Sunnudagur 21.07.2019 - 21:06 - Rita ummæli

Hvalá og leiðin þangað.

Ég kom í Norðurfjörð á Stöndum fyrir allmörgum árum í vinahópi, sem um áratugaskeið hefur farið árlega á fjöll saman. Vegna umræðna undanfarin misseri var ferðinni í ár heitið til Ingólfsfjarðar og Ófeigsfjarðar. Aðallega til þess að skoða Hvalársvæðið og náttúruna sem þar er að finna.

Leiðin frá Norðurfirði yfir Meladal að Eyri við Ingólfsfjörð fyrir Seljanes að ósum Hvalár og Rjúkandi er einhver sú skemmtilegasta og fallegasta leið sem ég hef ekið á landinu. Þetta er nánast slóði eða einbreið tröð sem liggur að mestu alveg í sjávarmálinu framhjá eyðibýlum og klettasyllum þar sem ægifagurt landslag blasir hvarvetna við. Tignarleg fjöll, sauðfé á beit og reki í fjöruborðinu og auðvitað Drangaskörð.

Það sem mér fannst merkilegast var að þegar komið var á leiðarenda við ósa Hvalár var að þá fékk maður sömu tilfinninngu og þegar gengið er upp á hátt fjall eða tind. Þetta er tilfinning sem kölluð er á ensku „sense of arrival“ eða fullvissu um að nú sé maður kominn á áfangastað. Þarna við ósinn blasti við ein vatnsmesta bergvatnsá sem ég hef séð, silfurtær og fellur um flúðir og fossa til sjávar. Þegar gengið var upp með ánni varð tærleikinn, fegurðinn og hreinleikinn æ tilkomumeiri.

Nú les maður á netinu að þarna munu framkvæmdir við virkjum ánna tveggja, Rjúkandi og Hvalá hefjast á morgun, mánudaginn 22. júlí 2019. Hvalárósar og ósnortið víðerni þar fyrir ofan mun breytast í vinnusvæði með stórvirkum vinnuvélum sem munu breyta öllu þessu einstaka náttúruundri í eitthvað sem ekki verður hægt að endurheimta. Þarna munu koma flennistór miðlunarlón og stórt landsvæði verða ekki náttúruleg lengur. Fossar og flúðir munu hverfa.

Þetta var ógleymanleg ferð, sem fleiri ættu að fá notið.

Efst er mynd af Drangaskörðum eins og þau blöstu við handan Ingólfs- og Ófeigsfjarðar.

Hér að neðan eru myndir sem ég tók á síma minn á ferðalaginu. Neðstu tvær myndirnar fékk ég af veraldarvefnum.

Bergvatnsáin beljar fram, silfurtær.

Á heiðinni eru víða litlar tjarnir sem minntu á málverk Hrings Jóhannessonar.

Maðurinn er lítill frammi fyrir sköpunarverki náttúrunnar. En stórvirkar vinnuvélar eiga auðvelt með að farga öllu þessu ef heimildir verða gefnar til þess.

Rekinn er allstaðar.

Þetta er Húsárfoss í Ófeigsfirði sem ekki mun verða fargað.

Rolla með lömb sín tvö fylgast stóískar með umferðinni. Þær grunar ekki að þessum slóða á að breyta í fjölfarinn virkjanaveg á næstu vikum ef fram heldur sem horfir.

Séð til norðurs að Eyri við Ingólfsfjörð.

 

 

Slóðin, einbreið, liggur oftast alveg í flæðamálinu. Í fjarska má sjá Drangaskörð.

+++++++

Að neðan koma svo tvær fallegar myndir frá ósum Hvalár sem fengnar eru af veraldarvefnum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn