Föstudagur 20.12.2013 - 07:44 - 2 ummæli

3 af 5 LHS Stækkunarmöguleikar og samverkun hverfa.

Hér kemur þriðji hluti greinar Odds Víðissonar arkitekts þar sem hann fjallar um stækkunarmöguleika á lóðinni við Hringbraut og ýmsa erfiðleika á framkvæmdatíma. Oddur er sennilega einn reyndasti arkitekt samtímans hér á landi þegar kemur að framkvæmdastjórnun, fjárfestingum og rekstri bygginga. Hafa ber í huga að erindið var samið fyrir 4 árum og hefur sumt breyst lítillega í áætlunum spítalans síða. Það er þó ekkert sem neinu nemur í þessu stóra samhengi.

 

3 af 5 LHS Stækkunarmöguleikar og samverkun hverfa.

Að mati (staðarvals) nefndarinnar er stærð lóðarinnar við Hringbraut nægileg til að hún geti uppfyllt frekari stækkanir í framtíðinni. Þetta bendir til þess að stór hluti lóðarinnar muni verða óbyggður um langa tíð. Lóð sem segja má að gegni lykilhlutverki í að samþætta eldri byggð í Þingholtunum við nýja byggð í Vatnsmýrinni þegar og ef kemur að uppbyggingu þar. Það er álitamál hvort að slíkt fyrirkomulag samræmist markmiðum um eflingu miðborgarinnar með þéttingu byggðar vestan Elliðaáa.

Fyrirkomulag meginbygginga sjúkrahúss og háskólabyggingar gefa ekki góð fyrirheit um að jafnvel fullbyggð muni þau hafa áhrif að byggð norðan Hringbrautar og sunnan virki saman sem ein heild. Legudeildir snúa til suðurs og þurfa því, vegna hljóðvistarákvæða, líklega að vera langt frá umferðaræðinni. Sennilega er sama krafa gerð um skólahúsnæði og fyrirlestarsali, og því þurfa skólabyggingar sömuleiðis að vera fjarri umferðaræðinni. Fyrirkomulagið kallar því mögulega á víðáttumikið vannýtt rými meðfram Hringbraut, sem erfitt er að ímynda sér að virki vel sem tengiliður milli gamla borgarhlutans í Þingholtunum og nýs borgarhluta í Vatnsmýrinni.

Samþætting sjúkrahússtarfsemi við byggingaframlvæmdir.

Ein mótrök gegn því að byggja upp nýtt sjúkrahús við Hringbraut eru ekki nefnd í staðarvalsálitinu, en það er sú staðreynd að leggja þarf stóran hluta svæðisins undir vinnusvæði, vinnubúðir og efnislager með tilheyrandi efnistilflutningum og raski um alllangt skeið, Líklega allt að 24 mánuði, sem er sá tími sem fram kemur í álitinu. Þá eru ekki taldar með seinni tíma stækkanir og framkvæmdir. Það hlýtur að teljast neikvæður þáttur að vinna að slíkri uppbyggingu í næsta nágrenni við spítala í fullum rekstri.

Samþætting heilbrygðisvísindasviðs við Lanspítalann.

Það eru mjög sannfærandi rök færð fyrir því að staðsetja læknavísindadeild háskólans í næsta nágrenni við Landspítalann. Það virðist vera í samræmi við þá uppsetningu sem flestir háskólar með öfluga læknavísindadeildir njóta. Einnig kemur fram í áliti staðarvalsnefndar sú skoðun deildaráðs læknadeildar HÍ og annarra hagsmunaaðila við háskólann og Landspítalann þetta sama álit.

Þó fallast megi á þá augljósu röksemd að byggja upp Landspítalann og lækna- og heilbrigðisvísindadeild HÍ á sama stað og í mikilli nánd hvert við annað, þá vaknar upp mikilvæg spurning um það hversu mikill akkur sé í raun fólginn í nánd við aðra starfsemi og aðrar deildir Háskólans. Það virðist ekki há bestu háskólum heims á sviði læknavísinda að vera með aðrar deildir á öðrum svæðum. Það sem virðist skipta máli hins vegar er það að starfsemi og vísindastarf af sama toga sé í góðri nánd hvert við annað. Að heilbrigðisvísindadeild sé t.a.m. í góðri nánd við spítalastarfsemi og rannsóknarstarfsemi í heilbrigðisvísindum. En nánd við háskóla- og aðra starfsemi sem ekki er á tengdum sviðum virðist skipta mun minna máli.

Það er því mjög mikilvægt að fá úr því skorið hvort meginforsenda farsællar uppbyggingar beggja stofnana sé sú að Landspítalinn sé í sem mestri nánd við Háskólann – eins og staðarvalsnefndin kemst að orði – eða hvort meginforsendan sé sem mest nánd við læknavísindadeild Háskólans.

 

 

Efst er mynd af höfuðbyggingu Háskóla Íslands. G. Oddur Víðisson arkitekt veltir fyrir sér hvort nálægð heilbrigðisvísindasviðs skipti eins miklu máli og haldið er fram. Hann efast um það og rökstyður efasemdirnar með góðum rökum

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Hilmar Þór

  Það er rætt um þessar færslur víða á netinu. Eftirfarandi samtal fór fram á Facebook sem á erfindi hér..

  Ég hef tekið öll nöfn viðkomandi út af ástæðum sem ekki þarf að gera grein fyrir hér.

  Persóna 1:

  Þegar ég fæddist árið 1950 þá bjuggu foreldarar mínir efst í Mávahlíð, sem var með austustu húsum í Reykjavík. Íbúafjöldi á landinu var þá 141 þús., en er í dag 321 þús., á höfuðborgarsvæðinu þá 65 þús., en í dag um 206 þús. Þá var Landspítalinn við Hringbraut og er þar enn, en hann verður 83 ára á morgun, 20. des. Hvert þróast byggðin og hvar verður hún um 2100. Hún getur ekki annað en þróast í austurátt og suður á bóginn, þó ég geti ekki fullyrt um það. Af þeirri einu ástæðu hlýtur að vera rétt að færa spítalann á einhvern hentugan stað m.v. þá þróun, en ekki hafa hann vestast á Seltjarnarnesinu. Ef mannfjöldaþróunin verður eins og hún hefur verið sl. 63 ár þá verða Íslendingar orðnir árið 2100 um 706 þús. og íbúar á höfuðborgarsvæðinu um 638 þús. Þessi speki að láta Landspítalann vera áfram á Hringbrautinni gengur ekki upp og er misráðin pólitík.

  Persóna 2 bregst við með eftirfarandi innleggi:

  Held að byggðin eigi eftir að þróast inná við næstu áratugina. Útbreiðsla byggðar í Reykjavík hefur verið ógnvænleg síðustu áratugina. Held að við getum verið sammála um það. Við getum ekki gert ráð fyrir að byggðin þróist svoleiðs áfram. Sjáið bara nýtt aðalskipulag. Held að það væri óskynsamlegt að byggja nýjan spítala í jaðri byggðar og halda að þá höfum við „leyst“ málin.

  Persóna 3 bregst við og svarar persóni 2.

  Við þekkjum báðir aðalskipulagið AR2010-2030 og vitum að tekin er sú skynsamlega stefna að stækka borgin innávið . En þetta er smáatriði eða jafnvel aukaatriði. Ég er hissa á þér eins eldklárum og þú ert og með þína sterku sýn að átta þig ekki á því að aðalskipulag Reykjavíkur fjallar bara um Reykjavík (og ekki annað) sem er einungis um helmingur höfuðborgarsvæðsins að íbúafjölda. En Spítalinn á að þjóna landinu öllu. Og ef litið er til hans nánasta umhverfi spítalans þá nær það frá Borgarnesi til Suðurnesja og austur að Hvolsvelli. Hlutfall íbúa Reykjavíkur fer sífellt minnkandi í þessu samhengi auk þess sem mesta fjölgun íbúa(ef frá er tekin Vatnsmýsi sem sennilega verður ekki byggt á) verður mest austan Elliðaáa í borgarlandinu, Nei mér sýnist þessi staðsetning vanreyfuð og vanhugsuð .
  Ef fram horfir eins og virðist verða íbúar höfuðborgarsvæðisins 638 þúsund eftir 63 ár og nýjispítalinn girtur af í jaðri byggðar við Hringbraut!

 • Steinþór

  N1 góð grein

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn