Laugardagur 06.11.2010 - 19:39 - 5 ummæli

MANNGERT LANDSLAG

Þessi texti eftir Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt er skrifaður í tengslum við sýninguna ManMadeEnviroment sem haldin var í Osló fyrir nokkru. Umfjöllunarefni Einars á fullt erindi í umræðu um náttúru og landslag.  Ég birti hann hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

MANNGERT LANDSLAG – TIL GAGNS OG GAMANS

Einkenni  umræðu um stöðu landslagsarkitektúrs á Íslandi er að manngert umhverfi – LANDSLAG – stendur í miklum skugga af ímynd hinnar ósnortnu náttúrur landsins.   Landslag/náttúra í hug flestra Íslendinga er eitt og það sama.                                                   

Ferðaþjónustuaðilar keppast við að halda þessari ímynd við og markaðssetja landið sem ósnorna náttúru og landslag. Útlendingum er jafnvel selt Bláalónið sem íslensk náttúra.  Manngert landslag er af þeim sem móta viðhorf ekki hátt skrifað.  Það sama á við um þá sem hæst hafa um umhverfisvernd.  Opinber byggingarlistastefna var gefin út af Menntamálaráðuneytinu árið 2007 í samstarfi við Arkitektafélags Íslands.  Landslagsarkitektar voru ekki kallaðir að því borði.  Það er því engin opinber stefna um mótun landslags/manngerðs umhverfis.  Um  „Sambýli manns og náttúru“ segir:  „Mikilvægt er að gæta að því landslagi sem ekki hefur verið numið undir manngert umhverfi.  Með vaxandi ferðamennsku og útivist er aðkallandi að móta stefnu gagnvart mannvirkjagerð á lítt snortnum eða óspjölluðum stöðum utan hefðbundinnar byggðar.  Stjórnvöld bera ríka ábyrgð á því hvernig hið manngerða umhverfi þróast og vex og eru í einstakri stöðu til að hafa áhrif til góðs og leggja áherslu á tillitssemi við náttúrulegt landslag og viðkvæma staði.”   Stefnan er í fullu samræmi við hugmyndir okkar um landslag/náttúru. Einskonar EKKI MÁ móta umhverfið/landslagið.  Mætti lesa að landslagið/ náttúruna mótuð til gagns og gamans sé eyðilegging. 

Fjölmiðlaumræða um mannvirki  á Íslandi ber þess oft merki þess að hún er hvorki fagleg eða byggð á þekkingu. Þegar fjallað er um nýbyggingar þá er nærri því regla að arkitekts, landslagsarkitekts eða annara hönnuða sé ekki getið.  Hinsvegar fjallað ítarlega um hver var byggingameistari, múrari og eða pípulagningamaður os.frv. Íslendingar sem hafa ríka bókmenntahefð og bera mikla virðingu fyrir höfundarrétti í bókmenntum.  Ef slík fjölmiðlaumræða yrði heimfærð upp á bókaútgáfu og ekki væri fjallað um höfund bókarinnar heldur um hver hafi prentað, litgreint eða ljósmyndað, þá myndi jafnvel almenningur bregðast hart við.

Félag ísl. Landslagsarkitekta hefur látið þýða “ Evrópski landslagssamningurinn”,  samning sem skilgreinir hugtakið LANDSLAG.  Landslagsarkitektar glöddust því þegar í stjórnarsamningi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms vorið 2009 var gefið fyrirheit um að samningurinn verði staðfestur af íslenskum yfirvöldum.  Túlkun samningsins nær bæði til landslags/náttúru sem er ósnortin einnig til landslags sem maðurinn hefur mótað og segir “ „Landslag“ merkir svæði sem fólk sér og fengið hefur ásýnd og einkenni vegna samspils náttúrulegra og/eða mannlegra þátta.”   Vonir standa til að skilgreing samningsins rati í íslensk lög þegar hann hefur verið innleiddur.

Á afmælisári  FÍLA í maí 2008  var í samstarfi Listasafn Reykjavíkur og styrktaraðila ráðist í að fá landslagsarkitektinn og listamanninn Matrha Swartz frá Bandaríkjunum  með sýningu á Listahátíð sem hét “alimlunat /I hate nature”.           Í sýningarskrá eru hugleiðingar hennar um viðhorf Bandaríkjamanna til náttúru og landslags. “ Bandaríkjamenn telja landslag og NÁTTÚRU vera eitt og hið sama.  Afleiðingarnar eru sú skoðun að öllu tilbúnu landslagi beri siðferðileg skylda til að sýna NÁTTÚRUNA (svo framarlega sem trén þvælast ekki fyrir þegar horft er á húsið). Flestir Bandaríkjamenn trúa því að „gott landslag sé landslag þar sem mannshöndin er hvergi sýnileg“.

Það má fá mosa til að vaxa á steyptumvegg og tókst vel á Ráðhúsinu í Reykjavík einnig klæða byggingar með stuðlabergi eins og Hof á Akureyri. Jafnvel móta hugmynd af stórvaxinni nútímabyggingu úr steinsteypu í Miðborginni og setja síðan jarðvegshól upp á þak og skreyta hann með nokkrum (torf)húsum má kalla STEF sem sótt eru í náttúruna/umhverfið en umbreytt við nýja notkun.

Að mótað umhverfi er frá sjónarhóli landslagsarkitekts meir en náttúruábreiður. Byggingarefni landslagsarkitekta er að hluta lifandi og tíminn er þáttakandi í mótun þess frá upphafi. 

-EES

Slóðin að heimasíðu Landmóta sem er teiknistofa Einars er þessi:

 http://landmotun.is/

Myndin efst er af fjárrétt í Skagafirði sem sýnir hvernig manngert umhverfi og náttúra fléttast saman. Myndin að neðan er af tjörn í Kópavogsdal sem hönnuð er á teiknistofu Einars, Landmótun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Í reynd er þetta hugsun í anda forngríska heimspekingsins Heracleitosar
  um að allt fram streymi endalaust og að ekkert sé því fast.
  Augnablikið hopar alltaf frá okkur og kannski getum við aldrei höndlað það?
  Bara minningin um augnablikið, þess sem við sáum en er breytist jafnóðum í tímanum, flæði tímans.

  Hvað um það, góður er pistill Einars og falleg er myndin af hlaðinni rétt
  sem minnir mig á tíma í sveit … barn að aldri … hjá afa og ömmu.

 • Takk Hilmar fyrir að hafa … amk. óbeint … hjálpað mér að nálgast eilítið skilning á hugsun Þórbergs og leit hans að hinu „absolúta ljóði“.
  Kjarninn liggur kannski í því að það er ekki bara þrívítt, heldur fjórvítt!
  Tíminn sjálfur sem fjórða víddin spilar verkið til allra átta, líkt og Dieter Roth prófaði í sumum sinna verka. Ekki bara öldrunin og eyðileggingin heldur einnig endalaus (?) endurnýjunin og formbreytingin í tímans vídd.

 • Steingrímur Sigurjonsson

  Gott innlegg hjá landslagsarkitektum. Meiri umfjöllun um svona efni.

 • Hilmar Þór

  Ég hef alltaf dáðst að landlagsarkitektum fyrir að hafa fjórðu víddina, tímann, með í hönnun sinni. Þeir hugsa verkið fullmótað um leið og framkvæmdum er lokið. Þeir sjá landslagið líka fyrir sér eftir 10 ár og jafnvel 30 ár eða meir þegar trén hafa vaxið. Svo sjá þeir fyrir sér hvernig landslagið og gróðurinn breytist eftir árstíðum. Landlagshönnuðurinn lifir í raun á mörgum tímum. Það hlýtur líka að vera spennandi að sjá hvernig náttúran tekur verkið yfir og sjá það breytast með árunum og árstíðunum.

 • Sveinbjörn S.

  Myndin af réttinni segir meira en 1000 orð. Þarna er mannvirki sem er byggt úr efni úr næsta umhverfi. Réttin er hluti af náttúrunni. Og náttúran hluti af réttinni. Manneskjan er þarna hluti af náttúrunni og hefur byggt sér afdrep eins og fuglinn býr ungum sínum hreiður eða tófan greni. Maðurinn er líka hluti nátttúrunnar þegar hann byggir í henni og úr henni eins og hér í réttinni.

  Maðurinn er líka náttúran. Ekki er hann ónáttúra!

  Manninum tekst sjaldan að byggja þannig að upplifunin sé að húsið sé hluti náttúrunnar og lítil og óljós mörk séu þar á milli, samkvæmt hugleiðingu Einars. Hinsvegar tekst landslagsarkitektum það oft samanber myndin af tjörninni í Kópavogi. Hjá húsahönnuðum er þetta oftast viðleitni sem að mestu er í orði en ekki á borði. Samanber einlægan vilja arkitektanna sem hönnuðu skóla í Borgarnesi sem kynntur var á fyrirlestri í Listasafni Reykjavíkur í vikunni. Þeir skýrðu út að skólinn væri viðbragð við umhverfinu. Það var fallega orðað en markmiðið náðist ekki á sannfærandi hátt eins og sjá má hér í réttinni fyrir norðan.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn