Föstudagur 10.05.2019 - 11:44 - Rita ummæli

EES samningurinn og starfsumhverfi arkitekta.

Það gera sér ekki margir grein fyrir hvað EES samningurinn, sem er 25 ára gamall um þessar mundir, breytti miklu fyrir arkitekta. Samningurinn breytti nánast öllu, það varð gjörbreyting á starfsumhverfi og tækifærum arkitekta. Samkeppni sem var nánast engin, jókst verulega eftir að samið var um EES og byggingalistin varð betri.

Á níunda áratugnum voru líklega 4-6  öflugar sjálfstæðar arkitektastofur á landinu, ef frá eru taldar ríkisteiknistofurnar þrjár, teiknistofa Húsnæðismálastofnunnar og Teiknistofu landbúnaðarins og teiknistofa Húsameistara Ríkisins. Ríkisteiknistofurnar niðurgreiddu arkitekltateikningar og skekktu allt umhverfi.

Sumar þessarra sjálfstæðu teiknistofa tengdust Sjálfstæðisflokknum og allskonar mismunandi tengslanetum á þeim vængnum og aðrar tengdust Framsóknarflokknum og einhverju sammengi stjórnmála- og embættismanna með hinum hópnum.

Þetta voru nánast svona helmingaskipti.

Svo voru nokkrar svona tveggja manna stofur með sitt tengslanet, sem hirtu mylsnuna af því sem af borðunum féll hjá hinum stóru. Frammistaðan í byggingalistinni skipti nánast engu máli þegar arkitektar voru valdir til verka. Það var tengslanetið sem skipti öllu sem var kallað „klíka“ í þá daga.

Íbúðahúsamarkaðurinn var nánast lokaður á þessum tíma vegna þess að þar voru mikil undirboð. Byggingafræðingar teiknuðu um 80% íbúðahúsa og teiknistofur ríkisins niðurgreiddu sína vinnu.

Það voru margir steinar í götu ungra manna sem ætluðu að hasla sér völl sem arkitektar á Íslandi á árunum kringum 1980. Klíkur og allskonar stjórnmálaleg- og fjölskyldutengsl voru allsráðandi eiginlega forsenda fyrir rekstrinum. Menn voru í allskonar klúbbum og reglum og klíkum. Þeir voru Frímúrarar, Oddfellowarar og Lionsarar og svo voru jafnvel íþróttafélög hluti af tengslanetinu. Spilaklúbbar og veiðifélagar o.s.frv. skipti líka máli. Klíkurnar þjöppuðu sér saman og héldu utan um sitt og létu aðrar klíkur að mestu í friði með sitt. Pössuðu sig samt á að hleypa engum jaðarhópum að.

Þannig blasti þetta við mér þegar ég kom heim frá námi og þannig var þetta bara.

Vilmundur Gylfason talaði um „varðhunda valdsins“ og hagsmunavörslu í íslensku samfélagi í minnistæðri þingæðu hans í nóvember 1982. Vissulega ekki af tilefnislausu. Enda allt hagsmunatengt og ekki pláss fyrir ástríðufult ungt fólk sem vildi leggja sitt af mörkum í þessu þjóðfélagi. Þetta var sérstaklega erfitt fyrir unga arkitekta sem vildu kveða sér hljóðs og koma að gagni við að byggja upp gott samfélag. Varðhundar valdsins voru allstaðar í veginum og lögðu beinlínis steina í götu unga fólksins. Það var um aðeins tvo kosti að vejla. „Join them or fight them“.

Það virtist útilokað að fá verkefni nema í gegnum einhverja klíku. Eina vonin til að afla sér verkefna fyrir þá sem ekki tengdust einhverri klíku eða „varðhundum valdsins“ eins og Vilmundur kallaði þá, voru samkeppnir. En samkeppnir voru afar fáar. Í mesta lagi ein á ári oftast  minna. Klíkunum fannst samkeppnir óþarfar. Og ef samkeppni átti að færa arkitektum verkefni varð að vinna fyrstu verðlaun.

Svo var líka möguleiki að komast að hjá einhverjum verktaka í alútboðssamkeppni sem komu fyrst rétt uppúr 1980.  Alútboðin voru þannig að ungu arkitektarnir fundu verktaka sem þeir teiknuðu svo fyrir og svo var boðið í bygginguna með allri hönnun og skilum á fullbúinni framkvæmd. Alútboð voru harðlega gagnrýnd af stóru stofunum af augljósum ástæðum.

Eftir að hinn svokallaði EES samningur tók gildi 1. janúar 1994 breyttist allt starfsumhverfi arkitekta. Skylda var að bjóða út öll verk á vegum ríkis og sveitarfélaga þannig að varðhundar valdsins misstu smátt og smátt tökin á opinberum verkum. Útboðin voru ýmist opnar samkeppnir eða lokaðar að undangengnu forvali eða aðrar gagnsæjar leiðir til þess að finna arkitekt. Nokkrum árum eftir gildistöku samningsins lögðu menn ríkisteiknistofurnar niður.

Þetta voru tímamót sem margir gera sér ekki grein fyrir og eru sjálfsagt margir búnir að gleyma.

Í kjölfar EES samningsins spruttu upp öflugar teiknistofur sem ekki áttu nokkur tækifæri til þess að festa rætur áður. Arkitektúrinn blómstraði og varð betri og all vinnulag breyttist. Samfara þessu og um þetta leiti urðu tölvur algengar og breyttu starfslagi stéttarinnar verulega. Ekki er víst hvort tilkoma talvanna hafi verið til bóta fyrir byggingalistina.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn