Föstudagur 21.01.2011 - 08:29 - 9 ummæli

“The New York Five”

“The New York Five” er nafnið á hóp arkitekta sem sýndu verk sín á MOMA í New York árið 1967.  Allir áttu arkitektarnir það sameiginlegt að aðhyllast modernismann og verk Le Courbusiere á árunum milli 1920 og 1940.

Skrifuð var bók um sýninguna árið 1972 og svo kom umfjöllun  eftir fimm arkitekta í Architectural Forum,  sem kölluð var “Five on Five.  Fimm arkitektar skrifa um fimm arkitekta.  Þetta vakti allt mikla athygli á þessum fimm einstaklingum sem urðu heimsfrægir.

New York Five samanstóð af arkitektunum Michael Graves,  Charles Gwathmey,  John Hejduc.  Peter Eisenman og Richard Meier.

Hejduk og Gwathmey eru báðir látnir en þeir þrír sem eftir lifa hafa skilað af sér mikilvægum verkum sem haft hafa áhrif á byggingalist um allan heim.

Mér hefur alltaf fundist Michael Graves hálf ruglaður, sérstaklega á seinni árum.  Eisenman stundaði svokallaðann Deconstructivisma meðan Meier aðhylltist „Courbusian“ arkitektúr.

Meier hefur vakið forvitni mina og áhuga.  Mér þykir hann áhugaverðastur fimmenninganna og hef ég skoðað allnokkur verka hans.

Meier skortir stundum staðarvitund eins og sjá má á byggingu hans framan við dómkirkjuna í Ulm í Þýskalandi.  Svo á öðrum stöðum virðist hann fullkomlega skilja aðstæður eins og í sumum einbýlishúsum og í Getty Center í Los Angeles. Meier hefur nýlokið við byggingu safn dadaistans  Hans Arp í Þýskalandi,  sem verður spennandi að sjá þegar tækifæri gefst.

Hjálagðar eru teikningar og myndir af nýlegu húsi í Florida eftir Meier.  Ég tel mig sjá þarna áhrif frá Le Courbusiere, Glen Murcutt og Mies van der  Rohe.  Í framsetningunn er ekki hægt að nema neinn stað eða staðareinkenni. Því miður. En þarna má skynja mikinn aga hvert sem litið er. Teikningarnar eru líka agaðar; Grunnmynd, sneiðing, útlit og isometria, blessunarlega lausar við alla ungæðingslega tölvubrellur.

Hvernig væri að bjóða einhverntíma út samkeppni þar sem framlagðar teikningar væru innan þessarra girðinga?  Afsöðumynd, grunnmynd, sneiðingar, útlit og kannski ein ísometria.  Það væri lærdómsríkt vegna þess að maður hefur stundum á tilfinningunni að arkitektasamkeppnir séu einkum samkeppnir um grafiska framsetningu.

Ísometría

Útlit til norðurs

Útlit til vesturs

Sneiðing

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Þessi umfjöllun vekur upp spurninguna um hvernig maður metur (og dæmir) akitektúr og hvað felst í hugtakinu fallegur. Ég hallast að því að við notum hugtök eins og flottur, stórkostlegur, æðislegur og snilldarlegur um arkitektúr sem ekki rúmast undir tilfinningunni sem fylgir því að finnast eitthvað fallegt. Hinsvegar falli hugtökin sætur, heimilislegur, hlýlegur, notalegur og dásamlegur ágætlega undir tilfinninguna fallegur.

  Í Neugebauer House sjáum við snilldar takta og það er óþarfi að deila um að höfundurinn er flinkur arkitekt. Húsið uppfyllir þó varla þær kröfur sem flestir gera til góðs íbúðarhúsnæðis. Það veitir td varla skjól fyrir náttúruelementunum nema notaðar séu tæknilausnir sem, að mínu mati, eru langt umfram það sem ásættanlegt er. Kannske má orða það þannig að maðurinn sé ekki endilega miðjan og mælikvarðinn í þessar byggingu.

  (Myndirnar í tenglinum hér fyrir neðan voru dálítið lengi að hlaðast inn.)

  http://photo.zhulong.com/proj/detail9941.html

 • Hilmar Þór

  Þetta eru hetjur byggingalistarinnar

 • Hrönn Geirsdóttir

  frábær hugmynd um samkeppni!

 • Hilmargunn

  Mér finnst hugmynd um „dogma“ samkeppni frábær !

 • Hilmar Þór

  Ég er svo innilega sammála þér Hilmargunn. Án afstöðumyndar er ekki auðvelt að skilja arkitektúr. Þá vantar alla staðarvitund. Ég fann bara enga afstöðumynd af þessu húsi á netinu og gat ekki gert meira í því. Ég bið afsökunar á þessu en vonast eftir fyrirgefningu vegna þess að ég held að afstöðumyndin hafi ekki skipt miklu máli þarna. Florida er nánast einkennalaus.

  Varðandi tölvumálin þá hef ég það á tilfinningunni að það fari meiri tími í að ræða tölvumál á teiknistofunum en arkitektúr. Forrit og tölvuvandamál svo sem útprentunarvandamálum, litavandamálum og fontavandamálum og ég veit ekki hvað, er stærra og tímafrekara umræðuefni á teiknistofunum og skólunum en sjálf byggingalistin.

  Þegar ég gekk í skóla tók arkitektúrinn 90% af tímanum. Hin 10% fóru í skipulag námsins og teiknitækni. Nú skilst mér að minnstakosti þriðjungur námsins varði grafik, möppur og tölvumál og aðeins 66% í arkitektúr.

  Í gríni hefur verið sagt að fyrir tölvuvæðinguna hafi 40% af tímanum farið í hugmyndavinnu. 40% í hönnun, 15% í uppteikningu og 5% í frágang.

  Eftir tölvuvæðinguna fari 15% í hönnun, 40% í tölvuvandamál og 40% í uppteikningu, 5% í frágang og ekkert í hugmyndavinnu.

  Ég held reyndar að það sé rétt hjá þér Hilmargunn, að það sé erfitt fyrir óþekkta arkitekta að komast í gegnum samkeppni án “feitra” renderinga vegna þess að það er ekki verið að dæma arkitektúrinn heldur renderingarnar.

  Ég og félagi minn höfum unnið á fjórða tug verðlauna og viðurkenninga í samkeppnum. Flestar voru unnar með T-stiku og þríhyrningi á borði sem var spónaplata. Nú er það ekki hægt lengur. Nú þurfum við að eiga tölvurnar og forritin og ráða fólk sem kann á græjurnar. Fólk sem ekki kann arkitektúr heldur einungis á forritin.

  Talentar sem ekki eiga vinnustöð uppá hátt aðra miljón króna á engan sjens í að komast í gegnum samkeppnir eins og þú orðar það. Það er rétt hjá þér. Þetta er bara hinn bitri sannleikur.

  Þess vegna datt mér í hug að leggja til að haldin verði samkeppni þar sem einungis yrðu lagðar fram afstöðumynd, grunnmynd, sneiðingar og útlit. Og að sjálfsögðu líkani gert úr hvítum pappa. Nokkurskonar “dogma” samkeppni.

  Ef slík vinnubrögð eru viðhöfð geta allir skilað inn á jafnréttisgrundvelli þar sem sjálfur arkitektúrinn er dæmdur og hugmyndir byggingalistarinnar takast á, ekki renderingarnar.

  En það krefst auðvitað þess að dómararnir séu ekki með skerta rýmisgreind.

 • Hilmargunn

  Það vantar afstöðumynd inn í þessa umfjöllun. Það virðist vera að birtan sé ansi mögnuð inn í þessu rými. Snyrtilega leyst skerming á dagsljósi.

  Ég held að það hafi verið lítið sem engin þörf á „money shot“ eða „kick ass“ renderingum í þessu verkefni hjá kallinum. Hann hefur bara sýnt kúnnanum myndir af Neugebauer House – málið dautt.

  Ég held að það sé erfitt fyrir óþekkta arkitekta að komast í gegnum samkeppni án þess að sýna feitar renderingar. Að ná tökum á svoleiðis tækni er áralöng þjálfun. Ég hef lengi vel verið hrifinn af vatnslitateiknungunum hans Steven Holl. Gott dæmi um frábæra grafík, fulla af stemningu. Grafík er gríðarlega mikilvæg í starfi arkitektsins. Hvort sem um ræðir sneiðingar eða perspektífur eða hvað annað, ef það er ekki skilmerkilega sett fram, þá missir það marks. Grafík arkitektsins er ekkert annað en samskiptamáti – tungumál. Hvaða framburð þú notar er undir höfundinum sjálfum komið.

  Mér virðist fólk kalla í auknum mæli eftir renderingum því það er ekki á færi allra að lesa tvívíðar teikningar. Persónulega finnst mér handskissur búa yfir meiri dulúð og karakter. Það er margföld vinna að kreista út renderingu sem kæmst í hálfkvist við færan skissara.

  Mér sýnist Meier þurfi að ráða sér innanhússhönnuð 🙂

 • stefán benediktsson

  Þetta er ógeðslega flott eins og barnabörnin segja. Við erum auðvitað galnir kleifhugar sem fagmenn. Það eru alltaf hús eins og Fansworth, Fallingwater og Villa Savoye sem heilla okkur upp úr skónum. Palli var einn í heiminum arkitektúr, „draumhús“. Og þakka þér enn og aftur fyrir þetta framtak, þessa vin í blogeyðimörkinni.

 • Fyrir minn smekk er þetta álíka „kósí“ sem sumarhús og flugstöð Leifs Eríkssonar.

 • Þetta er flott… ekkert tildur eða óþarfa stælar. Skemmtilegt hvernig ljósið brotnar á veggjunum. Yfirvegun og hreinleiki, þó aðeins of stíft fyrir minn persónulega smekk… en unun að skoða (skrollaði fram og til baka yfir myndirnar).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn