Föstudagur 26.01.2018 - 11:26 - 9 ummæli

Að fanga staðarandann

Það er ekki öllum arkitektum gefið að kunna að fanga staðarandann. Nýlega voru kynntar hugmyndir arkitekta varðandi nýbyggingar við Framnesveg 40-42, þar sem þetta hefur tekist.

Þegar horft er á myndina efst í færslunni sést að tekið er tillit til nokkurra grundvallaratriða í götumyndinni. Húsalengdinni er skipt niður þannig að hún er af svipaðri lengd og önnur hús í götunni, gluggarnir eru ekki gluggabönd eða stórir glerflekar eins og algengt er í nýbyggingum heldur göt í heillegum veggjunum. Húsahæðin er í samræmi við þau hús sem næst standa og það er halli á þökum.

Það þarf oft ekki mikið til svo byggingar falli að umhverfi sínu eins og kveðið er á um í Aðakskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Það þarf að lesa umhverfið, skilgreina kosti þess og galla. Hanna svo inn í umhverfið á þess forsendum og reyna að draga úr göllum þess og styrkja kosti þess.

Til þess að auka landnýtinguna eru húsin dýpri og það eru settir stórir þakkvistir þar sem komið er fyrir myndarlegum íbúðum eins og sjá má á tölvumyndum að neðan.

Það dylst engum sem þarna á leið um að þetta eru ný hús, byggð 2018 en þau breyta ekki anda staðarins, heldur styrkja hann.

Húsin eru teiknuð af arkitektastofunni Arkþing í Reykjavík fyrir fasteignafélagið Grunn. Innanhússhönnun er unnin af Berglindi Berndsen og Helgu Sigurbjarnardóttur innanhússarkitektum.  Í húsunum eru 9 íbúðir, 50-100 m2.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Birkir Ingibjartsson

    Þetta er nú alveg ágætlega pent eins og bent er á. Hinsvegar sakna ég þess að uppbygginaraðilar og skipulagssvið borgarinnar hafi ekki haft kjark til að bæta við einni hæð við húsin. Það hefði kallað á að húsin ofar í brekkunni hefðu þurft með tímanum að bæta við sinni aukahæð og þannig lokið við götuhorn Framnesvegar og Holtsgötu þar sem öll hin húsin er 3 hæðir eða meira. Það er að mínu mati hinn rétti staðarandi á þessu horni.

    Mér þykir þessi einfalda uppbygging því vera tapað tækifæri til einfaldrar meiri þéttingar byggðar en til stendur og sömuleiðis tapað tækifæri til þess að setja af stað ferli til að ljúka við þá borgarmynd sem þarna hefur upphaflega átt að rísa.

    • Hilmar Þór

      Ætli það séu ekki um 500 arkitektar á Íslandi?

      Ég fullyrði að engir tveir þeirra hefðu túlkað umhverfið nákvæmlega eins og lágt áherslur á sömu atriðin.

      Það eru fleiri lausnir á þessu verkefni en arkitektarnir eru í öllum heiminum.

      Aðalmálið er ekki það.

      Heldur hitt að hér er lausnin sprottin úr næsta umhverfi. Þetta er Regionalismi eða staðbundinn arkitektúr.

      Þessi hús hefðu hverfi getað sttaðið í Frakklandi eða á Ítalíu,

      Þau geta bara staðið í Reykjavík og ekki einu sinn allstaðar í Reykjavík.

      Þau hefðu getaðstaðið á nokkruum stöðum innan Hringbrautar en alls ekki allstaðar.

      Þetta er inntak pistilsins svo ég umorði boðskapinn svoldið.

  • Hilmar Gunnarsson

    Ég ætla mér ekki að hafa skoðun á arkitektúrnum, heldur hrósa glæsilegri þrívíddarvinnslu / grafík.

    • Hilmar Þór

      Jú nafni, grafíkkin er fín og vissulega eru skoðanir skiptar hvað byggingalistina varðar. En það sem ég er að benda á er vissan samnefnara er að finna í þessu við næsta umhverfi. Ég er ekki að halda fram að þetta sé framúrskarandi byggingalist. Heldur að hún endurspegli skilning höfunda á næsta umhverfi.

  • Gunnlaugur Stefan Baldursson

    Einfaldleikinn er alltaf til góðs ef hann er tær.
    En hann er hér skertur verulega með mismun á halla þakanna hjá eldri og nýju húsunum og kvistum,sem drottna með frekju yfir götumynd og líka í bakgarði.Þeir verka þannig ,að húsin verða framandi á staðum.

  • Magnús Skúlason

    Þetta er jákvætt eins og Hilmar segir. Það þarf ekki mikið til að skynja staðarandann. Þarna eru reyndar ekki Hafnarfjarðarkvistir, þeir eru samfelldir yfir all þakið. Hins vegar eru þeir dáldið klossaðir sérstaklega að götu.
    Eitt skil ég ekki alveg, afhverju er ekki sami þakhalli á á nýju húsunum og þeim eldri. Eðlilegt er í halla að mænir stallist upp. Þarna er þakhalla breytt til að mænar passi saman.

  • Gunnar Gunnarsson

    Húsin virðast smá portbyggð. Líklega svona 70cm. Það bjargar málum. En kvistirnir eru eins og þeir hafi verið byggðir eftir á (?) Það er kannski meiningin að þeir líti svoleiðis út. Þetta eru svona Hafnarfjarðarkvistir.

  • Helgi Jónsson

    Þarna er á ferðinni lítillæti og hógværa og jafnvel blíðynda byggingu. Maður sér of lítið af svona. En eitt er víst að þetta kemur ekki í alþjóðlegu arkitektatímaritin sem bygging en Framnesvegurinn á möguleika á að vekja athygli útfyrir borgarmörkin fyrir fallega götumynd.

    • Sigrún Gunnarsdóttir

      Ég er sammála þessu. Arkitektar og húsbyggjendur eru oft svolítið frekir til umhverfisins þegar horft er á götumyndir. Lítillæti er vanmetið í byggingalistinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn