Sunnudagur 22.12.2013 - 00:10 - 10 ummæli

Aðkoma Lífeyrissjóða að Landspítalauppbyggingu og fl.

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-content/uploads/sites/58/2011/09/nyr_landsspitali_498x230.jpg

Hér kemur fimmti og síðasti hluti umfjölunnar G. Odds Víðissonar um bygingaráform Landspítalans við Hringbraut. Hann lýsir hér áhuga sínum um að byggður verði nýr spítali sem fyrst og  frá grunni en á öðrum stað. Hann telur að ná megi mun betri starfrænum-, borgarskipulagslegum- og fjármálalegum árangri ef verkefnið yrði flutt  og fleiri þættir fléttaðir inn í lausnins. T.am. verðmætt land við Borgarspítala og við Hringbraut sem sjálfsagt er að nota undir starfsemi sem hentar staðum.

Gefum G. Oddi Víðissyni orðið.:

 

 

5 af 5 LSH Aðkoma Lífeyrissjóða.

Ég fagna þeirri ákvörðun margra lífeyrissjóða (LS) um að koma að mögulegri uppbyggingu á nýju húsnæði fyrir Landsspítala Háskólasjúkrahúss (LSH).

Ég tel afar brýnt að hannaður og byggður verði nýr spítali frá grunni. Það hámarkar hagræðingu í rekstri spítalans og jafnframt stuðlar að betri nýtingu rýma og almennrar skilgreiningar á nútíma sjúkrahúsi en ná má fram á lóð við Hringbraut og tengingar við eldri mannvirki. Jafnframt næst fram mikil byggingatæknileg hagræðing þar sem nútíma efnisnotkun og staðlar um sérhæft húsnæði yrðu notuð.

Það er eðlileg krafa LS, fjárfesta í þessu tilviki, að fara fram á að staðsetning LSH verði endurskoðuð þar sem það er skiljanlegt sjónarmið að LS vilji fjárfesta í heilstæðu nútíma mannvirki þar sem forsögn og þarfagreining hæfa nútíma spítala sem ætlað er að þjóna sjúklingum um langan tíma.

Það er jafnframt eðlileg krafa að ríkið óski eftir því að LS kaupi mannvirki og lóðir sem eru í eigu LSH við Hringbraut og í Fossvogi. Allavega ætti að skoða verðmæti þessara lóða og fasteigna og sjá hvaða áhrif það hefur á skuldbindingu ríkisins til lengri tíma, til lækkunar. Þau mannvirki og lóðir kæmu þá til með að vera eiginfjárframlag ríkisins til LS, ekki þyrfti þá að koma til 100% lánsfjármögnun til handa ríkinu sem verkkaupa (leigutaka).

Með hliðsjón af viljayfirlýsingu milli ríkisins og LS sem undirrituð var fyrir nokkru síðan, þar sem tekið er fram af hálfu LS um að þessi viðskipti verði arðbær er ljóst að skoða verður ofangreind atriði. Það vaknar einnig upp sú spurning hvaða viðskiptamódel aðilar ætla að brúka sín í milli. Getur verið að sú leið sem ríkið hefur oft farið þegar kemur að opinberu húsnæði dugi ekki nú þ.e. að fjárfestir leggi til mannvirki og ríkið leigi til langs tíma. Þarf kannski að færa það sem lán af hálfu ríkisins, sem er eflaust ekki á bætandi um þessar mundir.

Svæði LSH við Hringbraut er án vafa eitt verðmætasta byggingaland sem til er í borginni. Sú vinna sem nú fer fram hjá Borgarskipulagi Reykjavíkur vegna endurskoðunar á Aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2030, bendir til þess að áhersla verði lögð á töluverða þéttingu byggðar vestan Snorrabrautar/Elliðaáa m.a. með áherslu á svæði í og við Vatnsmýri. Svæði LSH ætti  því að falla vel að markmiðum skipulagsyfirvalda í Reykjavík.

Það verður að teljast ákjósanlegur kostur fyrir LS að athuga með kaup á landsvæði við Hringbraut og í Fossvogi, samhliða uppbyggingu á spítala á nýjum stað. LS myndu þá standa að þróun og uppbyggingu á þessu landsvæði og lóðum og auka þar með virði svæðisins enn frekar..

Þessir tímar nú, þrátt fyrir allt, fela í sér tækifæri fyrir viðkomandi  aðila og í reynd landsmenn alla. Ég tel þessi tímamót vera ákjósanleg til áframhaldandi skoðanaskipta um þessi mál og hvet ég alla til að skoða málefni uppbyggingar fyrir LSH með nýju hugarfari.

Það gilda ekki þau rök að haldið verði áfram að óbreyttu þar sem tekin hefur verið ákvörðun um staðsetninguna „fyrir löngu“. Það er ekki veikleiki að skipta um skoðun heldur reynist oftar en ekki styrkleiki hjá þeim sem þora.

Ég vil því hvetja stjórnvöld til að taka til gagngerrar endurskoðunar áætlanir um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut með það að leiðarljósi að finna honum annan stað og nýta lóðina með öðrum hætti. Það sé bæði hagur spítalans, notenda hans og starfsmanna , þróun byggðar í vesturhluta Reykjavíkur  og skili sér í öflugri og betri skipulagslegri heild höfuðborgarsvæðisins.

Tökum til hendinni, komum upp mannvirki sem hentar sem best fyrir starfsemi LSH, iðkum skynsama landnýtingu, förum vel með fjármuni almennings og umfram allt, vöndum okkur.

 

 

 

Lokaorð Odds í þessum greinaflokki bera þess merki að þarna eru lausnamiðuð sjónarmið á ferðinni sem eru öllum til góðs. Sjónarmið hans vísa til betri lausna fyrir sjúklinga, borgarskiðpulagið og efnahagslífið.  Ef einhver er ósammála sjónarmiðum Odds eða telja núverandi hugmyndir góðar þá óska ég sérstaklega eftir því að þeir láti rödd sína heyrast hér á vefnum eða annarsstaðar.

Efst í ærslunni er mynd sem sýnir lóð spítalans við Hringbraut fullbyggða. Fyrir liggur að þessi uppbygging mun eiga sér stað um marga áratugi og líklegt er að bara eftir 10-15 ár verði þessar hugmyndir úreltar eða að önnur og öðuvísi hugmyndir verði ríkjand. Líklegt er að þetta verði aldei  framkvæmt og þarna verði „skipulag auðnarinnar“ allsráðandi meðan flest okkar erum ofar moldu.

Og svo er  er vert að velta fyrir sér hvað gerist þegar lóðin er fullbyggð?

Ég tek undir með Oddi og segi: Sýnum manndóm og endrskoðum þetta allt saman og samræmum nýju aðalskipulagi borgarinnar áður en það er orðið of seint

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Magnús Birgisson

    Mér finnst það nokkuð blasa við þegar maður les athugasemdirnar hérna, og ekki síst mjög góð innlegg frá Ingólfi, að forsendurnar fyrir uppbyggingaráformum LSH við Hringbraut eru allar komnar til ára sinna. Þær eru líklega orðnar 10 ára gamlar ef ekki eldri.

    Margar af þessum forsendum hafa úrelst og spurning hvort það sé ekki alveg spurning að endurskoða allt dæmið byggt á stöðunni einsog hún er í dag.

    Má þar nefna hluti einsog hrunið og áhrif þess á fjármögnun. Slæmt ástand eldri bygginga og skort á viðhaldi frá því áformin voru lögð upp. Nýtt aðalskipulag, samgönguásinn og úthýsing akandi umferðar og einkabílsins af svæðinu. Hversu hægt og illa hefur gengið að breyta ferðavenjum almennings (ég sé alveg fyrir mér viðbrögðin við þessar setningu). Sú staðreynd að höfuðborgarsvæðið mun halda áfram að þenjast út í gegnum nágrannarsveitarfélögin og landfræðileg og lýðfræðileg miðja færist enn austar. Flugvöllurinn (fer’ann eða er’ann?). Breytingar í heilbrigðisþjónustu (hvernig verður hún veitt eftir 20-30 ár?). Breytingar á verðmati á lóðum í Þingholtunum…osfrv….osfrv.

    Ég get ekki betur séð en að fullyrðing eins og „Öllum samgönguæðum verður beint að nýrri umferðarmiðstöð sem vafalítið mun um langa framtíð verða ósvikin miðja allrar umferðar til spítalans“ eigi einfaldlega ekki við lengur því það er stefna borgarinnar að flugvöllurinn fari og þar með sú samgönguæð auk þess sem samgöngumiðstöðin mun eðlilega einungis þjóna almenningssamgöngum en það er einnig stefna borgarinnar að úthýsa einkabílnum af þessu svæði.

  • Ingólfur Þórisson

    Ég fagna þeim stuðningi við bættan húsakost Landspítala sem kemur fram í greininni og að mér finnst víðast í umræðunni hér á þessum vettvangi.

    Í helstu nágrannalöndum fer nú fram mikil uppbygging sjúkrahúsa, Danir eru að fara að setja um 1200 milljarða í uppbyggingu sinna bráðasjúkrahúsa, Norðmenn eru að ljúka sinni uppbyggingu, Svíar eru t.d. að byggja við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og Færeyingar eru að byggja við Landsjúkrahúsið í Þórshöfn. Landspítali er að dragast illilega aftur úr í húsnæðisþætti varðandi aðbúnað og öryggi sjúklinga, starfsemina, starfsmenn og notkun nýrra lækningatækja sem kalla á öðruvísi húsnæði. Það er ömurleg staðreynd.

    Það eru þó skiptar skoðanir hér á vefnum hvar byggja eigi og það er alveg eðlilegt að ekki séu allir á eitt sáttir um það. Ég hef í ummælum við fyrri greinar bent á ýmis atriði sem styðja við þá ákvörðun að flytja starfsemina úr Fossvogi og sameina hana starfseminni við Hringbraut. Þar eru atriði eins og lægstur kostnaður, gott aðgengi sjúklinga og starfsmanna og nálægð við vísindasamfélagið í Vatnsmýrinni. Landspítali er öflugasta vísindasamfélag á landinu og á stóran þátt í góðum árangri Háskóla Íslands í alþjóðlegum samanburði.

    Í Þrándheimi þar sem aðstæður eru svipaðar og hér á landi kjósa þeir að endurnýja sjúkrahúsið inn í miðbænum og upp við háskólann þar í borg. Sama í Stokkhólmi, byggt við sjúkrahúsið á núverandi stað. Vissulega fara sumir þá leið að flytja sjúkrahúsið út fyrir bæinn, koma upp campus, t.d. í Árósum. En ég hef fært rök fyrir því að það kallar á óhagræði fyrir samfélagið, meiri umferð og verra aðgengi. Svo skulum við hafa í huga að heildaruppbygging á nýrri lóð t.d. Keldum er ekki sambærileg í kostnaði við viðbyggingu á Hringbrautarlóðinni, erfitt að bera slíkt saman.

    Við lóðarmörk spítalans áformar Reykjavíkurborg mikla uppbyggingu fyrir hjarta allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Öllum samgönguæðum verður beint að nýrri umferðarmiðstöð sem vafalítið mun um langa framtíð verða ósvikin miðja allrar umferðar til spítalans, háskólanna og þeirrar mennta-, vísinda- og menningarmiðju sem miðborgin og Vatnsmýrin munu hýsa um langa tíð. Landspítali gæti ekki verið betur staðsettur til þess að annast þjónustu við alla landsmenn og mikilvægt hlutverk sitt í menntakerfi þjóðarinnar og alþjóðlegu vísindasamfélagi.

    Hundruðir starfsmanna Landspítala og tugir arkitekta og verkfræðinga hafa unnið mikið starf við hönnun nýs Landspítala. Með vönduðum og vel ígrunduðum tillögum íslenska arkitektahópsins um byggingar á Landspítalalóðinni er kominn kjarninn að nútímalegum spítala sem mætir þörfum til framtíðar og verður sjúklingum og starfsfólki til mikils framdráttar.

    Ég óska ykkur gleðilegra jóla og færi óskir um endurbætt húsnæði Landspítala á komandi árum.

  • Steinþór

    Þetta mál er komið út í horn og það finnst engin leið út og enginn er svo stórt hugsandi að geta sagt: „hey, við þurfum að endurskoða dæmið í ljósi breyttra aðstæðna og nýrra uppýsinga“

  • Kannski væri hægt að fjármagna stóran hluta nýbygginganna með sölu á húsum sem ekki henta sem sjúkrahús lengur og glæsilegum byggingalóðum þar í nágrenninu!

    Spyr sá sem ekki veit!

  • Af hverju að nota verðmætustu byggingalóðir sem til eru á landinu fyrir spítala þegar fyrir liggur auð ónotuð lóð í eigu ríkisins á betri stað fyrir framtíðarsjúkrahús allra Íslendinga. Lóð sem mun henta til mjög langrar framtíðar? 100 ára eða lengur?

  • Gunnar Gðmundsson

    Það er heldur dauft yfir umræðunni hér og Ingólfur Þórisson hættur að blanda sér. Ég sakna þess og vil þakka honum innleggin. Hann er kjarkaður vegna þess að það er vissulega á brattann a sækja hjá honum.

  • Hilmar Þór

    Eitt sem vekur athygli í skrifum Odds er mat á verðmæti landsins við Hringbraut og Borgarspítala og hvort þeir fjármunir sem þar liggja geti gagnast í fjármögnun nýbygginga á öðrum stað.

    Ég veit að Oddur þekkir nokkuð til PPP aðferðar við uppbyggingu á ýmsum svæðum. Ég hef einnig unnið nokkur verk með þessum aðferðum og veit að þetta á oft við. Mér sýnist aðferðin geti gagnast vel vegna uppbyggingar Landspítala, með einhverju fráviki.

    Gaman væri að vita hvort frakvæmdanefndin (NLSH) hafi skoðað þessa nálgun í víðu samhengiu. Þ.e.a.s. að bjóða fjárfestm lóðirnar tvær til sölu þannig að verðið gangi upp í byggingakostnað á öðrum stað (t.d. landi ríkisins við Keldur).

    Landið við Hringbraut er það dýrasta og eftirsóknarverðasta á landinu. Er ekki átæða til þess að skoða hvað fengist fyrir það og byggja spítala á landi sem er í eigu ríkisins, nánast ónotað? Löndin mætti selja ásamt byggingum í hæfilegum viðráðanlegum bútum á mjög háu verði. Sama á við um byggingu Borgarspítalans og landið þar umhverfis.

    Spurningin er: Liggur fyrir einhver skoðun eða mat á þessari nálgun, eða hafa menn ekki horft út fyrir Hringbrautarlóðina yfir höfuð?

    *) PPP=Private Public Partnership

    • Ingólfur Þórisson

      Sæll Hilmar Þór

      Verðmæti allra eigna og lóða Landspítala hefur verið tekið með í reikninginn. T.d. er reiknað með sölu á Landspítala í Fossvogi og Ármúla 1 við flutning þeirrar starfsemi á Hringbraut.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér svarið Ingólfur. Ég vissi af mati á eignunum við Borgarspítala og við Ármúla. En að byggingrnar við Hringbraut, Barónsstíg, Eiríksgötu og Snorrabraut hafi verið verðlagðar vissi ég ekki. Er þetta mat aðgengilegt einhvarstaðar?

      Og í lokin þakka ég þér kærlega fyrir allar upplýsingarar og þáttöku í umræðunni og óska þér og öllu þínu fólki gleðilegs árs og ósk um að húsnæismál Landspítalans komist á beinu brautina á nýju ári

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn