Laugardagur 20.04.2013 - 13:15 - 5 ummæli

13 þúsund manns á Austurvelli?

 

 

Kowloon Wall City í Hong Kong var sennilega þéttasta byggð í veraldarsögunni. Borgarhlutinn var einnig kallaður „The dark City“

Þar bjuggu um 50 þúsund manns sem samsvarar um 19 þúsund á hektara. Þetta samsvarar því að um 13 þúsund manns ættu heimili sitt á Austurvelli sem er tæpir 7000 fermetrar. Eða svo annað dæmi sé tekið að það ættu 21 þúsund manns heima í Grjótaþorpinu

Það komu hvorki arkitektar né verkfræðingar að byggingunum svo ekki sé talað um skipulagsfræðinga eða aðra borgarfræðinga. Þetta var eitt dæmi um “architecture without architects”. Þrátt fyrir mikla fátækt bjó fólk við mikið öryggi þarna og var hamingjusamt að sögn þeirra sem þar bjuggu. Fólkið sem var það fátækasta í borginni lifði í sátt við eiturlyfjasala og melludólga.

Þegar byggðin var hvað þéttust bjuggu þarna um 50 þúsund manns á 2,7 heturum sem er svipuð lóðarstærð og BÚR lóðin í vesturbæ Reykjavíkur (Aflagrandi) þar býr nú sennilega einungis um 600 manns þó svo að það sé eitt af þéttari svæðum borgarinnar.

Ég kom þarna árið 1973 þegar í hverfinu bjó einungis um 10 þúsund manns. Okkur þótti hverfið einkennast af þvotti og þvottasnúrum sem voru allsráðandi á öllum útveggjum húsanna. Þeir sem komu um Kai Tak flugvöllinn tóku eftir þessari þéttu byggð sem blasti við.

Hverfið var rifið árið 1993, fyrir réttum 20 árum og gerður var borgargarður á borð við Klambratún okkar Reykvíkinga  í þess stað. Klambratún sem er um 12 ha sem gæti hýst 240 þúsund manns samkvæmt  hugmyndafræði Kowloon Wall City. Það slagar upp í alla íslensku þjóðina.

Þetta er svo ótrúlegur þéttleiki að því verður vart trúað. Heimildir mínar eru að mestu fengnar af eftirfarandi slóð South China Morning Post þar sem má lesa reynslusögur fyrrum óbúa þarna:

http://www.scmp.com/news/hong-kong/article/1191748/kowloon-walled-city-life-city-darkness

Kowloon Wall City er ótrúleg andstaða við eftirfarandi dæmi um Kína nútímans. Skoðið tengilinn:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/03/19/staersta-draugaborg-i-heimi/

22.04.2013.

Lesandi síðunnar benti á eftirfarandi slóð í athugasemdarkerfinu. Þetta er myndband sem sýnir aðstæður skömmu áður en húsin(ið) voru rifin.

http://www.youtube.com/watch?v=Lby9P3ms11w

 

Ef smellt er á tengilinn að neðan opnast mjög skemmtileg teikning með upplýsingum um þetta merkilega hverfi þar sem var að finna alla þá þjónustu sem heyrir til 50 þúsund manna byggðar. Þarna voru skólar, iðnaður og „red light district“ með ópíumsölum, næturklúbbum og pútnahúsum o.þ.h.

Endilega kíkið á teikninguna.

https://www.scmp.com/sites/default/files/2013/03/16/scm_news_1.1.nws_backart1_1_0.jpg

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Þetta hús við Mýrargötu minnir á „The Walled City“ í Hong Kong. Þetta er bara minna og byggt fyrir fólk sem á aur.

    Vísa á þessa færslu:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/04/20/13-thusund-manns-a-austurvelli/

  • Eyjólfur

    http://www.youtube.com/watch?v=Lby9P3ms11w hérna er mynd fyrir þá sem eru forvitnir um þetta fyrirbæri.

    • Pétur Jónsson

      Maður er orðlaus yfir þessu öllu. Og það sem vekur athygli mína er að fólk var ánægt þarna og vildi hvergi annarstaðar búa (Margt hvert) Þetta sannar kenninguna um að efnisleg gæði færir fólki ekki hamingjuna. Kannski bara þvert á móti? Þarna voru sennilega hlutfallslega fleiri hamingjusamir en meðal íbúa á t.a.m. Arnarnesinu!!!
      Mannni dettur í hug setningin „Dont worry, be happy“

  • Jón Ólafsson

    Þarna var engin efnahagsleg eða menntunarleg stéttaskipting. Engin umferðavandamál og öll þjónusta við hendina. Var Le Courbusiere ekki að puða við þessa hugmynd mestann hluta ævinnar?

  • Þórður

    Ja hérna…Allir Akureyingar á Austurvelli og Víkurgarði!!!! Teikningunni sem linkurinn er að má enginn missa af.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn