Mánudagur 16.04.2012 - 10:15 - 45 ummæli

129% dýrara að aka en fljúga?

 

 

 

Umræðan um staðsetningu flugvallar Vatnsmýrinni í Reykjavík hefur gengið nánast allar götur síðan bretar afhentu íslenska ríkinu flugvöllinn til umráða þann 6. júlí 1946.

Sumir álita að staðsetningin hafi valdið því að borgarskipulagið hafi ekki þróast eðlilega.

Aðrir telja á móti að staðseting flugvallarins hafi verið mikilvæg lyftistöng fyrir Reykjavík sem höfuðborg landsins.

Bæði sjónarmiðin eru góðra gjalda verð

Nú um helgina birtist í Fréttablaðinu auglýsing frá Flugfélagi Íslands sem sýndi að nú um stundir er 129% dýrara að aka til Akureyrar en að fljúga ef marka má auglýsinguna.

Í kvöldfréttum RUV í gærkvöld var bætt um betur og sagt frá þvi að búið væri að endurvekja áætlunarflug frá Reykjavík til Húsavíkur eftir 12 ára hlé.

Spurt er hvort þetta sé upphaf að betri tímum hvað varðar  almenningssamgöngur og flug?

Sýnir þetta okkur að við þurfum að stíga varlega til jarðar  hvað varðar hugmyndir um að leggja niður flugvöllinn í Reykjavík? 

Er ekki rétta að  leita annarra lausna til þess að þétta byggð vestan Elliðaáa?

Má ekki leysa þéttingarvandann  með mörgum smáum aðgerðum í stað þess að leysa hann með einu stóru pennastriki í Vatnsmýrinni?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (45)

  • stefán benediktsson

    Haddi. 38 manns á dag (19+19) 365 daga ársins eru 13780 manns í allt. Gestir sem sækja Mývatn heim eru um 250 þúsund. Hvalaskoðun hátt í hundrað þúsund. Þessi flutningur er dropi í hafið.

  • Svartur á leik.

  • Það eru öll áróðurstrikkin dregin fram. Höfðað til þess að enginn hagnist á þéttingu byggðar en fólk í 101, sem eins og allir vita eru hippar sem eru ekki í tengslum við þarfir íslenskrar alþýðu. Svo á víst að „þröngva“ fólki upp í strætó með skattlagningu, eins og verðlagning á eldneyti sé yfirleitt á forræði íslenskra stjórnvalda. Ódýrt eldneyti tilheyrir fortíðinni, slíkir tímar koma ekki aftur enda hefur framleiðslan á jarðefnaeldsneyti staðið í stað í nokkur ár á meðan vaxandi millistétt í Kína og Indlandi keyrir áfram vaxandi eftirpsurn.

    Það er lífskjaramál fyrir venjulega Íslendinga að góðar almenningssamgöngur séu valkostur. Góðar almenningssamgöngur verða ekki reknar með hagkvæmum hætti nema með þéttari byggð sem skipulögð er út frá þörfum þess samgöngumáta. Uppbygging höfuðborgarsvæðisins næstu áratugina á að fara fram innan núverandi þéttbýlismarka þess, bæði á nesinu vestan Elliðaáa (þar sem 70.000 manns búa í dag) og á öðrum svæðum, t.d. á Kársnesi, í kringum Mjódd og smiðjuhverfi í Kópavogi, á Ártúnshöfða, í Smáranum o.s.frv.

  • Magnús Birgisson

    Bjarki:

    Ég nefni Smáralindina aldrei í pistlinum mínum en fyrst hún er þér hugleikinn þá mætti ég benda þér á að hún er nær íbúarmiðju höfuðborgarsvæðisins í austurhluta Fossvogs en bæði Kringlan, Vatnsmýrin og vesturbærinn eins og hann leggur sig.

    Þvi er ennþá meiri ástæða til þess að efla byggð á því svæði …frekar en að færa miðjuna vestar með handafli.

    Það hlýtur að eiga vera meiri hugsun í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins en svo að markmiðið sé það eitt að íbúar í 101 getið gengið í vinnuna og aðrir séu skattlagðir útúr bílunum sínum og þröngvað uppí strætó.

  • Skiptir engu máli í umræðunni að það er aftur farið að fljúa til Húsavíkur eftir 12 ára hlé?

  • Já, kannski voru þetta útúrsnúningar hjá mér, Árni Ól. En það þarf að geta rætt þetta mál af alvöru og án upphrópana sem oft hafa verið. Þetta er góð tilraun hjá Hilmari til að skapa þá umræðu. Flugvöllur á þessum stað í borginni er ekki nauðsynlega forsenda þess að hún sé höfuðborg. Sem svar við athugasemd Einars jónssonar þá hafa margir bent á þann möguleika að flytja flugið til KEF en þar er öll aðstaða. Einnig eru líka möguleikar á tengiflugi og líka að Reykjavíkurflugvöllur þjónar ekki bara innanlandsflugi sem er reyndar ótrúlegt. Þessi lausn er kannski ekki það sem margir flugvallarsinnar vilja en hefur engu að síður marga kosti en líka ókosti, sem og núverandi flugvöllur.
    En afþví að umræðan byrjaði um ferð til Akureyrar, hversu margir fljúga þangað í einkaerindum á eigin kostnað ? Ég veit að ég myndi aldrei gera það, það svarar alls ekki kostnaði sem og að þá þyrfti auk þess að leigja bíl fyrir norðan.

  • Einar Jónsson

    Þessi aðferð að loka flugvellinum án þess að hafa fundið eitthvað annað til að leysa hann af er ábyrgðarleysi. Það er eins í villta vestrinu þar sem fyrst var skotið og spurt svo!!

    Þegar við erum búin að leysa hvernig flugsamgögum við höfuðborgina skuli háttað, þá skulum við fyrst velta fyrir okkur hvort Varsmýrin er betri eða verri kostur fyrir flugvöll en sá sem þá verður fundinn. Ef í ljós kemur að nýji valkosturinn er betri skulum við taka ákvörðunina…ekki fyrr.

    Og þegar við erum búin að finna hvað tekur við af Reykjavíkurflugvelli þá skulum við fyrst fara að velta fyrir okkur hvernig við eigum að nota Vatnsmýrinna.

    Ég held að það eigi að nota hana sem útivistarsvæði og fugla reservat eins og Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður og eiginkona Páls formanns skipulagsráðs hefur nefnt. Ekki byggja neitt og leyfa náttúrunni að taka við mýsinni. Þetta yrði e.k. Central Park Reykjavíkur en bara miklu flottari.

  • þorgeir jónsson

    Það er sorglegt að heyra í ábyrgum stjórnmálamönnum skella skuldinni á ríkið (innanríkisráðuneytið) vegna flugvallarins, þegar dæmin sýna hið gagnstæða. Reykjavíkurborg hefur ekki látið fluvöllinn í friði síðan það var ákveðið að hann skuli fara fyrir 2024. Hverjir ákváðu það?
    Borgin hefur hagað sér illa gagngvart málefnum flugvallarins. Breytt girðingum án þess að spyrja stjórnendur flugvallarins, samþykkt deiliskipulag sem ógnar öryggi alls flugs þar. Breytt vegalagningu án þess að hafa til þess heimild, staðsett leikskóla við flugbrautarenda og heinlega rústað starfsmöguleikum flugstarfsemi með því að skipuleggja hana út af flugvallarsvæðinu.

    Í gildi eru t.d. tvenns konar deiliskipulag fyrir sama svæðið!
    Allar þessar staðreyndir fengu alvarlegar athugasemdir hjá Skipulagsstofnun en á það var ekki hlustað, því það átti að gösla HR inn á svæðið svo Garðabær fengi ekki að hýsa HR.
    (líklegast héti HR þá HG)
    Við eigum kröfu á því að flugvöllurinn geti starfað eðlilega og skipulagt sína mikilvægu starfsemi þar til honum verður fundinn annar staður. Þangað til skuluð þið stjórnmálamenn láta flugvöllinn í friði. Það þarf ekki að bola honum burt,…

    …eða eigum við að hætta að taka mark á ykkur í dag af því að þið náðið líklega ekki kosningu næst?

  • Guðmundur Erlingsson

    Skemmtilegar og fróðlegar umræður eins og alltaf :). Kannski ein athugasemd varðandi notkun á hugtakinu „þétting byggðar“, þá tek ég alveg undir með Hjálmari Sveinssyni sem bendir á að þetta er fremur andlaust hugtak, á meðan að í Bandaríkjunum var svipað átak kallað „new urbanism“ og í Bretlandi „urban renaissance“, sem hefur strax bæði heimspekilegar og fagurfræðilegar skírskotanir sem íslenska hugtakið skortir alveg. Enda ætti, eins og Hilmar bendir á, að leggja áherslu á manneskjulega og lifandi borg með almenningssamgöngum og þjónustu í nágrenni.
    (sjá grein Hjálmars hér: https://www.facebook.com/notes/hjalmar-sveinsson/skipulag-audnarinnar/258511848361)

  • Árni Ólafsson

    Athugasemd Gunnars um meinta útúrsnúninga er útúrsnúningur 🙂

  • Magnús:

    Íbúaþungamiðja höfuðborgarsvæðisins er í Fossvogshverfi, ekki í Smáralind eða þeim mun sunnar eins og sveitastjórnarmenn í svefnbæjunum halda stundum fram. Með þéttingu byggðar vestan Elliðaáa togast miðjan norður og vestur. Að beina framtíðaruppbyggingu á svokallaða „raunverulega miðju“ höfuðborgarsvæðisins (sem er nokkuð víða og virðist ferðast um eftir því hver er að nota hugtakið í það skiptið) í einhverju úthverfinu myndi auka ferðavegalengdir fyrir þorra fólks og draga úr hagkvæmni almenningssamgangna.

  • Hilmar Þór

    Það eru margar góðar athugasemdir sem hafa birst með þessari færslu. Athugasemdir sem eru upplýsandi, gefa góða mynd af umræðunni og fleyta henni áleiðis.

    Ég vek sérstaklega athygli á niðurlagi í athugasemd Árna Ólafssonar hér að ofan.

  • Hvers vegna er það nauðsynlegt fyrir höfuðborg 320.000 manna þjóð, að flugvöllur sé í miðbænum ? Og ef hann flyst, þá fær það sveitarfélag höfuðborgarskyldur sem hann flyst til ? Þessar röksemdir eru galnar. Skv þessari röksemdarfærslu þá ætti Dragör niðrá Amager að vera höfuðborg Danmerkur, ekki Köben. En svona útúrsnúningar í merki hótana eru einfaldlega galnir.
    Fyrir það fyrsta, höfuðborgarsvæðið er ein heild. Auk þess sem flugvöllurinn truflar ekki bara Reykvíkinga, líka Kópavogsbúa þar sem vélarnar fljúga lágflug yfir byggðina með tilheyrandi hávaða.
    Þetta er framtíðarmál og snýst um hagsmuni heildarinnar, ekki þrönga hagsmuna ákveðinna aðila eins og oft vill verða hér á landi.

  • Árni Ólafsson

    Menn líta gjarnan á ferðamátann út frá fólki í fríi – sem ekur í sinum einkabíl frekar en að kaupa dýrt flug fyrir alla fjölskylduna. En það eru tvær hliðar á málinu: Atvinnulífið (tími = peningar) notar flugið. Til þess að maður úr 101 nái heilum vinnudegi á Akureyri eða Egilsstöðum (þ.e.a.s. á einum degi/sólarhring) þarf hann að fljúga. Það er nokkuð hraustlega gert að aka í 10 tíma til þess að ná 8 stunda vinnudegi í öðrum landshluta.

    Borgarfulltrúi bendir á: „Flugvöllurinn er ríkisfyrirtæki, sem stendur á landi sem skipulagt var sem blönduð byggð fyrir meira en áratug. Með öðrum orðum; þarna má ekki vera flugvöllur samkvæmt skipulagi eftir 2024.” Þarna var skipulagt þvert ofan í þáverandi og núverandi réttmæta notkun og öllum ráðum og bolabrögðum nú beitt til þess að þröngva starfseminni í burtu (les: Háskólinn í Reykjavík m.m). Jafnframt skrifar hann: „Það er verulega ámælisvert af hálfu ríkisins að hafa látið áratug líða, án þess að finna nýjan stað fyrir flugvöll sem verður rangstæður eftir fáein ár.” Er málum ekki snúið dálítið á hvolf – jafnvel þótt ekki sé deilt um skipulagsvald sveitarfélaga – því valdi fylgir nefnilega ábyrgð? Borgarfulltrúar höfuðborgarinnar þurfa líta til hlutverks höfðuborgarinnar í þessu tilliti og nálgast málið á ábyrgðarfullan hátt. Ég tel það rökrétt að höfuðborgarhlutverkið fylgi samgöngumiðjunni (innanlandsflug í Keflavík > Alþingi á Beisnum, allar helstu ríkisstofnanir í Keflavík, Þjóðleikhúsið í Andrews Theater).

    Ég tel það enn fremur mikilvægt að borgaryfirvöld sýni einhversstaðar í verki árangur í því að byggja blandaða, fjölbreytta og lifandi borgarbyggð áður en þeim verður hleypt í Vatnsmýrina. Slíkt umhverfi hefur ekki verið byggt í borginni eftir stríð. Við skulum þakka fyrir að flugvöllurinn hafi bjargað svæðinu frá bílaborginni. Og núverandi notkun varðveitir svæðið fyrir komandi kynslóðir, sem geta tekið rökstuddar og vel ígrundaðar ákvarðanir um nýtingu þess þegar þar að kemur – vonandi byggðar á góðri reynslu í umbreytingu borgarlandsins í samfellda, fallega, fjölbreytta og lifandi borgarbyggð t.d. með þéttum miðborgarás frá Kvosinni upp að Keldum.

  • Magnús Birgisson

    Tvennt sem ég vil skjóta ínní…

    Ein af grunnforsendum fyrir staðsetningu nýs LSH þar sem hún er fyrirhuguð er nálægð við flugvöllin. Nú er ætlunin að flytja flugvöllin og það segir okkur enn frekar hversu misráðið það er að byggja nýja spítalann á þessum stað.

    Ef það er einhver raunverulegur vilji til þess að þétta byggð og gera hana „miðlægari“ þá hljóta menn að leggja til hliðar byggðaríginn og horfa til landfræðilegrar miðju höfuðborgarsvæðisins alls. Þá skiptir engu máli lengur hvort flugvöllurinn er þar sem hann er eða ekki því Vatnsmýrin og „miðbær“ Reykjavíkur eru úthverfi þegar horft er til alls höfuðborgarsvæðisins.

    Núverandi „vandi“ er tilbúinn vandi pólitíkusa. Frekari uppbygging atvinnutækifæra og þétting byggðar í og við miðbæ Reykjavíkur mun auka á vandann en ekki leysa hann því það mun lengja vegalengdir og auka ferðatíma hinna 95% landsmanna sem eftir sem áður munu búa í öðrum sveitarfélögum og úthverfum.

    Frekari uppbygging og þétting byggðar í raunverulegri miðju höfuðborgarsvæðisins alls gerir miklu meira en pípudraumar pólitíkusa úr 101 um uppbyggingu í heimabyggð.

    Ég bý í 113 svo það sé á hreinu….

  • stefán benediktsson

    Tek undir með Hákoni að fargjald í flugrútuna er allt of hátt. Tek undir með Gísla Marteini að flutningur flugvallarins er löngu ákveðinn. Samgönguyfirvöld bera ábyrgð á nýjum flugvelli, hvar sem hann verður, ekki Reykjavíkurborg. Bendi svo mýraráhyggjumönnum á að allt landsvæði norðan Hafnarstrætis frá Arnarhól og vesturúr er landfylling og eins allt Örfirirseyjarlandið frá Alliance og norðurúr. Vatnsmýrin utan flugbrauta er lítið mál í þeim samanburði. Minni á fund í Háskóla Íslands þann 25. um Vatnsmýrina.

  • Hákon Hrafn

    Takk fyrir frábært blogg síðustu misseri.
    Ég vil benda á annað dæmi varðandi einkabíl vs rútu fyrir leið sem allir þekkja.
    Það kostar 1950 með flugrútinni til KEF frá BSÍ. Maður þarf að koma sér á BSÍ (eða GBR HFN) nánast um miðja nótt og því lendir einhver í því að skutla manni (nema að maður vilji láta ræna sig í leigubíl). Miðað við bíl eyðir 7-8 lítrum þá kostar það minna að láta skutla sér (og ökumaðurinn keyrir til baka) og að taka rútu. Rútan tekur kannski 50-60 manns og það er eitthvað verulega bogið við að það sé ódýrara að keyra fram og tilbaka heldur en að fá far aðra leiðina í rútu.

  • Þakka fyrir góðar umræður.

    Hilmar, mér finnst hvorki þetta áróðurskennda dæmi Flugfélagsins, né tímabundið flug til Húsavíkur segja mikið um það hvort flug eða blönduð byggð eigi að vera í Vatnsmýri.

    Flugvöllurinn er ríkisfyrirtæki, sem stendur á landi sem skipulagt var sem blönduð byggð fyrir meira en áratug. Með öðrum orðum; þarna má ekki vera flugvöllur samkvæmt skipulagi eftir 2024. Það ber nýtt við ef okkar bestu menn í arkitektúr og skipulagsmálum vilja ekki fá hér þá fagmensku og staðfestu sem við þekkjum annarsstaðar frá og felst aðallega í því að aðalskipulagi er fylgt. Fjöldi fyrirtækja hefur tekið ákvarðanir út frá þessu aðalskipulagi, bæði einkafyrirtæki og opinber. Búið er að samþykkja deiliskipulög í nágrenninu á grundvelli þessa aðalskipulags. Hvaða skynsemi er í því að snúa því við á síðustu stundu? Gengur það ekki þvert á það sem arkitektafélagið, félag skipulagsfræðinga og nær allir þeir erlendu sérfræðingar sem hafa heimsótt okkur hafa mælt með?

    Það er verulega ámælisvert af hálfu ríkisins að hafa látið áratug líða, án þess að finna nýjan stað fyrir flugvöll sem verður rangstæður eftir fáein ár. Skipulagsvald sveitarfélaga hefur verið óskorað. Vilja menn breyta því?

    Sýnt hefur verið fram á að andvirði hlutar ríkisins í Vatnsmýrarlandinu fer langt með að greiða fyrir nýjan flugvöll. Ég vona innilega að ríkið finni fluginu góðan stað sem fyrst. Það er hinsvegar ekki hlutverk borgarinnar að finna stað fyrir innanríkisráðuneytið til að reka á flugvöll. Rekstraraðili flugvallarins, einsog forsvarsmenn annarra fyrirtækja, þarf að eiga frumkvæði að því.

  • þorgeir jónsson

    JSG: En ef eina ráðið til að bjarga sem flestum er að safna þeim saman á öruggan stað? Núna er það flugvöllurinn, hafnarbakkinn og auð stór svæði í borginn, s.s Laugardalurinn. Ég er ekki að spá neinni vá, en vona að þetta gerist aldrei, eins og við öll vonum.

    Það sem hefur leitt þessa umræðu (eða afvegaleitt) var umræðan um hversu stór heimsborgin fyrir alla jarðarbúa yrði ef hún byggðist á einum stað með vesælum þéttleika Reykjavíkur. Skemmtilega absúrd framsetning. En þétting byggðar er stórmál fyrir Reykjavík og nágrenni, og þar leika mýrin í vatninu og vatnið í mýrinni stór hlutverk sem vert er að ræða vandlega.

  • Já Þorgeir, ég er greinilega eins og Reykvíkingar almennt fylgjandi byggð í Mýrinni, eins og þú nefnir það 🙂 Norðurmýri, Kringlumýri og fleiri mýrum. Ég efast stórlega um það að byggð verði eingöngu mikil há byggð í Vatnsmýri, ef til þess kemur. Miklu fremur blönduð byggð með mörgum lágreistum húsum, einbýli og raðhús ásamt stærri byggingum. Aðalatriðið er að byggðin þenjist ekki meir en nú er orðið, nóg er samt.
    En þetta með flóttaleiðirnar er útúrdúr, en hver sem er, getur séð að neyðarflutningar 150 þúsund manna um Reykjavíkurflugvöll yrði aldrei málið. Hvert ætti eiginlega að fljúga með þá ?
    Góðar stundir.

  • Ragnar Thorisson

    Reyndar vantar inn í dæmið hjá FÍ leigubíl til og frá flugvellinum og tíman sem fer í check in, svo útreikningarnir séu fullkomlega sambærilegir.

  • þorgeir jónsson

    Gunnar: Þú ert greinilega svarinn fylgjandi byggð í mýrinni og ætla ég ekki að fara að deila við þig um grundun húsa almennt. Það er til lítils farið, að byggja lág og létt hús í mýrinni á stultum eins og sumarbústaði. Ég hef rýnt í kort og sé að jarðvegsdýpt á mold er allt að 14 metrum, en að meðaltali á svæðinu er dýptin nær 6-7 metrum. Sums staðar er ekki vitað hversu langt er niður á fast. Það er botnlaust.

    þetta með flóttaleiðirnar. Þegar ekki eru aðrar leiðir færar frá borginni er ekkert nema stór opin svæði sem geta tekið við öllum íbúum í einu. Við gátum troðið um 50.000 manns á hafnarbakkann áður enn Harpa var byggð. Laugardalurinn (mýri), Klambratún (mýri) Kringlumýri (fullbygð) tja, allar mýrar í Reykjavík gætu hugsanlega tekið við öllum íbúunum svo fremi sem þéttingssinnar brjóti þær ekki til mergjar í framtíðinni.

    Hér er sveiflast víða, en þessi kafli var víst um muninn á því að fljúga eða keyra út á land. Umræðan fékk sér útúrdúr (eða moll) Fyrirgefðu Hilmar.

  • Jón Skafti Gestsson

    Þorgeir, Þú bjargar aldrei hundrað til tvö hundruð þúsund manns með flugi. Brottflutningur með flugi yrði bara dropi í hafið. Hvers kyns neyðarbrottflutningur þyrfti að eiga sér stað með skipum eða bílum.
    Það eru annars afar haldlítil rök að Reykjavík sé í einhverri stórhættu sem gæti borið svo snöggt að sem Eyjagosið gerði. Þau eldfjöll sem eru í kringum Reykjavík eru flest í meira en 10 km fjarlægð. Hraunið má renna ansi hratt til þess að valda einhvers konar panik ástandi hér.
    Flugvöllurinn sem öryggisatriði er því strámaður.

  • Þessi ferðakostnaðarumræða er ekki spennandi, enda geta menn fengið nánast hvaða niðurstöðu út úr dæminu sem þeim þóknast. Það sem vekur mína athygli er sú viðhorfsbreyting sem má sjá á þessari ágætu umræðu á vef Hilmars. Breytingin er sú að allir sem láta sér koma skipulagsmál eitthvað við vilja þéttingu byggðar. Enginn talar fyrir útþennslustefnunni semvar allsráðandi frá 1962 fram að Hruni.

  • Þorgeir, hvernig veistu að það eru 14 m niður á fast og er það á öllum stöðum í Vatnsmýri ? Ég hef unnið við framkvæmdir í miðbænum og þekki ekki þetta vandamál sem þú lýsir. En hvað gerist eftir 50 til 100 ár vita nú fáir.
    Nú þú bendir á að þegar hafa farið fram jarðvegsskipti í Vatnsmýri að einhverju leyti. Síðan má benda á, að hugsanlega er óþarfi að fari full jarðvegsskipti fyrir lágreist hús, alveg nóg að setja þokkalega stöpla undir. Þetta er t.d. gert á mörgum sumarhúsasvæðum sem eru í hrauni, gisið land.
    Ef það þarf að rýma Reykjavík í hvelli, þá er flugvöllurinn ekki rétti staðurinn útúr borginni. Ef akstursleiðir lokast frá Reykjavík er líklegt að flugvöllur gæti einnig hafa lokast. Síðan þarf að koma fólki útá R-flugvöll, sem myndi skapa umferðaröngþveiti og að flytja fólk frá vellinum (og þá hvert) er bæði tímafrekt og tafsamt, tala nú ekki um ef gos er í nágrenni. Skjót rýming úr borginni vegna náttúruhamfara er fyrst og fremst með akstri og skipum, frá þeim mörgu höfnum sem hér eru.

  • þorgeir jónsson

    Gunnar: Það er mun lengra niður á fast í VM enn í NM. 14 metrar. Svo er skaðinn af Ráðhúsinu ekki kominn fram. Ráðhúsið breytti grunnvatnsstöðunni í miðbænum og það mun skekkja grunna þar hægt og rólega. Svo er vel hægt að byggja á jaðri flugvallarins eins og þú bendir réttilega á, þar er ástandið skárst. Hvað eru margir kjallarar í Hótel Loftleiðum? 2? eða 3? Í Vatnsmýrinni er flugvöllur af því að Bretar kunnu manna best að byggja flugvelli í mýri. Búið er að skipta um jarðveg undir flugbrautum niður á fast, og væri fróðlegt að skoða hvað það kostaði.

    Upphlaup eða ekki. Þetta er frekar gönuhlaup að halda að þétting byggðar skuli vera í Vatnsmýrinni. Eitt er víst að fyrir öryggi stór – Reykjavíkur svæðisins alls í framtíðinni þurfum við flugvöll og stórt hafnarsvæði. Vonandi er einhver að hugsa um öryggi okkar allra. Eins og allir góðir verkfræðingar hugsa: Ekki ef…heldur þegar váin bankar uppá. Minnumst Vestmannaeyjagossins. Þá var það brælan sem bjargaði fólkinu i land. Allir bátar voru við bryggju.

  • Þorgeir, ég hef komið í Norðurmýri. En þar sem þú segir að ekki sé hægt að byggja í Vatnsmýri, hvers vegna er þá þar heill flugvöllur, hótel og margskonar aðrar byggingar? Nú þekki ég ágætlega til verklegra framkvæmda enda starfa sem slíkur og það er ekkert nýtt að skipta þurfi um jarðveg vegna byggingaframkvæmda. Ef við ætluðum að útiloka landsvæði vegna mýri, þá væri stór hluti borgarinnar á óbyggilegu landi.
    Þetta minnir á sumpart á upphlaupið sem var í borgarstjórn á byggingum í Hádegismóum árið 1981 vegna þess að það var á sprungusvæði. Eða umræðan vegna Ráðhússins. Allt því miður ákveðið upphlaup sem lítið er að marka þegar til kastanna kemur.

  • Steinarr Kr.

    Getur einhver sagt mér hvað verður um tjörnina ef öll Vatnsmýrin fer undir byggð. Eða kemur ekki vatnið í hana þaðan?

    Kanski tilvalið byggingarland líka?

  • Sigursveinn

    Fyrir nokkrum árum var ég með umgengnisskyldu/rétt við 4 börn mín sem bjuggu í sjávarplási útá landi. Þrátt fyrir allsskonar barna- skóla- ofl.-afslætti var ódýrara fyrir mig að leigja flugvél (flaug henni reyndar sjálfur) og sækja börnin heldur en að fá þau (og senda heim) með rútu. Ath. annar flug-leggurinn var alltaf tómur. Og tíminn fór úr 6 tímum í rútu niðrí 1,5 klst í flugvél.

  • þorgeir jónsson

    Gunnar: Ég hvet þig til að fara í göngutúr í Norðurmýrinni og sjá hvernig lóðirnar eru. Norðurmýrin er „skárri“ byggingarmýri enn Vatnsmýrin. Vatnsmýrin er lélegt byggingarland, það lélegasta á höfuðborgarsvæðinu. Það kostar um 30 milljarða að gera byggingarlóðir í Vatnsmýrinni hæfar fyrir „infrastrúktúr“

    Svo skulum við hafa í huga að við þurfum stað á Reykjavíkursvæðinu þar sem hægt er að safna saman öllum íbúunum við vá sem mun koma yfir okkur í framtíðinni, það er bara þannig. Flugvöllurinn er okkar eina flóttaleið ásamt höfninni. Byggjum þær ekki í kaf.

  • Sigurður Sunnanvindur

    Við góðar aðstæður tekur 4 klst að aka Rek-Ak.

    Þetta mætti stytta nokkuð með leið framhjá Borgarnesi, Svínavatnsleið og 7 Km Skagafjarðarstyttingi.
    Flugferðin í heild tekur:
    10 mín á völlinn
    30 mín bið
    45 mín flug
    15 mín í bið eftir farangri og að koma sér af vellinum

    Timasparnaðurinn er því 2:20 en fer niður í 2 klst með þeim vegabótum sem nefndar eru.

    Við þurfum einfaldlega á því að halda að hafa bæði góðar land og flug samgöngur.
    Flugið hefur alltaf verið ódýrara fyrir 1 mann en spurningin er hvort bíllinn er orðinn hagkvæmari við 2. eð 3. mann.

  • Það að byggja í Vatnsmýri fremur en t.d. í Úlfarsárdal er mun ódýrara fyrir borgina ásamt því að þá þéttist byggðin. Dreifð byggð kostar mun meira en margur ætlar, bæði í stofnkostnaði og síðar meir.
    Þetta með að ekki sé hægt að byggja í Vatnsmýri vegna mýrarinnar er ekki rétt, því að mörg önnur hverfi nærliggjandi voru mýrar. „Sól í Norðurmýri“.
    Flugvöllurinn er best geymdur í Keflavík og reyndar líka mjög furðulegt að flug til Grænlands og Færeyja skuli vera úr Reykjavík en ekki Keflavík með þeim tengimöguleikum sem þar eru. Það sama má segja um innanlandsflugið.

  • Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur þá á flugvöllurinn að fara í áföngum, fyrsti tímapunktur er árið 2016, þ.e. eftir fjögur ár, ef ég man rétt. Það er hinsvegar veruleg andstaða við þessi áform frá hendi ríkisins og samkv. því ekki líklegt að þessar áætlanir gangi eftir. Borgin vill þétta byggðina innávið eins og Hilmar stingur uppá og Stefán Benediktsson staðfestir. Slík vinna er þung og tímafrek og glíma þarf við andstöðu íbúa sem eru fyrir þar sem þétting á verða og sú hætta er fyrir hendi að skipulagsyfirvöld guggni. Við höfum verið í efnahagslægð og því lítil eftirspurn eftir byggingarlóðum. Líklegt er að við verðum kominn út úr þeirri lægð árið 2016 og hvar stöndum við þá? Við hoppum uppá sömu hringekjuna og fyrir hrun önnur sveitarfélög en Reykjavík svara eftirspurninni á hefðbundinn máta.

  • þorgeir jónsson

    STEFÁN: Reykjavíkurborg á ekki allt flugvallarsvæðið. Ríkið á það að hluta. Borgin er núna fyrst að setjast yfir skráningu eigna sem eru næstum allar skráðar á eitt lóðarnúmer.

    Svo langar mig að benda á að aki maður norður eru menn í meiri lífshættu á vegunum, en í loftinu. Á þjóðvegi 1 er ekkert öryggi (samkv. alþjóðegum skýrslum). Mun strangari öryggiskröfur gilda um flug.

  • Hilmar Þór

    Ég vek athygli á að ég setti spurningamerki við fyrirsögnina og set fyrirvara í textann varðandi framsetningu og útreikninga Flugfélagsins með orðalaginu “ef marka má”

    Auglýsingin og staðreyndirnar eru augljóslega sett fram af einhverjum skemmtilegum léttleika. Þess vegna hafa Hrafnhildur og fl mikið til síns máls

    En að efninu.

    Þessar tvær fréttir sem vitnað er í benda til þess hve óvissan er mikil í okkar umhverfi. Við þurfum að gæta okkur og hrapa ekki að einhverri poppaðri niðurstöðu.

    Sem dæmi þá álitu menn að engan björgunarbát þyrfti á Titanic vegna þess að skipið átti ekki að geta sokkið. En menn fóru varlega og höfðu “óþarfa” báta fyrir helmning farþega. Þarna var tilfinningin og fyrirhyggjan rökhyggjunni yfirsterkari.

    Aðalmálið er að við þurfum að vera sannfærð um að flugvallarins sé ekki þörf og að hans verði aldrei þörf áður en hann er lagður niður.

    Þorgeir bendir á atriði sem hefur einnig vakið furðu mína og það er umræddur leikskóli. Og svo er það HR og boltavellir og leikskóli við vestur enda einnar brautarinnar.

    Er verið að bola vellinum í burtu?

    Er verið að hanna atburðarrás sem síðan tekur völdin?

    Varðandi pennastrikið þá stend ég við það. Þetta er lausn af sama toga og Kárahnjúkavirkjun. Stór og áhrifamikil. Og í lokin þá er þetta kanoniska skipulag sem verið er að horfa á pennastrík sem slegið er eftir ógnar langri reglustriku.

    Ég tel mig fylgjast ágætlega með skipulagsmálum en sé ekki þessa þéttingu sem Stefán nefnir. Jú ég sé einstaka aðgerðir sem flokkast nánast undir “infill”

    En róttæka markmiðssetta þéttingu vestan Elliðaáa hef ég ekki heyrt talað um.

  • Baldvin Örn

    Þetta er ekki alltaf svona ódýrt. Ef hjón ákveða í dag að fara fljúgandi næstu helgi til Akureyrar, þá myndi flug fram og tilbaka kosta 26.750 á haus (ódýrasta flug í boði á fös og sun samkv. heimasíðu Flugfélagsins) – alls 53.500

    Ég held að þessi hjón myndu frekar fara á bílnum.

  • Eggert Ásgeirsson

    Ég á margar ferðir út í afgreiðslu FÍ. Furðar mig á fjölda bíla sem fylla þar öll svæði. Álít ég að fjöldi þeirra sem nota flugvöllinn eigi þar aukabíla standandi til að grípa til (okeypis bílastæði).
    Fjöldi annarra farþegar, einkum starfsmenn fyrirtækja og stofnana nota sér bílaleigu eða leigubíla til að komast í áfangastað og reka erindi sín.
    Sambanburður er ekki réttur nema tekið sé tillit til þessa.

  • Þessi samanburður er fáránlegur eins og Hrafnhildur bendir réttilega á. Það kostar mun meira að fljúga. Þessa stundina er ég að tékka á fljúgi til AEY í fyrramálið og ódýrasta fljúgið kostar 15860 ISK. Meira en kostar að keyra fólksbíl til sama staðar þessa 365 km mv eyðslu 10 lítra per 100 km eða alls 36,5 lítrum og kostnaður því um 9500 ISK mv 260 ISK/lítra. Plús svo í göngin, en með miða eða passa kostar það 500 til 800 ISK.
    Og margir bílar eyða mun minna, allt niður í 6 lítra á 100 km.
    Hvers vegna lætur fólk blekkjast af svo einföldu reikningsdæmi?

  • þorgeir jónsson

    Það er ekki tilviljun eða mistök að það er ekki búið að byggja í Vatnsmýrinni. Þetta er ekki byggingarland í hefðbundnum skilningi. Þetta er botnlaus mýri og það svara ekki kostnaði að búa það undir byggingar. Flugbrautirnar eru víst komnar á fast, svo við gætum byggt á þeim, en hvernig verður sú byggð ef hún er stöðugt að minna okkur á flugvöllinn sem var. Það sem fer verst með flugvöllinn er aðgerðaleysi og jafnvel skeytingarleysi borgaryfirvalda um málefni flugvallar, allt í ljósi þess að leggja á hann niður einhvern tíma í framtíðinni. Það stefnir hraðbyr í að honum verði lokað af alþjóða flugmálastofnunni ef borgin heldur áftram að skipuleggja byggð þétt upp að öryggislínum. Svo langar mig að vita hvaða snillingur fékk þá hugmynd að koma fyrir barnaheimili við flugbrautarenda nr 1, þegar Öskjuhlíðin er aðeins steinsnar frá. Vonandi er þetta bara til vara á meðan útivistarsvæðið í Öskjuhlíðinni er skipulagt. Þar ætti barnaheimilið að vera.

  • stefán benediktsson

    Það stendur ekki til að gera neitt með einu pennastriki í Vatnsmýrinni.

    Það er verið að skipuleggja þéttingu byggðar um allan bæ með mörgum smáum aðgerðum.

    Auglýsingin undirstrikar réttilega að almenningssamgöngur eru margfalt hagkvæmari en notkun einkabíls, en það eru engin sérstök rök með flugvelli í Vatnsmýri. Gætu eins verið rök með rútum eða lestum, hvaðan sem er og hvert sem er.

    Flugvöllurinn er ekki að greiða fyrir afnot af því landi sem hann notar í Reykjavík, en fargjöld myndu hækka verulega ef svo væri.

  • Hrafnhildur

    Ég myndi nú byrja á því að skoða þessa auglýsingu með aðeins gagnrýnarar hugarfari.
    Í fyrsta lagi þá kostar flug Rvk-Ak frá 6.990-18.830.- Þú þarft að panta með verulega góðum fyrirvara til að fá flugið á 6.990.- Fór inn á bókunarvefinn áðan og ódýrasta flugið á föstudaginn kemur er á 13.550.-
    Í öðru lagi getur þú ekki boðið neinum far með flugvélinni.
    Í þriðja lag er eldsneytiskostnaðurinn miðaður við t.d. Pajero bensínjeppa! Bensín á Subaru Forester norður kostar 7666 (sjá reiknivél Orkuseturs ) og Subaru er ekki einu sinni talinn sparneytinn! Líklega væri sanngjarnara að miða við rekstrarkostnað bifreiðar en það er ekki gert.
    Í þriðja lagi er ekkert mál að fara ódýrar í gegn um göngin og rúðupiss fyrir 741 er auðvitað fráleitur „fastur kostnaður“.
    Í fjórða lagi er óttalega vitlaust að setja inn kostnað við pylsur, gos, ís og kaffi nema reiknað sé með að sá sem fljúgi fasti í fjórar klukkustundir og 50 mínútur eftir að komið er á áfangastað.
    Í fimmta lagi þá skiptir tímafaktorinn auðvitað miklu máli, en fyrir þá sem hafa nægan tíma þá er auðvitað bara fínt að aka.
    Í sjötta lagi þá er flugtíminn vanáætlaður (vantar að það þarf að mæta 30 mín f. brottför + ferðir til og frá flugvelli) og ferðatími með bíl ýktur ( í nýlegri BS ritgerð er áætlaður ferðatími milli Akureyrar og Reykjavíkur áætlaður 4:15-4:45 klst án eða með pissustoppi).
    Það var bara þetta sem ég vildi sagt hafa.
    Með kveðju

  • Magnús Birgisson

    …það má líka benda á að annar fararmátinn er niðurgreiddur…hinn er stórkostleg tekjuuppspretta fyrir ríkissjóð.

  • Einar Einarsson

    Nei Örn „fólk er ekki fífl“
    Það sjá það allir að þarna er verið að hugsa um einn einstakling sem þarf að fara norður.
    Og valið er að aka eða fljúga.
    Það þurfa að vera þrír í bílnum til þess að það sé billegra að fljúga. Og svo má ekki gleyma tímanum. 5 klukkutíma mismunur er ekki lítið fyrir þrjá einstaklinga!
    Samtals 15 klukkustundir.

  • Örn Úlfar Sævarsson

    Flugið hlýtur að vera í sókn, því samkvæmt auglýsingunni þarf fólkið sem flýgur ekki að borða neitt. Bílafólkið er líka svo vitlaust að það er bara einn í hverjum bíl á norðurleiðinni.

  • Ólafur Sig.

    Enginn veit hvað framtíðin ber i skauti sér! Það er merki um áhættufíkni að leggja flugvöllinn niður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn