Föstudagur 13.04.2012 - 13:06 - 22 ummæli

Þéttleiki Reykjavíkur

 

Myndina að ofan fékk ég senda frá einum lesanda síðunnar.  Hún sýnir hvað heimsbyggðin þyrfti mikið landrými ef hún byggi öll í borg með svipaðan þéttleika og Reykjavík. Það er að segja  436,5 manns á hvern ferkílometra. (202,3 samkv. Wikipedia)

Að neðan er svo mynd sem birt var hér á vefnum fyrir nokkru sem sýnir aðrar borgir í svipuðu samhengi.

Gaman er að velta þessum myndum fyrir sér og spyrja sig og draga af þeim álygtanir.

Hvernig búum við og hvernig viljum við búa?  Hvernig viljum við nota jörðina og við hvaða aðstæður viljum við búa komandi kynslóðum efnahagslega og félagslega. Veltum fyrir okkur samgöngum og nýtingu auðlinda með þessari stefnu í skipulagsmálum

Hvernig væri heimurinn í dag ef allir byggju í borg eins og Reykjavík?

Menn eru mikið að ræða vistvænar lausnir í míkróskopiskum aðgerðum.  Menn eru að tala um BREEAM vottun á smák0fum út um allt.

En hvað með skipulagið?

Hvenær kemur að því að skipulagsyfirvöld geri vistvænar kröfur til skipulagsins sem telja eitthvað í stóra dæminu?

Mikið væri óskandi ef það væri gert.

Til dæmis að fram kæmi krafa um að ekki séu skipulagðir borgarhlutar þar sem forsenda samgangna væri einkabíll.  Heldur að almannasamgöngur væru litnar sömu augum og önnur stoðkerfi á borð við frárennsli neystluvatn, hita og rafmagn.

Um þessar mundir er svokallað Bredstorf aðalskipulag Reykjavíkur hálfrar aldar gamalt. Það varð fljótlega úrelt. Það byggði á einkabílismanum sem menn áttuðu sig skömmu síðar á að væri óvistvænn, mengandi, orkufrekur og gríðarlega kostnaðarsamur.

Í Danmörku og víðar byrjuðu menn á að úthýsa einkabílnum úr miðborgunum um 1960.

Þrátt fyrir þetta  og alla þá umræðu og þekkingu sem síðan hefur orðið til virðist manni ennþá víða hér á landi vera unnið í anda skipulags Peter Bredstorf frá 1962.

 

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/03/25/allir-ibuar-jardarinnar-i-einni-borg/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Magnús O.

    Ég held að þetta sé orðið of seint hvað varðar stökkbreytingar í þéttleika byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Staðreyndin er sú að enginn vill fá nýtt hús og hvað þá stórt í bakgarðinn hjá sér og öll þjónusta og atvinnusvæði eru orðin svo dreifð að það er sennilega útilokað að breyta þessu.

    Hins vegar á aldrei að segja aldrei og það má setja sér hófleg markmið um að þétta byggðina þar sem því verður viðkomið og einnig að koma fyrir atvinnu innan um núverandi íbúðabyggð til að reyna að minnka þörfina fyrir einkabílinn og sama gildir um alla nærþjónustu en að ímynda sér stökkbreytingar er einfaldlega óraunhæft.

    EN það að ímynda sér að þétt byggð í Vatnsmýrinni ásamt því að uppfylla kröfur um grunnvatn vegna td. tjarnarinnar lífríkið tengt því svæði ásamt því að leysa þörf fyrir götur og stofnlagnakerfi á svæðinu (stofnlagnir og hús í mýri eru ekki ódýr lausn og það kallar á stór hús vegna kostnaðar) eru ekki vel ígrundaðar. Og sama má segja um að stór hluti starfsmanna LSH og HÍ/HR komi hjólandi/gangandi í vinnuna (eða með strætó) eru kjánalegar og úr tengslum við raunveruleikann.

    En ég fagna því að reynt verði að þétta byggðina þar sem því er við komið og atvinnutækifærum verði blandað inn í byggðina eins og hægt er.

  • Matthías Sveinbjörnsson

    Bjarki:

    Þetta er rétt hjá þér. Eftir sem áður vantar eplin.

  • Matthías:

    Þarna er rætt um þéttleika landa. Ekki borga. Millistórar borgir í tiltölulega dreifbýlum löndum eru góðir staðir samkvæmt þessum texta.

    Menn eru rosalega fljótir í „reductio ad absurdum“ í þessari þéttleikaumræðu. Reykjavíkursvæðið er mjög gisið hvernig sem á það er litið en ef minnst er á að það sé skynsamlegt að þétta byggð þá rjúka sumir upp og halda að það eigi að troða öllum í blokkir eða að París eða New York eigi að vera viðmiðið.

    Það eru mikil tækifæri á höfuðborgarsvæðinu til þéttingar byggðar sem myndi gera borgina að betri stað þar sem bílar hafa ekki forgang í öllu skipulagi. Ég myndi líta til staða á borð við Árósa, Óðinsvé, Björgvin, Malmö og fleiri borga í okkar heimshluta sem eru sambærilegar Stór-Reykjavík að mannfjölda. Það verður seint sagt um þær borgir að þéttleiki þeirra sé yfirþyrmandi.

  • Matthías Sveinbjörnsson

    Aðeins til að bæta við þetta þá er hérna áhugaverð grein um lífvænleika borga:
    http://www.economist.com/blogs/gulliver/2011/08/liveability-ranking

    Þar kemur eftirfarandi fram:
    „Those that score best tend to be mid-sized cities in wealthier countries with a relatively low population density. This can foster a range of recreational activities without leading to high crime levels or overburdened infrastructure. Seven of the top ten scoring cities are in Australia and Canada, with population densities of 2.88 and 3.40 people per sq km respectively. Elsewhere in the top ten, Finland and New Zealand both have densities of 16 people per sq km.“

    Þetta rímar ekki alveg við það sem talsmenn þéttingar byggðar hafa haldið fram.

  • Matthías Sveinbjörnsson

    Maður er nú farinn að verða ansi þreyttur á þessum rangfærslum varðandi þéttleika sem talsmenn þéttingar byggðar eru sífellt að nota. Ég er sjálfur hvorki með né á móti – er bara nokkuð sáttur við höfuðborgarsvæðið eins og það er – en tel að stór hluti þess sé ónýttur, jafnvel fyrir utan flugvöllinn, og það séu tækifæri til þess að þétta mörg svæði innan borgarinnar. En rangfærslur hjálpa engum.

    Með þeim reikniaðferðum sem er beitt væri eðlilegast fyrir Reykjavík að losa sig við Kjalarnes og allar þær lendur sem nýtast ekki undir íbúðabyggð og munu ekki vera notaðar á okkar tímum í þeim tilgangi. Aðferðafræðin sem er notuð er semsagt að taka borgarbúa og deila í þá tölu með öllum lendum í eigu Reykjavíkur nær og fær.

    Ef eðlilegri borgarmörk eru notuð þá er þessi tala 2.307 íbúar/km2 og hún mun ná upp í 2.884 þegar það er búið að byggja það sem stendur óbyggt t.a.m. við Úlfarsfellið (tölur fengnar frá Gísla Marteini). Zürich, sem telst til lífvænlegar borgar skv. könnunum, er t.a.m. með 3.930 til samanburðar og margar borgir sem við berum okkur saman við eru á svipuðu róli.

    Getum við farið að bera saman epli og epli?

  • Einar Einarsson

    Þetta sem Hilmar nefnir að ofan er ágætis aðferðarfræði. Fyrst að áætla hversu mikið þarf að þétta borgina til þess að hún verði hagkvæm. Síðan að finna staðina sem færa horginni mestan hag af þéttingunni.

    Hin aðferðin sem virðis vera stefnt að virðist vera að kasta fram tölu (sem mér skilst að sé 30.000 manns) sem fjölgunin verður á næstu 20-30 árum. Finna svo slíkri byggð stað vestan Elliááa. Og svar þeirra þremenninganna Gísla, Hjálmars og Páls er Vatnsmýrin.

    Ég er ekki viss um að það hjálpi þeom mikið sem búa á jaðarbyggðum sveitarfélagsins.

    Verum fagleg og teiknum upp stoðkerfið með almenningsflutningum og allri þjónustu í göngufæri. Finnum þéttingunni stað í tengslum við núverandi byggð og látum flugvöllin vera á sínum stað.

  • Hilmar Þór

    Mér sýnist Gísli Marteinn og Hjálmar Sveinsson vera fremstir talsmanna þeirra í borgarstjórn sem vilja þétta byggðina í Reykjavík. Páll Hjaltason virðist einnig vera öflugur samherji þeirra félaga.

    Þeir þrír ganga einnig fyrir þeim sem leita að öðrum og betri valkostum í samgöngumálum borgarinnar.

    Að ofan kemur fram að Gísli Marteinn hefur metnaðarfulla sýn hvað varðar framtíð Rreykjavíkur. Hann segir að hann vilji sjá 5000 manns á ferkílómetra í borgalandinu.

    Tökum aðeins minna skref í skipulagsáætlunum og stefnum að því að rúmlega tvöfalda þéttleikann þannig það byggju um 1000 manns á hvern ferkílometra á svæðinu vestan Elliðaáa og kannski 20-25% fleiri í Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ og Breiðholti.

    Ef við nú gerum þetta á skipulagslegum forsendum væri hugsanlega hægt, í tenglum við þéttinguna, að koma upp virku almenningsflutningakerfi innan borgarinnar. Það mætti líka ná því markmiði að svona 90% borgarbúa gæti sinnt öllum sínum daglegu erindum fótgangandi.

    Guðni Pálsson (nr. 10) vakti hér að ofan athygli á einu af göllum aðalskipulags Peters Bredstorfs þar sem ákveðið var að staðsetja pakkhús meðfram endilangri norðurströnd Reykjavíkur. Ef sveitarfélög höfuborgarsvæðisins ynnu saman þá væri upplagt að flytja pakkúsin á hentugri stað og byggja á við norðurströndina öfluga íbúðabyggð í bland með fjölmennum vinnustöðum í stað rýmisfrekra pakkúsa. Þetta er sennilega besta byggingarland höfuðborgarsvæðisins. Gísli Marteinn kemur inná þetta í athugasemd sinni að ofan

    Vegna tilvitnar minnar í færslunni um BREEAM umhverfisvottun má ég til með að bæta því við að ef einhver umhverfismarkmið hefðu verið höfð til hliðjónar þegar Háskólanum í Reykjavík var valinn staður hefði það skipulagsslys ekki átt sér stað. Þar var byggð fjölmenn menntastofnun sem ekki er í neinum skipulagslegum tengslum við borgina og á besta útivistarsvæði hennar. Það er skömm að þessu vegna þess að flestir sem að málinu komu vissu að líkindum betur.

    Og vegna spurningar Stebba (nr. 13) þá er ég sammála honum um að gott almenningsflutningakerfi á að vera forsenda fyrir öllu nútíma borgarskipulagi.

  • Steinarr Kr.

    Þegar talað er um almenningssamgöngur, þétting byggðar og þess háttar eru oft nefndar borgir eins og París, Vín eða New York. Við þennan lista má svo bæta t.d. London. Það sem þessar borgir hafa fram fyrir Reykjavík er neðanjarðarlestarkerfi og öflug samgöngukerfi út úr borgunum (flug, lestir, bílar). Þetta getur enginn sagt um Reykjavík, með 3 leiðir burtu fyrir bíla og flugvöll á fallandi fæti.

    Það verða seint eða aldrei forsendur fyrir lestarkerfi á Íslandi og á meðan svo er eigum við mjög erfitt að bera okkur saman við þessar alvöru borgir á sama grundvelli.

    Og á meðan almenningssamgöngurnar eru svona veikar mun borgin halda áfram að þróast sem bílaborg. (Úthverfi og nágrannasveitarfélög eru hér sett undir sama hatt með Reykjavík).

  • Sveinn Ólafsson

    Það er mikilvægt í þessum samanburði að bera saman sambærilega hluti. Hér er greinilega verið að gera ráð fyrir 120 þúsund manns á um 275 ferkílómetrum.

    Reykjavík var í lok síðustu aldar með 100 ferkílómetra lögsagnarumdæmi, en af því er um fjórðungur neðan 120 metra hæðarlínu og mikið af því fullbyggt.

    Þá bættist við gamli Kjalarneshreppur sem liggur frá Leirvogsá í suðri að Kiðafellsá í norðri, og tekur yfir meginhluta Esjunnar og Móskarðshnúka sem liggja þarna á milli. Þar býr fólk svipað dreift og á landsbyggðinni, enda meginbyggðin milli strandar, ár og fjalls.

    Vandinn við þéttleika byggðar í Reykjavík er ekki að hann liggi ekki nógu nærri tölunni sem Gísli Marteinn nefnir, heldur að hún er meðaltal sem lýsir ekki þéttleikanum eins og hann er.

    Vestan Snorrabrautar er byggð sem mótast fyrir bílaöld og er 4-5 sinnum þéttari en byggðin í Grafarvogi. Húsin eru ekki hærri, á báðum stöðum eru blokkir, raðhús og einbýlishús, en þéttleikinn allur annar.

    Varðandi rauða litinn á kortinu, þá verður að spyrja hvernig viðmiðunarborgirnar eru taldar. Er París talin intra muros, innan Périphérique, þar sem 2 milljónir búa mjög þétt, eða er allt svæðið talið? Ef ég teldi íbúðabyggð í London City, sem nú eru um 20.000, væri það afar lág tala á þeirri fermílu og myndi ekki gefa rétta mynd af byggð í London.

    Á Íslandi búa 3,2 á hverjum ferkílómetra. Ef heimsbyggðin væri jafn gisin þyrfti 4,5 jarðir til að rúma mannfólkið. Þessar upplýsingar eru skyldar þessum rauða lit á kortinu en segja mér afar lítið um vandann við þéttleika byggðar í Reykjavík.

    kveðja, Sveinn Ólafsson.

  • Að þétta byggð verður ekki gert með girðingum. Þegar ég var að alast upp var allt sem maður þurfti í seilingarfjarlægð á tveimur jafnfljótum svo tók bíllinn völdin og allt breyttist án þess að skipulagið réði þar nokkru um. Það bara elti aðstæðurnar, fylgdi stemmingunni, átakalaust. Að reisa girðingar og þétta innávið býður upp átök „not in my backyard“. Ef við viljum þétta byggð þá gerum við það á forsendum öflugra almenningssamgangna. Öflugar og hagkvæmar almenningsamgöngur verða aðeins gerðar þar sem byggðin fær að þéttast umhverfis marga viðkomustaði og að sjálfsögðu eiga almenningssamgöngur að njóta forgangs í umferðinni. Við þurfum að hverfa frá 101 sjálfhverfunni og hugsa út fyrir girðingarnar. 1.7 milljónir íbúa og 3 milljónir atvinnutækifæra í Vín er örugglega gert á forsendum öflugra almenningssamgangna við nágrannasveitarfélög Hilmar.

  • Hilmar Þór

    Af tilefnu uræðna um þéttleika og þá ályktun að allir þurfi að búa í einni blokk til þess að ná upp þéttleika þá langar mig til að nefna Vínarborg. Þar býr um 1,7 milljónir manna sem gera 4002 íbúar á ferkílómetra. (10 sinnum meira en í Reykjavík) En þess bera að geta að á virkum dögum fjölgar fólki í borginni um 3 milljónir vegna þeirra sem sækja vinnu úr nágrannasveitarfélögum.

    Við þetta bætast svo ferðamenn.

    Þrátt fyrir 1.7 milljónir íbúa og 3 mijónir atvinnutækifæra eru háhýsi ekki áberandi í borginni og gnótt af görðum og útivistarsvæðum.

    Sama á við um París þar sem er að finna mikið framboð af atvinnutækifærum fyri fólk sem býr utan borgarinnar.

    En að megin inntaki færslunnar.

    Þetta skipulag sem við höfum ræktað á höfuðborgarsvæðinu virðist mér vera sóun á landi, sóun á auðlindum, sóun á skattfé og sóun á ráðstöfunar fé almennings. Þetta er slæmt skipulag.

    Í tilefni athugasemda að ofan er rétt að taka fram að forsendur fyrir teikningunni að efst í færslunni eru fengnar frá Wikipedia. Þar er annars vegar talað um að í Reykjavík búi 436,5 íbúar og hinsvegar 202,3 á ferkílómetra.

    Ég þekki ekki skilgreininguna á þessum tveim tölum. Á teikningunni sýnist mér að lægri talan sé notuð.

    Ekki er ólíklegt að Sigvaldi hér að ofan hafi eitthvað til síns máls í þessum efnum varðandi lægri töluna.

  • Sigvaldi Eggertsson

    Síðan má alveg minna á það að 2/3 hlutar landssvæðis Reykjavíkurborgar er fjöll og hraun, meginhluti Esjunnar er td. innan borgarmarkanna.
    Ef að þið viljið ræða þéttleika þá er best að mæla það svæði sem er byggt.

  • Guðni Pálsson

    Ég ætla ekki að fara að metast um hve mikið pláss jarðarbúar þyrftu ef byggt væri miðað við þéttleika Reykjavíkur. Hitt er annað. Hugsið ykkur meðal annars rekstrarkostnaðinn, vegagerð, lagnir, akstur miðað við vonlaust almenningssakgögukerfi, án þess að meira sé upptalið.
    Það sem Gísli Marteinn er að nefna um úrsérgengin atvinnusvæði, þá væri tími tilkomin að endurskoða aðalskipulag Reykjavíkur.
    Öll stranlengja Reykjavíkur til norðurs er skilgreind sem hafnsækin atvinnustarfsemi og hefur verið frá fyrsta aðalskipulagi.
    Þetta eru líklega fallegustu byggðarlóðir Reykjvíkur með meiriháttar útsýni. Hvað er byggt þarna. Lagerhúsnæði.
    Ég hef ekki tekið saman hvað margir km2 þetta eru en að mínu áliti er þetta ömurleg nýting á fallegasta byggðarsvæði borgarinnar.

  • Guðmundur Erlingsson

    Lýsing Trausta Valssonar á þróuninni eftir seinna stríð lýsir þessu vel: Á 20 ára tímabili (1945-1965) stækkaði borgin um 700%, á meðan íbúum fjölgaði um 70%. Og það var áður en Bredstorf-skipulagið alræmda kom til sögunnar.

  • Emil Örn Kristjánsson

    Skemmtileg pæling þó hún sé bölvað bull. Norður Ameríka er 24.709.000 ferkílómetrar. Ætli maður síðan að setja 436,5 íbúa á hvern ferkílómetra þá væri rými fyrir tæpa 11 milljarða. Heimsbyggðin telur hins vegar tæpa sjö.

    Ef heimsbyggðin byggi öll í einni borg það sem 436,5 íbúi væri á hvern ferkílómetra þá dygði landsvæði sem væri á stærð við Kanada og rúmlega hálf Bandaríkin. Það er svo sem nógu stórt svæði en ager óþarfi að ýkja það um meira en helming. Slíkt er ekki vænlegt til þess að skapa rökvissa og málefnalega umræðu.

    Þegar menn eru svo farnir að halda sig við staðreyndir má alveg fara að ræða skipulag Reykjavíkur og kosti þess og galla.

  • Ástvaldur Tryggvason

    Blokkir eru ekki eina lausnin, en geta verið hluti af lausninni; sumir vilja búa í blokk og þá eiga þeir að hafa kost á því, aðrir vilja búa í öðruvísi húsnæði og eiga þá að hafa kost á því.

    Hvert sem litið er í borginni sjást svæði sem mætti hæglega nota til þess að þétta byggðina, og það án þess að minnka lífsgæði þeirra sem fyrir eru. Ég nefni strætólóðina og iðnaðarhverfið við ósa Elliðaánna sem dæmi.

    Með þéttingu byggðar hljóta forsendur fyrir almenningssamgöngum að aukast, hvort sem byggðar eru blokkir eða ekki.

  • Þetta er nú ekki sanngjörn ályktun hjá þér Steinarr Kr. Ég hef til dæmis talað fyrir því að Reykjavík ætti að stefna að því að vera borg með 5 þúsund manns á ferkílómetra, sem er ekki mjög mikill þéttleiki. Þéttustu hverfi Reykjavíkur eru á því róli og það segir sína sögu að það eru líka eftirsóttustu hverfi borgarinnar.

    Þær borgir sem koma best út úr lífsgæðakönnunum sem gerðar eru (þar sem t.d. græn svæði, hreint loft og önnur mikilvæg lífsgæði eru tekin með í reikninginn) eru einnig með ca 5000 íbúa á ferkílómetra.

    Ég er hjartanlega sammála Hilmari. Við þurfum að draga hring utan um þá byggð sem komin er í Reykjavík og ákveða að byggja eingöngu innan þess hrings næstu áratugina. Við eigum nóg af plássi þar, þurfum ekki að ganga á nein græn svæði. ‘Brúnu’ svæðin sem kalla má, þ.e. gömul iðnaðarsvæði eða úr sér gengin atvinnusvæði, duga okkur næstu áratugina. Þar eigum við að byggja blönduð hverfi, þar sem atvinnustarfsemi þrífst við hlið íbúðahúsnæðis.

  • Steinarr Kr.

    Þegar talað er um svona mikla þéttingu byggðar, þar sem allt miðast við almenningssamgöngur hljóta blokkir að vera eina lausnin. Það sem sett hefur verið fram um t.d. Vatnsmýrina (teikningar, hugmyndasamkeppnir o.þ.h.) miða allar við ca. 5 hæða hús, það er blokk í mínum huga.

  • Eyjólfur

    Þetta passar ekki. Norður Ameríka er um 24,5 milljón ferkílómetrar og 7E9 (íbúafjöldi jarðar) / 436,5 (íbúar per ferkílómeter) = 16.036.655,2 ferkílómetrar – sem er mun minna svæði en sem nemur flatarmáli Norður Ameríku (24.7 milljón ferkílómetrar).

    Hvað með að láta hvern bara hafa einn fermeter? Þannig kæmust allir jarðarbúar fyrir á Vatnajökli! Bara að losna við Svandísi fyrst… 🙂

  • Ástvaldur Tryggvason

    @Steinarr Kr.

    Hvernig í ósköpunum færðu það út?

  • Steinarr Kr.

    Af hverju fær maður það á tilfinninguna þegar maður les þessar hugleiðingar og aðrar svipaðar, eins og t.d. eftir Gísla Martein Baldursson að krafan sé að allir búi í blokk? Er það virkilega staðan?

    Síðan væri í þessari Útópíu skilti á öllum grænum svæðum „Gangið ekki á grasinu“, svo enginn væri örugglega að eyðileggja neitt.

  • Erlingur B.

    Sláandi framsetning á stórvandamáli, sem búið er að leysa, að minnstakosti fræðilega.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn