Laugardagur 17.08.2013 - 08:02 - 2 ummæli

3. Reykjavíkurflugvöllur

 Sigurður Thoroddsen arkitekt  fjallar hér um Reykjavíkurflugvöll í umfjöllun sinni um flugsamgöngur og skipulag á Íslandi. Á morgun birtist svo grein um flugsamgöngur og Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024

sagarvk

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs og var upphaflega byggður 1941-1942 af breska hernum og þá sem herflugvöllur.  Helstu  forsendur  hersins fyrir staðsetningu hans  voru að   aðdrættir frá Reykjavíkurhöfn þóttu hentugir, auk nálægðar við helstu skipaleiðir stórveldanna. Ári eftir  lok styrjaldarinnar, eða 1946 var hann afhentur íslenskum stjórnvöldum til eignar og afnota.   Frá þeim tíma gegndi flugvöllurinn því hlutverki að vera miðstöð millilanda-  og  innanlandsflugs eða til ársins  1962, að  millilandaflug hófst  um  Keflavíkurflugvöll,   og síðan hefur Reykjavíkurflugvöllur fyrst og fremst  verið  miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs.

Flugvöllurinn er einnig mikilvægur  vegna eftirlits- og björgunarflugs  á vegum Landhelgisgæslunnar  og sem viðkomustaður flugvéla í ferjuflugi  yfir hafið. Þaðan  er ennfremur  stundað kennslu-  einkaflug  og  almenn flugstarfsemi. Á flugvellinum eru 2 flugbrautir  1567 metra (01-19)  og 1230 metra (13-31) langar,  auk þeirrar þriðju 960 sem er metrar (06-24),  en hún er lítið notuð nema við tilteknar veðurfarsaðstæður. 

Við flugvöllinn eru fjölmörg mannvirki og búnaður í tengslum við  flugstarfsemina   s.s. flugstöð, vöruflutningamiðstöð, flugskýli, flugturn,  slökkvistöð, aðstaða Landhelgisgæslu, flugafgreiðsla,  miðstöð flugumsjónar, eldsneytisafgreiðsla,  skrifstofur,  hótel og ýmis önnur aðstaða.  Á  árunum 2000-2002 voru tvær aðalflugbrautirnar endurbyggðar,  auk þess sem bætt var við sérstakri flugvélaakstursbraut austan norður-suður flugbrautar (01-19). Brautarmannvirki eru í góðu standi og þjóna sínu hlutverki vel.

Stjórn skipulags- og byggingarmála á flugvallarsvæðinu eru á hendi Reykjavíkurborgar án beinnar aðkomu flugvallaryfirvalda. . 

-Almennt um þróunina

Fljótlega eftir að flugumferð  tók að aukast  um Reykjavíkurflugvöll hófust umræður um að hann þyrfti að víkja fyrir þróun miðborgarinnar.  Auk nauðsynlegrar  byggðarþróunar voru tíunduð ýmis rök gegn staðsetningu flugvallarins s.s.  hávaði frá flugumferðinni,  slysahætta  og mengun. Þessi umræða hefur staðið  sleitulaust í marga áratugi en án niðurstöðu.

Gerðar hafa verið fjöldamargar athuganir og úttektir  á ýmsum stöðum á Höfuðborgarsvæðinu fyrir nýjan flugvöll,  en allar strandað á  pólitískum vilja og/eða fjárskorti.  Helstu staðir sem hafa verið  skoðaðireru:  Álftanes, Kapelluhraun, Löngusker og Hólmsheiði.

Á Alþingi hefur komið fram andstaða við að Reykjavíkurflugvöllur verðilagður niður og flugstarfseminni komið fyrir annarsstaðar,  auk þess sem sveitarstjórnir á vestur- norður- og austurlandi hafa lýst yfir andstöðu við fyrirhugaðan flutning.  

-Svæðis- og aðal- og deiliskipulagsáætlanir

Unnar hafa verið fjölmargar skipulagsáætlanir fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélög og þar sem  fjallað er  um  Reykjavíkurflugvöll  með ýmsum hætti. Þær helstu eru:

Deiliskipulagáætlun  Reykjavíkurflugvallar, er  frá 1986, og var hún endurskoðuð 1999.  Gerðar hafa verið  3 minniháttar breytingará skipulaginu, en  skipulagsáætlunin er   enn í gildi. Samkvæmt þessum áætlunum er gert ráð fyrir óbreyttu brautarkerfi. Helstu framkvæmdir á grundvelli skipulagsins eru að 2 aðalflugbrautirnar hafa verið endurbyggðar með nýju burðarlagi og   slitlagi. Ennfremur var  byggðný  flugvélaakstursbraut austan brautar 01-19.

Í Aðalskipulagi  Reykjavíkur 1996-2016,  sem staðfest var 19. ágúst 1997 segir efnislega:  Gert er ráð fyrir að  flugbraut (06-24) sem stefnir til suðvesturs, verði lögð niður og kennsluflug flutt á nýjan  flugvöll í nágrenni Höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt verði ferjuflugi beint til Keflavíkurflugvallar, en innanlandsflug verði  áfram um sinn á Reykjavíkurflugvelli. 

 

Myndin efst í færslunni er af gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli.

Sjá einnig

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • „-Svæðis- og aðal- og deiliskipulagsáætlanir“

    Voru uppbygging og undirstöður flugbrauta endurnýjaðar samkvæmt þessum áætlunum og eru þessi deiliskipulög ekki í gildi þar til þeim er breytt?

    Af hverju er ekki búið að byggja flugstöð samkvæmt þessu deiliskipulagi?

    Geta stjórnmálamenn sett stein í götu þróunnar sem þeir hafa sjálfir lagt grunn að?

  • Árni Gunnarsson

    Er gert ráð fyrir innanlandsflugstöð á endurskoðuðu deiliskipulagi frá 1999?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn