Miðvikudagur 28.12.2011 - 20:44 - 14 ummæli

Aðalskipulag Reykjavíkur –Stofnbrautir -Flugvöllur

Ég veit ekki hvort fólk almennt áttar sig á því að í öllum sveitarfélögum eru í gildi aðalskipulag sem hefur meiri áhrif á hag þess en flesta grunar. 

 Aðalskipulög hafa nánast stöðu lagasetningar og vega mjög þungt. T.a.m. er aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 undirritað af borgarstjóranum í Reykjavík, skipulagsstjóra ríkisins og umhverfisráðherra ásamt vottum. 

Þannig er þetta í öllum sveitarfélögum.

Þó aðalskipulag sé í stöðugri endurskoðun þarf að fara varlega í allar breytingar.

Ég læt hér fylgja tvær myndir af gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.

Á annarri má lesa að gert er ráð fyrir undirgöngum fyrir stofnbraut undir Skólavörðuholtið og annarri undir Öskjuhlíð og áfram undir Digranesháls (Kópavog) og alla leið í Smáralindina. Miklabraut er lögð i stokk á móts við Klambratún. Þarna má einnig sjá að gert er ráð fyrir Sundabraut um Gufunes og Geldinganes alla leið í Gunnunes. Íbúar og fjárfestar vænta mikils af þessum áformum. Þessi framtíðarsýn aðalskipulagsins til ársins 2024 ætti að hafa veruleg áhrif á fasteignaverð eigna sem tengjast þessum svæðum o.fl.

Hin myndin sýnir landnotkun í Vatnsmýri eftir aðeins 4 ár.

Gert er ráð fyrir að flugvöllur í Vatnsmýri víki alfarið á tímabilinu til 2024 í tveim áföngum.  Sá fyrri eftir aðeins 4 ár. Það merkilega við þetta er að ekki er gert ráð fyrir í aðalskipulaginu að eitthvað komi í stað flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Þetta er sérstaklega merkilegt fyrir þær sakir að í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að Reykjavík sé höfuðborg allra landsmanna og miðstöð stjórnsýslu, viðskipta og samgangna. Hvernig er  hægt að vera miðstöð samgangna án flugvallar?

Stefnt er að því að byrja á því að leggja niður eina flugbraut af tveim eftir aðeins 4 ár.

Ég veit ekki hvort þetta er áhyggjuefni, en allavega er þetta umhugsunarefni.

 Og svo þegar horft er á teikninguna af göngum undir Skólavörðuholt og Öskjuhlíð alla leið í Smáralind fyrir utan metnaðarfulla Sundabraut, þá veltir maður því fyrir sér hvort þessi framtíðarsýn hafi verið forsenda staðsetningar Landsspítala við Hringbraut?  Og ef ég man rétt þá var staðsetning flugvallar í Vatnsmýri ein af forsendum fyrir staðsetningu sjúkrahússins.

En flugvöllurinn er á förum samkvæmt skipulaginu!

Því miður.

Það er fróðlegt og nauðsynlegt að rýna í nákvæmt  aðalskipulagskort af Reykjavík sem hægt að nálgast á þessari slóð :

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/vefur_2010/skjol/Adalskipulag_framhlid.pdf

Til vinstri er núverandi staða og til hægri er Vatsmýrin árið 2016 samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Þangað til eru aðeins 4 ár.  Myndirnar eru fengnar úr Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Þjóðin hefur vel efni á að leggja niður flugvöllinn og/eða byggja nýjann. Fyrir utan að hún vill það, enda skynsamlegt á flesta lund. Aðeins mjög hávær minnihluti reykvíkinga vilja völlin þar!
    Þessi flugvallarumræða er DAUÐ!

    Til allra hamingju víkur þetta skaðræðis bákn!

  • Alli er raunsær. Þjóðin hefur ekki efni á því að leggja niður flugvöllinn og/eða byggja nýjann. Fyrir utan að hún vill það ekki, enda óskynsamlegt á flesta lund. Aðeins hávær minnihluti reykvíkinga vilja völlinn burt.
    Þessi flugvallarumræða er dauð.

  • getum við ekki farið að hætta með þessar flugvallabrotthvarfsfantasíur, hann fer hvergi, þjóðin vill það ekki.

  • Þorsteinn G.

    Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð þetta merkilega aðalskipulagskort fyrr en nú og er orðinn margs vísari.

    Ef rýnt er í kortið af aðalskipulaginu hverfa allar áhyggjur af umferðamálum vegna Landspítala. Göng undir Þingholtin að Sæbraut og önnur göng undir Öskjuhlíð með mislægum gatnamótum við Kringlumýrarbraut og áfram undir Kópavog alla leið að Reykjanesbraut greiða braut einkabílsins verulega. Miklabraut í göng og mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut auka afköst Miklubrautar verulega. Við þetta bætist að Bústaðavegurinn verður mjög efldur, sennilega með tvöföldum eða þreföldum afköstum og sett mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut.

    Þannig að umferð að sjúkrahúsinu er stórbætt samkvæmt aðalskipulaginu og ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af því.

    Þetta kemur fram í uppdrættinum sem þessi slóð vísar til.

    http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/vefur_2010/skjol/Adalskipulag_framhlid.pdf

    En það er líka augljóst að skipulagið gengur út á að auka vægi einkabílsins í samgöngumálum. Það er ekki í anda umræðunnar og þróunarinnar í nálægum vestrænum borgum. Þvert á móti.

  • Steinarr Kr.

    Magnús, það taka ekki nándar nærri allir rútuna, en þess utan áhugaverðar tölur.

  • @Sigurður

    Ertu viss? Hvað fara margir með innanlandsfluginu? hvað koma margir til reykjavíkur frá keflavík og hvað kostar rútumiðin á keflavíkurvöll.

    eða

    738.000+750.000 x (3500) = 5.208.000.000

    Ekki segja mér að það sé ekki hægt að gera eitthvað áhugavert við svona upphæðir.

    heimild. http://www.flybus.is, http://www.isavia.is

  • Sigurður Einarsson

    Magnús
    Er pistlahöfundur ekki að tala um stórreykjavikursvæðið? Hinsvegar ef Keflavík á að heyra með í því þarf að ráðast ikostnaðarsamar framkvæmdir sem aldrei munu skila sér.

    Ég vil líka nota tækifærið í tilefni áramóta og þakka þessa líflegu pistla.

  • Jón
    Er þá tími vandamálanna að renna upp?

  • Árni Ólafsson

    Höfuðborg þarf að vera samgöngumiðja landsins. Færist samgöngumiðjan er rétt að flytja meginstofnanir samfélagsins með.

  • Á íbúafundi í Suðurhlíðum áður en neðsta fjölbýlishúsið var byggt var Stefáni Hermannssyni bent sérstaklega á þetta með gangamunnann.
    Hans svar var: „Það er seinni tíma vandamál.“

  • „Þetta er sérstaklega merkilegt fyrir þær sakir að í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að Reykjavík sé höfuðborg allra landsmanna og miðstöð stjórnsýslu, viðskipta og samgangna. Hvernig er hægt að vera miðstöð samgangna án flugvallar?“

    En hver eru mörk höfuðborgarsvæðisins? Er Keflavík ekki innan höfuðborgarsvæðisins? Síðan er það líka hugmyndin sem Hrafn Gunnlaugsson setti fram um árið að búa innanlandsfluginu stað á uppfyllingu í skerjagarðinum. Ég verð að segja að mér finnst það góð hugmynd.

    Með byggðum flugvelli á uppfyllingu sem má hanna eins og flugmóðurskip. Þ.e. flugskýlin yrðu undir flugbrautunum ásamt borðgöngu og hleðslu. Aðkoman að flugvellinum yrði þá frá Skerjanesi, Álftanesi með tengingu við Kópavog.

    Að lokum þakka ég fyrir góða pistla á árinu og vona að fá að njóta pistla yðar áfram á komandi ári. Með ósk um gleðilegt og farsælt komandi ár.

  • Nói í Nóatúnum

    Gangamunni

    en ekki gangnamunni.

    Við erum að tala um göng en ekki göngur.

  • Ætli fólkið sem býr í blokkinni syðst í Suðurhlíðum niður við Fossvog átti sig á að fyrir framan húsið kemur sennilega gangnamunni fyrir stofnbraut sem mætir Hafnarfjarðarvegi í mislægum gatnamótum? Úfff. Þessi pistill er góð ábending um að skoða vel aðal- og deiliskipulag áður en fjárfesting á sér stað. Samkvæmt þessu aðalskipulagi er gott kauptækifæri í fjölbýlishúsunum á Miklubraut við Klambratún og í eignum nálægt Gufunesi og alla leið upp í Mosfellsbæ.

  • Jóhann E.

    Storar hugmyndir hér á ferð sem bera með sér draumóra um skýjaborgir „góðærisins“. Eða eru þetta kannski ekki hugmyndir heldur alvarlegar þaulhugsðar áætlanir sem borgin er nánast skuldbundin til þess að fylgja?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn