Föstudagur 20.12.2013 - 22:19 - 5 ummæli

Nýr Landspítali og heilbrigðisvísindasvið HÍ á Keldum

 

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-content/uploads/sites/58/2013/06/%C3%9Er%C3%B3unar%C3%A1s.jpg

Hér birtist næstsíðasti hluti umfjöllunnar G. Odds Víðissonar arkitekts um byggingaráform Lanspítalans og staðsetningu hans í borgarlandslaginu. Hann fjallar hér um notkun landspítalalóðarinnar ef spítalanum yrði fundinn annar staður. Oddur færir rök fyrir gríðarlegum tækifærum fyrir Landspítalann til langrar framtíðar verði honum fundinn annar staður og hvernig staðsetning að Keldum samræmist markmiðu AR2010-2030 um umferðamál og fl.

4 af 5  Nýr Landspítali og heilbrigðisvísindasviðs HÍ á Keldum

Það er mat mitt að mjög líklega sé hagsmunum Landspítalans, gamla miðbæjarins, nýtingu samgöngumannvirkja, sem og borgarbúa og þjóðarinnar allrar sé best borgið með byggingu nýs Landspítala á svæði Keldna í austurborg Reykjavíkur. Þar sé jafnframt skynsamlegt að byggja upp læknavísindadeild Háskóla Íslands í nýju húsnæði ásamt rannsóknarmiðstöð á sviði heilbrigðisvísinda

Að sama skapi verði lóð spítalans við Hringbraut nýtt undir blandaða landnotkun fyrir íbúðir, þjónustu og skrifstofur, með áherslu á hið fyrst nefnda. Svæðið verði jafnframt skipulagt þannig að það geti virkað sem skipulagslegt bindilím milli eldri byggðar í Þingholtunum og nýrrar byggðar í Vatnsmýrinni.

Keldur eru afar stórt svæði sem geta tekið við öllum framtíðaráformum Landspítalans til langrar framtíðar og eflaust meira til. Nægt rými er til að byggja þar upp tengda starfsemi. Það má jafnvel vel færa rök fyrir því að á svæðinu verði byggð önnur tengd starfsemi sem getur notið góðs af nálægð við Landspítalann, s.s. endurhæfingarstöðvar, hjúkrunarheimili, íbúðir aldraðra og fleira sem skapað gæti samlegð.

Sem væntanlega stærsti vinnustaður landsins mun staðsetning hans á Keldum jafna álag á samgöngukerfi borgarinnar á álagstímum. Starfsfólks spítalans, sem býr í hinum mannmörgu íbúðahverfum austurborgarinnar munu að mestu ferðast innan borgarhlutans á leið sinni til og frá vinnu. Þeir starfsmenn, sem búa í vesturborginni eða nágrannasveitarfélögunum til suðurs munu ferðast „á móti straumnum“ eins og hann er í dag á morgnana, og til baka á kvöldin.

Í austurborginni eru mörg stór íbúðahverfi þar sem starfsmönnum bjóðast íbúðir á viðráðanlegra verði en á mörgum öðrum stöðum í borginn. Þeim er því gefinn kostur á að búa í næsta nágrenni við vinnustað sinn og þurfa þar af leiðandi ekki að ferðast yfir hálfa borgina á leið til og frá vinnu. Lífsgæði þeirra aukast fyrir vikið.

Unnt er að lækka byggingarkostnað verulega með því að sleppa bílakjallara og leysa þörf fyrir bílastæði með hefðbundnum yfirborðsbílastæðum.  Þau má vel gera aðlaðandi og fella inn í landslagið. Seinna meir mætti byggja bílastæðahús ofanjarðar , en þau eru hagkvæmari í uppbyggingu og rekstri en kjallari.

Starfsemi Tilraunastöðvarinnar á Keldum og framtíð hennar.

Í dag er rekin Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Það er sérstofnun sem tengist læknadeild HÍ, en hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag (www.keldur.hi.is). Þar eru stundaðar grunn- og þjónusturannsóknir í líffærameinafræði, örverufræði, ónæmisfræði, sníkjudýrafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði í bæði líf- og læknisfræði bæði dýra og manna.

Ýmislegt virðist mæla með því að sá hluti Tilraunastöðvarinnar sem snýr að líftæknilegum- og læknisfræðilegum rannsóknum í dýrum geti t.d.  flust og samþættur starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, eða annan hentugri stað. Þar eru í dag stundaðar fjölþættar rannsóknir er lúta að meðferð, ræktun og nýtingu lands, búfjár og ferskvatnsdýra til framleiðslu matvæla og annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar, þ.á.m. í sameindaerfðafræði. Það er þó auðvitað algerlega háð áliti sérfræðinga stöðvarinnar og tengdra aðila hvort slíkt sé gerlegt eða æskilegt. Með því væri hægt að byggja upp stórt þekkingarþorp fyrir heilbrigðisvísindi á Keldum. Þar væru saman komin nýr Landspítali, heilbrigðisvísindadeildir Háskóla Íslands og rannsóknarmiðstöð í líftækni- og læknavísinum ásamt annarri tengdri starfsemi með nægu rými til stækkunar og útvíkkunar til langrar framtíðar.

Efst í færslunni er kort sem sýnir hvernig fyrirhugaður samgönguás, AR2010-2030, gengur eftir endilangri borginni og tengir hana saman frá Vesturbugt að Keldum. Þarna er gert ráð fyrir fyrsta flokks vistvænum alenningssamgöngum sem binda mun borgina saman. Ef grant er skðað verður mönnum ljóst að núverandi lóð Landspítalans við Hringbraut tengist ekki þessum samgönguás. Enn alvarlegra er að  fyrirhuguð samgöngumiðstöð er ekki í tengslum við samgönguásinn. Það læðist að manni sá grunur að staðsetning samgöngumiðstöðvarinnar sé að mestu ákveðin á forsendum spítalans sem aftur er í ósamræmi við aðlskipulagið. Þannig má með rökum halda því fram að spítalinn og staðsetning hans sé helsta ógnun við hið bráðgóða og framsýna AR 2010-2030 sem nú er í rýni hjá Skipulagsstofnun.

Sjá einnig :


http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Sigríður Jónsdóttir

    Þessi samgönguás á eftir að gjörbreyta borginni og ferðamáta innan hennar. Ég finn ekkert um þetta annarstaðar en á „Arkitektúr,Skipulag og Staðarprýði“. Eru einhverjar slóðir til þar sem hægt er að skoða þetta betur?. Svo væri gaman að vita hvort þessi samgönguás hafi verið á teikniborðinu þegar staðarval fyrir spítalann fór fram og ákvörðun tekin?

  • Þorgeir Jónsson

    Keldur er ekki hentugur staður fyrir spítala .þar sem hæðarlega lands er of brött. Auk þess er aðkoma þyrlu yfir íbúðarsvæði Grafarvogs varasöm. Mun betri lausn er svæðið við Elliðaárnar og steypustöðina. Það svæði liggur betur við samgöngum og er á sléttlendi. Hefur mikla stækkunarmöguleika og er miðsvæðis í borginni. Auk þess er hægt að byggja sjúkrahús sem sameinar öll sjúkrahús og endurhæfingarmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu á einn aðgengilegan stað til frambúðar næstu 200 árin, Truflunarlaust.

  • Málefnalegt og sannfærandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn