Laugardagur 05.03.2011 - 16:19 - 14 ummæli

“Skipulagsslys í uppsiglingu” ?

Í færslu minni síðastliðinn miðvikudag var kynnt deiliskipulagstillaga á horni Laugavegar og Vatnsstígs þar sem lagt er til að gjörbreyta ásýnd götunnar og auka byggingamagn verulega miðað við það em nú er. Í athugasemdum kemur fram að fólki sýnist að þarna sé „skipulagsslys“ í uppsiglingu.

Guðlaugur Gauti Jónsson, fyrrverandi formaður Arkitektafélags Íslands telur eftir að hafa kynnt sér málið að hér sé enn eitt skipulagsslysið í uppsiglingu og segir í athugasemd:  “Það er ótrúlegt að menn vilji rífa upp götumyndina frá Hverfisgötu til Laugavegs á þennan hátt” og síðar “Ég hélt í barnaskap mínum að við værum komin miklu lengra en þetta”.

Þau Hjördís og Dennis sem komið hafa að tillögugerð á þessu svæði vitna í bókun Vinstri grænna, Samfylkingar og F-lista frá fyrri tíð en þar stendur „Við allar ákvarðanir um uppbyggingu og skipulag í miðborginni ber að virða anda miðborgarinnar og samhengi sögunnar eftir því sem framast er nokkur kostur“.

Stefán Benediktsson sem einnig var formaður Arkitektafélags Íslands segir einnig í athugasemdarkerfinu:”Vatnsstígstorgið með skrýtna steypta húsinu var alltaf sannfærandi, en ég sé ekki hvaða forsendur knýja á um að rífa Einars Erlendssonarhúsið”. Þarna á Stefán við torgið í skipulagi Hjördísar og Dennis sem sjá má á uppdrætti að ofan.

Einn sem tjáði sig við umrædda færslu er EINAR, en hann segir “Það sem hefur gerst er að í deiliskipulagi margra reita í miðborginni er gefið fyrirheit um mikla aukningu á fermetrum bygginga. Oft svo mikla aukningu að lóðin og byggingarétturinn verður meira virði en húsið sem á lóðinni stendur. Þegar svoleiðis stendur á er ekki fjárhagslegur ávinningur af því að halda gömlu húsunum við og reitirnir slummvæðast”.

Þegar ég skrifaði færsluna var ég staddur erlendis og hafði ekki skoðað svæðið sérstaklega vegna færslunnar en gerði það rétt áðan. Niðurstaða mín er í takti við skoðanir þeirra sem tjáðu sig við fyrri færslu.  Mér sýnist að þarna þurfi að endurskoða skipulagshugmynd sem á rætur sínar einhversstaðar í góðærinu.

Er ekki rétt að endurskoða deiliskipulög reitanna í miðborginni og taka þá mið af breyttu umhverfi i efnahagsmálum og breyttu viðhorfi til eldri húsa, staðarandans og umhverfisins?

Efst er deiliskipulag Hördísar og Dennis. Þar má sjá liðlegra skipulag en það sem er nú í kynningu og meira í takti við bókun minnihluta skipulagsnefndar á sínum tíma.

Fyrri færslu og ummæli má lesa hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/03/02/deiliskipulag-vid-vatnsstig/

Tölvutækar myndir af skipulaginu má finna hér:

Deiliskipulagstillagan (PDF)

Skýringaruppdráttur (PDF)

Og hugleiðingu um deiliskipulög hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/

Að neðan er svo mynd sem tekin var í suddanum á Vatnsstíg rétt í þessu.  Á myndinni sjást tvö hús sem munu víkja vegna deiliskipulagsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Magnús Skúlason

    Þarna stefnir í eitt slysið í viðbót. Tillagan sem nú er í kynningu er afleit (niðurrif, of hátt N og hæðir húsa) þótt hún sé illskárri en sú frá 2003 þegar rífa átti öll húsin á reitnum. Tillaga Dennisar og Hjördísar er skást en gerir þó ráð fyrir niðurrifi Vatnstígs 4 og Laugavegar 33A. A.m.k. þarf að varðveita það síðarnefnda til að halda utanum litla torgið við Vatnsstíg og raunar ætti einnig að varðveita nr. 4.
    Það ber annars allt að sama brunni, krafa eiganda/verktaka um hámarksnýtingu sem miðast a.m.k. við delluskipulagið frá 2003 og síðan Borgin óviljug til að endurskoða nýtingarhlutfall af hræðslu við skaðabótakröfur. Svo má ekki gleyma aðalframlagi Reykjavíkur til loftlagsmála heimsins sem er þétting byggðar m.a. þar sem hún er hvað þéttust. Getur myndun skugga og vinda með alltof háum húsum verið alvöru framlag til loftlagsmála?
    Þrátt fyrir allt virðist áhugi skipulagsyfirvalda um húsvernd hafi aukist verulega í seinni tíð en það dugar ekki til.
    Hvernig svo kollegum okkar gengur að fella nýtt að gömlu er nánast raunasaga sem væri tilefni til heilmikillar ráðstefnu
    En bíðið bara eftir eftir næsta slysi sem er væntanlegt á horni Laugavegar og Frakkastígs.

  • Pétur Jónasson, Guðjón Þór Pétursson

    Við íbúar/eigendur Hverfisgötu 52 – næstu lóð við Vatnsstíg 4 – furðum okkur á vinnubrögðum borgarinnar: Engin grenndarkynning hefur farið fram og vissum við því ekkert um breytinguna á deiliskipulagi fyrr en við lestur þessarar greinar. Borgin felur sig á bakvið samning fyrri borgarstjórnar um aukið byggingarmagn án þess að nokkuð finnist þar að lútandi í gögnum sýslumanns.

  • Reykjavík er skipulagsslys svo einfalt er það.

    Best að jafna draslið vestan Snorrabrautar og austan Hofsvallagötu við jörðu og byrja aftur.

    Annars er allt höfuðborgarsvæðið eitt stórslys hvort sem horft er til umferðarmála eða skipulags (nýttni og útlit) mannvirkjana.

  • Tillaga Arkitekta Hjördísar & Dennis gerði einmitt ráð fyrir að farlægja mætti húsin við Vatnsstíg en vernda bæri húsin við Laugaveg 33 og 35 svo og steypta bakhúsið nr. 33b með tilheyrandi torgi , sjá teikningu hér að ofan. Gert var ráð fyrir hóflegri uppbyggingu á reitnum í anda staðarins.
    Gamalt og nýtt getur farið vel saman og margir arkitektar hafa talað fyrir þeirri leið. Samvinna arkitekta og listamanna er af hinu góða en það eru skiptar skoðanir um ágæti Hörpunnar og stærð og íburður byggingar segir ekki allt um gæði hennar.

  • Ég sé ekki vandamálið við það að rífa hús á þessum reit. Þegar bjó þarna á móti 90 og e-h, þá voru þessi hús dópgreni og rónabæli. Kviknað hefur í þeim nokkrum sinnum, þau því stórskemmd. Það hús sem er glæsilegt þarna á reitnum það heldur sér. En hinn tvö meiga missa sín, tímans tönn er kominn.

    En síðan finnst mér þessi orðræða arkítekta um gamalt og nýtt skrítin. Það er eins og þið óttist sköpunarverk eigin stéttar. Stundum er full innistæða fyrir þeim ótta eins og sagan sýnir. Kannski er það merki tímans að það er listamaður sem hannaði útlit stærstu byggingarframkvæmd samtímans en ekki arkítekt.

  • Er prýði af þessu? Nei. Mun þetta auka lífsgæði borgarbúa? Nei. Mun þetta auka verslun í miðbænum? Nei. Mun þetta auka tekjur borgarinnar? Nei. Mun þetta auka gleði utanbæjarmanna? Nei. Er skortur á verslunarrými? Nei. Mun þetta hafa úrslitaþýðingu fyrir lóðarhafa? Nei.

    Til hvers þá?
    Ég lýsi hér með eftir tilgangi.

  • Jóhannes G.

    Hver óskar eftir þessari miklu nýtingu?
    Svar óskast

    Eru það skipulagsyfirvöld með hagsmuni borgarinnar að markmiði?
    Svar óskast

    Eru það landeigendur með sína eigin hagsmuni í huga?
    Svar óskast

    Er einhver sem telur rétt að fara Grjótaþorpsleiðina sem nefnd er hér að ofan?
    Já, fjöldamargir t.d. ég.

    Það er ekkert að því að fólk og fyrirtæki hagnist, en það má ekki vera á kostnað hagsmuna fjöldans. Allir þurfa að græða og engin að tapa í viðskiptum. Sama á við um skipualagið

  • Hilmar Þór

    Þakka þér spurninguna Jónas.

    Aðalinntak færslunnar er að vekja athygli á deiliskipulagi sem er í kynningu og undirstrika þær efasemdir sem eru um málið. Ég skrifa þetta umræðunnar vegna og til þess að vekja athygli og vonandi áhuga á skipulagsmálum. Athugasemdarfrestur vegna málsins rennur út á morgunn mánudaginn 7. mars.

    En varðandi Hverfisgötuna þá hef ég séð hana sem umferðaræð sem er nauðsynleg til þess að bæta aðgang að Laugaveginum og hliðargatna hans. Þetta er aðkomuæð frekar en gata með einhverja blómlegri starfssemi. Hverfisgatan er bakhlið og að vissu marki bakland Laugarvegarins.

    Húsin sunnanmegin við Hverfisgötu eru almennt hærri en húsin sunnanmegin við Laugarveg. Þess vegna er Laugarvegur sólríkari og bjartari en Hverfisgatan auk þess sem bifreiðaumferð er mun minni við Laugarveg og ætti helst að vera enn minni en nú. Bílastæði við Laugaveg ætti að fella niður og gera götuna að “shered street” eða samnotagötu gangandi og akandi þar sem gangandi eiga forgang og nota jarðhæðir og kjallara húsa við Hvefisgötu sem bifreiðastæði til þess að þjóna blómlegum Laugavegi. Við Hverfisgötu gæti verið skrifstofur og íbúðir meðan við Laugaveg væri verslun og þjónusta.

  • Hilmar. Suddamyndin þín sýnir ágætlega þessa dálítið sérstöku aðstæður sem eru þarna við Vatnsstíginn. Litla torgið er um margt einstakt, birtuskilyrðin ágæt á skipulagsreitnum og húsaþyrpingin í eftirsóknarverðum mælikvarða fyrir nærumhverfið. Í Grjótaþorpi var beitt því skipulagsprinsippi að lóðarhafar gátu gert upp húsin á lóðunum eða rifið þau og byggt jafn mikið byggingarmagn í staðinn. Það hefur virkað stórvel í aðalatriðum. Illu heilli var húsaröðin við Aðalstræti undanskilin í því skipulagi.

  • „Skipulagsslys“ er þar sem vistleg er og fólk vill vera og einkum og sérílagi þar sem arkitektar hafa hvergi komið nálægt.

  • Ég átta mig eiginlega ekkert á því, sem þú ert að segja, Hilmar Þór. Ég á ferð um Hverfisgötuna næstum daglega og mér rennur til rifja hversu dauð hún er. Maður sér verslanir koma og drabbast niður og aðrar koma í staðinn. Og svo drabbast húsin niður. Fólkið, sem á leið um götuna á vinnutíma, er margt greinilega aðkomið og vísast íbúendur í húsum við götuna. Það er eins og ekkert geti lifað viið götuna nema fáein sérþjónustufyrirtæki og hrörlegir matstaðir með útlendu yfirbragði.
    Hvers vegna geta ekki arkitektar farið í málin og gert tillögur til að meira líf færist í götuna? – Ég hefði áhuga á að hlusta á þínar tillögur.

  • Njörður Snæland

    Öll gömlu húsin sem búið er að gera upp í miðbænum er bara augnayndi,og það ætti að vera hvattning til frekari dáða á þeim vettfangi.

  • Þorsteinn Einarsson

    Ég fullyrði að ef notað væri svipuð leið og við sjáum á horni Túngötu og Aðalstrætis væri farin kæmist fermetrafjöldinn upp í hæstu hæðir án þess að breyta þessari fínu götumynd að marki. Ég styð ályktun VG og Samfó og spyr hvað þessi bókun er gömul og hvað hefur breyst sem valdið hefur sinnaskiptum.

  • Finnur Birgisson

    Vek athygli á því að frestur til að gera athugasemdir rennur út á mánudaginn, 7. mars, og tek undir með þeim sem hafa gagnrýnt þessa tillögu. Það er t.d. alveg furðulegt hvernig til stendur að byggja á þrjá vegu í kringum húsið 33b og nánast yfir það líka, þannig að það verður ósköp vesaldarlegt þar sem það gægist út úr ofvöxnum byggingarmassa nýbyggingarinnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn