Þriðjudagur 04.09.2012 - 14:30 - 21 ummæli

Hittumst á horninu-Söguvernd

 

Myndin að ofan kom í hugan þegar Stefán Örn Stefánsson arkitekt flutti erindi sitt á málþingi sem haldið var s.l. laugardag í Norræna Húsinu.

Málþingið var undir yfirskriftinni “Gamli og nýi tíminn hittast á horninu” og var þar fjallað um hvernig nýr og gamall arkitektúr mætast m.m.

Stefán Örn fór yfir merka sögu hússins Austurstræti 22 og  endurbyggingu þess.

Hann stimplaði inn í mann mikilvægi sögunnar. Maður skildi að skilti sem skrúfað er á nýbyggingi sem í stuttu máli stendur “Á þessum stað stóð……. o.s.frv” væri engan vegin ásættanlegt.  Maður þarf og verður að viðhalda sögulegu samhengi hlutanna í byggingarlistinni.

Leiðsögumaðurinn á skopmynd Bo Bojesen frá 1959 segir  “Ladies and gentlemen: Her lå Köbenhavn”. Þessi skopteikning var liður í umræðu sem gekk í Danmörku fyrir meira en 50 árum.  Umræðan breytti viðhorfum dana til sögulegrar nálgunar.  Nú eru hinsvegar blikur á lofti í þessum efnum.

Á myndinn neðst í færslunni er önnur skopmynd frá árinu 1960 eftir sama höfund þar sem gömlu húsin eru fyrir þeim nýju og er rutt burt. Þessar tvær teikningar eru á sama tíma skemmtilegar og grafalvarlegar.

Á málþinginu hélt Hjörleifur Stefánsson arkitekt erindi og fullyrti að fólki liði vel og vildi helst vera í umhverfi sem væri í sögulegu samhengi. Ég tek undir með honum og tel þetta rétt. Hann sýndi líka hvernig auka megi byggingarmagnið án þess að rífa það sem fyrir er.

Steve Christer arkitekt var einnig með erindi og tók dæmi af endurbyggðum mannvirkjum sem njóta fullkominnar aðdáunnar þeirra sem þær skoða. Það er Barcelonaskáli Mies frá 1929 og sjálft Stonhange frá því 3000 árum fyrir kristburð.

Þessir þrír arkitektar komu að uppbyggingu á horni Lækjargötu og Austurstrætis og luku þvi verki svo aðdáun vekur langt út fyrir landsteinanna.

Þessi nálgun þeirra félaga er dásömuð af leikmönnum en meðal arkitekta eru skiptar skoðanir  og hún talin sögufölsun af allmörgum. Ég skil ekki af hverju, en það læðist að manni sá grunur að þetta bil milli almennings og arkitektanna stafi að einhverjum hluta af uppeldi arkitektanna í skólunum.

Fyrir nokkrum misserum var BA verkefni arkitektúrnema í Listaháskóla Ísland  að byggja hús á horni Vonarstrætis og Lækjargötu. Nemarnir sýndu verk sitt í stóru samhengi og teiknuðu götuhlið Lækjargötu frá Tjörn alla leið norðurfyrir Hörpu. Þetta var stórt hugsað hjá unga fólkinu en ekki var að sjá á niðurstöðunni að þau tækju mikið tillit til umhverfissins í tillögugerðinni.

Það vakti líka athygli mína að í stað þess að teikna húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu inná myndina voru teiknaðir byggingakranar.

Þetta vakti athygli mína vegna þess að húsin voru komin nokkuð áleiðis í byggingu svo ég tók nemana tali.

Ég spurði af hverju þau teiknuðu ekki inn þessar byggingar sem voru að rísa til þess að fullkomna myndina?

Þau svöruðu því til að þau skildu ekki  nálgun arkitektanna þarna á horninu. Þar með var það afgreitt. Og þetta létu leiðbeinendur þeirra viðgangast og byggingakranar settir á teikninguna í stað fullhannaðra húsanna. Þetta átti við um tillögur allra verkanna sem voru að mig minnir 14 og sýndi auðvitað mikla einsleitni i hugarfari, kannski þröngsýni.

Ég vona að eitthvað af þessu unga fólki og leiðbeiendur þeirra hafi hlustað á erindin í Norræna Húsinu um helgina og kannski skilið eitthvað í nálguninni. Ég sá reyndar engann en það er önnur saga.

 

 

 Umræddar byggingar á horni Austurstrætis og Lækjargötu fullbúnar.

 

 Þriðju verðlaun í samkeppni um Ingólfstorg; Sögufölsun eða aðlögun?

To be or not to be Copenhagen….Reykjavík or what ever!!!

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Guðjón Erlendsson

    Það er kannski þörf á að setja upp kennarahúfuna.
    Þegar ég og aðrir setja rök fyrir því að byggingar uppfylli þarfir nútímans (og einhverrar framtíðar) þá er ekki verið að tala um einhvern stíl, eða -isma eins og sumir kalla það með niðrandi tón, haldandi að list-kenningar séu einshverslags jólaskraut.

    Það sem er verið að tala um eru þarfir samfélagsins og breytingar sem hafa orðið í lífsstíl og tækni. Samfélagið er allt annað núna en fyrir 150 árum síðan. Notendur setja fram kröfur um einangrun húsa, upphitun, rafmagn, inniklósett, baðaðstöðu ofl. Umhverfisvitund setur fram kröfur um efnisval, fjölbreytt lífríki (græn þök t.d.), sorphirðu, skólpheynsun os.frv. Á stærri mælikvarðanum þá búa Íslendingar ekki lengur uppí sveit. Þörfin er því á borgarumhverfi sem býður upp á þann lífsstíl sem nútíma manneskja krefst. Þjónustu (og þar með þéttleika byggðar), auðveldum samgöngum, hreynu lofti og vatni, os.frv. Allt þetta hefur áhfir á hvernig byggingar eru hannaðar og byggðar; byggingartækni, stærðarhlutföll ofl. ofl.

    Það er þar með ekki verið að segja að eigendur bygginga geti ekki hent einhverju skrauti á þær til að þær geti tjáð umhverfinu næstu áratugina hvert gildismat eigandans sé. Þar er komið að -ismanum hræðilega.

    Módernisminn sem sumir telja svo hræðilegan, var svar byggingarlistarinnar við iðnaðarsamfélaginu. Í raun 100 árum of seint. Byggingariðnaðurinn eins og annar iðnaður var fyrir löngu undirlagður af fjöldaframleiðslu úr standard hlutum. Módernisminn, allavegana í byrjum, var viðbrögð arkitekta við þessum aðstæðum. Sem fegurðarsjónarmið litu þeir á verksmiður sem musteri nútímans, og hönnuðu byggingar sem verksmiður. Heimili voru verksmiðjur til að lifa í. Auðvita var margt lélegt, enda hefur meirihluti nýbygginga verið illa hannaður alla tíð. En það var margt gott líka og það eru nýmörg dæmu um vel hannaðar Módernista byggingar á Íslandi.
    Póst Módernisminn var síðan fyrsta viðspyrnan gegn þessu. Heimili eru ekki verksmiðjur, óperur eða listasöfn ekki heldur. Póst Módernisminn var tilraun til að rífa niður allann -isma, allar listareglur. Ef þú vilt byggja hús og klína á það grískum súlum og Japönsku þaki, þá er það í fínu lagi. Arkitektar á síðari hluta 20stu aldar snérist síðan hugur og merkti PóstMó sem hámark smekkleysunnar. Það er kannski aftur að breytast þessi árin.

    Í dag er þessi alþjóðavædda og einslæga stefna í lista kenningum að hverfa. Hver staðir og hönnuðir fylgja mismunandi stefnum. Sumir leita að listsýn í umhverfisstefnunni, aðrir í efnisvali, og enn aðrir í hátækni tölvuvæðingarinnar. Fjölbreytileikinn er það eina sem er ráðandi.

    Verndun bygginga er gert fyrir núlifandi kynslóð, nýbyggingar eru hannaðar fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Hér er þar sem við þurfum kannski að staldra við og ákveða hverslags skilaboð við viljum senda komandi kynslóðum. Vorum við samfélag sem gafst upp á framtíðinni og horfði nostalgíst á fortíðina sem hinn eina sanna gullna tímann. Lifðum við í samfélagi við náttúruna, í núinu hundsama um fortíð eða framtíð, eða horfðum við með væntingum til betri framtíðar?

    • Hilmar Þór

      Flott athugasemd hjá Guðjóni.

      Málið er að allt á sinn stað og sína stund. Gömlu hverfin eiga að líta út fyrir að vera gömul og þau nýrri eiga að endurspegla þann tíma og það viðhorf sem var ríkjandi þegar þau voru byggð. Og nýju hverfin eiga á sama hátt að endurspegla nútímann. En öll húsin eiga að fullnægja þæginda, hagkvæmis og öryggiskröfum líðandi stundar. Svo einfalt getur það verið…ef manni sýnist svo.

  • Helgi Bolllason Thóroddsen

    Þetta er skemmtileg umræða.
    Mun þá arfleið okkar samtíma til byggingarlistar miðborgarinnar ekki rísa hærra en svo en að sýna þrá um að hafa átt glæsta fortíð.

    • Guðmundur Bjarnason

      Ég veit ekki mikið um þessi mál en hef lært eithvað af því að lesa þetta hér og færsluna. Manni sýnist þetta vera flóknara en það er fljótt á litið. En er ekki hægt að hanna hús í samtíma byggingalist sem fellur að nágrenninu. Það gerir Iða ekki, ekki Harpa, ekki gamla sjóváhúsið við Pósthússtræti eða tollstöðin og húsið bakvið Naustið.. Ef horft er á þessi hús óttast maður samtímabyggingalist í miðborgnni. Geta arkitektar ekki hannað hús sem eru nútímaleg en sýna samt vissa þrá eftir glæsilegri fortíð?

  • Þodnjoð

    Eru ekki allir með það á hreinu að hér eru ekki á ferðinni varðveisla neinna minja? Hér er verið að varðveita minningar um þau hús sem eitt sinn stóðu þarna og brunnu til kaldra kola. Þetta eru nýbyggingar frá grunni. Spurningin er, geta arkitektar ekki leyft sér að nota gamlar og þrautreyndar byggingaraðferðir í nýbyggingum? Er það sögufölsun? Þeir sem tala þannig, hafa fengið „tabu“ modernismans á heilann. ÞETTA ERU EKKI ENDURBYGGINGAR, ÞETTA ERU NÝBYGGINGAR OG ÞVÍ NÚTÍMA BYGGINGARLIST.

  • Jón Guðmundsson

    Við arkitektar erum flestir skólaðir í einhverjum Isma, minn Ismi kallaðist Dekonstruktion eða Afbygging og gekk út að það að draga í sundur og afbyggja rótgrónar hugmyndir um nútímann, draga fram þversagnir og finna nýjar tengingar.

    Kannski var þetta bara andóf gegn þeirri klisju sem módernisminn var orðinn eftir tilraunir með póstmódernisma með nýklassískum blæbrigðum. Í kjölfar díkonstrúktifismanns tók við tímabil nýmódernisma þar sem allar flottustu klisjurnar frá því fyrir 1930 voru brúkaðar hugsunarlaust. Megnið af þessu er síðfúnksjónalismi með lúkkið í lagi en án upphaflegu fúnksjónanna. Atburðir síðustu ára geta síðan af sér nýja isma.

    Okkar tími er ekki gærdagurinn augnablikið eða morgundagurinn, krafan um að arkitektúrinn eigi að endurspegla nýjasta ismann eða tískustrauminn stenst ekki skoðun. Raunveruleg byggingarlist á að vera hafin yfir alla isma og tískustrauma.

    Ég hafði efasemdir um uppbygginguna á horni Túngötu og Aðalstrætis á sínum tíma, ég talaði um Disneyland. Þær efasemdir hef ég fyrir löngu komist yfir og endurgert horn Lækjargötu og Austurstrætis færði mér aftur myndina af Reykjavík sem ég saknaði.

    • Hilmar Þór

      Mikið er ég sammála þér þarna, Jón Guðmundsson. Svo má bæta því við að ismarnir ganga fljótt hjá og eru oftast til leiðinda fyrr en varir.

  • Helgi Hallgrímsson

    Menn detta oft í „annaðhvort eða“ gírinn þegar talað er um þessi mál. Þó einstök hús séu endurbyggð í kjölfar bruna get ég ómögulega séð að það sé að hindra framgang nútímaarkitektúrs í heild. Tek undir það sem HG segir; áfram allskonar.

  • Guðjón Erlendsson

    Það sem flestir Íslendingar telja vera söguleg Íslensk hús eru í raun algjörlega innflutt hugmynd, og oft efni. Þessi hús. flest timburhús og nú oft bárujárnsklædd, eiga uppruna sinn í Danmörku og Noregi. Og þaðan koma þau líklega frá Hansakaupmönnum í þýskalandi.
    Einu raunverulegu söguleg Íslensk hús eru torfkofarnir sem flestir líta svo niðurá að orðið er haft í niðrandi tóni. Hlegið er að húsum með plöntuð þök þessi árin.

    Það varð síðan til Íslensk byggingarlist með módernismanum. Það sem kallað er „svörtu kassarnir“ ólíkt „hvítu kössunum“ erlendis. Það fer frekar lágt um verndun þessarar ramm Íslensku húsa.

    Katalónía á Spáni er hérað fullt af þjóðerniskennd, og á 19du öldinni komu þar fram listamenn og arkitektar sem ákváðu að búa til Katalóníska list, sem mótspyrnu við því sem þeir töldu Spánska list. Frægasti arkitekt þeirra var Antonio Gaudi. Fáir sem koma til Barcelóna í dag eru efins um fegurð þeirra bygginga sem hann hannaði, tengsl þeirra við náttúru Katalóníu og hve einstök listsköpun Katalóníumanna var á sínum tíma.

    Hvað ef almenningur í Barcelóna hefði verið á móti byggingu þessara bygginga, og krafist þess að byggt yrði eins og „sögulegu“ bygginar Katalónu voru? Þ.e. Spánskar?

    Er Húsavernd og eftirlíkingar (sögufölsun) viss tímabils í byggingarsögu landsins að koma í veg fyrir Íslenska byggingarlist framtíðarinnar. Munu afkomendur okkar þakka fyrir þessa verndun, sem kannski kemur í veg fyrir uppgang einhverrar Íslenskrar byggingarstefnu í framtíðinni?
    Við vitum í raun ekki neitt um hvað verða muni, né hvaða skoðun fólk í framtíðinni hefur á hlutunum. Það eina sem við vitum er hvaða skoðun við höfum. Verndun er því einungis fyrir okkur sem nú lifum. Stóra spurningin er því þessi. Erum við að vernda eitthvað eða endurtaka vegna fúnksjónalisma eða fegurðar? Ef það er fúnksjónískt, þá er hægt að meta það, en ef það er vegna fegurðar, þá er það sjálfsmat en ekki rök. „Mér finnst“ er ekki góð stefna þegar það hefur áhrif á allt samfélagið.

  • Er ekki ósanngjarnt að gagnrýna LHÍ og nemendur hans ítengslum við þetta? Munum að þettaeru BA nemar sem eru tæplega hálfnaðir í náminu.

    • Hilmar Þór

      Ég er ekki að gagnrýna Listaháskólann eða nemendur hans. Ég tók bara þetta dæmi um tilfinningu mína fyrir því að skólarnir sinni ekki þessu sjónarmiði nægilega. Þetta á að líkindum við um marga arkitaktaskóla. Ég á ekki við að verið sé að innræta eitt né neitt, heldur að þetta sé yfirsjón í mesta lagi.

      Svar nemanna og einsleiti þeirra benti til þess að þetta hafi ekki verið mikið rætt í hönnunarferlinu þarna á horni Vonarstrætis og Lækjargötu.

      Hinsvegar er ég fullviss að Listaháskólinn tekur alla gagnrýni vinsamlega og metur hana, kallar eftir henni og notar hana sér til framdráttar eins og við hinir þegar við erum gagnrýndir. Þetta er æðri menntastofnun sem hefur alla burði til þess að verja sig ef á hana hallar og henni þykir ástæða til..

  • Sólveig Georgsdóttir

    Hlutföllin í Lækjargötu 2 eru undarleg og ekki í samræmi við neitt annað í gamla miðbænum. Þarna hefur timburhúsi að gamalli fyrirmynd, sem samsvarar sér mjög vel, verið tyllt ofan á einnar hæðar steinhús.

  • Helgi Hallgrímsson

    Ég er á þeirri skoðun að endurbygging þessara húsa hafi verið það rétta í stöðunni eftir brunann. Í aðalatriðum finnst mér endurbyggingin hafa heppnast ágætlega. Það var góður puntkur hjá Steve á málþinginu að Bacelonaskálinn hans Mies og Stonhenge eru bæði endurbyggingar.
    Einnig finnst mér að við eigum ekki að vera með einhverja hreintrúarstefnu þegar það kemur að því að aðlaga húsin að nútíma þörfum sem og umhverfinu. Það að Lækjargata 2 hafi verið hækkuð um eina hæð lætur húsið sóma sér betur í götumyndinni að mínu mati. Á sínum tíma var stöðugt verið að prjóna við þessi hús og flest gömlu timburhúsanna byggð í mörgum áföngum.

    Annað nýlegt dæmi um endirbyggingu hefur hins vegar ekki heppnast vel að mínu mati en það er Laugavegur 6. Ég veit svo sem ekkert hvernig það hús leit út upprunalega (man bara eftir þessu sem Nike-búðinni) en húsið virkar mjög framandi á þessum stað. Það er í allt öðrum mælikvarða en húsin í kring og lítur eiginlega út eins og fjallakofi. Svo er einhverskonar torg við hliðina á sem er ekkert nema einn langur hjólastólarampi og stálhlið svo fólk pissi ekki á torgið á nóttunni. Í þessu tilfelli þá hefði mér fundist betra að nýbyggingin sem búið var að hanna á staðinn þegar Ólafur F keypti lóðina hefði verið byggð, enda var hún ágæt.

    Punkturinn hjá mér með að nefna þessi tvö dæmi er að mér finnst ekki hægt að vera með einhvera absúlút „svona á alltaf að gera þetta“ hugmyndafræði þegar það kemur að uppbyggingu á brunareitum. Sami maður getur tekið mismunandi afstöðu enda engir tveir reitir eins.

  • Sammála HG – ömurlegt horn.
    Mér finnst þetta alltaf eins og leikmynd, líklega af því að hlutföllin eru ekki eins og í gömlum húsum. Fínt að vernda gömul hús en ferlega hallærislegt að byggja ný hús sem þykjast vera gömul.

  • HG
    Ég tala ekki fyrir neina „einangrunar eða verndarstefnu“ eða nýhyggju eða nokkrum sköpuðum hlut.

    Ég segi bara að maður ætti að finna nútímaarkitektúr sinn stað eða sína staði og hlúa að eldri byggingum á þeim stöðum þar sem þær voru byggðar. Og ef þær brenna eða grotna niður vegna skorts á viðhaldi (eru slummaðar) þá á að endurreisa þær aftur.

    Annars finnst mér eins og þér að ég er ekkert að óska eftir að fólk sé mér sammála en ég vil að fólk taki saman um málin en geri fólki ekki upp skoðanir.

  • Ég þoli ekki þetta horn þarna, með allri virðingu fyrir þeim sem að því stóðu.

    Kreppan vakti upp fortíðarþránna. Þetta er fullkomlega eðlilegt. Íslendingar vöknuðu líka upp við að það er ekki lengur hallærislegt að vera þjóðlegur Íslendingur. Slátur og svoleiðis er sjúklega kúl.

    Ég meina: eigum við ekki bara að setja upp fjárhús og selja beint af býli í miðbæ Reykjavíkur. Hugsið ykkur stemninguna ef við settum upp réttir á hafnarbakkanum. Sjáið fyrir ykkur þegar féð er rekið á sauðskinnskónum eftir Sæbrautinni og ungir og aldnir fá frítt í strætó til að fylgjast með fénu frá kantinum. Þetta yrði sko miklu vinsælla en Gaypride. Jón Gnarr hefur flutt ræður fyrir minna.

    Breytum svo 10/11 á Barónsstíg aftur í fjós og fáum starfsmenn úr Húsdýragarðinum til að hefja mjaltir klukkan 7 á morgnana. Af hverju ekki ? Þetta yrði alveg frábært fyrir túrismann.

    Gleymum ekki malarvegunum. Hver einasti sem sleit barnskónum á mölinni, finnst rómantísk að sjá gamlar myndir frá malarvegunum í Reykjavík og rifja upp þegar hann á harða spretti, setti í sundur fæturna og hjólaði ofan í pollana.

    Setjum upp malarvegi !

    Reykjavík og aðrar borgir eru BORGIR, ekki safn. Ég vil sjá nútímalegan samtímaarkitektúr í miðbæ Reykjavíkur sem svarar kröfum samtímans um nútímalega viðskiptahætti. Byggingar sem endurspegla hvert við erum að fara, en ekki endalaust hvaðan við vorum að koma. Það er alltaf gaman að sjá nýtt mæta gömlu.

    Það skiptir líka máli hvar við berum niður í sögulegu samhengi. Ekki síst þegar talað er um hús sem þróast á lífrænan hátt og taka margvíslegum breytingum í tímanna rás. Þessar breytingar voru flestar gerðar til þess að svara kröfum samtímans um breytta lifnaðar- og viðskiptahætti. Í dag er það til að svara, oft á tíðum, hégómlegri eftiröpun einhverrrar fortíðar sem er algerlega óljóst um hvar eigi að bera niður í.

    Minni blóðmör og takk fyrir bloggið !

    • Þarna kemur skemmtilegur penni sem er ögrandi og gerir bara grín að þessu öllu saman.

      Þrátt fyrir grínið er ekki hægt að líta framjá því að hann meinar það sem hann segir í upphafi: “Ég þoli ekki þetta horn þarna”

      Svo er snilldarsetning i athugasemdinni: Reykjavík og aðrar borgir eru BORGIR, ekki söfn. „Ég vil sjá nútímalegan samtímaarkitektúr í miðbæ Reykjavíkur sem svarar kröfum samtímans um nútímalega viðskiptahætti. Byggingar sem endurspegla hvert við erum að fara, en ekki endalaust hvaðan við vorum að koma. Það er alltaf gaman að sjá nýtt mæta gömlu.“

      En þetta er bara allt klisjur. Það er enginn að tala um mör og sauðskinnsskó í þessu sambandi. Heldur að leyfa húsunum að lifa með öllum nútímaþægindum og segja áfram sína sögu.

      Parísarborg hefur tekið á þessu, Baune í Frakklandi og Rodenburg í Þýskalandi svo maður tali nú ekki um hundruð smáborga á borð við Reykjavík hafa gengið þessa slóð sem HG þolir ekki.

      Ég spyr HG, er ekki næg tækifæri til þess að túlka nútímann og láta hann njóta sín í nýju nútímalegu hverfunum sem byggjast við allar borgir?

      Sjáðu La Defence í Paris, Örestaden í Kaupmannahöfn og fl. Getta menn ekki sprellað í Borgartúni og víða utan gömlu Hrigbrautar og látið elsta hluta borgarinnar njóta sérkenna sinna?

      Svo ég snúi setningu HG við segi ég:

      “Ég vil sjá nútímalegan samtímaarkitektúr utan miðbæjar Reykjavíkur sem svarar kröfum samtímans um nútímalega byggingalist”.

    • Þú talar fyrir einangrunar og verndarstefnu, svona í grófum dráttum.

      Það er oft ekki fyrr en hið þekkta mætir hinu óskylda að við skiljum hvað þau bæði standa fyrir.

      Auðvitað eru mis góðar fyrirmyndir og það má endalaust þræta um það. En að innsigla miðbæinn, eins og hverjum öðrum glæpavettvangi, finnst mér af og frá.

    • P.S.

      Ég er samt þakklátur fyrir að það er fullt af fólki sem eru ekki á sama máli og ég.

      Áfram allskonar !

    • HG
      Ef þér líður illa vegna hornsins. Líttu þá til hægri eða til norðurs þá sérðu Topp Shop húsið og Hörpu. Ekki léttir það drasl í manni lundina!

  • Jón Gunnar

    Frábærar teikningar sem minna á hvað það er mikil hætta á að maður tapi sjónum af uppruna sínum. Ljósmyndin af samkeppnistillögunni er ekki sögufölsun heldur aðlögun að umhverfinu og líka sögunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn