Þriðjudagur 10.04.2012 - 22:20 - 7 ummæli

Húsaverndun – húsafriðun – húsaflutningar

Margir telja að það eigi rífa hús sem eru ekki í samræmi við tíðarandann, þjóna ekki lengur upphaflegu hlutverki sínu eða smella ekki inn í staðfest  deiliskipulag.  Stundum hafa deiliskipulagsáætlanir beinlínis lagt dauða hönd á ágæt hús. Sumir telja að rífa eigi hús sem ekki þjóna tilgangi sínum fullkomlega eða hafa það eitt sér til vansa að vera gömul.

Svo eru þeir sem vilja varðveita húsin á sínum upphaflega stað og vilja endurnýja þau í samræmi við breyttar kröfur samtímans, tæknilegar og starfrænt, en vilja ekki breyta þeim arkitektóniskt. Halda í anda húsanna og næsta umhvefis. Þeir vilja að húsin séu aðlöguð nýri tækni og þægindum og fái að gegna nýju hlutverki um ókomna tíð.

Enn aðrir telja að merkileg hús skuli flutt á heppilegri stað eða vistuð á húsasöfnum.

Svo eru þeir sem halda því fram að aðlaga megi öll hús að nýjum þörfum á breytilegum tímum.

Mig langar til þess að nefna tvær byggingar í Danmörku sem urðu fyrir þróuninni og hömluðu framförum þar sem þær áður stóðu. Þær höfðu báðar lifað sjálfa sig og það var ekki not fyrir  þær lengur. Þær stóðu líka í vegi fyrir þróun þess svæðis sem þær stóðu á. En sökum byggingalistarinnar var talið nauðsynlegt að vernda þau og  var miklu kostað til. Þær voru fluttar eins og þær lögðu sig í heilu lagi.

Þetta er annarsvegar Krudttårnet I Frederikshavn og hinsvegar flugstöð Vilhelms Lauritzsen á Klastrupflugvelli.     

Krudttårnet (púðurturninn) í Frederikshavn var byggður úr hlöðnu grjóti á árunum 1686-1690.  Í upphafi var gott rými umhverfis turninn en í aldanna rás þrengdi að honum og hans var ekki notið sem skildi eins og sjá má á ljósmyndinni efst í færslunni..  Árið 1974 var ákveðið að flytja þetta gamla 4500 tonna mannvirki 270 metra vegalengd þangað sem það nyti sín betur. 

Hitt húsið sem dæmi er tekið af er gamla flugstöðin á Kastrup eftir Vilhelm Lauritzen.  Byggingin er eitt besta dæmi í Danmörku um skandinavískan funktíonalisma.

Byggingin var byggð árið 1939.  Hún stóð í vegi fyrir frekari þróun og uppbyggingu á Kastrupflugvelli.  Í stað þess að rífa þessa góðu byggingu var ákveðið að flytja hana. Og í september 1999 var þriggja  hæða steinsteyptri byggingunni rúllað 3,5 kílometra á stað þar sem líkur eru til að hún fái að standa um ókomin ár.

Flugstöðvarbyggingin er ekki aðeins 250 árum yngri en púðurturninn heldur mun léttari og stærri. Flugstöðin er um 4000 fermetrer og vegur 2600 tonn, er 110 metra löng og 26 metra breið. 

Lesa má nánar um flutningin hér:

http://www.cph.dk/CPH/DK/PRESSE/Hvem+Hvad+Hvor/Fakta+ark/VL+terminalens+flytning.htm

Hér að neðan koma nokkrar ljósmyndir af flugstöðinni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Hilmar Gunnarz

    Ég vann skólaverkefni í Prag einhvern tíma. Þar er allt verndað út í ystu æsar í gamla bæjarhlutanum, enda erum við að fjalla um Unesco world heritage site. Mér dettur í hug hvort að það væri athugandi að vernda götumyndir eða bæjarhluta hérna á Íslandi. Kannski er of mikil skammsýni að vernda eingöngu stök hús? Ég er ekkert sérstaklega vel að mér hvað þetta varðar en nafni minn veit eflaust betur. Hvað segir þú um það Hilmar ?

  • Hilmar Gunnarz (3 hefur nokkuð til síns máls varðandi flokkunina en hún er að verulegu marki eins og lýst er. Fólk hefur tilburði til þess að skipa sér í flokka í öllum málum. Líka húsaverndun. Svoleiðis erum við hér á landi. Við ræðum ekki málin og málamiðlum heldur skipum við okkur í flokka með og á móti einhverju svo er bara rifist og slegist þar til annar hvor aðilinn verður undir. Horfið bara á hið háa Alþingi!!

  • Talandi um Völundarhúsið og turn þess. Mér finnst eins og í minningunni hafi ég séð þennann umrædda turn í bakgarði húss einhverstaðar, hugsanlega upp við Rauðavatn. Er þetta möguleiki eða var mig að dreyma ?

  • stefán benediktsson

    Til hamingju með barnabarnið kæri Hilmar. Nú snýst málið um hvaða mannvirki verða eftir handa þessu barni að lesa.

  • Hilmar Gunnarz

    Mér finnst skelfilega skammsýn þessi flokkun á sjónarmiðum manna hvort eigi að rífa, flytja eða breyta. Sama manneskjan getur tekið ólíka afstöðu, eðli málsins samkvæmt. Með þessari færslu fylgja myndir af fallegum byggingum sem væri glæpsamlegt að rífa. Sama gildir um sum tilvik á íslandi. Hinsvegar eru margir af þessum kofum sem við erum að halda upp á, illa samanburðarhæfir við þessi dæmi. Bæjarmyndin og skalinn er svo annað mál.

  • þorgeir jónsson

    Tek undir það sem JS segir. Lykilatriðið við nálgun á endurnotkun gamalla húsa er að aðlaga starfsemina að húsinu, en ekki öfugt. Nútíma tækni og þarfir eru skammtíma fyrirbæri sem eru dvergar í sögu 100 ára aldurs húsa. Gömul og góð mannvirki geta þjónað margvíslegri starfsemi í aldalangri sögu sinni. Frá pakkhúsi til sendráðs.

  • Jón Sveinsson

    Gaman hefði verið að eiga gamla skorsteininn og turninn á Völundarreitnum einhversstaðar í Skuggahverfinu sem er að verða all skuggalegt með svörtum skuggalegum háhýsum.

    Þessi niðurrifsárátta sem sumir nýgræðingar og fjáraflamenn kalla uppbyggingarstefnu hafa talað með stjórnmála- og embættismenn sem sína fótgönguliða.

    Niðurrifsstefnan sem falin var í deiliskipulagsvinnu sem gerð var á fjöldamörgum reitum innan Hringbrautar hefur valdið menningararfinum tjóni.

    Við þurfum að hafna þessu fólki og fara að hlusta á aðrar raddir svo sem Torfusamtökin.

    Fróðlegt að sjá hvað nágranna þjóðir okkar leggja á sig til þessað varðveita úr sér gengnar byggingar á við púðurgeymslu ognánast ónýta flugstöð. Húrra fyrir þeim.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn