Föstudagur 07.09.2012 - 08:35 - 12 ummæli

„Aðalskipulagið og raunveruleikinn“

 

 

Fyrir 33 árum, í júní 1979,  flutti Stefán Thors arkitekt, stórgott erindi um skipulagsmál á ráðstefnu á vegum Lífs & lands.  Stefán sem var félagi minn á Akademíunni í Kaupmannahöfn var ekki orðinn þrítugur þegar hann flutti erindið, varð síðar skipulagsstjóri ríkisins.

Fyrirlesturinn,  sem  Stefáns gaf nafnið  „Aðalskipulagið og raunveruleikinn“, á enn fullt erindi inn í umræðuna og leyfi ég mér því að birta örstutt brot úr honum.

Gefum stefáni orðið:

„Í Reykjavík háttar því þannig til, að um það bil 90% atvinnuhúsnæðis er vestan Elliðaáa og um 65% vestan Kringlumýrarbrautar. Ef litið er á kort af Reykjavík sést greinilega að sá hluti borgarinnar, sem er vestan Elliðaáa, er á tiltölulega þröngu nesi og því erfitt að ímynda sér það sem rétta stefnu, að stærstur hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins þurfi að sækja vinnu sína út á þetta nes.

Þá komum við að öðrum þætti aðalskipulagsins, þar sem forsendur hafa breyst mikið, en áætlanir lítið, en það er gatnakerfið.

Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir ótakmarkaðri notkun einkabílsins með öllu tilheyrandi. Það hefur hinsvegar komið í ljós, að aukning umferðar var ofáætluð, þannig að mörg þeirra umferðamannvirkja, sem áætluð voru eru óþörf, sérstaklega, ef stefnt verður að því að fjölga atvinnutækifærum í austurhluta borgarinnar og íbúðum í vesturhlutanum.  Að vísu kvarta margir undan því hve erfitt sé að komast akandi úr Breuiðholtinu vestur á nes á annatímum,  svo ekki sé talað um bílastæðavandamálið í miðbænum,  sem á að sjálfsögðu sinn þátt í því, að meðalnotkun á hvern einkabíl hefur minnkað.

Við verðum líka að fara að átta okkur á því, að við búum í borg og hún verður ekki lífvænlegri með stórauknum umferðamannvirkjum, hávaða og mengun, heldur með ákveðinni þéttingu byggðar,  jafnari dreifingu atvinnutækifæra, miðbæ með miðbæjarstarfssemi og verulegu átaki í almenningsvagnakerfinu.

Úr þessum vandamálum hlýtur að vera hægt að leysa, án þess að milljörðum sé varið í umferðamannvirki.“

Síðan þessi hvatningarorð Stefáns Thors um þéttingu byggðar og skynsamlegri dreifingu atvinnutækifæra hefur Grafarvogshverfið verið byggt, Grafarholtið, Norðlingaholt og byrjað á Ulfarsárdal svo einungis úthverfi Reykjavíkur séu nefnd.

Einhverstaðar áttu þó þéttingar sér stað. Ég nefni Suðurhlíðar, Laugarás og  BÚR-lóð.

Ráðstefnan sem haldin var á Kjarvalsstöðum fyrir 33 árum var fjölmenn og meðal þeirra sem fluttu þar erindi voru; Birgir Ísleifur Gunnarsson, Björn Bjarnason, Ólafur Davíðsson, Eiður Guðnason, Þórður Þ Þorbjarnarson, Bjarki Jóhannesson, Þorsteinn Gunnarsson og m.fl. Erindin í heild sinni er hægt að finna í heftinu „Maður og Borg“ sem á að vera aðgengilegt á betri bókasöfnum og gefið var út af Líf og Land.

Efst í færslunni er mynd sem sýnir hvernig höfundar aðalskipulagsins 1962 sáu fyrir sér Ingólfstorg í framtíðinni. Þekkja má Morgunblaðshúsið, Aðalstræti 6 til vinstri á myndinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Árni Ólafsson

    Góð upprifjun.
    Ég vil tengja þetta við Landspítalaumræðuna. Þar hefur lítið verið rætt um þá möguleika sem felast í nýtingu fyrirhugaðs byggingarsvæðis við Hringbraut undir annað en hátæknisjúkrahús. Mér sýnist svæðið sem „varð til“ við flutning Hringbrautarinnar mjög áhugavert sem blönduð þétt íbúðarbyggð í beinum tengslum við miðborgina – mun verðmætara land og áhugaverðara í því samhengi en flugvallarsvæðið, sem aldrei mun geta tengst miðborginni beint. Auk þess er það aðgengilegt – að því gefnu að hátæknisjúkrahúsið byggist upp austar – t.d. í Fossvogi eða á Ártúnshöfða.
    Þarna er skynsamlegur þéttingarkostur. Allt sem þarf er vilji til þess að hætta við slæmar áætlanir.
    Svæðið yrði prófsteinn á það hvort borgin ráði við það verkefni að byggja upp lifandi, samfellda og fjölbreytta bæjarmynd, fyrirbrigði sem ekki hefur verið byggt hér á landi eftir stríð.

    • Hallgrímur G.

      Ég er sammála Árna og Stefáni Thors. Ef vandamál nessins er skoðað þá er helsta vandamálið það sama og fyrir 33 árum: ójafnvægi milli atvinnuhúsnæðis og íbúðahúsnæðis. Það leiðréttir maður ekki með spítalabyggingu þarna heldur ibúðabyggð!

    • Hilmar Þór

      Ég verð að taka undir með Stefáni, Árna og Hallgrími. Við þurfum að skapa jafnvægi byggðinni til þess að minnka einkabílaumferð m.m.

      Varðandi staðsetningu spítalans þá liggur það fyrir í greinargerð diliskipulagsins að staðurinn er valinn vegna nálægðar við Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Íslenskrar Erfðagreiningar.

      En ekki útfrá almennum hagsmunum og hagsmunum borgarlandslagsins,

      Ef horft væri á staðinn út frá hagsmunum heildarinnar (þ.m.t. HÍ, HR, IE og sjálfs spítalans) er ekki nokkur vafi í mínum huga að annar staðður yrði valinn fyrir spítalann og þessir um 20 ha sem ætlaður er fyrir LSH notaðir til íbúðabygginga.

      Á svæðinu væri hægt að koma fyrir um 1000 íbúðim í lágri þéttri byggð.

      Þetta deiliskipulag spítalans er að mínu mati tóm vitleysa.

  • Hörður J.

    Flott þéttingarverkefnin sem nú eru á döfinni. Þetta sem er í blaðinu í dag, Busetaverkefnið er frábært. Bara í guðanna bænum látið flugvöllinn í friði. Hvað sagði Stefán Thors um hann fyrir 33 árum

  • Elín Sigurðardóttir

    „Gistihúsaskorturinn hér á landi er á allra vitorði, og er eitt þeirra mála, sem leysa þarf hið fyrsta, enda einn liður í áætlun okkar um að koma fjármálum okkar á réttan kjöl. Því hefur ávallt verið borið við, að skammsýni stjórnvalda, eða aðrir örðugleikar, hafi verið steinn í götu þeirra manna sem hafa viljað ganga fram fyrir skjöldu í þessum málum. Ef til vill má þetta til sanns vegar færa, því að víst er að ekki færri en átta aðilar hafa farið fram á það við stjórnvöldin að fá að byggja gistihús og hafa allir látið gera uppdrátt af þeim.“ (Sjá Vísi 1. febrúar 1960:4).

  • Mér finnst þetta skynsamlega mælt hjá Stefáni .. samt erum við enn að tala um að dreifa byggð í stað þess að nýta þau mannvirki (og reyndar allan infrastrúktúr) sem við höfum, þrátt fyrir allt, byggt á síðustu áratugum. Menn verða líka að átta sig á því að þétting byggðar krefst viðhorfsbreytingar. Þrátt fyrir að 30 ár séu liðin frá þessum fyrirlestri þá höfum við ekki lært mikið. Við erum td. enn að hlægja að kröfum um auknar almenningssamgöngur og öðrum kostum en einkabíl í samgöngum innanbæjar.

  • Erum við alltaf á sama stað í skipulagsumræðunni?

    Er engin samanhangandi þróun í stóru myndinni?

    Nei. allavega ekki síðustu 33 árin

    Furðulegt

  • Þéttingin er aðeins að potast áfram. Sjáið bara Búseta i Þverholt og stúdentagarða við HÍ svo maður gleymi ekki Ingólfstorgi

  • stefan benediktsson

    Var að lesa mjög góða grein í norsku arkitektablaði í norræna Húsinu í gær. Greinin fjallaði um reynslu norðmanna af þéttingu byggðar.
    Heildarniðurstaðan er að reynslan sé góð en farið vel yfir þær hættur sem felast í þéttingu.
    Þær hættur benti J.Jacobs reyndar strax á í Life and death…(og síðar í fleiri bókum) og felast aðallega í að stýra verður húsnæðisframboði og tryggja góðar almenningssamgöngur.
    Eins merkilegt og framlag J.J: er til skipulagsvísinda er sorglegt hvað hún er slakur rithöfundur.

  • Hilmar Þór

    Mig langar til þess að segja frá því af tilefni þessarrar færslu að á Akademíunni í Kaupmannahöfn um og uppúr 1970 var lögð áhersla á gagnrýni á allt sem gert var. Því var meira að segja haldið fram af sumum að sá arkitekt sem ekki er “samfundskritiker” (gagnrýninn á umhverfið) væri enginn arkitekt. Þetta kom fram í viðhorfum okkar nemanna til allra hluta þegar út á vinnumarkaðinn var komið. Við spurðum hiklaust gagnrýnna spurninga og leituðum félagslegra lausna. Svona er þetta líklega ennþá þó ég verði ekki mikið var við áreiti arkitekta við ríkjandi stefnur í arkitektúr og skipulagi.

    • Einar Jóhannsson

      Af hverju hélduð þið ekki áfram að vera gagnrýninn. Af hverju fór úr ykkur allur kraftur. Af hverju hélduð þið ekki áfram andófi gegn útþennslunni, einkabílismanum og bara allskonar?

    • Hilmar Þór

      Ætli það sé ekki brauðstritið og líka hitt að klíkusamfélagið í okkar litla samfélagi bar okkur ofurliði.

      Ástandið var líka þannig alveg fram yfir Hrun að þeir sem voru með einhverjar efasemdir um þróunina í skipulagi og arkitektúr voru litnir hornauga.

      Nú er þetta breytt og fólk beinlínis óskar eftir meiri samfélagslegri gagnrýni í byggingar og skipulagsmálum.

      Þessi breyting er eitt af því jákvæða sem fyldi í kjölfar Hrunsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn