Mánudagur 19.12.2011 - 15:31 - 5 ummæli

Afstöðumynd-Dómkirkjan í Lundi

Kollegi minn vakti athygli á byggingu safnaðarheimilis í grennd við Dómkirkjuna í Lundi í Svíþjóð.

Þetta er hressileg bygging og á margan hátt spennandi. Það sem einkum vakti athygli mína er afstöðumyndin. Þarna er hún  sérstaklega góð hvort sem litið er til grunmyndar eða húsahæða.  Inngangurinn er gerður sýnilegur með því að draga húshliðina aðeins inn og setja yfir myndarlegt skyggni sem tekur mið af þakhalla og hæð nærliggjandi húsa.

Þannig er það oft að ef afstöðumyndin er ekki í lagi er ekkert í lagi. Og hinsvegar að ef afstöðumynd er í lagi þá er flest annað í lagi auk þess sem hún gefur arkitektinum meira svigrúm og frelsi til þess að láta gamminn geysa.

Afstöðumyndir fá allt of litla umfjöllun miðað við mikilvægi þeirra.

Sagt er að þegar arkitekt teiknar sýningarskála á heimssýningu sé meginverkefnið að skera sig úr fjöldanum. Hinsvegar, þegar arkitekt hannar inn í gamla góða borgarhluta þá sé meginverkefnið að hverfa inn í heildarmyndina þannig að áreitið sé sem minnst og að staðarandinn sé styrktur og fái notið sín.

Hér hefur arkitektunum tekist að fella húsið inn í staðarandann hvað afstöðu, húsahæðir og form götumyndanna snertir. En þegar kemur að efnisvali og formmáli næst kirkjunni lætur hann gamminn geysa og sjálfsmiðun listamannsins  tekur öll völd.

Skyggni yfir aðalinngangi er snilldarlega formað með sama þakhalla og nærliggjandi hús. Efnisvalið er hinsvegar fengið einhversstaðar annarsstaðar frá.  Sama á við um formmál byggingarinnar sem snýr að kirkjunni.

Þetta er athyglisvert og skemmtilegt en líka umhugsunarvert.

Byggingin er byggð samkvæmt verðlaunatillögu Carmen Izquierdo arkitektkontor í samkeppni um bygginguna.

Bent er á þessa slóð:

http://www.izquierdo.se/

Inngangurinn er dreginn nokkra metra inn frá aðalgöngulínu götunnar .(Kirkjugötunnar). Skyggnið er myndarlegt með sama þakhalla og nærliggjandi hús og því í samræmi við umhverfið.  Efnisval er aðflutt.

Sá hluti byggingarinnar sem veitir að gömlu dómkirkjunni er ekki í samræmi eða samhljómi við byggingarnar í grenndinni. Þá skiptir ekki máli hvort horft er á formmál eða efnisval.

Grunnmynd götuhæðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Edda Ívarsdóttir

    Þar sem ég bý í Lundi þá hef ég farið og skoðað húsið. Ég verð að segja að mér finnst það mjög vel heppnað og glugginn sem snýr út að dómkirkjunni speglar turnana á skemmtilegan hátt þannig að líkt er að húsin kallist á. Byggingin er líka mjög vel heppnuð að innan. Eini gallinn sem ég hef tekið eftir er bakhliðin sem liggur við fjölfarna bakgötu. Þar hefði mátt huga að lífinu við götuna í stað þess að hafa tilbreytingarsnauðan vegg.

    Frábært blogg

  • Eg takka frabaert blogg sem hysir einu faglegu umfjöllun um arkitektur a Islandi. Uppbyggilegt vaeri samt ad fa meiri umfjöllun islenskan veruleika!!!. En sennilega er tad of vidkvaemt fyrir starfandi arkitekt ad gera tad taepitungulaust.

  • Jóhannes Einarsson

    Það má kannski benda á að gluggar safnaðarsalarins skapa mikla nálægð við gömlu dómkirkjuna. Sennilega urðu þessi gæði til við vinnslu afstöðu-og grunnmyndar?

  • Bjorn Helgason

    Athyglisvert sjonarmid med efnisvalid. Thad ma alygta ad med ihaldssomu og hefdbundnu efnisvalid magi leyfa ser meira frelsi i forminu og ofugt. Abendingin um mikilvaegi afstodumyndarinnar er timabaer. Offtast er efnisval og litir meira raeddir en afstodumyndin.

  • Þú getur kannski í framhaldinu svarað spurningunni um hvort séra Jón á Hólum hafi verið vígður til biskups í grafhvelfingu dómkirkjunnar eða í kirkjunni á næsta bæ, Dalby.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn