Miðvikudagur 24.10.2018 - 14:00 - 2 ummæli

„Andi Reykjavíkur“

Cenius Reykiavicensis –

Fyrir 10 árum, árið 2008, gaf JPV útgáfa út bókina  „Andi Reykjavíkur“ eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt.

Þetta er stórmerkileg bók sem allir arkitektar og ekki síður stjórnmálamenn ættu að lesa og helst læra utanað.

Bókin fjallar af fagmennsku um byggingarsöguleg einkenni Reykjavíkur og leitast við að skýra tilurð borgarinnar eins og stendur á bókarkápu. Skoðað er hvað hefur farið miður í þróuninni og hvers vegna við höfum ekki borið gæfu til að umgangast miðbæinn sem skyldi, af alúð og umhyggju fyrir sögulegu hlutverki hans.

Í kynningu á bókinni segir að „þegar byggja á upp til framtíðar er mikilvægt að horfa um öxl og beita jafnframt siðfræðilegri nálgun við mat á borgarumhverfinu og einstökum húsum. Leggja verði áherslu á fagurfræði og umhverfissjónarmið því að einungis þannig er hægt að tryggja menningarsögulegt samhengi byggðar í miðbænum og fallega heildarmynd, með virðingu fyrir anda Reykjavíkur að leiðarljósi“.

Bókin var hugsuð sem innlegg í umræðuna um miðbæ Reykjavíkur og skipulagsmál í höfuðborginni og á mikið erindi til okkar í dag og átti erindi til okkar löngu áður en hún var gefin út. Enda hefur staðarandi Reykjavíkur verið nokkuð á hliðarlínunni í skipulags- og byggingamálum miðborgarinnar undanfarna marga áratugi.

++++

Efst er mynd af bókakápunni og að neðan er stutt tilvitnun af síðu 19 þar sem má lesa eitt af mörgum gullkornum bokarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.10.2018 - 11:18 - 3 ummæli

„Bombarderum“ við gamla bæi með nýbyggingum?

 

Í Danmörku og víðar hafa menn áhyggjur af því sem kallað er skortur á sögulegri tengingu þegar byggt er inn í gömlu borgirnar.

Sagt er að við „bombarderum“ gömlu borgirnar með byggingum sem ekki eru í samhljómi við það sem fyrir er.  Við byggjum inn í borgirnar án tillits til sögunnar eða staðarandans. Sagt er að við tökum ekki tillit til neinna annarra þátta en fjármagnsins. Þetta er meginintak umræðu sem á sér stað í Danmörku um þessar mundir. Myndin að ofan er dæmi af yfirskriftum í dönskum blöðum nýverið.

Það eru margir áratugir síðan menn fóru að reyna að snúa þessari þróun við. Í Parísarborg bönnuðu menn háhýsi innan Periferíunnar fyrir 40-50 árum. Bygging Montparnasse turnsins umdeilda hófst árið 1969. Tveimur árum síðar voru byggingar yfir sjö hæðir innan Periferiunnar bannaðar. Menn voru þarna fyrir hálfri öld sammála um að svoleiðis byggingar skemma staðarandann. Það er sagt að útsýni yfir Parísarborg sé hvergi fallegra en úr þessum turni og það sé vegna þess að þaðan sér maður ekki Montparnasseturninn! Menn útbjuggu stað utan borgarinnar fyrir nútímalegar byggungar, La Defence.

Fyrir nokkrum árum var hafin söfnun fjár til þess að rífa Montparnasse turninn niður og gekk hún vel þar til menn komust að því að notað var mikið aspesti í bygginguna sem gerir það að verkum að það er nánast ekki er hægt að rífa hana. Þetta síðasta kann að vera flökkusaga.

Ég var í Lyon fyrir nokkrum dögum og sá að þar var nánast ekki að sjá nýbyggingar í gamla borgarhlutanum, en rétt þar fyrir utan var á stóru svæði að finna mikið magn af nútímabyggingum í háum gæðaflokki. Svipuð nálgun og í París. Báðir borgarhlutarnir eru skemmtilegir heim að sækja en væru báðir leiðinlegir ef þeim yrði blandað saman eins og maður upplifir víða um lönd. Því miður.

Í Lyon, París og víðast í Frakklandi eru menn meðvitaðir um gæði, staðaranda og aðdráttarafl gömlu borgarhlutanna og gera allt til þess að viðhalda staðarandanum, sem er einstakur á hverjum stað fyrir sig.  Í London, Kaupmannahöfn og Reykjavík hafa skipulagsyfirvöld ekki áttað sig á þessu og eru smátt og smátt að skemma gömlu borgarhlutanna og taka sálinu úr þeim. Skemma staðaranda sem hefur verið eftirsóttur.

Allar götur síðan Kveldúlfsskálarnir, Völundarhúsin, hús Sláturfélags Suðurlands voru rifin fyrir um 30 árum hafa menn velt fyrir sér þeim tækifærum sem þar var að finna sem vegvísir til uppbyggingar á svæðinu. Og fólk talar um hvað svæðið umhverfis Hlemm væri miklu skemmtilegra ef tekist hefði að flétta gömlu Gasstöðina inn í uppbyggingu á lóð Lögreglustöðvarinnar. Þetta hefði verið mun betra ef nýbyggingarnar hefðu verið fléttaðar inn í það sem fyrir var. Þetta eru menn að gera í sjálfri New Yorkborg þar sem High Line Park og Meatpacking District er og er mikil ánægja með þá nálgun þar í borg. Þar er nú mikið byggt og lítið rifið.

Svo, að minnstakosti mér, til mikillar undrunar sé ég á ljósmynd sem Eyþór Guðmundur Jónsson setti á vefinn Gamlar Ljósmyndir að glæsileg gömul iðnaðarhús hafa verið rifin á slippasvæðinu í Reykjavík, bara fyrir örfáum árum. Það er eins og ekki sé fylgst með umræðunni og ekki sé dregin lærdómur af því sem á undan er gengið.  Á Slippasvæðinu eiga svo að rísa hótel og íbúðahús uppá margar hæðir án tenginar við það sem fyrir var og fyrir er.

Verið er að breyta Reykjavíkurhöfn úr hafnarsvæði í það sem kallað er á ensku „Waterfront“

+++

Að neðan koma þrjár myndir. Tvær af slippasvæðinu og ein af gömlu Gasstöðinni.

Efst eru fyrirsagnir úr dönsku blöðunum og mynd af umdeildu húsi eftir hinn heimsfræga stjörnuarkitekt Rem Koolhaas sem byggt var á afar viðkvæmum stað í miðborg Kaupmannahafnar. Það er oft talað um stjörnuarkitektana sem „Touch and Go“. Þeir koma og allir hylla þá og þeir setja fingrafar sitt á umhverfið svo eftir sé tekið (sem er markmiðið) og hverfa svo á braut.

Á þessari mynd Eyþórs Guðmundar Jónssonar má sjá það sem fyrir var en nú er búið að rífa. Þetta væri kjörstaður fyrir ýmsa starfssemi. Ég nefni Listaháskóla Íslands sem hefði getað verið í þessum gömlu húsum sem hefðu fléttast inn í þétta íbúðabyggð með ýmiskonar hafnsaækinni starfssemi og íbúðum. Jafnvel líka hótelstarfssemi.

Að ofan er hluti myndar Eyþórs og að neðan glæsilegt hús Gasstöðvarinnar við Hlemm sem væri álitin borgargersemi stæði hún þarna í dag. Það var fullkomlega óþarfi að rífa þessa byggingu til þess að koma Lögreglustöðinni fyrir. Nægt var og er plássið. Ef Gasstöðin stæði þarna í dag væri hún álitin borgargersemi á pari við Safnahúsið og Þjóðleikhúsið sem standa við sömu götu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2018 - 08:58 - 3 ummæli

Hilluhús á Selfossi-Brotið blað í hönnun fjölbýlishúsa hér á landi

Í byrjun áttunda áratugarins var mikið rætt um þétta lága byggð. Talað var um að taka blokkaríbúðina og leggja hana niður á jörðina og í stað þess að ganga að heimili sínu um stigaganga, svalaganga og lyftur, gengju menn um stiga milli húsanna. Maður talaði um að færa líf í bilið milli húsanna.

Um svipað leiti komu menn á borð við hinn heimsfræga arkitekt Moshe Shafdie sem spurði, af hverju tökum við ekki sérbýlið og stöflum því upp í fjölbýlishús? Frægast er hús hans af þessum toga í Montreal, Habitat.

Það hefur ekki mikið gerst í þessari hugmyndafræði undanfarna áratugi. Í raun hefur fjölbýlishúsið staðið í stað í nánast heila öld. Arkitektar, skipulagsyfirvöld, fasteignasalar og verktakar hafa verið fastir í viðjum vanans í 100 ár eða allt frá því að menn fóru að setja svalir á blokkaríbúðina. Síðan þá hefur ekkert gerst

Nú er þetta vonandi að breytast. Í síðustu viku var brotið blað í þessum efnum hér á landi.

Eftir þrotlausa vinnu og mikið hugmyndaríki og fórnfýsi hefur GP arkitektum í Reykjavík tekist að þróa hugmynd sem gengur út á það að taka sérbýlið og stafla því upp í nýja gerð fjölbýlishúsa.

Arkitektarnir ásamt verkkaupa sínum hafa lagt hugmyndina fram til skipulag- og bygginganefnd Árborgar á Selfossi og hefur málinu að sögn verið mjög vel tekið. Þarna, eins og áður kom fram, eru tekin sérbýlishús eða vinkilhús og staflað upp í fjölbýlishús á fjórum hæðum.

Líklegt er að þetta nýja hús muni rísa á næstu misserum og er ég ekki í vafa um að það mún hafa áhrif um allt land og jafnvel bíðar.

Ég veit ekki hvað á að kalla þessa nýju húsagerð. Þetta er allavega ekki blokk í hefðbundnum skilningi. Þetta er frekar einhverskonar Hilluhús, Staflahús eða jafnvel stultuhús.

Þegar rýnt er í teikningarnar sem hér fylgja sér maður að þarna eru vinkilhús svipuð og Kingo húsum Jörn Utzon staflað upp. Þarna er gerð tilraun til þess að sameina kosti sérbýlisins við kosti fjölbýlishússins.

Tilraunin virðist takast.

Vonandi er þetta vísir að löngu tímabærri byltingu í gerð fjölbýlishúsa sem á eftir að hafa meiriháttar áhrif á hýbýlahætti hér á landi á þettum svæðum.

 

Lífleg frumskissa sem teiknuð er af Guðna Pálssyni arkitekt. Mér skilst að hann hafi teiknað þetta á GSM síma sinn. Það liggur mikil hugsun að baki svona teikninga. Í raun svo mikil hugsun og vinna að það gerir sér enginn grein fyrir því nema þeir sem að svona vinnu hafa komið. Kosturinn við svona handskissur er sá að menn sjá aðalatriðin og smáatriðin sem leyst verða í áframhaldinu þvælast ekki fyrir. Svona skissur segja oftast miklu meira en nákvæmar tölvumyndir vegna þess að handskissan gefur ímyndarafli skoðandans svigrúm og jafnvel lausann tauminn, hafi hann á annaðborð eitthvað ímyndunarafl.

Af grunnmyndinn má sjá að þetta eru nánast einbýlishús með gluggum í 3-4 áttir úr hverju húsi og mjög stórum svölum sem nálgast það að vera einkalóð eða einkagarður.

 

Skissa frá hendi Guðna Pálssonar arkitekts sem gerð er á síma hans. Hér er hugmyndin komið nokkuð lengra en í fyrri skissunni.

 

 

Gatan milli húsanna er lífleg með áningarsvæðum og ágætri dagsbirtu við stigagang.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.8.2018 - 15:30 - 4 ummæli

„Ull“ í skipulagsumræðunni

Kynningarferli í skipulagsmálum er mikilvægara tæki en margan grunar, ef rétt er á haldið.

Lögformelgt kynningarferli er til þess ætlað að laða fram það besta sem mönnum dettur í hug og ekki síður að koma í veg fyrir hugsanleg mistök í skipulaginu. Þetta er lýðræðislegt tæki til þess að virkja borgaranna í skipulagsumræðunni. Þetta er samtal milli borgaranna og stjórnsýslunnar eða á að vera það.

Kynningarferlið er einnig mikilvægt til þess að almennur borgari geti vakið athygli á hagsmunaárekstrum.

Þarna eru hafðir í huga einkahagsmunir og ekki síður almannahagsmunir.

Þetta er líka nauðsynlegt ferli vegna þess að betur sjá augu en auga og hugsanlegt er að þeir sem véla um þessi mál innan stjórnkerfisins yfirsjáist eitthvað í skipulaginu.

En þetta ferli getur verið tafsamt.

Það vekur oft athygli hvað almenningur notar þetta athugasemda ferli lítið. Líklega er það vegna þess að þetta er lítið og illa auglýst og það er mikil vinna að setja sig inn í þessi mál. Aðalástæðan er samt líklega sú að það er lítið og oftast ekkert tillit tekið til athugasemdanna þegar þær berast og þær eru ekki metnar að verðleikum.

Maður gæti haldið að kerfið líti á þá sem gera athugasemdir sem andstæðinga sína, sem þeir eru auðvitað ekki. Þeir eru þvert á móti samstarfsmenn líkt og rýnar sem yfirfara ýmis verk manna sem álitin eru fullgerð og í lagi. Rýnarnir finna oftast eitthvað sem betur má fara og er það þá skilyrðislaust lagfært.

+++

Ég hef þrisvar gert athugasemdir við deiliskipulagsáætlanir. Öll í Reykjavílk og allar vörðuðu þær almannahagsmuni en ekki einkahagsmuni mína.

Þetta var mikil vinna. Ég þurfti að lúslesa deiliskipulagsuppdættina og skilmálana. Bera skipulagið saman við aðalskipulag og þær stefnur,  reglugerðir og lög sem varðaði málin.

Fyrsta sinn varðaði það deiliskipulag vegna Nýs Landspítala þar sem ég gerði athugasemd ásamt einum 816 öðrum. Athugasemd mín varðaði samgöngur, borgarlandslagið og að ég taldi deiliskipulagið ekki falla að Menningarstefnu hins opinbera um mannvirkjagerð frá 2007.

Ekki var mér þakkað fyrir framlag mitt og ekki var tekið tillit til athugasemdanna 817 í framhaldinu.

Í annað sinn varðaði athugasemd mín Hafnartorg þar sem ég taldi massana og fótspor bygginganna of stór og vísaði aftur í menningarstefnuna og skilgreiningar deiliskipulags Kvosarinnar frá 1986 á staðarandanum þar sem áhersla var lögð á að nýbyggingar fléttuðust eðlilega inn í borgarvefinn. Þá vakti ég athygli á að í deiliskipulaginu var ekki gert ráð fyrir Borgarlínunni þarna sem þó var komin inn í aðalskipulagið.

Seinna kom í ljós að það var eins og stjósnsýslan hefði enga hugmynd um að hafnargarðarnir tveir frá 1913 og 1928 væru þarna undir. En þá mátti auðvitað flétta inn í skipulagið.

Ekki var mér þakkað innleggið og ekki var tekið neitt tillit til athugasemdanna.

Í þriðja sinn sem ég gerði athugasemd við auglýst deiliskipulag var hún af arkitektóniskum og sögulegum toga. Það varðaði nýbyggingu austan við Gamla Garð að Hringbraut 29. Við þetta deiliskipulag gerðu einnig einir 7 fyrrverandi formenn Arkitektafélagsins, fyrrverandi ráðherra og þingmaður ásamt mörgum fleirum athugasemd.

Þó athugasemdarfresturinn hafi runnið út 17. ágúst á síðasta ári eða fyrir meira en ári síðan hefur ekkert heyrst frá þeim sem tóku á móti athugasemdunum þó eftir hafi verið leitað. Þetta er aldeilis ótrúleg stjórnsýsla. Þessi seinagangur og hroki gerir það að verkum að fólk, að minnstakosti ég, hættir að nota það tækifæri sem í kynningarferlinu ætti að felast.

+++

Maður finnur að kerfið lítur á samfélagslega ábyrga borgara, sem leggja mikið á sig til þess að færa málin til betri vergar, sem óvini sína. Kerfið þakkar ekki fyrir sig heldur svarar athugasemdunum nánast út í hött og/eða þaggar málin eins og dæmið um Hringbraut sýnir.

Afleiðingin verður sú að fólk hættir að taka þátt og leggja eitthvað til málanna. Gefst upp fyrir óvandaðri stjórnsýslunni.  Nennir þessu ekki. Kannski er það, ómeðvitað, einmitt tilgangurinn.

Samkvæmt fréttum er „ull“ orðið tjáningarform í stjórnsýslu borgarinnar. Það að svara ekki athugasemd, sem óskað hefur verið eftir,  í heilt ár er auðvitað óþolandi og varla hægt að túlka öðruvísi en sem „ull“ þó það sé með öðrum hætti en notað er í borgarráði. Með því að svara ekki er ullað  framan í almenna samfélagslega þenkjandi borgara sem leggja mikið á sig til þess að gera góða borg betri.

Ekki ætla ég að gera meira úr þessu heldur bara „ulla“ á móti þó ég geri mér grein fyrir að það gerir ekkert gagn. Þessi bloggfærsla er því mitt „ull“ í málinu.

+++

Myndin efst í færslunni er mynd af frægasta ulli veraldar og var kennnimerki ofurhljómsveitarinnar The Rolling Stones um áratugaskeið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.6.2018 - 17:27 - 1 ummæli

„Fyrst borgin, svo húsið“ segir Jórunn Ragnarsdóttir í viðtali við HA.

 

Það er viðtal við Jórunni Ragnarsdóttur arkitekt í nýjasta tölublaði HA  sem kom út á dögunum. Tímaritið HA fjallar um íslenska hönnun og arkitektúr.

Þetta er mjög skemmtilegt og fræðandi viðtal þar sem Jórunn fjallar um það hvernig teiknistofa hennar nálgast viðfangsefnin hverju sinni. Hún er meðvituð um staðarandann og að það þurfi að flétta nýbyggingar inn í borgarvefinn eins og mikil áhersla hefur verið lögð á þessum vef frá fyrstu tíð. Bæði í fjölda innsendra greina og í skrifum síðuhaldara.

Jórunn vitar í áhrifavalda sína sem eru flestir þeir sömu og höfðu áhrif á arktekta okkar kynslóðar. Hún segir að áhrifavaldarnir hafi kennt sér að arkitektúr þarfnast ekki nýrra uppfinninga heldur skilnings og nýrra uppgötvanna. Hún segir að henni líki póltískt þenkjandi arkitekta enda tengir byggingarlist fagurfræðileg gildi,umhverfisvernd, vistfræði, hagfræði og stjórnmál.

Erst die stadt, dann das Haus.

Hugmyndafræði stofunnar hennar sem hún rekur með eiginmanni sínum er: „Erst die Stadt, dann das Haus“ eða „Fyrst borgin, síðan húsið“ og segir að til þess að skilja og meta byggingarlist er mikilvægt að gera sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð arkitekta sem móta umhverfi og sameign allra borgarbúa og hafa marktæk áhrif á velferð og vellíðan samfélagsins í heild. Öll höfum við jafnan rétt á vönduðum opinberum rýmum, mótuðum af byggingum sem falla vel að umhverfi sínu, menningarsögu og hefðum. Hún segir að það sé ekki byggingin sjálf sem skiptir höfuðmáli. Uppbygging borgarinnar í gegnum ár og aldir er grundvöllur allra breytinga því hún sé eins og sögubók sem sem upplýsir okkur um líf, menningu og störf genginna kynslóða. Þess vegna er mikilvægt að leita eftir tengingum og táknum til að skrifa sögu borgarinnar áfram og styrkja heildarmyndina.

Útveggir bygginga eru innveggir borga.

Saga byggingarlistarinnar kennir okkur að það er ekki nauðsynlegt að fara ótroðnar slóðir til að skapa eitthvað sem uppfyllir þarfir og drauma nútímasamfélags, segir Jórunn í viðtalinu. Að það hvort eitthvað sé gamalt eða nýtt skiptir ekki máli þegar hugvit og þekking er lögð til grundvallar.

Þegar vel tekst til segir Jórunn í viðtalinu við HA, er eins og byggingarnar hafi alltaf verið á sínum stað. Heildin skiptir mestu máli. Borgin er miklu meira en samansafn bygginga. Það er mikilvægt að styrkja vef borgarinnar og á vissan hátt má segja að útveggir bygginganna séu innveggir hverrar borgar.

+++

Ég mæli með þessu viðtali í HA tímaritinu sem kom út á dögunum og fæst í öllum betri bókabúðum.

+++

Hjálagt eru nokkrar myndir af einu verki hjónanna Arno Lederer (1947-) og Jórunnar Ragnarsdóttir (1957-) Um er að ræða byggingar biskupsins í Rottenburg og skjalasafn þar. Ef horft er á myndina efst í færslunni sést að þetta er afskaplega flókið umhverfi sem er jafnvel að vissu marki sundurtætt. Nýbyging Lederer Ragnasrdottir Oei bindur þetta saman í fullkomnu samræmi við hugmyndafræði stofunnar sem Jórun nefnir í viðtalinu. Þarna er borin mikil virðing fyrir staðarandanum og nýbyggingarnar fléttaðar þannig inn í borgarvefinn að skrifaður er nýr kafli í söguna sem styrkir þá heildarmynd sem fyrir er.

+++

Þessi hugmyndafræði er af sama toga og Gunnlaugur Stefán Baldursson sem einnig er starfandi arkitekt í Þýskalandi hefur skrifað um hér á þessum vef. Manni finnst eins og íslenskir arkitektar og stjórnmálamenn í skipulags- og bygginganefndum sveitarflaga ættu að kynna sér og jafnvel innleiða þessa nálgun hér á landi. Við eigum svo takmarkaða sögu að við verðum að stíga afskaplega varlega til jarðar þegar byggt er í eldri hverfum Reykjavíkur og annarra þéttbýlisstaða. Við höfum farið allt og geyst í þessum efnum undanfarið að mínu mati.

Það má segja að hér hafi umhverfið ráðið útliti húsanna öðru fremur. Arkitektarnir nálgast verkið af auðmýkt og mikilli virðingu fyrir verkum genginna kynslóða.

Athygli vekur þegar horft er á yfirlitsmyndina efst í færslunni að allir gluggar eru í háformati. Þarna er engin gluggabönd að finna eða glugga í lágformati. Þetta virðist smáatriði en er það ekki þegar verið er að hugsa um heildarmyndina. Sama má segja um þakhallann sem arkitektarnir leysa með snilldarlegum hætti í nýbyggingunni sem er miklu dýpra hús en húsin í grenndinni.


 

 

 

 

 

Hér að neðan kemur svo þriggja ára viðtal við arkitektana og hjónin Jórunni Ragnarsdóttur og Arno Lederer sem viðtalið í HA virðist að mestu byggt á. Óhætt er að mæla með þessu eintaki af HA og viðtalinu sem hér er vísað á, en þar er talað um modernismann og fl. með skynsömum og upplýsandi hætti.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.5.2018 - 13:58 - 7 ummæli

Le Corbusier – snillingur og fræðimaður

Le Corbusier (1887-1965) var ein af aðalhetjum okkar unga fólksins þegar ég stundaði nám í byggingalist við Det Kongelige Danske Akademi for de Skönne Kunster í Kaupmannahöfn á árunum kringum 1970. Aðrar alþjólegu hetjurnar og fyrirmyndirnar voru Grobíus, Mies van der Rohe, og Alvar Aalto ásamt fl. Mér skilst að stjarna L-C hafi heldur dalað í samfélagi arkitekta síðan þá. Enda komu fram nýjar hugmyndir um hvernig ætti að byggja og skipulaggja á þessum árum. Þessar breytingar má rekja til stúdentabyltingarinnar og aukna meðvitund stúdenta um félagslega þætti, mengun, neyslu og útþennslu byggðar. Einkabíllinn fékk mikla andstöðu og almenningssamgöngur fengu mikinn meðbyr. Hugmyndafræði Jane Jacobs var 15 ár á leiðinni frá NY til Kaupmannahafnar meðan stúdentabyltingin var aðeins eitt ár á leiðinni frá París til Danmerkur.

Menn dásama enn hönnun og hugmyndir L-C hvað varðar hús og húsagerð, funktionalismann og rýmismyndanir sem eru stórkostlegar, fagurfræðilegar hugmyndir og myndlist hans. Hinsvegar eru flestir því sammála að hugmyndir hans um borgarskipulag voru ekki góðar. Reyndar segja sumir að þessar hugmyndir hafi verið e.k. „case studies“ frá hans hendi og að hann hafi aldrei trúað þessu sjálfur.

Ég var og er enn mikill aðdáandi L-C  og birti nokkrar myndir sem ég hef fundið hér og þar af meistaranum við ýmsar aðstæður.

Efst er mynd af honum á forsíðu Time Magasin sem, sýnir hvað hann var stór alþjóðlega árið 1961 þegar blaðið kom út. En Time var þá langstærsta og virtasta alþjóðlega tímaritið í heiminum.

Weissenhofsiedlung sýningin í Stúttgart í Þýskalandi árið 1927 markaði tímamót í byggingalistinni á síðustu öld. Hér er framlag Le Corbusiere. Þetta var stefnumótandi sýning sem setti bæði Mies og L-C á kortið sem framúrskarandi og stefnumarkandi arkitekta. Tveim árum síðar opnaði Barcelonaskálinn eftir Mies  á Spáni. Það hús breytti alþjóðlegum arkitektúr meira en nokkur önnur bygging í víðri veröld eins og menn vita. (þetta gæti verið eigikona L-C á myndinni við ofurrennireiðina)

Hér eru listamennirnir Pablo Picasso og Le Corbusiere að velta fyrir sér Unite d´habitation i Marselle 1949.

Walter Gropius forsprakki Bauhaus og  L-C á spjalli árið 1955.

Snillingarnir L-C og Albert Einstein hittust í Princeton 1946. Sagt er að L-C hafi verið spurður hvað honum finnist um skýjakljúfana í New York þegar hann kom þangað fyrst. L-C svaraði því til að honum finnist þeir ættu að vera færri og miklu hærri!

Tveir þeirra skörpustu í byggingarlistinni á síðustu öld, L-C og Mies van der Rohe.

Le Courbusiere hellir uppá. Annars drakk hann mest rauðvín og setti að sögn alltaf tappann í milli glasa!

Hér mynd af Le Courbusiere ásamt starfsfólki á vinnustofu þeirra á Rue de Sevre í Paris 1953.

Hér stendur L-C fyrir verk sitt sem málað er á vegginn á vinnustofu hans og heitir Tendress.  Vinnustofan var á 11 Rue de Sevre rétt sunnan við Boulevard St Germain í Latínuhverfinu í París. Gaman væri að vita hvort þetta mikla málverk er enn þarna á veggnum.

Að ofan er eitt málverk eftir Le Corbusier sem selt var árið 2016 á uppboði hjá Christies fyrir 3,5 milljónir dollara. Það heitir „Famme grise, homme rouge et os devant porte“ (Grá kona, rauður karlmaður framan við dyr) og er 146 cm x 114 cm á stærð olía á striga árið 1931. Þetta sýnir að meistarinn er afskaplega virtur og mikilsmetinn myndlistarmaður.

  Dæmigerð mynd eftir L-C. Hann var líka flinkur skúlptúristi.

Að ofan eru skissur frá árinu 1928 og að neðan situr Charlotte Perriant í þessum heimsþekkta stól sem enn selst i þúsundatali. Stólinn teiknaði Charlotte í samvinnu við L-C. Hún átti líka þátt í öðrum húsgögnum sem kennd eru við L-C. Ef teikningin er skoðuð og að því tilskyldu að maður þekki strik L-C þá sér maður að þessar skissur eru ekki af hans hendi. Líklegra er að Charlotte hafi þarna haldið á skriffærinu.

 

L-C með eiginkonu sinni Yvonne Gallis sem var tískufyrirsæta frá Monaco. Hann kallaði hana „Vovon“ og hún hann „Doudou“

       Stöðugt skapandi.

Í bók sinni „Vers une architecture“ frá 1923 sagði hann að hús væri vél til þess að búa í. Þetta hefur verið affært og mistúlkað allar götur síðan. Sannleikur inn er sá að hann ber húsahönnun saman við hönnun mismunandi véla. Bíla, flugvéla, skipa og fl og segir að það sé ekkert gagmn af hönnun flugvélar ef hún getur svo ekki flogið. Að sama skapi sé ekkert gagn af húsahönnun ef ekki er hægt að búa í húsunum. Einn prófessoranna á Akademíunni í Kaupmannahöfn, Ejnar Borg,  vann hjá L-C um árabil og þekkti meistarann.  Borg var sífellt að leiðrétta alþekktan misskilning á þessum orðum L-C. Það sem hann átti við var að hús ættu að funkera, hann notaði myndlíkinguna til þess að skýra hugmyndafræðina út.

 

   Myndlist á morgnana og byggingalist eftir hádegið!    

L-C „lækar“ eitthvað!

  

Sagt er að L-C hafi haft þann draum að vera myndlistamaður fyrir hádegið og arkitekt eftir hádegið.

 

This open hand – a sign of peace and reconciliation – which has preoccupied me subconsciously for several years, must exist as a testimony of harmony. Works of war must be eliminated. We must invent; we must demand works of peace. (Le Corbusier, 1951)

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.5.2018 - 11:06 - 4 ummæli

Deiliskipulag Skuggahverfisins – Sjónásar og fl.

“ Hafa ekki allir sem ganga um Laugaveginn fundið hve skemmtilegt er þegar þvergöturnar opna skyndilega sýn niður að sjó og í sneið af Esjunni?“ skrifaði Ormar Þór Guðmundsson arkitekt í grein í Lesbók Morgunblaðsins vorið 1984. Greinina skrifaði Ormar í tilefni af því að fyrstu tillögur að nýju skipulagi fyrir Skuggahverfið voru að gera vart við sig.

Þetta var rétt hjá Ormari og skipulagshöfundar sem komu að verkinu voru meðvitaðir um þetta mikilvæga atriði og fleiri önnur. Af þesssari ástæðu var gert ráð fyrir að húsin í nýja skipulaginu væru lægst við þvergöturnar og hæst á milli þeirra til þess að standa vörð um þessar mikilvægu sjónlínur.

Svo virðist sem í hita og þunga líðandi stundar hafi menn gleymt þessum sjónarmiðum og markmiðum. Fótspor húsanna samkvæmt samþykktu deiliskipulagi sviðsins voru stækkuð og húsin hækkuð og ekki nóg með það heldur voru þau hækkuð verulega og nánast byggð út í götuna eins og blasir við á myndinni efst í færslunni.

Mörgum finnst  óskiljanlegt hvernig megin markmið skipulagshugmynda geta gleymst í ferlinu.

Það sjá margir eftir þeim húsum sem voru látin víkja fyrir þessu skipulagi og sérstaklega meðferð fyrsta deiliskipulagsins á síðari stigum.  Ágæt hús á borð við Kveldúlfsskálana, hús Sláturfélags Suðurlands, Völundar og mörg voru látin víkja. Nú um 30 árum seinna tala menn um þessu hús með söknuði og segja að það hafi verið mistök að farga þeim. Þrátt fyrir þetta er enn verið að rífa ágæt hús á þessu svæði sem vel var hægt að láta standa.

Í stað þeirra sem viku hafa verið byggð og áformað er að byggja gríðarðega stórar byggingar og háhýsi sem eru ekki í samræmi við fígert yfirbragð Reykjavíkur innan Hringbrautar. Arkitektinn og fræðimaðurinn Jan Gehl sagði einhverntíma að háhýsi þjónaði lötum arkitektum og gráðugum fjárfestu. Ekki veit ég kvort það á við hér.

++++

Að neðan koma skipulagsuppdrættti með stuttum skýringum. Og neðst gömul ljósmynd af skugghverfinu um það bil sem skipulagsvinnan var að hefjast.

Deiliskipulag frá 1986 þar sem sjá má að „fótspor“ bygginganna var í hlutfalli við það sem fyrir er og hvernig þess var gætt að trufla ekki sjónlínur um þvergöturnar niður að sjó og að Esjunni. Í skipulaginu voru húsin lægst við þvergöturnar, Klapparstíg, Vatnsstíg, Frakkastíg og Vitastíg og dregin til baka. Þetta var gert til þess að minnka áhrifin og varðveita sjónlínurnar. Frá þessu var, af einhverjum ástæðum, horfið við endurskoðun deiliskipulagsins á síðari stigum. Ekki veit ég hver ber ábyrgð á því. En það einkennir oft skipuagsákvarðanir að ábyrgðin er oftast svo dreifð að engin ber raunverulega ábyrgð þegar upp er staðið.

Deiliskipulag frá árinu 2006 þar sem sjá má að húsin hafa öll hækkað og bólgnað út og eru ekki í samræmi við fyrsta samþykkta deiliskipulagið frá 1986 sem vissulega var ekki óumdeilt. Húsin hafa veri’ð hækku, fótspor þeirra stækkuð og færð út í sjónlínurnar. Þarna hafa hagsmunir lóðarhafa ráðið ferðinni umfram hagsmuni almennra vegfarenda, borgaranna,  að því er virðist.

Dæmi um skipulagsvinnuna þar sem ferillinn virðist hrekjast af sporinu. Fótspor bygginganna og húsahæðir eru ekki i samræmi við önnur hús á reitnummilli Hverfisgötu, Vatnsstígs, Lindargötu og Frakkastígs. Í skipulaginu sem er frá 2004 eru ein 14 gömul lítil hús sem eru skástrikuð og sagt að lagt sé til að verði „endurnýjuð og/eða rifin“. Þau eru nú öll horfin.

Mynd af Skuggahverfinu frá því að verið var að huga að endurskipulagi svæðisins. Þarna sést að mikil tækifæri voru til uppbygginar á auðum lóðum.  Á svæði þar sem áður var notað fyrir saltfiskþurrkun austan Kveldúlfsskálanna. Það eru líka tækifæri á svæði austan við Fiskifélagshúsið. Gæfulegt hefði verið ef restin hefði verið „infill“ þar sem nýbyggingar fléttuðust inn í borgarvefinn. Guðrún Jónsdóttir arkitekt gerði slíka tillögu fyrir borgina á þessum árum.  Í staðinn fengum við nýjan borgarhluta sem hefur verið umdeildur allar götur síðan. Það einkennilega er að þó menn sakni þessarra gömlu húsasem þarna voru  þá eru enn haldið áfram að rífa. Bestu húsin eru vissulega horfin sem gerir það að verkum að þau sem eftir eru verða verðmætari sögulega séð þó ekki séu þau eins merkileg arkitektosnist séð. En nú er verið að rífa þau. Húsin lengst til vinstri á horni Vitastígs og Skúlagötu er verið að rífa einminnt þessa dagana.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.5.2018 - 14:22 - 11 ummæli

Reykjavík á villigötum? – Náttúruvernd og borgarvernd.

 

Það hefur orðið veruleg vakning með þjóðinni hvað varðar verndun náttúrunnar. Umhverfissinnar börðust fyrir náttúruvernd áratugum saman og fengu litlar undirtektir. Það var ekki fyrr en ferðamaðurinn vakti athygli heimamanna á að þarna var mikla auðlind að finna. Þá fyrst snerist almenningsálitið.

„Peningarnir tala“

Fyrst þegar ferðamannastraumurinn jókst og varð stærsta atvinnugrein þjóðarinnar fóru menn að átta sig á því að svartar auðnirnar höfðu verðmiða. Í framhaldinu hafa menn haldið mjög vöku sinnu þegar umgengni við náttúruna er annarsvegar.

+++

Þessi hugsunar háttur hefur enn ekki náð til gamalla húsa og gamalla byggða. Sérkenni borgarinnar eru á sama stað í umræðunni og náttúran var þar til ferðamennirnir fóru að sækjast eftir henni og verja nú stórum upphæðum til að berja augum og upplifa. Sérkenni gömlu húsanna og gömlu borgarhlutanna eru ekki síður aðdráttarafl ferðamanna en svart víðerni hálendisins, fossar og fjöll. Það vita allir sem fylgjast með ferðamönnum og þeim slóðum sem þeir velja að feta.

Undanfarin mörg ár hefur verið rifið mikið af gömlum húsum í Reykjavík sem hafa verið einkennandi fyrir staðinn og skapað sérstöðu meðal borga. Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 stendur beinlínis að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til feramtiðar og áhersla í framtíðinni skuli lögð á „hið staðbundna“. Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í skipulaginu er lögð áhersla á að virða einkenni borgarinnar innan Hringbrautar.

Þrátt fyrir þessi fyrirheit hefur aldrei verið rifið jafn mikið innan í gamla borgarhlutanum innan Hringbrautar en s.l. 4 ár. Það er sífellt verið að breyta staðarandanum í stað þess að flétta inn í þann borgarvef sem fyrir er. Þessi hegðun hefur farið vaxandi og nú er svo komið að heilu hverfin eru að rísa sem eru fullkomlega sneitt þeim einkennum sem ferðamenn eru að sækjast eftir þegar þeir sækja okkur heim. Ég hef enga trú á að ferðamennirnir leggi lykkju á leið sína til þess að vafra um t.a.m. Hafnartorgið og skoða í búðarglugga merkjarisanna utan úr heimi. Þeir fara í þær verslanir heima hjá sér ef þeim sýnist svo.

Í mínum huga eru ferðamennirnir í raun aukaatriði. Við sem hér búum viljum finna fyrir verkum forfeðra okkar, njóta þeirra og skila þeim í betra ásigkomulagi til niðja okkar.

Það sem vekur athygli er að jafnvel hinir hörðustu varðmenn íslenskrar náttúru sjá lítil verðmæti í götumyndum og einstökum húsum frá fyrri tíð sem mikið kapp er lagt á að varðveita í AR2010-2030 eins og fyrr er getið. Þeir virðast ekki hafa áttað sig á að auðlindin er ekki bara fossar fjöll og svartar víðáttur hálendisins hér á landi heldur einnig og ekki síður séreinkenni byggðs umhverfis.

Er Reykjavík á villigötum í þessum málum?

++++

Að ofan er tveggja ára skopmynd sem ég fékk leyfi hjá höfundinum Halldóri Baldurssyni, fyrir nokkrum árum til að birta á bloggi mínu. Myndin segir meira en þúsund orð.

Að ofan er ljósmynd Sigurgeirs Siogurjónssonar af húsum milli Lindargötu og Hverfisgötu sem er eini heillegi reiturinn í gamla Skuggahverfinu sem eftir er. Þessum húsum virðist ógnað af ágengi húsanna þarna norðanvið

Hér  að ofan er mynd sem sýnir húsaröð sem áður einkenndi Lindargötuna. Myndin er tekin til austurs við Frakkastíg. Hún leit í aðalatriðum svona út frá Vitastíg og allt vestur að Ingólfsstræti og Arnarhól. Nú er ekki mikið meira en þetta eftir og bara annarsvegar götunnar.

Ef horft er til vesturs frá svipuðum stað og myndin af gömlu húsunum við Lindargötu sem áður var getið blasir þetta við.  Ég á ekki von á að nokkur maður leggi leið sína um þessa götu ótilneyddur. Og alls ekki ferðamennirnir.

Hafnartorg virðist vera einhver misskilningur á því sem getið er um í AR2010-2030 og skilgreint sem „hið staðbundna“ í Reykjavík sem sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Hvaða túristar ætli leggi lykkju á leið sína til Reykjavíkur til þess að ganga inn í þessi hús og versla hjá Cucci og H&M eða Louis Vuitton? Þeir gera það auðvitað bara heima hjá sér á ég von á.

+++

Að neðan koma svo nokkrar myndir af niðurrifi í Reykjavík á síðustu 2-3 ár.

 

Við Norðurstíg og Tryggvagötu. Þarna viku allmörg hús.

Við Hverfisgötu

Við Vitastíg og Skúlagötu er nýbúið að rífa stór og stæðileg iðnaðarhús.

Tvo samliggjandi hús við Laugaveg voru rifin á dögunum.

Hús Gunnars í Von við Laugarveg hvarf fyrir nokkrum dögum. Tæplegar þriðjungur Lækjargötu eru nú rústir einar. Og nú er verið að rífa gamla Landsímahúsið við Kirkjustræti. Þar á að byggja hótel sem smellpassar í sviðsmynd Halldórs efst í færslunni. (Þessa mynd fann ég á netinu)

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.5.2018 - 14:12 - 8 ummæli

Kynning á deiliskipulagi – Fálæti og seinagangur.

 

Ég hef þrisvar sinnum gert athugasemd við auglýst deiliskipulag í kynningarferli hjá Reykjavíkurborg. Athugasemdirnar vörðuðu ekki einkahagsmuni mína heldur almannahagsmuni, staðaranda og ásýnd þeirrar Reykjavíkur sem við viljum mörg standa vörð um.

Í fyrsta sinn var það vegna deiliskipulags Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut þar sem ég taldi að deiliskipulagið stæðist ekki stefnu hins opinbera í mannvirkjagerð frá árinu 2009. Þá gerði ég athugasemdir við vegna staðsetningarinnar og umferðamál. Svörin komu seint og voru að mínu mati ófullnægjandi. Það má geta þess að það komu að mér er sagt 817 athugasemdir við deiliskipulagið og ég hef ekki heyrt að neinu hafi verið þokað í framhaldinu.

Í annað sinn sem ég gerði athugasemd við deiliskipulag var þegar deiliskipulag við Austurhöfn var auglýst. Það sem nú er kallað Hafnartorg og er milli Tryggvagötu og Hörpu. Þar taldi ég vanta skilgreiningu í skilmála um húsagerð og staðaranda Kvosarinnar. Ég vísaði í ágæta greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttur arkitekta um staðarandann í deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 sem enn er í gildi. Ég benti einnig á að hvergi í deiliskipulagi Austurhafnar væri gert ráð fyrir samgönguás (nú Borgarlína) sem þarna á að fara um samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 en samgönguás aðalskipulagsins var sérstakt áhugamál mitt. Svar skipulagsvaldisns kom, en ekki var tekið á þessum atriðum sem varðaði Borgarlínuna og ásýnd húsanna. Nú eru þessi hús risin eða eru að rísa og sitt sýnist hverjum.

Í þriðja sinn gerði ég athugasemd við deiliskipulag á lóðinni Hringbraur 29 þar sem átti að byggja heilmikinn stúdentagarð sem skyggði á eina fallegust götumynd borgarinnar þar sem Gamli Garður og Þjóðminjasafnið kallast á með sérlega sjaldgæfum og fallegum þokka. Nú í dag, 16. maí 2018, réttum níu mánuðum eftir að umsagnarfresturinn rann út hefur mér enn ekki borist svar við athugasemdinni eða þakklæti fyrir áhugann og umhyggjuma vegna þróun borgarinnar.

Ég var ekki einn um að senda athugasemd vegna þessa deiliskipulags. Það gerðu líka einir sjö fyrrverandi formenn Arkitektafélags Íslands, einn fyrrverandi þingmaður og ráðherra, einn prófessor við Háskóla Íslands og einn starfsmaður HÍ til viðbótar auk mín. Minjastofnun hafði líka gert athugasemd við þetta.

Ekki veit ég hvort þessum aðilum hefur borist svar við athugasemdunum en ég hef ekkert heyrt. Það er óhætt að fullyrða að skipulagsyfirvöld sýna þessu áhugasama fólki sem er að huga að almannahagsmunum og leggja í það mikla vinnu, mikið fálæti.

Ég fyrir minn hlut lagði mikla vinnu í mínar athugasemdir í öllum þessum tilvikum. Þurfti að lesa greinagerðir og draga út úr þeim atriði sem mér fanst skipta máli.

Reynsla mín af öllu þessu segir mér að það fylgir engin hugur að baki þeirra lögformlegu kynninga sem skipulagsyfirvaldinu er skylt að sinna. Lærdómurinn er sá að það er tilgangslaust að leggja þessa vinnu á sig. Mér finnst eiginlega að skipulagsvaldið sé að gera grín að samfélagslega ábyrgum borgurum með þessu verklagi.

+++

Efst er mynd af nýlegri auglýsingu um deiliskipulag sem birtist í blöðum fyrir helgi. Í mínum huga er þetta verklag sýndarsamráð eins og dæmin sanna, sem að ofan er getið. Ég hefði viljað gera fleiri athugasemdir eins og vegna bygginga framan við útvarpshúsið við Bústaðaveg en hafði ekki orku í það einkum vegna þess að manni er varla svarað og alls ekki þakkað fyrir að veita skipulagsmálum athygli og umhyggju.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.5.2018 - 18:18 - 10 ummæli

4000 íbúðir í Örfirisey – Bíllaus byggð!

Í Fréttablaðinu í morgun var kynnt hugmynd um uppbyggingu í Örfirisey þar sem lagt er til að komið verði fyrir um 4000 íbúðum í skipulagi þar sem verður lítil eða engin bifreiðaumferð. Þetta hljómar róttækt, sem það kannski er, en þetta er nokkuð þekkt víða i nágrannalöndunum og hefur gefist vel. Þetta er vistvæn byggð sem er í fullkomnum samhljómi við þau góðu meginmarkmið sem fram koma í ágætu núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.

Uppúr 1970 voru byggð mörg svona hverfi í Danmörku undir heitinu „lavt tæt boligbyggeri“ sem gekk út á að setja blokkaríbúðina niður á jörðina og í stað þess að ganga heim til sín um bifreiðastæði stigaganga og svalaganga, gengu íbúarnir nokkurn spotta á jörðu niðri að útidyrum sínum. Ásættanleg vegalengd var tailin allt að 250 metrar.

Undanfarin allmörg ár hafa víða í nágrannalöndum okkar verið byggð hverfi með svipuðu fyrirkomulagi. Þ.e.a.s. að ekki er ekið að útidyrum fjölbýlishúsanna og bílum lagt þar þó bifreiðaaðkoma með sleppistæðum sé nálægt inngöngunum.

Tillagan sem kynnt var í Fréttablaðinu í morgun er í fullkomnu samræmi við megininntak aðalskipulagsins AR2010-2030 þó ekki sé gert ráð fyrir íbúðabyggð á Grandanum á skipulagsuppdrættinum. Með því að koma þessum 4000 íbúðum nálægt helsta atvinnusvæði borgarinnar, miðbænum, eru líkur á því að bifreiðaumferð muni verða minni en ef þessar íbúðir sem vissulega er mikil þörf fyrir risu austar í bænum. Eins og margsinnis hefur verið bent á vantar íbúðir í miðborgina til þess að vega upp á móti öllum þeim atvinnurtækifærum sem þar er að finna og að sama skapi vantar atvinnutækifæri austar í borgina til þess að mæta öllum þeim íbúðatækifærum sem þar eru.

Í stuttri greinargerð með hugmyndinnium bíllausa byggð i Örfirisey er talað um fjölbreytt og spennandi búsetuform sem ekki hafa verið mikið reynd hér á landi. Einskonar búsetusamfélag (e.co-living) sem er skemmtilegt og lifandi. Hverfi þar sem fólk þekkist vegna þess að götur íbúanna krossast á eðlilegan og þvingunarlausan hátt í grenndarsamfélaginu. Þarna gætu t.a.m. verið mjög litlar íbúðir í bland með stærri íbúðum með ýmsum sameiginlegum rýmum svo sem þvottahúsi og þ.h.

Undanfarin ár hafa svona íbúðasamfélög verið byggð víða erlendis.

Þetta er hugmynd sem virkilega er ástæða til þess að skoða alvarlega. Þetta er raunhæft og mun styrkja vesturborgina og gefa líklega um 10.000 manns tækifæri til þess að setjast að í nágrenni miðborgarinnar og lifa borgarlífi í fallegu og góðu umhverfi ef vel tekst til. Það sem gerir hugmyndina sérlega áhugaverða er að hún skerðir á engan hátt hafnarstarfssemina í vesturhöfninni sem er ein stærsta útvegshöfn landsins.

Samfara þessu væri æskilegt að koma fyrir botngöng frá Sæbraut fyrir hafnarkjaftinn út í Örfirisey og þaðan út á Nes. Með þeirri tengingu gæti Kvosin frá Tjörninni að Höfninni nánast orðið bíllaus og umferðaálagið á Hringbraut yrði mun minna. Jafnvel svo að Hringbraut vestan Hofsvallagötu gæti orðið vistgata með seitlandi umferð í stað þeirrar gjár sem nú sker vesturborgina í tvennt.

Þessi hugmynd gæti verið það stutt frá okkur í tíma að hún er vissulega verðugt umræðuefni núna í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna sem standa fyrir dyrum. Þetta er hugsanlega hægt að framkvæma nánast vandræðalaust á komandi kjörtímabili. Maður gæti spurt hvort betra sé að stefna að þessari byggð í Örfirisey innan 4-6 ára eða byggð við Miklubraut í stokk eftir 10-20 ár?

Ég hef heimsótt svona hverfi víða. Þessi hugmynd um uppbyggingu í Örfirisey minnir nokkuð á Sluseholmen í Kaupmannahöfn. Þar eru líklega nokkur þúsund íbúðir við höfnina og milli húsanna eru kanalar svipað og við þekkjum frá Amsterdam og seitlandi umferð gangandi, hjólandi og akandi á götum og stígum. Lítið eða ekkert er um bílastæði í húsagötunum. Útivistarsvæðin eru inni í húsagörðunum og meðfram höfninni sem virtust mjög líflegir þegar ég átti leið þar um.

+++

Efst er yfirlitsmynd sem sýnir hugmyndina og stax að neðan skýringaruppdráttur. Að neðan koma nokkrar myndi frá Sluseholmen sem skýra sig sjálfar og gefa hugmynd um hvernig þessi nýja byggð á Grandanum gætu mætt auganu. Það ber að taka það fram að tillagan er frekar stutt unnin enda hefur skipulagssvið borgarinnar ekki komið að henni og hún er ekki unnin á kostnað skattgreiðenda eins og tillagan um Miklubraut í stokk, sem kynnt var fyrir nokkrum vikum og virðist strax við fyrstu sýn ekki standast nokkur fagleg viðmið og gengur að hluta gegn meginmarkiðum AR2010-2030 sem átti að breyta Reykjavík úr bílaborg í borg fyrir fólk.

 

Víða eru götur fyrir seitlandi bifreiðaumferð með síkjunum og brýr fyrr gangandi og hjólandi.

Innigarðarnir eru víða líflegir og mikið notaðir í íbúðasamfélaginu.

Gott aðgengi er að sjónum þar sem síkin eru. Gaman væri að fá tengingu úr þessu hverfi „sjóleiðina“ inn á sjálft hafnarsvæð Reykjavíkurhafnar.

 

Að neðan er smáhluti hverfisins sem sýnir gatnakerfið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur