Mánudagur 07.12.2009 - 10:56 - 15 ummæli

“Góðærisarkitektúrinn”.

Það hefur lengi verið vitað að fagurfræði byggingarlistarinnar er nátengd funktion og tilfinningum ýmiss konar, menningu, anda tímans og staðarins.

Nú er maður farinn að hafa áhyggjur af því að „góðærisarkitektúrinn“ verði í tímans rás álitinn sá versti í sögu byggingarlistarinnar á Íslandi.  Bæði hvað varðar skipulag, form, funktion og tæknilegar útfærslur.

Fóru menn offari og flutu ofan á óskum og kröfum líðandi stundar án þess að huga að rótunum og staðháttum hér?

Form og hlutföll voru á skjön við okkar litla samfélag. Sjáið bara Tónlistarhúsið, háhýsin og kringlurnar. Lausnir eru allar meira og minna alþjóðlegar og leiðinlegar.

Höfundareinkenni eru lítil. Það vantaði Ísland í góðærisarkitektúrinn. 

Verðmætum húsum og innréttingum var fargað. Bæði á einkaheimilum, opinberum byggingum og fyrirtækjum. Hugsið bara til innréttinga Sveins Kjarval í Naustinu, Landsmiðjuhússins við Sölvhólsgötu og byggingarinnar í Borgartúni sem þurfti að víkja fyrir Kaupþingi.

Mikið framboð af fjármagni slúmvæddi marga reiti í miðborg Reykjavíkur eins og blasir nú við.

´.
Faðir „funktionalismans“, Louis Sullivan, sagði:  „Form follows function“ og gekk langt í þeim efnum fyrir um 100 árum. Margir aðhylltust hugmyndafræðina og hafa fylgt henni. 

Í góðærinu var þessu snúið við og menn sögðu „Form follows profit“ og gengu allt of langt í þeim efnum. Vonandi eru dagar þessarar stefnu taldir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Nútíminn á sér greinilega fáa málsvara ef miðað er við svörin hér að ofan. Neikvæðnin nálgast það að vera sjúkleg. Eins og það var litið hornauga að vera með eitthvað neikvæðnistuð í góðærinu þá er það varla liðið núna ef maður bendir á eitthvað jákvætt í samfélaginu. Öfgarnar eru ennþá þær sömu, bara í hina áttina.

    Mér finnst Höfðatorgsturninn ekki vera ljót bygging, alls ekki. Staðsetningin er þó óheppileg. Mér finnst flestar nýlegri skrifstofubyggingar við Borgartún ekki vera ljótar þó að heildarskipulag hverfisins sé misheppnað (en Reykjavíkurborg er að læra af þessu). Mér finnst þægilegast að vinna í björtu og opnu nútímalegu rými sem er hannað á grundvelli þeirrar þekkingar sem hönnuðir hafa afla sér um áratugaskeið frekar en innan um þyngsli og drunga „gömlu góðu“ daganna.

    Ég vona að ég verði ekki fláður lifandi fyrir þessar játningar.

    Mörg skelfileg mistök voru gerð á síðustu árum sem má rekja til hraðans og skipulagsleysisins frekar en nútímaarkitektúrs sem slíks. Verslunarhúsnæði eins og Korputorg er t.d. bara nútímaútgáfa af bragga og ætti að vera bannað að reisa í borginni.

  • Jon B G Jonsson

    Mér finnst þessi komment óþarflega neikvæð. Margt hefur verið vel gert á síðustu árum. Með rýmri fjárráð er hægt að leggja meira í byggingar og það hefur svo sannarlega verið gert. Betri efni flottari innréttingar , glæsilegri húsgögn etc. Smekkur manna er misjafn. Margir íslenskir arkitektar hafa vakið mikla athygli fyrir glæsilegar byggingar á síðustu árum. Það má ekki tala allt niður. Mér finnst að arkitektar hafi staðið sig að mörgu leiti vel og geti verið stoltir af sinni vinnu. Þó við höfum fallið á bankaprófinu gildir það ekki um allar stéttir.

  • Kannski svolítið seint að svara.

    Það sem forrit skila verður aldrei betra en sá sem vinnur með þau – „garbage in, garbage out“. Það sem forrit eins og autocad gera er að auðvelda hönnunar mistök.

    Þegar hraðinn í byggingu er orðin mikill þá fjúka fínleg heit út um gluggan. Persónulega dáist ég að hönnun þ.s. nostrað hefur verið við hlutina og hugsun sett í úrlausnir.

    Síðan tek ég undir með Tryggva um fúnkis og formtilraunir. En fúnkis er að mínu mati samheiti yfir andlega leti. Ég fer ósjálfrátt að raula lag Þokkabótar, Litlir Kassar þegar ég er á ferð um nýju hverfi Reykjavíkur.

  • Mér finnst þessi rulla með að verktakar stjórni öllu of ódýr skýring.

    Vandamálið liggur álíka mikið í metnaðarleysi arkítekta og skipulagsyfirvalda.

    Hvernig stendur nú á því að á öldum áður og fyrir seinni heimstyrjöld var miklu meiri metnaður í byggingu þáverandi Reykjavíkur. Þrátt fyrir þetta var Ísland og heimsbyggðin öll miklu mun fátækari en hún er núna, ekki höfðu þeirra tíma byggingaraðilar eitthvað frekar efni á að leggja metnað í byggingar.

    Vandamálið liggur miklu frekar í vanvirðingu við gamlar hefðir sem arkítektar og skipulagsyfirvöld eru álíka sek um. Skipulag gamaldags „reglulegra“ og þéttra götuneta skila miklu skemmtilegra umhverfi, allt annað en hryllingurinn í skipulagi flestallra hverfa byggð eftir seinni heimsstyrjöld, og þar á meðal dæmi eins og nefnd voru hér að ofan eins og úr Borgartúninu.

    Eins vantar arkítektum í dag að virða gildi heildarinnar, hlutur sem arkítektum fyrri tíma tókst miklu betur til, þar sem oft var saumað saman byggingum í eina heild jafnvel úr mismunandi stílum. Arkítektar í dag keppast við að yfirbjóða hvorn annan í annaðhvort í yfirgengilega leiðinlegum fúnkís eða þá einhverjum formtilraunum. Þetta er ástæðan hvers vegna t.d. Borgartúnið er eins það er, hver byggingin er að reyna að ná athyglinni frá hinni í stað þess að vinna með hvorri annarri og mynda heildstæða götumynd.

  • Magnús Orri Einarsson

    Kæri nafni mér finnst óþarfi að hallmæla AutoCAD, það er ekki vandasamt að útfæra mjúkar línur eða hvað annað sem menn vilja í því fína forriti (sem á reyndar alveg sína galla).

    Er svo ekki hönnum bara verðlögð of dýrt ef menn vilja ekki borga hana? Reyndar sparar góð hönnun fé ef vel er haldið á málum en hitt er annað sjónarmið.

  • Eins og Magnús segir hér að ofan þá er tíminn og kostnaður vandamál.

    Verktakar stjórna þessu ótrúlega mikið. Það er verið að halda kostnaði niðri og það er engin að fara að borga fyrir einhverja „stæla“ mjúkar línur osfr

    En fyrst og fremst þá tímir ENGIN að borga fyrir hönnun. Það er ótrúlega algengt að fólk er ekki tilbúið að greiða fyrir þann tíma sem fer í hönnun á nýju húsnæði.

    Hversu algengt er að menn fái skúffu teikningar frá Byggingatæknifræðingum til að spara sér 500þ kall í 50 milljóna króna nýbyggingu.

  • Já, steypa, steinn, hvítt, gler horn og beinar línur – þetta er allt að finna í nýja veitingahúsinu í Nauthólsvík, hjá HR-skrímslinu. Ég gekk þarna fram hjá rétt áðan í þessu yndislega veðri. Það speglaðist falleg mynd á gluggunum sem gaf fyrirheit um útsýnið en af hverju þarf þetta að vera svona voðalega kantað og einsleitt að innan?

  • Andleg leti – það er það eina sem hægt er að segja um íslenskan arkítektúr síðustu ára.

    En kannski er það bara efnið sem menn eru að vinna með – Gler, stál, steinsteypa og Autocad.

    Það er síðan tíminn og kostnaðurinn við hann. Teikninginn átti að vera tilbúin í síðustu viku, það á að byrja í gær og þetta á að vera tilbúið á morgun. Svo eftir opnunar bravú þá eru allir óánægðir vegna andlegrar leti.

  • Tjörvi, mikið er ég sammála. Fór árið 2007 og skoðai risastór hæð í hlíðunum sem var öll hin vandaðasta frá upphafi, sérsmíðaðar innréttingar frá byggingu hússins, stórglæsilegar, heillir harðviðarpanelar og stórkostlega vel hannaðir skápar og innréttingar. Ég heillaðist af hæðinni en RE/Max salinn skalf og titraði við að sannfæra mig um að hér yrði sko allt rifið út og nýtt sett inn í háglans og íbúðin seld þannig. Ég varð steinhissa og sagðist ekki vilja það, hefði miklu meiri áhuga á íbúðinni í upprunalegu horfi. Nei, það var ekki í boði að kaupa hana þannig, byrjað var á framkvæmdum samkvæmt teikningum arkitekts og íbúðin aðeins seld eftir að búiið væri að rífa allt innan úr henni.

    Ég spurði hvað yrði um allar sérsmíðuðu innréttingarnar úr forláta harðviði. Beint á haugana var svarið. ,,Nú er ekki hægt að fá þær þá, “ spurði ég. Hann horfði á mig með hnyklaðar brúnir og sagði,, Hverjum dettur það í hug? Það vill engin notaðar innréttingar.“

    Svona var andinn. Ég lét mig hverfa og kypti annarstaðar. Sorglegt viðhorf. Sorglegt fólk.

    Þetta er eyðilegging hinnar gervi-nýríku, smekklausu kynslóðar.

  • Takk fyrir góða pistla. Ég var einmitt að aka vestur Borgartúnið í morgun og varð hreinlega sorgmædd við að sjá glerhýsinn og turninn. Hugsaði með mér að þarna hefður nú einhverjir fariðð offarií því að reyna að vera þjóð meðal þjóða eða borg meðal borga og búa til fjármálahverfi með háhýsum í stíl við ofmetnaðinn.

    Þessi fallísku symból sem allstaðar blasa við eru minnisvarðar um óbeislað ungræðislegt testesterón í skipulagi, byggingum og arkitektúr. Minnisvarði um mennina sem töluðu um hvort hlutir eða verkefni eða viðhorf væru ,,rosa sexý“ eða „ekki nógu sexý“ og vildu reyna að falla inní þennan alþjóðlega einsleita heim sem þú vísar til.

    Það er líka leitt að sjá að ungir arkítektar eru allir með ferkantaða kasann sinn í jakkavasanum og hafa aldrei dregið mjúka línu.

    Það er víst ekki í tísku.

  • Þórður Magnússon

    Sæll Hilmar, takk fyrir flotta pistla.

    Varðandi förgun innanhúss-verðmæta má ekki gleyma Eimskipafélagshúsinu, nú hótel 1919.

    Þar var stórskemmdur einhver flottasti viðhafnarsalur sem Íslendingar hafa átt fyrr og síðar. Ég álpaðist einu sinni þarna inn eftir breytingar og fékk nett sjokk. Ef hægt er að tala um klassík og tímaleysi í arkitektur þá má segja að þarna inni sé ríkjandi akkúrat andstæðan. Þarna inni verður alltaf árið 2007.

    Og svo má nefna Hótel Borg líka, þó svo að margt gott hafi verið gert þar þá var virðingarleysið við verðmæti slíkt að t.d. var nánast öllum inninhurðum, stráheilum, skipt út fyrir nýjar drasl hurðir sem hafa víst verið til tómra vandræða. Ég giska á að þarna hafi c.a. 4-5 milljónir í ruslið + kostnaðurinn við nýjar hurðir og vinnu við að setja þær upp.

    Að lokum vil ég nefna þá áráttu íslendinga að henda gömlu gluggum í stað þess að gera við þá. Það hefur verið margsýnt fram á það að viðurinn í gömlum gluggunum og aðferðirnar við að fúaverja eru mörgum sinnum endingarbetri heldur en það sem er verið að nota í dag. Öfgakennt dæmi en þó ekki einsdæmi er ónefnt hús í þingholtunum þar sem var skipt um alla glugga fyrir u.þ.b. 20 árum, einn gluggi gleymdist þó, og í dag er hann eini glugginn sem er í lagi. Allir hinir “nýju” gluggarnir eru gegnumfúnir.

  • Þú orðar þetta skýrt en um leið á hógværan hátt. Ég segi ekki að ég , sem vann við að afgreiða byggingarleyfi fyrir sum þessara mála, hafi grátið ofan í teikningarnar en ég fékk oft kökk í hálsinn. Og ef áformin sem eru í pípunum og þú sýnir að hluta í pistlinum um tölvumyndirnar ná fram að ganga þá eru litlar breytingar í sjónmáli.

  • Uni Gíslason

    Aðalbygging HÍ, Gamli og Nýji Garður standa samt fyrir sínu og satt að segja þá virkar Askja ótrúlega vel, í anda Norræna Hússins (enda ekki tilviljun) með brilliant staðsetningu – enda ekki 2007 hús, heldur 1996 hús, þegar byrjað var að byggja.

    Restin.. tja Lögberg er óhugguleg bygging í alla staði (opnanlegir gluggar, nei takk!), Oddi er ólögulegur og kaldur, nýja kaffistofukomplexið skemmdi skógi vaxinn stíginn sem var þar og er bara enn eitt 2007 glerdótið, Árnagarður er svona 60s soviet-sjarmerandi og húsið sem hýsti Félagsstofnun fyrir opnun glerdótsins er afskaplega óheppileg hönnun, þung og ljót.

    Best að tala sem minnst um nemendagarðana. Þeir eru sérstök tegund af ömurlegum arkitektúr. Sér í lagi það sem byggt var upp úr 1985 og seinna.

    Það sorglega við ‘kampus’ HÍ er að aldrei var horft til þess að gera hann þéttan, hlýlegan og klassískan.

    – En já, byggingarstíll Íslendingi á ‘góðæristímanum’ var virkilega vondur. Karakterlaus og án hugsunar.

  • Ég hef eimnitt verið að horfa í kringum mig hér á háskólasvæðinu (HÍ) með þetta í huga. (Sem ég sit jafnan þessa dagana í ljótum og ópraktískum glerkastala frá 2007)
    Reyndar voru góðærisbyggingarnar bara viðbót við það samansafn forljótra bygginga sem hér voru fyrir.
    Ætli hafi ekki bara verið byggt hér á svæðinu á uppgangstímum?
    Háskólasvæði Háskóla Íslands er allavega að verða ágætis safn af ljótum og góðærislegum byggingum frá ýmsum tímum. Spurning um að markaðssetja það sem sýnidæmi? 😉

  • Tjörvi Skarphéðinsson

    Laukrétt Hilmar, synd hvað er búið að eyðileggja mikið af gömlu dóti hér og þá sérstaklega gömlum innréttingum eftir gamla snillinga. Var oft vitni af því þegar góðærisplebbar keyptu gömul falleg hús og það fyrsta sem var gert var að rífa allt innanúr og setja allt í há-glans.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn