Föstudagur 25.03.2016 - 19:32 - 14 ummæli

Afskipti stjórnmálamanna af bygginga- og skipulagsmálum í París

 

3839198707_50e08e8ac5

Margar borgir í gamla heiminum uxu innan borgarmúra sem síðan voru fluttir utar eftir því sem borgirnar stækkuðu.  Þetta þekkjum við frá Kaupmannahöfn og víðar. En engin borganna er eins falleg og jafnvel sjónrænt skipulögð eða með eins mikið af sögulegum byggingum og París.

Hvernig gat þetta gerst?

París sem stendur innan hrinhvegarins (Periferíunnar) sem er einskonar ysti borgarmúr gömlu Parísar er 9,5 km í þvermál frá norðri til suðurs og 11.5 frá austri til vesturs.

París slapp betur en flestar borgir í tveim heimstyrjöldum á síðustu öld þannig að litlar skemmdir urðu af völdum styrjaldanna.

 Hún hefur líka notið sterkra einstaklinga sem voru metnaðarfullir fyrir hönd borgarinnar og höfðu mikil áhrif á gerð hennar. Frakkar voru og eru sérlega framsýnir og hugsuðu stórt.  Þeir lögðu áherslu á torgarmyndun og að mikilvægar byggingar fengju notið sín sem best á torgum og í borgarlandslaginu.

Haussmann barón og Napóleon III voru sérlega stórtækir og tillitslausir í sínum áætlunum. Á árunum 1853-1870 lögðu þeir  reglustiku yfir hverfin og ruddu burt gömlum og merkilegum byggingum til þess að fá betri birtu og betra loft inn í borgina og skapa sjónlínur. Þarna fórnuðu þeir hundruðum húsa til þess að skapa lystigarða og fegra borgina. Þetta var upphaf Belle Epoque tímabilsins.

Síðar á tuttugustu öldinni kom röð forseta sem settu mark sitt á borgina og létu byggja gríðarstórar opinberar byggingar. Sagt er að hvatinn hafi verið sá að gera sig ódauðlega, Dæmi um þessi hús eru Pombidou Center sem Georg Pombidou lét byggja eftir updráttum Richard Rogers og Renzo Piano. Gisgard d’ Estaing lét opna Musee d´Orsey og Parc de La Villette eftir Bernhard Tshumi. Francois Mitterrand var stórtækastur og lét byggja Þjóðarbókasafnið eftir Dominique Perrault, Píramidann við Louvre eftir I.M.Pei, Grand Arch í La Defence eftir Otto von Spreckelsen, Institut du Monde Arabe eftir Jean Nouvel og Bastilluóperuna.

Það verður ekki annað sagt en að þessi áhugi forsetanna á arkitektúr og byggingalist hafi skipt borgina miklu máli. Davíð Oddsson hafði mikinn áhuga á byggingum þegar hann var borgarstjóri og byggði bæði Ráðhúsið og Perluna ásamt mörgu öðru í borgarstjóratíð sinni. Nú höfum við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem hefur mikinn og einlægann áhuga á skipulags- og byggingamálum. Þvi ber að fagna þegar áhrifamiklir menn blanda sér í bygginga-og skipulagsumræðuna.

Þótt Parísarbúar hafi í gegnum tíðina verið fúlir út í forsetana vegna yfirgangs þeirra í skipulags- og byggingamálum svo maður tali nú ekki um hegðun Napóleons III, þá verður að viðurkennast að allt þetta, eða mestur parturinn hafi verið til góðs.

Parísarborg innan hringvegarins, “Periferíunnar”, samanstendur af 20 hverfum, svo kölluðum Arrondisiments.  Á þessu svæði sem er um 10.500 hektarar búa um 2.250.000 manna sem svara til 215 íbúum á hektara. Þetta er nokkuð minna en maður hefði ætlað. En þess ber að geta að innan Períferíunnar er gríðarlega mikil atvinnustarfssemi auk þess að margar milljónir ferðamanna eru þar á degi hverjum.

Hverfi Paríar innan Periferíunnar eru eins og áður sagði 20 og er raðað í snigil þar sem hverfi nr 1 er á hægri bakka Signu þar sem eru Palais Royal og Le Louvre og fara svo réttsælis í hringi utan um miðborgina.

Þessi hverfi hafa sína stjórnsýslu svipað og allar kantónur landsins. Menn segja að í París séu 20 kantónur sem eru í einni “commune”. Hverfin eru öll með sinn borgarstjóra og sína stjórnsýslu.

Yfir þessu er svo ráðhús Parísar, Hotel de Ville, þar sem yfirborgarstjóri Parísar situr.

Bygginga og skipulagsmál eru að mestu miðstýrð þó hverfastjórnirnar ákveði mörg minniháttar atriði sem varða hverfið sérstaklega. Þar má nefna gerð göngugatna og fækkun bifreiðastæða og fl.

Miðlæg stofnuni samþykkir allar nýbyggingar og breytingar á skipulagi borgarinnar. Þetta er gríðarlega stór stofnun sem staðsett er á Boulevard Morland. Húsið sem hýsir starfssemina er ógnvekjandi bygging sem hefur yfir sér austurevrópskt stofnanayfirbragð. Arkitektar hér hafa tjáð mér að bara fyrir örfáum árum þurftu arkitektar að skila umsókum til stofnunarinnar í 19 eintökum! Það hefur víst breyst.

photo

Hér eru borgarmörkin skýr og afmarkast þau af borgarmúrum og sýkjum eins og sjást greinilega á efstu myndinni.

Paris-Historical-Map

París árið 1789, borgarmörkin eru frekar óljós. Jakopbsvegurinn liggur til suðurs út úr borginni frá Notre Dame.

 

mappa_parigi_arrondissement

Að ofan er túristakort sem sýnir borgina innan hinna eiginlegu borgarmarka eins og þau eru í dag. Borgarmörkin eru þar sem hringvegurinn  (Periferían) fer umhverfis hana.

IMG_7780Miðlæg stofnun samþykkir allar nýbyggingar og breytingar á skipulagi. Þetta er gríðarlega stór stofnun sem staðsett er á Boulevard Morland. Húsið sem hýsir starfssemina er ógnvekjandi bygging sem hefur yfir sér austurevrópskt stofnanayfirbragð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Hermann Ólafsson

    Hilmar, auðvitað er jákvætt að valdamenn sýni hinum ýmsu samfélagmálum áhuga, og um það er heldur ekki deilt. Framganga SDG er hinsvegar með þeim hætti að það veldur bara úlfúð og sundrungu og verður fyrir vikið ekki til framdráttar. Það að riðlast með þjóðmenningu og minjavernd innan stjórnkerfisins eftir persónulegu áhugasviði veitir t.d. ekki á gott. Eins er með skipulags- og byggingarmál.

    Sem æðsti valdamaður þjóðarinnar þá átt þú ekki, í skjóli valds þíns og aðgangi að fjármagni og fjölmiðlum, að skerast leikinn í einstökum málum sem eru til meðferðar, eins og fjöldamörg dæmi sanna, og klína bókstaflega þínum persónulega smekk yfir þjóðina (jólakort).

    Vandur leiðtogi (NB í nútíma samfélagi, ekki tímum keisara og baróna) beitir sér fyrir auknu fé til málaflokks, t.d. rannsókna, náms og lagaumhverfis. Hann fær til liðs við sig fagfólk með breiðan bakgrunn til að t.d. búa til stefnu stjórnvalda um skipulags- og byggingarlist svo eitthvað sé nefnt.

    Þessar skoðanir mínar vildi ég svo gjarnan hafa án þess að vera vændur um að geta ekki aðskilið menn frá málefnum!

  • Það er mikil gæfa að leikmenn í skipulags- og byggingam, eins og Hjálmar Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson taki þátt í skipulagsumræðunni þvi, eins og sagt var á þessum vef fyrir löngu, þá er hún og mikilvæg til þess að láta einungis arkitektum og fjárfestum (verktökum) eina um þetta. Mitterrand, Sigmundur og Hjálmar eiga fullan rétt á þáttöku og fullt erindi í umræðuna!

  • Ásmundur

    Með því að sýna skipulags- og byggingamálum áhuga geta valdamiklir stjórnmálamenn bæði haft neikvæð og jákvæð áhrif. Því miður hafa áhrif SDG að mínu mati einkum eða jafnvel eingöngu verið neikvæð. Það má þó segja að ummæli hans hafi oft vakið sterk viðbrögð sem geta í sjálfu sér verið af hinu góða.

    Þegar stjórnmálamenn eru ekki fagmenn á því sviði sem um ræðir verða þeir að kunna að notfæra sér hæfa fagmenn til að hafa jákvæð áhrif. En þegar menn vilja ráða án þess að hafa menntun eða reynslu til að taka ákvarðanir af viti þá er hætt við að fari illa.

    Sumir virðast vilja líta á SDG sem fagmann á sviði skipulagsmála sem hann er ekki. Hann er eingöngu með próf í viðskiptafræðum frá HÍ frá 2005. Eftir það hefur hann stundað háskólanám erlendis án þess að taka próf.
    Þar var hvorki um að ræða nám í skipulagsfræðum né byggingalist.

  • Hildigunnur

    Alltaf þurfa menn að þvæla pólitík í allt. Er ekki möguleiki á að ræða faglega um hlutina?

  • Ahugi stjórnmálamanna stafar fyrst og fremst af vilja þeirra til að reisa byggingar sjálfum sér til dýrðar. Því meiri sem völd þeirra eru því stærri og veglegri byggingar rísa. Sagan sýnir þetta. Hvergi er þetta augljósara en hér á landi. Af því að þú nefndir Davið Oddson, þá held ég að engin maður hafi haft eins mikil völd og hann hér á landi. Hann lét reisa eða endurreisa amk þrjár byggingar: Ráðhúsið, Perluna, Þjóðmenningarhúsið og Viðeyjarstofu. Segja má að þrjú þessara húsa falla undir þessa skilgreiningu, þ.e. til dýrðar Davið Oddsyni. Þau hafa sáralítinn eða engan annan tilgang.

    • Hilmar Þór

      Þetta getur vel verið rétt hjá þér Jóhann, en ég held samt ekki. Það voru miklar og gildar ástæður til þess að endurnýja Þjóðmenningarhúsið, Viðeyjarstofu, Bessastaði og Dómkirkjuna. Á öllum þessum byggingum var vandað til verka og vel unnið og fullt tilefni til. Mér sýnist af ummælum ykkar Stebba að ykkur er fyrirmunað, eins og miklum fjölda fólks að meta það sem vel er gert sé það að frumkvæði þeirra DO eða SDG. Það er óþarfi. Við eigum ekki að láta andúð á einstökum mönnum villa okkur sýn hvað sjálft málefnið varðar. Það sem ég er að segja að er að það er fengur af því að ráðamenn hafi áhuga á skipulags og byggingamálum. Og þá gildir einu hvort við erum í Frakklandi eða á Íslandi.

  • Ég bendi á að á túristakortinu er einhver glæsibygging sem skiptir máli í flestum hverfanna. Það er lika þannig að öll hverfin hafa útimarkað og flest útivistasvæði. Öll hverfin hafa frábærar almenningssamgöngur. Þetta þekki ég af reynslu.

  • Hilmar Thor Bjarnason

    Enn og aftur … takk fyrir. Frábær pistill og áhugaverður.

  • Skipulag Parísar eftir byltinguna miðaðist ađ hernađarhyggju og sjâlfsagt orðið einkabílismanum til framdrâttar. Áhugi og framkoma SDG í skipulagsmálum er ekki til fyrirmyndar af manni í hans stöđu.

    • Hilmar Þór

      Það hefur verið fjallað nokkuð um pólitísk afskipti af skipulagi Parísar hér að undanförnu og þar á meðal hernaðarlegan tilgang. En ég fagna, og ég held að allir ættu að gera það, þegar áhrifamiklir stkjórnmálamenn sýna áhuga á hinum ýmsu málaflokkum. Hvort heldur það eru byggingamál eða menntamál svo dæmi séu tekin. Svo getur maður verið sammála þeim eða ósammála um leiðir og markmið. En það er önnur saga. En skýrðu þetta betur sem þú segir; „ekki til fyrirmyndar af manni í hans stöðu“!

      Lestu þetta Stebbi.

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/02/13/byggingarlist-haussmanns-i-paris/

    • Að hóta því að taka yfir skipulagsvaldið.

    • Hilmar Þór

      Nú þekkir þú þetta betur en ég ef marka má skrif þín. Hefur SDG hótað að taka yfir skipulagsvaldið?

      Hvar hefur það komið fram? Og hvenær og í hvaða samhengi hótaði hann þessu?

      Annars er ekkert til sem heitir „skipulagsvald“. Það er hinsvegar til nokkuð sem heitir „skipulagsskylda“ og sveitarfélög og fulltrúar okkar í sveitastjórnum hafa tekið sér þær skyldur á sínar herðar fysis okkar hönd.

    • Trúi því ekki að þú þurfir að spyrja þessara spurninga eftir framgöngu hans ï tengslum við útlit fyrirhugaðra húsa í Kvos.

    • Hilmar Þór

      Jú jú, Stebbi ég hef fullt af svörum og spurningum. En ég var að spyrja þig í þetta sinn! Og bíð svara!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn