálaráðuneytisins sem virðist byggð á drögum borgarinnar um sama efni. Þar gaf hugmyndin um stefnumörkun í byggingarlist endanlega upp öndina. Liklega sérstaklega og annarsvegar vegna þess að þetta var á vegum menntamálaráðuneytisins í stað ráðuneyta skipulags- og umhverfismála og hinsvegar vegna þess að ekkert var platformið til þess að fylgja málinu eftir og veita byggingariðnaðinum það aðhald sem stefnt var að. Menningarstefnan var andvana fædd.

Ef stefna borgarinnar í byggingarlist hefði verið samþykkt á sínum tíma liti margt eflaust öðruvísi út í skipulags- og umhverfismálum í Reykjavík. Þá hefði Umhverfis- og skipulagsráð séð um eftirfylgnina. Nú er nánast enga stefnu að finna þó ymprað sé á henni á víð og dreif í aðalskipulaginu AR2010-2030.

Stefna er frá því 21. febrúar 2005 tók ekki bara á staðarandanum og meginmarkmiðum stefnunnar heldur einnig á leiðum til þess að framfylgja henni. Lögð var áhersla upplýsingu og að byggingarsagan sé læsileg í umhverfinu. Þá er mikill þungi lagður á fræðslu almennings og þáttöku hans í umræðunni og ákvarðanatökunni. Þetta hefur allt verið lagt til hliðar þannig að staðarandi borgarinnar, einkum innan Hringbrautar, hefur verið skertur og aðkomu almennings í umræðunni og ákvarðanatöku nánast fyrir borð borin. Allstaðar eru mál vanreifuð af borgurunum, sem haldið er utan umræðunnar og deilur spretta upp allstaðar í kjölfarið eins og dæmin sanna.

++++

Ég leyfi mér að birta hér einn kafla úr drögum hópsins sem kom að þessum merkilegu stefnumörkun í byggingarlist sem borgarstjórn þyrfti að dusta rykið af og klára. Það er kafli sem heitir „Byggingararfurinn“.

„Reykjavík er ung borið saman við höfuðborgir Evrópu en sýnileg byggingarsaga hennar spannar þó tvær og hálfa öld. Að auki eru í miðborg Reykjavík minjar sem tengjast á óyggjandi hátt sögnum Landnámu og Íslendingabókar um upphaf byggðar norrænna manna í landinu. Minjar borgarinnar spanna því allt söguskeið þjóðarinnar.

Byggingar hvers tímabils og minjar frá eldri tímaskeiðum endurspegla ótal þætti þess samfélags sem þær eru sprottnar úr. Hvert skeið á sér listrænt tjáningarform, byggingartækni, byggingarefni, félagslega skírskotun o.s.frv. Hvert gamalt hús og hver bæjarhluti ber þannig í sér vitnisburð um framvinduna frá upphafi sínu til okkar daga. Gömul hús og hverfi eru því þegar best lætur læsilegar og sannverðugar heimildir um margslungna atburði í fortíð þess samfélags sem þau tilheyra.

Á ferðalögum um framandi slóðir sækjast flestir eftir að koma í borgir eða á staði sem eiga sér langa sögu og þar sem margvísleg mannvirki eru til vitnis um gengna tíma. Sögulegur bakgrunnur sem endurspeglast í bæjarmyndinni og einstökum byggingum er áhugaverður, hann er upplýsandi, fræðandi, örvandi. Að öðru jöfnu má fullyrða að því meira sem hægt er að lesa úr umhverfinu um sögulega þróun þess þeim mun áhugaverðara sé það jafnt fyrir íbúa sem gesti.

Borgin hefur í þessum skilningi sögulega vídd sem gefur henni ómetanlegt gildi. Sögulegt innihald verður aldrei mótað af einum vilja eða stefnu, hvorki einstaklings né samfélags heldur er það fólgið í margbrotnum vitnisburði um þá framvindu tímans sem hefur átt sér stað. Það verður heldur aldrei endurskapað ef það hefur af einhverri ástæðu glatast. Söguleg vídd umhverfisins er því mjög dýrmæt. Í henni eru óafturkræf verðmæti sem okkur ber skylda til að gæta vandlega.

Byggingarlistarstefna Reykjavíkurborgar felur í sér ákvörðun um að borgaryfirvöld ætli að gæta þess að sögulegt innihald borgarinnar haldist sem skýrast og að hús og hverfi borgarinnar beri þróun hennar sem greinilegast vitni. En um leið og það er gert verður að gæta að möguleikum borgarinnar og hinna ýmsu borgarhluta til að þróast og byggjast upp í takt við nýja tíma og nýjar áherslur“.

++++

Í drögunum er borginni skipt upp í 10 borgarhluta og lagt til að hverfisráð fái meiri völd og að nálægð við borgaranna stuðli að meiri áhrifum þeirra á næsta umhverfi sitt. Það er kallað eftir virkara lýðræði og þáttöku almennings.  Í praxis hefur þetta gengið í þveröfuga átt. Dæmi um það er að hverfisráð Vesturbæjar sem var með skrifstofur og fundarherbergi við Hjarðarhaga var flutt út úr borgarhlutanum fyrir nokkrum misserum og heitir nú hverfismiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Ég veit ekki hvort hverfisráð eru lengur til. Um tíma boðaði hverfisráð Vesturbæjar reglulega til, fróðlegra og skemmtilegra funda, með íbúunum. Nú er allt í felum fyrir borgurunum og stjórnsýslan fer í fýlu ef einhverjir andmæla einhverju, menn hoppa ofan í skotgrafirnar og forherðingin tekur völdin.

Í vinnuhópnum sem skilaði umræddum drögum 21. febrúar 2005 voru:

Þorvaldur S. Þorvaldsson borgararkitekt, formaður

Anna Margrét Guðjónsdóttir, skrifstofu borgarstjóra/borgarritara

Dagný Helgadóttir, Fasteignastofu

Guðmundur Pálmi Kristinsson, Fasteignastofu

Hjörleifur Stefánsson, Arkitektafélagi Íslands

Margrét Leifsdóttir, skipulagsfulltrúa

Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsfulltrúa

Pétur H. Ármannsson, Listasafni Reykjavíkur

Pjetur Stefánsson, Bandalagi íslenskra listamanna.

Til vara:

Ágústa Kristófersdóttir, Listasafni Reykjavíkur

Dennis Jóhannesson, Arkitektafélagi Íslands

++++

Efst er mynd af nýrri göngugötu í miðborg Reykjavíkur þar sem tveir, líklega erlendir ferðamenn eru að flandra um splunkunýja einsleita götuna.  Þarna eru helstu kennileiti og tengsl við staðaranda miðborgar  Reykjavíkur rofin. Akkúrat það sem ferðamennirnir eru komnir hingað til þess að sjá og upplifa sjest hvergi. Helstu kenningar um hönnun göngugatna eru víðs fjarri. Þessi hús bera ekki einkenni gatna þar sem er gert ráð fyrir gönguhraða fólks heldur hraða bílaumferðar. Þannig virðast götumyndirnar einsleitar, langar og leiðinlegar. Jarðhæðirnar eru tugir metra á lengd  og einsleitar þvert á það sem eru einkenni miðborgarinnar og fræðin mæla með. Húsin bera einginn einkenni gömlu bygginganna í Kvosinni eða staðaranda hennar. Öll skynsamleg prinsipp eru rofin. Og nú á að byggja eitthvað álíka aðeins vestar á hafnarsvæðinu við Miðbakka og Vesturbugt.  Líklegt er að stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingarlist hefði haft þarna áhrif til betri vegar hefði hún hlotið brautargengi á sínum tíma. En það er ekki orðið of seint.

 

Uppbrot húsa, breytilegar húsahæðir og húsagerðir eru eitt af einkennum miðborgarinnar og forsenda fyrir aðlaðandi göngusvæðum. Þessi mynd er tekin suður Pósthússtræti.

Húsin hægra megin eru ný og hærri en þau sem eru til vinstri og eru gömul. Þarna spilar gamalt og nýtt saman. Sólin flæðir um götuna, sem hefur alla burði til þess að verða aðlaðandi og eftirsótt göngusvæði. Bilið milli húsanna í syðri götulínu skiptir þarna líka máli sem hleypir sólinni inn á götuna og opnar sýn inn í bakgarða. Þetta er eitthvað sem oft er látið eiga sig þegar svokölluð randbyggð nítjándu aldar, er hugmyndin.

 

 

Að ofan er skýringarmynd úr nýrri bók eftir David Sim sem eflaust er til í bokasafni Umhverfis- og skipulagssviðs. Skýringarmyndin sýnir greiningu á eldra hverfi borgar í Evrópu þar sem formmál borgarhlutans er skilgreint í fáum strikum. Ekki ósvipað skilgreiningu Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta um staðaranda Kvosarinnar frá 1986, sem gerð var í tengslum við deiliskipulagið þar á þeim tíma. Bókin heitir „Soft City“ og er einskonar framhald af bók Jan Gehl sem heitir „Byer for mennesker“.  Í „Soft City“ er fjallað um heppilegar húsagerðir á göngusvæðum og hina mjúku borg fyrir fólk. Þarna er lögð áhersla á að götuhliðar séu stuttar og húsahæðir og húsagerðir mismunandi. Opið er frá götu inn í innigarða randbyggðarinnar. Lítið sem ekkert  er byggt inni í randbyggðinni, þvert á það sem hefur verið gert á Brynjureit og víðar í Reykjavík að undanförnu, og skapast þar innigarðar með tækifæri til útivistar á sólríku svæði.  Sumstaðar er lagt til að byggð sé ein hæð um allan innigarðinn til þess að koma fyrir starfssemi sem þarf mikla húsdýpt eða fyrir bílageymslur. Þannig verða húsin einni hæð lægri inni í garðinum en við götuna og sólin nær betur niður á útivistarsvæðið. Bókin kom út síðla árs 2019 og fjallar um nútíma borgarskipulag í litlum skala fyrir litlar borgir. Þar er tekið á PPS götum (pedestrian priority streets) þar sem bílar eru leyfðir en gangandi hafa forgang eins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.2.2020 - 23:15 - Rita ummæli

Kynningarferli í skipulagi – Elliðaárdalur m.m.

 

 

 

Hinn heimsfrægi borgarskipulagsfrömuður og arkitekt Jan Gehl, var eitt sinn spurður hvernig best væri að nota arkitekta til þess að breyta umhverfinu til hins betra?

Gehl svaraði að það væri meginverkefni arkitektsins að upplýsa íbúana um vandamálin og lausnirnar. Það sjá ekki allir vandamálin sem við er að stríða og enn færri tækifærin. Ef þessu er miðlað til íbúanna vex alltaf áhugi þeirra fyrir arkitektúr og skipulagi.

Gehl  telur samráðsferlið mikilvægan hvata til þess að glæða áhuga notendanna á umhverfinu og fá kröfuharðari og upplýstari neytendur. Hinn reyndi arkitekt leggur áherslu á kynningu, umræðu og þátttöku sem flestra í ferlinu.

Gehl telur að ef ekki er tekið tillit til íbúanna og þeir fá ekki örvun til þátttöku í ferlinu, missa þeir áhugann og niðurstaðan verður ekki eins farsæl.

Ef umræðunni er beint að borgurunum, þá fara hlutirnir af stað, segir Gehl. Svo þurfa þeir borgarar sem blanda sér í umræðuna að fá eitthvað til baka. Fá á tilfinninguna að á þá sé hlustað, að sjónarmið þeirra skipti máli.

Þetta vita allir arkitektar og líklega stjórnmálamenn líka. Gallinn er bara sá að þetta er tafsamt ferli. Samráð tekur langan tíma en er nánast alltaf til mikilla bóta. Í raun er skipulagsvinna tómt vesen, svoldið eins og að reka stórt mötuneyti. Það er aldrei hægt að gera öllum til hæfis.

Við verðum líka að muna að það tekur langan tíma að byggja borg og það á að taka langan tíma. Það er mikilvægt að borgir byggist upp hægt og í samhljómi við það sem fyrir er og í mikilli sátt við þá sem í borginni búa. „Róm var ekki byggð á einum degi“. Best er ef borgir byggjast upp hægt og með virðingu fyrir staðarandanum.

Ég hef þrisvar gert formlega athugasemd við auglýst deiliskipulag í kynningarferli hjá Reykjavíkurborg. Athugasemdirnar vörðuðu ekki einkahagsmuni mína heldur almannahagsmuni. Í fyrsta sinn fann ég að staðsetningu Landspítalans við Hringbraut. Í annað sinn taldi ég að gera ætti auknar útlitskröfur í deiliskipulagi við Hafnartorg þar sem staðarandi Kvosarinnar væri áhrifavaldur og að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni sem þar á að koma. Og í þriðja sinn taldi ég óráð að byggja framan við Gamla Garð á Háskólasvæðinu eins og áformað var. Allt með faglegum og jákvæðum rökum.

 

Það er skemmst frá því að segja að athugasemdirnar voru nánast lagðar til hliðar. Mér hefur t.d. enn ekki borist svar við þeirri síðustu, vegna viðbyggingar við Gamla Garð, þó liðin séu tvö og hálft ár frá þvi að umsagnarfresturinn rann út. Og nú eru þeir byrjaðir að byggja þarna án þess að hafa lokið lögbundnu athuasemdaferli með því að svara athugasemdunum. Það skal samt tekið fram að ekki er verið að byggja það hús sem kynnt var á sínum tíma. Heldur annað, sem er miklu betra.

 

Reynslan af þessu segir að það fylgir enginn hugur að baki þeirri lögformlegu kynningu sem skipulagsyfirvaldinu er skylt að sinna. Lærdómurinn er sá að það er nánast tilgangslaust að leggja á sig vinnu við gerð athugasemda eins og dæmin sanna. Það má segja að það sé verið að gera grín að fólki með þessu framferði þegar athugasemdum er ekki einusinni svarað.

 

Undanfarið hefur mikil umræða verið um Laugaveg sem göngugata. Það er ljóst að Laugavegur mun verða göngugata þegar fram líða stundir og við eigum að stefna að því. Á það hefur verið bent að gera götuna, til að byrja með, að „PPS“ götu (pedestrian priority street) þar sem gangandi hafa forgang. Þetta væri millileikur sem án vafa mun leiða á eðlilegan, varfærnislegann og mjúkan hátt að þeirri æskilegu niðurstöðu sem stefnt er að. Í mínum huga mun verða víðtæk sátt um slika nálgun. En í þessum áformum eins og víða í skipulaginu virðist borgin ekki vilja samtal og samráð þar sem stefnt er að sáttum, en velur frekar, eins og oft, að fara fram með offorsi og ófriði að tilsettu markmiði ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum.

 

Nú í vetur hefur verið mikil umræða um hvort byggja eigi nokkur þúsund fermetra gróðurhvelfingu á jaðri Elliðaársdalsins. Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og fleiri hafa gert athugasemdir og eru að safna undirskriftum í mótmælaskyni. Ég þekki ekki þetta mál og ætla ekki að taka afstöðu til þess. Ég tek hins vegar eftir því að þeir sem hafa með þetta að gera í stjórnsýslunni grípa til varna og segja að þetta sé allt í samræmi við skipulag og að þetta sé vel unnið af hinu færasta fólki. Svo tala þeir þetta niður. Jafnvel borgarstjórinn í Silfri Egils á sunnudaginn var talaði um að þetta væri ekki merkilegt svæði og að þarna væru gamlar grúsgrafir og tippur vegna framvæmda við Miklubraut á sínum tíma. Svo deila menn um hvort Elliðaárdalurinn sé sköpunarverk almættisins eða hvort hann sé mannanna verk.

 

Svipuð voru rök skipulagsyfirvalda þegar Víkurgarður var í umræðunni þar sem að sögn er unnið í andstöðu við lög um verndun og friðhelgi kirkjugarða. Vörnin var einkum sú að þetta væri allt faglega unnið. Manni kemur í hug kennisetningin „Það er mikilvægt að gera hlutina rétt, en það er enn mikilvægara að gera réttu hlutina“ sem virðist snúið við í setninguna „það er mikilvægara að gera hlutina rétt en að gera réttu hlutina“

 

Hugmyndin er hvorki betri né verri þó faglega sé unnið og verkið unnið rétt samkvæmt öllum settum reglum og venjum eða með vísan til þess hvernig Elliðaárdalurinn hafi verið í fyrrndinni. Aðalmálið er að þeir borgarar sem sett hafa sig inn í málið og tjáð sig, vilja þetta ekki.

Annað nýlegt dæmi er barátta íbúa og íbúasamtaka um að fara varlega varðandi svæðið umhverfis Sjómannaskólann. Þar hafa samtökin Vinir Saltfiskmóans og Vinir Vatnshólsins sagt borgina beinlínis fara með blekkingar í kynningu á deiliskipulaginu þar.

Einhvernvegin hefur borginni ekki tekist að höndla þessi mál þannig að sátt náist og traust myndist.

Skipulagsyfirvöld þurfa að brjóta odd af oflæti sínu, vera auðmjúk og fara að ráðum Jan Gehl. Þau eiga að virkja borgarana til samstarfs og taka öllum athugasemdum fagnandi, þakka fyrir þær, gera málamiðlanir og taka tillit til athugasemda þegar það á við. Forðast átök og átta sig á því að lýðræðið á ekki einungis að vera virkt á kjördegi, heldur alltaf þegar tækifæri gefst.

Það er skipulaginu ekki til framdráttar að skella skollaeyrum við framlagi áhugasamra borgara, sem vilja vel.

+++

Efst er loftmynd af því svæði sem nú er deilt um og varðar deiliskipulag á Þróunarreit, Þ73, sem heitir svo samkvæmt aðalskipulagi. Fylgjendur nefna það diliskipulag við Stekkjabakka en andstæðingarnir deiliskipulag í Elliðaárdal. Þessi skilgreining lýsir nokkuð umræðunni sem er í raun sú að einhver hópur vill byggja þarna og annar ekki. Það er eins og deiluaðilar tali um þrjú svæði.

Sá sem þetta skrifar gerði athugasemd við deiliskipulag vegna Landspítala Háskólasjíkrahús við Hringbraut, sem einnig hét Nýr Landspítali og síðar Hringbrautarverkefnið. Athugasemdin gekk út á umferðamál og fl. Þá var einnig í athugasemdinni talið að deiliskipulagið bryti Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð um aðlögun að þeirri byggð sem fyrir var. Ekkert tillit var tekipð til athugasemdanna og má segja að Menningarstefnan sem var alveg ný á þeim tíma hafi dáið drottni sínum enda aldrei, svo vitað sé, látið reyna á hana.

Í annað sinn sem höfundur gerði athugasemd við deiliskipulag var vegna Hafnartorgs og Austurhafnar. Hann taldi að gera ætti auknar útlitskröfur í deiliskipulagi við Hafnartorg þar sem staðarandi Kvosarinnar væri áhrifavaldur og að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni sem þar á að koma. Hvorugt var gert, sem sætti furðu. Sérstaklega vegna Borgarlínuna sem var markeruð í aðalskipulagi en deiliskipulag ber að vera í samræmi við aðalskipulag samkvæmt lögum.

 

Og í þriðja sinn taldi höfundur óráð að byggja framan við Gamla Garð á Háskólasvæðinu eins og áformað var. Það er skemmst frá því að segja að athugasemdirnar voru lagðar til hliðar.  Ekki hefur enn borist svar þó liðin séu tvö og hálft ár frá þvi að umsagnarfresturinn rann út þann 17. ágúst 2017. Og nú eru þeir byrjaðir að byggja þarna án þess að hafa lokið lögbundnu athuasemdaferli með því að svara athugasemdunum. Það skal samt tekið fram að ekki er verið að byggja það hús sem kynnt var á sínum tíma. Heldur annað, sem er miklu betra.

 

Annað nýlegt dæmi er barátta íbúa og íbúasamtaka um að fara varlega varðandi svæðið umhverfis Sjómannaskólann. Þar hafa samtökin Vinir Saltfiskmóans og Vinir Vatnshólsins sagt borgina beinlínis fara með blekkingar í kynningu á deiliskipulaginu þar.

 

Undanfarið hefur mikil umræða verið um Laugaveg sem göngugata. Það er ljóst að Laugavegur mun verða göngugata þegar fram líða stundir og við eigum að stefna að því. Á það hefur verið bent að gera götuna, til að byrja með, að „PPS“ götu (pedestrian priority street) þar sem gangandi hafa forgang. Þetta væri millileikur sem án vafa mun leiða á eðlilegan, varfærnislegann og mjúkan hátt að þeirri æskilegu niðurstöðu sem stefnt er að. Í mínum huga mun verða víðtæk sátt um slika nálgun. En í þessum áformum eins og víða í skipulaginu virðist borgin ekki vilja samtal og samráð þar sem stefnt er að sáttum, en velur frekar, eins og oft, að fara fram með offorsi og ófriði að tilsettu markmiði ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum.

+++++

Pistill þessi birtist fyrst  Kjarninn.is sunnudaginn 16 febrúar 2020

+++

https://kjarninn.is/skodun/2020-02-14-kynningarferli-i-skipulagi-ellidaardalur/

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.1.2020 - 13:51 - Rita ummæli

Miðborgin/Laugavegur – Gott viðtal.

 

 

 

Hér er fjalað um hluta af viðtali við í Morgunblaðinu við Guðrúnu Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra Kokku um miðborgina og Laugaveg.

Allir sem fylgjast með skipulagsmálum og þróun miðborga hafa tekið eftir mikilli breytingu þar um víða veröld undanfarin ár. Dregið hefur úr dreifingu byggðar, miðborgirnar eru að styrkjast og vinsældir verslunarmiðstöðva í jöðrum borganna fara minnkandi. Þær skipta hundruðum hinar svokölluðu „kringlur“ sem lokað hefur verið í Bandaríkjunum umdanfarin ár og það sama er að gerast í Evrópu. Netverslunin er sífellt að taka til sín meira af kökunni og verslun við aðalgötur borgann eru að taka breytingum. Það að versla er orðin afþreying og upplifun. Fólk er farið að sækja í miðborgirnar til þess að njóta þess að versla, borða og hitta fólk. Maður er manns gaman og verslun er að breytast úr nauðsynlegum hversdagslegum og leiðinlegum skylduverkum í nánast skemmtun og upplifun. Líklegt er að ein af meginorsökum þess að verslanir fari af Laugaveginum er hátt fasteignaverð, hátt fasteignamat og þ.a.l. mikil aðsemiskrafa af húsnæðinu.
++++
Í Morgunblaðinu í vikunni var fróðlegt og skemmtilegt viðtal við Guðrúnu Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra og einn eiganda verslunarinnar Kokka á Laugavegi. Hún er einnig stjórnarformaður í stjórn samtakanna „Miðborgin Okkar“ og hefur mikið hugsað um verslun í miðborginni.

Guðrún tekur undir að þróunin síðustu ára í nágrannalöndunum sé sú að verslanamiðstöðvar séu á undanhaldi, á meðan miðbæjarverslun sækir í sig veðrið og segir hefðbundin verslun eigi almennt undir högg að sækja alls staðar í heiminum. „Fjögur þúsund verslunum var til dæmis lokað í Bretlandi árið 2019. Á sama tíma eykst netverslun.“ segir hún í viðtalinu við Morgunblaðið sem tekið var af Þóroddi Bjarnasyni blaðamanni Morgunblaðsins.Hér fara á eftir nokkur áhugaverð brot úr viðtalinu.

Veldur þessi þróun þér áhyggjum?
„Maður þarf auðvitað alltaf að vera á tánum og endurhugsa sinn rekstur alla daga. En ég held að fólk muni alltaf vilja sækja í ákveðna þjónustu og upplifun, og það hjálpar okkur að halda velli.

„Það er vanmetið hvað það er rosalega mikið af nýjum íbúðum í miðbænum. Það er margt fólk að flytja inn í þessar íbúðir. Ég finn mjög mikið fyrir því. Með breytingum í ferðaþjónustunni er líka minna um útleigu á íbúðum á AirBNB. Þá flytja íbúarnir aftur í íbúðirnar sínar.“

Guðrún segir að í skoðanakönnun Kokku hafi verið spurt hvaðan viðskiptavinir kæmu. Í ljós kom að flestir koma úr nálægum póstnúmerum,en einnig kom fólk alls staðar að af höfuðborgarsvæðinu og utan af landi. Þá var spurt hvernig fólk kæmi í miðbæinn. Svörin voru á þá lund að langflestir komu á bíl.

Í framhaldi var spurt hvort erfitt hefði verið að finna bílastæði. Svar flestra við þeirri spurningu var nei. „Það er ekkert mál að finna bílastæði niðri í bæ. Við erum með fjögur þúsund stæði í bílakjöllurum og þúsundir af stæðum ofanjarðar. Það er bara ekki satt þegar sagt er að fólk komi ekki í bæinn út af bílastæðavanda.“ Guðrún segir að einnig hafi verið spurt hvernig fólki litist á göngugötur í miðborginni. Þar sögðust 73% vera hlynnt því. „Þá hlýt ég sem kaupmaður að gera það sem viðskiptavinurinn vill. Þetta er samhljóma öðrum könnunum sem gerðar hafa verið af borginni og öðrum en þar hefur hlutfallið sem vill göngugötur aldrei farið niður fyrir 50%. Þetta hlusta kaupmenn og borgin á við framtíðarskipulag miðborgarinnar.“

Eins og sagt hefur verið frá opinberlega er það stefna borgaryfirvalda að gera Laugaveginn allan að göngugötu. Því er Guðrún hlynnt, enda er það vilji meirihluta viðskiptavina. Hún segir að með því að gera Laugaveginn að göngugötu sé samhliða hægt að bæta aðgengi að öllum verslunum og veitingastöðum við götuna. „Þetta mun gera kraftaverk í aðgengi. Það eru svo mörg hús í dag með þrepi eða tröppum, og hægt verður að laga yfirborðið á allt annan hátt en hægt er í dag. Það góða við framkvæmdirnar er að það er búið að endurnýja allar lagnir. Því verður bara um yfirborðsmeðhöndlun að ræða. Rask verður miklu minna en var til dæmis á Hverfisgötunni, og gerði mörgum erfitt fyrir.“

Guðrún er formaður samtakanna Miðborgarinnar okkar.„Það eru bæði skiptar skoðanir meðal félagsmanna og stjórnarmanna í félaginu. Félagið tekur ekki opinbera afstöðu, enda er það ekki pólitískt. Við vinnum fyrst og fremst að markaðssetningu fyrir miðborgina, og ég vil bara segja það að reglulegar upphrópanir örfárra kaupmanna við Laugaveginn um að allt sé ómögulegt í miðborginni, er versta markaðssetning sem til er. Ef sú mantra er síendurtekin í fjölmiðlum fer fólk að trúa því. Það er alltaf verið að hamra á því að bærinn sé að tæmast af verslunum..“ „Þetta er ( ) klárlega öflugasta verslunarsvæði á landinu. Allt tal um að hér sé allt á vonarvöl er ( ) tóm vitleysa.“ Guðrún bendir á að flóran sé sífellt að verða skemmtilegri og fjölbreyttari. Miðborgin stækkar, Hverfisgatan sé að verða hugguleg, og nýir rekstraraðilar spretti þar upp. Einnig bætast sífellt við skemmtilegar verslanir og veitingastaðir í hliðargötum eins og á Njálsgötu og Frakkastíg.

+++
Það var ánægjulegt að lesa þetta viðtal vegna þess að hér kveður við annan tón en þann sem hefur verið áberandi í umræðunni um um Laugaveginn og miðborgina undanfarið. Þetta eru bjartsýnisleg og lausnamiðuð sjónarmið sem koma fram hjá Guðrúnu Jóhannesdóttur.

Því er hinsvegar ekki að neita að skipulagsyfirvöldum hefur ekki tekist að höndla deiluna um Laugaveg göngugata þannig að sátt finnist. Með einhverri þvermóðsku og réttrúarofstopa hefur þeim tekist að viðhalda deilunni og jafnvel dýpkað hana. Steininn tók úr þegar þau ákváðu að breyta akstursstefnunni á miðri götunni. Þetta gerði ekkert annað en að skaprauna fólki. Þetta var eins og eitthvað „stríðnistrikks“ í rifrildi milli manna sem gerir það eitt að skaprauna fólki eins og dæmin sanna.

Það er ljóst að Laugavegur mun verða göngugata þegar fram líða stundir og við eigum að stefna að því. Það hefur verið nefnt hér á þessum vetvangi nokkru sinnum að gera götuna, til að byrja með, að „PPS“ götu (pedestrian priority street) þar sem gangandi hafa forgang. Þetta væri millileikur sem án vafa mun leiða á eðlilegan, varfærnislegann og mjukan hátt að þeirri æskilegu niðurstöðu sem stefnt er að.Það er að gera Laugaveg frá Snorrabraut að hreinni göngugötu allt árið. Í mínum huga mun verða víðtæk sátt um slika nálgun. Munum að góðir hlutir gerast hægt. Ofbeldi borgar sig ekki meðan málamiðlun skilar oftast betri árangri.

Efst er mynd tekin að vetri til á Laugavegi að morgni þar sem gangandi og flutningabílar með aðföng eiga vandræðalaus samskipti. Strax að neðan eru tvær myndir af PPS götum. Annarsvegar frá Kaupmannahöfn og hinsvegar í París þar sem gangandi hafa yfirtekið göturnar og bílaarnir víkja. Þeir sem þurfa að fara ferða sina í bíl, aldraðir eða faltlaðir eða af öðrum ástæðum geta ekið um götuna en það er tafsamt og ekki auðvelt. En það er leyft.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.1.2020 - 10:23 - Rita ummæli

Norðurljós í hitabylgju!

Kennileiti í Reykjavík.

„Ætlunin er að byggingin kallist á við Hallgrímskirkjuturn og Hörpu og verði þannig eitt af þremur helstu kennileitum miðborgarinnar“ segir arkitektinn Tony Kettle um fyrirhugaða nýbyggingu sína á horni Vitastígs og Skúlagötu í Reykjavík sem kynnt var í fjölmiðlum í gær.

Og hann heldur áfram og segist vera að skapa „einstaka byggingu sem komi til með að tengja saman Reykjavík og náttúru Íslands. Hann segist sækja innblástur í íslenska byggingalist og jarðfræði Íslands; basalt og hraunrennsli, rautt og svart“

Mér var nokkuð brugðið við að lesa þetta í fjölmiðlum í gær.

Þetta er dæmigert viðhorf svokallaðra „Touch and Go“ arkitekta sem fara með himinskautum um heimsbyggðina og slá sig niður á viðkvæmum stöðum og fá góðar móttökur vegna frægðar sinnar. Heilla fólk með orðagjálfri, byggja sína byggingu og yfirgefa svo svæðið og skilja fótspor sitt eftir á svæðinu.

Tony Kettle sem er að sögn heimsfrægur arkitekt les Reykjavík með þeim hætti að helst mætti trúa að hann hafi aldrei komið hingað. En svo er ekki að hans sögn. Hann segist hafa komið hingað og átt samskipti við skipulagsyfirvöld sem tekið hafa hugmyndum hans vel.

Nú ætla ég ekki að láta neina skoðun í ljós hvað mér finnst um þetta 203 herbergja hótel hans sem byggja á hér í miðborginni. Þetta er eflaust ágæt bygging í alþjóðlegum stíl.

Það sem mig langar til að benda á að hann les borgina á undraverðan hátt. Hann sér Hörpu og Hallgrímskirkju sem tvö helstu kennileiti borgarinnar, sem er að vissu leiti rétt. Hann vill skapa það þriðja sjálfur. Og það er hótel. Hans hótel.

Hótel eiga ekki að vera helstu kennileiti borga. Þau hótel sem gera það eru frekjur í borgarlandslaginu. Þau geta verið kennileiti á borð við t.a.m. Hótel Sögu eða Hótel Borg, en ekki helstu kennileiti borganna eins og Kettle og verkkaupar hans stefna að. Helstu kennileiti borga eru torg, kirkjur, ráðhús, þinghús og mennigarhús. Aðalkennileiti borga er samt og verður alltaf fyrst og fremst mannlífið og staðarandinn. Hér í miðborg Reykjavíkur eru það smá- og fíngerð húsin í mismunandi stærðum og gerðum, Tjörnin og Sundin svo maður tali nú ekki um staðsetninguna með Esjuna, Bláfjöll og Reykjanesið og Snæfellsjökul. Helstu byggingarnar eru Hallgrímskirkja. Ráðhúsið, Dómkirkjan Alþingishúsið og auðvitað Harpa svo maður nefni nokkrar. Ekkert hótel getur eða á að geta toppað það.

Þetta er einkar athyglisverður hugsanaháttur hjá arkitektinum. Hann lýsir í reynd því hvað honum finnist lítið varið í Reykjavik þegar hann telur hótel í alþjóðlegum stíl geta orðið eitt þriggja helstu kennileita borgarinnar!  Það er eins og hann langi til þess að að Reykjavík verði stór og eins og allar aðrar borgir. Vilja menn það? Hann vill ekki að borgin verði eins og hún er með öllum sínum sjarma, sérkennum og kostum. Hér er á ferðinni arkitekt sem teiknað hefur hæsta hús í Evrópu fyrir einhverja oligara í Rússlandi. Nú á hann að hanna helsta kennileiti Reykjavíkur sem á að vera hótel í einkaeign. Þetta mundu borgaryfirvöld í Skagen í Danmörku eða Rothenburg í Þýskalandi aldrei gera. Þau vita að það er allt önnur íþróttagrein að hanna hús í gömlum miðborgum en hæstu byggingu í Evrópu í Rússlandi eða umhverfi eins og er í Dubai. Það er ekki öllum gefið að hanna byggingar á viðkvæmum stöðum gömlu borganna en það getur nánast hver sem er teiknað sæmileg hús í borgum á við Dubai.

Það skondnasta við kynninguna í blöðunum í gær er myndin efst í færslunni sem er skrýtin svo vægt sé til orða tekið. Þarna eru sýnd norðurljós í nánast hitabylgju eins og það sé daglegt brauð. Þarna situr fólk á sautjandu hæð hótelsins, léttklætt í kvöldkyrrðinni og nýtur norðurljósanna. Borgarlandslagið og fjöllin sem sjást á myndinni er tómur skáldskapur sem virðist gerður af fólki sem aldrei hefur hingað komið. Svo er það myndin sem tekin er að kvöldi til og vísar niður Vitastíginn. Þar er léttklætt fólk á reiðhjólum í hita og logni með tindrandi norðurljós á himni. En á þessa mynd vantar eitt helsta kennileiti borgarinnar, sjálft bæjarfjallið, Esjuna sem ætti að blasa þarna við.

Hvenær hætta arkitektar að plata sveitamanninn? Hversu lengi ætlar sveitamaðurinn að láta erlenda sérfræðinga plata sig.

 

Reykvísk einkenni byggingarinnar eru torséð og arkitektósniskt vönduð hús Sigurðar Björgúlfssonar heitins og Hróbjartar Hróbjartssonar arkitekta virðast staðbundin og hlýleg við hliðina. Líklega er Tony Kettle arkitekt sá eini sem sér hvernig einstök bygging hans tengir saman Reykjavík og náttúru Íslands eða tengslin við íslenska byggingalist og jarðfræði Íslands; basalt og hraunrennsli, rautt og svart. Ekki sé ég það.

Léttklæddir hjólreiðamenn á ferli í norðurljósaskimunni á Vitastíg. Þarna koma arkitektarnir fram með þá stórgóðu hugmynd að hafa norðurljós að sumri til meðan laufið er safaríkt á trjánum. Hvergi er Lexusa, Teslur aða Range Rovera að sjá. Hvað þá fljúgandi gæsir eða loftbelgi. Það er ekki lengur í tísku hjá þeim sem gera svona myndir. Aðalatriðið frá þessu sjónarhorni er ekki þarna lengur, Esjan. Bæjarfjallið er farið. Hvergi sjáanlegt. Maður spyr sig hvort arkitektarnir hafi nokkurntíma komið til Reykjavíkur.

Þetta minnir mig á aðkomu að hóteli sem ég bjó á í Singapore fyrir nokkrum misserum. Þessi verönd er norðan við húsið og veitir að Skúlagötu. Vek athygli á vitanum sem stendur þarna við húsvegginn,

Svo er það þakbarinn þar sem fólk getur notið kaldra drykkja á veröndinni og notið norðurljósanna og útsýnis. En er þetta útsyni til í Reykjavík? Þarna eru fjöll á Álftanesinu og borgarlandslagið annað. Ásýnd Hallgrímskirkju er ekki eins og það er í raun frá horni Vitastígs og Skúlagötu.

++++

 

++++

Það skal tekið fram að þetta er ekki gagnrýni á sjálfa bygginguna heldur er hér vakin athygli á sjálfumgleði arkitektsins og hvernig honum hefur tekist að sannfæra verkkaupa sinn og borgaryfirvöld um ágæti og mikilvægi verks hans. Hann lýsir í reynd því hvað honum finnist lítið varið í Reykjavik þegar hann telur hótel í alþjóðlegum stíl geta orðið eitt þriggja helstu kennileita borgarinnar! Þarna sé lítið annað en Harpa og Hallgrímskirkja. Ætli margir ferðamenn laðist til Íslands til þess að mynda og njóta þessa þriðja helsta kennileitis Reykjavíkurborgar?

++++++

Hér að neðan er þekkt bygging eftir Tony Kettle og félaga. Þetta er Lakhta Center í St. Pétursborg sem er 462 metrar á hæð. Þó einhver hafi hæfileika til þess að hanna svona hús einhversstaðar út í hinum stóra heimi er ekki víst hvort hann hafi burði til þess að hanna hús í gamalli viðkvæmri borg eða borgarhluta.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.12.2019 - 16:11 - Rita ummæli

Laugarnestangi – náttúra, minjar og fegurð á válista

Laugarnestangi – náttúra, minjar og fegurð á válista

Laugarnestangi er á náttúruminjaskrá og nýtur hverfisverndar í aðalskipulagi“ stendur í bréfi frá Þórólfi Jónssyni deildarstjóra náttúru og garða dagsettu 27. nóvember 2018. Bréfið er til umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur og inniheldur álit embættismannsins á fyrirhugaðri landfyllingu í þágu Faxaflóahafna við tangann. Í bréfinu gagnrýnir Þórólfur umhverfisskýrslu VSÓ um svæðið fyrir ónákvæma lýsingu á umfangi landfyllingarinnar og vanmat á afleiðingum hennar fyrir landslagið og ásýnd þess sem og á Laugarnestanga sem verndar- og útivistarsvæði. Þórólfur vitnar í samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Minjastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2016 um verndar­áætlun fyrir Laugarnestanga sem byggir á greiningu á gildi svæðisins í þjóðarsögunni sem og fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk okkar tíma.

„Minjasvæðið á Laugarnestanga er eitt fárra svæða innan marka þéttbýlis Reykjavíkurborgar þar sem hægt er að upplifa nokkuð heildstætt menningarlandslag sem segir söguna alla frá því stuttu eftir landnám og til dagsins í dag. Þar er að finna sýnilegar leifar bæjarhóls og kirkjugarðs auk minja um hjáleigubúskap og sjósókn sem og óraskaðar beðasléttur. Saman mynda þessar minjar menningarlandslag búsetu sem reiddi sig bæði á fiskveiðar og landbúnað.

Náttúrufarið á Laugarnestanga gerir svæðið einstakt í Reykjavík þar sem hægt er að horfa yfir nesið og út í Viðey án truflunar frá mannvirkjum nútímans. Mikilvægt er að halda í þetta merkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.“

Þetta er brot úr samkomulaginu sem undirritað er af borgarstjóra Degi B. Eggertssyni og Kristínu Huld Sigurðardóttur, forstöðumanni Minjastofnunar. Aðeins tveim og hálfu ári frá undirskrift æðstu embættismanna um einstætt gildi svæðisins tóku skipulagsyfirvöld í Reykjavík ákvörðun um að hunsa samkomulagið með breytingu á aðalskipulagi og útgáfu á framkvæmdaleyfi til Faxaflóahafna í mars og apríl í ár.

Laugarnes og Viðey kallast á

Umhverfisskýrsla VSÓ var síðast uppfærð 14. febrúar 2019. í lokaskýrslunni er augljóslega ekkert tillit tekið til gagnrýni Þórólfs Jónssonar, deildarstjóra náttúru og garða, og þar með ekki heldur til lykil­atriða í samkomulagi borgarstjóra og forstöðumanns Minjastofnunar sem snerta tengslin milli Laugarnestanga og Viðeyjar. Landfyllingin er aðeins talin hafa „óveruleg neikvæð áhrif“ vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á henni. Halda mætti að höfundar skýrslunnar og skipulagsyfirvöld hafi aldrei horft yfir til Viðeyjar frá Laugarnestanga, svo miklu skilningsleysi á samhengi náttúru, minja og sögu lýsir mat þeirra. Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja eru með elstu steinhúsum á landinu, reist seint á 18. öld. Þessar dýrmætu byggingar standa á tilkomumesta bæjarstæði Viðeyjar og snúa að Laugarnesi. Laugarnes og Viðey kallast á í gegnum aldirnar. Um leið og skrifstofuhúsnæði og skemmur rísa á hinni nýju landfyllingu verður órofa samhengi sögunnar slitið og byrgt fyrir fegursta útsýni sem enn er völ á á norðurströnd Reykjavíkur. Það er hneyksli að borgarstjórn og skipulagsyfirvöld skuli ekki hafa efnt til opinberrar umræðu um jafn stórfellda röskun á svæði sem er á náttúruminjaskrá, áður en til framkvæmdanna kom.

++++

Að neðan er ljósmynd sem sýnir uppfyllinguna eins og hún var fyrir rúmum mánuði. Þarna sést glöggt hvernig útsýnið af Tanganum út í Viðey er skert. Myndin er tekin af greinarhöfundi.

++++

Greinin að ofan birtist í Fréttablaðinu 28. nóvember s.l. Þetta er merkileg grein eftir Steinunni Jóhannesdóttur, leikara og rithöfund, um landfyllingu við Laugarnestanga og aðalskipulagsbreytingu hennar vegna.

Það hefur ekki verið mikil umræða um þessa aðalskipulagsbreytingu þó hún sé afar mikilvæg og slæm í sjálfri sér. Umræðan var nánast engin þar til Steinunn vakti athygli á málinu.

Fyrir því liggja nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi vegna þess að þetta varðar ekki einkahagsmuni og svo hitt að breytingin var í kynningu frá 21. desember 2018 til 1. febrúar 2019. Þetta var auglýst í aðdraganda jóla og áramóta þegar fólk hafði um annað að hugsa. Meiriháttar breyting á útivistarsvæði var kynnt í svartasta skammdeginu. Ég sem fylgist vel með vissi ekki af þessu á kynningartímanum. Þetta fór framhjá mér.

Skipulagsyfirvöld þurfa að brjóta odd af oflæti sínu og kynna skipulagsmál betur. Kalla eftir athugasemdum. Finna markhópinn og virkja hann. Þau eiga að virkja borgarana til samstarfs og taka öllum athugasemdum fagnandi, þakka fyrir þær, gera málamiðlanir og taka tillit til þeirra þegar það á við. Átta sig á því að lýðræðið er ekki einungis virkt á kjördegi, heldur alltaf þegar tækifæri gefst. Það er skipulagsyfirvöldum ekki til framdráttar að skella skollaeyrum við framlagi áhugasamra borgara, sem vilja vel eða fela auglýsingar í myrkrinu og jólaauglýsingaflóðinu eins og í þessu tilfelli. 

Ef grannt er skoðað óskar enginn eftir þessu raski. Þeir sem kynnt hafa sér málið vilja þetta ekki. Minjastofnun vill þetta ekki. Þetta er ekki sérstaklega aðkallandi fyrir höfnina þó hún sé alltaf tilbúin að talka á móti grjóti. Hinsvegar var þetta mikið hagsmunamál fyrir byggingu Landspítalans við Hringbraut sem þurfti að losna við nokkur hundruð þúsund rúmmetra af grjóti vegna framkvæmdanna þar. Þarna var hægt að losna við grjótið með örfárra kílómetra akstri í stað þess að aka því tugi kílómetra upp í Bolöldur eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagsmunir Landspítalans virðast þarna teknir fram yfir hagsmuni borgarbúa, eins og oft áður.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn