Fimmtudagur 19.12.2013 - 08:14 - 6 ummæli

2 af 5. LHS – Aðgengi og samgöngur

Hér í öðrum hluta raðar G. Odds Víðissonar arkitekts  um Landspítalann fjallar hann um samgöngur, nýtingu eldri bygginga og samverkun miðborgar og háskólasvæðis.

Í athugasemdarkerfinu vegna síðustu færslu veitti einn þeirra sem komið hafa að málinu andsvör og ábendingar sem voru mkilvægar og upplýsandi fyrir umræðuna.

Vonandi sjá einhverjir aðstandendur ákvarðanatöku um staðsetningu sjúkrahússins og deiliskipulagið ástæðu til þess að tjá sig um eftirfarandi sjónarmið Odds og verja verk sitt.

2 af 5. LHS – Aðgengi og samgöngur

(Staðarvals)Nefndin telur staðsetninguna við Hringbraut vera miðsvæðis og að í útjaðri þess séu mikilvægar umferðaræðar sem tengi úthverfi við miðborgina og borgina við landsbyggðina. Staðreyndin er sú að svæðið er ekkert sérstaklega miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Það er í raun í vesturhluta þess og í um 2,5 km frá þungamiðju þess. Það er jafnframt í vestanverðum útjaðri kjarna atvinnu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem hefur landfræðilega miðju sína u.þ.b. á Kringlusvæðinu.

Umræddar umferðaræðar eru Miklabraut og Bústaðavegur sem sannarlega má telja mikilvægar, en eru jafnframt geysilega ásetnar á álagstímum, ekki síst til norðurs og vesturs á morgnana, og til baka á kvöldin. Staðsetningin er því ekki góð m.t.t. umferðar starfsmanna úr fjölmennustu íbúahverfunum, sem flest eru töluvert austar og sunnar, né m.t.t. bráðaumferðar sjúkrabíla, nema til komi nýjar og mjög greiðfærar tengingar til austurs og suðurs með verulega háu þjónustustigi.

Svæðið er ekki heppilega staðsett m.t.t. sjúkraumferðar af landsbyggðinni þar sem aka þarf sjúkrabílum í gegnum kjarna byggðarinnar. Þar eru tafir í umferð einna mestar og verða áfram miklar á næstu árum og áratugum, þrátt fyrir uppbyggingu mannvirkja sem auka umferðarrýmd.

Það er vafamál hversu lengi sjúkrahús við Hringbraut verður í góðum tengslum við innanlandsflugvöll og samgöngumiðstöð. Verðmæti Vatnsmýrarinnar sem byggingarland vex frá ári til árs og skipulagslegur ávinningur af nýtingu þess undir aðra landnotkun eykst með degi hverjum. Ef reikna má með því að flugvallarstarfsemin leggist af er miðstöð almenningsvagna og langferðabifreiða mun betur komið í miðju atvinnu- og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, t.d. við nánd við Kringluna.

Nýting eldri bygginga

Álit nefndarinnar byggist að hluta til á því að unnt væri að nýta eldri byggingar við Hringbraut að miklu leyti. Spurning er hvort núverandi byggingar uppfylli nútímakröfur um sjúkrahús án meiriháttar breytinga og kostnaðar. Forsendan um að með því væri unnt að spara fé við uppbyggingu með nýtingu eldri bygginga virðist því að einhverju leyti brostin.

Á meðan hefur lóðin við Hringbraut vaxið mjög mikið að verðmæti hin síðustu ár. Fjármagn, sem leysa mætti með sölu lóðarinnar undir aðra landnotkun myndi mjög líklega fara langt með að bæta upp kostnað vegna þess að hugsanlega þyrfti að byggja upp algerlega nýtt rými fyrir alla starfsemina á öðrum stað, þ.m.t. nýjan barnaspítala, kvennadeild og geðdeild.

Stuðningur og samverkun við miðborg og háskólasvæði.

Einn helsti styrkleiki staðsetningarinnar við Hringbraut, að mati nefndarinnar, er nánd og fléttun við miðborg Reykjavíkur. Þetta er byggt á því mati White-arkitekta, ráðgjafa staðarnefndarinnar, að unnt sé að flétta saman sjúkrahús við miðborgarbyggð og skapa samlegð við aðra þjónustuþætti og mannlíf. Þetta mat virðist hins vegar byggt á reynslu þeirra og rannsóknum af slíkum verkefnum í gömlum miðborgum Evrópu þar sem lungi starfsmanna notar almenningssamgöngur líkt og annað fólk sem þar starfar. Ný sjúkrahús í eldri miðborgum geta því vel haft jákvæð samverkandi áhrif á miðborgarstarfsemi og mannlíf, þar sem mikill fjöldi gangandi bætist við þann sem fyrir er á leið milli starfstöðva og stoppistöðva strætisvagna og lesta, að því gefnu að framboð bílastæði fyrir starfsmenn sé jafnframt haldið niðri og stýrt með hárri gjaldtöku eða öðrum leiðum.

Svo er ekki fyrir að fara í því tilviki sem hér um ræðir. Eins og áður segir býr fjöldi starfsmanna annars staðar en í miðborg Reykjavíkur og flestir aka til og frá vinnu í eigin bíl. Mjög hátt framboð ókeypis eða mikið niðurgreiddra bílastæða mun ekki breyta því.

Vinningstillaga um skipulag sjúkrahússins bendir til að erfitt verði að ná fram öðru markmiði White-arkitekta um samþættingu sjúkrahússins við miðborg Reykjavíkur, þ.e. með blöndun mælikvarða og að afmá skil hennar við nánasta umhverfi sitt. Það er margt sem bendir til þess að tilraunir til að samhæfa mælikvarða íbúðabyggðarinnar umhverfis spítalann og spítalann muni ekki ganga eftir. Að minnsta kosti ekki nema slíkt bitni á skipulagi og hönnun hans. Ráðgjöf White-arkitekta í þessu sambandi er því miður afar slök að þessu leyti og bendir margt til þess að þeir hafi lítt rannsakað eða ekki áttað sig á umhverfi lóðarinnar við Hringbraut.

Það er margt sem bendir til þess að óraunhæft sé að ætla að HÍ og spítalasvæðið muni ná landfræðilegri samvirki. Til þess er fjarlægðin milli þeirra einfaldlega of mikil.

Efst í færslunni er kort sem gert var vegna umerðaspár árið 2012. Þarna sést hvar viðamestu krossgötur borgarinnar  og höfuðborgarsvæðisins er að finna. Athygli er vakin á því að þarna eru sýnd göng undir öskjuhlíð í hlað Landspítalans. Þessi göng hafa verði lögð af samkvæmt AR 2010-2030


Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Ingólfur.

    Ég get sagt þér það að ef spítalinn væri búinn að vera 83 ár að Keldum mundu 50% starfsmanna búa í 15 mínútna fjarlægð frá spítalanum. Þarna er verið að misnota annars ágæta búsetu starfsmanna í þágu vanhugsaðs skipulags. Þegar svona rök eru skoðuð dettur manni í hug málefnafátækt.

  • Það er alltaf þannig að um öll mál takast á hagsmunir. Hagsmunirnir fara ekki alltaf saman og stundum missa menn sjónar á aðalatriðinu. Í LHS gerðist það að vegna ósættis um staðsetningu og umfang gleymdist aðalartriðið, heilbrygðisþjónustuna sjálfa. Umræðan um heilbrygðisþjónustuna sem málið fjallar um hefur orðið undir.

    Í þessu máli fara ekki saman hagsmunir háskólanna og fræðanna annarsvegar og hagsmunir borgarbúa og landsmanna hinsvegar. Augljóst er að hagsmunir hinna fáu til skamms tíma hafa undirtökin í þessu máli (læknar, háskólafólk). meðan aðrir eru undir (sjúklingar og allir þeir sem ekkert erindi eiga á sjúkrahúsið í sínum daglegu störfum)

    Ingólfur Þórisson er augljóslega og eðlilega í vinningsliðinu með hinum fáu. Það ber að hrósa honum fyrir málefnalega þáttöku í umræðunni.

    En það vekur athygli að talsmenn borgarskipulagsins,borgaranna og þjóðarinnar allrar eru undir þrátt fyrir mun sterkari málefnastöðu. Hvar eru arkitektarnir og skipulagsfræðingarnir?.

    Ég Þakka G. Oddi Víðissyni fyrir frábæra byrjun.

  • „Svæðið er ekki heppilega staðsett m.t.t. sjúkraumferðar af landsbyggðinni þar sem aka þarf sjúkrabílum í gegnum kjarna byggðarinnar.“

    Strætórein á Miklubraut til vesturs kemur sér líka vel fyrir sjúkrafluttninga og hefur skipt sköpum í einhverjum tilvikum.

  • Ingólfur Þórisson

    Ég fagna umræðunni.

    Ein ástæða staðarvals Landspítala við Hringbraut er gott aðgengi. Svæðið liggur vel við almenningssamgöngum og reyndar tel ég að engin lóð í Reykjavík liggi betur við almenningssamgöngum. Aðgengi gesta og sjúklinga er gott sé litið til almenningssamgangna og verður enn betra þegar ný samgöngumiðstöð rís þar sem Umferðarmiðstöðin er núna.

    Athugun á búsetu starfsmanna Landspítala sýnir að helmingur getur gengið eða hjólað til vinnu á innan við 14 mínútum. Nýleg samgöngukönnun sýnir að 21% starfsmanna ferðast til og frá vinnu á vistvænan hátt, ganga, hlaupa, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Ný umhverfisstefna Landspítala miðar að því að ná þessu hlutfalli upp í 30% á þessu starfsári og eru ýmsar aðgerðir í gangi til þess að ná því markmiði. Fjölgun íbúa í nágrenni Landspítala skv nýju aðalskipulagi eykur sjálfsagt enn frekar hlutfall þeirra sem koma á Landspítala á annan hátt en með einkabíl. Samgöngukostnaður af gangandi umferð og hjólandi er hverfandi og samfélagslegur kostnaður er enginn.

    Vinnutími á Landspítala hefst almennt kl 8:00 (sumir fyrr aðrir eitthvað seinna). Könnun núna í október sýna að 62% starfsmanna stimpla sig inn fyrir 8:00. Það er á undan aðaltoppi í umferðinni, enda byrjar HÍ 8:15 og HR 8:30. Umferðartafir á götum borgarinnar, sem mér finnst reyndar of mikið gert úr, eru að litlu leyti vegna umferðar tengdri Landspítala.

    Staðsetning á Keldum gerði það að verkum að fleiri, bæði sjúklingar, gestir og starfsmenn, þyrftu að nota einkabílinn til þess að komast til og frá vinnu með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga, umhverfið og samfélagið.

    Varðandi notkun á eldri húsum sem er fjallað um í þessu pistli líka þá er rétt að benda á að þau eru misgömul. Barnaspítali er t.d. nánast nýr. Bráðastarfsemin sem krefst sérhæfðasta húsnæðisins verður í nýjum byggingum en skrifstofuhúsnæði og göngudeildir í þeim elstu sem henta ágætlega til þeirrar notkunar.

    • Guðrún Bryndís

      Leiðakerfi Strætó (almenningssamgöngur) aðlagar sig að byggð (þörfum borgarbúa, notenda strætó), það hefur margoft verið gert og verður vonandi gert áfram. Forsendan sem hér er sett fram er að aðlaga skipulag borgarinnar að leiðakerfi Strætó er mjög óvenjuleg og getur haft ófyrirséðar afleiðingar á allt samgöngukerfi borgarinnar.
      Það þarf vonandi ekki að minna Ingólf Þórisson á að það voru gerðar tvær samgöngukannanir (2008 og 2011), í þeirri fyrri var svarhlutfallið um 90%, en þeirri seinni innanvið 40%. Sú fyrri er því tölfræðilega marktækari, en það voru miklar breytingar á niðurstöðum milli ára sem auðvelt er að oftúlka. Í þeirri fyrri kom í ljós að flestir þeirra sem nota ekki einkabíl (um 10% starfsmanna) til og frá vinnu eru án ökuréttinda eða búa skv. eigin skilningi í göngufæri við vinnustað. Í seinni könnuninni eru mikið um athugasemdir starfsmanna, rauði þráðurinn er að starfsfólk er ósátt við að stjórn spítalans ákveði einhliða (að því er virðist) samgöngustefnu vinnustaðarins og að það eigi að beita hinum ýmsu refsingum við að starfsfólk aki til vinnu, einsog bílastæðagjöld, fækkun bílastæða, samakstur og að þeir sem nota Strætó fá niðurgreiðslu á kortum, hjólreiðafólk upphitaðar hjólageymslur með sturtuaðstöðu. Starfsfólk lítur að því er virðist ekki svo á að það fái val um ferðamáta til og frá vinnu, heldur taki vinnuveitandi ákvörðun fyrir það.
      Í umfjölluninni um að fólk búi í 14 mínútna göngu- eða hjólafæri við Hringbraut, miðast fjarlægðin við að fólk gangi 5km/klst eða hjóli 23km/klst í loftlínu – fólk gengur og hjólar almennt á jörðu niðri og því má það teljast bjartsýn spá að þeir sem búa á Arnarnesi eða í Bryggjuhverfi hjóli á innanvið 14 mínútum á Hringbraut, eða að þeir sem búa í Skerjafirði komist gangandi á fjórum mínútum.
      Furðulegasti snúningurinn á umræðuna er að nú eigi að byggja viðbyggingu fyrir bráðakjarna – fyrir þá sem ekki vita, er bráðakjarni bráðamóttaka, skurðstofur, rannsóknarstofur, röntgendeild, legurými, ásamt aðstöðu til kennslu og rannsókna fyrir háskólasjúkrahúsið. Þessi viðbygging á að verða umtalsvert stærri að flatarmáli en allar þær byggingar sem nú standa á Hringbrautarlóðinni til samans.
      Nálægðin við háskóla felast annarsvegar í Læknagarði og Eirbergi (byggingar HÍ), sem standa við Hringbraut og hinsvegar Háskólanum í Reykjavík sem var byggður eftir að Hríngbrautarlóðin varð fyrir valinu.
      Staðsetningargreining var aldrei gerð, það var að því er virðist lagt huglægt (tilfinningarlegt) mat á það hvað nefndarmönnum í samvinnu við starfsmenn Landspítala og Háskólasjúkrahúsi fannst um Hringbraut, Fossvog og Vífilstaði.
      Það gleymist stundum í allri þessari umræðu að upphaflega voru spítalar byggðir til að veita heilbrigðisþjónustu. Hugmyndin um viðbygginguna við Hringbraut virðist ganga út á að heilbrigðisvísindi þurfi meiri tæki og húsnæði til að geta dafnað og eldra húsnæði til að geta vaxið.

  • Hvaða mótvægisaðgerða var gripið til þegar göngin undtir Skólavörðuholt voru felld niður í skipulaginu?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn